Title
stringlengths
15
17
Keywords
stringlengths
3
181
Summary
stringlengths
74
3.53k
Text
stringlengths
125
8.04k
Mál nr. 98/2001
Kærumál Kæruheimild Vitni Meðdómsmaður
Með vísan til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 kærði H úrskurð héraðsdóms þar sem heimilað var að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum mönnum í tengslum við áfrýjun F á dómi héraðsdóms í máli, sem H höfðaði gegn F. Var ekki fallist á það með F að skýra bæri kæruheimild b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 svo þröngt, sem hann hélt fram. Kröfu F um frávísun málsins frá Hæstarétti var því hafnað. Krafa H um að hafnað yrði kröfu F um skýrslutökurnar var á því byggð að þar væri um að ræða gögn, sem hinn sérfróði héraðsdómur gæti ekki tekið afstöðu til áður en málið kæmi fyrir Hæstarétt og þetta bryti gegn rétti H til að um málið væri dæmt af sérfróðum mönnum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Þessum sjónarmiðum H var hafnað, þar sem það væri meginregla laga nr. 91/1991 að einn dómari dæmdi mál, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og aðilar hefðu ekki forræði á því hvort meðdómsmenn væru kvaddir til starfa. Þá var með vísan til 76. gr. laga nr. 91/1991 ekki á það fallist með H að fyrri afstaða F um þörf á frekari sönnunarfærslu hefði falið í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins og ekki var það heldur talið ráða úrslitum um heimild F til umræddrar gagnaöflunar þótt hann hefði átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til hana. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2001, þar sem heimilað var að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum mönnum í tengslum við áfrýjun varnaraðila á dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2000 í máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að umbeðnar skýrslur verði teknar. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar. I. Varnaraðili styður aðalkröfu sína þeim rökum að kæruheimild í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 eigi hér ekki við. Með ákvæðinu sé veitt heimild til að kæra úrskurði, sem lúti að framkvæmd við töku skýrslna af aðilum og vitnum, en ekki hvort skýrslugjöf eigi að fara fram. Þessi niðurstaða verði meðal annars leidd af samanburði við kæruheimildir í eldri lögum, svo og af e. lið og f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt síðastnefndu ákvæðunum sé aðeins gert ráð fyrir að synjun um heimild til að afla sönnunargagna verði kærð, en ekki úrskurðir þar sem fallist sé á beiðni um öflun slíkra gagna. Þar eð kæruheimild, sem vísað er til, eigi hér ekki við og ekki sé annarri til að dreifa, beri að vísa málinu frá Hæstarétti. Samkvæmt e. lið áðurnefndrar lagagreinar sætir synjun héraðsdómara um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi kæru til Hæstaréttar. Ákvæðið varðar úrlausnir héraðsdómara samkvæmt 3. mgr. 73. gr. sömu laga, en XI. kafli laganna, sem ákvæðið er í, hefur að geyma reglur um öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið. Um öflun gagna í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi er sérstaklega fjallað í 1. mgr. 76. gr. laganna, en samkvæmt henni skal þá beitt eftir því sem við getur átt ákvæðum 75. gr. sömu laga. Þar er hins vegar ekki vísað til 73. gr. laganna. Að þessu gættu kemur e. liður 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 heldur ekki til sérstakra álita við úrlausn um það hvort kæruheimild í málinu teljist vera fyrir hendi samkvæmt b. lið sömu málsgreinar. Um skýringu á síðastnefndri kæruheimild verður að öðru leyti litið til ákvæðis c. liðar sömu greinar, sem varðar matsgerðir. Eru þessar tvær kæruheimildir settar fram með sama hætti í lögunum, en um þá síðarnefndu hefur áður verið dæmt að innan hennar rúmist kæra á úrskurði um að dómkvaðning matsmanns í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi skuli fara fram, sbr. dóm Hæstaréttar 20. febrúar 2001 í máli nr. 44/2001. Vísun varnaraðila til f. liðar 1. mgr. 143. gr. sömu laga er haldlaus. Að gættu öllu því, sem að framan er rakið, verður ekki fallist á með varnaraðila að skýra beri kæruheimild b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 svo þröngt, sem hann heldur fram. Verður aðalkröfu hans hafnað. II. Sóknaraðili styður kröfu sína þeim rökum að dómur í máli hennar gegn varnaraðila hafi verið kveðinn upp af fjölskipuðum dómi, sbr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Annar meðdómsmaðurinn í því sé læknir. Varnaraðili hafi nú áfrýjað dóminum til Hæstaréttar og með beiðni sinni stefni hann sýnilega að því að leggja fram endurrit af nýjum skýrslutökum um ýmis sérfræðileg atriði. Þar sé um að ræða gögn, sem hinn sérfróði héraðsdómur geti ekki tekið afstöðu til áður en málið komi fyrir Hæstarétt. Telur sóknaraðili að hann eigi rétt til að um mál hans sé dæmt af sérfróðum mönnum líkt og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 geri ráð fyrir. Þurfi hann ekki að una því að sérfræðilegs álits sé aflað með þessum hætti eftir að sérfróður héraðsdómur hafi dæmt málið. Jafnframt þessu reisir sóknaraðili kröfu sína á því að varnaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni við aðalmeðferð málsins og ráðstöfun sakarefnisins, sem í henni hafi falist, en þar hafi báðir aðilar lýst yfir að þeir tækju framlagðar matsgerðir og skjöl sem staðfest væru og teldu ekki þörf á frekari skýrslutökum. Meginregla laga nr. 91/1991 er sú að einn dómari dæmir mál, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Undantekning frá aðalreglunni felst í 2. mgr. og 3. mgr. sömu greinar, þar sem héraðsdómara er að tilteknum skilyrðum uppfylltum veitt heimild til að kveðja meðdómsmenn til setu í dómi með sér. Ákvörðun um það er tekin af dómara og hafa málsaðilar ekki forræði á því hvort meðdómsmenn verði kvaddir til starfa. Skiptir afstaða þeirra til þess ekki máli. Er því haldlaus sú viðbára sóknaraðila að hún eigi rétt til þess að um mál hennar sé dæmt af sérfróðum mönnum. Í yfirlýsingu málsaðila fyrir héraðsdómi, sem sóknaraðili vísar til, kemur fram það mat þeirra að tiltekin sönnunarfærsla sé óþörf. Samkvæmt 76. gr. laga nr. 91/1991 er málsaðilum heimilt að afla frekari gagna í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi. Varnaraðili telur nú þörf á sönnunarfærslu, sem hann taldi áður óþarfa. Verður ekki fallist á að fyrri afstaða hans í þessum efnum hafi falið í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins, svo sem sóknaraðili heldur fram. Ræður heldur ekki úrslitum um heimild hans til að afla gagna nú þótt hann hafi átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til um að skýrslur yrðu teknar af umræddum mönnum. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdómara verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 96/2001
Kærumál Fjárnám Fyrning
Beiðni A um aðför hjá Ö barst sýslumanni 5. júní 2000 og var því komin fram fyrir lok 10 ára fyrningartíma kröfu A. Var í framhaldi af þessu tvívegis leitast við að gera fjárnám fyrir kröfunni fyrir lok fyrningartíma hennar. Það tókst ekki vegna athafnaleysis Ö, en af gögnum málsins þótti þó sýnt að honum átti að minnsta kosti að vera kunnugt um fyrstu kvaðningu sýslumanns. Ö mætti á hinn bóginn fyrir sýslumanni 14. september 2000 í tilefni af þriðju kvaðningunni og var þá loks unnt að taka fyrir beiðni A um fjárnám. Voru þá í mesta lagi liðnir 17 dagar frá lokum fyrningartíma. Ekki þótti unnt að meta atvik á annan veg en svo að kröfu A hefði verið haldið fram án ástæðulauss dráttar eftir að beiðni um aðför til að fullnægja henni hafði borist sýslumanni, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Var samkvæmt þessu staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna bæri kröfu Ö þess efnis að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaður gerði hjá honum 6. október 2000 að kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 6. október 2000 að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað. I. Með dómi bæjarþings Reykjavíkur 15. júní 1990 var sóknaraðila gert ásamt öðrum manni að greiða varnaraðila 491.016,50 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 3. október 1989 til greiðsludags og 61.800 krónur í málskostnað. Bú sóknaraðila mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta um þær mundir. Um skiptin liggja ekki fyrir frekari gögn í málinu en skrá um lýstar almennar kröfur í þrotabúið. Af henni verður ráðið að varnaraðili lýsti 20. ágúst 1990 kröfu að fjárhæð alls 1.401.062 krónur, en ekki hafi verið tekin afstaða til hennar við gjaldþrotaskiptin fremur en annarra almennra krafna, þar sem þrotabúið hafi verið eignalaust. Ekki hefur komið fram hvenær gjaldþrotaskiptunum lauk. Varnaraðili fékk greiðsluáskorun vegna fyrrgreindrar kröfu sinnar birta fyrir sóknaraðila 5. maí 2000. Fór hann þess á leit við sýslumann með beiðni 1. júní sama árs að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila til fullnustu kröfunni. Barst beiðnin sýslumanninum í Hafnarfirði 5. sama mánaðar. Ráðið verður af framkomnum gögnum að fulltrúi sýslumanns hafi 6. júlí 2000 gert tilkynningu um að beiðni varnaraðila yrði tekin fyrir 26. sama mánaðar á nánar tilgreindum tíma, svo og að tilkynningin hafi verið birt af stefnuvotti á heimili sóknaraðila 11. júlí 2000 fyrir nafngreindri konu, sem í birtingarvottorði var sögð vera eiginkona hans. Í kvaðningu, sem sýslumaður gaf út til sóknaraðila 14. ágúst 2000, var vísað til þess að hann hefði ekki mætt þegar taka átti beiðni varnaraðila fyrir og væri sóknaraðili því aftur kvaddur til að mæta á skrifstofu sýslumanns af því tilefni 24. sama mánaðar. Síðastgreindan dag sendi sýslumaður beiðni til lögreglunnar í umdæmi sínu um að handtaka sóknaraðila og færa hann til fjárnámsgerðar 13. september 2000, enda hefði hann ekki sinnt ítrekuðum boðunum til hennar. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns var beiðni varnaraðila um fjárnám tekin fyrir 14. september 2000 og mætti sóknaraðili ásamt lögmanni, svo og lögmaður af hálfu varnaraðila. Gerðinni var þá frestað og hún tekin fyrir á ný 6. október sama árs. Við það tækifæri voru færð fram mótmæli sóknaraðila gegn framgangi gerðarinnar á þeim grunni að krafa varnaraðila væri fyrnd. Fulltrúi sýslumanns hafnaði þessum mótmælum, en gerðinni var síðan lokið án árangurs að fram kominni yfirlýsingu um eignaleysi sóknaraðila. Sóknaraðili leitaði dómsúrlausnar um gildi fjárnámsins með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 24. október 2000. II. Í málinu liggur sem áður segir fyrir að varnaraðili lýsti 20. ágúst 1990 kröfu í þrotabú sóknaraðila. Hefur ekki verið vefengt að þar hafi verið lýst kröfu varnaraðila á grundvelli fyrrgreinds dóms frá 15. júní 1990, svo og að ekkert hafi fengist greitt upp í hana við gjaldþrotaskiptin. Samkvæmt 133. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978, sem þá voru í gildi, bar sóknaraðili þannig ábyrgð á kröfu varnaraðila í tíu ár frá þeim degi, sem gjaldþrotaskiptunum lauk. Ekki hefur komið fram í málinu hver sá dagur var. Með því að framlögð skrá um lýstar kröfur í þrotabúið var dagsett 27. ágúst 1990 er þó ljóst að skiptunum var ekki lokið fyrir þann tíma. Beiðni varnaraðila um aðför hjá sóknaraðila barst sýslumanninum í Hafnarfirði 5. júní 2000. Hún var því komin fram fyrir lok fyrningartíma kröfu varnaraðila. Boðun sýslumanns til fjárnáms var birt 11. júlí 2000 fyrir heimilismanni sóknaraðila, en með henni var hann kvaddur til að mæta þegar beiðni varnaraðila yrði tekin fyrir 26. sama mánaðar. Ljóst er af áðurnefndum gögnum málsins að sóknaraðili lét það hjá líða, svo og að mæta samkvæmt annarri kvaðningu sýslumanns 14. ágúst 2000. Með þessu var tvívegis leitast við að gera fjárnám fyrir kröfu varnaraðila fyrir lok fyrningartíma hennar. Það tókst ekki vegna athafnaleysis sóknaraðila, en af gögnum málsins er þó sýnt að honum átti að minnsta kosti að vera kunnugt um fyrstu kvaðninguna. Sóknaraðili mætti á hinn bóginn fyrir sýslumanni 14. september 2000 í tilefni af þriðju kvaðningunni og var þá loks unnt að taka fyrir beiðni varnaraðila um fjárnám. Voru þá í mesta lagi liðnir 17 dagar frá lokum fyrningartíma. Þegar alls þessa er gætt er ekki unnt að meta atvik á annan veg en svo að kröfu varnaraðila hafi verið haldið fram án ástæðulauss dráttar eftir að beiðni um aðför til að fullnægja henni hafði borist sýslumanni, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Örn Þór Úlfsson, greiði varnaraðila, Angantý Vilhjálmssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 99/2001
Kærumál Útburður Húsaleigusamningur
F ehf. stóð í skuld við leigusala, S ehf. og B ehf., vegna gjaldfallinnar leigu fyrir júlí og ágúst 2000 þegar þeir beindu til hans greiðsluáskorun 15. ágúst á því ári. Greiðsla barst ekki leigusölum innan þess sjö daga frests, sem þeir veittu þar F ehf. til að gera skil, og lýstu þeir yfir riftun samningsins með símskeyti 23. sama mánaðar. Þetta var leigusölunum heimilt samkvæmt ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Greiðsla F ehf. á hluta skuldarinnar barst ekki leigusölunum fyrr en eftir að samningnum hafði verið rift og var í því ljósi engu talin geta breytt. F ehf. vísaði ekki til annarrar heimildar en leigumála síns við S ehf. og B ehf. til að hafast við í húsnæði Ö. Með því að sú heimild var fallin niður vegna riftunar leigusamningsins var Ö rétt að fá F ehf. borinn úr húsnæðinu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2001, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sér yrði veitt heimild til að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð úr húsnæði að Bíldshöfða 12 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til útburðargerðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað. I. Samkvæmt gögnum málsins gerðu Skorri ehf. og Bílabatteríið ehf. samning 7. janúar 1998 við KGW ehf. um að síðastnefnda félagið tæki á leigu af því fyrstnefnda húsnæði að Bíldshöfða 12, um 550 m2 að stærð, til að reka þar bílasölu og skylda starfsemi. Tók KGW ehf. um leið á leigu af Bílabatteríinu ehf. búnað til sama reksturs. Skyldi mánaðarleg leiga, samtals 250.000 krónur, greidd fyrir fram. Leigu fyrir húsnæðið bar að greiða 1. hvers mánaðar, en fyrir búnað 15. hvers mánaðar. Varnaraðili, sem er þinglýstur eigandi húsnæðisins að Bíldshöfða 12, ritaði undir samninginn af hálfu leigusala, en fram er komið í málinu að hann sé fyrirsvarsmaður beggja félaganna, sem hér um ræðir. Sóknaraðili kveðst hafa keypt 23. júlí 1999 af KGW ehf. reksturinn, sem húsnæðið að Bíldshöfða 12 var nýtt undir. Hafi verið „fullt samkomulag“ um að sóknaraðili „kæmi inn í húsnæðið frá 1. ágúst 1999“. Því til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að saminn hafi verið skriflegur leigusamningur milli hans og áðurnefndra leigusala, sem þó hafi ekki verið undirritaður vegna atvika, sem vörðuðu varnaraðila. Allt að einu hafi þeir, sem áttu hlut að máli, farið eftir þeim samningi, þar á meðal leigusalar, sem hafi tekið við leigu úr hendi sóknaraðila og stílað á hann kvittanir fyrir hana. Með símskeyti leigusalanna til sóknaraðila 2. ágúst 2000 var leigusamningi um Bíldshöfða 12 sagt upp með sex mánaða fyrirvara. Var þar lagt fyrir sóknaraðila að ljúka við að rýma húsnæðið 1. mars 2001. Leigusalarnir beindu öðru símskeyti til sóknaraðila 15. ágúst 2000, þar sem skorað var á hann að gera innan sjö daga skil á gjaldfallinni leigu fyrir júlí og ágúst á því ári, alls 309.085 krónum auk 35.000 króna vegna innheimtulauna lögmanns. Var tekið fram að leigusamningi yrði rift án frekari fyrirvara ef sóknaraðili yrði ekki við þessari áskorun. Við henni mun sóknaraðili ekki hafa brugðist og tilkynntu leigusalar með símskeyti til hans 23. sama mánaðar að leigusamningnum væri rift. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa greitt leiguna daginn eftir, en greiðslan hafi þó ekki verið fullnægjandi, þar sem hún hafi ekki náð til innheimtulaunanna, sem um ræddi í greiðsluáskorun leigusalanna. Skorri ehf. leitaði 20. september 2000 eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til að fá sóknaraðila borinn úr húsnæðinu að Bíldshöfða 12. Sú heimild var veitt með úrskurði 22. nóvember 2000. Úrskurðinum var hrundið með dómi Hæstaréttar 13. desember sama árs í máli nr. 440/2000 með því að Skorri ehf., sem ekki var eigandi húsnæðisins, hefði ekki sýnt fram á heimild sína til að fá leigutakann borinn úr því. Leitaði þá varnaraðili eftir heimild til að fá sóknaraðila borinn úr húsnæðinu með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2000. Var fallist á þá beiðni með hinum kærða úrskurði. II. Óumdeilt er í málinu að sóknaraðili stóð í skuld við leigusala, Skorra ehf. og Bílabatteríið ehf., vegna gjaldfallinnar leigu fyrir júlí og ágúst 2000 þegar þeir beindu til hans fyrrnefndri greiðsluáskorun 15. ágúst á því ári. Greiðsla barst ekki leigusölum innan þess sjö daga frests, sem þeir veittu þar sóknaraðila til að gera skil. Þeir lýstu því yfir riftun samningsins eins og áður greinir með símskeyti 23. sama mánaðar. Þetta var leigusölunum heimilt samkvæmt ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Greiðsla sóknaraðila á hluta skuldarinnar barst ekki leigusölunum fyrr en eftir að samningnum hafði verið rift. Í því ljósi getur hún engu breytt. Skipta hér heldur engu þau atvik, sem sóknaraðili hefur vísað öðrum þræði til, að forsvarsmaður hans hafi verið erlendis þegar greiðsluáskorun kom fram og allt til þess að frestur samkvæmt henni var á enda. Sóknaraðili hefur ekki vísað til annarrar heimildar en leigumála sinn við Skorra ehf. og Bílabatteríið ehf. til að hafast við í húsnæði varnaraðila. Með því að sú heimild er samkvæmt framansögðu fallin niður vegna riftunar leigusamningsins er varnaraðila rétt að fá sóknaraðila borinn úr húsnæðinu. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Frískir menn ehf., greiði varnaraðila, Erni Johnson, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 94/2001
Kærumál Gagnsök Frávísunarúrskurður staðfestur
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um frávísun gagnsakarmáls frá héraðsdómi þar sem gagnsök hefði verið höfðuð of seint samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og eigi væru uppfyllt skilyrði 3. mgr. 28. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2001, þar sem vísað var frá dómi gagnsök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila á hendur sér. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun gagnsakarinnar verði hrundið. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Hótel Reykjavík ehf., greiði varnaraðila, Bertli ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað. Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu gagnstefnda að loknum munn­legum flutningi 15. febrúar sl., er upphaflega höfðað með stefnu, birtri 16. maí sl. en málið var þingfest 25. maí sl. Gagnsök var höfðuð með framlagningu gagn­stefnu og skjala, er henni fylgdu, í þinghaldi 10. janúar sl. Stefnandi í aðalsök og gagnstefndi er Bertill ehf., kt. 630192-2509, Knarrarvogi 4, Reykjavík. Stefndi í aðalsök og gagnstefnandi er Hótel Reykjavík ehf., kt. 560791-1279, Rauð­arárstíg 37, Reykjavík. Í aðalsök eru kröfur stefnanda að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.452.134 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Í aðalsök krefst stefndi aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Í báð­um tilvikum er þess krafist að stefndi megi skuldajafna við dómkröfur stefnanda í sam­ræmi við ítrustu kröfur sínar. Þá krefst hann málskostnaðar. Í gagnsök er þess krafist að gagnstefndi greiði gagnstefnanda 3.219.723 krónur, "allt að frádregnum 901.102 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga" frá 10. janúar 2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að gagnstefndi verði dæmdur til að gefa út afsal fyrir fasteigninni Rauðarárstíg 39 í Reykjavík. Loks er krafist máls­kostn­aðar. Gagnstefndi krefst þess aðallega að gagnsökinni verði vísað frá dómi og sér úr­skurð­aður málskostnaður og er þessi þáttur málsins hér til úrskurðar. Í þessum þætti málsins krefst gagnstefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hrund­ið og sér úrskurðaður málskostnaður. Með kaupsamningi 18. október 1999 keypti stefndi fasteignina að Rauðarárstíg 39 í Reykjavík af stefnanda. Í aðalsök krefur stefnandi stefnda um greiðslu eftirstöðva kaup­verðs samkvæmt samningi aðila. Byggir stefnandi kröfu sína á ákvæðum samn­ings­ins. Stefndi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að stefnandi hafi ekki tekið tillit til allra greiðslna, sem stefndi hafi greitt. Þá hafi ekki verið lokið við tilskyldar úrbætur varðandi eldvarnir fasteignarinnar og stefnandi hafi ekki afhent bygg­ing­ar­nefnd­ar­teikn­ingar. Loks krefst stefndi skaðabóta að álitum vegna fjártjóns, er hann telur stefn­anda hafa valdið sér með framangreindri vanrækslu. Í gagnsök byggir gagnstefnandi á því að gagnstefndi sé bundinn við samkomulag frá 29. júní 1995 á milli gagnstefnda og Gleipnis hf. um að uppfylla ákvæði bygg­ing­ar­reglugerðar um eldvarnir fasteignarinnar og kosta allar brunavarnir hennar. Gagn­stefnda beri að afhenda fasteignina í lögboðnu ástandi og loks að afhenda bygg­ing­ar­nefnd­arteikningar að nánar tilgreindum hlutum fasteignarinnar. Gagnstefnandi telur sér heimilt að höfða gagnsök með vísan til heimildar í 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. sömu greinar um frest til þess. Þegar aðalsök var höfðuð hafi verið óvíst um kostnað við úr­bætur á fasteigninni, sbr. það, er að framan segir. Þess vegna hafi ekki verið unnt að gera gagnkröfur þegar í upphafi. Matsgerð hafi auk þess ekki legið fyrir fyrr en í desem­ber sl. og fjárhæð gagnkröfu því ekki getað verið ljós fyrr en þá. Það verði því ekki metið gagnstefnanda til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfu fyrr. Gagnstefndi byggir á því að samkvæmt nefndu ákvæði einkamálalaganna hafi frestur til að hafa uppi gagnkröfu verið liðinn þegar gagnsökin var þingfest. Gagn­stefnandi haldi fram þeirri málsástæðu að hann hafi haldið eftir kaup­samn­ings­greiðslum vegna vanefnda gagnstefnda án þess að hafa tilkynnt honum um þær. Þá bendir gagnstefndi á að gagnstefnandi hafi engar kröfur haft uppi á hendur honum vegna vanefnda á kaupsamningnum fyrr en í greinargerð í aðalsök. Aðalsök málsins var þingfest 25. maí 2000. Áður hafði stefnandi sent stefnda inn­heimtubréf 30. mars sama ár þar sem krafist var greiðslu skuldar vegna kaup­samn­ingsins um Rauðarárstíg 39. Stefndi lagði fram greinargerð sína 29. júní sl. Í septem­ber sl. var tvisvar þingað í málinu og þá lögð fram gögn. Í þinghaldi 19. október óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanns og sætti það ekki andmælum stefn­anda. Matsgerð var lögð fram 10. janúar sl. um leið og gagnsök var þingfest, eins og áður sagði. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verð­ur að höfða gagnsök innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar. Í 3. mgr. sömu greinar segir að gagnkröfu megi hafa uppi síðar ef það er gert fyrir aðalmeðferð og það verði ekki metið varnaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfuna í tæka tíð. Í stefnu er því haldið fram að gagnstefnandi hafi innt síðustu greiðslu sína af hendi 7. janúar 2000. Miðað við málatilbúnað gagnstefnanda hefði hann því í síðasta lagi þá átt að gera sér ljóst hvort hann teldi sig eiga gagnkröfur á hendur gagnstefnda. Þrátt fyrir þetta er það fyrst í október sl. sem hann óskar eftir dómkvaðningu mats­manns, en hann byggir gagnkröfur sínar á matsgerðinni. Það er því niðurstaða dóms­ins að gagnstefnandi hefði getað gert gagnkröfu í tæka tíð og verði að meta honum það til vanrækslu að hafa ekki gert það. Með vísan til þessa og framangreinds ákvæð­is einkamálalaganna er gagnsök höfðuð of seint og ber að verða við kröfu gagnstefnda og vísa henni frá dómi. Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð. Gagnsök er vísað frá dómi en ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.
Mál nr. 84/2001
Kærumál Lögbann
J og S kröfðust þess að lagt yrði fyrir sýslumann að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum sveitarfélagsins M við gerð göngustígs um lóð varnaraðila með bökkum Varmár á svæði, sem J og S höfðu sjálf lýst yfir að þau hlíttu umferð almennings um, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Af hálfu M var gert ráð fyrir að göngustígurinn yrði 80 til 120 cm breiður og gerður úr trjáspæni og malarefni. Var samkvæmt þessu talið að vandkvæðalítið yrði að afmá stíginn og ummerki eftir hann ef komist yrði að þeirri niðurstöðu í dómsmáli milli aðilanna að M væri óheimilt að leggja hann. J og S voru því ekki talin hafa gert sennilegt að réttindi þeirra myndu fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum þótt dóms væri beðið um ágreining þeirra og M. Var því staðfestur úrskurður héraðsdóms um höfnun lögbannskröfunnar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila við gerð göngustígs meðfram Varmá á lóð sóknaraðila að Reykjamel 11 í Mosfellsbæ. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, svo sem þeim lögum var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við yfirvofandi framkvæmdum varnaraðila á lóð sóknaraðila og honum verði gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður úr hendi sóknaraðila. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að málið var upphaflega tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning 6. desember 2000. Samkvæmt endurriti úr þingbók var málið tekið upp að nýju 2. febrúar 2001, það munnlega flutt og síðan tekið til úrskurðar. Gekk hinn kærði úrskurður sem fyrr segir 7. sama mánaðar. Eins og um getur í hinum kærða úrskurði gerir varnaraðili ráð fyrir að göngustígurinn um lóð sóknaraðila, sem um ræðir í málinu, verði um 80 til 120 cm breiður og gerður úr trjáspæni og malarefni. Af gögnum málsins verður að ætla að fyrirhugaður stígur yrði lagður um lóð sóknaraðila með bökkum Varmár á svæði, sem þau hafa sjálf lýst yfir að þau hlíti umferð almennings um, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Verður samkvæmt þessu að telja að vandkvæðalítið yrði að afmá stíginn og ummerki eftir hann ef komist yrði að þeirri niðurstöðu í dómsmáli milli aðilanna að varnaraðila sé óheimilt að leggja hann. Samkvæmt því verður fallist á með héraðsdómara að sóknaraðilar hafi ekki gert sennilegt að réttindi þeirra muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum þótt dóms sé beðið um ágreining þeirra og varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um annað en málskostnað. Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 462/2000
Kærumál Frávísunarúrskurður felldur úr gildi Res Judicata Kröfugerð Stefna
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu Þ þess efnis að íslenska ríkinu yrði gert að draga til baka uppsögn hennar úr starfi á árinu 1992. Fyrir lá að Þ hafði í tveimur fyrri málum vegna uppsagnarinnar krafist greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur. Taldi Hæstiréttur að þótt öll málin þrjú ættu sameiginlega þann grundvöll að Þ teldi uppsögnina hafa verið ólögmæta, fengi það því ekki breytt að í þessu máli væri ekki í skilningi fyrri málsliðar 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að ræða sama sakarefni og í fyrri málunum. Málinu yrði því ekki vísað frá dómi á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis. Þ, sem flutti málið sjálf, var ekki lögfræðingur að mennt og varð ekki ráðið af gögnum málsins að henni hefði verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Kröfu um frávísun vegna annmarka á kröfugerð Þ var því einnig hafnað. Þá var eigi heldur fallist á það með íslenska ríkinu að vísa bæri málinu frá dómi með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Frávísunarúrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Líta verður svo á að sóknaraðili krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað. I. Í héraðsdómsstefnu greinir sóknaraðili frá þeim atvikum að málinu að hún hafi tekið til starfa á rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins á árinu 1983 og verið þar lausráðin við vinnu með nánar tilgreindum hléum í tengslum við nám þar til í lok árs 1987, þegar hún hafi orðið fastráðin. Á árunum 1988 og 1989 hafi aftur orðið hlé á störfum hennar vegna áframhaldandi náms, en í byrjun árs 1990 hafi hún tekið við starfi deildarstjóra. Á árinu 1991 hafi félagsmenn í stéttarfélagi sóknaraðila tekið sig saman um að láta sig vanta einn dag frá vinnu sökum veikinda, en þetta hafi verið liður í mótmælum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vegna setningar bráðabirgðalaga varðandi launakjör þeirra. Þetta hafi sóknaraðili látið hjá líða, en tveir nánar tilgreindir samstarfsmenn hennar hafi orðið varir við að hún væri við vinnu umræddan dag. Eftir það hafi yfirmenn sóknaraðila hafið „bréfaskipti við hana og þótt hún hagaði störfum sínum og samskiptum við yfirmenn og samstarfsfólk samkvæmt bestu vitund var henni sagt upp fyrirvaralaust með bréfi dags. 25. september 1992.” Í málinu krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði dæmdur „til að draga uppsagnarbréf til baka”, en með tilvitnuðum orðum er vísað til bréfsins, sem hér að framan var getið. II. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili tvívegis áður höfðað mál í tilefni af fyrrnefndri uppsögn 25. september 1992 á starfi hennar hjá Hollustuvernd ríkisins. Fyrra dómsmálið var höfðað 3. nóvember 1993 á hendur ríkissjóði og krafðist sóknaraðili þess að hann yrði dæmdur til að greiða sér 960.000 krónur í skaðabætur vegna uppsagnarinnar, sem hún taldi í raun hafa verið ólögmæta brottvikningu úr starfi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1994 var stefndi í málinu sýknaður af kröfu sóknaraðila. Þeim dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Síðara málið höfðaði sóknaraðili 19. apríl 1999 gegn Hollustuvernd ríkisins og krafðist 45.540.720 króna í skaðabætur vegna sömu uppsagnar úr starfi. Stefndi í málinu krafðist með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að því yrði vísað frá dómi. Var fallist á þá kröfu í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 1999, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 26. sama mánaðar. Krafa sóknaraðila í þessu máli er sem fyrr segir um að varnaraðila verði gert að draga til baka umrædda uppsögn. Kröfur hennar í fyrrnefndum dómsmálum voru hins vegar um greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur. Þótt öll málin þrjú eigi sameiginlega þann grundvöll að sóknaraðili telji uppsögnina hafa verið ólögmæta, fær það því ekki breytt að þegar vegna kröfugerðar hennar í málinu nú er ekki í skilningi fyrri málsliðar 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að ræða sama sakarefni og í fyrri málunum tveimur. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis. III. Í málinu leitar sóknaraðili sem fyrr segir dóms um skyldu varnaraðila til að draga til baka bréf 25. september 1992 um uppsögn hennar úr starfi. Þótt sóknaraðili hafi kosið að orða kröfu sína á þennan hátt, verður ekki annað séð en að krafan lúti í reynd að því að fá uppsögnina fellda úr gildi. Sóknaraðili, sem sækir málið sjálf, er ekki lögfræðingur að mennt. Verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort henni hafi verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Eru því ekki efni að til að fallast á með varnaraðila að vísa verði málinu frá dómi vegna annmarka á kröfugerð sóknaraðila. Héraðsdómsstefna í málinu fullnægir að efni til þeim skilyrðum, sem greinir í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Er því ekki ástæða til að vísa málinu frá dómi vegna galla á stefnunni, svo sem varnaraðili hefur haldið fram. Samkvæmt framansögðu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti þess á báðum dómstigum. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 8/2001
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 461/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hjörtur Torfason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. janúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 444/2000
Kærumál Málskostnaður
R höfðaði mál til heimtu skuldar á hendur B að fjárhæð 1.790.464 krónur. Við aðalmeðferð málsins í héraði lögðu aðilar fram dómsátt þar sem kveðið var á um að B skyldi greiða R 1.100.000 krónur en krafa R um málskostnað lögð í úrskurð dómara. Var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar. Talið var að fyrri málsliður 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ætti við um báða aðila en til hins yrði þó að líta að B féllst ekki á greiðsluskyldu sína fyrr en undir rekstri málsins. Var honum því gert að greiða R hluta málskostnaðar fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2000, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli, sem lauk að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði úr hendi varnaraðila, sem verði einnig gert að greiða kærumálskostnað. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Samkvæmt gögnum málsins tók varnaraðili að sér um vorið 1997 að reisa leikskóla fyrir Hafnarfjarðarbæ við Úthlíð í Hafnarfirði. Með samningi við varnaraðila 18. júní sama árs gerðist sóknaraðili undirverktaki og tók að sér tiltekna þætti verksins, sem í meginatriðum lutu að uppsteypu hússins, þaki, plötuklæðningu, gluggum, gleri og hurðum. Skyldi unnið að þessu eftir verkáætlun varnaraðila fyrir heildarverkið. Bar varnaraðila að greiða sóknaraðila samkvæmt samningnum alls 6.712.700 krónur gegn framvísun reikninga á hálfsmánaðar fresti. Sóknaraðili kveðst hafa byrjað að vinna að verkinu í júlí 1997 og lokið sínum þáttum í janúar 1998. Hann hafi gert varnaraðila ellefu reikninga á tímabilinu frá 21. júlí 1997 til 1. mars 1998 fyrir samtals 13.647.834 krónum. Af þeirri fjárhæð hafi 8.325.415 krónur verið vegna samningsverka, en afgangurinn vegna aukaverka. Varnaraðili hafi greitt þrjá fyrstu reikningana. Reikninga á tímabilinu frá 1. september til 24. nóvember 1997, sjö talsins, hafi varnaraðili hins vegar ekki greitt að fullu, heldur dregið af fjárhæð þeirra samtals 847.223 krónur. Lokareikning frá 1. mars 1998, að fjárhæð 943.241 króna, hafi varnaraðili að engu leyti greitt. Sóknaraðili hafi þannig átt hjá varnaraðila ógreiddar samtals 1.790.464 krónur. Höfðaði sóknaraðili málið 23. maí 2000 til heimtu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum frá því að mánuður var liðinn frá gjalddaga einstakra reikninga hans á hendur varnaraðila. Í greinargerð varnaraðila, sem var lögð fram á dómþingi í héraði 28. júní 2000, var aðallega krafist sýknu af kröfu sóknaraðila, en til vara að hún yrði lækkuð. Voru þessar kröfur reistar á fjölmörgum atriðum varðandi framkvæmd verksins, sem varnaraðili reifaði í greinargerð sinni. Þegar málið var tekið fyrir til aðalmeðferðar í héraði 1. desember sl. lögðu aðilarnir fram dómsátt, þar sem kveðið var á um að varnaraðili skyldi greiða sóknaraðila 1.100.000 krónur hinn 6. sama mánaðar, en krafa sóknaraðila um málskostnað væri lögð í úrskurð dómara. Gekk hinn kærði úrskurður um þetta eina ágreiningsefni, sem stóð eftir að gerðri dómsáttinni. Í málinu liggur ekki fyrir á hvaða forsendum dómsátt aðilanna var reist. Af efni hennar er þó sýnt að hvorki hefur sóknaraðili fengið framgengt stefnukröfu sinni í heild né hefur varnaraðili haldið til streitu aðalkröfu sinni um sýknu. Þegar litið er til þeirrar fjárhæðar, sem varnaraðili féllst með sáttinni á að greiða, í samanburði við stefnukröfu sóknaraðila að viðbættum umkröfðum dráttarvöxtum, er ljóst að ástatt er fyrir báðum aðilum eins og um ræðir í upphafi fyrri málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Til þess verður hins vegar að líta að varnaraðili féllst ekki á greiðsluskyldu sína fyrr en undir rekstri málsins. Verður honum því gert að greiða sóknaraðila hluta málskostnaðar fyrir héraðsdómi. Með hliðsjón af hagsmunum, sem sóknaraðili vann með dómsátt aðilanna, og framlagðri gjaldskrá lögmanns hans er málskostnaðurinn hæfilega ákveðinn 175.000 krónur. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, Byggðaverk ehf., greiði sóknaraðila, Refti ehf., 175.000 krónur í málskostnað í héraði og 40.000 krónur í kærumálskostnað. Ár 2000, mánudaginn 4. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­ness, sem háð er í dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðs­dómara kveðinn upp úrskurður um málskostnað í málinu nr. E-957/2000: Refti ehf. gegn Byggðaverki ehf. I. Málið höfðaði Karl Axelsson hrl., fyrir hönd Reftis ehf., kt. 430693-2639, Ármúla 19, Reykjavík, á hendur Byggðaverki ehf., kt. 691293-3949, Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði, til greiðslu skuldar að fjárhæð krónur 1.790.464, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987. Stefna í málinu var birt 23. maí 2000 og málið þingfest degi síðar. Málið lýtur að ágreiningi um uppgjör samkvæmt verksamningi frá árinu 1997 um uppsteypu, þakfrágang og utanhúsklæðningu leikskóla við Úthlíð í Hafnarfirði, þar sem stefndi var undirverktaki og stefnandi aðalverktaki Af hálfu stefnda tók Jón Auðunn Jónsson hdl. til varna í málinu. Í greinargerð lög­mannsins, sem lögð var fram 28. júní síðastliðinn var aðallega krafist sýknu af stefnukröfunni, en til vara að hún yrði stórlega lækkuð að mati dómsins. Jafnframt var lýst yfir skuldajöfnuði vegna gagnkrafna á hendur stefnanda að fjárhæð krónur 2.233.557 og þess getið að stefndi teldi sig einnig eiga kröfu á hendur stefnanda, að fjár­­hæð krónur 512.000, vegna kostnaðar við að bæta úr verki stefnanda og áskildi sér rétt til að sækja þær bætur í öðru dómsmáli. II. Átta þinghöld hafa áður verið háð í málinu, þar af þrjú fyrir fjölskipuðum dómi. Málinu lauk síðastliðinn föstudag með dómsátt um annað en máls­kostnaðar­kröfu stefnanda. Samkvæmt sáttinni greiðir stefndi stefnanda krónur 1.100.000. Fallist er á með stefnda að réttmætar ástæður hafi verið fyrir hendi til að taka til fullra varna í málinu, bæði með tilliti til fyrirliggjandi ágreinings um uppgjör sam­kvæmt við­komandi verksamningi og þess að stefnandi gerði ekki formlega rek að kröfu sinni á hendur stefnda fyrr en 3. janúar 2000, eða tæplega tveimur árum eftir að stefndi sendi stefnanda drög að lokaupp­gjöri þeirra í milli fyrir umræddan verkþátt, þ.e. 10. mars 1998. Lá þá fyrir að ágreiningur væri um uppgjör einstakra reikninga frá stefnanda, sem stefndi hafði ekki greitt nema að hluta frá því í september 1997. Gögn málsins bera með sér að heildarverkinu mun hafa verið lokað gagnvart verk­kaupa, Hafnarfjarðarbæ, í október 1998. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til framlagðra gagna í málinu þykir rétt að fella málskostnað niður og skal hvor aðila því bera sinn kostnað af rekstri þess, sbr. 1. ml. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. ÚRSKURÐARORÐ: Málskostnaður fellur niður. Hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Mál nr. 304/2000
Mál fellt niður fyrir Hæstarétti Málskostnaður
Mál B gegn A var fellt niður fyrir Hæstarétti að kröfu B. Féllst A á niðurfellingu málsins, en krafðist málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til meginreglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga var B dæmdur til að greiða A málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 4. ágúst 2000. Með bréfi 7. nóvember 2000 tilkynnti áfrýjandi að hann óskaði þess að málið yrði fellt niður. Af hálfu stefnda var fallist á kröfu áfrýjanda um að málið félli niður en hann gerði hins vegar kröfu um málskostnað fyrir Hæstarétti. Með bréfi 16. nóvember 2000 fór áfrýjandi þess á leit með vísan til 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að málið yrði tekið til dóms um málskostnað án sérstaks málflutnings og samþykkti stefndi það. Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 svo og 2. mgr. 164. gr. og 166. gr. þeirra laga, eins og þeim greinum var breytt með lögum nr. 38/1994, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti. Í samræmi við meginreglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga, ber að dæma áfrýjanda til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði segir. Dómsorð: Mál þetta er fellt niður. Áfrýjandi, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, greiði stefnda, Austurleið hf., 70.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Mál nr. 438/2000
Kærumál Frestur Gagnaöflun Aðalmeðferð
Fram er komin krafa ákæruvaldsins fyrir dómi um að vitnið, B, komi fyrir dóminn og frestun á aðalmeðferð í því sambandi. Telur ákæruvaldið að með hliðsjón af málinu S-785/2000 sé þörf á því að fá að leiða vitnið fyrir dóminn og óskar eftir því að aðalmeðferð sé frestað til þess að unnt sé að leiða vitnið.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2000, þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að leiða vitnið B í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila, og fresta aðalmeðferðí því skyni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur að heimila að vitnið B verði leitt fyrir dóminn. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 441/2000
Kærumál Samlagsaðild Kröfugerð Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Frávísunarúrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi með vísan til þess, að þótt ranglega hefði verið staðið að kröfugerð samlagsaðilanna H og Ý í héraðsdómsstefnu, að því leyti að dómkröfur þeirra hafi þar tvívegis verið lagðar saman og settar fram sem ein krafa væri, yrði að gæta að því að hin sameiginlega krafa var sögð vera þeirra ,,að jöfnu", auk þess sem sundurliðun í stefnu gerði í meginatriðum kleift að greina kröfur þeirra nægilega að við efnismeðferð málsins. Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar hafði og verið tekið af skarið um aðgreiningu krafna H og Ý. Var því lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frávísun málsins og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða kærumálskostnað. Sóknaraðilar höfðuðu málið 4. apríl 2000 til heimtu bóta vegna tjóns, sem þau kveðast hafa orðið fyrir af því að neyta kjúklingakjöts 24. apríl 1999, sem framleitt hafi verið af varnaraðila, en þannig hafi þau smitast af svonefndum „campylobacter jejuni” sýkli, sem leynst hafi í kjötinu. Í héraðsdómsstefnu var þess krafist að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða báðum sóknaraðilum skaðabætur og miskabætur „að jöfnu að fjárhæð kr. 167.623.-” og að auki að greiða sóknaraðilanum Ými „sérstaklega vegna tímabundins atvinnutjóns kr. 77.000.- eða samtals stefnukrafa kr. 244.623.-”, auk nánar tiltekinna vaxta og málskostnaðar. Í stefnunni var fyrstnefnda fjárhæðin sundurliðið og þess getið að af henni væru 619 krónur vegna kaupverðs kjötsins, 3.670 krónur kostnaður hvors sóknaraðila af læknismeðferð, 2.400 krónur kostnaður þeirra beggja af sjúkraflutningi, 9.064 krónur lyfjakostnaður þeirra samanlagður, 9.100 krónur þjáningabætur handa hvoru þeirra og 65.000 krónur miskabætur til hvors. Samkvæmt héraðsdómsstefnu sækja sóknaraðilar málið í félagi með stoð í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Sem samlagsaðilum ber þeim hvoru um sig að sækja tiltekna og sjálfstæða dómkröfu. Þótt ranglega hafi verið staðið að kröfugerð þeirra í stefnunni að því leyti að dómkröfur þeirra voru þar tvívegis lagðar saman og settar fram sem ein krafa væri, verður að gæta að því að fyrstnefnda fjárhæðin hér að framan var sögð vera krafa þeirra „að jöfnu”, auk þess sem áðurgreind sundurliðun gerði í meginatriðum kleift að greina kröfur þeirra nægilega að við efnismeðferð málsins. Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er og tekið af skarið um að líta eigi svo á að kröfur þeirra séu að réttu lagi þannig að Hildur Guðjónsdóttir krefjist greiðslu úr hendi varnaraðila á 83.811,50 krónum, en Ýmir Vésteinsson á 160.811,50 krónum. Að þessu athuguðu eru ekki næg efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna annmarka á kröfugerð sóknaraðila. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 436/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. janúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X [ . . . ] verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir en lýkur í dag kl. 16:00, uns dómur gengur í málinu, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. janúar 2001, kl. 16:00. [ . . . ] Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi, sem lýkur í dag kl. 16.00, vegna rannsóknar á ætlaðri aðild hans og tveggja annarra Ítala að innflutningi fíkniefna þ.e. ætluð brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Rannsókn málsins er ekki lokið og gera má ráð fyrir að kærði, sem er erlendur ríkisborgari, færi af landi brott yrði varðhaldsvistinni aflétt. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald yfir kærða tekið til greina eins og hún er fram sett. Sigurður Hallur Stefánsson kvað upp úrskurðinn. Kærði X sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. janúar 2001, kl. 16:00.
Mál nr. 428/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. desember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglan hefur krafist þess að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 1. desember 2000 klukkan 16.00 á grundvelli a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Kærði kveðst mótmæla kröfunni. [ . . . ] Með hliðsjón af rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, þykir kominn fram rökstuddur grunur um aðild kærða að fíkniefnamisferli því sem til rannsóknar er hjá lögreglu, en rannsóknin er enn á frumstigi. Í ljósi rannsóknar­hagsmuna og með hliðsjón af a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og greinir í úrskurðarorði. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. ÚRSKURÐARORÐ: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. desember nk. kl. 16.00.
Mál nr. 415/2000
Kærumál Flýtimeðferð
Með því að ekki var talið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að um ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í skilningi þeirrar lagagreinar væri að ræða, var hafnað beiðni F hf. um flýtimeðferð á máli er félagið hugðist höfða á hendur K og íslenska ríkinu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð á máli, sem hann hyggst höfða á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að flýtimeðferð verði heimiluð í málinu. Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 420/2000
Kærumál Niðurfelling máls Útivist
Við fyrirtöku máls var ekki sótt þing af hálfu M og málið því fellt niður. Ekki var fallist á það með M að lögmaður hans hefði haft lögmæt forföll samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hann hefði verið við kennslu í Háskóla Íslands er málið var tekið fyrir í umrætt sinn. Þá var eigi heldur talið að málsmeðferðarákvæði laga nr. 20/1992 hefðu þýðingu varðandi úrslit þessa máls.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2000 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 7. nóvember 2000 þar sem mál sóknaraðila gegn varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að boða að nýju til þinghalds í málinu. Til vara krefst hann þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður eða lækkaður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var málið tekið fyrir 11. október 2000 að viðstöddum lögmönnum aðila og því frestað til undirbúnings aðalmeðferðar til 7. nóvember 2000 kl.11:00. Síðastnefnt þinghald var ekki sótt af hálfu sóknaraðila. Krafðist lögmaður varnaraðila að málið yrði fellt niður. Kvað héraðsdómari þá upp hinn kærða úrskurð þar sem málið var fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 140.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts. Í kæru sóknaraðila er sú skýring gefin á fjarveru lögmanns hans að tilkynning lögmanns þess er mætti fyrir lögmann hans í þinghaldinu 11. október 2000 um þinghaldið hafi farið framhjá síðargreinda lögmanninunum, en tilkynningin hafði verið skráð á reikning vegna mætingar fyrrgreinda lögmannsins. Hafi síðargreindi lögmaðurinn verið við kennslu í Háskóla Íslands er málið var tekið fyrir hinn 7. nóvember. Hafi dómara verið kunnugt um það áður en hinn kærði úrskurður var upp kveðinn. Telur sóknaraðili að lögmaðurinn hafi haft lögmæt forföll samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Þá telur sóknaraðili að þar sem mál þetta sé forsjármál gildi sérstök ákvæði barnalaga nr. 20/1992 um málsmeðferð, en þeim sé meðal annars ætlað að tryggja að mál gangi hratt og greiðlega fyrir sig. Leiði ákvæði þeirra til frávika frá almennum reglum um meðferð einkamála meðal annars varðandi málshraða og afskipti dómara. Varakröfu styður sóknaraðili meðal annars við þau rök að ráða megi af dómum að almennt sé ástæða til að fella niður málskostnað í forsjármálum. Varnaraðili telur að ákvæði barnalaga leiði ekki til frávika frá almennum reglum um meðferð einkamála að því er varðar það málefni, sem hér er til ákvörðunar, og af atvikum málsins leiði ekki sérstök knýjandi nauðsyn til skjótrar úrlausnar þess. Þá andmælir hann því að ástæður fyrir fjarveru lögmanns sóknaraðila í þinghaldinu 7. nóvember teljist til lögmætra forfalla. Varnaraðili andmælir því varðandi varakröfu sóknaraðila að dómvenja sé fyrir því að málskostnaður sé felldur niður í forsjármálum. Áðurgreind ástæða fyrir fjarveru lögmanns sóknaraðila í þinghaldi 7. nóvember 2000 getur ekki talist til lögmætra forfalla í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að ákvæði laga nr. 20/1992 hafi þýðingu varðandi úrslit þessa máls. Héraðsdómara var því rétt að fella málið þegar niður, sbr. b-lið 1. mgr. 105 gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðila verður gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, samtals 160.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 7. nóvember 2000. Mál þetta var þingfest 13. september sl., og þá frestað til 11. október til framlagningar greinargerðar stefndu, en þá var málinu frestað til dagsins í dag. Af hálfu stefnanda er ekki sótt þing og ekki boðuð forföll. Af hálfu stefndu er þess krafist að málið verið fellt niður og að henni verði úrskurðaður málskostnaður. Ber dómara að verða við þeirri kröfu skv. 2. mgr., sbr. b-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Dómara þykir hæfilegt að málskostnaður stefndu verði kr. 140.000 auk virðisaukaskatts. Finnur T. Hjörleifsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Mál þetta er fellt niður. Stefnandi, M, greiði stefndu, K, kr. 140.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.
Mál nr. 425/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að dómfellda, X, verði með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan meðferð máls hans fyrir Hæstarétti stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 28. febrúar 2001, kl. 16.00, en gert er ráð fyrir að málið komist á dagskrá réttarins eftir áramót.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sér verði í stað gæsluvarðhalds bönnuð för úr landi þar til dómur gengur í máli hans. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 424/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Ár 2000, miðvikudaginn 22. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­víkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 417/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. janúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess, með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir en lýkur í dag kl. 16:00, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. janúar 2001, kl. 16:00. [ . . . ] Samkvæmt gögnum málsins hefur kærði viðurkennt aðild sína að innflutningi á rúmum 8 kg af amfetamíni og verður því fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að hann hafi framið brot er geti að lögum varðað allt að 10 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a alm. hegningarlaga, og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er því fullnægt og verður því krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. janúar nk., kl. 16:00.
Mál nr. 414/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í hinum kærða úrskurði er ranglega hermt að í kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald yfir varnaraðila komi fram að hann hafi játað að hafa átt sök á voveiflegu andláti nafngreindrar stúlku. Þess er og að geta að varnaraðili skaut úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2000 um gæsluvarðhald til Hæstaréttar með kæru 4. sama mánaðar, sbr. dóm Hæstaréttar 10. ágúst 2000 í máli nr. 306/2000. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2000. Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag á grundvelli kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X. Þess er krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16:00. [ . . . ] Eins og málið liggur nú fyrir að virtum rannsóknargögnum sem fyrir lágu í dóminum í dag þykir vera fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem kærði er grunaður um, þykir þess eðlis að ætla má að það sé í þágu almannahagsmuna að gæsluvarðhaldi sé beitt. Eru því skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er því krafa ríkissaksóknara tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16:00, en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála. Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari. ÚRSKURÐARORÐ: Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16:00, en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans.
Mál nr. 410/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ú R S K U R Ð U R Ár 2000, fimmtudaginn 9. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. nóvember 2000, kl. 16.00. [ . . . ] Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ef þau sönnuðust. Kærði vildi í fyrstu ekki kannast við aðild sína að málinu, en hefur gert það nú. Með hliðasjóna af rannsóknargögnum þykir sýnt að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærði sitji áfram í gæsluvarðhaldi svo að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins. Teljast skilyrði a liðar 103. gr. því uppfyllt í máli þessu. Með því að skilyrði a liðar 103. gr teljast uppfyllt ber að taka kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 23. nóvember nk. til greina. Ú r s k u r ð a r o r ð Kærði X sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. nóvember 2000, kl. 16.00.
Mál nr. 408/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 28. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglan hefur krafist þess að kærða, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 28. nóvember 2000 nk. kl. 16.00 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. [ . . . ] Fyrir liggur að verið er að rannsaka nokkur alvarleg brot gegn fíkniefnalöggjöfinni sem grunur leikur á að kærði eigi aðild að og sem getur varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og/eða 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ef sök sannast. Rannsóknargögn gefa vísbendingu um að kærði tengist fíkniefnainnflutningi þeim sem er til rannsóknar þannig að telja verður að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um aðild hans að þessum málum, en hann neitar allri aðild að málunum. Að því er varðar kærða er rannsókn málsins á frumstigi og ljóst að frekari rannsókn mun fylgja í kjölfarið. Vegna alvarleika og umfangs rannsóknarinnar þykja brýnir rannsóknarhagsmunir vera fyrir því að tryggt verði að kærði hafi ekki samband við aðra sem tengjast umræddum málum á þessu stigi. Fallast ber á að kærði geti torveldað rannsókn þessara brota fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til a liðar 1. mgr 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 28. nóvember 2000 kl. 16:00.
Mál nr. 401/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. nóvember nk. kl 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og verði honum þá ekki gert að sæta fjölmiðlabanni meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. nóvember nk. kl. 16:00. Kærði krefst þess að kröfunni verði hrundið, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Verið er að rannsaka alvarlegt brot gegn fíkniefnalöggjöfinni sem grunur leikur á að kærði eigi aðild að og sem getur varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og/eða 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940 ef sök sannast. Rannsóknargögn gefa sterka vísbendingu um að kærði tengist fíkniefnainnflutningi þeim sem er til rannsóknar en hann neitar aðild að málinu. Ljóst er að þáttur kærða er ekki full rannsakaður. Vegna alvarleika og umfangs málsins þykja brýnir rannsóknarhagsmunir vera fyrir því að tryggt verði að kærði hafi ekki samband við aðra aðila eða vitni á þessu stigi og er fallist á það með lögreglu að hætta sé á að kærði gæti torveldað rannsókn málsins ef hann er frjáls ferða sinna. Af þessari ástæðu er með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. nóvember n.k. kl. 16.00. Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. nóvember 2000, kl. 16.00.
Mál nr. 233/2000
Þjófnaður Hegningarauki Skilorð
G var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi fyrir þjófnað. Við uppkvaðningu dómsins var dæmd upp skilorðsbundin refsing, sem G hafði hlotið með dómi 23. september 1998. Tók héraðsdómari ekki tillit til dóms 6. mars 2000 á hendur ákærða þar sem þegar hafði verið tekin upp hin skilorðsbundna refsing, sem ákærða var dæmd 23. september 1998. Hæstiréttur fór því með brot G sem hegningarauka við dóminn 6. mars 2000 án skilorðsrofs og dæmdi G í skilorðsbundið fangelsi í einn mánuð.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2000 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærða verði gerð refsing sem hegningarauka án tillits til skilorðsbundins dóms frá 23. september 1998. Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar, sem lög leyfa. Sakargiftir á hendur ákærða í málinu eru fyrir að hafa á tímabilinu 9. til 11. desember 1998 stolið sjónauka af gerðinni Kalimar 8x21 að verðmæti 2.995 krónur. Játaði ákærði brotið. Var honum gert með hinum áfrýjaða dómi að sæta fangelsi í fimm mánuði, en með honum var dæmd upp fjögurra mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing, sem ákærði hlaut með dómi 23. september 1998, meðal annars fyrir tilraun til þjófnaðar. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms virðist héraðsdómaranum ekki hafa verið kunnugt um þá nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000, þar sem ákærði var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og umferðarlagabrot. Með síðastnefnda dóminum hafði dómurinn frá 23. september 1998 þegar verið tekinn upp og refsing samkvæmt honum dæmd með. Var refsing áfram bundin skilorði að öllu leyti. Með dómi 6. mars 2000 hefur þegar verið dæmt um skilorðsrof ákærða og sætir niðurstaða hans ekki endurskoðun. Með brot ákærða nú verður farið sem hegningarauka við þann dóm án skilorðsrofs. Er hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í einn mánuð og verður refsingin skilorðsbundin, eins og nánar greinir í dómsorði. Áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Guðmundur Friðrik Stefánsson, sæti fangelsi í einn mánuð. Fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum þremur árum ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2000. Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. þessa mánaðar, er höfðað af sýslumanninum í Kópavogi á hendur Berglindi Friðbergsdóttur, kt. 270565-2989, Stekkjartröð 4b, Egilsstöðum og Guðmundi Friðriki Stefánssyni, kt. 120880-4039, Mávahlíð 24, Reykjavík, með ákæru sem gefin var út þann 23. febrúar s.l. Í þinghaldi 7. apríl s.l. ákvað dómari að skilja málið sundur og dæma sérstaklega mál Guðmundar Friðriks Stefánssonar, en láta mál Berglindar bíða seinni tíma vegna þess að ekki hefur tekist með neinum ráðum að hafa upp á henni. Ákæran á hendur Guðmundi Friðriki Stefánssyni er á þá leið, að hann er ákærður fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu 9.-11. desember 1998, stolið einum sjónauka af gerðinni Kalimar 8x21 að verðmæti 2.995 krónur, úr vinnusal Fangelsins að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi. Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Mál þetta er dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Fyrir dómtöku tjáðu aðilar sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga varðandi þátt Guðmundar Friðriks Stefánssonar í málinu. Með skýlausri játningu hans þykir sannað að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og þar er réttilega fært til refsiákvæða. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann með dómi frá 23. september 1998 verið fundinn sekur um brot gegn 244. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga og hlaut hann þá 4ra mánaða fangelsi skilorðsbundið til 3ja ára. Önnur viðurlög sem ákærði hefur sætt samkvæmt sakavottorði sem liggur í réttinum þykja ekki skipta máli í þessu máli sem nú er til umfjöllunar. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorðs þess dóms sem áður er nefndur. Ber því nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, að dæma ákærða í einu lagi fyrir brot þau, sem fjallað var um í ofangreindum dómi, og það brot, sem hér er til meðferðar. Þykir refsing hans með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar, og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð Ákærði, Guðmundur Friðrik Stefánsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en festa skal fullnustu refsingar og falli hún niður eftir 3 ár frá uppkvaðningu dóms þessa ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar.
Mál nr. 393/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. nóvember 2000, kl. 16.00. [...] Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940 ef þau sönnuðust. Rannsóknargögn gefa ástæðu til að ætla að kærði tengist fíkni­efnainnflutningi þannig að refsivert sé. Nú í nótt og morgun voru aðilar sem kunna að tengjast brotum þeim sem kærði er grunaður um handteknir og er ljóst af rannsóknargögnum að brýnir rannsóknarhagsmunir eru í því fólgnir að kærði sæti gæsluvarðhaldi áfram eins og rannsókn málsins er nú komið. Þykir því rétt sbr. a- lið 103. gr. laga nr. 19,1991 að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða og þegar litið er til hinna brýnu rannsóknar­hagsmuna, sem áður er vísað til, þykir mega fallast á kröfu um lengd gæsluvarðhaldstímans. Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. nóvember 2000, kl. 16.00.
Mál nr. 394/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hæstarétti hefur ekki borist greinargerð frá varnaraðila. Verður að ætla að hann kæri til að fá úrskurð héraðsdómara felldan úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. nóvember 2000, kl. 16.00. [...] Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940 ef þau sönnuðust. Rannsóknargögn gefa ástæðu til að ætla að kærði tengist fíkni­efnainnflutningi þannig að refsivert sé. Ljóst er af rannsóknargögnum að brýnir rannsóknarhagsmunir eru í því fólgnir að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Þykir því rétt sbr. a- lið 103. gr. laga nr. 19,1991 að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald kærða og þegar litið er til umfangs máls þessa þykir mega fallast á kröfu lögreglu um lengd gæsluvarðhaldstímans. Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. nóvember 2000, kl. 16.00.
Mál nr. 392/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 391/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a og b 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála að X, [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðviku­dagsins 8. nóvember 2000 klukkan 16.00. [...] Rannsókn máls þessa, sem auk kærða varðar tvo aðra einstaklinga sem handteknir voru um leið og hann, er á frumstigi og rannsóknarhagsmunir slíkir að nauðsynlegt er að kærði sæti gæsluvarðhaldi og eru skilyrði a og b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 uppfyllt. Verður því krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald kærða tekin til greina og þegar litið er til rannsóknargagna þykir rétt að krafa um lengd gæsluvarðhaldsvistar verði tekin til greina. Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember nk. kl. 16.00.
Mál nr. 389/2000
Kærumál Geðrannsókn
Ríkissaksóknari krafðist þess að X, sem hafði sætt gæsluvarðhaldi í tæpa fimm mánuði vegna rannsóknar á láti ungrar konu, yrði aðallega gert að sæta geðrannsókn samkvæmt ákvæði d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en til vara að honum yrði gert að sæta rannsókn geðlæknis í þeim tilgangi að meta þroska hans og andlegt og líkamlegt heilbrigði. Ekki var talið að þau atriði sem ríkissaksóknari vísaði í til stuðnings kröfu sinni gæfu tilefni til sérstakrar geðrannsóknar. Þá var heldur ekki talið að atbeina dómstóla þyrfti til að afla vottorðs sálfræðings um andlegan þroska og heilbrigði X þar sem hann hefði ekki gert athugasemd við að vottorða yrði aflað um viðtöl, sem hann hafði átt við sálfræðing meðan á gæsluvarðhaldsvist stóð. Var kröfum ríkissaksóknara því hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta sérstakri geðrannsókn samkvæmt ákvæði d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 28. maí 2000 vegna rannsóknar á láti ungrar konu, sem féll fram af svölum á 10. hæð hússins að Engihjalla 9 í Kópavogi hinn 27. sama mánaðar. Er varnaraðili borinn sökum um að hafa orðið valdur að þessu atviki og brotið með því gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sóknaraðila munu hafa borist gögn um rannsókn málsins frá sýslumanninum í Kópavogi 6. október sl. Með bréfi 16. sama mánaðar krafðist sóknaraðili þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að varnaraðila yrði aðallega gert að sæta sérstakri geðrannsókn á grundvelli áðurgreinds lagaákvæðis, en til vara rannsókn geðlæknis til að meta þroska hans og heilbrigði, andlegt og líkamlegt. Með hinum kærða úrskurði var fallist á aðalkröfu sóknaraðila. Í áðurnefndu bréfi sóknaraðila 16. október sl. eru færð þau rök fyrir kröfum hans að ætlað brot varnaraðila geti varðað allt að ævilöngu fangelsi og sé eðli þess slíkt að nauðsyn þyki til geðrannsóknar vegna vafa um hvort ákvæði 15. gr. eða 16. gr. almennra hegningarlaga geti átt við um hagi hans. Einskis var getið í bréfinu hvaða nánari atriði gæfu að mati sóknaraðila tilefni til efasemda um sakhæfi varnaraðila. Þegar krafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi var vísað í þessum efnum til tveggja atriða, sem fram hafi komið við rannsókn málsins. Verður ekki séð að þessi atriði, hvort fyrir sig eða í sameiningu, gefi tilefni til sérstakrar geðrannsóknar. Eru því ekki efni til að verða við aðalkröfu sóknaraðila. Í málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti er tekið fram að hann hafi í gæsluvarðhaldsvist átt viðtöl við nafngreindan sálfræðing, sem starfar við Fangelsismálastofnun ríkisins, og geri varnaraðili ekki athugasemd við að aflað verði vottorðs sálfræðingsins um þau viðtöl. Að þessu gættu verður ekki annað séð en að varnaraðili sé samþykkur því að aflað verði vottorðs sálfræðings um andlegan þroska hans og heilbrigði. Þarf því ekki atbeina dómstóla til að afla slíkra gagna við rannsókn málsins. Verður varakröfu sóknaraðila hafnað af þessum sökum. Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Ekki eru skilyrði til að dæma varnaraðila kærumálskostnað, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Ríkissaksóknari hefur, með vísan d-liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, krafist þess að kærða, X, verði aðallega gert að sæta sérstakri geðrannsókn til þess að leidd verði í ljós atriði er geri dómara fært að meta sakhæfi hans, en til vara að kærði sæti rannsókn geðlæknis í þeim tilgangi að meta þroska hans og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. Jafnframt er með vísan 1. mgr. 63. gr. sömu laga óskað eftir því að geðlæknir verði dómkvaddur til að framkvæma þá rannsókn á kærða. Kærði mótmælir bæði aðal- og varakröfu. Málavextir eru þeir að kærði er undir rökstuddum grun um að hafa þann 27. maí sl. orðið K, að bana að Engihjalla 9, Kópavogi, með því að hrinda henni fram af svölum á 10. hæð hússins. Hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 28. maí sl. Með bréfi sýslumannsins í Kópavogi, dags. 6. þ.m., bárust embætti ríkissaksóknara rannsóknargögn máls þessa þar sem það hlaut númerið M. 177.00. Meðal gagnanna er úrskurður héraðsdómara upp kveðinn 27. júní sl. þar sem kröfu sýslumannsins í Kópavogi um að kærða yrði gert að sæta geðrannsókn var hafnað. Samkvæmt úrskurði héraðsdómara upp kveðnum 2. þ.m. sætir kærði gæsluvarðhaldi til 13. nóvember nk. á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í IX. kafla laga nr. 19/1991, sem hefur að geyma greinar nr. 66-77, er fjallað um rannsókn máls. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 71. gr. laganna skulu rannsökuð þau atriði sem varða sakborning sjálfan, svo sem þroska og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. Skuli um þessi atriði afla vottorða læknis og sálfræðings ef ástæða er til. Leiki vafi á hvort ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um hagi sakbornings er mælt fyrir um að rétt sé að láta hann sæta sérstakri geðrannsókn til þess að leidd verði í ljós atriði sem geri dómara fært að meta sakhæfi hans. Af ákvæðinu verður ráðið að geðrannsókn fari því aðeins fram að sérstakur grunur leiki á að sakborningur sé ósakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga eða að hann hafi verið andlega miður sín svo sem vegna vanþroska, hrörnunar eða annarrar truflunar, sbr. 16. gr. laganna. Í máli því sem hér er til meðferðar er ljóst að kærði er grunaður um mjög alvarlegt brot sem, ef sannað þætti, gæti varðað hann þyngstu refsingu sem almenn hegningarlög tiltaka. Verður ekki fram hjá því litið að verknaðurinn, ef sannaður yrði, myndi teljast bæði ógnvekjandi og stórháskalegur. Af hálfu ákæruvalds hefur verið bent á tvö atriði, svo sem greinir í bókun í þingbók, sem að mati þess eru þess eðlis að nauðsyn beri til að kærði sæti geðrannsókn. Með vísan þess sem að framan er rakið og rannsóknargagna málsins telur dómurinn rétt að fallast á kröfu ákæruvaldsins um að kærða verði gert að sæta sérstakri geðrannsókn skv. d-lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991, sbr. og 67. gr. sömu laga. Júlíus B. Georgsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. ÚRSKURÐARORÐ: Kærði, X, skal sæta sérstakri geðrannsókn samkvæmt d-lið 1. mgr. laga nr. 19/1991 í þágu rannsóknar máls ríkissaksóknara nr. 177.00.
Mál nr. 386/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími varðhaldsins lengdur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 16. október 2000 og krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til föstudagsins 27. október 2000 kl. 16. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Í ljósi umfangs málsins þykir mega verða við kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhaldsins, sem verður því markaður tími eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. október 2000 kl. 16. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. október 2000 klukkan 16:00. [...] Eins og um getur í greinargerð lögreglustjóra var kærði handtekinn á Keflavíkurflugvelli með tæp 2 kg af hassi og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Verður ekki séð að þetta sakarefni eitt sér gefi tilefni til að kærði verði látinn sæta gæsluvarðhaldi öllu lengur. Hins vegar er fallist á það með lögreglu að ýmislegt það komi fram í útskriftum úr símhlustunum sem lagðar hafa verið fyrir dóminn, sem styðji grunsemdir um að kærði eigi meiri þátt í fíkniefnasmygli en hann vill vera láta. Þá verður ekki fram hjá því litið að framburður hans hér fyrir dómi um símhlustanirnar veldur því að að hætta getur verið á að kærði torveldi rannsókn málsins, hafi hann óskert ferðafrelsi. Það er því niðurstaða dómsins, með vísan til heimildar í a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að taka kröfu lögreglunnar til greina að öðru leyti en því að hæfilegt þykir að kærði sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 20. október nk. kl. 16:00. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október nk. kl. 16:00.
Mál nr. 387/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími varðhaldsins lengdur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 17. sama mánaðar kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til þriðjudagsins 24. október 2000 kl. 16. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Í ljósi umfangs málsins þykir mega verða við kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhaldsins, sem verður því markaður tími eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 24. október 2000 kl. 16. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X, [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 24. október 2000 klukkan 16:00. [...] Samkvæmt framansögðu er því fallist á það með lögreglu að hætta sé á að kærði gæti torveldað rannsókn málsins ef hann endurheimti frelsi sitt. Það verður því orðið við kröfu lögreglunnar, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda er verið að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni og ef þau sönnuðust gætu þau varðað hann fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a. alm. hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar þykir hæfilegt, eins og staða rannsóknarinnar er í dag, að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er og verður kærða gert að sæta því til kl. 16:00 þriðjudaginn 17. október nk. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, skal sæta gæslu­varð­haldi allt til þriðjudagsins 17. október 2000 kl. 16.00.
Mál nr. 379/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess, að X, [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október 2000, kl. 16.00. [...] Samkvæmt gögnum máls er ljóst að viðamikil rannsókn stendur yfir vegna innflutnings á miklu magni fíkniefna. Þeirri rannsókn er enn ólokið. Fyrir liggur að kærði tengist málinu beint og hefur viðurkennt aðild sína að því. Fallist er á með lögreglu að hætta sé á að kærði gæti torveldað rannsókn málsins ef hann endurheimti nú frelsi sitt. Með vísan til alls ofanritaðs þykir rétt, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991, að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Er því krafa lögreglunnar tekin til greina að öllu leyti og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október nk. kl. 16.00 eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldsvist kærða sé markaður skemmri tími en krafist er. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október 2000. kl. 16.00.
Mál nr. 380/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [...] verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október 2000 kl. 16.00. [...] Samkvæmt gögnum máls er ljóst að viðamikil rannsókn stendur yfir vegna innflutnings á miklu magni fíkniefna. Þeirri rannsókn er enn ólokið. Meðal rannsóknargagna eru útskriftir af umfangsmiklum símhlerunum sem benda sterklega til þess að kærði tengist fíkniefnainnflutningi og er rökstuddur grunur um aðild hans að málinu. Rannsókn málsins er ólokið og er fallist er á með lögreglu að hætta sé á því að kærði gæti torveldað rannsókn málsins ef hann endurheimti nú frelsi sitt. Með vísan til alls ofanritaðs þykir rétt, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991, að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Er því krafa lögreglunnar tekin til greina að öllu leyti og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október nk. kl. 16.00 eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldsvist kærða sé markaður skemmri tími en krafist er. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. október 2000 kl. 16:00.
Mál nr. 378/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunuð um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 382/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og c. liða 103. gr. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 374/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 371/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 212/2000
Þjófnaður Ítrekun Hegningarauki
H var ákærður fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn í skrifstofuhúsnæði, tvær verslanir og þrjár bifreiðar og stolið þaðan verðmætum. H játaði þjófnað úr skrifstofuhúsnæðinu og var þjófnaður úr verslununum tveimur einnig talinn sannaður. Hins vegar þóttu ekki fram komnar sönnur fyrir því að hann hefði átt þátt í þjófnaði úr bílunum og var hann sýknaður af sakargiftum samkvæmt þeim hluta ákærunnar. Var niðurstaða héraðsdóms um að dæma H til fangelsisrefsingar staðfest, en um ítrekuð brot var að ræða.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi. Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt III. og IV. kafla ákæru, en að öðru leyti að refsing verði milduð. Í II. kafla ákæru í máli þessu, sem var gefin út 23. nóvember 1999, var ákærða gefið að sök brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt 17. nóvember 1999 brotist inn í skrifstofuhúsnæði að Skipholti 50b í Reykjavík og stolið þaðan tölvu að andvirði 87.990 krónur. Með III. kafla ákærunnar var ákærði ásamt öðrum nafngreindum manni borinn sökum um brot gegn sama ákvæði með því að hafa brotist inn í tvær verslanir að Álfheimum 74 í Reykjavík hinn 9. júlí 1999 og tekið þar varning að andvirði samtals 136.000 krónur. Í IV. kafla ákærunnar var ákærða loks gefið að sök brot gegn sama ákvæði með því að hafa 9. ágúst 1999 ásamt tveimur nafngreindum mönnum brotist inn í þrjár bifreiðir við Ingólfsstræti og Sölvhólsgötu í Reykjavík og stolið úr þeim munum að verðmæti alls 163.000 krónur. Við meðferð málsins í héraði kom fram að ætluð brot samkvæmt síðastnefndum kafla ákæru hafi verið framin 8. ágúst 1999. Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði við verknaðinum samkvæmt II. kafla ákæru. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir það brot. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt III. kafla ákæru. Fyrir dómi neitaði ákærði að hafa framið þau brot, sem greinir í IV. kafla ákæru. Viðurkenndi hann að hafa verið á vettvangi þegar annar meðákærðu samkvæmt þeim kafla ákæru braust inn í bifreiðirnar þrjár, sem þar um ræðir, en sá hafi ætlað að kenna ákærða og hinum meðákærða til verka í þeim efnum. Er sá framburður í samræmi við framburð beggja meðákærðu samkvæmt þessum kafla ákærunnar. Ekki liggja fyrir í málinu haldbær sönnunargögn, sem byggt verður á samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, til að tengja ákærða við þessi brot frekar en hann hefur sjálfur gengist við. Verður því að sýkna hann af sakargiftum samkvæmt IV. kafla ákærunnar. Ákærði er fæddur 1972. Þar til héraðsdómur gekk í máli þessu hafði ákærði frá árinu 1989 þrívegis gengist undir sátt og tólf sinnum hlotið dóm fyrir skjalafals, auðgunarbrot, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Eftir að ákærði framdi þau brot, sem hann er nú sakfelldur fyrir, og þar til héraðsdómur var upp kveðinn höfðu þrívegis gengið refsidómar á hendur honum. Verður refsing hans því ákveðin sem hegningarauki við þá dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Á árinu 1996 var ákærði tvisvar dæmdur fyrir auðgunarbrot og gætir nú ítrekunaráhrifa af þeim dómum við ákvörðun refsingar, sbr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga, auk þess að ákvæði 2. mgr. 70. gr. sömu laga eiga hér við um hluta af brotum ákærða. Að öllu þessu gættu og að teknu tilliti til ákvæðis 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, er rétt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, svo og um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Helgi Þór Kristínarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur. [...] Verjandi ákærðu, Helga Þórs, B og C, gerir eftirfarandi kröfur: Vegna ákærða, Helga Þórs, að hann verði sýknaður af III og IV. kafla ákærunnar. Enn fremur að ákærða verði að öðru leyti ekki gerð sérstök refsing í máli þessu. Þá verði allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun. [...] Ákærði, Helgi Þór, er fæddur 1972 og hefur ítrekað síðan árið 1989 gerst brotlegur gegn refsilögum og á langan sakarferil að baki. Ákærði hefur samtals hlotið tólf dóma og gengist undir þrjár sáttir fyrir ýmis brot. Hann gekkst tvívegis á árunum 1989 og 1990 undir viðurlög fyrir ölvunarakstur og nytjastuld og viðurlög 1995 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Frá 18 ára aldri hefur ákærði hlotið tólf refsidóma fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld, skjalafals, fíkniefnalagabrot og þjófnað. Þar er helst að nefna að í september 1993 var ákærði dæmdur í 60 daga varðhald fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot en í júní 1994 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 30 dögum. Í ágúst 1994 var ákærði dæmdur fyrir skjalafals en um hegningarauka var að ræða og ákærða var ekki gerð sérstök refsing. Þá var ákærði dæmdur í júlí 1995 í 60 daga fangelsi fyrir skjalafals og var fyrrgreind reynslulausn dæmd með. Með dómi 29. febrúar 1996 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað. Næst var ákærði dæmdur með dómi Hæstaréttar 21. nóvember 1996 í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og var dómurinn frá 29. febrúar 1996 dæmdur með. Ákærða var veitt reynslulausn 5. mars 1997 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 120 dögum. Ákærði hlaut, þann 12. mars 1999, dóm, 100.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot og einnig dóm þann 18. maí 1999, 250.000 króna sekt auk ævilangrar ökuleyfissviptingar, fyrir umferðarlagabrot. Ákærði hlaut dóm 17. nóvember 1999, 6 mánaða fangelsi, þar af 3 mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár, fyrir þjófnað og hylminguu. Ákærði hlaut síðan dóm 19. janúar 2000, 6 mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot, þjófnað og nytjastuld. Síðast hlaut hann dóm 16. febrúar sl., 3 mánaða fangelsi, fyrir þjófnað og nytjastuld, hegningarauka við dóm 19. janúar 2000. Brot þau sem ákærði, Helgi Þór, hefur nú verið fundinn sekur um teljast hegningarauki við dóma frá 19. janúar og 16. febrúar sl. Ber því að tiltaka ákærða refsingu eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða, þegar tillit er tekið til sakaferils hans, verðmæta þeirra sem í húfi voru og hliðsjón höfð af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Ákærðu, Helgi Þór, C og B, dæmast til að greiða óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Ekki hefur verið upplýst um annan sakarkostnað í máli þessu. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hjalti Pálmason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð: [...] Ákærði, Helgi Þór Kristínarson, sæti fangelsi í 3 mánuði. [...] Ákærðu, Helgi Þór, C og B, greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. [...]
Mál nr. 238/2000
Vinnuvélar Refsiheimild Stjórnarskrá
A var ákærður fyrir brot gegn ákvæðum c. liðar 2. gr., 1. tölulið A. liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, eins og þeim var breytt með 1. gr. reglna nr. 24/1999, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa ekið gaffallyftara á vinnustað sínum, án tilskilinna réttinda. Talið var að hvorki væri í tilvitnuðum ákvæðum reglna nr. 198/1983 né í 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 lagt bann við því að maður, sem ekki hefur hlotið sérstök réttindi, stjórni gaffallyftara af þeirri gerð sem A ók í umrætt sinn, gagnstætt því sem áður gilti samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 121/1967 um réttindi til vinnu og meðferðar á vinnuvélum. Því var talið að viðhlítandi lagastoð fyrir því að A hefði unnið til refsingar með akstrinum skorti, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2000 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing. Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms. Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæðum c. liðar 2. gr., 1. tölulið A. liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, eins og þeim var breytt með 1. gr. reglna nr. 24/1999, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa 25. júní 1999 ekið án tilskilinna réttinda gaffallyftara með skráningarnúmerinu JL 1557 á vinnustað sínum, Sandi Ímúr hf. Fyrir liggur í málinu að þann dag ók ákærði gaffallyftaranum á annan nafngreindan starfsmann félagsins, sem hlaut af því beinbrot á fæti. Hvorki er í tilvitnuðum ákvæðum reglna nr. 198/1983 með áorðnum breytingum né 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 lagt bann við því að maður, sem ekki hefur hlotið sérstök réttindi, stjórni gaffallyftara þeirrar gerðar, sem ákærði ók umrætt sinn, gagnstætt því, sem áður gilti samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 121/1967 um réttindi til vinnu og meðferðar á vinnuvélum. Skortir því viðhlítandi lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið til refsingar með áðurnefndri háttsemi sinni, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiddur úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2000. Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 6. mars sl gegn ákærða Arnóri Barkarsyni, kt. 081273-4999, Kríuhólum 2, Reykjavík og X, „hinum fyrrnefnda fyrir brot á reglum um réttindi til að stjórna vinnuvélum og hinum síðarnefnda fyrir brot á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með því að hafa í sameiningu staðið að því að ákærði Arnór stjórnaði vinnuvél án tilskilinna réttinda með eftirgreindum hætti: I. Ákærði Arnór með því að hafa, föstudaginn 25. júní 1999, við vinnu sína á vinnustað Sands Ímúrs hf. að Viðarhöfða 1 í Reykjavík stjórnað lyftaranum JL-1557 án tilskilinna réttinda. Telst þetta varða við c-lið 2. gr., sbr. 1. tl. 3. gr. A og 1. mgr. 11. gr., reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum nr. 198/1983, sbr. 1. gr. reglna nr. 24/1999 og 1. mgr. 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. II. Ákærði X með því að hafa sem framkvæmdastjóri Sands Ímúrs hf. látið viðgangast að nefndur Arnór stjórnaði lyftaranum JL-1557 eins og greinir í 1. ákærulið þrátt fyrir að hann vissi að hann hafði ekki tilskilin réttindi til þess og að hafa ekki séð um að hann engi nauðsynlega kennslu og þjálfun til þess að stjórna lyftara. Telst þetta varða við a-lið 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 37. gr., sbr. 1., 2. og 3. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 99. gr., laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 1., 2. og 3. gr. reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum og 1. gr. reglna nr. 24/1999. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.” Þætti meðákærða var lokið með viðurlagaákvörðun. Ákærði Arnór játar skýlaust háttsemi þá sem honum er að sök gefin í ákæru. Af hans hálfu er hins vegar talið að háttsemin sé refsilaus þar sem ekki séu viðhlítandi refsiheimildir fyrir hendi í þeim lagaákvæðum sem vísað er til í ákærunni. Í 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum segir að með reglum þessum sé leitast við að tryggja næga þekkingu, þjálfun og öryggi í meðferð vinnu- og farandvéla, sem taldar eru upp í 3. gr. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. reglnanna, eins og þeim hefur nú verið breytt með 1. gr. reglna nr. 24/1999, að náms- og þjálfunarkröfur miðist við stærð og gerð viðkomandi vinnuvéla samkvæmt neðangreindri flokkun: A Frumnámskeið. Í 1. tl. þeirrar flokkunar er fjallað um gaffallyftara með lyftigetu 1,2 til 10 tonn, en óumdeilt er að lyftari sá er ákærði ók greint sinn fellur undir þá gerð lyftara. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 2. gr. framangreindra reglna nr. 198/1983 getur sá einn öðlast réttindi til að stjórna vinnuvélum sem lokið hefur tilskildu námi og þjálfun, sbr. 3., 5. og 6. gr. sömu reglna. Óumdeilt er að ákærði hefur ekki hlotið slík réttindi þar sem hann hefur ekki lokið tilskildu námi og þjálfun. Ljóst er af framangreindum ákvæðum að leyfi þarf til að stjórna þeirri gerð lyftara sem ákærði stjórnaði umrætt sinn að undangenginni nánar tiltekinni þjálfun og námi, sbr. 2. mgr. 3. gr. regnanna. Í 1. mgr. 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 segir, að brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum. Ákvæði 11. gr. reglna nr. 198/1983 um að brot gegn þeim reglum varði tiltekinni refsingu fá stoð í ofangreindum lögum og er ákvæðið sem slíkt viðhlítandi refsiheimild sem unnt er að beita hafi brot verið framið gegn lögunum. Í reglum þeim, sem vísað er til í ákæru, eru hins vegar engin ákvæði er taka til þeirrar háttsemi að aka vinnuvél án þess að hafa hlotið umrædd réttindi, sbr. hins vegar 1. gr. reglugerðar nr. 121/1967 um réttindi til vinnu og meðferðar á vinnuvélum, sem numin var úr gildi 1. október 1983, er reglur nr. 198/1983 tóku gildi. Þar var ákvæði þess efnis að þeir einir mættu vinna með nánar tilgreindum vinnuvélum sem höfðu öðlast réttindi samkvæmt reglugerðinni. Refsingu verður því aðeins beitt að til þess sé heimild í settum lögum, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og að framan greinir skortir viðhlítandi refsiheimild til að beita refsingu vegna þeirrar háttsemi sem ákærði er sakaður um í máli þessu. Ber því að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu. Eftir þessum málsúrslitum ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði, þar með talda þóknun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur. Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, Arnór Barkarson, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns. 40.000 krónur.
Mál nr. 355/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til fimmtudagsins 28. september 2000 kl. 16. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2000. [...] Lögregla rannsakar nú meint brot kærðu gegn 248. eða 253. gr. almennra hegningarlaga. Kærða hefur þegar viðurkennt að hafa tekið við rúmlega 28 milljónum króna úr hendi sex roskinna karlmanna sem hún hefur lítil önnur tengsl við. Ljóst þykir að nauðsynlegt er að yfirheyra þessa karlmenn nánar um meint brot, kanna tengsl barna kærðu við sakarefnið og hvað varð af umræddum fjármunum. Rann­sóknargögn benda sterklega til að kærða kunni að hafa áhrif á vitni og mögulega samseka ef hún heldur frelsi sínu meðan rannsókn málsins er á þessu stigi. Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins er fallist á að skilyrðum um gæslu­varðhald kærðu samkvæmt a - lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 sé fullnægt. Ekki eru þó efni til að marka gæsluvarðhaldskröfunni jafn langan tíma og krafist er. Krafa Ríkislögreglustjóra um að kærða sæti gæsluvarðhaldi verður því tekin til greina, en þó þykja ekki rök til að marka gæsluvarðhaldinu lengri tíma en til mánudagsins 25. september nk. kl. 16.00. Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. ÚRSKURÐARORÐ : Kærða, X, [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. september nk. kl. 16.00.
Mál nr. 349/2000
Kærumál Innsetningargerð Útivist Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Talið var að skýra bæri kæruheimild 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til samræmis við almennar reglur um meðferð einkamála, eftir því sem við gæti átt. Samkvæmt þessu brast M, sem ekki hafði sótt þing þegar málið var tekið til úrskurðar í héraði, heimild til kæru málsins samkvæmt meginreglu 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. september sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var heimilað að fá með innsetningargerð umráð yfir tveimur börnum aðilanna, sem dveljast hjá sóknaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 2. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu varnaraðila um innsetningargerð verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991, sæta úrskurðir samkvæmt 13. kafla fyrrnefndu laganna kæru til Hæstaréttar. Með hliðsjón af 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 verður að skýra þessa heimild til kæru til samræmis við almennar reglur um meðferð einkamála eftir því, sem átt getur við, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 11. ágúst 1999 í máli nr. 301/1999. Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var beiðni varnaraðila um aðför fyrst tekin fyrir á dómþingi 8. ágúst 2000. Var þá sótt þing af hálfu beggja aðila og málinu frestað til næsta dags. Í þinghaldi 9. ágúst 2000 varð útivist af hálfu sóknaraðila. Tók héraðsdómari málið þá til úrskurðar og kvað upp samdægurs hinn kærða úrskurð. Vegna ákvæðis 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 átti sóknaraðili eftir þetta ekki aðra kosti til að fá úrskurðinum hrundið en að leita eftir endurupptöku málsins samkvæmt XXIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Brestur því heimild til kæru samkvæmt meginreglu 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sem hér verður að leggja til grundvallar. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 347/2000
Kærumál Vitni Skýrslugjöf Þinghald
Skipaður réttargæslumaður stúlkunnar B, sex ára, kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að dómþing til að taka skýrslu, sem lögreglan krafðist að B gæfi sem brotaþoli við rannsókn máls, yrði háð í Barnahúsi. Talið var að ekki væru efni til að hnekkja því mati héraðsdómara að húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem sérstaklega væri útbúið til að taka skýrslur af börnum, fullnægði kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára og markmiðum rannsóknar opinbers máls. Var úrskurður héraðsdómara því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Skipaður réttargæslumaður B skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2000, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að dómþing til að taka skýrslu, sem sóknaraðili hefur krafist að kærandi gefi sem brotaþoli við rannsókn máls, verði háð í Barnahúsi að Sólheimum 17 í Reykjavík. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka skýrslu af kæranda í Barnahúsi. Sóknaraðili og varnaraðili hafa hvorugur látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms er þess krafist af hálfu kæranda, sem er sex ára að aldri, að sérstaklega útbúin aðstaða í Barnahúsi verði nýtt við þá skýrslutöku, sem um ræðir í málinu, en hún tengist rannsókn á ætluðu broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari látið í ljós að hann telji að húsnæði í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafi sérstaklega verið útbúið til að taka skýrslur af börnum, fullnægi í hvívetna kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára og markmiðum rannsóknar opinbers máls. Eru ekki efni til að hnekkja því mati héraðsdómara. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Með beiðni Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 6. þ.m., var þess farið á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur, að skýrsla yrði tekin af sjö ára stúlku vegna gruns um brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um lagaheimild er vísað til a-liðar 1. mgr. 74 gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Boðað var til skýrslutökunnar samdægurs og skyldi hún hefjast í dag kl. 14. Í boðun kom fram, að skýrslutakan skyldi fara fram í sérútbúnu húsnæði dómsins til þess að yfirheyra börn. Þá var sérhæfður kunnáttumaður kvaddur til aðstoðar við skýrslutökuna. Tæpum þremur klukkustundum áður en skýrslutakan skyldi hefjast bárust dómara skrifleg mótmæli tilnefnds réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hrl., við að yfirheyrslan færi fram í sérútbúnu herbergi á reglulegum þingstað dómsins. Krefst réttargæslumaður brotaþola þess, að yfirheyrslan fari fram ,,í sérútbúinni yfirheyrsluaðstöðu í húsinu nr. 17 við Sólheima í Reykjavík, Barnahúsi.” Um rökstuðning fyrir kröfunni vísar réttargæslumaðurinn til þess, að fram komi í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 36/1999, 7. mgr. 59. gr., að horfa beri til þess sjónarmiðs, að skýrslutakan sé framkvæmd á þann hátt, að sem til minnstra óþæginda verði fyrir vitni. Eigi þetta ekki síst við brotaþola, sérstaklega ef hann er ungur að árum. Þá segi í athugasemdunum um sérútbúna aðstöðu í þessum tilgangi, að hún eigi að vera þannig útbúin, að börnum, sem eiga að gefa skýrslu, líði þar eins vel og kostur er. Með þessi sjónarmið um verndarhagsmuni barns og meginmarkmið nefndra lagabreytinga í huga, telji réttargæslumaður það ekki vera í anda laganna að taka hina fyrirhuguðu skýrslu af barninu í dómhúsi. Sé sérútbúna aðstaðan þar langt frá því að fullnægja þeim þörfum, sem svo ung börn hafa almennt og þá vísað til alls ytri umbúnaðar og móttöku í dómhúsinu, sem sé eingöngu hannað með fullorðið fólk í huga. Í greinargerð með kröfunni segir orðrétt: ,,Biðaðstaða er ekki góð, barnið kemst ekki hjá því að verða vart við allan þann umgang sem fylgir daglegum störfum í dómhúsi og ekki er unnt að tryggja að barnið hitti ekki sakborning ef hann er viðstaddur yfirheyrsluna. Þá er salernisaðstaða afleit. Hins vegar er vísað til þess, að sjálft yfirheyrsluherbergið er stórt og þar eru bæði spegill andspænis sæti vitnisins og sýnileg upptökuvél. Er það almennt til þess fallið að hamla einbeitingu og athygli ungra barna, og kann einnig að verka fráhrindandi og ógnvekjandi fyrir þau. Við slíkar aðstæður, sem eru afar framandi fyrir lítið barn, er rík hætta á að spenna og kvíði leiði til lakari skýrslu og óáreiðanlegri, auk þess að valda barninu vanlíðan og óþarfa óþægindum.” Þá segir í greinargerðinni, að aðstaðan í Barnahúsi fullnægi hins vegar í öllu tilliti þeim skilyrðum, sem sett eru í slíkri sérútbúinni aðstöðu í reglugerð nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Er mælst til þess, að dómari gangi á vettvang, áður en hann tekur ákvörðun um kröfu brotaþola, hafi hann ekki þegar gert það. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19/1991 skulu dómþing haldin á reglulegum þingstöðum og dómsölum, ef kostur er. Hins vegar kemur fram í 4. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára, sem sett var með heimild í 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, að skýrslutaka skuli að jafnaði fara fram annars staðar en í dómsal, þegar um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nema brot sé smávægilegt og dómari telji hagsmunum barnsins borgið þótt skýrslutaka fari fram með venjulegum hætti. Þá segir í 5. gr. reglugerðarinnar, að þegar skýrslur eru teknar annars staðar en í dómsal skuli það gert í í sérútbúnu húsnæði, ef þess er nokkur kostur. Í Dómhúsinu við Lækjartorg hefur verið útbúið sérstakt hliðarherbergi, þar sem skýrslutökur af börnum fara að jafnaði fram. Er herbergið með húsbúnaði, lýsingu og öðrum búnaði, sem valinn var sérstaklega af arkitekt í samráði við sálfræðing barnaverndarnefndar Reykjavíkur með tilliti til þess, að herbergið gæti sem best þjónað þeim tilgangi, sem því er ætlað. Er aðstaða góð til að fylgjast með skýrslutökunni gegnum gler, án þess að barnið verði fyrir truflunum, þar eð ekki sést gegnum það úr hliðarherberginu. Þá er tækjabúnaður til myndbands- og hljóðupptöku mjög góður. Ákveðið verklag er haft varðandi umferð um dómhúsið, þegar skýrslutaka fer fram. Í því sambandi er meðal annars gert ráð fyrir, að foreldri eða einhver aðstandandi fylgi barni til dómhússins, en réttargæslumaður taki á móti þeim í anddyri, Austurstrætis- eða bakdyramegin, og fylgi þeim upp á fjórðu hæð hússins, þar sem hin sérútbúna aðstaða er. Þegar þangað er komið læsir dómvörður dyrum út að stigagangi. Barn, aðstandandi þess og réttargæslumaður þess hafa aðstöðu í sérstöku herbergi á ganginum. Tekið skal fram af gefnu tilefni, að góð salernisaðstaða er á hæðinni, yfirheyrsluherbergi er lítið og gerðar eru ráðstafanir til að sakborningur hitti ekki brotaþola, ef hinn fyrrnefndi kýs á annað borð að vera viðstaddur skýrslutöku. Þá hefur dómarinn kynnt sér aðstöðuna í Barnahúsi og annast skýrslutökur þar, áður en sérútbúinni aðstöðu til skýrslutöku af börnum var komið upp hér í dómi. Af 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19/1991 leiðir, að dómþing skal halda á reglulegum þingstað, ef þess er kostur. Samkvæmt framansögðu hefur verið komið upp sérútbúnu húsnæði í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem að mati dómara fullnægir í hvívetna kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 og markmiðum sakamálarannsóknar. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu réttargæslumanns brotaþola um, að skýrslutakan fari fram utan reglulegs þingstaðar dómsins. Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Úrskurðarorð: Kröfu Sifjar Konráðsdóttur hrl. um, að skýrslutaka í máli þessu fari fram í Barnahúsi, er hafnað.
Mál nr. 345/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími varðhaldsins lengdur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 26. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 7. september 2000. Hann krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til fimmtudagsins 5. október 2000 kl. 16. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Í ljósi umfangs málsins eru ekki efni til annars en að verða við kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhaldsins, sem verður því markaður tími eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. október 2000 kl. 16.
Mál nr. 341/2000
Kærumál Gagnaöflun Ölvunarakstur
G var ákærður fyrir ölvunarakstur. Reyndist vínandamagn í blóðsýni vera 1,51‰. Fyrir héraðsdómi neitaði G sök og óskaði eftir því að rannsókn á vínandamagni í blóðsýni yrði endurtekin. Var orðið við þeirri ósk og sýndi ný rannsókn sömu niðurstöðu og sú fyrri. Óskaði G þá eftir því að gerð yrði DNA rannsókn á blóðsýninu til að staðreyna hvort það væri úr honum. Héraðsdómari varð ekki við beiðni G og kærði hann ákvörðunina. Talið var að ekki væru efni til að hnekkja mati héraðsdómara um að frekari rannsókn væri ekki nauðsynleg til skýringa á málinu, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Var ákvörðun hans því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. september sl. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2000, þar sem héraðsdómari hafnaði að beina til sóknaraðila samkvæmt kröfu varnaraðila að fram færi DNA rannsókn á blóðsýni úr varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að leggja fyrir sóknaraðila að láta umrædda rannsókn fara fram. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. I. Samkvæmt gögnum málsins var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt síðdegis 5. desember 1999 að hugsanlegt væri að ökumaður nánar tiltekinnar bifreiðar, sem væri á leið suður Lönguhlíð í Reykjavík í átt að Miklubraut, væri ölvaður. Fóru lögreglumenn á vettvang og komu að bifreiðinni, þar sem henni hafði verið lagt í húsagötu við Miklubraut. Reyndist ökumaður hennar vera varnaraðili. Samkvæmt lögregluskýrslu lagði talsverðan áfengisþef frá varnaraðila, sem var látinn „blása í áfengistest sem sýndi 3. stig.“ Var varnaraðili í kjölfarið færður fyrir lögregluvarðstjóra. Um handtöku varnaraðila voru skráðar upplýsingar á þar til gerðu eyðublaði. Var þar meðal annars fært í viðeigandi reiti að sjáöldur væru útvíkkuð, jafnvægi væri stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt, en um nánari lýsingu á ástandi sagði að varnaraðili væri sjáanlega ölvaður. Hafði varnaraðili símsamband við lögmann af lögreglustöðinni, en var síðan færður til blóðsýnistöku. Að henni lokinni fór hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt álitsgerð Rannsóknastofu í lyfjafræði 8. desember 1999 reyndist vínandamagn í blóðsýni vera 1,51 o/oo. Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út ákæru 4. apríl 2000 á hendur varnaraðila, þar sem honum var gefið að sök að hafa með akstri sínum umrætt sinn brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Málið var þingfest 10. maí 2000. Ákærði kom þá fyrir dóm, honum var skipaður verjandi og neitaði hann sakargiftum. Í þinghaldi í málinu 24. sama mánaðar óskaði verjandi eftir að rannsókn á vínandamagni í blóðsýni yrði endurtekin og var orðið við þeirri ósk. Ný álitsgerð Rannsóknastofu í lyfjafræði var fengin 8. júní 2000 og komist þar að sömu niðurstöðu og í áðurnefndri álitsgerð um vínandamagn í blóðsýni. Var nýja álitsgerðin lögð fram á dómþingi 3. júlí 2000 og kom þá fram ósk varnaraðila um að gerð yrði DNA rannsókn á umræddu blóðsýni til að staðreyna hvort það væri úr honum. Ósk þessi var ítrekuð þegar málið var næst tekið fyrir á dómþingi 31. ágúst 2000. Var þá fært til bókar að sóknaraðili teldi gögn málsins ekki gefa tilefni til slíkrar rannsóknar, sem hann myndi því ekki hlutast til um. Krafðist þá verjandi varnaraðila þess að héraðsdómarinn beindi því til sóknaraðila með vísan til 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 að láta rannsóknina fara fram. Tók dómarinn þá afstöðu til kröfunnar að hann teldi ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til rannsóknarinnar og myndi hann því ekki „beina slíkri áskorun til ákæranda“, eins og segir í endurriti úr þingbók. Er þetta hin kærða ákvörðun. II. Eins og áður greinir neitaði sóknaraðili á dómþingi 31. ágúst 2000 að verða við ósk varnaraðila um að ákæruvaldið hlutist til um DNA rannsókn á blóðsýninu, sem um ræðir í málinu. Með þessu hefur sóknaraðili fyrir sitt leyti markað málinu þá stefnu að úrlausn um sakargiftir á hendur varnaraðila megi ráðast af mati dómara á því hvort nægilega sé sannað að fyrirliggjandi mæling á vínandamagni hafi verið gerð á blóðsýni úr varnaraðila, án þess að umrædd rannsókn fari fram á sýninu. Úr þessu verður héraðsdómari að leysa með tilliti til ákvæða 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Með hinni kærðu ákvörðun hefur héraðsdómari látið í ljós að hann telji ekki á þessu stigi frekari rannsókn nauðsynlega til skýringar á málinu, sbr. 3. mgr. 128. gr. sömu laga. Eru engin efni til að hnekkja því mati. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest. Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, eins og þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999. Dómsorð: Hin kærða ákvörðun er staðfest. Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2000. Fyrir er tekið: Sakamálið nr. 637/2000: Ákæruvaldið gegn Gunnlaugi Viðari Sigurmundssyni Af hálfu ákæruvaldsins sækir þing Sturla Þórðarson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Ákærði Gunnlaugur Viðar Sigurmundson, kt. 090152-4679, Miklubraut 78, Reykjavík er mættur og með honum Tryggvi Agnarsson hdl., skipaður verjandi hans. Verjandi ákærða ítrekar ósk sína um að fram fari DNA rannsókn á blóðsýni úr ákærða og blóðsýni því, sem lagt hefur verið til grundvallar í máli þessu, til að staðreyna hvort það sé úr ákærða. Hann óskar jafnframt eftir því að ákærandi hlutist til um rannsókn þessa. Fulltrúi ákæruvaldsins kveður gögn málsins ekki gefa tilefni til þess að fyrrgreind DNA-rannsókn fari fram og lýsir því yfir að ákærandi muni ekki óska eftir slíkri rannsókn. Verjandi óskar þá eftir að dómari beini því til ákæranda að hlutast til um rannsókn þessa, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Dómari lýsir því yfir að hann telji ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til þess og muni hann því ekki beina slíkri áskorun til ákæranda. Verjandi lýsir því yfir að hann kæri ákvörðun dómara til Hæstaréttar í því skyni að hún verði felld úr gildi og dómara verði gert skylt að beina því til ákæranda að það hlutist til um umbeðna DNA rannsókn, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Málinu er frestað þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í málinu.
Mál nr. 344/2000
Kærumál Nálgunarbann
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem honum var gert að sæta nálgunarbanni sam­kvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, þannig að honum var í sex mánuði óheimilt að koma á nánar afmarkað svæði, veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í beinu og milliliðalausu sambandi við fyrrverandi eiginkonu sína, dóttur hennar og sambýlismann. Var úrskurðurinn staðfestur með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2000, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbannið verði aðeins látið ná til heimilis og/eða starfstöðvar þriggja nafngreindra manna að ... í Kópavogi, svo og að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst varnaraðili þess að sakarkostnaður á báðum dómstigum verði lagður á ríkissjóð. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 20.000 krónur.
Mál nr. 305/2000
Kærumál Dómari Vanhæfi
M og K höfðuðu mál gegn sveitarfélaginu A og kröfðust þess að felldir yrðu úr gildi úrskurðir barnaverndarnefndar A og Barnaverndarráðs þess efnis að þau væru svipt forsjá barnsins D og að þeim yrði falin forsjá barnsins að nýju. Krafðist A þess að héraðsdómari viki sæti í málinu þar sem hann hefði verið einn þriggja dómara í sakamáli þar sem M hefði verið sýknaður af ákæru um háttsemi þá sem úrskurðir barnaverndarnefndar og Barnaverndarráðs hefðu að hluta verið byggðir á. Staðfestur var úrskurður héraðsdómara um að hafna kröfu A, enda var ekki talið að sýnt hefði verið fram á nein atvik, sem valdið gætu því að héraðsdómarinn yrði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. ágúst sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 20. júlí 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að víkja sæti í málinu. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á nein atvik, sem valdið geta að héraðsdómarinn verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. Hinn 25. janúar 2000 var í barnaverndarnefnd (Æskulýðs- og félagsmálaráði) A kveðinn upp úrskurður um að stefnendur í þessu máli væru svipt forsjá dóttur sinnar, D, f. 1990. Barnaverndarráð staðfesti þennan úrskurð með úrskurði uppkveðnum 26. apríl 2000. Í máli þessu krefjast stefnendur þess að báðir þessir úrskurðir verði felldir úr gildi og stefnendum að nýju falin forsjá dóttur sinnar, D Á dómþingi sl. mánudag, 17. júlí, var þess krafist af hálfu stefnda að dómarinn Finnur Torfi Hjörleifsson viki sæti í máli þessu. Af hálfu stefnenda var kröfunni mótmælt. Málið var þá flutt um þessa kröfu og tekið til úrskurðar. Lögmaður stefnda rökstuddi kröfuna um að dómari viki sæti með því að hann hefði verið einn þriggja dómenda í málinu nr. S-[...]/1999, ákæruvaldið gegn M, en þar hefði stefnandi, M, verið sýknaður af þeirri sömu háttsemi og úrskurður barnaverndarnefndar A og Barnaverndarráðs væri að hluta byggður á. Ekki verði séð að óhlutdræg málsmeðferð verði óvefengjanlega tryggð, ef Finnur Torfi Hjörleifsson situr sem dómari í málinu. Um lagarök vísar lögmaður stefnda til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 og til 6. gr. mannréttindasáttmál Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í stefnu segir að aðalmálsástæður stefnenda séu þær að lagaskilyrðum hafi ekki verið fullnægt til að kveða upp úrskurð um forsjársviptingu. Vakti lögmaður stefnenda athygli á þessu, þegar hún mótmælti kröfunni um að dómari viki sæti. Í stefnu er því haldið fram að rannsóknarskyldu hafi ekki verið fullnægt og ekki gætt meðalhófsreglu og einnig að niðurstaðan í heild hafi verið andstæð hagsmunum barnsins. Mál það sem hér er til meðferðar og sakamálið nr. S-[...]/1999 eru tvö aðskilin og ólík mál. Í greinargerð stefnda er að nokkru gerð grein fyrir þess, en þar er því haldið fram að sakarmat það sem gildir í sakamálum gildi ekki í einkamálum, og síst í barnaverndarmálum. Að því athuguðu, sem hér er skráð, verður ekki séð að fallast megi á rök stefnda fyrir því að dómarinn víki sæti. Fær dómarinn ekki séð að meðferð hans sem eins þriggja dómenda (dómsformanns) á málinu nr. S-[...]/1999 geti leitt til vanhæfi hans í þessu máli, enda þótt rétt væri að úrskurður barnaverndarnefndar A og síðar Barnaverndarráðs sé að einhverju leyti byggður á þeirri háttsemi, sem stefnandi, M, var sýknaður af í sakamálinu. Ekki hefur verið á neitt það bent sem verið gæti ástæða til að draga í efa hlutlægni dómarans eða óvilhalla málsmeðferð. Verður því hafnað kröfu stefnda um að dómarinn víki sæti. Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Hafnað er kröfu stefnda um að Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari víki sæti í máli þessu.
Mál nr. 292/2000
Kærumál Dómkvaðning matsmanns
Þ og G höfðuðu mál gegn Í og F og kröfðust skaðabóta og viðurkenningar á því að Í og F væri óheimilt að nota ættfræðigrunna, sem unnir hefðu verið í samvinnu við Þ og G. Undir rekstri málsins lögðu Þ og G fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að meta hvernig Í og F hefðu staðið að gerð ættfræðigrunns. Í og F mótmæltu beiðninni, en héraðsdómari féllst á dómkvaðningu matsmanna. Talið var að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 ætti aðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli sönnunargögn, sem hann teldi málstað sínum til framdráttar. Þá var talið að þótt leitað væri eftir áliti matsmanna á atriðum, sem vörðuðu lagalega þætti, bindi niðurstaða matsgerðar í engu dómara eða takmarkaði svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá var einnig talið að Þ og G yrðu að bera halla af því að matsgerð, sem unnin væri eingöngu eftir ábendingum þeirra, teldist af þeim sökum ekki hafa viðhlítandi sönnunargildi við úrlausn málsins. Var því staðfest niðurstaða héraðsdómara um að dómkveðja ætti matsmenn samvkæmt beiðni Þ og G.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2000, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að nefndri beiðni varnaraðila verði hafnað og þeim gert að greiða kærumálskostnað. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða kærumálskostnað. I. Varnaraðilar höfðuðu mál á hendur sóknaraðilum með stefnu 11. janúar 2000, þar sem krafist var að viðurkennt yrði með dómi að sóknaraðilum væri óheimilt, saman eða hvorum um sig, að nota með nokkrum hætti ættfræðigrunna, sem hafi verið unnir í samvinnu varnaraðila, hvort sem er með eigin notum sóknaraðila eða með því að gera öðrum kleift að nota þá, svo og að sóknaraðilar yrðu dæmdir til að greiða varnaraðilanum Genealogia Islandorum hf. skaðabætur að fjárhæð 293.125.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 13. janúar 2000. Sóknaraðilar tóku til varna í málinu og krefjast þar sýknu af kröfum varnaraðila. Undir rekstri málsins lögðu varnaraðilar í sameiningu fram á dómþingi 27. júní 2000 beiðni um dómkvaðningu tveggja manna til að meta hvernig sóknaraðilar „hafi saman eða hvor um sig staðið að gerð ættfræðigrunns/ættfræðigrunna (stundum nefndur Íslendingabók).“ Í beiðninni var gerð nánari grein fyrir því, sem meta ætti, með svofelldum hætti: „Þess er óskað að matsmenn kynni sér til hlítar þann stafræna gagnagrunn, einn eða fleiri, sem matsþolar hafa kynnt almenningi undir heitinu Íslendingabók og er í vörslum og umráðum matsþola, annars eða beggja. Matsmenn skulu einkum leitast við að kynna sér hvort ráðið verður af Íslendingabók á hvern hátt hún er til orðin og lýsa því í matsgerð. Einkum er þess óskað að matsmenn geri grein fyrir því hvort unnt er að komast að því með skoðun og samanburði hvort Íslendingabók hefur orðið til með þeim hætti aðallega að aðstandendur hennar hafi leitað í útgefin ættfræðirit og lagt þau til grundvallar verki sínu eða hvort þeir hafi aðallega leitað sjálfstætt í frumheimildir þær sem hafa að geyma þær upplýsingar sem ættfræðingar almennt leita til í því skyni að semja ættfræðiverk (kirkjubækur, dómabækur, manntalsgögn, síðari tíma skráningar Hagstofu Íslands o.fl.) og unnið úr þeim frumheimildum með aðferðum ættfræðinnar þannig að úr hafi orðið heilsteypt sjálfstætt verk, óháð útgefnum ættfræðiritum.“ Sagði síðan í matsbeiðni að varnaraðilar teldu unnt að sjá þetta meðal annars með samanburði á niðjatali í Íslendingabók við annars vegar útgefið niðjatal, sem þeir eða aðrir ættu höfundarrétt að, og hins vegar við niðjatal, sem til væri í handriti, með samanburði á ábúendatali í sömu gögnum, með samanburði á annars vegar eldra útgefnu ættfræðiriti og hins vegar nýuppfærðu handriti um sömu ætt við það, sem kynni að finnast í Íslendingabók um sömu ætt, með samanburði á annars vegar viðurkenndum villum í útgefnum ritum varnaraðila og hins vegar leiðréttum handritum um sömu ættir við það, sem kynni að finnast í Íslendingabók, og með því að kynna sér hvort í Íslendingabók væri einkum að finna upplýsingar um ættir og landsvæði, sem þegar liggja fyrir útgefin rit um. Í matsbeiðni var hvert þessara atriða skýrt nánar. Sóknaraðilar lögðu fram á dómþingi í héraði 30. júní 2000 skrifleg mótmæli gegn beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Voru mótmæli þeirra rökstudd annars vegar með því að í beiðninni væri óskað eftir mati á atriðum, sem ættu undir mat dómara samkvæmt ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, þar sem í matsbeiðni væri í reynd verið að leggja í hendur matsmanna að meta og gera greinarmun á því hvar mörk höfundarréttar liggi, en með réttu ætti undir dómara að meta þetta og hvar skil lægju milli heimillar og óheimillar notkunar á útgefnum ættfræðiritum. Hins vegar reistu sóknaraðilar mótmæli sín á því að í beiðni varnaraðila væri matsmönnum á nánar tiltekinn hátt lagðar leiðandi línur um framkvæmd mats og þeim gefnar leiðandi forsendur. Með hinum kærða úrskurði var þessum mótmælum sóknaraðila hrundið. II. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 á aðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli sönnunargögn, sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt umfram það, sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Þótt þess gæti í matsbeiðni varnaraðila að leitað sé eftir áliti matsmanna á atriðum, sem varða lagalega þætti í máli þeirra við sóknaraðila, myndi niðurstaða í matsgerð um slík atriði engan veginn binda dómara eða takmarka svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Verður og að fallast á með varnaraðilum að þær ábendingar, sem þeir setja fram í matsbeiðni um hvernig framkvæma mætti matsstörf, skerði ekki frelsi matsmanna til ákvörðunar í þeim efnum. Verður í því sambandi heldur ekki litið fram hjá því að varnaraðilar yrðu að bera halla af því að matsgerð, sem unnin væri eingöngu eftir ábendingum þeirra, teldist af þeim sökum ekki hafa viðhlítandi sönnunargildi við úrlausn máls þeirra við sóknaraðila. Að öllu þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að dómkveðja beri matsmenn samkvæmt beiðni varnaraðila. Sóknaraðilum verður gert í sameiningu að greiða hvorum varnaraðila um sig kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, Íslensk erfðagreining ehf. og Friðrik Skúlason ehf., greiði í sameiningu varnaraðilum, Þorsteini Jónssyni og Genealogia Islandorum hf., hvorum um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 253/2000
Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
B höfðaði mál gegn R og íslenska ríkinu til ógildingar á samkomulagi um skaðabótagreiðslur íslenska ríkisins til sonar hans A. Var málinu vísað frá héraðsdómi á grundvelli þess að B væri ekki forsjáraðili A og því brysti hann heimild til að reka málið. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2000, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 24. sama mánaðar, en með úrskurðinum var máli hans á hendur varnaraðilum vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði með dómi að Björn Baldursson sé forsjárforeldri Aðalsteins Bjarna Björnssonar ásamt móður hans, varnaraðilanum Rut Skúladóttur, svo og að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar. Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 282/2000
Kærumál Félagsslit Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
Einkahlutafélagið S höfðaði mál á hendur einkahlutafélaginu G og krafðist viðurkenningar á lýstri kröfu félagsins við félagsslit G. Talið var að kröfur S væru svo vanreifaðar að ekki yrði komist hjá því að vísa málinu frá dómi og var frávísunarúrskurður héraðsdómara því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000, þar sem vísað var frá dómi máli um viðurkenningu á lýstri kröfu sóknaraðila við félagsslit varnaraðila. Kæruheimild er í 2. mgr. 90. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Varnaraðili krefst staðfestingar á úrskurði héraðsdómara um annað en málskostnað, sem verði ákveðinn í einu lagi vegna rekstrar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á með héraðsdómara að kröfur sóknaraðila séu svo vanreifaðar að ekki verði komist hjá að vísa málinu frá dómi. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Stétt ehf., greiði varnaraðila, Gangstétt ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 287/2000
Kærumál Málskostnaðartrygging
H höfðaði mál gegn Þ og HB. Kröfðust Þ og HB þess að H yrði gert að setja málskostnaðartryggingu, með vísan til b.liðar 1. tl. 133. gr. laga nr. 91/1991. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu Þ og HB, þar sem H hefði sýnt fram á að hann væri fær um að greiða málskostnað, sem á hann kynni að falla við málssókn hans á hendur Þ og HB.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert í máli sínu á hendur þeim að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu og greiða kærumálskostnað. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 263/2000
Kærumál Dánarbússkipti Dánargjöf
Dánarbú H krafði HV um endurgreiðslu á uppgreiðsluverði tveggja lána sem H hafði tekið og afhent síðan HV. Ekki lágu fyrir skjalfestar upplýsingar um hvort að um hefði verið að ræða lán, lífsgjöf eða dánargjöf, en HV kvaðst hafa skuldbundið sig til að aðstoða H við greiðslu afborgana af eldra skuldabréfinu. Talið var að með því að HV hefði verið skuldbundin á þennan hátt að minnsta kosti svo lengi sem H lifði gæti gjöfin, sem kynni að hafa falist í gerðum hennar, ekki komið til framkvæmdar fyrr en að henni látinni og var talið að það sama gilti um yngra skuldabréfið. Þar sem erfðaskrá hefði ekki verið gerð um ráðstöfun umræddra fjármuna að gjöf, sbr. 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962, bæri HV að endurgreiða dánarbúi H sem svaraði uppgreiðsluverði lánanna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2000, þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 2.719.893 krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst sýknu af kröfu varnaraðila auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað. I. Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði lést Hildur Halldórsdóttir, sem síðast var til heimilis að Sléttuvegi 15 í Reykjavík, hinn 24. febrúar 1999. Dánarbú hennar var tekið til opinberra skipta 8. október 1999, en áður höfðu erfingjar eftir hana, sem nánar er getið hér á eftir, fengið leyfi til einkaskipta 8. mars sama árs. Hildur var fædd 1. janúar 1915 og ekkja eftir Sigurð S. Kristjánsson, sem lést á árinu 1993. Þau hjón voru barnlaus og tók Hildur allan arf eftir Sigurð við skipti á dánarbúi hans, sem mun hafa lokið 21. apríl 1993. Hildur átti hins vegar tvö börn, Agnar Breiðfjörð Kristjánsson og Maríu Kristjánsdóttur, sem fædd voru fyrir hjúskap hennar og Sigurðar og ólust upp hjá fósturforeldrum. Eru þau einu lögerfingjar Hildar. Hildur gerði erfðaskrá 5. ágúst 1994, þar sem hún mælti svo fyrir að sóknaraðili, sem var systurdóttir hennar, fengi að arfi þriðjung allra eigna hennar eða hærra hlutfall ef lagareglum um arfleiðsluheimild yrði breytt. Var tekið fram að þessi ráðstöfun væri gerð vegna aðstoðar og stuðnings, sem sóknaraðili hefði veitt Hildi eftir fráfall eiginmanns hennar. Að öðru leyti var í erfðaskránni kveðið á um ráðstöfun nánar tiltekinna innbúsmuna, sem varða ekki ágreiningsefni þessa máls. Erfðaskráin var gerð fyrir arfleiðsluvottum og er hún í engu vefengd í málinu. Hinn 2. september 1994 gaf Hildur út skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð 2.000.000 krónur, sem tryggt var með veði í íbúð hennar að Sléttuvegi 15. Átti skuldin að endurgreiðast á fimm árum með níu jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 31. ágúst 1995. Lánsféð, sem að frádregnum kostnaði nam 1.957.570 krónum, var lagt inn á reikning Hildar við bankann 6. september 1994. Aftur gaf Hildur út skuldabréf sömu fjárhæðar til Búnaðarbanka Íslands hf. 24. ágúst 1998. Skuldin var tryggð með veði í fyrrnefndri íbúð Hildar og átti að greiðast með sex jöfnum árlegum afborgunum, í fyrsta sinn 24. ágúst 1999. Andvirði skuldabréfsins, 1.913.607,30 krónur, var lagt á bankareikning Hildar 2. september 1998. Óumdeilt er að sóknaraðili fékk andvirði beggja umræddra skuldabréfa í hendur. Í málinu er á hinn bóginn deilt um hvort Hildur hafi látið sóknaraðila fá þetta fé að láni, afhent henni það að lífsgjöf eða ætlað henni það sem dánargjöf, en um þessar ráðstafanir var ekkert skjalfest. Við andlát Hildar höfðu verið greiddar sjö af níu afborgunum af eldra skuldabréfinu og kveðst sóknaraðili sjálf hafa greitt þrjár, en tekið fé af bankareikningum Hildar samkvæmt fyrirmælum hennar til að greiða hinar fjórar. Varnaraðili greiddi eftirstöðvar skuldabréfsins 8. júlí 1999 með 522.860,80 krónum. Fyrsta afborgun af yngra skuldabréfinu var ekki komin í gjalddaga við lát Hildar og greiddi varnaraðili skuldina upp samtímis eldra skuldabréfinu með 2.197.032,20 krónum. Í málinu krefur varnaraðili sóknaraðila um endurgreiðslu samtölu þessara fjárhæða eða á 2.719.893 krónum með dráttarvöxtum frá 8. ágúst 1999. II. Í skattframtölum Hildar Halldórsdóttur, sem liggja fyrir í málinu, var getið um áðurnefndar skuldir hennar við Búnaðarbanka Íslands og síðar samnefnt hlutafélag. Hvorki var þar greint frá skuld sóknaraðila við Hildi né að sóknaraðili hefði fengið fyrrgreindar fjárhæðir að gjöf frá henni. Gegnir sama máli um fyrirliggjandi skattframtöl sóknaraðila. Í bréfi, sem lögmaður sóknaraðila ritaði 9. júlí 1999 til lögmanns lögerfingja Hildar, sagði meðal annars eftirfarandi varðandi áðurnefnt skuldabréf frá 2. september 1994: „Andvirði þess var lagt inn á bankabók á nafni Hildar. Hildur afhenti síðan Hallfríði andvirðið til ráðstöfunar, eins og áður hefur komið fram, þó þannig að á meðan Hildur væri á lífi greiddi Hallfríður afborganir lánsins af andvirðinu.“ Sóknaraðili hefur síðar í málatilbúnaði sínum dregið úr þessari staðhæfingu og lýst því að hún hafi sjálf sett það skilyrði fyrir viðtöku fjárins að hún fengi að aðstoða Hildi við að greiða afborganir af skuldabréfinu þannig að þær kæmu aldrei illa við hana. Hvort sem sóknaraðili skuldbatt sig við Hildi til að greiða afborganir af skuldabréfinu með öllu eða aðeins ef nauðsyn bæri til, veldur það því að ekki er unnt að líta svo á að Hildur hafi afhent sóknaraðila andvirði eldra skuldabréfsins að gjöf þegar á árinu 1994. Með því að sóknaraðili var skuldbundin á þennan hátt að minnsta kosti svo lengi sem Hildur lifði gat gjöf, sem kann að hafa falist í gerðum hennar, ekki komið til framkvæmdar fyrr en að henni látinni. Þar sem ekkert hefur komið fram, sem bendir til annars, verður að líta svo á að sams konar skuldbinding hafi einnig tekið til andvirðis skuldabréfsins frá 24. ágúst 1998. Erfðaskrá var ekki gerð um ráðstöfun umræddra fjármuna að gjöf, svo sem nauðsyn hefði borið til samkvæmt 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Verður því að taka til greina kröfu varnaraðila um endurgreiðslu úr hendi sóknaraðila. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 268/2000
Kærumál Niðurfelling máls
G höfðaði mál gegn H. Krafðist H þess að málinu yrði vísað frá dómi og var sú krafa tekin til greina að hluta. Í næsta þinghaldi, sem boðað hafði verið til að lokinni uppkvaðningu úrskurðar um frávísun málsins að hluta, var ekki mætt af hálfu G og engin forföll boðuð. Kvað héraðsdómari þá upp úrskurð þar sem málið var fellt niður og G gert að greiða H málskostnað. G kærði úrskurðinn og taldi að jafna mætti ástæðu fyrir fjarveru lögmanns hans í þinghaldinu til lögmætra forfalla, en lögmaðurinn hafði ranglega fært í dagbók sína um dagsetningu þinghaldsins. Talið var að ástæða fjarveru lögmanns G gæti hvorki talist til lögmætra forfalla í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 né yrði henni jafnað til slíkra forfalla. Því hefði héraðsdómara verið rétt að fella málið þegar niður, sbr. b. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, og taka til greina kröfu H um málskostnað. Var úrskurður héraðsdómara um frávísun málsins og greiðslu málskostnaðar staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að boða að nýju til þinghalds í málinu, en til vara að málskostnaður í héraði verði felldur niður eða lækkaður. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili höfðaði málið á hendur varnaraðila 24. febrúar 2000. Varnaraðili tók til varna og krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Málið var munnlega flutt um þá kröfu 16. júní 2000. Hinn 22. sama mánaðar kvað héraðsdómari upp úrskurð að viðstöddum lögmönnum aðilanna, þar sem málinu var að hluta vísað frá dómi. Í lok þinghaldsins var fært til bókar að það yrði næst tekið fyrir á dómþingi 28. júní 2000 kl. 9.30. Í þinghaldi þann dag var ekki mætt af hálfu sóknaraðila og engin forföll boðuð. Kvað þá héraðsdómari upp hinn kærða úrskurð, þar sem málið var fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 75.000 krónur í málskostnað. Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er sú skýring gefin á fjarveru lögmanns hans í héraði á dómþingi 28. júní 2000 að lögmaðurinn hafi ranglega fært í dagbók sína að þinghaldið yrði háð hinn 29. þess mánaðar kl. 9.30. Lögmaðurinn hafi komist að mistökum sínum um kl. 9.50 að morgni þess 28. og tafarlaust átt símtal við héraðsdómarann, sem þá hafði tekið málið til úrskurðar. Í kærunni kemur og fram að lögmaður varnaraðila hafi í þinghaldinu lagt til við héraðsdómarann að hringt yrði til lögmanns sóknaraðila til að kanna hvað ylli fjarvist þess síðastnefnda, en til þess hafi dómarinn ekki séð ástæðu. Lögmaður varnaraðila hafi ekki óskað sérstaklega eftir því að málið yrði fellt niður, en þegar ljóst hafi orðið að héraðsdómarinn hygðist fara á þann hátt með málið hafi lögmaðurinn gert kröfu um málskostnað. Telur sóknaraðili að jafna megi ástæðu fyrir fjarveru lögmanns hans í þinghaldinu til lögmætra forfalla samkvæmt ákvæði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Ef haft hefði verið samband við lögmanninn, eins og lögmaður varnaraðila hafi verið tilbúinn til að gera, hefðu mistök þess fyrrnefnda þegar komið í ljós og þá verið unnt að fresta málinu. Varakröfu sína styður sóknaraðili einkum við þau rök að eins og málið sé vaxið sé eðlilegt að hvor aðili beri sinn kostnað af því, en í því sambandi megi líta til þess að varnaraðili hafi fyrr undir rekstri málsins gert kröfu um frávísun þess, sem hafi að mestu verið hafnað. Áðurgreind ástæða fyrir fjarveru lögmanns sóknaraðila í þinghaldi 28. júní 2000 getur hvorki talist til lögmætra forfalla í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 né verður henni jafnað til slíkra forfalla. Héraðsdómara var því ótvírætt rétt að fella málið þegar niður, sbr. b. lið 1. mgr. 105. gr. sömu laga, og gat þar engu breytt hugsanleg afstaða lögmanns varnaraðila, sem ekkert liggur reyndar fyrir um í málinu annað en frásögn sóknaraðila. Engin efni voru til annars en að verða við kröfu varnaraðila um málskostnað og er fjárhæð hans hæfilega ákveðin í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 299/2000
Kærumál Nauðungarsala Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Kærumáli var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem skilyrði 3. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 fyrir kæru úrskurðar héraðsdóms var ekki fullnægt, en samanlögð fjárhæð krafna náði ekki áfrýjunarfjárhæð, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. júlí 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 5. júní 2000 um að óbreytt skyldi standa frumvarp til úthlutunar á söluverði sumarbústaðar á lóð nr. 15 í landi Öndverðarness I í Grímsnes- og Grafningshreppi ásamt tilheyrandi lóðarréttindum. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til 79. gr., sbr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þeir krefjast þess að ákvörðun sýslumanns verði breytt á þann veg að þeir fái úthlutað af söluverðinu annars vegar 92.449 krónum samkvæmt kröfulýsingu 4. apríl 2000 og hins vegar 143.578 krónum samkvæmt kröfulýsingu 6. sama mánaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 er það skilyrði fyrir kæru úrskurðar um það efni, sem mál þetta varðar, að fullnægt sé almennum skilyrðum til að áfrýja dómi í einkamáli. Samanlögð fjárhæð krafna sóknaraðila, sem þeir leitast við að fá greiddar af söluverði áðurnefndrar fasteignar, nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994. Verður málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður. Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. júlí 2000. Mál þetta var þingfest hinn 21. júní sl., en tekið til úrskurðar í dag. Sóknaraðilar eru Múrarafélag Reykjavíkur, kt. 470269-7580 og Múrarameistarafélag Reykjavíkur, kt. 470269-1899, en varnaraðili er Ólafur Óskar Einarsson, kt. 171047-5609. Með bréfi Gunnars Sæmundssonar, hrl., lögmanns sóknaraðila, dagsettu 7. júní sl., en mótteknu af dóminum degi síðar, kröfðust sóknaraðilar, að ákvörðun Sýslumannsins á Selfossi um úthlutun, nauðungarsöluverðs fasteignarinnar, sumarhús nr. 15 í landi Öndverðarness I í Grímsnesi, er varðar kröfur skv. uppboðsskjölum nr. 24 og 26, verði hnekkt og úrskurðað verði, að kröfur sóknaraðila skv. kröfulýsingum á uppboðsskjölum nr. 24 og 26 skuli teknar til greina við úthlutun uppboðsverðs, að því leyti sem það hrekkur til. Af hálfu varnaraðila hefur því verið lýst yfir að varnaraðili geri ekki sérstakar kröfur í máli þessu og leggi það í mat dómsins hvort kröfur sóknaraðila séu réttmætar. Þá hefur Sýslumaðurinn á Selfossi hefur sent dómara athugasemdir um málefnið. Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir helstir að að sóknaraðilar lögðu fram beiðni um nauðungarsölu á fasteign varnaraðila, sumarhúsi nr. 15 í landi Öndverðarness í Grímsnesi, dags. 5. nóvember 1999. Var beiðnin á grundvelli aðfarargerðar á hendur varnaraðila dags. 21. september 1998. Hinn 11. janúar sl. var krafan tekin fyrir hjá Sýslumanninum á Selfossi. Fyrsta uppboðið fór svo fram á sama stað þann 14. mars sl. Framhaldsuppboð fór fram á fasteigninni sjálfri þann 6. apríl sl.. Þar lýstu sóknaraðilar í söluverð fasteignarinnar tveimur kröfum sem ekki höfðu áður komið fram. Í fyrsta lagi er um að ræða kröfu sem sundurliðast svo: Í kröfulýsingunni kom fram að sóknaraðilar séu eigendur orlofslands múrara í Öndverðarnesi og leigi þar sumarhúsalóðir til félagsmanna og sé leigufjárhæð ákveðin fyrir eitt ár í senn. Lóð varnaraðila sé ein þeirra lóða sem um ræðir, en sóknaraðilar hafi tekið dóm og látið gera fjárnám fyrir eldri leiguskuld en þeirri sem kröfulýsingin lúti að. Við uppboðið komu fram upplýsingar um að varnaraðili ætti ógreiddar kröfur sóknaraðila um greiðslu vegna vatnsveitu, að fjárhæð kr. 143.000. Var sú kröfulýsing bókuð og jafnframt bókað um að skrifleg kröfulýsing yrði send sýslumanni síðar. Skrifleg kröfulýsing var send sýslumanni síðar sama dag og er hún nánar þannig: Í kröfulýsingunni kom fram að um sé að ræða kostnaðarhluta varnaraðila vegna kaldavatnslagnar, sem lögð hafi verið um orlofsbyggðina í Öndverðarnesi á árunum 1998 og 1999. Hinn 4. maí birti Sýslumaðurinn á Selfossi frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar, þar sem greiddar eru upp allar framkomnar kröfur, að undanskildum þeim tveimur kröfum sóknaraðilar sem síðar komu fram og áður er lýst. Frumvarpið er svofellt: Frestur til mótmæla var til 19. maí sl. Með bréfi, dags. 9. maí sl. mótmæltu sóknaraðilar frumvarpinu. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, fundaði sýslumaður um mótmælin hinn 5. júní sl.. Á þeim fundi var sóknaraðilum tilkynnt að frumvarpið myndi standa óbreytt, en sóknaraðilar kváðust þá mundu leggja málið til úrlausnar fyrir dómi. Sóknaraðilar halda því fram að með því að lýsa í uppboðsandvirðið framangreindri kröfu um greiðslu lóðarleigu vegna áranna 1999-2000 og kröfu vegna vatnslagnar, þá hafi þeir „orðið aðilar að uppboðinu vegna þessara tveggja krafna skv. 4. tölulið 2. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.”. Um málsástæður vísa sóknaraðilar „til 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 en umræddar kröfur tengjast uppboðsandlaginu með þeim hætti sem greinir í 4. tölulið 2. gr. sömu laga. Ennfremur er á því byggt að [sóknaraðilar] hafi á lögmætan hátt gerst aðilar að uppboðinu þeirra vegna.”. Þá kom fram hjá lögmanni þeirra fyrir dómi að líta beri einnig til þess að varnaraðili hafi með leigusamningi við sóknaraðila skuldbundið sig til að greiða leigu og taka þátt í framkvæmdum við vatnslagnir um sumarhúsahverfið í landi Öndverðarness. Sóknaraðilum var heimilt að skjóta máli þessu til dómsins samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Eins og að framan segir vísa sóknaraðilar einnig sérstaklega til 4. tl. 2. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu og segja það ákvæði leiða til þess að umþrættar kröfur þeirra skuli teknar til greina, þar sem kröfurnar tengist uppboðsandlaginu með sérstökum hætti. Ákvæði 4. töluliðar 2. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, fjallar hins vegar einungis um það hverjir geti verið aðilar að uppboði, en hefur ekki að geyma reglu sem lýtur beinlínis að því hver skuli fá úthlutað af uppboðsandvirði fasteignar sem seld er. Umræddar kröfur njóta ekki veðréttar í eigninni. Var það því rétt ákvörðun hjá sýslumanni að taka kröfurnar ekki til greina við úthlutun söluverðs samkvæmt VIII. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu sóknaraðila um breytingu á frumvarpi Sýslumannsins á Selfossi, um úthlutun á söluandvirði sumarbústaðalóðar nr. 15 í landi Öndverðarness I í Grímsnes- og Grafningshreppi, vegna nauðungarsölu á eigninni hinn 6. apríl 2000.
Mál nr. 328/2000
Kærumál Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Sýslumaðurinn í Kópavogi krafðist þess í gær fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X [...], verði með úrskurði réttarins gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. september nk. kl. 16.00.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Samkvæmt gögnum málsins hefur sóknaraðili að mestu lokið rannsókn á tildrögum þess að M varð fyrir bifreið varnaraðila í bifreiðageymslu við Hamraborg í Kópavogi sunnudaginn 20. ágúst sl. Ekki hlutust af alvarlegir áverkar, þó svo að M hafi verið augljós háski búinn. Sóknaraðili reisir kröfu um gæsluvarðhald á d. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, með því að þörf sé á að verja M og fyrrverandi eiginkonu varnaraðila, K, sem einnig var stödd í bifreiðageymslunni þennan dag, fyrir árásum varnaraðila. Þótt rannsóknargögn málsins sýni að hann hafi átt í útistöðum við M og fyrrverandi eiginkonu sína, eru ekki fram komnar nægar ástæður til að beita ákvæði d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 í máli þessu, enda við þessar aðstæður unnt að beita öðrum úrræðum en gæsluvarðhaldi. Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að gæsluvarðhald yfir varnaraðila sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki efni til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Mál nr. 325/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunuð um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nausðynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þegar litið er til gagna málsins verður fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem varnaraðili er grunaður um, er þess eðlis að ætla má að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 316/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í innflutningi á fíkniefnum. Fallist er á með héraðsdómara að vegna rannsóknarhagsmuna séu fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 15. ágúst 2000. Ár 2000, þriðjudaginn 15. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X,verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. ágúst nk. kl. 16.00 vegna gruns um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. [...] Verið er að rannsaka brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna innflutnings á fíkniefnum til landsins. Grunur er um aðild kærða að þeim innflutningi. Kærði hefur neitað öllum sakargiftum, en rannsókn málsins er á frumstigi. Ætla verður að kærði geti torveldað rannsókn málsins ef hann gengur laus. Með vísan til þess og rannsóknargagna málsins er fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald kærða samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 sé fullnægt. Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi verður því tekin til greina eins og hún er framsett og nánar greinir í úrskurðarorði. ÚRSKURÐARORÐ : Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. ágúst nk. kl. 16:00.
Mál nr. 308/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. þessa mánaðar kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í að flytja inn mikið af fíkniefnum. Fallist er á með héraðsdómara að vegna rannsóknarhagsmuna séu enn fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 306/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nausðynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er krafist kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem varnaraðili er grunaður um, þykir þess eðlis að ætla má að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag á grundvelli kröfu sýslumannsins í Kópavogi um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X, kt.[...]. Þess er krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. október nk. kl. 16:00. [...] Eins og málið liggur nú fyrir að virtum rannsóknargögnum sem fyrir lágu í dóminum í dag þykir vera fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða í það minnsta við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn báðum þessum ákvæðum getur leitt til 10 ára fangelsis eða meira. Kærði hefur sagt fyrir dómi aðspurður um hvað hann ætti við með þeim orðum sínum "en hann eigi sök á því að stúlkan féll fram af" að hann viðurkenni að hafa hrint henni að svölunum og þannig hafa orðið valdur að slysi. Telur dómarinn að skilyrði um nauðsyn þess að gæsluvarðhald sé beitt með tilliti til almannahagsmuna verði að teljast uppfyllt. Byggir dómari þessa skoðun sína á því að kærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa orðið valdur að slysi sem bani hlaust af með því að hrinda hinni látnu og sé óhjákvæmilegt að líta á slíkt atferli sem a.m.k. líkamsárás sem leiði til bana. Í ljósi þessarar viðurkenningar telur dómari að hinar ströngu sönnunarkröfur sem beita verður svo fallast megi á framlengingu gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllta og því rétt að fallast á kröfu rannsóknara um framlengingu gæsluvarðhalds yfir til mánudagsins 2. október nk. kl. 16:00, en þó eigi lengur en til þess að dómur gengur í máli hans sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála. Dómari leggur á það áherslu að rannsóknari hraði rannsókn málsins svo sem frekast er unnt. Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til mánudagsins 2. október nk. kl. 16:00, en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans.
Mál nr. 301/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, kt. [...], með lögheimili að [...] en nú gæslufangi, verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðuð til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 5. september nk. kl. 16:00 vegna gruns um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 5. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Fallist verður á með héraðsdómara að þörf sé frekara gæsluvarðhalds yfir varnaraðila vegna rannsóknar málsins. Verður henni gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. ágúst 2000 kl. 16.00. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. ágúst 2000 kl. 16.00.
Mál nr. 286/2000
Kærumál Nauðungarvistun Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá Hæstarétti
Talið var að X skorti lögvarða hagsmuni til að fá skorið úr um gildi ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi eftir að vistuninni hafði verið aflétt. Var málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen Hrafn Bragason. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem varnaraðili leitaði eftir 9. sama mánaðar og dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti 10. sama mánaðar. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að vista hana nauðuga á sjúkrahúsi, svo og að þóknun talsmanns hennar vegna flutnings þessa kærumáls verði greidd úr ríkissjóði. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka. Samkvæmt gögnum málsins hefur nauðungarvistun sóknaraðila verið aflétt með því að hún var útskrifuð af geðdeild Landspítalans - háskólasjúkrahúss 17. júlí sl. Hefur sóknaraðili því ekki lengur hagsmuni að lögum að fá skorið úr um gildi framangreindar ákvörðunar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Verður málinu vísað frá Hæstarétti án kröfu. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talmanns sóknaraðila, svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Málinu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður sóknaraðila, X, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns hennar, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.
Mál nr. 281/2000
Kærumál Sjálfræðissvipting Málskostnaður
Fallist var á kröfu um að X yrði sviptur sjálfræði tímabundið, enda væri hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. júlí, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði frá uppsögu úrskurðarins að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar. Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 18. júlí 2000. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að honum verði dæmd þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar. Aðild varnaraðila byggist á d. lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti en um málskostnað. Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt gögnum málsins var Hákon Stefánsson héraðsdómslögmaður skipaður talsmaður varnaraðila í héraði. Þar sem hann var þannig skipaður talsmaður ber samkvæmt 17. gr. lögræðislaga að ákveða honum þóknun vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hákonar Stefánssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 288/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Hrafn Bragason. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var hinn kærði úrskurður kveðinn upp kl. 13.15 hinn 15. júlí sl. Kæra varnaraðila er árituð um móttöku 18. júlí sl., án þess að nánari tímasetning komi þar fram. Samkvæmt yfirlýsingu tveggja starfsmanna héraðsdóms, sem sóknaraðili hefur lagt fram, var tekið á móti kæru varnaraðila eftir hádegi umræddan dag. Þann vafa, sem ríkir um móttökutíma kærunnar, ber að skýra varnaraðila í hag. Að þessu virtu þykir ekki fram komið að frestur samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið liðinn þegar kæran barst héraðsdómi. Verður því ekki fallist á kröfu sóknaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti. Í héraðsdómi er því lýst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í að flytja inn mikið af fíkniefnum. Fallist er á með héraðsdómi að vegna rannsóknarhagsmuna séu fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk., kl. 16:00. Í greinargerð Lögreglustjórans í Reykjavík, á dskj. nr. 1 kemur fram, að Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík (ÁFD) rannsaki nú stórfellt ætlað brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf. Síðan er málsatvikum lýst með eftirfarandi hætti í greinargerðinni: [...] Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni og gætu þau varðað allt að 10 ára fangelsi, ef sönnuð þættu, sbr. 173.gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða eftir atvikum fangelsisrefsingu samkvæmt lögum nr. 65/1974. Rannsókn málsins er á frumstigi. Lögð hafa verið fyrir dóminn gögn, sem renna stoðum undir grunsemdir lögreglu um ætlað brot kærða. Með vísan til alls ofanritaðs þykir rétt, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, enda ljóst af gögnum málsins að yfirheyra þarf kærða frekar svo og samseka og/eða vitni og ljóst er, að hann geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Er því krafa lögreglunnar tekin til greina að öllu leyti og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.00, eins og krafist er. Skúli J. Pálmson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.00.
Mál nr. 267/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn honum var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 31. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ár 2000, fimmtudaginn 6. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg kveðinn upp úrskurður þessi. Ríkissaksóknari hefur krafist þess að gæsluvarðhald sem dómfelldi, Guðmundur Ingi Þóroddsson, kt. 290574-4639, Völvufelli 17, Reykjavík, hefur sætt skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála haldist með vísan til heimildar í 106. gr. sömu laga, meðan áfrýjunarfrestur varir. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-895/2000 sem kveðinn var upp nú í dag var framangreindur Guðmundur Ingi dæmdur skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64,1974, til að sæta fangelsi í 7 ár en frá refsingunni dragist 192 daga gæsluvarðahald hans. Hann var einnig dæmdur til greiðslu sektar að upphæð 3.000.000 króna en sæta ella fangelsi í 6 mánuði. Skv. 106. gr. laga nr. 19,1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19,1991 stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því er að skipta. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Skilyrði 106. gr. laganna eru fyrir hendi og er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Dómfelldi, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sæti gæsluvarðhaldi meðan á fresti skv. 1. mgr. 151. gr. laga nr 19/1991 stendur, svo og meðan málið er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því verður að skipta, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 31. ágúst nk. kl. 16:00
Mál nr. 254/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Skilyrðum var talið fullnægt til að J sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000 var varnaraðili dæmdur til að sæta fangelsi í fimm ár og sex mánuði og upptöku á jafnvirði 8.000.000 króna, svo og til greiðslu hluta sakarkostnaðar, en frá refsivistinni skyldi dragast gæsluvarðhald hans frá 24. september 1999 til dómsuppsögu. Með tilkynningu til ríkissaksóknara 28. júní 2000 lýsti varnaraðila yfir áfrýjun dómsins. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 106. gr. laganna meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi, en yfirlýsing varnaraðila um áfrýjun héraðsdóms bindur ekki ein sér enda á gæsluvarðhald yfir honum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 27. júní 2000. Ríkissaksóknari hefur krafist þess að gæsluvarðhald sem dómfelldi, Júlíus Kristófer Eggertsson, kt. 271072-5119, Leifsgötu 3, Reykjavík, hefur sætt skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála haldist með vísan til heimildar í 106. gr. sömu laga, meðan áfrýjunarfrestur varir. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-774/2000 sem kveðinn var upp nú í dag var framangreindur Júlíus Kristófer Eggertsson, kt. 271072-5119, Leifsgötu 3, Reykjavík, dæmdur skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64,1974, til að sæta fangelsi í 5 ár og 6 mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðahald hans frá 24. september 1999 til dagsins í dag að telja. Skv. 106. gr. laga nr. 19,1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19,1991 stendur. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Skilyrði 106. gr. laganna eru fyrir hendi og er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Úrskurðarorð: Dómfelldi, Júlíus Kristófer Eggertsson, sæti gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunar­frestur varir, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 22. ágúst nk. kl. 16.00.
Mál nr. 244/2000
Kærumál Þjófnaður Ákæra Frávísunarúrskurður staðfestur
Úrskurður héraðsdóms um frávísun máls, þar sem H var ákærður fyrir þjófnað, var staðfestur með vísan til forsendna. Komst héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að verulegur vafi léki á því að verðmæti muna, sem H var ákærður fyrir þjófnað á, væri meira en 7.000 krónur og því væru ekki lagaskilyrði fyrir málshöfðun, sbr. 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem var í gildi þegar ætlað brot var framið.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Hallvarðs Einvarðssonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur. Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 8. júní sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. maí 2000 á hendur ákærða, Heiðari Erni Tryggvasyni, kt. 010484-2359, Háaleitisbraut 121, Reykjavík, „fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 6. febrúar 2000, stolið minniskubbi og tveimur geisladiskum með hugbúnaði, samtals að verðmæti 10.970 kr., í versluninni BT tölvur, Skeifunni 11 í Reykjavík. Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.” Málið var þingfest 17. maí s.l. og við það tækifæri játaði ákærði sök. Var málinu frestað til 30. sama mánaðar þar sem verjandi fékk gögn málsins fyrst í hendur við þingfestingu. Í því þinghaldi kom fram krafa af hálfu skipaðs verjanda ákærða um að málinu yrði vísað frá dómi. Ennfremur krafðist verjandi þess að hæfileg málsvarnarlaun yrðu greidd úr ríkissjóði. Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að frávísunarkröfu verjanda yrði hafnað og málið tekið til almennrar meðferðar. Fór fram flutningur um frávísunarkröfuna og var hún tekin til úrskurðar 8. júní sl. Verjandi byggir frávísunarkröfu sína á því að lagaskilyrði fyrir málshöfðun gegn ákærða séu ekki fyrir hendi. Byggir hann á 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um það að ef tjón af broti samkvæmt 244. gr. s.l. nemi ekki yfir 7.000 kr. og engin sérstök atvik auki saknæmi þess og sökunautur hafi ekki áður gerst sekur um auðgunarbrot skuli mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist þess. Verjandi benti á að rannsókn á því hvort tjón hafi hlotist af háttsemi ákærða hafi verið ófullnægjandi. Þar hafi einungis verið haft eftir verslunarstjóra að verðmæti hlutanna sé það sem tilgreint er í ákæru. Megi ætla að verslunarstjóri eigi við útsöluverð þeirra en með tjóni í þessu sambandi sé átt við þann kostnað sem er við að afla sér viðkomandi hluta að nýju. Þá hafi verslunin ekki orðið fyrir tjóni þar sem hlutirnir hafi komist til skila en í tilvitnaðri lagagrein sé talað um tjón en ekki verðmæti. Minnti verjandi á að tilgangur lagaákvæðisins hefði verið sá að ekki yrði gert refsimál undir kringumstæðum sem þessum nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að fari andvirði þess sem hnuplað er yfir 7.000 kr. beri að ákæra fyrir brot. Því var mótmælt að rannsókn málsins hefði verið áfátt og bent á að ákærði hefði neitað að gefa skýrslu fyrir lögreglu. Málshöfðunarregla 1. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hljóðar svo: „Nú hefur eitthvert brot verið framið, sem varðar við 244.-250. gr., 253. gr. eða 254. gr., en einungis er um smáræði að tefla, og má þá, ef sökunautur hefur ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, færa refsingu niður í sektir, eða jafnvel láta hana falla að öllu leyti niður.” Jafnframt sagði í 2. mgr. sömu lagagreinar að: „Ef tjón af brotinu nemur ekki yfir 7000 krónum og engin sérstök atvik auka saknæmi þess og sökunautur hefur ekki áður reynst sekur um auðgunarbrot skal mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist þess.” Þessi málsgrein var felld úr gildi 9. maí þessa árs með 8. gr. laga nr. 39/2000. Ákærði framdi brot sitt 6. febrúar sl. en þá var umrædd lagagrein enn í gildi. Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga skal dæma eftir nýrri lögum hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn þar til dómur gengur en þó má ekki dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið. Verður því að taka til athugunar eins og hér stendur á hvort heimild hafi verið til að höfða mál til refsingar gegn ákærða, sbr. þágildandi 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga. Það er álit dómsins að um fullframið brot sé að ræða þrátt fyrir það að BT tölvur hafi endurheimt hina stolnu muni og hefði verslunin orðið fyrir tjóni í skilningi ákvæðis 2. mgr. 256. gr. Verðmæti munanna er samkvæmt ákæru 10.970 kr. en mununum er lýst þar sem tveimur geisladiskum með hugbúnaði og minniskubbi. Fyrir liggur lögregluskýrsla frá 6. febrúar sl. Þar er því lýst að ákærði hefði verið með tvo Playstation tölvuleiki og einn Playstation minniskubb innanklæða. Athugast að nokkuð skortir á nákvæmni ákæru að því er varðar lýsingu á andlagi brotsins miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir í lögregluskýrslu. Í skýrslunni eru leikirnir sagðir að verðmæti 4.490 kr. hvor og minniskubburinn að verðmæti 1.990 kr. eða samtals 10.970 kr. Kemur ekki fram í skýrslunni hvort verðmæti er miðað við heildsölu- eða smásöluverð en eins og atvik eru verður að reikna með því að þar hafi verið um smásöluverð að ræða. Þá er engin nánari lýsing á tölvuleikjunum hvorki heiti þeirra eða innihald að neinu leyti. Verður að telja að rannsókninni hafi verið verulega ábótavant að þessu leyti. Lagðar hafa verið fyrir dóminn upplýsingar frá innflytjanda Playstation tölvuleikja og aukahluta, sbr. dómskjöl nr. 7. og 8. Samkvæmt þeim upplýsingum er smásöluverð minniskubba 1.499 kr. með virðisaukaskatti og smásöluverð tölvuleikja frá 999 kr. með virðisaukaskatti. Þá liggur fyrir ljósrit af auglýsingu frá BT tölvum þar sem verð tölvuleikja er auglýst frá 1.990 kr., sbr. dómskjal nr. 5. Af upplýsingum þessum má ráða að samanlagt smásöluverð þeirra muna sem hnuplað var getur verið frá 3.497 kr. og upp úr allt eftir því um hvaða tölvuleiki er að ræða. Þessar upplýsingar og það að rannsókn málsins er áfátt um tjón af umræddu broti valda því að fyrir dóminum leikur verulegur vafi á því hvort verðmæti umræddra muna liggi yfir þeim 7.000 króna mörkum sem tilgreind voru í þágildandi 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga. Þá liggur fyrir að ákærði er með hreinan sakaferil og hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að almenningshagsmunir krefjist málshöfðunar. Þykir skilyrðum áðurnefndrar lagagreinar því fullnægt og er orðið við þeirri kröfu verjanda að vísa máli þessu frá dómi samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga um meðferð opinberra mála. Málsvarnarlaun Hallvarðs Einvarðssonar hrl. skipaðs verjanda ákærða kr. 35.000, skal greiddur úr ríkissjóði en ekki verður séð að annan sakarkostnað hafi leitt af máli þessu. Máli þessu er vísað frá dómi. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hallvarðs Einvarðssonar hrl., kr 35.000 greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 247/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en G var grunaður um stórfellt brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 12. júlí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 21. júní 2000. Ár 2000, þriðjudaginn 21. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi. [...] Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er fallist á það með ríkissaksóknara að sterkur grunur sé um að ákærði hafi framið afbrot er geti varðað hann allt að 10 ára fangelsi sbr. tilvitnaða grein almennra hegningarlaga og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sakamálið á hendur ákærða var dómtekið föstudaginn 16. júní sl. og má vænta dóms innan fjögurra vikna frá þeim tíma. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er fullnægt og verður fallist á kröfu ríkissaksóknara og kærði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 12. júlí nk. kl. 16:00. Ákærða, Guðmundi Inga Þóroddssyni, [...], nú gæslufanga á Litla Hrauni, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 12. júlí nk. kl. 16:00.
Mál nr. 239/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að Þ skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. ágúst nk. kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hinn 14. júní 2000 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur varnaraðila, þar sem honum var gefið að sök að hafa orðið föður sínum að bana 18. mars sama árs. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 235/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nausðynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. júlí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Að virtum gögnum málsins er fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem varnaraðili er grunaður um, þykir þess eðlis að ætla má að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2000. Ár 2000, föstudaginn 9. júní er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Sveini Sigurkarlssyni, héraðsdómara kveðinn upp úrskurður í málinu nr. R-31/2000: Beiðni sýslumannsins í Kópavogi um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir X: Rannsókn stendur yfir vegna kæru á hendur X vegna gruns um að vera valdur að dauða stúlku sem fannst látin við bakdyrainngang að fjölbýlishúsinu nr. 9 við Engihjalla í Kópavogi þann 27. maí sl. kl. 09:27. Sakborningur hefur viðurkennt að hafa orðið valdur að því sem hann kallar slysi sem varð þess valdandi að hin látna féll til jarðar af svölum á 10. hæð með þeim afleiðingum að hún lést eins og áður greinir. Kærði var fyrir dóminum spurður að því hvað hann ætti við þeim orðum sínum ,, en hann eigi sök á því að stúlkan féll fram af ²og svaraði hann því til að hann viðurkenni hrint henni að svölunum og þannig hafa orðið valdur að slysi. Af hálfu rannsóknara hefur krafa um framhald gæsluvarðhalds verið rökstudd bæði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og eins með vísan til 2. mgr. 103. gr. Telur dómari að rannsókn málsins sé svo vel á veg komin að ekki sé hægt að fallast á kröfuna um framhald gæsluvarðhaldsins á grundvelli rannsóknarhagsmuna eins og gert er þegar byggt er á ákvæði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Á hinn bóginn verður að telja að rökstuddur og sterkur grunur liggi fyrir um að kærði hafi gerst sekur um afbrot sem varði við 211. gr. almennra hegningarlaga, eða í það minnsta við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Báðar þessar greinar eru með refsiramma sem getur leitt til 10 ára fangelsis eða meira. Telur dómarinn að skilyrði um nauðsyn þess að gæsluvarðhaldi sé beitt með tilliti til almannahagsmuna verði að teljast uppfyllt. Byggir dómari þessa skoðun sína á því að kærði hefur viðurkennt fyrir dóminum að hafa orðið valdur að slysi sem bani hlaust af með því að hrinda hinni látnu og sé óhjákvæmilegt að líta á slíkt atferli sem a.m.k. líkamsárás sem leiði til bana. Í ljósi þessarar viðurkenningar telur dómari að hinar ströngu sönnunarkröfur sem beita verður svo fallast megi á gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfylltar og því rétt að fallast á kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald yfir kærða allt til mánudagsins 3. júlí nk. kl. 16:00. ÚRSKURÐARORÐ: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. júlí 2000 kl. 16:00.
Mál nr. 221/2000
Kærumál Frávísun frá héraðsdómi að hluta Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá Hæstarétti
Talið var að T hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr því fyrir Hæstarétti hvort rétt hafði verið að vísa að hluta frá héraðsdómi máli, sem síðar hafði verið fellt niður vegna útivistar hennar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði í heild hrundið, en til vara að honum verði breytt á þann veg að ekki verði vísað frá dómi kröfu, sem sóknaraðili gerir um meðlag með barni málsaðilanna fyrir tímabilið frá 1. maí 1999 til 1. janúar 2000. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði sóknaraðili málið til heimtu skuldar að fjárhæð samtals 1.631.501 króna. Var því lýst þar að krafan væri annars vegar reist á úrskurði sýslumannsins í Hafnarfirði 10. ágúst 1994, þar sem varnaraðila hafi verið gert að greiða tvöfalt meðlag með tveimur börnum aðilanna, en þeirri skipan hafi sýslumaðurinn í Reykjavík breytt með úrskurði 4. október 1999, þannig að frá 1. apríl á því ári hafi varnaraðila borið að greiða einfalt meðlag með öðru barninu. Sóknaraðili hafi á öllu tímabilinu fengið greitt einfalt meðlag með hvoru barni hjá Tryggingastofnun ríkisins og kæmi það til frádráttar kröfu á hendur varnaraðila. Hins vegar væri krafa sóknaraðila studd við úrskurð sýslumannsins í Hafnarfirði 12. ágúst 1994, sem hafi verið staðfestur með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðherra 24. febrúar 1995. Þar hafi varnaraðila verið gert að greiða sóknaraðila 20.000 krónur mánaðarlega í lífeyri á tímabili, sem þau væru skilin að borði og sæng, en þó ekki lengur en í tólf mánuði. Með hinum kærða úrskurði var af ástæðum, sem þar greinir nánar, vísað frá dómi þeim hluta kröfu sóknaraðila, sem átti rætur að rekja til meðlags með börnum aðilanna eftir 1. nóvember 1995. Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var sótt þing af hálfu beggja málsaðila. Í þinghaldinu tilkynnti héraðsdómari að málið yrði tekið fyrir á ný mánudaginn 5. júní 2000 kl. 9.30. Samkvæmt gögnum, sem hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, varð útivist í þinghaldi þann dag af hálfu sóknaraðila, en engin forföll boðuð. Féll varnaraðili frá kröfu um málskostnað og var málið í kjölfarið fellt niður. Sóknaraðili getur ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr fyrir Hæstarétti hvort rétt hafi verið að vísa að hluta frá héraðsdómi máli, sem nú hefur verið fellt niður. Að því gættu verður að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 222/2000
Kærumál Útburðargerð Húsaleigusamningur
S krafðist þess að einkahlutafélagið L yrði með aðför borið út úr húsnæði, sem það hafði leigt af honum, þar sem leigusamningi hefði verið rift vegna vanskila L á leigugjaldinu. S hafði verið framkvæmdarstjóri og prókúruhafi L á því tímabili, sem krafa um vangoldna leigu tók til, en á því tímabili voru greiddir reikningar vegna innréttinga og lagfæringa húsnæðisins. Talið var að ekki væri ljóst hvað aðilar hefðu samið um varðandi frágang á húsnæði S við upphaf leigu, en L hélt því fram að S hefði nýtt sér leigugjaldið og mótmælti því að um vanefndir hefði verið að ræða. Nánari sönnunarfærsla um þessi atriði gæti ekki farið fram í málinu samkvæmt 1. mgr. 78. gr. og 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þótti vera slíkur vafi um rétt S að varhugavert væri að láta gerðina ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, og kröfu S um aðför því hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá varnaraðila borinn út með beinni aðfarargerð úr atvinnuhúsnæði auðkenndu nr. 03-01 að Bæjarlind 6 í Kópavogi. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerðin verði heimiluð, svo og að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér í héraði ásamt kærumálskostnaði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti til að fá því ákvæði breytt. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Sigurður Hilmarsson, greiði varnaraðila, Lindasól ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 220/2000
Kærumál Kröfugerð Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
D höfðaði mál gegn J, einkahlutafélaginu L, einkahlutafélaginu H og B og krafðist þess að viðurkennt yrði að hann ætti ákveðinn hluta hlutafjár í L og að samþykktir félagsins frá 1993 og 1995 yrðu dæmdar ógildar. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að krafa D væri óljós, tilgreining málsástæðna í stefnu óskýr og bæri að vísa málinu frá dómi á grundvelli d., e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðilarnir Jón Baldvinsson, Laxnesbúið ehf. og Héðinshöfði ehf. krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Baldur Baldursson krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði sóknaraðila að ekki verði komist hjá að vísa málinu frá héraðsdómi. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, dánarbú Brands Brynjólfssonar, greiði varnaraðilum, Jóni Baldvinssyni, Laxnesbúinu ehf., Héðinshöfða ehf. og Baldri Baldurssyni, hverjum fyrir sig 25.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 189/2000
Kærumál Vitni Þagnarskylda Prestur
Talið var M, sem starfaði sem prestur heyrnarlausra og aðstoðað hafði B við að skýra móður sinni frá því er faðir hennar sýndi henni kynferðislega áreitni, væri bundinn þagnarskyldu gagnvart B og einnig móður hennar, að því marki, sem móðirin tjáði sig eða lét í ljósi viðbrögð við frásögn B að M viðstaddri. Þar sem hegningarlagaákvæðið, sem háttsemi föðursins gat varðað við, kvað ekki á um tiltekna lágmarksrefsingu þótti ekki fullnægt skilyrði b. liðar 55. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að um væri að ræða afbrot, sem varðaði minnst tveggja ára fangelsi, til þess að M bæri að gefa skýrslu fyrir dómi án leyfis þess, sem í hlut ætti. Þar sem ekki var fram komið að brotaþoli eða móðir hennar hefðu gefið M leyfi til að skýra frá framangreindum atburði var úrskurður héraðsdóms um að M bæri að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt c. lið 74. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2000, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili gæfi skýrslu fyrir héraðsdómi samkvæmt c. lið 74. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um skýrslutökuna verði hafnað og sér dæmdur kærumálskostnaður. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. I. Samkvæmt gögnum málsins hefur lögreglan til rannsóknar ætluð kynferðisafbrot nánar tiltekins manns gegn dóttur sinni, sem fædd er á árinu 1983. Hefur ætlaður brotaþoli meðal annars borið um atvik, sem gerðist vorið 1999, og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms. Kveðst brotaþoli hafa skýrt móður sinni frá atvikinu í júní sama árs, en þá hafi varnaraðili verið gestkomandi á heimili þeirra, en móðir hennar og varnaraðili séu vinkonur. Varnaraðili hafi hjálpað henni við að segja móðurinni, sem er heyrnarskert, frá atvikinu. Varnaraðili kaus með vísan til 2. mgr. 54. gr. laga nr. 19/1991 að tjá sig ekki um málið fyrir lögreglu, þar sem hún hefði verið kölluð á heimilið sem prestur í embættiserindum í umrætt sinn, en varnaraðili kveðst þjóna heyrnarlausum sem prestur þjóðkirkjunnar. Varnaraðili vísar til þagnarskyldu presta samkvæmt 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og greinar 4.1 í siðareglum presta, en þar segir: „Prestur er bundinn algjörri þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Í sálgæslu og skriftum er prestur áheyrandi í Krists stað. Þess sem hann verður þannig áskynja má hann því aldrei láta uppi án samþykkis viðkomandi skjólstæðings.“ Í beiðni sóknaraðila um töku skýrslu af varnaraðila fyrir héraðsdómi kemur fram að móðir brotaþola hafi viðhaft þau orð við rannsóknarlögreglumenn, sem komu á heimili brotaþola, að hún segði ósatt um atvik málsins. Af hálfu sóknaraðila er það talið skipta miklu um rannsóknina að varnaraðili gefi skýrslu í málinu, en móðir brotaþola hefur neitað að gefa skýrslu fyrir lögreglu með vísan til 50. gr. laga nr. 19/1991. Geti framburður varnaraðila staðfest sögu brotaþola, gefið upplýsingar um viðbrögð móðurinnar og jafnframt orðið grunaða til varnar. II. Sóknaraðili hefur ekki mótmælt staðhæfingu varnaraðila um að hún hafi verið stödd á heimili brotaþola vegna starfa sinna sem prestur þjóðkirkjunnar, en hvorugur málsaðila hefur lagt fram nánari upplýsingar um störf varnaraðila í þágu heyrnarlausra eða tilefni umræddrar heimsóknar hennar. Að þessu virtu verður lagt til grundvallar að varnaraðili hafi verið að störfum sem prestur þegar hún aðstoðaði brotaþola við að skýra móður sinni frá þeim atburði, sem að framan greinir. Með aðstoð sinni við tjáskipti brotaþola og móður hennar öðlaðist varnaraðili vitneskju um viðkvæm atvik og persónuleg trúnaðarmál. Var varnaraðili bundin þagnarskyldu gagnvart brotaþola um það, sem hún tjáði móður sinni fyrir milligöngu varnaraðila, sbr. 18. gr. laga nr. 70/1996 og 1. mgr. 61. gr. laga nr. 78/1997. Sömuleiðis var varnaraðili bundin þagnarskyldu að því marki, sem móðir brotaþola tjáði sig eða lét í ljósi viðbrögð við frásögn brotaþola að henni viðstaddri. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 er prestum óheimilt að svara spurningum án leyfis þess sem í hlut á um atriði, sem varða einkahagi manna og þeim hefur verið trúað fyrir í starfa sínum, nema um afbrot sé að ræða, sem varðar minnst tveggja ára fangelsi. Eins og að framan greinir neitaði varnaraðili að svara spurningum hjá lögreglu vegna rannsóknar á ætlaðri háttsemi föður brotaþola, sem sóknaraðili telur geta varðað við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992. Refsing samkvæmt því ákvæði varðar allt að tveggja ára fangelsi og allt að fjögurra ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára. Samkvæmt þessu kveður 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga ekki á um tiltekna lágmarksrefsingu og er því ekki fullnægt því skilyrði b. liðar 55. gr. laga nr. 19/1991 að um sé að ræða afbrot, sem varði minnst tveggja ára fangelsi. Verður varnaraðila því ekki gert skylt að svara spurningum um umrædd atriði án leyfis þess, sem í hlut á, enda hafi henni verið trúað fyrir þeim í starfa sínum. Ákvæði 2. mgr. 54. gr. laga nr. 19/1991, sem ætlað er að tryggja opinbera leyndarhagsmuni, á hins vegar ekki við um atvik málsins. Í málinu er ekki fram komið að brotaþoli eða móðir hennar hafi leyft að varnaraðili skýrði frá framangreindum atburði, en af beiðni sóknaraðila um skýrslutöku fyrir héraðsdómi verður ráðið að sóknaraðili hyggist meðal annars leggja spurningar fyrir varnaraðila um viðbrögð móðurinnar við frásögn brotaþola. Af þessum sökum er varnaraðila ekki heimilt að svara þeim spurningum, sem ráðið verður að sóknaraðili hyggist leggja fyrir hana, sbr. b. lið 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991. Eins og málið liggur fyrir er skilyrðum c. liðar 74. gr. a. laga nr. 19/1991 ekki fullnægt til að skýrsla verði tekin af varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Sóknaraðili, lögreglustjórinn í Reykjavík, greiði varnaraðila, Miyako Þórðarson, 30.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 190/2000
Kærumál Fjárnám Aðild Frávísun frá héraðsdómi
Talið var óhjákvæmilegt að aðilar að máli, sem rekið væri samkvæmt 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, væru þeir sömu og voru aðilar að þeirri aðfarargerð, sem ágreiningur stæði um. Þar sem aðilar að málinu fyrir héraðsdómi voru eingöngu H, sem verið hafði gerðarbeiðandi við þá fjárnámsgerð, sem deilt var um, og B, sem lét gerðina til sína taka sem þriðji maður samkvæmt 28. gr. laga nr. 90/1989, og ekki varð ráðið að gerðarþolanum við fjárnámið hefði verið tilkynnt samkvæmt 1. mgr. 87. gr. laganna um rekstur málsins, þótti ekki verða hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 24. janúar sama árs um að hafna kröfu sóknaraðila um fjárnám í nánar tilteknum greiðslum samkvæmt kaupsamningum um fasteignirnar Suðurholt 14 og 16 í Hafnarfirði, að fjárhæð samtals 2.000.000 krónur. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að taka fjárnámi greiðslurnar, sem afhentar verði sóknaraðila. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að Guðlaugur Hermannsson seldi með kaupsamningum 2. febrúar og 30. júlí 1999 fyrrnefndar fasteignir að Suðurholti 14 og 16. Samkvæmt eldri samningnum, sem var gerður um Suðurholt 14, átti kaupandi meðal annars að greiða seljanda af kaupverði 500.000 krónur 20. janúar 2000 og 2.200.000 krónur 20. febrúar sama árs. Í hinum samningnum, sem var um fasteignina Suðurholt 16, skuldbundu kaupendur sig meðal annars til að greiða seljanda 1.500.000 krónur af kaupverðinu 15. desember 1999. Hinn 13. desember 1999 tók sýslumaðurinn í Reykjavík fyrir beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá Guðlaugi Hermannssyni fyrir skuld, sem sóknaraðili kvað þá nema samtals 6.031.038 krónum. Gerðarþoli mætti ekki til gerðarinnar og var fjárnám gert samkvæmt ábendingu lögmanns sóknaraðila í áðurnefndum kröfum gerðarþola samkvæmt kaupsamningunum. Með bréfi til sýslumanns 18. janúar 2000 leitaði sóknaraðili eftir endurupptöku gerðarinnar samkvæmt 4. mgr. 57. gr., sbr. 4. tölulið 66. gr. laga nr. 90/1989 til að fá fjárnám gert í greiðslum kaupendanna. Þegar sýslumaður tók þá beiðni fyrir 24. sama mánaðar var mætt af hálfu varnaraðila og lagðir fram viðaukar við kaupsamningana, sem sá síðastnefndi taldi fela í sér framsal seljandans til sín á umræddum kröfum á hendur kaupendunum. Mótmælti varnaraðili á þeim grunni að greiðslur kaupendanna yrðu teknar fjárnámi. Féllst sýslumaður á mótmælin með þeirri ákvörðun, sem deilt er um í málinu. Mál þetta er rekið fyrir dómi samkvæmt reglum 14. kafla laga nr. 90/1989. Óhjákvæmilegt er að aðilar að slíku máli verði ávallt þeir sömu og voru aðilar að aðfarargerðinni, sem ágreiningur stendur um. Fyrir héraðsdómi voru aðilar að málinu eingöngu sóknaraðili, sem eins og áður segir var gerðarbeiðandi við fjárnámsgerðina, og varnaraðili, sem lét gerðina til sín taka sem þriðji maður, sbr. 28. gr. sömu laga. Ekki verður hins vegar ráðið af neinu, sem liggur fyrir í málinu, að gerðarþolanum við fjárnámið hafi verið tilkynnt samkvæmt 1. mgr. 87. gr. laga nr. 90/1989 um rekstur þess, en samkvæmt framansögðu varð hann að réttu lagi að eiga aðild að því til varnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Vegna þessa annmarka á meðferð málsins verður ekki komist hjá að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Málinu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 193/2000
Kærumál Frestur Stjórnarskrá
Ákvörðun héraðsdómara um upphaf aðalmeðferðar opinbers máls var felld úr gildi, þar sem ráðið varð að unnt væri að hefja aðalmeðferð málsins talsvert fyrr en ráðgert var í ákvörðuninni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2000 um að aðalmeðferð málsins skuli hefjast 11. september nk. kl. 9.15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að hefja aðalmeðferð innan hæfilegs tíma, en þó ekki síðar en 15. júní nk. Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. I. Málið var tekið fyrir áðurgreindan dag á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð var af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara. Var meðal annars eftirfarandi þar fært í þingbók: „Fulltrúi ákæruvaldsins hefur nú dreift í réttinum vitnalista ákæruvaldsins, en samkvæmt honum verða leidd undir aðalmeðferð málsins meira en 30 vitni. Verjendur hafa ekki endanlega tekið afstöðu til þess að þeir óski eftir að leiða vitni. Samkvæmt áætlun ákæruvaldsins munu skýrslutökur í málinu taka meira en 1 viku. Gera verður ráð fyrir því að sá tími verði mun lengri þegar spurningar verjenda og dómenda eru hafðar í huga. Þá kom fram við þingfestingu málsins, að margir hinna ákærðu neita sök að hluta eða öllu leyti. Reynslan sýnir að mál taka lengri tíma er þannig stendur á. Öll skjöl málsins bárust dóminum ekki fyrr en síðastliðinn föstudag. Þótt hluti skjala hafi borist fyrr, fylgdi einungis hluti frumskjala með bréfi til dómsins dags. 19. apríl sl., sbr. dskj. nr. 1. Úrlausn fyrirliggjandi verkefna hjá dómendum tekur vikur. Framlögð skjöl eru gríðarlega umfangsmikil og lestur þeirra hlýtur að taka vikur. Samning dóms í málinu mun fyrirsjáanlega taka margar vikur. Þegar allt ofanritað er haft í huga þykir einsýnt að meðferð málsins mun standa yfir mesta hluta sumarsins og raska þannig löngu ákveðnu sumarleyfi margra. Dómarinn ákveður því að aðalmeðferð málsins hefjist mánudaginn 11. september n.k. kl. 09:15 í dómsal 101.“ Kæra sóknaraðila lýtur að síðastgreindri ákvörðun. Héraðsdómari hefur komið á framfæri athugasemdum vegna kærunnar í bréfi til Hæstaréttar 15. maí sl. II. Samkvæmt 1. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 ákveður dómari í þinghaldi hvenær aðalmeðferð máls skuli háð, en þá skulu að jafnaði fara fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur málflutningur. Þessu ákvæði verður að beita í samræmi við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laganna um að hraða skuli meðferð máls eftir föngum, þannig að leyst sé úr ákæru um refsiverða háttsemi innan hæfilegs tíma, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verður og að gæta að því að samkvæmt 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal maður aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Samkvæmt því, sem fram er komið af hálfu sóknaraðila, sæta níu varnaraðilar nú gæsluvarðhaldi vegna málsins. Af framangreindri bókun héraðsdómara í þingbók verður ráðið að unnt væri að hefja aðalmeðferð málsins talsvert fyrr en 11. september nk. Með hliðsjón af því, sem að framan greinir, verður ekki fallist á að röskun á sumarleyfum geti talist viðhlítandi ástæða til að fresta aðalmeðferð málsins lengur en nauðsyn ber til. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Eins og málið hefur verið lagt fyrir Hæstarétt er hins vegar ekki unnt að leggja mat á hvort héraðsdómara megi vera fært að hefja aðalmeðferð innan þess tíma, sem sóknaraðili krefst. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila að því leyti. Dómsorð: Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.
Mál nr. 174/2000
Kærumál Kröfugerð Vanreifun Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Þ höfðaði mál til heimtu launa í uppsagnarfresti, þar sem G hefði vikið honum fyrirvaralaust úr starfi. Í héraði lagði G fram samning, sem hann kvað hafa komið í stað þess samnings, sem Þ vísaði til í málatilbúnaði sínum, en í áðurgreindum samningi var kveðið á um sjö daga gagnkvæman uppsagnarfrest. Talið var, að þótt fallist yrði á með Þ, að síðargreindi samningurinn ætti að ráða lögskiptum aðilanna, væru engin efni til að líta svo á, að krafa Þ væri af þeim sökum vanreifuð eða krafa Þ yrði af öðrum ástæðum háð annmarka, sem leitt gæti til frávísunar málsins. Var úrskurður héraðsdóms, þar sem málinu var vísað frá dómi, felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað. Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði sóknaraðili málið til heimtu launa í uppsagnarfresti. Kvað hann atvik vera þau að varnaraðili hafi 12. september 1997 ráðið hann sem verktaka til starfa sem skipstjóri og vélgæslumaður á fiskiskipinu Sædísi RE 7. Gerður hafi verið skriflegur samningur, en einskis getið þar um uppsagnarfrest. Varnaraðili hafi vikið sér fyrirvaralaust úr starfi 1. júní 1999 og neitað að greiða laun í uppsagnarfresti. Sóknaraðili telur þau laun eiga að nema dómkröfu sinni, 1.437.599 krónum, sem séu þrefaldar meðaltekjur hans á mánuði í störfum fyrir varnaraðila á tímabilinu frá ársbyrjun til loka maí 1999 ásamt orlofsfé. Varnaraðili lagði fram í héraði samning aðilanna, sem dagsettur var 20. september 1998 og hann kveður hafa komið í stað áðurnefnds samnings frá 12. september 1997. Í yngri samningnum, sem í flestum atriðum var samhljóða þeim eldri, var þó kveðið á um sjö daga gagnkvæman uppsagnarfrest. Telur varnaraðili að leggja eigi yngri samninginn til grundvallar um kröfu sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti ef varnaraðili verður ekki með öllu sýknaður af henni vegna ástæðna, sem hann hefur nánar fært fram í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi. Þótt fallist yrði á með varnaraðila að ákvæði samnings aðilanna frá 20. september 1998 ætti að ráða lengd uppsagnarfrests í lögskiptum þeirra, eru engin efni til að líta svo á að krafa sóknaraðila sé af þeim sökum vanreifuð, enda liggja nægilega fyrir í gögnum málsins upplýsingar til að komast að niðurstöðu um fjárhæð hennar á þeim grundvelli. Geta þessi atvik heldur ekki valdið því að krafa sóknaraðila verði af öðrum ástæðum háð annmarka, sem leitt gæti til frávísunar málsins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 161/2000
Kærumál Aðför Húsaleiga
Gegn mótmælum H var ekki talið, að E hefði sýnt fram á, að hann hefði tilkynnt um ætlaða annmarka á húsnæði, sem hann hafði á leigu, og krafist úrbóta fyrr en eftir að leigusamningi hafði verið rift vegna vanskila á leigugjaldi fyrir tiltekinn mánuð. Þótti E því ekki hafa sýnt fram á að skilyrðum laga hefði verið fullnægt til þess að honum hefði verið heimilt að halda eftir leigugreiðslu fyrir þann mánuð. Var úrskurður héraðsdóms um að H væri heimilt að fá E borinn út af eigninni með aðför staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2000, þar sem varnaraðila var heimilað að láta með aðfarargerð bera sóknaraðila út úr íbúð á aðalhæð hússins að Blikanesi 22 í Garðabæ. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þá leið að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms auk kærumálskostnaðar. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili aðalhæð hússins að Blikanesi 22 auk bílskúrs á leigu með samningi 17. nóvember 1999. Leigutími skyldi vera frá 18. nóvember 1999 til 1. júní 2000 og leigufjárhæð 115.000 krónur á mánuði, sem skyldi greiðast fyrsta dag hvers mánaðar. Við undirritun leigusamnings greiddi sóknaraðili varnaraðila leigu fyrir nóvember og desember auk 230.000 króna tryggingar fyrir réttum efndum leigusamnings. Sóknaraðili greiddi ekki leigu fyrir janúarmánuð. Af þessu tilefni rifti varnaraðili leigusamningnum með yfirlýsingu 7. febrúar 2000 að undangenginni greiðsluáskorun, sem birt var 25. janúar sama árs. Sóknaraðili mótmælir riftun varnaraðila á þeim grundvelli að hið leigða húsnæði hafi ekki verið í umsömdu ástandi þegar hann tók við því auk þess sem bílskúr, sem hann hafi tekið á leigu, hafi aldrei verið afhentur. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 skal leigjandi gera leigusala skriflega grein fyrir aðfinnslum sínum og segja til um hvaða úrbóta er krafist innan eins mánaðar frá afhendingu, ef í ljós kemur að hið leigða húsnæði er ekki í því ástandi, sem leigusamningur gerir ráð fyrir. Að öðrum kosti telst leigjandi una húsnæðinu. Gegn mótmælum varnaraðila hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi tilkynnt varnaraðila um ætlaða annmarka á húsnæðinu fyrr en með bréfi 14. febrúar 2000. Eins og málið liggur fyrir hefur sóknaraðili því ekki sýnt fram á að skilyrðum laga hafi verið fullnægt til þess að honum væri heimilt að halda eftir leigugreiðslu fyrir janúarmánuð. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Eltrón ehf., greiði varnaraðila, Helga Magnússyni, 25.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 166/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að A skyldi sæta gæsluvarðhaldiá grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála varstaðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og MarkúsSigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 26. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnumsama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000, þar semvarnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28.júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferðopinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldurúr gildi. Sóknaraðili krefst þess aðúrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hinskærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður erstaðfestur. Með ákæru ríkissaksóknara 17. þ.m. var höfðaðopinbert mál á hendur ákærða o.fl., þar sem honum er gefið að sök að hafa átímabilinu desember 1997 til september 1998 í 6 skipti móttekið og afhenthérlendis samtals 24 kg af kannabis, sem hann vissi að voru ætluð til söludreifingar.Ennfremur er ákærða gefið að sök að hafa á tímabilinu janúar 1998 til september1999 í um 18 skipti móttekið peninga, samtals að fjárhæð um 11,8 milljónirkróna, frá fjórum meðákærðu o.fl., sem hann vissi að voru afraksturfíkniefnasölu. Er brot ákærða taliðvarða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en til vara við 264.gr. almennra hegningarlaga, hvað varðar móttöku hans á peningum. Fyrir liggur sterkur grunur um að ákærði hafiframið brot sem varðað getur hann allt að 10 ára fangelsi. Um er að ræðastórfellt fíkniefnamisferli, en umræddur innflutningur er í ákæru talinn hafaátt sér stað með skipulögðum hætti hátt á annað ár. Brot það, sem ákærða er gefið að sök, er þess eðlis að telja mágæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan tilframangreinds, framlagðra gagna, hæstaréttardóma í málum ákærða frá 17.nóvember og 20. mars sl. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferðopinberra mála, er fallist á kröfu ríkissaksóknara, eins og hún er fram sett. Helga I. Jónsson héraðsdómari kvað uppúrskurðinn. Úrskurðarorð: Ákærði, Andrés Ingibergsson, sætiáframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigilengur en til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16.00.
Mál nr. 167/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að J skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Með ákærum ríkissaksóknara 17. og 18. þ.m. voru höfðuð opinber mál á hendur ákærða o.fl., þar sem honum er gefinn að sök stórfelldur innflutningur fíkniefna. Í ákæru, dagsettri 17. þ.m., er ákærða gefið að sök að hafa á tímabilinu desember 1997 og til september 1999 í um 6 skipti, með milligöngu meðákærðu Andrésar Ingibergssonar og Guðmundar Ragnarssonar, móttekið frá meðákærðu Gunnlaugi Ingibergssyni og Herbirni Sigmarssyni samtals um 39 kg af kannabis og selt hérlendis. Í síðari ákærunni er ákærða m.a. gefið að sök að hafa, ásamt meðákærðu Sverri Þór Gunnarssyni og Rúnari Ben Maitsland, staðið að kaupum á samtals 43 kg af hassi, 17 kg af marihuana og 2 kg af kókaíni í Amsterdam, sem þeir ætluðu til söludreifingar hérlendis. Í sömu ákæru er ákærða gefið að sök að hafa í Reykjavík, á tímabilinu júlí til ágúst 1999, í tvö skipti keypt samtals 2 kg af hassi af meðákærða Ólafi Ágústi Ægissyni. Eru brot ákærða talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Fyrir liggur sterkur grunur um, að ákærði hafi framið brot, sem varðað getur hann allt að 10 ára fangelsi. Um er að ræða stórfellt fíkniefnamisferli og er brot það, sem ákærða er gefið að sök, þess eðlis að telja má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til framanskráðs, framlagðra gagna, hæstaréttardóma í málum ákærða frá 29. nóvember og 20. mars sl. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er fallist á kröfu ríkissaksóknara, eins og hún er fram sett. Úrskurðarorð:
Mál nr. 168/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að S skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði sér bönnuð för úr landi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Með ákærum ríkissaksóknara 17. og 18. þ.m. voru höfðuð opinber mál á hendur kærða o.fl., þar sem honum er gefinn að sök stórfelldur innflutningur fíkniefna. Í ákæru, dagsettri 17. þ.m., er ákærða m.a. gefið að sök að hafa frá ársbyrjun 1998 og til september 1999 í um 15 skipti, með milligöngu meðákærðu Andrésar Ingibergssonar og Guðmundar Ragnarssonar, móttekið frá meðákærðu Gunnlaugi Ingibergssyni og Herbirni Sigmarssyni samtals um 105 kg af kannabis og selt hérlendis, en fíkniefni þessi hafi verið send til landsins frá Danmörku. Í ákæru, dagsettri 18. apríl sl., er ákærða m.a. gefið að sök ásamt meðákærðu Júlíusi Kristófer Eggertssyni og Rúnari Ben Maitsland staðið að kaupum á samtals 43 kg af hassi, 17 kg af marihuana og 2 kg af kókaíni í Amsterdam, sem þeir ætluðu til söludreifingar hérlendis. Í sömu ákæru er ákærða gefið að sök að hafa selt tveimur nafngreindum mönnum hérlendis fíkniefni. Brot ákærða eru talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Fyrir liggur sterkur grunur um, að ákærði hafi framið brot, sem varðað getur hann allt að 10 ára fangelsi. Um er að ræða stórfellt fíkniefnamisferli, en umræddur innflutningur frá Danmörku er í ákæru talinn hafa átt sér stað með skipulögðum hætti hátt á annað ár. Brot það, sem kærða er gefið að sök, er þess eðlis að telja má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til framanskráðs, framlagðra gagna, hæstaréttardóma í málum ákærða frá 15. nóvember og 20. mars sl. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, er fallist á kröfu ríkissaksóknara, eins og hún er fram sett. Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð:
Mál nr. 170/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að H skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Með ákæru ríkissaksóknara 17. þ.m. var höfðað opinbert mál á hendur ákærða o.fl., þar sem honum er gefið að sök að hafa í september 1999, í samvinnu við meðákærða Gunnlaug Ingibergsson, flutt inn frá Danmörku með skipi skipafélagsins Samskipa hf. um 7 kg af kannabis, sem fundust við leit lögreglu og tollgæslu 9. september sl. Þá er ákærða gefið að sök að hafa frá ársbyrjun 1998 til september 1999, í samvinnu við meðákærða Gunnlaug, í um 23 skipti á sama hátt flutt inn samtals um 152 kg af kannabis. Fíkniefnin hafi þeir selt meðákærðu Júlíusi Kristófer Eggertssyni, Sverri Þór Gunnarssyni og Ólafi Ágústi Ægissyni o.fl. og hafi þeim verið kunnugt um, að kaupendur efnanna ætluðu þau til frekari sölu hérlendis. Er brot ákærða talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Fyrir liggur sterkur grunur um, að kærði hafi framið brot, sem varðað getur hann allt að 10 ára fangelsi. Um er að ræða ákæru fyrir stórfellt fíkniefnamisferli, en umræddur innflutningur er í ákæru talinn hafa átt sér stað með skipulögðum hætti hátt á annað ár. Brot það, sem ákærða er gefið að sök, er þess eðlis að telja má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, hæstaréttardóms í máli kærða frá 20. mars sl. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er fallist á kröfu ríkissaksóknara, eins og hún er fram sett. Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð:
Mál nr. 152/2000
Kærumál Frávísunarúrskurður staðfestur
Ö höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist ógildingar á skilyrði í leyfi, sem hann fékk til að stunda rækjuveiðar. Héraðsdómari taldi málatilbúnað Ö ekki uppfylla skilyrði e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og vísaði málinu frá dómi. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað. Til vara er þess krafist að málskostnaður og kærumálskostnaður verði látinn niður falla. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Önundur Kristjánsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 60.000 krónur í kærumálskostnað. Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi um frá­vís­un­arkröfu stefnda 24. mars sl., er höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu 24. nóvember sl. Stefnandi er Önundur Kristjánsson, kt. 110233-7019, Aðalbraut 41a, Raufarhöfn. Stefndi er íslenska ríkið og er fjármála- og sjávarútvegsráðherrum stefnt fyrir þess hönd. Stefnandi krefst þess að ógiltur verði með dómi 4. tl. í leyfi hans, frá 19. október sl., til að stunda rækjuveiðar í Öxarfirði á bátnum Þorsteini GK 15. Þá krefst hann máls­kostnaðar. Stefndu krefjast aðallega frávísunar og málskostnaðar. Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og málið tekið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar. Málavextir eru þeir að 19. október sl. fékk stefnandi útgefið leyfi til að stunda rækju­veiðar í Öxarfirði en slíkt leyfi hefur hann haft undanfarin ár. Í 4. tl. leyfisins segir: "Leyfið miðast við að rækjuafla bátsins sé landað til vinnslu á Kópaskeri." Stefn­andi kveður þetta fyrirkomulag hafa leitt til þess að hann hafi aðeins möguleika á að selja rækjuafla sinn á Kópaskeri og hafi vinnslustöðin þar því einokunaraðstöðu til að ákveða verðið og því vilji hann ekki una. Með málssókninni freisti hann því þess að fá þennan lið leyfisins dæmdan ógildan. Eftir þessa lýsingu í stefnu segir að stefnandi hafi kvartað til umboðsmanns Alþingis í mars 1998 vegna þessa skilyrðis. Síðan er rakið innan tilvitnanamerkja úr svari umboðsmanns hugleiðingar hans um lagagildi skilyrðisins og síðan segir stefn­andi: "Stefnandi telur því að fullnægjandi lagastoð skorti fyrir þessu fyrirkomulagi." Þessu næst er tekið upp orðrétt úr áliti Samkeppnisstofnunar á kvörtun rækju­báta­eigenda við Húnaflóa vegna meintra samkeppnishindrana og síðan segir: "Stefn­andi tekur undir þetta álit samkeppnisstofnunar og byggir m.a. á því í málarekstri sínum." Þá kveðst stefnandi vísa til IV. kafla samkeppnislaga nr. 8/1993. Hann telur skil­yrð­ið í rækjuveiðileyfinu geta strítt gegn lögunum um evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 og þar með tilteknum ákvæðum í samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Loks segir: "Þá telur stefnandi að fyrirkomulag þetta sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og þau sjónarmið um jafnræði, sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar en eng­inn annar maður hérlendis þarf að sæta samskonar takmörkunum á atvinnufrelsi sínu." Frávísunarkrafa stefnda er á því byggð að málatilbúnaður stefnanda sé van­reif­að­ur, óljós og þversagnakenndur og gildi þá einu hvort litið sé til reifunar í stefnu eða fram­lagðra gagna. Heldur stefndi því fram að málatilbúnaðurinn sé þannig í and­stöðu við e og f liði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og eigi þess vegna að vísa málinu frá dómi. Þannig staðhæfi stefnandi að skilyrðið í leyfinu leiði til þess að vinnslustöðin á Kópa­skeri hafi einokunaraðstöðu til að ákveða rækjuverð án þess að leitast á nokkurn hátt við að rökstyðja það eða sýna fram á að verðlagningin hafi verið óeðlileg. Sem rök fyrir því að lagastoð skorti fyrir skilyrðinu vitni stefnandi í álit um­boðs­manns Alþingis en þar komi skýrt fram það álit umboðsmannsins að viðhlítandi laga­grund­völlur sé fyrir því að binda veiðileyfi því skilyrði að afli sé unninn hjá fisk­vinnslu­stöðvum á ákveðnum stað. Þá heldur stefndi því fram að stefnandi geri enga tilraun til þess að sýna fram á hvernig tilvitnaðar reglur samkeppnislaga og ákvæða samningsins um evrópska efna­hags­svæðið geti átt við í málinu eða hvernig þær eigi að leiða til ógildingar skil­yrð­is­ins. Þá sé ekki á nokkurn hátt rökstudd sú staðhæfing stefnanda, að honum einum sé gert að sæta sérstökum takmörkunum í andstöðu við jafnræðisreglur 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Í e lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing eigi að vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hvert sak­ar­efnið sé. Hér að framan var málatilbúnaði stefnanda lýst. Eins og þar kemur fram hefur hann ekki uppi neinar sjálfstæðar málsástæður, sem hann byggir kröfur sínar á, heldur tekur upp orðréttar tilvitnanir og gerir þær að sínum án þess að sýna fram á hvernig þær eigi að leiða til þess að orðið yrði við kröfu hans. Þá hefur hann uppi tilvitnanir í lög og stjórnarskrá án þess að reyna að sýna fram á hvernig skilyrðið í rækju­veiði­leyf­inu sé í andstöðu við þessi fyrirmæli. Það er niðurstaða dómsins að þessi málatilbúnaður stefnanda sé ekki í neinu sam­ræmi við fyrirmælin í nefndri grein einkamálalaganna og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi en málskostnaður þykir mega falla niður. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Málinu er vísað frá dómi en málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 127/2000
Kærumál Fjárnám
S mótmælti fjárnámum, sem gerð voru að kröfu Í. Andmæli S voru studd þeim rökum að kröfur Í hefðu verið veðtryggðar í fasteign S, sem Í hefði keypt við nauðungarsölu undir markaðsverði. Ætti því að færa kröfurnar niður samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Talið var, að ekki væri annað komið fram en að Í hefði tekið fullt tillit til hagnaðar af sölu þeirra eignarhluta fasteignarinnar, sem verið höfðu í eigu S, með kröfum sínum til lækkunar við meðferð málsins í héraði. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfum S og staðfesta fjárnám sýslumanns.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2000, sem barst réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2000, þar sem staðfestar voru fjárnámsgerðir, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 14. október 1998 hjá sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um aðför hafnað, en til vara að fjárnámsgerðunum verði breytt þannig að þær taki til lægri fjárhæða. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar. I. Eins og greinir í úrskurði héraðsdóms eignaðist varnaraðili þrjá eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Smiðsbúð 9 í Garðabæ við nauðungarsölu 24. nóvember 1994, 3. mars 1995 og 1. febrúar 1996. Samkvæmt gögnum málsins var söluverð eignarhluta nr. 0001 1.700.000 krónur og fékk varnaraðili við úthlutun söluandvirðis 1.415.358 krónur upp í eigin kröfu, merkta 5450402, upphaflega að höfuðstól 7.500.000 krónur. Söluverð eignarhluta nr. 0101 var 2.500.000 krónur og fékk varnaraðili við úthlutun söluandvirðis greiðslu upp í þrjár kröfur. Greiddust tvær kröfur, upphaflega að fjárhæð 250.000 krónur og 500.000 krónur að fullu, en sú þriðja, merkt 5450406, upphaflega að fjárhæð 5.000.000 krónur, greiddist að hluta með 1.041.683,50 krónum. Síðastnefnda krafan var síðar að fullu greidd með því að varnaraðili keypti 31. maí 1996 þrjá aðra eignarhluta í Smiðsbúð 9 af þrotabúi Vélanausts hf. fyrir 9.000.000 krónur, en á þessum eignarhlutum hvíldu veðbréf, sem meðal annars stóðu til tryggingar skuldum sóknaraðila við varnaraðila. Söluverð eignarhluta nr. 0201 var 3.000.000 krónur og fékk varnaraðili af því við úthlutun 2.487.217 krónur upp í eigin kröfu, merkta 5450404, að upphaflegum höfuðstól 4.500.000 krónur. Varnaraðili seldi alla fasteignina Smiðsbúð 9 hinn 1. nóvember 1996 fyrir 29.000.000 krónur og er ágreiningslaust að miða eigi við að 12.302.259 krónur eigi að renna til greiðslu skulda sóknaraðila við varnaraðila, vegna þeirra þriggja eignarhluta, sem voru í eigu sóknaraðila. Að kröfu varnaraðila var gert árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila fyrir framangreindum kröfum hans að upphaflegum höfuðstól 7.500.000 krónur og 4.500.000 krónur 14. október 1998. Sóknaraðili skaut þessum fjárnámsgerðum til héraðsdóms og krafðist þess að þær yrðu felldar úr gildi. Við meðferð málanna fyrir héraðsdómi féllst varnaraðili á þá málsástæðu sóknaraðila að kröfur hans ættu að sæta lækkun vegna hagnaðar hans við sölu á þeim þremur eignarhlutum í Smiðsbúð 9, sem áður voru í eigu sóknaraðila. Þessum ágreiningi aðila lauk með dómum Hæstaréttar 8. júní 1999 í málum nr. 180/1999 og nr. 181/1999, þar sem talið var að kröfur varnaraðila ætti að færa niður samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu umfram það, sem hann hefði endanlega fallist á. Eins og málatilbúnaði sóknaraðila var háttað var hins vegar ekki unnt að tiltaka þær fjárhæðir, sem koma skyldu til lækkunar einstökum kröfuliðum varnaraðila, þannig að fjárnám yrðu staðfest fyrir ákveðnum fjárhæðum og var málunum sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Sóknaraðili skaut framangreindum fjárnámsgerðum að nýju til héraðsdóms 14. júní 1999. II. Sóknaraðili reisir kröfur sínar meðal annars á því, að varnaraðili hafi fallið frá beiðni um fjárnám fyrir sýslumanni 7. október 1998. Þessi málsástæða, sem ekki verður séð að hafi verið hreyft fyrr en í málatilbúnaði hans nú fyrir Hæstarétti, er haldlaus. Sóknaraðili heldur því fram að kröfur varnaraðila eigi að sæta lækkun vegna hagnaðar hans við sölu þeirra þriggja eignarhluta Smiðsbúðar 9, sem voru í eigu Vélanausts hf. Eins og fram kom í framangreindum dómum Hæstaréttar 8. júní 1999 verður ekki fallist á með sóknaraðila að ákvæði 57. gr. laga nr. 90/1991 eigi við um sölu skiptastjóra á fasteignum þrotabús. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hagnaður varnaraðila af kaupum og sölu þessara eignarhluta eigi að koma til lækkunar kröfu hans af öðrum ástæðum. Kemur því einungis hagnaður af sölu eignarhluta nr. 0001, nr. 0101 og nr. 0201, sem áður voru í eigu sóknaraðila sjálfs, til lækkunar krafna varnaraðila. Eins og veðréttindum varnaraðila var háttað verður fallist á með sóknaraðila að honum hafi borið að ráðstafa hagnaði af sölu framangreindra eignarhluta til greiðslu þeirra krafna, sem lýst var í söluverð þeirra, og ekki fengust greiddar, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991. Eins og að framan greinir var kröfu merktri 5450402 upphaflega að höfuðstól 7.500.000 krónur lýst í söluverð eignarhluta 0001. Að kröfu sóknaraðila verður krafa varnaraðila færð niður, sem nemur hagnaði af sölu þessa eignarhluta, um 2.781.498 krónur, miðað við þann dag, sem sýslumaður samþykkti boð hans við nauðungarsölu, en upp í þessa kröfu greiddust 1.415.358 krónur samkvæmt frumvarpi sýslumanns 12. janúar 1995. Ekki er annað komið fram en að varnaraðili hafi tekið fullt tillit til þessarar lækkunar með breytingum á kröfugerð sinni í héraði. Kröfu merktri 5450404 upphaflega að höfuðstól 4.500.000 krónur var lýst í söluverð eignarhluta nr. 0201. Að kröfu sóknaraðila verður krafa varnaraðila færð niður, sem nemur hagnaði af sölu þessa eignarhluta, um 2.370.254 krónur, miðað við þann dag, sem sýslumaður samþykkti boð hans við nauðungarsölu, en upp í þessa kröfu greiddust 2.487.217 krónur samkvæmt frumvarpi sýslumanns 24. apríl 1996. Ekki er annað komið fram en að varnaraðili hafi tekið fullt tillit til þessarar lækkunar með breytingum á kröfugerð sinni í héraði. Sóknaraðili heldur því fram að hagnaður vegna sölu eignarhluta 0101 eigi að koma til lækkunar þeim kröfum, sem gert var fjárnám fyrir og að framan greinir. Samkvæmt gögnum málsins var hvorugri kröfunni lýst í söluandvirði þessa eignarhluta. Sú krafa, sem lýst var í söluandvirði þessa eignarhluta og merkt var 5450406 og einungis greiddist að hluta við úthlutun sýslumanns, var samkvæmt gögnum málsins síðar að fullu greidd, eins og áður er rakið. Þar sem allar kröfur, sem varnaraðili lýsti í eignarhlutann, eru samkvæmt þessu uppgreiddar, var honum heimilt að ráðstafa þeim hagnaði, sem hlaust af sölu eignarhlutans, til greiðslu annarra ógreiddra krafna, sem tryggðar voru með veði í eignarhlutanum. Í greinargerð varnaraðila í héraði kemur fram að hann hefur ráðstafað 422.706 krónum af 2.325.392 króna söluhagnaði eignarhlutans til greiðslu kröfunnar að upphaflegum höfuðstól 7.500.000 krónur, en afganginum til greiðslu annarra krafna, sem veðréttar nutu í eignarhlutanum. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með sóknaraðila að hann eigi tilkall til frekari lækkunar vegna hagnaðar af sölu umrædds eignarhluta en varnaraðili hefur þegar tekið tillit til í breytingum á kröfugerð sinni í héraði. Samkvæmt öllu framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Úrskurður héraðsdóms er staðfestur. Sóknaraðili, Sigmundur Franz Kristjánsson, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 449/1999
Þjófnaður Ítrekun Vanaafbrotamaður
J var sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið var til sakaferils J og gætt var ákvæða 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing hans hæfilega ákveðin í héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi. Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð sérstök refsing, en til vara að hún verði milduð. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Áður en ákærði framdi brot þetta 23. ágúst 1999 hafði hann í 31 skipti hlotið dóm á tímabilinu frá 27. apríl 1978, þar af 30 sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Frá 7. febrúar 1977 hafði hann gengist undir 15 sáttir fyrir brot gegn sömu lögum, umferðarlögum, áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Af dómum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum voru 24 fyrir auðgunarbrot og hafa 4 þeirra, þar sem ákærða var alls ákveðin óskilorðsbundin fangelsisrefsing í 28 mánuði, ítrekunaráhrif þegar refsing er nú ákveðin. Þegar litið er til sakaferils ákærða og gætt ákvæða 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Jóhannes Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. október 1999. Mál þetta var höfðað með ákæru sýslumannsins á Hvolsvelli, dagsettri 15. september 1999, á hendur Jóhannesi Guðmundssyni, kt. 260761-5529, nú refsifanga á Litla-Hrauni. Hann er í ákæru sakaður um tvö þjófnaðarbrot, sem talin eru varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga, annars vegar með því að hafa " mánudaginn 23. ágúst 1999 farið inn í verslunina Príl, Hvolsvelli, stolið þaðan tvennum peysum og einum buxum að verðmæti samtals kr. 14.900.-", hins vegar " síðar sama dag stolið skópari að verðmæti 7.000.- úr Rangárapóteki, Hvolsvelli." Ákæruvald krefst refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Við þingfestingu málsins féll sækjandi frá fyrri hluta ákærunnar, þannig að einungis er til úrlausnar ákæra fyrir brot samkvæmt síðari liðnum. Ákærði krefst þess aðallega að ekki verði gerð sérstök refsing, til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Málið var dómtekið fyrr í dag. Ákærði hefur játað brot það sem lýst er í síðari hluta ákæru og er játning í samræmi við önnur gögn málsins. Ekki er nauðsynlegt að reifa málsvexti frekar, en brotið er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru. Verður hafnað þeirri viðbáru verjanda að taka skónna hafi falið í sér gripdeild. Ákærði er vanaafbrotamaður. Hann hefur reglulega frá árinu 1978 verið dæmdur til óskilorðsbundinnar refsivistar, auk sekta, mest vegna auðgunarbrota og skjalafals. Hann afplánar nú 12 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí sl. Refsing hans er ákveðin fangelsi fjóra mánuði. Honum ber að greiða sakarkostnað, þar á meðal málsvarnarlaun, 35.000 krónur. Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Ákærði, Jóhannes Guðmundsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun Kristjáns Stefánssonar hrl., 35.000 krónur.
Mál nr. 145/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2000. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [...] verði, með vísan til a- og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi, til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16:00. [...] Fyrir liggur að til rannsóknar eru fjöldi innbrota í bifreiðar sem kærði er ýmist grunaður um beina aðild að eða hilmingu. Kærði hefur eindregið neitað aðild að þeim innbrotum nema að frátöldum þjófnaði á verkfærum í bílskúr við [...] hinn 13. mars sl. Kærði kannast við að hafa verið um tíma búsettur hjá [...] þar sem þýfi úr mörgum innbrotum hefur fundist. Ekki hefur náðst í [...]. Rannsókn þessara mála er ekki lokið. Kærði er vana­af­brotamaður með langan brotaferil að baki og hefur ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot. Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsis­refsingu skv. XXVI. kafla almennra hegningarlaga. Þá liggur fyrir að 18. þ.m. verður kveðinn upp dómur í máli sem lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði á hendur kærða m.a. fyrir þjófnaði í alls sjö skipti framda á árinu 1999. Telja verður með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna að fullnægt sé skilyrðum um gæsluvarðhald kærða samkvæmt a- og c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en án þess að kærða sé gert að sæta skerðingu á frelsi samkvæmt b-lið 1. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Mál nr. 132/2000
Kærumál Fjárnám Aðild Málskostnaður
Með dómi Hæstaréttar var O dæmt til að greiða E, M og Ó sameiginlega 1.100.000 krónur í málskostnað, eins og um hefði verið að ræða samaðild þeirra að málinu. Á grundvelli dómsins krafðist Ó fjárnáms hjá O fyrir 366.667 krónum að viðbættum vöxtum og kostnaði. Talið var að vegna ákvæða 2. gr. laga nr. 90/1989 um aðför hefði að öðru óbreyttu ekki verið unnt að fullnægja þessum réttindum E, M og Ó nema þau ættu þar öll í sameiningu hlut að máli, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki þótti unnt að leggja til grundvallar að kröfunni hefði verið skipt í jöfnun hlutföllum milli E, M og Ó, enda lá ekkert fyrir um afstöðu E til þeirrar skiptingar. Þar sem Ó var ekki heimilt að krefjast fjárnáms upp á eindæmi sitt var ákvörðun sýslumanns um að gera fjárnám fyrir kröfu Ó felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. október 1999 um að hafna mótmælum sóknaraðila gegn því að fram nái að ganga fjárnám hjá honum samkvæmt kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað. I. Mál þetta á rætur að rekja til máls, sem sóknaraðili höfðaði 21. október 1989 á hendur varnaraðila, svo og Einari Þór Kolbeinssyni og Maríu Óskarsdóttur. Í því máli krafðist sóknaraðili þess að Einar yrði dæmdur til að greiða sér skuld að höfuðstól 6.053.116,80 krónur ásamt nánar tilteknum vöxtum og málskostnaði, en að frádreginni innborgun að fjárhæð 600.000 krónur. Þá krafðist sóknaraðili þess að staðfestur yrði veðréttur fyrir þeirri skuld í fasteignunum að Garðarsbraut 25 og Höfðavegi 8 á Húsavík. Þeirri kröfu var beint að því er varðar fyrrnefndu fasteignina að Einari og Maríu, en þá síðarnefndu að varnaraðila. Mun sú málsaðild hafa verið í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 21. janúar 1999, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 173. Var Einar dæmdur til að greiða sóknaraðila 1.800.000 krónur með nánar tilteknum vöxtum, en sýknað var af öllum kröfum þess síðastnefnda um staðfestingu veðréttar. Þá var sóknaraðili dæmdur til að greiða öllum gagnaðilum sínum sameiginlega 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Með beiðni, sem barst sýslumanninum í Reykjavík 3. september 1999, krafðist varnaraðili fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir skuld að fjárhæð 366.667 krónur að viðbættum nánar tilteknum vöxtum og kostnaði, sem námu alls 44.705 krónum. Um heimild til aðfarar var í beiðninni vísað til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar, svo og 1. gr. laga nr. 90/1989. Þegar sýslumaður tók beiðnina fyrir 1. október 1999 mótmælti sóknaraðili því að fjárnám næði fram að ganga. Til þeirra mótmæla tók sýslumaður afstöðu 13. sama mánaðar með þeirri ákvörðun, sem sóknaraðili leitast nú við að fá hnekkt í málinu. Féllst varnaraðili á að sóknaraðili bæri ágreining þeirra þegar undir dóm eftir ákvæðum 14. kafla laga nr. 90/1989, en framkvæmd fjárnáms var frestað um ótiltekinn tíma af þeim sökum. II. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var sóknaraðila heimilt að beina kröfunum, sem leyst var úr með áðurnefndum dómi 21. janúar 1999, í einu máli að varnaraðila, Einari Þór Kolbeinssyni og Maríu Óskarsdóttur. Af dómsorði orkar á hinn bóginn ekki tvímælis að þeim var dæmdur málskostnaður í einu lagi úr hendi sóknaraðila, eins og um hefði verið að ræða samaðild þeirra að málinu, sbr. 1. mgr. 132. gr. sömu laga. Vegna ákvæða 2. gr. laga nr. 90/1989 var því að öðru óbreyttu ekki unnt að fullnægja þessum réttindum varnaraðila, Einars og Maríu á hendur sóknaraðila með fjárnámi nema þau ættu þar öll í sameiningu hlut að máli, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Með áðurnefndri beiðni til sýslumanns leitaði varnaraðili einn síns liðs fjárnáms á grundvelli umrædds dómsorðs, en þó aðeins fyrir réttum þriðjungi þeirrar fjárhæðar, sem dæmd var honum, Einari og Maríu. Hvorki verður fundin stoð fyrir slíkri skiptingu fjárhæðarinnar á milli þeirra í dóminum, sem vísað var til sem heimild fyrir beiðni varnaraðila um aðför, né verður hún reist á lögum. Í málatilbúnaði varnaraðila er staðhæft að hann, Einar og María hafi skipt á milli sín í jöfnum hlutföllum þeirri sameign, sem var um kröfuna um málskostnað á hendur sóknaraðila. Sú staðhæfing er í samræmi við málatilbúnað Maríu í máli, sem er rekið samhliða þessu máli á milli hennar og sóknaraðila. Um afstöðu Einars til þessa liggur hins vegar ekkert fyrir í málinu. Að því gættu er ekki unnt að leggja til grundvallar að kröfunni hafi verið skipt á þann hátt, sem varnaraðili heldur fram. Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, var varnaraðila ekki fært að krefjast fjárnáms upp á eindæmi sitt fyrir kröfu um málskostnað samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar, hvorki fyrir kröfunni í heild né að hluta. Verður ákvörðun sýslumanns, sem deilt er um í málinu, því felld úr gildi. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. október 1999 um að hafna mótmælum sóknaraðila, Olíuverzlunar Íslands hf., gegn því að fram nái að ganga fjárnám hjá honum samkvæmt kröfu varnaraðila, Óskars B. Guðmundssonar. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. Héraðsdómur hefur ekki borist.
Mál nr. 137/2000
Kærumál Vanhæfi Dómari
Talið var að héraðsdómarinn G, sem jafnframt var formaður barnaverndarnefndar sveitarfélagsins R, væri ekki vanhæfur til að fara með mál, sem laut að kynferðisbroti gegn barni, en málið hafði ekki komið til umfjöllunar nefndarinnar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2000, þar sem Greta Baldursdóttir héraðsdómari hafnaði kröfu varnaraðila um að hún viki sæti í málinu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst að þessari niðurstöðu verði hnekkt. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Með ákæruskjali dagsettu 14. desember 1999 höfðaði ríkissaksóknari opinbert mál á hendur [...] "fyrir eftirtalin kynferðisbrot: 1. Frá nóvember 1997 til vors 1999, á heimili ákærða að [...] þuklað á lærum drengsins [...] fædds [...] 1986, utan klæða og baki hans innan og utan klæða, margsinnis þuklað lim drengsins innan klæða og fróað honum, tekið lim drengsins í munn sér og haft munnmök við hann og fróað sjálfum sér á sama tíma í nokkur skipti og, sumarið 1998, í tjaldi á ferðalögum á Akureyri og á Laugarvatni, fróað drengnum og sjálfum sér á sama tíma. 2. Frá hausti 1997 fram á árið 1999, einnig á heimili sínu, margsinnis strokið drengnum [...], fæddum [...]1985, um rass og mitti utan klæða, sett hönd undir buxnastreng drengsins og fróað honum. Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 sbr. og nr. 40,1992. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu [...] er krafist miskabóta að fjárhæð 5.000.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25,1987 frá 15. apríl 1997 til greiðsludags og þóknunar vegna réttargæslu og lögmannsaðstoðar. Af hálfu [...] er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 11. nóvember 1997 til greiðsludags og þóknunar vegna réttargæslu og lögmannskostnaðar." Málið var þingfest þann 13. janúar sl. og mætti ákærði þá ekki en verjandi hans Lúðvík Emil Kaaber hdl. mætti og óskaði eftir fresti þar sem ákærði væri í útlöndum. Var málið tekið fyrir að nýju þann 2. febrúar sl. og mætti þá ákærði og játaði að mestu leyti þau ákæruatriði sem honum eru að sök gefin, en gerði þær athugasemdir varðandi lið tvö að hann hafi einungis gert það sem honum er að sök gefið í nokkur skipti ekki margsinnis eins og greini í ákæru. Var ákveðin aðalmeðferð málsins þann 29. mars n.k. en þann 17. mars sl. barst héraðsdómara krafa verjanda um að dómari málsins víki sæti. Ákæruvaldið hefur ekki látið ágreining þennan til sín taka. Af hálfu verjanda er þess krafist að dómari málsins, sem jafnframt er formaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, víki sæti í máli þessu. Ástæðu þess kveður verjandi vera þá að ætla megi að starf dómarans sem formaður Barnaverndarnefndar fari í máli þessu illa saman við dómarastarfið. Telur hann að til að vernda það traust, sem ákærði verði að hafa á endanlegum dómi, beri dómaranum að víkja sæti. Tekur hann fram að ákærði hafi enga sérstaka ástæðu til að ætla dómaranum hlutdrægni í máli hans, hvað þá illan vilja í hans garð. Sé krafa þessi ekki sett fram með tilliti til þess að ætla megi að dómaranum sé vernd barna sérstaklega hugleikin umfram annað fólk, heldur öllu fremur vegna þess að ákærði geti ekki talið víst að staða dómarans sem formanns Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi ekki áhrif á mat hans sem dómara. Þá kveður hann að dómarinn kunni að hafa tengsl við rannsóknaraðila sem ekki samræmist dómarastarfinu. Sé krafan sett með vísan til undirstöðuraka 5. gr. laga um meðferð einkamála í heild sinni en einkum þó g-liðar þeirrar greinar. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála víkur dómari sæti samkvæmt lögunum ef svo stendur á sem segir í lögum um meðferð einkamála. Verjandi byggir fyrst og fremst á g lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en í 5 gr. laganna er rakið í sjö stafliðum hvenær dómari, þar á meðal meðdómsmaður sé vanhæfur, til að fara með mál. Í g lið þessa ákvæðis segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en þau sem talin eru upp í liðum a-f, sem fallnar séu til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Hér er því um að ræða reglu reista á mati á aðstæðum hverju sinni, andstætt því sem gildir um þær reglur, sem aðrir stafliðir greinarinnar byggjast á. Í því máli sem hér er til úrlausnar er sú aðstaða uppi að dómarinn er formaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Forsaga máls þess sem hér er til meðferðar er sú að mæður kærenda leituðu til Félagsþjónustunnar í Reykjavík vegna gruns um að synir þeirra hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða í máli þessu og óskaði forstöðumaður Félagsþjónustunnar í Reykjavík, Aðalbjörg Traustadóttir eftir lögreglurannsókn samkvæmt lögum nr. 19/1991. Starfsmenn Félagsþjónustunnar í Reykjavík þeir sem vinna að barnaverndarmálum eru starfsmenn Barnaverndarnefndar Reykjavíkur en um skilgreiningu á starfsliði barnaverndarnefnda er fjallað í 7. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992. Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga hafa verið samþykktar reglur um verkaskiptingu Félagsmálaráðs og Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Ef ekki tekst samvinna við forsjáraðila barns um viðunandi úrbætur varðandi umönnun og/eða uppeldisaðstæður barns eða barn er í bráðri hættu ber að leggja mál fyrir barnaverndarnefnd. Einnig ber að leggja mál fyrir barnaverndarnefnd þegar um er að ræða fósturráðstöfun sem ætlað er að standa lengur en í 6 mánuði og þegar sótt er um langtímameðferðarúrfæði fyrir börn. Þá má leggja fyrir nefndina beiðni um umsögn vegna umgengnis-og forsjármála. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur er skipuð 5 aðalmönnum og kemur sem slík ekki að vinnslu barnaverndarmála. Mál það sem hér er til umfjöllunar hefur ekki komið til umfjöllunar á fundi í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og þykir því aðkoma starfsmanns Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að málinu í upphafi ekki til þess fallin að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa, enda verður ekki séð að nefndin sjálf eða formaður hennar hafi nokkra hagsmuna að gæta um úrslit þess. Verður því kröfu verjanda hafnað. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Hafnað er kröfu um dómari máls þessa víki sæti.
Mál nr. 136/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en G var grunaður um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. [...] Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er fallist á það með ríkissaksóknara að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið afbrot er geti varðað hann allt að 10 ára fangelsi sbr. tilvitnaða grein almennra hegningarlaga og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er því fullnægt og verður fallist á kröfu ríkissaksóknara og kærði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16:00. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærða, Guðmundi Inga Þóroddssyni, kt. 290574-4639, nú gæslufanga á Litla Hrauni, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. maí nk. kl. 16:00.
Mál nr. 95/2000
Kærumál Sakarefni Dómstóll Frávísunarúrskurður staðfestur
Talið var að dómkrafa J og F lyti ekki að lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds, heldur miðaði hún að því að dómstólar kvæðu á um tiltekin réttindi þeim til handa. Var fallist á með héraðsdómara, að það væri ekki í valdi dómstóla að úthluta J og F þeim réttindum, sem þeir gerðu kröfu um, eða kveða nú á um tilvist þeirra. Var því staðfest sú niðurstaða héraðdómara að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegar meðferðar. Þeir krefjast einnig kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara krefjast sóknaraðilar þess að viðurkennt verði að fiskiskipið Dýri BA 98 eigi rétt á að fá úthlutað án nokkurrar skerðingar reiknuðu þorskaflahámarki byggðu á veiðireynslu skipsins fiskveiðiárin 1995/1996, 1996/1997 og 1997/1998, miðað við tvö bestu ár þess af árunum 1996, 1997 og 1998. Samkvæmt gögnum málsins hafa sóknaraðilar ekki sótt um til stjórnvalda að fá að stunda veiðar með þorskaflahámarki á yfirstandandi fiskveiðiári. Dómkrafa sóknaraðila lýtur þannig ekki að lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds, heldur miðar hún að því að dómstólar kveði á um tiltekin réttindi sóknaraðilum til handa á grundvelli 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. og 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Fallist verður á með héraðsdómara að það sé ekki á valdi dómstóla að úthluta sóknaraðilum þeim réttindum, sem þeir gera kröfu um, eða kveða nú á um tilvist þeirra. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Eftir þessum úrslitum verða sóknaraðilar dæmdir í sameiningu til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, Jóhann Þorsteinsson og Friðþjófur Jóhannsson, greiði í sameiningu varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 110/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að J skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. [...] Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu þessu er kærði borinn sökum um aðild að innflutningi á verulegu magni fíkniefna til landsins sem ætlað var til sölu. Kærði hefur neitað að eiga aðild að innflutningi þessum. Af hálfu ríkissaksóknara er grunur um aðild kærða byggður á framburði annarra sakborninga í málinu og hlustun á símtöl sem kærði hefur átt við þá. Telst því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna enda þykir farbann ekki vernda þá hagsmuni sem stefnt er að með kröfu ríkissaksóknara. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Ákæra mun verða gefin út á næstu dögum samkvæmt því fulltrúi ríkissaksóknara hefur upplýst hér fyrir dómi. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu ríkissaksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á kröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, Júlíus Kristófer Eggertsson, kt. 271072-5119, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 112/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að Ó skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. [...] Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu liggur fyrir játning kærða um aðild að stórfelldu fíkniefnamisferli sem staðið hefur yfir með skipulegum hætti um langan tíma. Er því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir brotið þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Ákæra mun þó verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt gögnum málsins. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu ríkissaksóknara og kærði úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, Ólafur Ágúst Ægisson, kt. 141072-3079, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 108/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að S skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald, en til vara að sér verði þess í stað bönnuð för úr landi þar til dómur gengur í málinu. Þá er krafist kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu þessu hefur kærði gengist við því að hafa átt aðild að innflutningi á verulegu magni fíkniefna til landsins sem ætlað var til sölu. Er því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna enda þykir farbann ekki vernda þá hagsmuni sem stefnt er að með kröfu ríkissaksóknara. Ákæra mun verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt gögnum málsins. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu ríkissaksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á kröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, Sverrir Þór Gunnarsson, kt. 220572-4719, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 119/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að H skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá fellst varnaraðili á varakröfu sóknaraðila um að hann sæti farbanni. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Héraðsdómur barst ekki.
Mál nr. 109/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að R skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. [...] Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu þessu hefur kærði gengist við því að hafa átt aðild að innflutningi á verulegu magni fíkniefna til landsins sem ætlað var til sölu. Er því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Ákæra mun verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt því sem fulltrúi ríkissaksóknara hefur upplýst hér fyrir dóminum. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu ríkissaksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á kröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, Rúnar Ben Maitsland, kt. 230772-3989, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 113/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að I skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2000. Kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri til að fá úrskurð héraðsdómara felldan úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Inga Þór Arnarsyni, kt. 150581-3979, verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16.00. [...] Í máli þessu liggur fyrir að kærði hefur viðurkennt að hafa í félagi við annan nafngreindan mann fjármagnað og staðið að innflutningi og sölu á miklu magni á e-töflum. Telst því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varða geti hann allt að 10 ára fangelsi skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykja hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brot kærða séu þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almanna hagsmuna. Rannsókn málsins er að ljúka og mun málið verða sent ríkissaksóknara fyrir mánaðarmótin eftir því sem fulltrúi lögreglustjóra upplýsir fyrir dóminum. Telst tímalengd gæsluvarðhalds skv. kröfu lögreglustjóra því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þannig að fallast ber á kröfu lögreglustjóra. Kærði sæti því áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl n.k. kl. 16:00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, Ingi Þór Arnarson, kt. 150581-3979, skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16.00.
Mál nr. 107/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að H skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald, en til vara að sér verði þess í stað bönnuð för úr landi þar til dómur gengur í málinu. Þá er krafist kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 14. mars 2000. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu þessu hefur kærði gengist við því að hafa haft mjög mikið magn fíkniefna í vörslum sínum. Er því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ákæra mun verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt gögnum málsins. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu ríkissaksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á kröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, Haraldur Ægir Hraundal Ægisson, kt. 201073-5299, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 106/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
. Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald, en samþykkir varakröfu sóknaraðila um að hann sæti farbanni. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Árið 2000, þriðjudaginn 14. mars, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Valtý Sigurðssyni héraðsdómara, kveð­inn upp úrskurður þessi. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu liggur fyrir að kærði hefur gengist við aðild að stórfelldu fíkniefnamisferli sem staðið hefur yfir með skipulegum hætti um langan tíma. Er því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir brotið þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ákæra mun verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt gögnum málsins. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu saksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykja uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á aðalkröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærði, Gunnlaugur Ingibergsson, kt. 210272-4109, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 111/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að A skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. [...] Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er rannsókn málsins lokið og bárust málsgögn embætti ríkissaksóknara þann 2. mars sl. Í málinu þessu hefur kærði gengist við því að hafa átt aðild að innflutningi á verulegu magni fíkniefna til landsins sem ætlað var til sölu. Þá hefur hann viðurkennt að hafa flutt peninga, sem fengust fyrir sölu fíkniefna, milli manna. Telst því sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykja hafa verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brot kærða sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Mál þetta er verulega umfangsmikið og eðlilegt að nokkurn tíma taki að vinna að útgáfu ákæru og leggja á það dóm. Ákæra mun verða gefin út alveg á næstu dögum samkvæmt því sem fulltrúi ríkissaksóknara hefur upplýst hér fyrir dómi. Telst tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt kröfu ríkissaksóknara því eðlileg í því sambandi. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þannig að fallast ber á kröfu ríkissaksóknara. Kærði er því úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000 kl. 16.00. Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kkvaðp upp dóminn. Úrskurðarorð: Kærði, Andrés Ingibergsson, kt. 230779-4229, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. apríl 2000, kl. 16:00.
Mál nr. 82/2000
Kærumál Sjópróf Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Þótt héraðsdómari hefði með alls óviðunandi röksemdum hafnað réttmætri beiðni um sjópróf gat Hæstiréttur í engu hreyft við þeirri niðurstöðu, enda væri hvergi að finna í lögum heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara þessa efnis.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. febrúar 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um sjópróf. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og XVII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að halda umbeðið sjópróf. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka. Í hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari með alls óviðunandi röksemdum hafnað réttmætri beiðni sóknaraðila um að haldið verði sjópróf samkvæmt ákvæðum XIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985. Við þeirri niðurstöðu getur Hæstiréttur hins vegar í engu hreyft, enda er hvergi að finna í lögum heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara þessa efnis, sbr. meðal annars dóm réttarins í dómasafni 1997, bls. 1063. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Mál nr. 89/2000
Kærumál Farbann
Úrskurður héraðsdóms um að Y skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími farbanns styttur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 31. mars nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í beiðni sóknaraðila um farbann yfir varnaraðila er vísað til þess að hann sé erlendur ríkisborgari, sem sé staddur hér á landi sem ferðamaður, en að honum beinist rannsókn á kynferðisbrotamáli, þar sem hann sé borinn sökum um að hafa neytt stúlku til kynmaka aðfaranótt 26. febrúar sl. Í beiðninni eru að engu leyti færð fyrir því rök að skilyrði væru til að láta varnaraðila sæta gæsluvarðhaldi af þessum sökum. Verður vegna þessa að líta svo á að sóknaraðili reisi kröfu sína á því að efni séu til að beita farbanni óháð skilyrðum 103. gr. laga nr. 19/1991, en fyrir því er heimild í upphafsorðum 110. gr. laganna. Samkvæmt skýrslum, sem gefnar hafa verið fyrir lögreglu og liggja fyrir í málinu, eru sakargiftir á hendur varnaraðila reistar á framburði ætlaðs brotaþola, sem fær nokkra stoð í framburði tveggja vitna. Varnaraðili hefur látið uppi þá fyrirætlan að fara héðan af landi 12. mars nk. Eins og atvikum er hér háttað má fallast á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði 110. gr. laga nr. 19/1991 til að tálma þá för varnaraðila úr landi vegna rannsóknar málsins. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er rannsóknin langt á veg komin. Að því gættu er ekki tilefni til að marka farbanni lengri tíma en í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðila, Y, er bönnuð för úr landi allt til mánudagsins 20. mars 2000 kl. 16.00. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Y, [...], sæti farbanni allt til mánudagsins 17. apríl 2000. Kærði, Y, [...], sæti farbanni allt til föstudagsins 31. mars 2000.
Mál nr. 77/2000
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en G var grunaður um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Fallist verður á með sóknaraðila að sterkur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sem varðað getur allt að tíu ára fangelsi. Brotið, sem honum er gefið að sök, er þess eðlis að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Gæsluvarðhaldinu er markaður hæfilegur tími með hinum kærða úrskurði, sem verður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Guðmundi Inga Þóroddssyni, kt. 290574-4639, Völvufelli 17, Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum gæsluvarðhalds þess er rennur út kl. 16:00 í dag uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16:00 vegna gruns um að hafa framið brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafi um nokkurt skeið unnið að rannsókn á innflutningi og dreifingu á e-töflum. Málið snúist að innflutningi og dreifingu á þúsundi e-taflna. Hafi nokkrir aðilar verið undir vegna þessa og verið hnepptir í gæsluvarðhald. [...] Brot þau sem ætlað er að kærði hafi framið samkvæmt því sem að framan greinir geta varðað 10 ára fangelsi skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður að telja ríka almannahagsmuni fyrir því að komið verði í veg fyrir dreifingu verulegs magns hættulegra fíkniefna. Með vísan til þess verður að telja að hér sé um brot að ræða þess eðlis að varðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist hefur verið. Þá liggur einnig fyrir að rannsókn málsins er nú á lokastigi og er gert ráð fyrir að tekin verði ákvörðun á næstu vikum um málshöfðun gegn kærða og öðrum sem rannsókn máls þessa hefur beinst að. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfuna eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Kærði, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 31. mars nk. kl. 16:00.