source
stringlengths 710
1.19M
|
---|
Beverly Hills, 90210 er bandarískur unglinga-drama þáttur sem var sýndur á árunum 1990 – 2000 á FOX stöðinni í Bandaríkjunum og á mismunandi stöðvum um allan heim. Þátturinn var sýndur á Stöð 2 en Skjár Einn endursýndi þættina stuttu eftir að þeir kláruðust. Þættirnir snérust um líf ungu og ríku krakkanna í Beverly Hills í Kaliforníu, sem gengu í West Beverly menntaskólann og síðan Kaliforníu-háskóla eftir útskrift úr menntaskólanum. Þátturinn var gerður af Darren Star en Aaron Spelling og Sigurjón Sighvatsson framleiddu þáttinn. Talan 90210 er póstnúmer Beverly Hills.
Þátturinn var upphaflega byggður á þeim breytingum sem tvíburarnir Brandon (Jason Priestley) og Brenda (Shannen Doherty) Walsh, gengu í gegnum þegar þau fluttu frá Minneapolis, Minnesota til Beverly Hills ásamt foreldrum sínum, Jim og Cindy. Til viðbótar við vinina og ástarsamböndin, kljást unglingarnir í Beverly Hills við vandamál eins og til dæmis nauðganir, alkóhólisma, ofbeldi, réttindi samkynhneigðra, misnotkun lyfja, sjálfsmorð unglinga, eyðni, unglinga-óléttur og fóstureyðingar.
Þættirnir urðu vinsælir um sumarið '91, þegar FOX sýndi sérsaka sumar-seríu af þættinum á meðan aðrir þættir voru í sumarleyfi. Þættirnir urðu meðal vinsælustu þáttum FOX þegar það byrjaði 3 seríu sína þetta haust. Áhorfendum fjölgaði þegar aðalleikarar, sérstaklega Jason Priestley og Luke Perry urðu fyrirmyndir unglinga, á meðan leikkonurnar Shannen Doherty, Jennie Garth og Tori Spelling urðu frægar á öllum heimilum í Bandaríkjunum.
Yfirlit.
Þættirnir byrja með kynningu á Walsh-fjölskyldunni: Jim, Cindy, Brandon og Brenda, sem fluttu nýlega frá Minnesota til Beverly Hills í Kaliforníu vegna stöðuhækkunar Jims. Í fyrsta þættinum byrja Brandon og Brenda í West Beverly-menntaskólanum, þar sem þau kynnast restinni af persónum þáttarins: Kelly Taylor, Steve Sanders, Andrea Zuckerman, Dylan McKay, David Silver, Scott Scanlon og Donna Martin. Þátturinn fylgdist með einkalífi þeirra og starfsframa í gegnum byrjun fullorðinsáranna en kynnti einnig reglulega til leiks nýjar persónur þegar líða fór á þættina.
Brottfarir.
Shannen Doherty.
Eftir mikla spennu í leikaraliðinu, yfirgaf Shannen Doherty þættina í lok fjórðu seríu. Persóna Shannen, Brenda Walsh, var skrifuð úr þáttunum, þar sem hún flutti til London til að ganga í leiklistarskóla. Þó að fjarvera persónunar hafi upphaflega verið áætluð í eitt ár sneri hún aldrei aftur, þrátt fyrir að vera nefnd nokkrum sinnum í þeim þáttum sem eftir voru. Í staðinn fyrir hana kom Tiffani-Amber Thiessen, sem lék slæmu stelpuna Valerie Malone. Shannen hefur leikið Brendu Walsh í þáttunum 90210 ásamt fyrrum meðleikurum sínum, Jennie Garth, Tori Spelling, Ann Gillespie og Joe E. Tata.
Gabrielle Carteris.
Gabrille Carteris yfirgaf þættina í lok fimmtu þáttaraðar.
Persónan hennar, Andrea Zuckerman, breyttist mikið á milli menntaskóla og háskóla. Í menntaskóla var Andrea gáfaði ritstjóri blaðsins í West Beverly, var hrifin af Brandon og bjó ekki í nágrenni skólans. Í fjórðu þáttaröðinni (fyrsta árið í háskóla), hætti Andrea (en fer síðan aftur í skóla til að verða læknir), varð ólétt og giftist manni sem hún þekkir varla (Jesse Vasques) áður en árið er á enda. Óléttan var spunnin upp að beiðni Carteris, því hún var ólétt í alvörunni, varð mikil breyting fyrir persónuna og varð til þess að hún einangraðist frá hinum persónum þáttanna. Andrea Zuckerman hætti að lokum í þáttunum í lok fimmtu þáttaraðar vegna þess að hún ákvað að fara í Yale.
Eftir að fimm ára samningur Carteris rann út, hætti hún í þáttunum til að stjórna sínum eigin spjallþætti sem entist aðeins í eitt ár. Carteris sneri aftur í Beverly Hills 90210 sem gestur í sjöttu, áttundu og tíundu seríu.
James Eckhouse og Carol Potter.
Báðir leikararnir hættu í þáttunum í lok fimmtu þáttaraðar við enda samningstímabilsins. Á menntaskólaárum þáttanna voru Jim og Cindy Walsh aukapersónur og gáfu Brandon og Brendu oft góð ráð, ásamt vinum þeirra en þau fengu sjaldan sinn eigin söguþráð. Þau eyddu mestum tíma sínum í að bregðast við þeim ýmsu hlutum sem Brenda, Brandon og seinna Valerie gerðu. Þegar þátturinn fer á háskólastigið renna Jim og Cindy enn meira inn í bakgrunninn þegar þátturinn verður meira eins og sápuópera og persónurnar verða fullorðnar, sem minnkar þörf þeirra fyrir ráð foreldranna. Í lok fimmtu þáttaröð fara persónurnar frá Beverly Hills til Hong Kong en eru gestir í sjöttu, sjöundu og áttundu þáttaröð. Þrátt fyrir að í lokin hafi allir meðlimir Walsh fjölskyldunnar yfirgefið þættina, heldur Walsh-heimilið áfram að vera stór hluti þáttanna. Þættirnir útskýrðu það þannig að Brandon sagði Steve að foreldrar hans hefðu gefið grænt ljós á það að hann byggi áfram í húsinu.
Luke Perry.
Luke Perry hætti í "Beverly Hills, 90210" í byrjun sjöttu þáttaraðar.
Persóna Luke Perry, "Dylan McKay", ætlar sér að giftast Antoniu Marchette (Rebecca Gayheart), dóttur aðalstjórans (Stanley Kamel) sem fyrirskipaði dauða föður Dylans í þriðju þáttaröð. Dylan hafði í fyrstu, ætlað að nota Anotniu sem leið til að komast að föður hennar, en verður ástfanginn af henni í staðinn. Vegna þess að faðir hennar er ekki sáttur við þá hugmynd að dóttir hans giftist Dylan, ákveður hann að Dylan muni deyja. Hann ræður leigumorðingja til að drepa Dylan en drepur að lokum Antoniu sem keyrir bíl Dylans við fyrirfram ákveðin árekstur.
Dylan er í sárum og ákveður að fara úr bænum, eftir að tengdafaðir hans ákveður að halda friðinn í erfidrykkju dóttur sinnar. Í þeim þáttaröðum sem Perry er ekki í, er það skýrt þannig að persónan hans, Dylan, hafi tekið aftur saman við Brendu og búi með henni í London.
Perry sneri aftur í níundu þáttaröðinni en var nú titlaður sem „sérstakur gestur“ — eins og Heather Locklear var í Melrose Place. Hann játar við Kelly að hann hafi komið aftur vegna þess að hann saknaði vina sinna en allra mest saknaði hann hennar.
Jason Priestley.
Jason Priestley yfirgaf þættina í níundu þáttaröðinni. Hann var samt áfram titlaður sem framleiðandi þáttanna og leikstýrði hann nokkrum þáttum. Í þáttunum er Brandon enn að jafna sig eftir að hætt var við brúðkaup hans og Kelly, þegar honum er boðin vinna í Washington D.C., sem hann þiggur. Brandon var síðasti meðlimur Walsh-fjölskyldunnar sem yfirgaf þættina og birtist hann aðeins aftur í þáttunum í mynbandi til Donnu og Davids þegar þau gifta sig.
Priestley var fyrsti leikarinn í þáttunum sem leikstýrði þætti. |
Korkur: sorp
Titill: Feitur korkur...þráður? Sumthin.
Höf.: Parvati
Dags.: 3. apríl 2008 18:31:49
Skoðað: 524
Nei men hæææææ. Langt síðan síðast.
Ákvað að gera kork þess efnis að hvertja fólk til að setjast niður og berja saman eitt stykki sögu í keppnina! Ekki á að láta Morgothal vinna sjálfkrafa?
Einnig afsökunarbeiðni vegna frétta…. *skammastsín*
Var að pæla hvort ég ætti að gera fréttir eða sögu í keppnina, valdi sögu í keppnina :O Við Padfoot ætlum að senda inn einverja über hágæða steypu. Það verður fjör.
Ég er að verða búin að flokka næstum 40 GB af myndum inná flakkaranum mínum. Hver er fawkin dúlust?
Og ég ætla að vera GEÐVEIKT (hem) frumleg og koma með spurningarlista. Samt ekki alveg traditional…
Eitthvað eitt sem þú…
-Hatar
-Elskar
-Gætir ekki verið án í viku
-Gætir ekki lifað án
-Myndir spurt Bush að
-Gerir á hverjum morgni
-Lætur fara í taugarnar á þér
-Lítur fyrst á hjá hinu kyninu
-Værir til í að leika í
Jáááá gleði?
Látum hér við sitja elskurnar.
Eða einsog vitur maður sagði eitt sinn:
“Kristian. Du kommer inte tro vad som hänt. Jag har tappat bort mina byxor.”
Bætt við 8. apríl 2008 - 20:33
Jæja, var neidd til að svara sjálf, hereyougo!
Eitthvað eitt sem ég…
-Hatar: Stærðfræði
-Elskar: Andramiiiinn
-Gætir ekki verið án í viku: iPodinn
-Gætir ekki lifað án: Vina minna
-Myndir spurt Bush að: Hvað myndirðu gera við líf þitt ef þú værir ekki forseti og hefðir aldrei verið?
-Gerir á hverjum morgni: Drekk ógeðslega mikið af appelsínusafa
-Lætur fara í taugarnar á þér: Bróðirmiiinn! 0.o
-Lítur fyrst á hjá hinu kyninu: Líkamann yfir höfuð, hár, kjálka
-Værir til í að leika í: Einhverju ofur über leikriti! :D
---
Svör
---
Höf.: ammarolli
Dags.: 3. apríl 2008 21:05:11
Atkvæði: 0
Hatar ? Bubbba M
-Elskar - Tónlist
-Gætir ekki verið án í viku ? trommsettinu mínu
-Gætir ekki lifað án ? mat
-Myndir spurt Bush að ? hvort hann kynni spænsku
-Gerir á hverjum morgni ? sef aðeins lengur
-Lætur fara í taugarnar á þér ? asnaleg hljóð
-Lítur fyrst á hjá hinu kyninu ? skóna :p
-Værir til í að leika í ? mynd um buddy rich
---
Höf.: Smokkfiskur
Dags.: 3. apríl 2008 21:32:19
Atkvæði: 0
fokk maður ég gérði það nákvæmlega það sama án þess að líta á þitt an dj0ks
---
Höf.: ammarolli
Dags.: 3. apríl 2008 22:41:03
Atkvæði: 0
Snilld.
Bætt við 3. apríl 2008 - 22:44
Hey veistu hvað hann gerði einu sinni í partýi eða mamma sagðir mér það að hann ætlaði að slá teppið með sláttuvél.
---
Höf.: Smokkfiskur
Dags.: 3. apríl 2008 23:32:47
Atkvæði: 0
sweeet
---
Höf.: ammarolli
Dags.: 3. apríl 2008 23:33:27
Atkvæði: 0
Ójá
---
|
Landsréttur sýknaði í dag Borgarleikhúsið og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra af kröfum Atla Rafns Sigurðssonar, leikara. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Atli Rafn stefndi Kristínu leikhússtjóra og Leikfélagi Reykjavíkur vegna uppsagnar sinnar í desember 2017.
Atla Rafni var sagt upp í kjölfar ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni. Bótakrafa hans var samtals upp þrettán milljónir; tíu milljónir króna í skaðabætur og þrjár milljónir í miskabætur.
Atli var fastráðinn í Þjóðleikhúsinu á þessum tíma en færði sig tímabundið yfir í Borgarleikhúsið til þess að taka þátt í uppsetningu Medeu, sem frumsýna átti nokkrum vikum síðar, auk þess sem hann var með hlutverk í Rocky Horror. Sýningunni var hins vegar frestað vegna uppsagnarinnar.
Í stefnu Atla segir að hann hafi verið boðaður á fund með Kristínu Eysteinsdóttur og Berglindi Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Borgarleikhússins, þar sem honum hafi verið afhent uppsagnarbréf. Hann hafi á sama tíma verið upplýstur um ásakanirnar, en þær ekki frekar skýrðar, hvers eðlis þær væru, frá hve mörgum þær kæmu eða frá hvaða tíma. Atli hafi komið af fjöllum.
Í dómi Landsréttar segir að uppsögnin hafi rúmast innan þeirra heimilda sem Borgarleikhúsið og Kristín höfðu samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi.
„Ekki er á það fallist að að það hafi verið skilyrði uppsagnar gagnáfrýjanda [Atla] að meðferð málsins yrði hagað á þann veg sem hann heldur fram. Þá liggur ekki fyrir að aðgerðir aðaláfrýjenda [Borgarleikhúsið og Kristín] í málinu hafi orði eða verki falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru hans. Ekki hafa því verið færðar sönnur á að fullnægt sé því skilyrði bótaskyldu [...] að aðaláfrýjendur hafi sýnt af sér ólögmæta háttsemi í garð gagnáfrýjanda,“ segir í dómi Lands'rettar.
Borgarleikhúsi og Kristínu var gert að að greiða Atla Rafni 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón í málskostnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Landsréttur snéri þeim dómi við í dag.
Fréttin hefur verið uppfærð
Sjá einnig
Borgarleikhús greiði Atla Rafni 6,5 milljónir |
Þrír fjallaleiðsögumenn úr hópi Vilborgar Örnu Gissurardóttur létust í snjóflóðinu á Everest í gær. Enn er þriggja saknað en þrettán létust og þrír liggja alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi. Vilborg segir að ferðin á toppinn sé algjört aukaatriði og framhaldið sé óráðið.
Þetta er mannskæðasta slys á Everest frá upphafi. Tveir Íslendingar, þau Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson, voru bæði í grunnbúðum Everest-fjalls þegar hörmungarnar riðu yfir.
Matartjaldi breytt í slysadeild
Þrír fjallaleiðsögumenn - sherpar - úr hópi Vilborgar létust í snjóflóðinu. Fréttastofa náði tali af henni í síma í morgun en Vilborg tók virkan þátt í björgunaraðgerðum í gær.
Einu af matartjaldi hennar hóps var breytt í hálfgerða slysadeild og þangað komu þeir sem voru minna slasaðir. Þeir sem voru meira slasaðir voru fluttir með þyrlu í sjúkratjald.
Vilborg segir að hennar hópur sé vel tækjum búinn og því hafi verið leitað til þeirra. Sjálf er hún með björgunarsveitarþjálfun sem nýttist vel við þessar aðstæður.
Missti þrjá úr sínu liði
Vilborg segir þetta mjög átakanlegt - sherparnir hafi verið að missa fjölskyldumeðlimi, bræður, frændur og vini. „Við upplifum sorgina í gegnum þá. Ég á nokkra sherpa-vini sem misstu félaga sína og það er erfitt að horfa upp á það. Við misstum þrjá úr okkar liði og maður getur bara ekkert lýst því hvernig manni líður á svona stundu,“ segir Vilborg.
Hún segir að toppurinn sé algjört aukaatriði á þessari stundu - hún hafi ekki tekið ákvörðun hvort ferðinni verði haldið áfram. Nú verði að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda.
Ekki hægt að undirbúa sig undir þetta
Þeir sem farið hafa á Everest segja ferðina ekkert síður mikla andlega en líkamlega þrekraun. Vilborg segist hafa sagt það áður en hún fór í þessa ferð að hún þyrfti að vera undirbúin að sjá og upplifa hluti sem henni þættu ekki þægilegir. „Og það hefur sannarlega gerst en bara á miklu stærri skala en maður hefði nokkurn tíma geta gert sér grein fyrir. Við ætlum að hlúa hvort að öðru í okkar hópi og framhaldið verður síðan að koma í ljós,“ segir Vilborg Arna.
freyrgigja@ruv.is |
Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambandsins hugnast best að semja ekki lengur núna en til sex eða 12 mánaða. Hann vill gera nokkurs konar vopnahlé til að tryggja stöðugleika.
Þá megi enginn skorast undan og honum brá nokkuð við fréttir af gjaldskrárhækkunum sem ráðgerðar eru í fjárhagsáætlun borgarinnar. Helsta mál formannafundar Alþýðusambandsins sem hófst í morgun er undirbúningur kjarasamninga. „Við höfum verið að ræða það að skapa hér forsendur fyrir því að fara svokallaða aðfararleið eða vopnahlé. að gera skammtímasamning við atvinnurekendur og nota veturinn til að undirbyggja breiða sátt í samfélaginu og ná þá tökum á gengi, verðbólgu og vöxtum. Það er alveg klárt að það er mikill áhugi og vilji fyrir því í verkalýðshreyfingunni, innan Alþýðusambandsins. En að sama skapi segja menn það verða allir að vera með. Þá atvinnurekendur með sínum ákvörðunum um verðhækkanir, stjórnvöld, ríki og sveitarfélög hvað þau eru að gera í álögum á almenning. Og það er það sem við erum ekki að fá skýr svör með,“ segir Gylfi.
Nauðsynlegt að ganga í takt
Í ræðu sinni í morgun tók Gylfi sérstaklega til ráðgerðra breytinga Reykjavíkurborgar á leikskólagjöldum sem eiga að hækka um 5,7% á næsta ári og fæðisgjald í leik- og grunnskólum um 9,5% prósent. „Mér finnst það vera algerlega galin aðgerð að hér verði einhver friður á vinnumarkaði og borgin ætli að hækka leikskólagjöld á einstæða foreldra og öryrkja og barnafjölskyldur, í upphæðum, sem að væntanlega myndi ekki duga sú launahækkun sem þeir hafa verið að leggja til að við ættum að samþykkja. Mér finnst þetta vera einmitt dæmi um það sem ég nefni það verða allir að fara leiðina.“
Gylfi segist halda að allir launamenn í landinu telji sig þurfa leiðréttingu á sínum kjörum. Affarasælast gæti verið að auka stöðugleika, létta vaxtabyrði og breyta skattheimtunni. |
Jónas Viðarsson hjá Matís segir margt hafa breyst á þrjátíu árum. Áður fyrr þótti brottkast á fiski varla tiltökumál
Brottkast á fiski er vandamál víða um heim og hefur verið alveg bannað hér á landi í um þrjá áratugi. Jónas R. Viðarsson hjá Matís hefur fylgst grannt með þróun brottkast bæði hér á landi og víðar. Hann telur að bannið hér á landi hafi skilað árangri, og nú er Evrópusambandið einnig að taka við sér.
Hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins hefur hingað til hreinlega gert kröfu til þess að fiski sé kastað í sjóinn. Það hefur verið ekki bara leyfilegt heldur skylda ef fiskiskipið er annað hvort ekki með kvóta fyrir honum eða ef fiskurinn er undir leyfilegri lágmarksstærð.
„Þetta hefur bara verið tíðkað hjá þeim, og það er allt samkvæmt reglunum,“ segir Jónas. „En nú er það að breytast.“
Sjónvarpskokkur fór á kreik
Eitt af því sem ýtti við Evrópusambandinu voru sjónvarpsþættir sem breski sjónvarpskokkurinn og rithöfundurinn Hugh Fearnley-Whittingstall gerði árið 2012 og vöktu mikla athygli. Hugh‘s Fish Fight nefndust þessir þættir, en í beinu framhaldi hóf hann herferð gegn brottkasti og náði að safna nærri 900 þúsund undirskriftum.
„Þessir þættir höfðu gríðarleg áhrif,“ segir Jónas. „Auðvitað er þetta ekki eina ástæðan en þessir þættir vöktu svo mikla athygli og höfðu heilmikil áhrif á það að þessi reglugerð um brottkastsbann var samþykkt hjá Evrópusambandinu. Núna er svo komið að því að það er verið að innleiða þetta brottkastsbann hjá þeim, sem er alger stefnubreyting.“
Strax árið 2013 samþykktu leiðtogar Evrópusambandsins þetta bann, sem sambandið hefur svo verið að innleiða í áföngum frá árinu 2015. Það kemur svo að fullu til framkvæmdar árið 2019, en nýju reglurnar snúast í meginatriðum um að allur afli á að koma í land og allt á að teljast gagnvart kvóta.
„Það sem þeir gerðu er að þeir toppuðu upp kvótann sem hver og einn hafði,“ segir Jónas. „Þeir fá þá kvóta fyrir því sem áður hafði verið sett í brottkast. Ef þú hafðir til dæmis haft kvóta upp á tíu tonn og hafðir gefið upp að þú hefðir alltaf verið að henda fimm tonnum, þá fékkstu núna svona um það bil fimmtán tonn.“
Jónas segir það reyndar hafa verið nokkuð kostulegt að fylgjast með því sem gerðist í framhaldinu. „Þetta var merkilegt, sérstaklega varðandi uppsjávargeirann. Þeir voru í marga áratugi búnir að segja að það væri ekkert brottkast hjá þeim, en svo þegar það átti að fara að gefa þeim aukakvóta fyrir því sem hafði áður lent í brottkasti, þá allt í einu sögðu þeir: Það er fullt af brottkasti hjá okkur.“
Skýrslugerðir
„Árið 2011 var birt skýrsla hjá Evrópusambandinu þar sem áætlað var hve mikið brottkast væri hjá þeim,“ segir Jónas, „og þar kom fram að 23 prósent af aflanum fór í brottkast. Þetta eru nokkuð góðar tölur því þeir eru með þannig kerfi að menn eiga að skrá brottkastið, og þar er engin ástæða til að skrá það ekki, öfugt við okkar tölur um brottkast sem ekki er hægt að reiða sig á vegna þess að menn eru ekkert að gefa það upp neitt.“
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefur einnig reglulega gert úttektir á brottkasti, síðast árið 2005 og þar var fullyrt að á heimsvísu væri brottkastið átta prósent.
„Auðvitað vitum við ekkert hvað er að marka þessar tölur,“ segir Jónas, en segir þó að þær gefi ákveðnar vísbendingar.
Hér á landi hefur Hafrannsóknarstofnun sömuleiðis gefið út skýrslu á hverju ári þar sem er reynt að áætla brottkast í þorski og ýsu. Niðurstöðurnar hafa verið þær að brottkast í þorski er um eitt prósent en í ýsu er það tvö til þrjú prósent. Einkum sé það smæsti fiskurinn sem fer í brottkast, og brottkastið í ýsunni sé meira en í þorski vegna þess að meira kemur upp af mjög smárri ýsu.
„Ég veit svo sem ekki hvað maður getur fullyrt en ég hef þá tilfinningu að það sé hægt að treysta þessu nokkuð vel. Það er auðvitað heilmikil aðferðarfræði og mikið af rannsóknum sem liggja að baki þessum skýrslum.“
Stöndum vel að vígi
Jónas segir Ísland að mörgu leyti hafa ákveðið forskot umfram nærri allar aðrar þjóðir sem eru með brottkastsbann.
„Hér höfum við til dæmis tækifæri til að landa í þessum VS-afla til dæmis. Þá fer aflinn beint inn á fiskmarkaðinn og 80 prósent af aflaverðmætinu fer í rannsóknir, í þennan VS-sjóð. Áhöfnin fær þá bara 20 prósent og þetta er þá ekki talið gegn kvóta, en þetta hefur reyndar ekki verið mjög mikið nýtt að undanförnu. Og sama er með undirmál, bara talið 50 prósent gagnvart kvóta, þannig að það er nú verið að gera ýmislegt til að sporna gegn þessu.“
Hins vegar segir hann alltaf hljóta að vera mjög erfitt að eiga við þetta.
„Alls staðar þar sem er kvóti, hvort sem það er hér á landi eða annars staðar, þá lendir þú alltaf í því að fá afla sem inniheldur tegundir sem þú ert kannski búinn með kvótann í þótt þú eigir nógan kvóta í öðrum tegundum: Hvað gera menn til dæmis við þorskinn sem þú færð ef þú átt kannski nóg af ýsukvóta en ert búinn með þorskkvótann. Og sama ef þú ert með takmarkaðan þorskkvóta og færð 200 kall fyrir 4 kílóa fisk en bara 100 kall fyrir 1,5 kílóa fisk, og þá lendirðu í því að menn bara velja verðmætasta aflann. Þetta er náttúrlega vandamál alls staðar sem fer ekkert í burtu.“
Lausnin er auðvitað sú að skipta á kvóta, selja eða leigja kvóta, en sú lausn dugar samt ekki til.
„Þetta er kannski það tól sem við höfum helst í vopnabúrinu út af þessu, en þú lendir samt alltaf í því að það er einhver tegund sem þú ert búinn með á undan öllum öðrum. Og það er vandamál.“
Kvótakerfið skipti sköpum
Jónas segir að kvótakerfið hér á landi hafi skipt sköpum við að draga úr brottkasti.
„Það má held ég segja að kvótakerfið og samþjöppun á kvóta, hvað svo sem mönnum finnst annars um það, sé aðalástæðan fyrir því að brottkast er svo lítið hér á landi. Nú orðið eru það stórar útgerðir sem eiga meirihlutann af kvótanum. Þeir sem eru að höndla með fiskinn eru þá bara starfsmenn þessara stórfyrirtækja.“
Hvatinn til að kasta aflanum er þar minni en hjá smærri fyrirtækjum sem eiga takmarkaðar veiðheimildir.
„Þar er maðurinn, sem á bæði skipið og kvótann, að reka þetta og með því að stunda brottkast er hann náttúrlega að hugsa um eigin pyngju. En sjómönnum á togaranum hjá stórútgerðinni er sléttsama. Ef þeir stunda brottkast þá eru þeir bara að henda kaupinu sínu.“
Hann segir mikið hafa breyst frá árunum upp úr 1990 þegar margar litlar útgerðir voru með lítinn kvóta, og þurftu jafnvel að leigja megnið af sínum kvóta.
„Þá var hvatinn til að stunda brottkast miklu meiri en hann er í dag.“
Framandi vandamál
Evrópskir sjómenn þurfa reyndar að glíma við ýmis vandamál sem við hreinlega þekkjum ekki.
„Eitt varðandi brottkastsbannið í Evrópu er að það er bannað að nota afla sem er undir lágmarksstærð til manneldis.“
Ástæða þess að nauðsynlegt þykir að banna þetta í Evrópu er sú að þar er mikill markaður fyrir smáan fisk.
„Þar vilja menn fá fisk sem passar heill á diskinn, sérstaklega í Suður-Evrópu. Þannig að þar er hvati til þess að sækja beinlínis í smáfiskinn, sem er afar slæmt fyrir stofnana. Með þessu banni er verið að reyna að koma í veg fyrir þann hvata, en um leið skapar það önnur vandamál því menn eru ekkert æstir í að vera að veiða fisk sem þeir muni tapa peningum á að landa. Og þannig er eiginlega staðan í dag. Sjómennirnir í Evrópu eru mjög ósáttir við að þurfa að koma með að landi verðlítinn eða verðlausan fisk, sem þeir þurfa jafnvel að borga með.“
Þetta skapar sérstaklega vandamál á minni fiskiskipum.
„Þetta tekur pláss um borð. Það þarf að fjárfesta í innviðum og fjárfesta í bátum til að geyma þennan afla. Og af því þetta er ekki fiskur til manneldis þá þarf líka að halda þessu sér í lestunum. Það eru sumir útgerðarflokkar sem þurfa beinlínis að stytta úthaldið hjá sér vegna þess að þeir hafa bara ekki pláss um borð. Þannig að þeir kvarta mikið.“
Um 98 prósent af fiskiskipum Evrópusambandsins er styttri en 30 metrar og ríflega 80 prósent bátanna eru innan við tólf metrar.
„Ég var í fyrra í Boulogne í Frakklandi. Flest skipin þar eru um 20 metrar eða svo, og þau eru kannski tvo til þrjá daga á sjó. Þar voru allir að kvarta undan því að nú þyrftu þeir að verða bara dagróðrabátar.“
Tækifærin í líftækni
„Á hinn bóginn er líka fullt af tækifærum eins og í líftækninni að búa til allt mögulegt úr þessu. Við sjáum það bara hér á Íslandi hvað sá geiri er að blómstra. Og þó þetta sé enn sem komið er á frekar litlum skala þá eru tækifæri þarna.“
Vandinn þar er samt sá að það getur orðið flókið að koma hráefninu í nýtingu, þegar mörg lítil fyrirtæki eru hvert á sínum stað að búa til sérhæfða vöru úr tilteknum hluta hráefnisins, en geta ekki nýtt sér aðra hluta þess.
„Yfirleitt er bara verið að vinna með eitthvað ákveðið á hverjum stað, búa til kollagen úr roði eða ensím úr innyflum, þannig að það er ekki svo einfalt að þú getir tekið heilan fisk og hent honum einhvers staðar og farið að búa til lyf eða eitthvað. Þannig að þær lausnir krefjast svolítið meiri átaks heldur en menn eru tilbúnir til að setja í þetta nákvæmlega núna.“
Tegundamergðin flækir málin
„Svo er hitt vandamálið að eftir því sem þú ferð sunnar þá fjölgar tegundunum. Botnfiskaflinn hjá okkur samanstendur mestmegnis af innan við tíu tegundum, en þegar þú ert kominn suður í Miðjarðarhafið eða í Biskajaflóa ertu kannski að fá upp undir 60 eða 70 tegundir í einum túr. Þannig að þetta er svolítið flóknara fyrir þá,“ segir Jónas.
„Svo er náttúrlega verið að prófa allt mögulegt núna til að tryggja að innleiðing brottkastsbannsins gangi eftir. Menn eru til dæmis að skoða það að nota myndavélabúnað til eftirlits og tölvusjón til að flokka aflann. Þetta er reyndar að einhverju leyti komið á markað hér á Íslandi en það sem menn lenda í vandræðum með er að það er ekkert stórmál að flokka þegar þú ert bara með fjórar tegundir en þegar þú ert kominn með 60-70 tegundir þá bara ræður búnaðurinn ekkert við það.“
Hann segir Íslendinga óneitanlega heppna með þetta.
„Já, það öfunda okkur allir út af þessari stöðu. Stofnarnir okkar eru í þannig stöðu að við erum mestmegnis að fá stóran fisk. Við erum ekkert í miklum vandræðum með undirmálsafla.“
Þótti ekki tiltökumál
„Við verðum þó líka að gera okkur grein fyrir því að hérna hefur þetta verið að þróast í þrjátíu ár. Fyrir 20 árum síðan fannst manni ekkert tiltökumál þótt menn væru að henda fiski. Og Evrópuflotinn er staddur þar núna. Á meðan að hjá okkur er það eiginlega komið inn í þjóðarsálina að það er ekki ásættanlegt að stunda brottkast. Þetta er sameiginleg auðlind sem við eigum að fara vel með.“
Sú stærðarhagkvæmni sem fylgir kvótakerfinu hér, með samþjöppun kvóta og fyrirtækja, hefur líka þann kost að hvatinn til brottkasts minnkar.
„Jú, það eru bæði kostir og gallar við kvótakerfið, en þetta er einn af kostunum.“
Meira að segja minni skip, sem ættu kannski frekar samkvæmt þessu að freistast til að henda óæskilegum afla, eru farin að draga verulega úr brottkasti, telur Jónas.
„Þjóðarsálin er bara orðin þannig að menn nenna ekki að standa í þessu,“ segir hann.
Hann segir mjög misjafnt hvernig eftirliti með brottkasti er háttað. Hér á landi hefur það ekki verið sérlega strangt.
„Þetta er mjög dýrt ef menn ætla að gera það almennilega. Ísland hefur verið að reyna að komast eins ódýrt út úr þessu og hægt er og ég held að hægt sé að rökstyðja að þetta sé í lagi vegna þess að við erum komin það langt. Þessi tegund af eftirliti var kannski ekki að virka árið 1990, en nú dugar það ágætlega.“ |
Eitthvað hefur nýráðinn bæjarstjóri verið úrillur á bæjarráðsfundi snemmendis 28. ágúst sl.
Við sem komum frá Samfylkingunni og Vinstri grænum og félagshyggjufólki höfðum sett fram brýningu í bókun þegar ljóst var að frekar dauft var yfir starfi skólanefndar og gert ráð fyrir frekar fáum fundum til áramóta. Sveitarfélög af svipaðri stærð höfðu þar til lok ágúst fundað 3-4 sinnum í sínum skólanefndum frá kosningum.
Í málefnasamningi meirihlutans er einmitt lögð áhersla á skólamálin og eflingu skólastarfs. Vildum við með eftirfarandi bókun brýna meirihlutann til góðra verka. Almennt var tekið vel í þessa brýningu og jákvætt tekið í þá hugmynd að fjölga fundum á nýju fjárhagsári. Tillagan er hér svo fólk getur metið:
25.8.2014
Bergljót Kristinsdóttir fulltrúi Samfylkingar og Gísli Baldvinsson fulltrúi Vinstri grænna og félagshyggjufólks, lögðu fram eftirfarandi bókun:
„1. Skólanefnd er ekki boðuð til starfa fyrr en við lok ágústsmánaðar eftir að allt skólahald er hafið og undirbúningur að baki. Ef litið er til bæjarfélaga af svipaðri stærð sést að haldnir hafa verið 2- 3 fundir eftir bæjarstjórnarkosningar.
2. Fjöldi funda fram að áramótun er i knappara lagi. Til að mynda er einungis gert ráð fyrir einum fundi í október, en þá fer fram mótun fjárhagsáætlunar fyrir fyrri umræðu í bæjarstjórn. Áréttað er um leið að saman fer faglegt og fjárhagslegt samráð við fastanefndir bæjarstjórnar.
3. Aðferðafræði sem notuð er við útdeilingu fjármagns til skóla bæjarins liggur ekki fyrir hjá Skólanefnd. Við gerum kröfu um að Skólanefnd fái upplýsingar um þá aðferðafræði sem nú er notuð.
4. Skólanefnd þarf að hafa aðkomu að áætlanagerð sem snýr að skólastarfi í bænum. Við teljum það sjálfsagt vinnulag að Skólanefnd yfirfari áætlanagerð á vinnslustigi áætlanagerðar.
Meirihlutinn hefur lagt á það áherslu að leggja beri áherslu á skólahald í málefnasamningi sínum og eru það því vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir meira samráði og samvinnu í skólanefnd.“
En. . . þá kemur þetta frá bæjarstjóranum á fundi bæjarráðs:
Bæjarráð – 2740
28.8.2014
[hann svarar efnislegum athugasemdum]
[…]Það vekur furðu að minnihlutinn í skólanefnd skuli hefja starf nýrrar nefndar á bókun af þessum toga og ber ekki skilaboð um vilja til uppbyggilegs samstarfs um skóla í forystu í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson“
Hvernig í ósköpunum getur maðurinn fengið þennan skilning? Getur verið að hann átti sig á því að þegar hvatt er til meiri samráðs og fundarhalda þá er það gert í uppbyggilegum tilgangi?
Þessir fulltrúar voru að minnsta kosti læsir á tillöguna.
Fulltrúar minnihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Undirrituð leggja áherslu á gott samstarf og metnaðarfullt starf í skólanefnd. Bókun fulltrúa VG og Samfylkingar í nefndinni lýtur fyrst og fremst að því að brýna nefndina til góðra verka.
Kristín Sævarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson.“
Nú er það von mín að bæjarstjórinn sjái ljósið og hætti þessu þvargi. Hann var ekki ráðinn til þess.
Gísli Baldvinsson, náms- og starfsráðgjafi: |
Breska þingið hafnaði tillögu Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um að boðað yrði til þingkosninga 15. október næstkomandi áður en Bretar eiga að ganga úr Evrópusambandinu.
Johnson hafði lofað því að óska eftir því að þingið samþykkti tillögu hans um kosningar ef þingheimur myndi samþykkja tillögu sem knýr hann til þess að óska eftir lengri fresti fyrir Bretland að ganga úr ESB.
Þingið samþykkti tillöguna um að fresta Brexit fyrr í kvöld og því þurfti Johnson að standa við stóru orðin. Og niðurstaðan var afgerandi. 298 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni og 56 á móti. Johnson þurfti hins vegar aukinn meirihluta, samtals 434 atkvæði, til þess að fá tillögu um þingkosningar samþykkta.
Breski Verkamannaflokkurinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna og þess vegna féll tillagan flöt.
Sjá einnig: Johnson vill þingkosningar 15. október
Það var hins vegar engan bilbug á Johnson að finna og hann réðst beint að Jeremy Corbyn, leiðtoga stjórnarandstöðunnar og Verkamannaflokksins. „Ég get aðeins getið mér til um hvers vegna hann hikar,“ sagði Johnson. „Augljósa niðurstaðan er að hann heldur að hann geti ekki sigrað [í kosningum].“
Johnson hefur ekki mörg peð til þess að leika áfram nú þegar þingið er margsinnis búið að greiða atkvæði gegn honum. Hann þarf nú að fara til Brussel og óska eftir lengri fresti til þess að ná samkomulagi við ESB um útgöngu Bretlands.
Johnson hefur lagt á það áherslu að Bretland muni ganga úr Evrópusambandinu í lok næsta mánaðar eins og samið hafði verið um í tíð Theresu May í forsætisráðherrastóli. Johnson hefur margsinnis sagt að hann sé reiðubúinn til að fara fyrir samningslausu Brexit, eins og það hefur verið kallað. Johnson segir samninginn sem þegar hefur verið gerður milli Bretlands og ESB ekki ganga, einna helst vegna baktryggingarinnar á landamærum Írlands og Norður-Írlands. |
Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra og formanni Framsóknarflokksins, hugnast ekki að taka upp grímuskyldu og hertar sóttvarnarreglur vegna fjölgunar COVID-smita síðustu daga. Hann telur að alveg jafn mikið komi út úr því að gefa út tilmæli.
Sigurður Ingi var spurður að því í Kastljósi kvöldsins hvort tímabært væri að herða aðgerðir og taka upp grímuskyldu. „Ég verð að segja eins og er að ég er að horfa á stöðuna á Norðurlöndunum samhliða. Þar fara menn aðrar leiðir. Ég held að við getum alveg hvatt fólk til persónubundinna sóttvarna,“ sagði hann.
Ekki frekari boð og bönn? „ Ég held að við munum alveg geta fengið alveg jafn mikið út úr því að segja góða hluti til fólks og biðja það um að taka þátt í því. Ég hef trú á íslensku þjóðinni.“
Telur að Framsókn eigi að fá meira vægi í stjórninni en áður
Einnig var rætt um stjórnarmyndunarviðræður í Kastljósi kvöldsins. Sigurður Ingi sagði að þær gangi ágætlega. Nokkrir úr ráðherrahópnum fari á Loftslagsráðstefnuna í Glasgow og aðrir á þing Norðurlandaráðs og að líklega verði ný ríkisstjórn og stjórnarsáttmáli því ekki kynnt fyrr en um miðjan nóvember.
Framsóknarflokkurinn bætti við sig fimm þingmönnunum í kosningunum í lok september. Hann segir eðlilegt að flokkurinn fái því meira vægi við ríkisstjórnarborðið. „Annars vegar erum við eini stjórnarflokkurinn sem bætir við sig, hinir tapa en við höldum samt auknum meirihluta vegna sigurs Framsóknar.“ Hann kveðst telja að margir hafi kosið flokkinn til að tryggja áframhaldandi samstarf þeirra þriggja flokka sem voru í stjórn á síðasta kjörtímabili.
Þá nefndi Sigurður Ingi Þjóðarpúls Gallup en samkvæmt honum vilja 77 prósent landsmanna að flokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur hafi komið þar á eftir. „Með því að gefa okkur svona aukið vægi þá eru það þau sjónarmið sem að við lögðum á borðið sem að þjóðin er kannski að ýta enn frekar undir. Það er eðlilegt að þau komi fram í, annars vegar í málefnaskránni og síðan er það auðvitað líka þannig að við þurfum að skipta með okkur ákveðnum verkefnum og það er eðlilegt að það sé þar af leiðandi tekið tillit til þess,“ segir Sigurður Ingi og á þá við fylgisaukningu flokksins.
Hér má horfa á þáttinn í heild sinni. |
Lengjudeild karla í knattspyrnu fór af stað í kvöld. Fram vann Víking Ólafsvík 4-2 í Safamýri og Fjölnir lagði Þrótt Reykjavík 3-1 í Laugardalnum.
Lengjudeild karla í knattspyrnu fór af stað í kvöld. Fram vann Víking Ólafsvík 4-2 í Safamýri og Fjölnir lagði Þrótt Reykjavík 3-1 í Laugardalnum.
Það tók heimamenn í Fram aðeins fimm mínútur að komast í 3-0 gegn Ólafsvíkingum í kvöld. Albert Hafsteinsson skoraði úr víti á 2. mínútu, tveimur mínútum síðar skoraði Tryggvi Snær Geirsson og aðeins mínútu síðar skoraði Fred.
Þannig var staðan er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Fred bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Fram á 51. mínútu. Tíu mínútum síðar skoraði Kyle McLagan sjálfsmark og staðan orðin 4-1. Harley Willard minnkaði svo muninn í 4-2 með marki úr vítaspyrnu þegar tíu mínútur voru eftir og þar við sat.
Í Laugardalnum var Fjölnir í heimsókn. Liðið vann ekki leik í Pepsi Max deildinni á síðasta ári og leikur í Lengjudeildinni í sumar. Ekki fór sumarið vel af stað en Samuel Ford kom Þrótti yfir strax á þriðju mínútu. Þannig var staðan þangað til á 53. mínútu þegar Guðmundur Karl Guðmundsson jafnaði metin. Sigurpáll Melberg Pálsson kom Fjölni svo yfir um miðbik síðari hálfleiks og Alexander Freyr Sindrason gerði út um leikinn með þriðja marki gestanna þegar tíu mínútur lifðu leiks.
Áður en leik lauk fékk Hreinn Ingi Örnólfsson rautt spjald í liði Þróttar en hann fékk einnig rautt spjald í bikarleik Þróttar og Víkings Ólafsvíkur á dögunum.
Lokatölur 3-1 Fjölni í vil í kvöld. Bæði Fram og Fjölni er spáð góðu gengi á meðan Þrótti og Víking er spáð harðri fallbaráttu. |
Fatakeðjan H&M opnar verslanir í Smáralind og á Hafnartorgi á næsta og þarnæsta ári en samkomulag þess efnis var undirritað í morgun. Einnig eru samningaviðræður í gangi um opnun H&M verslunar í Kringlunni.
Reginn fasteignafélag og dótturfélag þess, eignarhaldsfélagið Smáralind, undirrituðu samningana í Svíþjóð í morgun. Reitir fasteignafélag tilkynntu einnig í morgun að ráðgert sé að opna verslun H&M í Kringlunni seinni hluta ársins 2017 en viðræður standa enn yfir. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir samningaviðræður hafa staðið yfir í um tvö ár. Ferlið hafi verið langt og strangt enda um flókna samninga að ræða. Aðspurður segist hann telja líklegt að verð á vörum verði sambærilegt og í öðrum löndum.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins: Við spurðum þá að því en þeir gátu ekki sagt það nákvæmlega en þeir eru með þá strategíu eins og við flestir Íslendingar sem förum í H&M þekkjum, að það er sambærilegt verð alls staðar þannig að við bara vonum það.
H&M hefur á síðustu árum verið sú fataverslun sem hefur haft stærsta markaðshlutdeild á Íslandi en hún var í kringum 30% á síðasta ári. Sögusagnir hafa því verið uppi um að H&M hafi ekki viljað opna á Íslandi. Helgi segir að fótur hafi verið fyrir þessum sögusögnum. Hann viti þó ekki hvað hafi breyst hjá fatarisanum en að líklega sé það staðsetning sem hingað til hafi ekki verið í boði.
Helgi S. Gunnarsson: Já já, þeir, H&M fyrirtækið sem náttúrulega er í gríðarlegum vexti og er að opna út um allan heim og er að opna fleiri hundruð verslanir á hverju ári, nýjar, og þeir velja sér sín lönd sem þeir fara inn í af mikilli kostgæfni og það þykir svolítið merkilegt hjá þeim að opna nýtt land og þeir kynntu það sérstaklega í morgun.
Sunna Karen Sigurþórsdóttir: Nú hlýtur þetta að koma til með að hafa mikil áhrif á verslun á Íslandi?
Helgi S. Gunnarsson: Við höldum að þetta hafi alveg gríðarleg áhrif fyrir báða staði og alla verslun á Íslandi, alla fataverslun, þetta komi til með að styrkja hana alveg gríðarlega og auka veltu og vonandi fer fólk að versla meira heima.
Helgi segir frekari samninga í farvatninu við ýmsar stórverslanir.
Helgi S. Gunnarsson: Já, bara flott merki og flottar verslanir, erlend og innlend og veitingastaðir líka, [...]. |
Fótboltamót í hnédjúpri drullu, kirkjutröppuhlaup á Akureyri og Brekkusöngur í Vestmannaeyjum er á meðal þess sem verður á dagskrá víða um land nú um verslunarmannahelgina.
Nú er ein stærsta ferðahelgi ársins að ganga í garð. Fjölbreytt dagskrá verður víða um land og ættu flestir að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Má þar t.d. nefna Evrópumótið í Mýrarbolta.
Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, skíthæll: Það verður drullugaman eins og alltaf og hérna og svo eru tónleikar og böll um kvöldin og nóg við að vera í bænum og þetta hefur hérna lífgað mikið upp á bæjarlífið hérna.
Sagði Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, skíthæll og einn skipuleggjenda hátíðarinnar. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum má ekki gleyma en hún hefur verið haldin árleg frá þarsíðustu aldamótum. Þúsundir sækja hátíðina heim um hverja verslunarmannahelgi og verða fastir liðir á sínum stað, tónleikar á brekkusviðinu, flugeldasýning og auðvitað brekkusöngurinn sem Ingó veðurguð kemur til með að stýra. Norður á Akureyri verður hátíðin Ein með öllu en þar má búast við fjölskylduvænu fjöri. Att verður kappi í hinu árlega kirkjutröppuhlaupi, leikhópurinn lotta stígur á svið og óskalagatónleikarnir verða haldnir í Akureyrarkirkju.
Halldór Óli Kjartansson, einn skipuleggjaenda hátíðarinnar: Raunar öll Akureyri er undirlögð af alls konar litlum og stærri viðburðum. Það eru yfir 10 útitónleikar og það eru tvö tívolí og svo mætti lengi telja. Þannig að það er mikið að gerast á einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina.
Þá verður unglingalandsmót UMFÍ einnig haldið á Akureyri um helgina en það er í fyrsta skipti sem mótið er haldið þar. Búist er við fjölmennu móti að þessu sinni enda eru keppnisgreinar í ár fleiri en nokkru sinni áður. Síldarævintýrið á Siglufirði verður einnig á sínum stað en hátíðin verður sett með síldarhlaðborði í hádeginu í dag. Fjölskylduhátíðin Neistaflug verður haldin á Neskaupstað en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1993. Þá má jafnframt nefna kotmót Hvítasunnukirkjunnar í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð og sæludaga í Vatnaskógi. Innipúkinn verður haldinn í Reykjavík og er dagskráin með glæsilegasta mót. Þá verður veðurspá með ágætum og ekki stefnir í mikla rigningu. Hiti verður 10 tl 16 stig en 5 til 10 stig norðan- og austanlands. |
Á þriðjudaginn í síðustu viku hófst uppsetning á uppblásinni hoppudýna á Stakkagerðistúni. Tæki sem þessi eru afar vinsæl meðal yngri kynslóðarinnar og er víða um land hægt að finna slíkar dýnur.
„Þetta hefur verið í gerjun í svolítinn tíma og höfum við verið að skoða þetta hjá öðrum sveitarfélögum,“ sagði Ólafur Þ. Snorrason framkvæmdastjóri Umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar í samtali við Eyjafréttir um umrædda dýnu. „Sjálfur hef ég kynnst þessu upp í Fljótshlíð og á svæði VM á Laugarvatni þegar ég var þar og einnig höfum við verið í sambandi við aðila í Sandgerði.“
Er svona dýnur víða um land? „ Svona tæki eru komin ansi víða um land og er þetta tíunda dýnan sem hann setur upp í sumar. Þegar við ræddum þetta svo við söluaðilann sagðist hann eiga eina dýnu klára og það var annað hvort að hrökkva eða stökkva því hann var á leiðinni í sumarfrí,“ sagði Ólafur.
Kostnaður við dýnuna er um 2,5 milljónir króna en gera má ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði einhver þar sem loftdæla þarf að vera í gangi meðan tækið er í notkun. „Hugmyndin er að hafa þetta uppblásið framyfir kvöldmat á daginn en reynslan verður kannski aðeins að segja til um hvernig þetta verður allt saman. Yfir vetrartímann verður tekið úr þessu loftið og ræðst það líklega af veðri. Í raun skilst mér að hægt sé að nota tækið svo framarlega sem ekki sé frost en að sjálfsögðu er alltaf skemmtilegast að nota svona þegar veðrið er gott. Ég vona bara að fólk gangi vel um tækið og umhverfið svo það geti verið til skemmtunar fyrir alla,“ sagði Ólafur að lokum. |
Samningurinn tók gildi í byrjun árs 1994 en á árunum 1990-1995 voru gjaldeyrishöftin afnumin í nokkrum áföngum til þess að uppfylla samninginn (Hugrún Ösp Reynisdóttir, 2009). 1922: Sjálfstætt gengi krónunnar fyrst skráð. 1929: Kreppan mikla hefst. 1931: Gjaldeyrishöft tekin upp. 1959: Viðreisnarstjórnin hefur afnám hafta. 1970: Ísland gerist aðili að EFTA. 1972: Ísland gerir fríverslunarsamning við EBE. 1990: Byrjað að afnema gjaldeyrishöft í áföngum. 1994: EES samningurinn tekur gildi. 1995: Gjaldeyrishöft að fullu afnumin. Mynd 1. Mikilvægir atburðir í sögu hafta á Íslandi. 2.2 Höft 2008 Krónan var fyrst sett á flot (þ.e. gengi hennar látið ráðast að fullu á markaði) árið 2001 og á árunum 2001-2008 var mikil uppsveifla í íslensku efnahagslífi. Íslenskir bankar hófu útrás og tóku að stækka mjög. Árið 2008 voru efnahagsreikningar íslensku bankanna samanlagt um tífalt stærri en landsframleiðsla Íslands. Erlendis var áhætta á fjármálamörkuðum vanmetin, áhættutaka mikil og eftirliti með mörkuðum ábótavant (Seðlabanki Íslands (SÍ), 2009b). Þetta leiddi á endanum til óróleika á fjármálamörkuðum á árunum 2007-2008. Undirmálslánakreppa hófst í Bandaríkjunum 2007 og ári seinna varð stór bandarískur fjárfestingabanki, Lehman Brothers, gjaldþrota. Í kjölfarið ríkti mikið vantraust á fjármálamörkuðum sem hamlaði viðskiptum m.a. á millibankamörkuðum. Bankar sem voru veikir fyrir urðu verst úti, þar á meðal íslensku bankarnir. Íslenskir bankamenn höfðu gengið langt í áhættutöku og þegar Lehman Brothers féll lokuðust lánalínur á íslensku bankana (SÍ, 2009b). Þeir gátu þar af leiðandi ekki greitt afborganir af lánum sínum. Í kjölfarið setti íslenska ríkið neyðarlög sem gerðu því kleift að taka yfir stjórn fjármálafyrirtækja. Þrír stærstu bankarnir, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, voru settir í þrot og nýir íslenskir bankar stofnaðir. Innlend starfsemi gömlu bankanna var flutt yfir í nýju bankana til að viðhalda greiðslumiðlun á Íslandi (SÍ, 2009b). Í kjölfarið skall á umfangsmikil efnahagskreppa í landinu. Þess ber að geta að framangreindar staðhæfingar byggja á umfjöllun Seðlabanka Íslands um aðdraganda fjármálakreppunnar. Vera kann að hann sé of tengdur málinu til að tryggja ýtrasta hlutleysi. Mikið innstreymi fjármagns hafði verið til landsins á árunum fyrir hrun bankanna vegna hárra vaxta á Íslandi og lántöku íslenskra fyrirtækja erlendis. Því áttu erlendir fjárfestar miklar eignir í íslenskum krónum, en þær námu u.þ.b. 680 milljörðum króna seinni hluta ársins 2008 (SÍ, 2009a). Þegar framangreindir erfiðleikar skullu á íslenskt fjármálakerfi minnkaði traust á því til muna og hætta skapaðist á stórfelldum fjármagnsflótta. Til að koma í veg fyrir það hefti Seðlabankinn útflæði gjaldeyris frá og með 10. október 2008. Þá sendi hann tilmæli til banka um að minnka og forgangsraða útflæði á gjaldeyri. Þá átti fyrst og fremst að afgreiða viðskipti á gjaldeyrismarkaðinum í tengslum við nauðsynjavörur og kostnað við innviði samfélagsins. Á þessum tíma var lítil virkni á markaðinum og um miðjan október var komið á tilboðsmarkaði með gjaldeyri á vegum Seðlabankans. Bankinn hóf virka þátttöku á markaðinum og reyndi að verja gengið en það hafði hann ekki gert undanfarin ár (Kristrún Mjöll Frostadóttir, 2011). Þann 28. nóvember voru tekin upp víðtæk höft á fjármagnshreyfingar milli Íslands og annarra landa, og gjaldeyrisviðskipti í tengslum við þær. Höftin voru sett í tengslum við sameiginlega efnahagsáætlun Íslendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem átti að auka efnahagsstöðugleika á Íslandi. Á sama tíma voru afnumin gjaldeyrishöft vegna almennra viðskipta sem höfðu verið í gildi vikurnar á undan (SÍ, 2009b). Þessi höft eru enn í gildi í dag og eru, eins og áður segir, fyrst og fremst hömlur á fjármagnsflutninga innlendra og erlendra aðila, sérstaklega í tengslum við að skipta íslenskum krónum í erlendan gjaldeyri. Skilaskylda er jafnframt í gildi fyrir allan erlendan gjaldeyri sem Íslendingar verða sér úti um. Beinar fjárfestingar innanlands og gjaldeyrisviðskipti sem eru í tengslum við inn- eða útflutning á vörum eða þjónustu eru leyfileg. Jafnframt er heimilt að stunda viðskipti á gjaldeyrismarkaði vegna vaxtagreiðslna. Nokkur fyrirtæki, m.a. stórir útflutningsaðilar, fá einhverja eða fulla undanþágu frá þessum reglum. Seðlabankinn veitir einnig aðrar undanþágur en um þær er hægt að sækja hjá bankanum. Reglurnar um höftin hafa tekið nokkrum breytingum á síðustu árum. Þau voru hert í mars 2009 og í október sama ár voru aftur gerðar breytingar. Höft á útflæði voru styrkt en tekið var skýrt fram að einhliða flutningur á aflandskrónum til landsins væri bannaður. 1 Á sama tíma var þó höftum á innflæði fjármagns aflétt (SÍ, 2009a). 2.3 Afnám fjármagnshafta Árið 1997 var mikill stuðningur við að frjálst fjármagnsflæði væri æskilegt fyrirkomulag í öllum löndum. Fram kom tillaga um að breyta samþykktum AGS í þá veru að gera frjálsar hreyfingar fjármagns milli landa að einu af aðalmarkmiðum stofnunarinnar (Forbes, 2007). Stuttu síðar skall á kreppa í Asíu og hafði sú kreppa áhrif á sjónarmið hagfræðinga, sem jafnan aðhyllast frjálsa fjármagnsflutninga. Meðal annarra lagði Krugman (1998) til að höft á útflæði fjármagns yrðu sett á í löndum Asíu í kreppunni. Þetta úrræði taldi hann geta veitt ríkjum tíma og svigrúm til þess að takast á við erfiðleika heima fyrir. Krugman studdi þannig höft við ákveðnar aðstæður. Bhagwati (1998) gekk enn lengra og hélt því fram að alls ekki væri ákjósanlegt fyrir öll lönd að gera fjármagnshreyfingar inn og út úr landi frjálsar. Það myndi leiða til hverrar kreppunnar á fætur annarri. Áherslur AGS breyttust einnig og taldi stofnunin í framhaldinu að fjármagnshöft gætu verið heppileg í vissum tilvikum. AGS styður nú bæði höft á innflæði við vissar aðstæður (Fischer, 2001) og einnig höft á útflæði eins og í tilviki Íslands 2008. Forbes (2007) tók saman yfirlit um rannsóknir á fjármagnshöftum, bæði rannsóknir sem byggja á þjóðhagslegum heildarstærðum og rekstrarhagfræðilegum gögnum. Samkvæmt Forbes ná þjóðhagfræðirannsóknir ekki að skera úr um hvort frjálst Seðlabanki Íslands (2011) skilgreinir aflandskrónur sem „verðmæti í innlendum gjaldeyri í eigu eða vörslu erlendra aðila, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum samkvæmt reglum um gjaldeyrismál.“ (bls. 1). flæði fjármagns sé betra en höft og hvort afnám hafta hafi jákvæð áhrif á hagvöxt. Engel (2012) tekur í sama streng og heldur því fram að rannsóknir á fjármagnshöftum gefi ekki afgerandi niðurstöður. Hins vegar bendir Forbes á margar rannsóknir byggðar á rekstrarhagfræðilegum gögnum sem sýna hversu óhagkvæm slík höft eru. Þessi óhagkvæmni birtist m.a. í lægra framboði fjármagns, hærri fjármagnskostnaði, bjagaðri ákvarðanatöku og beinum kostnaði við að framfylgja höftunum. Þótt þjóðhagfræðilegu rannsóknirnar nái ekki að sýna fram á kostina sem fólgnir eru í frjálsu fjármagnsflæði virðast rekstrarhagfræðilegu rannsóknirnar benda til þess að höft séu oftast slæm (Forbes, 2007). Þrátt fyrir að rannsóknir hafi ekki náð að sýna á fullnægjandi hátt að afnám gjaldeyrishafta hafi góðar afleiðingar fyrir hagkerfi hefur verið áberandi í opinberri umræðu að afnema þurfi höftin eins skjótt og auðið er. Stjórnmálamenn, Seðlabankinn og forystufólk í atvinnulífinu leggur a.m.k. mikla áherslu á að höftin verði afnumin. Ein mikilvægasta ástæðan fyrir því að höftin þurfi að afnema sem fyrst er að fjármagnshöft eru ekki leyfileg samkvæmt EES-samningnum, nema um tímabundið neyðarúrræði sé að ræða. Til þess að uppfylla samninginn þurfa því stjórnvöld og Seðlabanki að afnema höft á fjármagnsflæði á komandi árum. Auk þess bendir Már Guðmundsson (2010) og skýrsla á vegum Viðskiptaráðs Íslands (2011b) á efnahagslegan og samfélagslegan kostnað sem höftin hafa í för með sér. Skýrsla Viðskiptaráðs minnir um margt á rök Forbes (2007) fyrir skaðsemi fjármagnshafta en þar er kostnaður í viðjum hafta tíundaður með hjálp rekstrarhagfræðilegra gagna. Í ljósi þessara skoðana hefur Seðlabankinn í tvígang lagt fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta en þar er lagt til hvernig afnema skuli höftin á næstu árum. Fyrri áætlunin skiptist í tvo áfanga; aflétta skyldi höftum af innstreymi erlends gjaldeyris fyrst og síðan átti að afnema höft af útstreymi erlends gjaldeyris (SÍ, 2009a). Fyrri áfanganum var náð í október 2009 en framkvæmd áætlunarinnar um hvernig afnema mætti höft á útflæði tafðist. Þessi töf var m.a. vegna Icesave-deilunnar, óvissu með efnahagsreikninga nýju bankanna, skuldavanda heimila og fyrirtækja og niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæta gengistryggingu lána (SÍ, 2011). Því var gerð ný áætlun um afnám hafta á útflæði fjármagns í mars 2009 sem var einnig skipt í tvo áfanga. Fyrri áfangi áætlunarinnar byggist á því að lækka stöðu aflandskróna með hjálp útboða, skuldabréfaskipta og útgönguálags. Megintilgangur útboðanna er að koma aflandskrónum, sem „óþolinmóðir fjárfestar“ eiga, í langtímafjárfestingu í íslensku atvinnulífi eða ríkissjóði. Síðari áfanginn miðar að því að afnema höft á aðrar krónur en aflandskrónur. Lögð er áhersla á að höftin verði afnumin í skrefum og að þessi skref verði framkvæmd þegar viss skilyrði eða forsendur eru fyrir hendi. Höftum verður t.d. ekki aflétt að fullu fyrr en fjármálastofnanir og ríkissjóður fá aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum (SÍ, 2011). Engin tímaáætlun er fyrir hendi um hvenær þessi skref verða tekin enda er óvissa um hvenær skilyrðin verða uppfyllt. Þó er stefnt að því að leysa þau nokkuð hratt í síðustu skrefunum því eftirfylgd haftanna verður erfiðari eftir því sem fleiri glufur opnast (SÍ, 2011). Framangreind aðferð til að aflétta höftum byggir á sýn Seðlabanka Íslands en fleiri leiðir kunna að vera færar. Í skýrslu á vegum Viðskiptaráðs Íslands (2011a) hefur til að mynda verið kynnt önnur leið til að aflétta höftum. Hún var gefin út í desember 2011 en þar kom fram sú skoðun að mögulegt væri að afnema höftin á einu ári. Það hefur augljóslega ekki orðið að veruleika. 3 Markaðir fyrir framvirka gjaldeyrissamninga án afhendingar (NDF markaðir) Hefðbundinn framvirkur gjaldeyrissamningur (e. forward contract) milli tveggja aðila er samkomulag um að skiptast á tveimur gjaldmiðlum á fyrirframákveðnu gengi (samningsgengi) á tilteknum degi í framtíðinni. Þannig gætu t.d. tveir aðilar ákveðið að skiptast á 100 Bandaríkjadölum fyrir 10.000 íslenskar krónur eftir eitt ár. Í þessu samkomulagi væri samningsgengið 100 ISK/USD. Gengi íslensku krónunnar miðað við Bandaríkjadal gæti hins vegar vikið frá samningsgenginu að einu ári liðnu. Framvirkur gjaldeyrissamningur án afhendingar (NDF samningur) er svipað samkomulag, nema að samningurinn er alltaf gerður upp með reiðufé í öðrum gjaldmiðlinum. Gjaldmiðillinn sem gert er upp í er tilgreindur fyrirfram, oftast Bandaríkjadalur, en hinn gjaldmiðillinn kemur aldrei til afhendingar. Greiðslan sem fer á milli viðskiptaaðilanna á uppgjörsdegi byggist á mismuninum milli samningsgengisins og stundargengisins á lokadegi samningsins. Uppgjörsdagur samningsins er oftast nokkrum virkum dögum á eftir lokadegi hans. Flestir slíkir samningar eru frá 1 mánuði til 1 árs að lengd en geta varað lengur eftir samkomulagi (Liang og Gao, 2012). Til að útskýra hefðbundinn NDF samning er best að skoða dæmi (mynd 2). Gerum ráð fyrir að gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu í dag sé 100 ISK/USD og tveir aðilar komist að samkomulagi um NDF gjaldeyrisviðskipti með uppgjöri eftir eitt ár. Gerum jafnframt ráð fyrir að Bandaríkjadalur sé gjaldmiðillinn sem kemur aldrei til afhendingar. Aðili A ætlar að skipta virði 100 Bandaríkjadala í krónum fyrir 10.000 krónur sem aðili B mun útvega. Í þessu tilviki er samningsgengið það sama og stundargengið (100 ISK/USD) á upphafsdegi þannig að samningurinn gerir ráð fyrir óbreyttu gengi eftir ár. Ef gengið verður óbreytt eftir ár er enginn munur á stundargengi á lokadegi og samningsgenginu og því fer engin greiðsla fram milli A og B á uppgjörsdegi. Ef gengið lækkar á íslensku krónunni, og stundargengið verður 120 ISK/USD eftir ár, þá þarf A að greiða B upphæð í krónum. Á lokadegi samningsins er virði 100 Bandaríkjadala sem A á að borga B 100 x 120 eða 12.000 krónur. Mismuninn 12.000-10.000 = 2.000 krónur þarf því A að greiða B á uppgjörsdegi. Ef gengið hækkar á íslensku krónunni og stundargengið verður 80 ISK/USD á lokadegi er virði 100 Bandaríkjadala sem A á að greiða B á uppgjörsdegi 100 x 80 eða 8.000 krónur. Í því tilviki þarf því B að greiða 10.000-8.000 = 2.000 krónur til A á uppgjörsdegi. Mynd 2. Dæmi um einfaldan framvirkan gjaldeyrissamning sem er gerður upp í krónum. NDF markaðir hafa í flestum tilvikum myndast í tengslum við gjaldmiðla hjá ríkjum þar sem í gildi eru einhvers konar fjármagns- eða gjaldeyrishöft (Misra og Behera, 2007). Einnig geta þeir myndast í kringum gjaldmiðil þar sem enginn hefðbundinn framvirkur markaður er fyrir hendi með viðkomandi gjaldmiðil (Hutchison, Pasricha og Singh, 2012). Stærstu NDF markaðirnir eru í Suður-Ameríku og Asíu. Kína og Indland hafa alltaf haft einhvers konar höft á mörkuðum sínum en mörg önnur lönd í Asíu tóku upp höft á nýjan leik eftir fjármálakreppuna þar 1997. NDF markaðir geta ýmist myndast í haftalandinu eða utanlands sem aflandsmarkaður. Flestir NDF markaðir eru aflandsmarkaðir. Þegar höft hafa verið sett á í tilteknu landi geta erlendir fjárfestar ekki lengur komist auðveldlega yfir gjaldmiðil landsins. Þeir hafa jafnframt ekki greiðan aðgang að hefðbundnum framvirkum gjaldeyrismarkaði í landinu. Þá geta þeir ekki lengur varið sig fyrir gjaldeyrisáhættu á hefðbundinn hátt. Því myndast eftirspurn á aflandsmörkuðum fyrir NDF samninga sem geta varið þessa fjárfesta fyrir gjaldeyrisáhættu án þess að þeir þurfi að verða sér úti um haftagjaldmiðilinn (Misra og Behera, 2007). Þessir fjárfestar mynda hluta af eftirspurninni á slíkum mörkuðum ásamt spákaupmönnum, inn- og útflutningsaðilum og fleirum. Einnig geta þeir sem hafa aðgang bæði að NDF mörkuðum og heimamörkuðum tekið þátt vegna högnunartækifæra. Aflandsmarkaðir eru ekki bundnir af lögum í heimalandinu og eru því oft háðir minni takmörkunum en heimamarkaðir landa í höftum. Þó hefur heimalandið t.d. áhrif á hvort innlendar bankastofnanir fái að taka þátt á aflandsmörkuðum. Auk þess gæti verið mikilvægt fyrir ríki að fylgjast með NDF aflandsmörkuðum með þarlenda gjaldmiðla vegna tengsla gengis á aflandsmörkuðum og heimamörkuðum (Misra og Behera, 2007). Þar að auki eru til NDF markaðir sem eru heimamarkaðir. Slíkan markað var t.d. að finna í Ástralíu á 20. öld en þá voru öll viðskipti gerð upp í Ástralíudölum (Debelle, Gyntelberg og Plumb, 2006). Þessi NDF markaður er þó úr sögunni nú því fjármagnshöftum var smátt og smátt aflétt í Ástralíu. Þá færðust viðskipti á NDF markaði yfir á hinn hefðbundna markað framvirkra gjaldeyrissamninga með afhendingu. Stærð NDF markaða og verð á NDF samningum eru háð ýmsum breytum. NDF markaðir stækka í takt við umfang fjármagnshreyfinga til og frá landinu með haftagjaldmiðilinn. Viðskipti á NDF markaði í tengslum við ákveðinn gjaldmiðil geta einnig aukist mikið þegar markaðsaðilar vænta breytinga á gengisstefnu. Þar að auki hafa ýmsar innanlandsreglur áhrif á stærð markaðanna. NDF markaður tiltekins gjaldmiðils er jafnan stærri ef fjármálastofnanir heimalandsins mega aðstoða erlenda banka, sem stunda viðskipti á markaðinum, við að verja sig gegn gjaldeyrisáhættu. Þetta hefur t.d. verið heimilt upp að vissu marki í Suður-Kóreu og Brasilíu (Lipscomb, 2005). Verð á NDF samningum eru sömuleiðis háð mörgum breytum, m.a. líkum á breytingum á gengisstefnu, spákaupmennsku og aðstæðum á innlendum vaxta- og gjaldeyrismörkuðum (Misra og Behera, 2007). Aðrir áhrifavaldar eru seljanleiki og viðskiptamagn á NDF mörkuðum og ýmiss konar áhætta t.d. mótaðilaáhætta (Lipscomb, 2005). Oft er sterkt samband milli verðs á NDF mörkuðum og verðs á stundargengismörkuðum og framvirkum heimagjaldeyrismörkuðum. Verðtengsl milli markaða fara eftir virkni hafta í heimalandi gjaldmiðilsins, eins og greint verður frekar frá hér síðar. 3.1 Saga NDF markaða Viðskipti á NDF mörkuðum hófust fyrir alvöru á tíunda áratug síðustu aldar en hafa þó verið lengur við lýði eins og t.d. í Ástralíu, þar sem markaðurinn myndaðist árið 1973. Kveikjan að flestum mörkuðunum var eftirspurn fjárfesta í nýmarkaðshagkerfum eftir vörnum gegn gjaldeyrisáhættu (Lipscomb, 2005). Fjármagnsstreymi hafði aukist mjög til nýmarkaðshagkerfa á níunda og tíunda áratugunum og þá voru mörg þeirra enn í viðjum hafta. Upphaflega var mest virkni á NDF mörkuðum í Suður-Ameríku. Árið 1994 jókst virknin á NDF mörkuðum mjög með tilkomu símamiðlara (e. voice brokers) á gjaldeyrismarkaði. Þeir urðu milliliðir í NDF viðskiptum og auðvelduðu mörgum fjármálastofnunum að loka opnum stöðum sínum. Á þessum tíma var mest virkni á NDF markaðinum fyrir mexíkóska pesóann. Í kjölfarið fór áhuginn að aukast á NDF mörkuðum í Asíu og Austur-Evrópu. Eftir fjármálakreppuna í Asíu 1997 settu mörg asísk lönd einhvers konar fjármagnshöft á hagkerfi sín eða styrktu þau sem fyrir voru. Það leiddi til þess að virknin jókst enn meira á NDF mörkuðum í Asíu (Lipscomb, 2005; Misra og Behera, 2007). Um þessar mundir er mikil virkni á NDF mörkuðum um allan heim. Gjaldmiðlar sem markaðirnir byggjast á í dag eru t.d. kínverskt júan, indverskar rúpíur, kóreskt won, egypskt pund, úkraínsk hryvnía, argentínskt pesó og brasilískt real. Fyrir utan gjaldmiðil Úkraínu eru NDF markaðir fyrir gjaldmiðla landa Austur-Evrópu að mestu leyti búnir að víkja fyrir hefðbundnum mörkuðum með framvirka gjaldeyrissamninga (Credit Suisse, 2013). Viðskipti á þessum mörkuðum fara fram í viðskiptamiðstöðvum víðs vegar um heiminn t.d. í Hong Kong, Singapúr, Suður-Kóreu, Tókýó, Brasilíu, Lundúnum og New York (Misra og Behera, 2007). 3.2 Stærð NDF markaða í heiminum Erfitt er að meta umfang NDF markaða vegna þess að viðskipti með slíka samninga fara fram utan kauphalla, þ.e. „yfir borðið ‟ (e. over the counter, OTC). Því er vandasamt að komast yfir öll nauðsynleg gögn til mælingarinnar. Í ljósi þess eru fáar áreiðanlegar og umfangsmiklar rannsóknir fyrirliggjandi til að mæla stærð NDF markaða. Tafla 1. Umfang NDF markaða í heiminum árið 20032. Heimild: Emerging Markets Trade Association (2004). Taflan er sett fram á sama hátt og hjá EMTA (2004). Löndin eru notuð til að auðkenna NDF markaði fyrir heimagjaldmiðla sína. Markaðirnir eru þó ekki endilega staðsettir innanlands. 1. Suður-Kórea (KRW) 307.023 2. Síle (CLP) 179.973 3. Brasilía (BRL) 179.473 4. Tævan (TWD) 162.511 5. Kína (CNY) 67.912 6. Indónesía (IDR) 50.089 7. Indland (INR) 21.501 8. Argentína (ARS) 15.250 9. Filippseyjar (PHP) 14.768 10. Rússland (RUB) 11.504 11. Kólumbía (COP) 8.203 12. Perú (PEN) 2.167 13. Venesúela (VEB) 721 Árleg velta í milljónum Bandaríkjadala: Mynd 3. Hlutfallslegt umfang NDF markaða í heiminum árið 2003. Heimild: Emerging Markets Trade Association (2004). Emerging Markets Trade Association (EMTA) var einn fyrsti aðilinn til að meta umfang þessara markaða um heim allan. Samkvæmt greiningunni var samanlagt virði allra NDF viðskipta á árinu 2003 um 1.021 milljarðar Bandaríkjadala (EMTA, 2004). Þá fór yfir 60% af heildarmagni viðskipta fram í asískum gjaldmiðlum. Mest NDF viðskipti fóru fram með kóreskt won (KRW). Gjaldmiðlar í Suður-Ameríku voru einnig fyrirferðarmiklir í slíkum viðskiptum. Næst á eftir umfangi NDF markaðarins fyrir KRW voru NDF markaðir fyrir real frá Brasilíu og pesóa frá Síle. Viðskipti á mörkuðum fyrir hvorn gjaldmiðil fyrir sig voru u.þ.b. 17,5% af heildarmagni NDF viðskipta. Alls voru NDF viðskipti í tengslum við 13 gjaldmiðla könnuð en niðurstöðurnar má sjá í töflu 1 og á mynd 3. Árétta verður þó að EMTA tók fram að ekki væri hægt að taka fullt mark á niðurstöðum könnunarinnar vegna þess að mikilvægir aðilar tóku ekki þátt í henni. Jafnframt hætti EMTA að framkvæma slíkar kannanir eftir 2003 því talið var að vinna þyrfti betur í gagnasöfnun og aðferðafræði áður en næsta könnun yrði gerð. Sú könnun hefur enn ekki litið dagsins ljós. Suður-Kórea (KRW) Síle (CLP) Brasilía (BRL) Tævan (TWD) Kína (CNY) Indónesía (IDR) Indland (INR) Argentína (ARS) Filippseyjar (PHP) Rússland (RUB) Kólumbía (COP) Perú (PEN) Venesúela (VEB) Margir bankar og ýmsar nefndir, sem starfa á staðbundnum mörkuðum, hafa einnig metið umfang NDF markaða. Slíkir aðilar rannsaka alla jafna aðallega þau viðskipti sem þá varða. Því er ólíklegt að greining þeirra nái yfir umfang allra viðskipta með NDF samninga. HSBC, Deutsche Bank og Lehman Brothers eru dæmi um banka sem hafa framkvæmt slíkar rannsóknir. Nefndir á staðbundnum mörkuðum sem hafa gert slíkt hið sama eru t.d. The London Foreign Exchange Joint Standing Committee (LFXJSC) og Tokyo Foreign Exchange Market Committee (TFXMC). Ma, Ho og McCauley (2004) báru saman rannsóknir mismunandi greiningaraðila á NDF mörkuðum í Asíu og í ljós kom mikill munur á mati hvers aðila fyrir sig (tafla 2, dálkar 1-4; mynd 4). Þó töldu þeir að niðurstöðurnar væru nógu sambærilegar til að álykta með nokkurri vissu hverjir stærstu NDF markaðirnir væru. Samkvæmt niðurstöðum þeirra voru NDF markaðirnir fyrir kóreskt won og tævanskan dal stærstir í Asíu og það samsvarar rannsókn EMTA. Að vísu var markaðurinn fyrir kínverskt júan langstærstur í mati HSBC en það er í miklu ósamræmi við hinar greiningarnar. Þótt erfitt sé að meta nákvæma stærð á NDF mörkuðum er unnt að álykta um þróunina á umfangi þeirra. Það er sér í lagi hægt ef sambærilegar rannsóknir eru framkvæmdar með vissu millibili. Deutsche Bank gerði tvær kannanir á umfangi NDF markaða í asískum gjaldmiðlum, aðra árin 2003-2004 og hina 2008-2009 (Behera, 2011). Niðurstaðan bendir til að dagleg velta NDF samninga í þeim sömu sex gjaldmiðlum, sem Ma o.fl. könnuðu, hafði aukist úr u.þ.b. 1.500 milljónum Bandaríkjadala í 5.700 milljónir fimm árum seinna. Þrátt fyrir það vantaði gögn um TWD í seinni könnuninni en gögn um malasískt ringgit (MYR) komu þar fram í fyrsta skipti (tafla 2; mynd 4). Tafla 2. Mat nokkurra greiningaraðila á daglegri veltu (í milljónum Bandaríkjadala) NDF markaða í Asíu. Heimild: Ma o.fl. (2004) og Behera (2011). Greiningaraðilar 1. Lehman Brothers 2. EMTA 3. HSBC 4. Deutsche Bank 5. Deutsche Bank Tímabil: Júní 2001 Fyrsti ársfj. 2003 Mitt ár 2003 2003-2004 2008-2009 Indónesískar rúpíur (IDR) 50 65 100 50 400 Pesó frá Filippseyjum (PHP) 35 38 50 20-30 500 Indverskar rúpíur (INR) 35 38 100 20-50 800 Kínverskt júan (CNY) 50 150 1.000 50 1.000 Tævanskur dalur (TWD) 250 250 500 300-500 Kóreskt won (KRW) 500 1.350 500 700-1000 3.000 Ringgit frá Malasíu (MYR)----500 Samtals: 920 1.890 2.250 1.140-1.680 6.200 Mynd 4. Samanburður á mati nokkurra greiningaraðila á umfangi NDF markaða. Heimild: Ma o.fl. (2004) og Behera (2011). Ef litið er á greiningu LFXJSC og TFXMC (tafla 3) má sjá að velta NDF markaða í Lundúnum og Tókýó tók dýfu árið 2009 í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Velta NDF markaðarins í Tókýó minnkaði til að mynda um 85% milli apríl 2008 og 2009. Hún komst ekki í fyrra horf á ný fyrr en í október 2013. Dýfan í slíkum viðskiptum var ekki jafn alvarleg í Lundúnum en viðskipti minnkuðu einnig þar milli 2008 og 2009. Hins vegar voru markaðsaðilar fljótir að jafna sig og árið 2013 var velta á markaðinum í Lundúnum orðin næstum þreföld miðað við árið 2008. Þó má vera að dýfan hafi þegar komið fram í tölum 2008 þar sem tölur vantar frá 2007 til samanburðar. Af þessu má draga ályktanir um þróun NDF markaða síðustu tíu árin. Svo virðist sem þeir hafi vaxið frá 2003-2008 en veltan á þeim hafi hrunið í kjölfar fjármálakreppunnar á heimsvísu. Nú hafa þeir hins vegar náð fyrri veltu frá því fyrir hrun og jafnvel vaxið umfram það. Tafla 3. Dagleg velta (í milljónum Bandaríkjadala) á NDF mörkuðum í Tókýó og Lundúnum frá 2006-2013. Heimild: TFXMC (2013) og LFXJSC (2013). Í Lundúnum (LFXJSC, 2013) eru mest viðskipti með NDF samninga með brasilískt real (BRL), kóreskt won (KRW) og indverskar rúpíur (INR). Þessir sömu gjaldmiðlar hafa einnig myndað mesta samanlagða veltu í flokki NDF samninga í Tókýó undanfarin 2 ár (TFXJSC, 2013). Fyrir hrun voru NDF markaðirnir fyrir kínverskt júan (CNY) og tævanskan dal (TWD) með þeim stærstu í Tókýó en hafa smátt og smátt minnkað síðan þá. Samkvæmt könnun Deutsche Bank frá 2008-09 voru markaðir fyrir KRW, CNY og INR stærstu NDF markaðir Asíu í þessari röð. Því má leiða að því líkur að markaðir fyrir KRW, INR og BRL séu stærstu NDF markaðir heims í dag. Þó er þessi fullyrðing sett fram með miklum fyrirvara því viðskipti með NDF samninga eru mjög mismunandi eftir stöðum. Einnig getur velta einstakra ára skýrst af óvenjulegum atburðum en ekki leitni til stækkunar eða minnkunar. Ekki er mögulegt að meta heildarveltu NDF markaða í heiminum út frá framangreindu. 3.3 Verðbil og flökt á NDF mörkuðum Verðbil er munurinn á lægsta verði sem seljandi er tilbúinn til að selja vöru á (e. best ask) og hæsta verði sem kaupandi er tilbúinn til að greiða fyrir vöruna (e. best bid). Verðbil segir til um seljanleika og hagkvæmni verðuppgötvunar á mörkuðum (Guru, 2009). Því minna sem verðbilið er þeim mun meiri er seljanleikinn og hagkvæmnin. Meira viðskiptamagn á mörkuðum leiðir yfirleitt til minna verðbils. Upplýsingar um verðbil á átta af stærstu NDF mörkuðunum má sjá í töflu 4 og á mynd 5. Verðbilið er Lundúnir Apr. 2006 Apr. 2007 Apr. 2008 22.529 Apr. 2009 15.440 Apr. 2010 24.651 Apr. 2011 41.971 Apr. 2012 36.425 Okt. 2012 Apr. 2013 60.019 29.063 42.769 47.058 54.439 49.829 Tókýó: 7.663 6.365 32.887 reiknað út frá NDF gengi gjaldmiðlanna miðað við Bandaríkjadal. Gefið er upp meðalverðbil og hámarksverðbil á undanförnum þremur árum á mörkuðunum. Meðalverðbil gefur mynd af verðbilinu yfir allt tímabilið en hámarksverðbil sýnir hversu hátt verðbilið getur verið við erfiðar markaðsaðstæður. Verðbil skiptir einmitt mestu máli við slíkar aðstæður, en þó ber að hafa í huga að hámarksverðbil er aðeins ein augnabliksstaða og því ekki hægt að draga of miklar ályktanir af henni. Í töflunni sést að verðbil á stundargengismörkuðum þessara átta landa er minna en verðbil á tilsvarandi NDF mörkuðum (í öllum tilvikum nema í Suður-Kóreu). Það er til marks um minni seljanleika á NDF mörkuðunum sem gæti skýrst af smæð þeirra miðað við stundargengismarkaði. Einnig gefa niðurstöðurnar til kynna að seljanleiki minnki með lengd NDF samninganna. Ef seljanleiki er borinn saman út frá meðalverðbili kemur í ljós að seljanlegustu gjaldmiðlar á NDF mörkuðunum eru í stærðarröð: kínverskt júan (CNY), brasilískt real (BRL), indverskar rúpíur (INR), malasískt ringgit (MYR) og kóreskt won (KRW). Það er í nokkru samræmi við stærðarröð NDF markaða í heiminum samkvæmt þeim gögnum sem hafa verið skoðuð. Reyndar er mestur seljanleiki á kínverska markaðinum, en hann er ekki sá stærsti ef marka má gögnin. Einnig er áhugavert hversu seljanleiki er mikill á NDF markaðinum fyrir MYR, bæði út frá meðal- og hámarksverðbili. Seljanleiki hefur aukist (og verðbil minnkað) á mörgum NDF mörkuðum Asíu frá 2004 (Ma o.fl., 2004). Þó hefur hann minnkað mikið á markaðinum fyrir tævanskan dal sem er hugsanlega vegna þess að hann er ekki lengur jafn stór og áður. Flökt er mælikvarði á verðsveiflur á ákveðnu tímabili. Flökt var einnig skoðað á sömu átta NDF mörkuðunum á undanförnum þremur árum (út frá NDF gengi gjaldmiðlanna miðað við Bandaríkjadal). Sjá má niðurstöðurnar í töflu 4 og á mynd 5. Hún sýnir að flökt á stundargengismörkuðum er minna en flökt á tilsvarandi NDF mörkuðum í öllum tilvikum nema í Kína. Það gæti skýrst af inngripum landanna á stundargengismarkaði fyrir gjaldmiðil sinn en afskiptaleysi af NDF markaði (Ma o.fl., 2004). Tafla 4. Verðbil og flökt (í prósentum) á stærstu NDF mörkuðum heims frá 1. nóvember 2010 til 31. október 2013. Heimild: Bloomberg gagnaveitan og eigin útreikningar. 1 mán. 3 mán. 1 ár CNY Meðalverðbil: 0,04 0,05 0,07 0,08 Hámarksverðbil: 0,35 0,24 0,40 0,29 Flökt: 2,09 1,81 2,30 3,08 BRL Meðalverðbil: 0,03 0,06 0,07 0,26 Hámarksverðbil: 0,33 0,52 0,71 0,91 Flökt: 11,97 12,03 11,99 12,23 INR Meðalverðbil: 0,04 0,11 0,13 0,19 Hámarksverðbil: 0,80 1,15 1,19 1,98 Flökt: 10,41 10,85 11,05 11,13 MYR Meðalverðbil: 0,08 0,12 0,13 0,21 Hámarksverðbil: 0,40 0,44 0,50 0,54 Flökt: 7,31 7,79 7,74 7,78 KRW Meðalverðbil: 0,17 0,12 0,14 0,25 Hámarksverðbil: 1,33 0,40 0,96 0,60 Flökt: 8,44 9,49 9,48 9,26 PHP Meðalverðbil: 0,15 0,16 0,20 0,34 Hámarksverðbil: 1,56 0,51 0,47 1,61 Flökt: 6,00 6,55 6,72 7,03 TWD Meðalverðbil: 0,18 0,23 0,24 0,29 Hámarksverðbil: 0,93 1,04 1,05 1,14 Flökt: 4,24 5,31 5,95 5,58 IDR Meðalverðbil: 0,21 0,26 0,36 0,53 Hámarksverðbil: 1,59 0,78 1,77 1,82 Flökt: 8,31 9,38 10,35 11,40 Stundargengi NDF Mynd 5. Verðbil og flökt (í prósentum) á stærstu NDF mörkuðum heims frá 1. nóvember 2010 til 31. október 2013. Heimild: Bloomberg gagnaveitan og eigin útreikningar. 0,00 0,10 0,20 0,30 0,40 0,50 0,60 CNY BRL INR MYR KRW PHP TWD IDR Meðalverðbil Stundarg. 1 mán 3 mán 1 ár 0,00 0,50 1,00 1,50 2,00 2,50 CNY BRL INR MYR KRW PHP TWD IDR Hámarksverðbil Stundarg. 1 mán 3 mán 1 ár 0,00 2,00 4,00 6,00 8,00 10,00 12,00 14,00 CNY BRL INR MYR KRW PHP TWD IDR Flökt Stundarg. 1 mán 3 mán 1 ár 3.4 Tengsl NDF markaða og hefðbundinna gjaldeyrismarkaða Í nokkrum rannsóknum hafa verið könnuð tengsl NDF markaðar fyrir ákveðinn gjaldmiðil við stundargengismarkað og hefðbundinn framvirkan markað fyrir sama gjaldmiðil. Í nánast öllum þeirra voru skoðaðir NDF aflandsmarkaðir. Stundargengis- og hefðbundnir framvirkir markaðir voru hins vegar ávallt heimamarkaðir 3. Park (2001) heldur því fram að þessar rannsóknir séu mikilvægar fyrir skilning á samþættingu fjármálamarkaða og hversu „fullkomið“ markaðsfyrirkomulagið sé. Með fullkomnu markaðsfyrirkomulagi á hann við að sömu vörur seljist á sama verði á mismunandi mörkuðum á hverjum tímapunkti. Jafnframt bendir hann á þrjár aðrar ástæður fyrir gagnsemi þessara rannsókna. Í fyrsta lagi eru þær mikilvægar fyrir hagstjórn landa. Því sterkari áhrif sem NDF aflandsmarkaðir hafa á heimamarkaði með gjaldeyri þeim mun erfiðara er fyrir seðlabanka að framfylgja sjálfstæðri peningamála- og gengisstefnu. Í öðru lagi veita þær gagnlegar upplýsingar fyrir fjárfesta sem stunda viðskipti með NDF samninga. Að lokum bendir hann á að hugsanlegt sé að geta NDF markaðar og heimamarkaðar fyrir gjaldeyri til þess að komast á snoðir um nýjar upplýsingar sé ekki sú sama. Annar markaðurinn gæti verið mun betur til þess fallinn og því ætti sá markaður að vera fyrri til með verðbreytingar vegna nýrra upplýsinga. Má þá segja að sá markaður sé „leiðandi“ í verðlagningu (e. primary market). Þessar rannsóknir eru mikilvægar til að átta sig á hvor markaðurinn er leiðandi en það getur breyst með tímanum. 3.4.1 Aðferðafræði Í rannsóknum þar sem skoðað var upplýsingaflæði milli markaða byggðist greiningin á bættu GARCH líkani, sem er tegund af ARCH líkönum. Þau eru tölfræðileg líkön sem notuð eru til að greina tímaraðir gagna. Í þeim rannsóknum sem hér verða skoðaðar er líkönunum beitt til þess að skoða flæðiáhrif (e. spillover effect) meðalávöxtunar og flökts milli markaðanna (e. mean Hefðbundnir framvirkir markaðir eru með afhendingu, andstætt NDF mörkuðum sem eru án afhendingar. Til einföldunar verða stundargengis- og hefðbundnir framvirkir markaðir kallaðir heimamarkaðir það sem eftir er kaflans. Þó eru einnig til NDF heimamarkaðir en fjallað verður um þá í 5. kafla. spillover & volatility spillover). Með flæðiáhrifum frá einum markaði til annars er átt við að fyrri ávöxtun og nýjungar á ákveðnum markaði hafi áhrif á (skilyrt) meðaltal eða flökt ávöxtunar á hinum markaðinum (Guru, 2009). Þannig eru flæðiáhrif mælikvarði á tengsl og upplýsingaflæði frá einum markaði til annars. Einnig er notast við Granger orsakasambandspróf til að kanna tengsl markaðanna í framangreindum rannsóknum. Prófið er mælikvarði á forspárgildi og upplýsingainnihald ávöxtunar á einum markaði fyrir annan markað og er því svipaður mælikvarði og flæðiáhrif meðalávöxtunar. Prófið gefur hins vegar ekki til kynna orsakasamband í algengari merkingu orðsins (Guru, 2009). Öðrum prófum og aðferðum var auk þess beitt í þessum rannsóknum sem og í rannsóknum þar sem annað var kannað en upplýsingaflæði milli NDF og heimamarkaða. Ekki verður farið frekar í þær aðferðir hér en hægt er að skoða þær betur í rannsóknunum sjálfum. 3.4.2 Rannsóknayfirlit Park (2001) var einna fyrstur til að framkvæma rannsókn á tengslum NDF markaðar og heimamarkaða. Hann skoðaði upplýsingaflæði milli markaðanna fyrir og eftir breytingar á regluverki suður-kóreska hagkerfisins sem áttu sér stað í desember 1997. Breytingarnar stuðluðu að frjálsari gengis- og fjármagnsmarkaði enda var þá gjaldmiðill landsins settur á flot og fjármagnshreyfingar gerðar frjálsar. Hann komst að þeirri niðurstöðu að fyrir breytingar hafi verið meira upplýsingaflæði frá heimamörkuðum til NDF markaðar en eftir þær hafi sambandið snúist við. Því má segja að fyrst hafi heimamarkaðir verið leiðandi í verðlagningu en NDF markaðurinn leiðandi eftir breytingar. Í Indónesíu komust Cadarajat og Lubis (2012) að því að flæðiáhrif hafi aðallega verið frá NDF markaðinum fyrir IDR til heimamarkaða árin 2008-2011, bæði hvað varðar meðalávöxtun og flökt. Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar á flæði upplýsinga milli slíkra markaða (tilvik Indlands verður skoðað síðar). Hvort NDF markaður er leiðandi í verðlagningu eða ekki fer eftir löndum og tímabilum. Park (2001) og Guru (2009) benda á að minni hömlur á fjármagns- og gjaldeyrismörkuðum leiði til aukinna áhrifa NDF markaðar á heimamarkaði og Mishra og Behera (2007) nefna að stærð NDF markaðarins miðað við heimamarkaði skipti máli. Því stærri sem NDF markaður er, þeim mun meiri áhrif ætti hann að hafa á heimamarkaði. Lipscomb (2005) heldur loks fram að því meira sem innlendar bankastofnanir fái að taka þátt á NDF markaði þeim mun meiri áhrif hafi hann á heimamarkaði vegna getu bankastofnana til að nýta högnunartækifæri. Þessir fræðimenn eru flestir sammála um að mikilvægt sé fyrir yfirvöld að fylgjast vel með NDF mörkuðum vegna tengsla þeirra við heimagjaldeyrismarkaði. Verð á NDF samningum hafa ekki einungis verið notuð til að kanna upplýsingaflæði milli NDF markaðar og heimamarkaða viðkomandi gjaldmiðils. Colavecchio og Funke (2008) skoðuðu tengsl NDF markaðar kínverska gjaldmiðilsins júan og sjö annarra framvirkra gjaldeyrismarkaða í Asíu. Þetta voru bæði NDF markaðir og hefðbundnir framvirkir markaðir. Höfundar rannsóknarinnar komust að því að flökt á NDF markaðinum fyrir júan hefur áhrif á svo gott sem alla hina sjö markaðina. Því eru NDF markaðir ekki aðeins tengdir heimamörkuðum viðkomandi gjaldmiðils heldur geta þeir einnig tengst innbyrðis. Hutchison, Pasricha og Singh (2012) notuðu NDF gengi INR/USD, stundargengi INR/USD og vexti á Indlandi og í Bandaríkjunum til þess að meta hver virkni fjármagnshaftanna hafi verið á Indlandi frá 1999 til 2011. Þeir komust að því að höft á innflæði og útflæði hafi ýmist verið virkari fyrir inn- eða útflæði á mismunandi tímabilum. Jafnframt halda þeir því fram að virkni haftanna hafi minnkað mikið frá 2009 í takt við sífellt frjálsari fjármagnshreyfingar til og frá Indlandi. Þeir nota styrk tengsla milli NDF markaðarins fyrir INR og heimamarkaða sem mælikvarða á virkni gjaldeyrishaftanna, þ.e. því sterkari tengsl þeim mun minni virkni. 3.4.3 Mismunur á ávöxtun Hutchison o.fl. (2012) nota tölfræðileg líkön og skoða mismun milli ávöxtunar innanlands og NDF ávöxtunar til að meta virkni fjármagnshafta. Einnig má nota þennan ávöxtunarmun á einfaldari hátt til að meta fjármagnshöft, eins og greint verður frá hér í framhaldinu. Misra og Behera (2007) gerðu slíka greiningu á NDF markaðinum fyrir INR, Ma o.fl. (2004) greindu sex NDF markaði í Asíu á þennan hátt og loks gerðu Hutchison o.fl. þessa einfaldari greiningu í viðauka rannsóknar sinnar. Hér verða sex NDF markaðir í Asíu og tilsvarandi heimamarkaðir greindir sem framhald af greiningu Ma o.fl. (2004). Líkt og áður verður gengi NDF gjaldmiðla miðað við Bandaríkjadal notað til greiningarinnar. Munur á ávöxtun er mælikvarði á virkni fjármagnshafta eins og áður segir og einnig markaðshagkvæmni. Jafna óvarins vaxtajafnvægis er eftirfarandi: (1) þar sem F stendur fyrir gengi á hefðbundnum framvirkum gjaldeyrissamningum, S fyrir stundargengisverð, fyrir vexti í Bandaríkjunum og r vexti heima fyrir (með sömu tímalengd). Þegar engin höft eru á fjármagns- og gjaldeyrisviðskiptum milli landa sjá högnunartækifæri til þess að jafnan að ofan stenst. Hömlur á viðskiptum geta valdið því að þeir sem búa erlendis hafi takmarkaðan aðgang að framvirkum heimamörkuðum. Þá er hægt að setja upp tilsvarandi jöfnu fyrir NDF samninga: þ.e. (2) þar sem i er afleidd ávöxtun NDF samninga, ef óvarið vaxtajafnvægi heldur. Mælikvarðinn á ávöxtunarmun sem hér verður notaður er (r-i). Stærðin i er metin út frá þriggja mánaða NDF gengi, bandarískum þriggja mánaða libor vöxtum (ekki á ársgrundvelli) og stundargengi samkvæmt jöfnu (2). Vextir innanlands r eru metnir á sama hátt út frá jöfnu (1) með framvirku gengi heima fyrir í stað NDF gengis. Því eru stærðirnar i og r afleidd ávöxtun til þriggja mánaða en ekki byggðar á ársgrundvelli. Hefðbundnir vextir eru ekki notaðir sem r vegna minni sambærileika við i og vegna skorts á skýrum sambærilegum viðmiðunarvöxtum í löndunum (Misra og Behera, 2007). Mismunurinn (r-i) mælir hversu auðvelt er að stunda högnunarviðskipti milli NDF og hefðbundins framvirks markaðar og er því mælikvarði á virkni fjármagnshafta. Viðvarandi mismunur með tölugildi stærra en núll gefur til kynna að óhagkvæmni eins og fjármagnshöft standi í vegi fyrir því að hann verði núll. Einnig gefur mismunurinn til kynna hvort þrýstingur sé til styrkingar eða veikingar viðkomandi gjaldmiðils. Ef mismunurinn er jákvæður er undirliggjandi þrýstingur til styrkingar gjaldmiðilsins en höft takmarka innflæði fjármagns. Ef hann er aftur á móti neikvæður er þrýstingur til veikingar og höftin koma í veg fyrir útflæði fjármagns (Ma o.fl., 2004). Þó verður að hafa í huga að breytingar á hagstjórn, aðstæður á alþjóðamörkuðum og fleira getur einnig haft áhrif á ávöxtunarmismun milli þessara markaða (Hutchison o.fl., 2012). Mynd 6. Ávöxtunarmismunur til þriggja mánaða (í prósentum) á NDF markaði og hefðbundnum framvirkum gjaldeyrismarkaði fyrir 6 asíska gjaldmiðla frá 1. nóvember 2011 til 31. október 2013. 4 Heimild: Bloomberg gagnaveitan og eigin útreikningar. Mismun á ávöxtun milli NDF markaðar og tilsvarandi framvirks heimamarkaðar í sex löndum Asíu má sjá á mynd 6. Síðastliðin tvö ár, 1. nóvember 2011–31. október 2013, voru skoðuð í þessu samhengi, en lengra tímabil var ekki athugað vegna verri gagna lengra aftur í tímann. Af myndinni sést að einhver höft virðast vera við lýði í flestum löndunum, en þó eru áhrif þeirra ekki mjög mikil. Mismunur ávöxtunar á framvirka kóreska gjaldeyrismarkaðinum og tilsvarandi NDF markaði er nánast enginn yfir allt tímabilið. Ma o.fl. (2004) fundu reyndar einnig lítinn mun á tímabilinu 1999-2001 sem er líklega vegna þátttöku innlendra fjármálastofnana í Suður-Kóreu á NDF mörkuðum fyrir KRW. Þær hafa burði og tækifæri til að nýta högnunartækifæri sem leiða til þess að Ef undanskilið er línuritið af markaðinum með indónesískar rúpíur eru gildin á y-ás þau sömu á öllum línuritunum. Einnig skal athuga að myndin er á tveimur síðum. ávöxtunarmunur verður nánast enginn. Einnig var mjög lítill ávöxtunarmunur í Tævan og á Filippseyjum en öllu meiri munur í Kína, Indónesíu og á Indlandi. Munurinn hefur þó minnkað talsvert á Indlandi frá því að Misra og Behera gerðu slíka rannsókn á indverskum mörkuðum 2007 og enn meira frá því að Ma o.fl. gerðu sína rannsókn. Áhugavert er að bera mynd 6 saman við niðurstöður Ma o.fl. frá 2004. Þeir komust að því að ávöxtunarmunur í löndunum sex gat verið frá 4-10% á árunum 1999-2001 en mynd 6 leiðir í ljós að ávöxtunarmunurinn var alla jafna minni en 1% (að tölugildi) undanfarin tvö ár. Því hefur ávöxtunarmunur og þar með virkni fjármagnshafta minnkað mikið undanfarin ár í Asíu af þessu að dæma. Það kann að vera til marks um að fjármagnshöft eru smátt og smátt að hverfa í Asíu eða að fjárfestar hafi fundið leiðir til þess að hagnast á mismuninum og þar með minnkað virkni fjármagnshaftanna. 3.5 NDF markaðir í mismunandi gjaldmiðlum Oftast myndast NDF markaðir eins og áður segir vegna reglna og hafta í tilteknum löndum. Þessar reglur hafa því mikil áhrif á NDF markaðina og eru mjög mismunandi eftir löndum. Í löndum Asíu er tilgangur þessara takmarkana aðallega að koma í veg fyrir skammtímahreyfingar fjármagns sem eru ekki tengdar beinum fjárfestingum eða vöruviðskiptum. Einnig er þeim ætlað að hindra umfangsmikil fjármagnsviðskipti sem geta haft áhrif á gengi viðkomandi gjaldmiðla (Guru, 2009). Takmarkanir á fjármagnshreyfingar á vegum aðila sem eru búsettir erlendis eru þó mismunandi eftir löndum. Í Suður-Kóreu, Indlandi, Indónesíu og á Filippseyjum t.d. er aðilum sem eru búsettir erlendis leyft að taka þátt á framvirkum heimagjaldeyrismörkuðum ef þeir geta sýnt fram á að einhver viðskipti liggi þar að baki (e. underlying transaction requirement). Þá er oft átt við vöruviðskipti eða beinar erlendar fjárfestingar (Guru, 2009). Í Kína og Tævan er þeim sem eru búsettir erlendis hins vegar bannaður aðgangur að framvirkum heimagjaldeyrismörkuðum (HSBC, 2012). Þróun NDF markaða er einnig ólík eftir löndum og er hún mjög háð lagabreytingum um höft. Gott dæmi um hvernig lagabreytingar geta haft áhrif á NDF markaði er hvernig slíkir markaðir mynduðust fyrir indónesískar rúpíur. Fyrir 2001 voru hefðbundnir framvirkir samningar með IDR algengir utan Indónesíu. Yfirvöld í Indónesíu höfðu þá áhyggjur af spákaupmennskuárásum á gjaldmiðil sinn og bönnuðu lán og tilfærslur fjármagns frá innlendum bönkum til erlendra íbúa. Einnig voru afleiðuviðskipti tengd slíkum færslum bönnuð. Því var aðgangur að IDR nú orðinn takmarkaður og til að svara eftirspurn eftir gjaldeyrisvörnum og spákaupmennsku myndaðist NDF markaðurinn fyrir IDR (Ma o.fl. 2004). Á hinn bóginn leystist NDF markaðurinn fyrir Ástralíudal upp þegar fjármagnsmarkaðurinn í Ástralíu var ekki lengur háður miklum hömlum. Einnig geta innlend lög haft áhrif á stærð og virkni NDF aflandsmarkaða (Misra og Behera, 2007). NDF markaðurinn fyrir KRW hefur jafnan verið mjög stór og ein möguleg ástæða fyrir því er að innlendum bankastofnunum í Kóreu er heimilt að taka þátt á mörkuðunum, eins og nefnt var hér að framan. Það greiðir fyrir viðskiptum á þeim enda gerir það fjárfestum betur kleift að finna mótaðila í viðskiptum. Slíkt er t.d. ekki leyfilegt í Indlandi (Reserve Bank of India (RBI), 2013). Loks er áhugavert að skoða lönd þar sem einhvers konar fjármagnshöft voru við lýði en NDF markaðir mynduðust ekki með viðkomandi gjaldmiðla, þrátt fyrir eftirspurn eftir gjaldeyrisvörnum. Eftir kreppuna í Asíu var mikil virkni á NDF mörkuðum í mörgum asískum gjaldmiðlum. Undantekningar voru þó malasískt ringgit (MYR) og tælenskt bath (THB). NDF markaðir mynduðust ekki fyrir þessa gjaldmiðla þrátt fyrir höft. Misra og Behera telja að fastgengisstefna frá 1998 í Malasíu og skortur á viðmiðunargengi fyrir NDF samninga um ringgit hafi átt þátt í þessari þróun. Einnig var innlendum fjármálastofnunum í Malasíu bannað með lagasetningu að stunda hvers kyns framvirk viðskipti við erlenda aðila. Það hamlaði því að erlendir aðilar á NDF mörkuðum gætu varið stöður sínar með viðskiptum við innlendu bankana. Í Tælandi reyndu yfirvöld að koma í veg fyrir að erlendir aðilar tækju þátt á NDF mörkuðunum með óbeinum hótunum um meðferð þessara aðila í viðskiptum innanlands. Seinna þróuðust NDF markaðir bæði fyrir MYR og THB. Staðan á NDF mörkuðum fyrir THB er þó sífellt að breytast vegna tíðra lagabreytinga í Tælandi (HSBC, 2012). Af öllu þessu sést að NDF markaðir eru mjög mismunandi eftir gjaldmiðlum og það sama gildir um lagasetningar tengdar þeim. Til að kafa dýpra í eðli þessara markaða í einstaka löndum verða tvö lönd skoðuð nánar, Indland og Ástralía. Indland verður kannað vegna þess hve hlutfallslega mikið er til af gögnum um NDF markaðinn fyrir INR. Einnig er hann dæmigerður NDF aflandsmarkaður og sambærilegur mörgum öðrum slíkum mörkuðum. Loks er áhugavert að skoða áætlanir sem gerðar hafa verið um afnám hafta á Indlandi og bera þær saman við þær íslensku. Í kjölfarið verður fjallað um NDF markaðinn fyrir Ástralíudal, en hann var sérstakur að mörgu leyti. Hann er eitt skýrasta dæmið um NDF heimamarkað og auk þess er þróun hans yfir í hefðbundinn framvirkan gjaldeyrismarkað áhugaverð. 4 NDF markaður og fjármagnshöft tengd indverskri rúpíu Á Indlandi hafa lengi verið í gildi einhvers konar höft á vöru- eða fjármagnsviðskipti. Á níunda áratug síðustu aldar hófu Indverjar að auka frelsi í milliríkjaviðskiptum. Fyrst var frelsi vöruviðskipta milli landa aukið til muna en árið 1994 höfðu þeir náð virku frelsi þjóðhagsreikningsins (e. effective current account liberalization) í samræmi við staðla AGS. Hins vegar voru þeir ekki jafn fúsir til að afnema höft á fjármagnsviðskipti. Það var m.a. vegna þess að fræðimenn eru ekki sammála um hvort gott sé fyrir hagkerfi að afnema fjármagnshöft (Hutchison o.fl., 2012). Enn þann dag í dag eru fjármagnshöft við lýði á Indlandi en þó hefur frelsi í fjármagnsviðskiptum aukist mikið á síðustu tveimur áratugum. Stefna stjórnvalda hefur lengi verið að afnema fjármagnshöft og mun fullkomið frelsi fjármagnviðskipta líklega nást einhvern tíma í náinni framtíð. Vegna þess hve lengi fjármagnshöft hafa verið í gildi hefur myndast NDF markaður fyrir indverskar rúpíur. Hann er staðsettur utan Indlands og hefur vaxið töluvert á undanförnum áratug. 4.1 Þróun fjármagnshafta á Indlandi Hutchison o.fl. (2012) skoðuðu virkni fjármagnshaftanna á Indlandi eins og áður var nefnt. Þeir gerðu einnig grein fyrir þróun slíkra hafta á Indlandi frá 1998-2011 og bjuggu til nýjan mælikvarða á styrk fjármagnshafta í laglegum skilningi. Loks báru þeir saman hvort virkni haftanna í reynd hafi verið í samræmi við lagabreytingar um fjármagnsviðskipti. Áhugavert er að skoða nánar þessa greiningu á þróun haftanna og bera hana saman við þróun á Íslandi, eftir því sem við á. Rétt eins og á Íslandi hafa tvær skýrslur verið gefnar út á Indlandi varðandi áætlun um losun fjármagnshafta. Indversku skýrslurnar komu þó út með lengra millibili, sú fyrri var gerð árið 1997 en sú seinni 2006 (Hutchison o.fl., 2012). Þessar skýrslur eiga margt sameiginlegt með hinum íslensku. Í þeim öllum eru tilgreind viss skilyrði eða forsendur sem þyrftu að vera fyrir hendi í hagkerfinu til þess að unnt sé að gefa fjármagnshreyfingar frjálsar. Margar forsendurnar eru svipaðar í skýrslum beggja landa, en þær tengjast t.d. lágri verðbólgu, nægum gjaldeyrisforða og sterku fjármálakerfi. Í öllum skýrslunum er jafnframt lagt til að höftum verði aflétt jafnt og þétt, í skrefum. Munurinn á þeim er þó sá að í íslensku skýrslunum eru ekki settar fram neinar tímaáætlanir, andstætt þeim indversku. Í fyrri indversku skýrslunni var lagt til að fullu frelsi í fjármagnsflæði yrði náð árið 2000 en í þeirri seinni var lagt til að því yrði náð 2011 (RBI, 1997; RBI, 2006). Enn er fjármagnsflæði takmarkað með höftum á Indlandi og það sýnir að áætlanir um losun gjaldeyrishafta standast ekki alltaf. Höftin eru enn við lýði sextán árum eftir að fyrsta áætlunin var lögð fram. Þetta gæti verið ein ástæða þess að engin tímaáætlun hefur verið sett fram á Íslandi. Aðrir þættir stuðla einnig að því, m.a. að óljóst er hvenær forsendur haftaafnámsins og samningar við kröfuhafa verða fyrir hendi. Þó verður að hafa í huga að kreppan í Asíu árið 1997 og heimskreppan sem hófst 2008 hafa sett indversku áætlanirnar að einhverju leyti úr skorðum. Þetta torveldar samanburð á skýrslunum við þær íslensku. Þrátt fyrir að Indverjar séu ekki búnir að afnema öll fjármagnshöft eru þeir komnir langt á veg í því ferli, a.m.k. ef stuðst er við rannsóknir Hutchison o.fl. frá 2012. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að bæði lagalega og í reynd hafi frelsi fjármagnsflutninga aukist til muna á Indlandi á síðustu árum. Að vísu hafa aðrir mælikvarðar á lagalegum fjármagnshöftum ekki gefið sömu niðurstöður um Indland en höfundar rannsóknarinnar búa til nýjan mælikvarða. Þeir telja að mælikvarðar Chinn og Ito (2008) og Schindler (2009) nái ekki að mæla breytingar á reglugerðum og hversu víðtækar þær eru heldur aðeins hvort ákveðnar reglur í mjög víðum skilningi séu fyrir hendi. Því sýna mælingar á lagalegum höftum á Indlandi mjög litlar breytingar yfir tíma samkvæmt þessum stöðlum, andstætt hinum nýja mælikvarða. Einnig benda þeir á að hinir mælikvarðarnir nái ekki að greina muninn á höftum á innflæði og útflæði en það gerir þeirra kvarði. Raunveruleg virkni fjármagnshaftanna var mæld með því að kanna hversu auðvelt er að stunda högnunarviðskipti milli gjaldeyrismarkaðar á Indlandi og NDF markaðar fyrir indversku rúpíuna. Því auðveldara sem það er, þeim mun minni telst virkni fjármagnshaftanna vera. Þeir halda því fram að virkni fjármagnshafta á Indlandi hafi nánast verið engin frá 2009 til loka rannsóknartímabils þeirra árið 2011. Því eru höft nánast horfin á Indlandi, a.m.k. samkvæmt mælingum þeirra á þessu tveggja ára tímabili. Þeir skoðuðu jafnframt þróun á virkni haftanna yfir 14 ára tímabil. Virkni haftanna tók miklum breytingum á þessum tíma og flakkaði milli þess að hafa meiri hamlandi áhrif á innflæði, útflæði eða nánast engin áhrif. Á árunum 1999-2003 hömluðu höftin aðallega útflæði fjármagns en innflæði frá 2003-2005. Á u.þ.b. árstímabili frá ágúst 2005-2006 var virkni haftanna mjög lítil. Höftin höfðu aftur hamlandi áhrif á innflæði frekar en útflæði frá 2006-2008. Þá tók við stutt tímabil þar sem tengsl milli heima- og aflandsmarkaða Indlands nánast rofnuðu vegna erfiðleika og lausafjárvandræða á fjármálamörkuðum í heiminum. Því eru gögn frá þessu tímabili vart marktæk. Frá 2009 hafa svo höft haft mjög lítil hamlandi áhrif á fjármagnsflæði til og frá Indlandi samkvæmt rannsókninni. Þeir skoðuðu einnig lagalega þróun fjármagnshaftanna sem var í nokkru samræmi við raunvirkni þeirra, þó stundum með nokkurri töf. Mikið var um breytingar á haftaregluverkinu og var mjög mismunandi hvort þær tengdust innflæði, útflæði eða hvoru tveggja. Breytingarnar voru t.d. að heimila sérstökum flokki fjárfesta að ráðast í fleiri tegundir af fjárfestingum eða vörðuðu framkvæmd umsóknarferla. Langflestar breytingarnar tengdust höftum á innflæði fjármagns og þær voru flestar í átt til aukins frelsis. Í nokkrum tilvikum voru höftin þó styrkt miðað við áður. Mismunandi var eftir tímabilum hvort meiri breytingar voru gerðar á höftum á innflæði eða útflæði eins og raunvirkni haftanna sýnir. Hafa verður þó í huga að aðstæður á alþjóðafjármálamörkuðum og þjóðhagslegar stærðir á Indland hafa áhrif á vaxtamun eins og nefnt hefur verið. Þar með hafa þær einnig áhrif á mælingar á raunvirkni haftanna og því var ekki fullt samræmi milli lagalegrar og raunverulegrar þróunar haftanna. Einnig dregur það úr áreiðanleika þess að nota vaxtamun sem mælikvarða á virkni fjármagnshaftanna. Ef tekið er mið af rannsóknum Hutchison o.fl. hafa höft á Indlandi minnkað mikið í reynd á síðustu árum. Því má jafnvel búast við að fjármagnshöft verði afnumin á næstu árum, ef virkni þeirra er nú þegar eins lítil og raun ber vitni. Þá gæti farið svo að NDF markaður fyrir indversku rúpíuna hverfi. Aftur á móti gerir indverska ríkisstjórnin tíðar og oftast ófyrirsjáanlegar breytingar á regluverki sínu og því gætu höft allt eins verið aukin aftur ef svo ber undir. Auk þess er varhugavert að taka of mikið mark á þessari einu rannsókn. Mismunandi þróun hafta á útflæði og innflæði er athyglisverð á undanförnum árum á Indlandi. Í því tilviki er Ísland fábrugðið Indlandi því á Íslandi eru eingöngu við lýði höft á útflæði. 4.2 NDF markaðurinn fyrir indverskar rúpíur Markaðurinn fyrir framvirka gjaldeyrissamninga með indverskar rúpíur án afhendingar er staðsettur utan Indlands (aflandsmarkaður). Mestu viðskiptin með slíka samninga fara fram í Singapúr og Hong Kong, en einnig í Dubai, Bahrain og á fleiri stöðum. Því geta stjórnvöld á Indlandi ekki haft áhrif á reglur á þessum mörkuðum. Þau banna hins vegar innlendum fjármálastofnunum að taka þátt á þessum mörkuðum, eins og fram hefur komið hér áður, utan þess að þeim er heimilt að hafa sérstakar opnar stöður á markaðinum í tengslum við stýringu á gjaldeyrisjöfnuði sínum. Með þessari stöðutöku geta þær stundað högnunarviðskipti og jafnvel spákaupmennsku en í takmörkuðum mæli (Misra og Behera, 2007). Indversk stjórnvöld hafa aftur á móti fulla stjórn á aðgengi erlendra aðila að heimamörkuðum. Farið var yfir þróun á virkni og lagasetningum tengdum fjármagnshöftum í kaflanum hér á undan. Árið 2009 lýsti Guru aðgangi erlendra aðila og Indverja búsettra erlendis að indverskum gjaldeyrismörkuðum. Fyrir erlend fyrirtæki, stofnanir og Indverja búsetta erlendis er nokkuð góður aðgangur að indverskum mörkuðum (en þó eru ýmis ferli og umsóknir sem aðilar búsettir erlendis þurfa að ganga frá til að fá þennan aðgang). Þeir sem búa ekki á Indlandi og eru ekki með indverskan ríkisborgararétt hafa hins vegar nánast engan aðgang. Þó er seðlabankinn á Indlandi smátt og smátt að auka aðgang þessara erlendu aðila að indverskum mörkuðum. Höftin hafa tekið töluverðum breytingum á þeim árum sem NDF markaður fyrir INR hefur verið við lýði og vegna þess hefur eftirspurnin einnig breyst á markaðinum. Fyrst mátti rekja eftirspurnina til erlendra aðila sem vildu verja stöðu sína í indversku rúpíunni (vegna fjárfestinga eða viðskipta) fyrir breytingum á gengi. Eftir að höft minnkuðu og aðgangur þessara aðila að gjaldeyrisvörnum á heimamörkuðum jókst að einhverju leyti minnkaði hins vegar eftirspurn þeirra eftir NDF samningum. Eftirspurnin á NDF mörkuðunum nú er aðallega mynduð af spákaupmönnum og þeim sem stunda högnunarviðskipti (högnunaraðilum). Spákaupmennirnir búa ekki á Indlandi og vilja taka stöðu í indversku rúpíunni án þess að taka áhættu tengda innlendum aðstæðum á Indlandi og indversku hagkerfi (e. country risk). Högnunaraðilarnir hafa bæði aðgang að heimamörkuðum og NDF markaðinum fyrir INR og nýta sér það til högnunar ef ávöxtun á þessum mörkuðum er mjög ólík (Misra og Behera, 2007). Vegna reglnanna sem takmarka aðgang innlendra fjármálastofnanna að NDF markaðinum fyrir INR geta fjármálastofnanir ekki nýtt sér högnunartækifæri í stórum stíl. Innflutnings- og útflutningsaðilar hafa hins vegar fullan aðgang að báðum mörkuðum og geta því nýtt sér þessi tækifæri. Þeir hafa þó ekki burði til þess að stunda slík viðskipti á jafn hagkvæman hátt og fjármálastofnanir og geta því heldur ekki notfært sér högnunartækifæri nema upp að vissu marki. Þess vegna er viðvarandi ávöxtunarmunur milli heimamarkaða og NDF markaðarins fyrir INR á löngum tímabilum (Hutchison o.fl., 2012). Velta á markaðinum virðist hafa aukist töluvert frá 2001-2008. Samkvæmt könnunum Lehman Brothers, HSBC og Deutsche Bank á árunum 2001-2004 er dagleg velta NDF markaðarins fyrir INR frá 20-100 milljónir Bandaríkjadala á dag (tafla 2, bls. 21). Önnur könnun Deutsche bank frá 2008-09 gefur hins vegar til kynna að dagleg velta hafi þá verið 800 milljónir Bandaríkjadala. Jafnframt halda Misra og Behera fram að dagleg velta hafi verið 3.736 milljónir Bandaríkjadala á tímabili árið 2007. Enn og aftur ber þó að taka fram að mælingar á umfangi NDF markaða eru tiltölulega óáreiðanlegar vegna eðlis NDF samninga. Það kann að skýra þennan mikla mun á greiningunum að einhverju leyti. Velta á NDF markaðinum fyrir INR hefur samt sem áður líklega aukist mikið á tímabilinu 2004-2007 í takt við vöxt stundargengis- og framvirks markaðar á Indlandi. Behera (2011) telur þennan vöxt skýrast m.a. af miklu flæði fjármagns inn og út úr Indlandi og aukinni spákaupmennsku. Velta NDF markaðarins var hins vegar lítil miðað við veltu heimamarkaðanna árið 2007. Dagleg velta stundargengismarkaðar var 4,4 sinnum hærri en NDF markaðar og velta framvirks- og skiptamarkaðar gjaldeyris 5 var 4,1 sinnum hærri, miðað við tölur Misra og Behera. Um þróun á veltu NDF markaðarins frá 2008-2013 er erfitt að fullyrða, en viðskipti í Tókýó benda til þess að viðskipti með NDF samninga í INR hafi minnkað mikið vegna Skiptasamningar með gjaldeyri eru svipaðir og framvirkir gjaldeyrissamningar nema að því leyti að þeir eru yfirleitt til lengri tíma, jafnvel nokkurra ára, og kveða yfirleitt á um reglulegar greiðslur á samningstímanum en ekki aðeins á lokadegi. Einnig geta skiptasamningar verið töluvert flóknari en hefðbundnir framvirkir samningar að öðru leyti, t.d. kveðið á um greiðslu fastra eða breytilegra vaxta o.s.frv. fjármálakreppunnar en hafi nú aftur komist í fyrra horf (TFXMC, 2013). Viðskipti með NDF samninga um INR í Lundúnum hafa hins vegar verið í stöðugri aukningu frá 2008, en erfitt er að færa þá staðbundnu þróun yfir á aðra markaði (LFXJXC, 2013). Því hafa viðskipti á markaðinum að öllum líkindum minnkað í fjármálakreppunni 2008-2009 en eru nú orðin jafn mikil og ef til vill meiri en fyrir kreppu. Eins og áður hefur komið fram virðist NDF markaðurinn fyrir INR nú vera einn af stærstu NDF mörkuðum í heiminum en það var hann ekki fyrir tíu árum. 4.3 Verðbil og flökt á NDF markaði fyrir indverskar rúpíur Verðbil og flökt á indverskum gjaldeyrismörkuðum má sjá í töflu 5. Það eina nýja sem kemur fram hér er að flökt og verðbil á hefðbundnum framvirkum markaði (með afhendingu) eru minni en flökt og verðbil á NDF markaðinum fyrir INR. Minni verðbil á hefðbundna framvirka markaðinum eru líklega vegna þess að hann er stærri en NDF markaðurinn með indverskar rúpíur. Minna flökt gæti skýrst af afskiptum seðlabanka Indlands á heimamörkuðum eins og var áður nefnt varðandi stundargengismarkaðinn (Guru, 2009). Tafla 5. Verðbil og flökt (í prósentum) á gjaldeyrismörkuðum fyrir indverskar rúpíur frá 1. nóvember 2010 til 31. október 2013. Heimild: Bloomberg gagnaveitan og eigin útreikningar. Stundargengi 1 mán. 3 mán. 6 mán. 1 ár Meðalverðbil: 0,04 0,11 0,13 0,16 0,19 Hámarksverðbil: 0,80 1,15 1,19 3,34 1,98 Flökt: 10,41 10,85 11,05 11,05 11,13 Meðalverðbil: 0,04 0,07 0,07 0,08 0,08 Hámarksverðbil: 0,80 0,82 0,83 0,82 0,81 Flökt: 10,41 10,38 10,23 10,07 9,89 Hefðbundinn framvirkur markaður: NDF markaður: 4.4 Tengsl milli NDF markaðar og heimamarkaða Indlands Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á sambandinu milli heimagjaldeyrismarkaða Indlands og samsvarandi NDF aflandsmarkaðar. Mishra og Behera (2007) komust að því að frá 2004-2007 hafi upplýsingar flætt frá stundargengismarkaði og hefðbundnum framvirkum gjaldeyrismarkaði til NDF markaðarins fyrir INR og haft áhrif á ávöxtun NDF viðskipta. Þeir greindu flæðiáhrif meðalverðs og orsakasamband frá heimagjaldeyrismörkuðunum til NDF markaðarins en ekki í gagnstæða átt. Hins vegar voru fyrir hendi flæðiáhrif vegna flökts frá NDF markaði til beggja heimamarkaðanna. Behera (2009) skoðaði lengra tímabil, frá 2000-2009, og greindi einnig flæðiáhrif meðalverðs frá heimamörkuðum til NDF markaðarins á tímabilinu en ekki öfugt. Jafnframt voru fyrir hendi flæðiáhrif vegna flökts og skella frá NDF markaðinum til heimamarkaða og þau jukust eftir að viðskipti hófust með framtíðarsamninga (e. futures) með gjaldeyri á Indlandi árið 2008. Viðskipti með slíka samninga fara fram í kauphöllum og auðveldara er að fylgjast með upplýsingum um viðskipti með þá. Markaðir fyrir framtíðarsamninga eru gjarnan taldir betri á margan hátt en OTC markaðir því mótaðilaáhætta í samningunum er til að mynda takmörkuð af stofnuninni sem er milliliður í viðskiptunum (e. clearing house). Guru (2009) skoðaði einnig þetta samband á árunum 2007-2009. Hann kannaði orsakasamband (e. causality) og flæðiáhrif milli markaðanna. Gagnkvæmt orsakasamband ríkti milli beggja heimamarkaða og NDF markaðarins. Fyrir alla þrjá markaðina voru jafnframt flæðiáhrif meðalverðs og flökts til beggja hinna markaðanna. Það er ekki í samræmi við niðurstöðu Misra og Behera (2006) og Behera (2009). Þessi rannsókn bendir með öðrum orðum til þess að tengsl séu að aukast milli heimamarkaða og NDF markaðar, þ.e. að NDF markaðurinn hafi sífellt meiri áhrif á heimamarkaðina. Þetta er í samræmi við þær niðurstöður Hutchison o.fl. að á síðustu árum hafi högnunartækifæri milli heimamarkaða og NDF markaða og þar með tengsl milli markaðanna aukist mjög. Indverski seðlabankinn (RBI, 2013) kemst einnig að þeirri niðurstöðu að á árunum 2006-2013 hafi NDF markaður haft töluverð áhrif á heimamarkaði, sérstaklega á tímabilum veikingar indversku rúpíunnar. Því virðast atburðir á NDF markaði fyrir indversku rúpíuna hafa síaukin áhrif á heimamarkaði, í takt við minnkandi hömlur á fjármagnshreyfingar á Indlandi. 5 NDF markaður og fjármagnshöft í Ástralíu Markaður fyrir framvirka gjaldeyrissamninga án afhendingar myndaðist í Ástralíu um miðjan áttunda áratug 20. aldar. Hann myndaðist vegna fjármagnshafta í heimalandinu eins og raunin er nánast í öllum tilvikum með NDF markaði. Stunduð voru viðskipti með slíka samninga í um áratug áður en fjármagnshöft voru afnumin og þá minnkaðu viðskipti á markaðinum smátt og smátt. Undir lok níunda áratugarins var markaðurinn nánast horfinn en í staðinn hafði hefðbundinn framvirkur markaður með gjaldeyrissamninga vaxið til muna. 5.1 Saga hafta og gengisstefnu í Ástralíu Árið 1931 var tekin ákvörðun um að festa gengi Ástralíudals við breskt pund. Þetta var upphafið að fastgengistímabili sem stóð yfir í rúma hálfa öld. Mestan hluta tímabilsins var gengi fest við breska pundið og var því fyrirkomulagi viðhaldið eftir undirritun Bretton Woods samningsins árið 1944. Víðtæk fjármagnshöft höfðu verið tekin upp í stríðinu og viðhéldust allt þangað til fastgengisstefnan leið undir lok. Allar færslur og viðskipti með erlendan gjaldeyri voru bönnuð nema með leyfi ástralska seðlabankans. Þó voru margs konar færslur almennt heimilaðar t.d. þær sem tengdust vöruviðskiptum og innflæði erlends einkafjármagns. Mjög miklar hömlur voru á fjárfestingum Ástrala erlendis og lántöku erlendra aðila í Ástralíu. Á áttunda áratug síðustu aldar áttu sér stað miklar breytingar á regluverki í Ástralíu. Árið 1971 var gengi Ástralíudals ekki lengur fest við breskt pund heldur þess í stað við Bandaríkjadal. Það var gert vegna aukins vægis Bandaríkjadals í fjármagnsviðskiptum Ástrala og í heiminum öllum. Árið 1974 reið hins vegar niðursveifla yfir ástralska hagkerfið. Í kjölfarið var gengið fellt og fest við körfu af gjaldmiðlum. Hlutfall gjaldmiðla í körfunni var vegið eftir magni vöruviðskipta Ástrala í viðkomandi gjaldmiðli. Á þessum tíma voru erlendir fjárfestar smátt og smátt að auka umsvif sín á áströlskum mörkuðum. Árið 1976 var þessu fyrirkomulagi því breytt vegna þess að það var ekki talið nógu sveigjanlegt til þess að koma í veg fyrir þrýsting á gengið frá spákaupmönnum. Tekið var upp skríðandi fastgengi (e. crawling peg) sem var við lýði þangað til Ástralíudalur var látinn fljóta í desember árið 1983 (Debelle og Plumb, 2006). 1931: Gengi Ástralíudals fest við breska pundið. 1939: Seinni heimsstyrjöldin hefst. Víðtæk höft tekin upp í stríðinu. 1944: Bretton Woods samningurinn tekur gildi. 1971: Gengi Ástralíudals fest við Bandaríkjadal. 1973: Fyrsti samningurinn gerður á NDF markaðinum í Ástralíu 1974: Gengið fest við körfu af gjaldmiðlum. 1976: Skríðandi fastgengi tekið upp. 1983: Ástralíudalur settur á flot. Fjármagnshöft afnumin. 1987: Velta á NDF markaðinum nánast engin. Markar endalok hans. Mynd 7. Mikilvægir atburðir í sögu hafta og gengisstefnu Ástralíu. Þessum breytingum á gengisstefnu fylgdu einnig miklar breytingar á fjármagnshöftum á áttunda áratugnum. Flæði fjármagns til og frá Ástralíu var farið að hafa síaukin áhrif á ástralska hagkerfið. Áströlsk yfirvöld reyndu að sporna við þessum áhrifum með ýmsum breytingum á fjármagnshöftum. Árið 1972 var innflæði fjármagns t.d. meira en nokkurn tíma hafði þekkst í sögu Ástralíu og viðbrögð yfirvalda voru að herða fjármagnshöft á innflæði. Íbúum með lögheimili í Ástralíu og erlendum fyrirtækjum skráðum í Ástralíu var m.a. bannað að taka lán erlendis frá til skemmri tíma en tveggja ára. Seinna sama ár var takmörkun á erlenda lántöku hert enn frekar. Þessar breytingar höfðu umtalsverð áhrif á innflæði fjármagns sem minnkaði mikið í kjölfar þeirra. Þegar niðursveiflan reið yfir ástralska hagkerfið árið 1974 var innflæði fjármagns enn af skornum skammti. Yfirvöld minnkuðu því hömlurnar á innflæði á árunum 1974-75, en samt sem áður var nettóútflæði fjármagns árið 1976. Innflæði fjármagns jókst síðan smám saman og í byrjun áttunda áratugarins var það farið að hafa áhrif á sjálfstæða peningamálastefnu Ástrala. Ástralski seðlabankinn átti þá í erfiðleikum með að ná markmiðum sínum vegna mikils fjármagnsinnflæðis og vegna samþættingar ástralskra markaða og alþjóðamarkaða (Debelle og Plumb, 2006). Þann 9. desember 1983 lokuðu stjórnvöld fyrir gjaldeyrisviðskipti bankastofnana og funduðu um breytingar á gengis- og haftastefnu landsins. Klukkan sex sama dag tilkynntu þau að Ástralíudalurinn yrði settur á flot. Jafnframt voru fjármagnshöft afnumin. Þessar breytingar voru ekki gripnar úr lausu lofti heldur hafði umræða verið um slíkar breytingar á árunum á undan. Þessi stefna er enn við lýði í Ástralíu og hefur gengið vel þar þrátt fyrir byrjunarörðugleika (Debelle og Plumb, 2006). 5.2 NDF markaðurinn í Ástralíu Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var flökt vaxta og gengis lítið í Ástralíu. Gengið var mjög stöðugt vegna gengisfestingar við breska pundið. Því var lítil eftirspurn eftir vörnum gegn gjaldeyrisáhættu á þeim tíma. Á áttunda áratugnum jókst hinsvegar flökt vaxta og einnig gengis þegar Bretton Woods samstarfið var að líða undir lok og margir gjaldmiðlar voru látnir fljóta. Því varð gjaldeyrisáhætta meiri og eftirspurn eftir gjaldeyrisvörnum jókst verulega. Í upphafi áratugarins var þó ómögulegt að verja sig í Ástralíu fyrir gjaldeyrisáhættu vegna fjármagnsviðskipta. Þetta stafaði af regluverki ástralska seðlabankans. Framvirkir samningar voru aðeins leyfilegir í tengslum við vöruviðskipti og máttu í mesta lagi vera til sex mánaða. Árið 1974 voru einnig settar hömlur á tímasetningar á framvirkum viðskiptum. Gera þurfti framvirkan samning innan sjö daga frá því að viðskiptin sem sköpuðu gjaldeyrisáhættuna gengu í gegn (svokölluð sjö daga regla). Vegna þessara takmarkana á hefðbundnum framvirkum fjármagnsviðskiptum með gjaldeyri tóku innlendir markaðsaðilar málin í sínar hendur. Þeir hófu viðskipti með framvirka gjaldeyrissamninga án afhendingar sem voru gerðir upp í Ástralíudölum og fékk markaðurinn nafnið „varnarmarkaðurinn“ (e. hedge market). Markaðurinn var þróaður bæði af bönkum og öðrum fjármálastofnunum. Þar sem gert var upp í Ástralíudölum tókst að komast framhjá fjármagnshöftum í slíkum viðskiptum. Seðlabanki Ástralíu tók ekki þátt í að þróa varnarmarkaðinn en reyndi heldur ekki að takmarka viðskipti á honum. Reglubreytingar í byrjun áttunda áratugarins höfðu reyndar auðveldað myndun markaðarins, t.d. árið 1971 þegar bankar fengu heimild til að versla sjálfstætt með gjaldeyri án þess að gera það fyrir hönd seðlabankans. Einnig ýtti sjö daga reglan frá 1974 undir eftirspurn eftir frjálsari framvirkum fjármagnsmarkaði en var fyrir hendi í Ástralíu. Fyrsti NDF samningurinn var gerður um miðjan áttunda áratuginn og viðskipti með slíka samninga héldu áfram í Ástralíu í rúman áratug (Debelle og Plumb, 2006). Mikilvægt er að veita því athygli að varnarmarkaðurinn var heimamarkaður gerður upp í heimagjaldmiðli en flestir NDF markaðir eru aflandsmarkaðir þar sem viðskipti eru aðallega gerð upp í Bandaríkjadölum. Slíkur aflandsmarkaður myndaðist jafnframt með Ástralíudal en hann var minni en varnarmarkaðurinn. Þegar minnst hefur verið á heimamarkað hér að framan hefur eingöngu verið átt við hefðbundna framvirka markaði og stundargengismarkaði. Hins vegar geta NDF viðskipti vel átt sér stað á heimamarkaði eins og dæmið frá Ástralíu sýnir 6. Varnarmarkaðurinn í Ástralíu óx hratt á seinni hluta áttunda áratugarins. Í lok 1979 var staða NDF samninga á markaðinum um þrír milljarðar Ástralíudala (e. hedge contracts outstanding). Hún var lægri en staðan á hefðbundnum framvirkum gjaldeyrismarkaði sem var sjö milljarðar Ástralíudala. Samkvæmt ástralska seðlabankanum á þó hlutfall hefðbundinna framvirkra viðskipta að hafa minnkað á kostnað NDF viðskipta úr 60% niður í 20% (af öllum framvirkum viðskiptum) frá 1980-1983. Velta á erlendum NDF mörkuðum fyrir Ástralíudal var minni en áætluð árleg velta á innlenda markaðinum. Veltan var um 2-3 milljarðar Ástralíudala árlega í Norður-Ameríku. Eftir að fjármagnshöft voru afnumin og gengið sett á flot árið 1983 hélt varnarmarkaðurinn áfram að vaxa um stutta hríð. Framvirkir samningar í tengslum við fjármagnsviðskipti voru reyndar ekki heimilaðir fyrr en í júní 1984. Á árunum 1985 til 1987 dalaði velta á markaðinum mjög hratt. Veltan var nánast horfin um mitt ár 1987 sem markaði endalok hans (Debelle, Gyntelberg og Plumb, 2006). Tengsl varnarmarkaðarins og hefðbundinna heimamarkaða með gjaldeyri hafa lítið verið rannsökuð. Þó vissu stjórnvöld í Ástralíu af mögulegum áhrifum varnarmarkaðarins á stundargengismarkaðinn. Talið var að viðskipti á varnar Allur gangur er á hvort og þá hversu mikil NDF viðskipti eiga sér stað á heimamarkaði eins og t.d. má sjá í löndum Suður-Ameríku. Í Síle er hefðbundinn framvirkur gjaldeyrismarkaður (með afhendingu) virkastur en í Brasilíu er bæði algengt að stunda framvirk gjaldeyrisviðskipti með og án afhendingar. Því er NDF heimamarkaður í Brasilíu stærri en gengur og gerist á kostnað hefðbundins framvirks markaðar. Í Argentínu er langalgengast að stunda framvirk gjaldeyrisviðskipti án afhendingar innanlands (NDF heimamarkaður) og því eru hefðbundnir framvirkir gjaldeyrismarkaðir litlir (HSBC, 2012). markaðinum myndu ekki valda þrýstingi á stundargengismarkaðinn því engin bein tengsl væru milli fjármagnsflæðis á varnarmarkaðinum og stundargengismarkaðinum (enda var ekkert flæði erlends gjaldeyris á varnarmarkaðinum). Aftur á móti gætu viðhorfsbreytingar á öðrum markaðinum haft áhrif á hinn. Aðilar á NDF markaðinum gætu til dæmis búist við gengishækkun og þar með hækkað NDF verð. Það gæti leitt til þess að útflutningsaðilar og lántakendur vildu verja gjaldeyrisstöður sínar sem fyrst á stundargengismarkaðinum, sem myndi þrýsta á hækkun stundargengisins (Debelle, Gyntelberg og Plumb, 2006). Þrátt fyrir að varnarmarkaðurinn hafi sinnt eftirspurn eftir gjaldeyrisvörnum á tímabili fjármagnshafta var hann ekki talinn gallalaus. NDF markaðinn skorti dýpt og hann varð fyrir miklum áhrifum ef umfangsmikil viðskipti áttu sér stað (og það sama myndi líklega gilda um íslenskan NDF markað). Eitt af því sem stuðlaði að því voru þátttökutakmarkanir sem giltu gagnvart aðilum sem voru búsettir erlendis. Þegar velta á markaðinum tók að minnka um miðjan áttunda áratuginn jókst velta á hefðbundnum framvirkum gjaldeyrismarkaði til muna. Segja má að viðskipti á varnarmarkaðinum hafi færst yfir á hinn hefðbundna framvirka markað. Stækkun hins hefðbundna markaðar endurspeglaðist jafnframt í fjölgun miðlara með gjaldeyri. Árið 1984 var 39 stofnunum (öðrum en bönkum) gefið leyfi til miðlunar á gjaldeyrismarkaðinum en í lok 1987 voru þessar stofnanir orðnar 59. Debelle, Gyntelberg og Plumb (2006) báru saman ástralska varnarmarkaðinn við asíska NDF markaði. Mikilvægur mismunur er milli þessara markaða. Nefnt hefur verið að asísku markaðirnir eru aflandsmarkaðir, sem eru aðallega gerðir upp í Bandaríkjadölum, en ástralski varnarmarkaðurinn var heimamarkaður gerður upp í heimagjaldeyri. Alþjóðlegir bankar eru auk þess helstu aðilar á asísku mörkuðunum en innlendir bankar og fjármálastofnanir á ástralska markaðinum. Á sumum af asísku mörkuðunum eru innlendir aðilar þó einnig mikilvægir þátttakendur eins og á NDF markaðinum fyrir kóreskt won. Asísku markaðirnir og varnarmarkaðurinn eru þó áþekkir að mörgu leyti. Þeir mynduðust allir vegna fjármagnshafta sem eru af svipuðu tagi þrátt fyrir mismunandi útfærslur í löndunum. Uppbygging markaðanna er keimlík og stærsti hluti viðskipta fer fram milli sala (e. dealers) á mörkuðunum. Þó hafa miðlarar (e. brokers) einnig átt mikilvægan þátt í að leiða saman viðskiptaaðila markaðanna. Debelle, Gyntelberg og Plumb nefndu einnig þrjú atriði sem stjórnvöld í Asíu gætu lært af ástralska varnarmarkaðinum. Þetta gæti einnig hugsanlega átt við um Ísland ef uppi á pallborðinu er að opna slíkan markað á Íslandi. Í fyrsta lagi hjálpa NDF markaðir til við afnám fjármagnshafta með því að bjóða upp á gjaldeyrisvarnir í því millibilsástandi sem ríkir yfirleitt við afnám hafta. Í öðru lagi geta innviðir NDF markaðarins nýst fyrir hefðbundna framvirka markaði eftir afnám gjaldeyrishafta. Loks hljóta innlendir markaðsaðilar þjálfun og reynslu af framvirkum viðskiptum á NDF mörkuðum sem nýtast á hefðbundnum framvirkum mörkuðum eftir afnám fjármagnshafta. Þessi atriði eru að vísu ekki yfirfæranleg í heild sinni á asísku markaðina vegna þess að þar hafa innlendir markaðsaðilar oft takmarkaðan aðgang að NDF aflandsmörkuðunum. Fleira takmarkar lærdómsgildi þessara upplýsinga, t.d. að yfirleitt fara ekki mikil viðskipti fram með NDF samninga til lengri tíma en eins árs. 6 NDF markaður með íslenskar krónur Á Íslandi hafa fjármagnshöft verið fyrir hendi frá árinu 2008. Markaður með framvirka gjaldeyrissamninga án afhendingar hefur gjarnan myndast við slíkar aðstæður, oftar en ekki sem aflandsmarkaður. Seðlabanki Íslands getur haft mikil áhrif á hvort slíkur markaður myndist með íslensku krónuna á næstu árum. Ef áhugi og þörf er fyrir að efla gjaldeyrisvarnir fyrir fyrirtæki og fjárfesta eru nokkrir valkostir í stöðunni. Seðlabankinn gæti veitt innlendum fjármálastofnunum heimild til þess að eiga framvirk viðskipti við erlenda banka í tengslum við NDF markað með íslenskar krónur. Það myndi ýta undir myndun NDF aflandsmarkaðar, en slíkir markaðir eru oft háðir því að viðskiptavakar (alþjóðlegir bankar) geti varið viðskipti sín á markaðinum hjá bönkum í heimalandinu. Hluti af skýringunni á því að NDF markaður myndaðist ekki í Malasíu var að þetta skilyrði var ekki fyrir hendi. Viðskipti kringum NDF samninga með brasilískt real og kóreskt won eru einna mest í heiminum vegna þess að þar er þetta leyft. Þá væri einnig æskilegt að veita innflutnings- og útflutningsaðilum aðgang að markaðinum. Að öðrum kosti gæti Seðlabankinn opnað fyrir myndun NDF markaðar innanlands. Þá væri gert upp í krónum og markaðurinn yrði svipaður að gerð og ástralski varnarmarkaðurinn. Skoða þyrfti hvort eða hvaða erlendir aðilar hefðu aðgang að markaðinum. Loks væri hægt að opna hefðbundinn framvirkan markað með gjaldeyri, aðeins (eða að mestu leyti) fyrir innlenda aðila. Viðskipti með afleiðusamninga voru töluverð á Íslandi áður en fjármálakreppan skall á árið 2008. Afleiðuviðskiptin fóru t.d. fram í tengslum við hlutabréf, skuldabréf eða gjaldeyri. Til voru ýmsar tegundir af afleiðum svo sem framtíðarsamningar, framvirkir samningar, valréttarsamningar og skiptasamningar. Framvirkir gjaldeyrissamningar og gjaldmiðlaskiptasamningar voru meðal þeirra afleiðna sem veittu vörn fyrir gjaldeyrisáhættu. Rannsóknarnefnd Alþingis (2010) athugaði stærð afleiðumarkaða á Íslandi áður en kreppan skall á árið 2008. Meðal annars var umfang framvirkra gjaldeyrissamninga þriggja stærstu bankanna við viðskiptavini sína kannað. Staða slíkra samninga, þar sem skipst var á erlendum gjaldeyri og íslenskum krónum, var skoðuð í lok mánaðar frá janúar 2007 til september 2008. Heildarstaða viðskiptanna nam yfir tveimur milljörðum evra í öllum mánuðum utan tveggja. Mest varð hún 3,3 milljarðar evra í janúar 2008. Þegar hrun varð á íslenskum fjármálamörkuðum árið 2008 var ákveðið að banna öll afleiðuviðskipti með gjaldeyri þar sem íslenska krónan var hluti viðskiptanna. Að vísu er mögulegt að stunda afleiðuviðskipti með því að fá undanþáguheimild hjá Seðlabankanum. Árið 2012 var lagt til í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar að Seðlabankinn fengi að opna fyrir NDF markað með íslenskar krónur (Viðskiptablaðið, 2012), en ekkert varð úr því. 6.1 Kostir og gallar NDF markaða Kostir NDF markaða geta verið nokkrir út frá hagstjórnarsjónarmiði. Verð á NDF samningum geta gefið yfirvöldum gagnlegar upplýsingar sem ekki er hægt að fá frá gjaldeyrismörkuðum í höftum. Verðin geta endurspeglað væntingar markaðsaðila, upplýsingar um framboð og eftirspurn og fleira (Lipscomb, 2005). Til dæmis geta verð á NDF markaði endurspeglað undirliggjandi þrýsting til styrkingar eða veikingar gjaldmiðils. Ávöxtunarmunur milli hefðbundins framvirks gjaldeyrismarkaðar og NDF markaðar getur sagt til um virkni fjármagnshafta, sem er mikilvægt fyrir yfirvöld að fylgjast með. Mikill munur getur orsakast af væntingum markaðsaðila um breytingar á gengisfyrirkomulagi viðkomandi lands. Mjög lítill munur getur stafað af því að enginn undirliggjandi þrýstingur sé til hækkunar eða lækkunar gjaldmiðilsins. Til langs tíma stafar lítill ávöxtunarmunur hins vegar af takmarkaðri virkni haftanna. Eins og kom fram í síðasta kafla geta NDF markaðir einnig verið gagnlegir sem eins konar undirstaða fyrir afleiðumarkaði eftir losun hafta. Þá geta innviðir þeirra og reynsla þátttakenda á markaðinum nýst á mörkuðum eftir haftaafnám. Sömuleiðis geta viðskipti á NDF mörkuðunum ýtt undir magn og seljanleika á hefðbundnum mörkuðum þegar velta á NDF mörkuðum dalar. Því henta NDF markaðir einstaklega vel til að tryggja hnökralaus umskipti frá haftaumhverfi án afleiðumarkaða yfir í frjálsan, opinn markað. Kostirnir eru ýmsir fyrir fjárfesta og fyrirtæki. Upplýsingagildi NDF markaða er mikið fyrir þessa aðila rétt eins og fyrir yfirvöld. Innlend fyrirtæki geta náð meiri hagkvæmni og stöðugleika í rekstri með notkun NDF samninga. Þeir gætu nýst innflutnings- og útflutningsaðilum, lífeyrissjóðum, bönkum og öðrum fjármálastofnunum sem vörn gegn gengissveiflum. Þá gætu þessi fyrirtæki varið sig fyrir sveiflum á útgjöldum og öllum þeim öngum rekstrarins sem tengjast erlendum gjaldeyri beint eða óbeint. Vörn gegn gjaldeyrisáhættu getur verið mjög mikilvæg fyrir fjárhagsáætlanir fyrirtækja og til að minnka óvissu í rekstri þeirra. Fyrir hrun nýttu mjög mörg íslensk fyrirtæki sér sambærilegar varnir og það endurspeglar gagn þessara samninga fyrir rekstur fyrirtækja. Auk þess gætu erlendir fjárfestar notfært sér NDF samninga sem vörn fyrir stöðu þeirra í íslenskum krónum. Þetta gæti hugsanlega leitt til aukinnar beinnar erlendar fjárfestingar, eða a.m.k. aukinna umsvifa erlendra fjárfesta í íslensku hagkerfi og þar með meiri seljanleika á mörkuðum. Þó eru nokkur vandkvæði við notkun NDF samninga til gjaldeyrisvarna, sér í lagi fyrir erlenda langtímafjárfesta. Í fyrsta lagi eru viðskipti með NDF samninga oftast til eins árs eða skemur. Því er seljanleiki lítill fyrir lengri samninga og þar með eru varnir fyrir langtímafjárfestingar oftast af skornum skammti. Í öðru lagi veita NDF samningarnir vörn gegn sveiflum á gengi en ekki gegn landsáhættu (e. country risk). Sú áhætta felst t.d. í því að gjaldeyrishöft verði hert í landinu og fjárfestingar erlendra aðila verði læstar þar inni. NDF samningar gagnast ekki gegn slíkum breytingum á aðstæðum og veita því fjárfestum ekki fullkomna vörn. Í þriðja lagi getur sú staða komið upp að ekki hafi verið gefið út stundargengi fyrir þann lokadag sem samningarnir miðast við þegar til uppgjörs kemur. Í Argentínu árið 2001 var t.d. hætt að gefa út gengi á stundargengismarkaðinum í þrjár vikur vegna erfiðra aðstæðna á markaði. Í slíkum tilvikum er óljóst á hvaða gengi samningsaðilar eiga að gera upp og þegar svo fer þurfa þeir að semja um nýtt gengi sín á milli. Þar fyrir utan getur stundargengi sem uppgjörið er byggt á gefið ranga mynd af því gengi sem fjárfestar geta fengið í raunverulegum viðskiptum á stundargengismarkaði. Þetta á við á krepputímabilum þegar stundargengismarkaðir eru mjög grunnir og viðskipti geta hreyft umtalsvert við genginu. Þegar erlendur fjárfestir reynir að leysa fjárfestingu sína úr landi á uppgjörsstundargenginu gætu viðskipti hans lækkað gengið mikið. Þá myndi fjárfestirinn tapa og því væri heildarfjárfesting hans í landinu ekki varin. Jafnvel gæti svo farið að hann fengi ekki neinn erlendan gjaldeyri ef stundargengismarkaðurinn þurrkaðist upp (Lipscomb, 2005). Raunar gildir þetta jafnframt um hefðbundna framvirka gjaldeyrissamninga á krepputímabilum. Allt grefur þetta undan gildi NDF samninga sem gjaldeyrisvarna. Þetta á einkum við um beinar erlendar fjárfestingar, því slíkir fjárfestar vilja varnir til lengri tíma sem veita einnig vörn gegn landsáhættu. Auk þess geta NDF markaðir verið erfiðir við að eiga fyrir yfirvöld. Eins og komið hefur fram geta tengsl milli NDF aflandsmarkaða og hefðbundinna heimamarkaða í höftum verið umtalsverð. Breytingar á verði á NDF mörkuðum geta stuðlað að breytingum á verði á heimamörkuðum við vissar aðstæður. Þrýstingur til styrkingar eða veikingar gengisins getur auk þess flætt frá NDF mörkuðum til heimamarkaða óbeint t.d. með væntingum. Aukin áhrif NDF markaða á heimamarkaði valda því að erfiðara er fyrir seðlabanka að halda uppi sjálfstæðri stefnu á borð við peningamála- eða gengisstefnu. Hins vegar er þetta einungis slæmt ef yfirvöld vilja viðhalda haftastefnu sinni og einangrun frá alþjóðahagkerfi. Loks geta upplýsingar frá NDF mörkuðum aukið líkurnar á spákaupmennskuárás á stundargengismarkaðinn (Guru, 2009). Því er mjög mikilvægt fyrir yfirvöld að fylgjast með viðskiptum og leitni á NDF mörkuðum. Þrátt fyrir áðurnefnda galla á NDF viðskiptum geta yfirvöld haft mikið um þá að segja. Til dæmis geta seðlabankar séð um að gefa daglega út áreiðanlegt stundargengi sem endurspeglar viðskipti á stundargengismarkaðinum hverju sinni. Þá kæmi ekki upp eins erfið staða á NDF markaði og raunin varð í Argentínu árið 2001. Yfirvöld geta einnig séð til þess að loka fyrir högnunarviðskipti milli NDF markaða og heimamarkaða og aðrar glufur á höftunum. Það myndi minnka áhrif NDF markaða á heimamarkaði til muna og gæfi því seðlabönkum meira svigrúm til að ná markmiðum sínum heima fyrir. Áhrif NDF markaðanna á heimamarkaði myndu þó aukast smátt og smátt eftir því sem höftum yrði aflétt. Það er hins vegar í fullu samræmi við aukin áhrif alþjóðlegra afla á hagkerfi eftir afnám hafta. 6.2 Er æskilegt að opna NDF markað með íslensku krónuna? Í framhaldi af þessari umfjöllun um NDF markaði er áhugavert að velta fyrir sér hvort slíkur markaður gæti verið gæfuspor fyrir íslenskt hagkerfi. Ef vilji er fyrir hendi til að heimila framvirkar gjaldeyrisvarnir er þrennt í stöðunni eins og áður sagði. Hægt er að koma á takmörkuðum framvirkum gjaldeyrismarkaði með afhendingu (eða skiptamarkaði), NDF aflandsmarkaði eða NDF heimamarkaði. Ólíklegt er að framvirkum markaði með afhendingu verði komið á í nánustu framtíð á Íslandi. Slíkir markaðir hafa mikil áhrif á stundargengismarkaði og gætu því gert Seðlabankanum erfitt fyrir að ná markmiðum sínum. Auk þess eru framvirkir markaðir ekki til sérstakrar umfjöllunar í þessum texta en líklegra er að þeim verði komið á eftir afnám hafta. Annar möguleiki í stöðunni er að ýta undir myndun NDF aflandsmarkaðar. Seðlabankinn gæti heimilað innlendum bönkum að stunda framvirk viðskipti við alþjóðlega banka í tengslum við slíkan markað en það gæti auðveldað myndun hans. Einnig gæti hann leyft innlendum aðilum, svo sem lífeyrissjóðum, innflutnings- og útflutningsaðilum, að taka þátt á markaðinum. Með því mætti ýta undir seljanleika á honum og auka gagn hans fyrir innlenda aðila. Hins vegar væri NDF aflandsmarkaður líklega ekki besti kosturinn fyrir gjaldeyrisvarnir á Íslandi. Þótt Seðlabankinn geti ýtt undir myndun hans yrði markaðurinn staðsettur í viðskiptamiðstöðvum erlendis þar sem Seðlabankinn hefur lítil völd. Seðlabankinn gæti ekki sett reglur fyrir markaðinn og reynt t.d. að koma í veg fyrir spákaupmennsku. Áhrifa aflandsmarkaðarins gæti einnig gætt á stundargengismarkaðinn heima fyrir og þau væru sérstaklega mikil ef innlendum bankastofnunum væri leyft að taka þátt á markaðinum (Lipscomb, 2005). |
Icelandair tók í formlega notkun í dag fyrstu nýju Boeing 737 MAX flugvélina. Ber hún nafnið Jökulsárlón og er fyrsta af þeim 16 sem flugfélagið tekur í notkun á næstu þremur árum.
Flugfélagið Icelandair tók í morgun formlega í notkun fyrstu, nýju Boeing 737 MAX flugvélina af þeim 16 sem félagið hefur fest kaup á.
Flogið var stutt hringflug yfir Ísland og lent á Reykjavíkurflugvélli þar sem starfsfólki Icelandair var boðið að kynna sér vélina, sem hefur fengið heitið Jökulsárlón.
Nýju vélar Icelandair verða notaðar í almennu áætlunarflugi flugfélagsins til áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. MAX-8 og MAX-9 taka 160 til 178 farþega og bætast þær við Boeing-757 og Boeing-767 flota félagsins á næstu þremur árum.
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair einkennir mikil rekstrarhagkvæmni þessa tilteknu. Eldsneytisnotkun hennar er þá umtalsvert minni en á eldri gerðum og viðhaldskostnaður sömuleiðis.
Þær eiga einnig að vera hljóðlátari en fyrri gerðir. Síðustu vikurnar hafa sérfræðingar í tækniþjónustu Icelandair útbúið vélina í anda félagsins, sett í hana sæti, afþreyingarkerfi og annað sem farþegar Icelandair eiga að venjast.
Fyrstu farþegaflugin á MAX vélunum frá Boeing voru í maí á síðasta ári og er Icelandair meðal fyrstu flugfélaga til að taka þær í notkun. Um er að ræða nýja útgáfu af Boeing 737, sem eru mest seldu farþegaflugvélar allra tíma. MAX útgáfan hefur bætt um betur og engin flugvél í sögu Boeing hefur selst jafn hratt. Nú liggja fyrir pantanir í rúmlega 4.300 MAX þotur frá flugfélögum í 92 löndum.
„Þetta eru ánægjuleg tímamót, upphafið að endurnýjun flugflota Icelandair sem er stórt og spennandi verkefni. Þessi flugvélagerð hentar leiðakerfi okkar einstaklega vel, gefur okkur tækifæri til að byggja upp nýja markaði og styrkja þá sem fyrir eru,“ er haft eftir Björgólfi Jóhannsyni, forstjóra Icelandair, í fréttapósti frá flugfélaginu. |
„Ég ætla að svara honum um hádegið,“ segir María Lilja Þrastardóttir, sem ritaði harðort bréf til Davíð Þórs Jónssonar, pistlahöfundar Fréttablaðsins, út af grein sem hann skrifaði í blaðið um helgina.
Þar gagnrýndi hann aðferðir Stóru systur gegn vændiskaupendum. María Lilja svaraði honum á heimsíðunni Innihald.is og skrifaði meðal annars:
„Ég rak augun í pistil þinn Davíð Þór um aðgerðir neðanjarðarhreyfingarinnar Stóru systur og hugsaði með mér, ónei hér er enn ein manneskjan sem misskilur gjörsamlega vændi og afleiðingar þess, enda kannski ekki svo skrýtið komandi frá gömlum ritstjóra klámbæklings, þar sem líkamar kvenna voru hlutgerðir og settir upp sem söluvara.“
Davíð tekur því óstinnt upp að vera sakaður um að hafa ritstýrt klámbæklingi og bendir Maríu Lilju á það á heimasíðu sinni að lögreglan hafi tvívegis rannsakað það einmitt hvort um klámbækling hefði verið að ræða, þegar hann ritstýrði Bleikt og blátt. Í bæði skiptin var rannsókn hætt.
Davíð hótar því að lögsækja Maríu Lilju fyrir meiðyrði dragi hún ekki orð sín til baka og biðji afsökunar.
Þegar Vísir hafði samband við Maríu sagðist hún ekki vilja tjá sig efnislega um málið þar sem hún ætlar sér að birta pistil um það í hádeginu á sama vefsvæði og fyrri pistillinn birtist. Hún vildi ekkert um það segja hvort hún ætlaði að biðjast afsökunar á orðum sínum heldur.
Spurð hvað henni fyndist um gagnrýnina á framtak stóru systranna, svaraði María Lilja því til að það sem hún hefði lesið væri ekki mjög málefnalegt. „Orðræðan og athyglin hefur farið á vitlausan stað. Hún snýst ekki um vændi eins og hún ætti að gera, heldur aðferðina,“ segir María Lilja.
Aðspurð hvort það séu ekki eðlileg viðbrögð þegar umdeild meðöl eru notuð, svarar María Lilja: „Það virðist vera þannig.“
Hún segir gagnrýnina þó réttmæta, svo lengi sem hún sé málefnaleg.
Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að lesa pistil Davíðs hér. Svo má lesa svar Maríu hérog grein Davíðs, þar sem hann hótar lögsókn, hér. |
Ólafur Arnarson útilokar ekki að snúa aftur á vettvang Neytendasamtakanna. Það muni þó ekki gerast með núverandi stjórn. Ólafur sagði af sér sem formaður í gær.
„Ég hef áhuga á neytendamálum og framgangur samtakanna er mér keppikefli. Það var ómögulegt að ná þeim markmiðum og þeirri sýn sem ég var kosinn til á þingi samtakanna í þessu óheilindaumhverfi. Í þessari ákvörðun felst ekki yfirlýsing um að ég muni aldrei framar koma nálægt samtökunum.“
Miklar deilur hafa verið innan stjórnar samtakanna undanfarið eftir að meirihluti stjórnar lýsti yfir vantrausti á Ólaf. Í yfirlýsingum stjórnarmanna kom fram að það hefði verið gert þar sem Ólafur hefði stofnað til óhóflegra útgjalda án aðkomu stjórnar.
Fráfarandi formaður stendur fast á því að yfirlýsingar annarra stjórnarmanna séu ósannindi. Í öllum tilfellum hafi stjórninni verið kunnugt um þá samninga sem til stóð að gera. Fundargerðir og skjöl sýni svart á hvítu að stjórnin hafi falið varaformanni að skrifa undir ráðningarsamning við formann og fjármálastjóra að ganga frá því að útvega bifreið fyrir hann.
„Það getur verið að stjórnarmönnum þyki þeir hafa gert mistök, þeir ekki kynnt sér málið eða finnist ég hafa haft áhrif á aðra stjórnarmenn og þeir lagst á sveif með mínum tillögum,“ segir Ólafur. „Þar er hins vegar ekki við mig að sakast. Stjórnarmenn verða sjálfir að bera ábyrgð á sínum ákvörðunum. “
Hann bætir við að í tilfelli samningsins um Neytandann hafi ekki verið staðið formlega rétt að samkomulaginu.
„Ég viðurkenni að það voru mistök af minni hálfu. Hins vegar var annar stjórnarmaður við hlið mér í öllu ferlinu og öllum í stjórn var fullkunnugt um að til stæði að skrifa undir samninginn og að hann væri ekki ókeypis, alveg sama hvað fólk reynir að hlaupa frá ákvörðunum sínum.“
Í liðinni viku lagði Ólafur fram tillögu á stjórnarfundi um að öll stjórnin viki sæti og sett yrði þriggja manna neyðarstjórn yfir samtökin þar til ný stjórn yrði kosin á þingi samtakanna. Sú tillaga var felld.
„Ég taldi þetta lausn sem menn ættu að geta fallist á væri þeim annt um samtökin og tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að þau gætu unnið sig úr þessari stöðu. Ég vonaði að menn myndu sjá út fyrir sjálfa sig, ég var tilbúinn til þess,“ segir Ólafur. Ég get bara dregið þá ályktun að menn séu ekki tilbúnir til að mæta félagsmönnum.“
Undanfarin ár hefur rekstur Neytendasamtakanna verið í mínus. Velta samtakanna hefur verið um sjötíu milljónir á ári en útgjöld verið örfáum milljónum meiri. Ólafur segir að vandi þeirra felist ekki í útgjöldunum heldur tekjuöflun þeirra.
„Undanfarin ár hafa samtökin nánast verið á líknardeild. Mér var alveg ljóst þegar ég tók við formennsku að það voru tveir möguleikar í stöðunni, annaðhvort að gerast göngumaður í líkfylgd eða spyrna við fæti og blása eldi í þær glæður sem þarna voru,“ segir Ólafur.
Nánast frá upphafi virðast hafa verið samskiptaörðugleikar innan stjórnarinnar. Deilurnar snerust um skuldbindingar sem stjórnin sakar formann um að hafa gert í óþökk og án vitundar annarra stjórnarmanna. Um er að ræða samning um smáforritið Neytandann, kjör Ólafs og bílaleigubíl handa honum. Í öllum tilfellum segir Ólafur að stjórnarmenn og fjármálastjóri hafi verið meðvitaðir um hvað stóð til hverju sinni.
Að mati Ólafs var lítill vilji til að sætta ólík sjónarmið og reiknar hann með að fullar sættir hafi náðst með því að hann stigi til hliðar. Markmiðið hafi ávallt verið að koma honum frá og skipti engu máli hver afdrif samtakanna verði við þann gjörning.
„Það voru tveir frambjóðendur, auk mín, sem ætluðu sér formannsstólinn. Innan stjórnarinnar má síðan finna stjórnarmeðlimi sem ætluðu sér að starfa með sínum formanni en ekki mér,“ segir Ólafur. „Auðvitað á það ekki að skipta máli þó menn lendi ekki í stjórninni sem þeir ætluðu sér. Menn eiga að geta tekið höndum saman og horft fram hjá ágreiningi þótt þeir hafi verið í sitthvoru liðinu í kosningum.“
Eftir að erjurnar komu upp á yfirborðið hafa þær að stórum hluta farið fram í fjölmiðlum. Ummæli hafa fallið úr báðum áttum en Ólafur segir að sum ummæli og yfirlýsingar stjórnarinnar jaðri við að vera brot á meiðyrðalöggjöf. Ekki þurfi ríka sköpunargáfu til að lesa það út úr yfirlýsingum stjórnarinnar að hann hafi dregið sér fé úr sjóðum samtakanna. Það sé hins vegar af og frá og staðfesti varaformaður samtakanna í viðtali á dögunum að ekki væri grunur um slíkt.
„Faðir minn [Örn Clausen hæstaréttarlögmaður] sagði eitt sinn að ef einhver hefur uppi meiðyrði við þig þá gleymist það á viku. Ef þú ferð í mál vegna þess þá vinnurðu mögulega málið en allir muna ummælin svo árum skiptir,“ segir Ólafur. „Ég ætla ekki að standa í því að láta hart mæta hörðu. Ég ætla ekki að fara að elta einstaklinga sem hafa gert á hlut minn og Neytendasamtökin hafa ekkert gert mér.“
Ólafur óttast mjög um framtíð samtakanna. Uppsagnarfrestur starfsmanna á skrifstofu þeirra renni út í lok september og þá taki óvissan við. Sökum ákvörðunar meirihluta stjórnarinnar um að segja upp ráðningarsamningum starfsfólks sé óvíst, og í raun vafasamt, hvort þjónustusamningur þeirra við ríkið verði endurnýjaður. Hann óttast að núverandi stjórn sé að sólunda því stórkostlega tækifæri sem felst í appinu Neytandanum, sem gæti orðið kjölfesta Neytendasamtakanna til langrar framtíðar.
„Ég barðist mjög gegn því að ráðningarsamningum starfsfólks yrði sagt upp. Ég á bágt með að sjá hvernig stjórnvöld geta samið um áframhaldandi samstarf við samtök sem geta ekki sýnt með óyggjandi hætti að starfsemi þeirra haldi áfram. Þótt núverandi samningur sé ekki meirihluti tekna samtakanna er ljóst að ef hann skortir verður fótunum kippt undan Neytendasamtökunum,“ segir Ólafur. |
Isavia hyggst ekki taka ákvörðun um úthlutun rútustæða til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) á Keflavíkurflugvelli vegna strætóferða fyrr en nýtt umferðarskipulag Leifsstöðvar liggur fyrir.
Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn Fréttablaðsins, en stjórn sambandsins sendi formlega beiðni til fyrirtækisins í lok maí þar sem hún fór fram á að fá stæði við brottfarar- og komuinnganga flugstöðvarinnar. Þar eru nú fyrirtækin Kynnisferðir ehf. og Iceland Excursions Allrahanda ehf. með rútustæði á grunni samninga við Isavia sem renna út í árslok.
Að sögn Berglindar Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra SSS, hafa óformlegar viðræður staðið yfir við Isavia frá febrúar 2012 um málið, en sambandið ber ábyrgð á skipulagi almenningssamgangna á Suðurnesjum.
Hún segir mikla hagsmuni undir í málinu fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum og er stjórnin sannfærð um að aðsókn í strætó muni aukast ef vagnar geti stoppað við inngang.
„Við vorum með einkaleyfi á akstri frá Flugstöðinni til Reykjavíkur en þáverandi innanríkisráðherra felldi þann hluta einhliða út úr samningum á sínum tíma. Þessi leið var hryggjarstykki samningsins sem gerði okkur kleift að reka kerfið sjálfbært,“ segir Berglind og bendir á að uppsafnaður halli á rekstri þess um síðustu áramót hafi numið 74 milljónum króna. Hún segir að þessi upphæð muni falla á sveitarfélögin.
„Ef ekkert verður að gert gætum við neyðst til að endurskoða alla þjónustuna. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Suðurnesjamenn.“
Ástandið óboðlegt
Ólafur Kr. Ólafsson, varaformaður SSS, segir ástandið óboðlegt, en núverandi stoppistöð er við langtímabílastæði flugstöðvarinnar nokkra tugi metra frá flugstöðinni.
„Frá sjónarhóli sveitarfélaganna snýst þetta um að aðgangur að almenningssamgöngum sé boðlegur á flugvallarsvæðinu og standi jafnfætis öðrum samgöngum sem boðið er upp á,“ segir Ólafur sem bindur vonir við að vilji SSS nái fram að ganga.
„Um leið og við náum að efla tekjustreymið þá náum við að efla almenningssamgöngukerfið. Þá minnkar það sem sveitarfélögin þurfa að borga með almenningssamgöngunum og þar með aukast líkurnar á að við getum bætt þjónustuna við íbúana,“ segir hann.
Isavia hyggst efna til valferlis um rútustæði við flugstöðina á næstunni, en stefnt er að því að ljúka ferlinu eftir áramót. Nákvæm tímasetning verður ákveðin þegar hönnun á nýju umferðarskipulagi við flugstöðina liggur fyrir. |
Það ræðst síðar í dag hvort lögregla krefst gæsluvarðhalds yfir barnaníðingnum Karli Vigni Þorsteinssyni. Skýrslutöku yfir honum er nú lokið í bili að sögn yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.
Karl Vignir játaði að hafa misnotað allt að 50 börn í gegnum tíðina á upptökum sem Kastljós sýndi í fyrrakvöld. Hann var í kjölfarið kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu og beðinn um að gefa nánari upplýsingar um brotin og brotaþola.
Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu: Karl Vignir hefur verið í skýrslutöku í gær og var í skýrslutöku fram á kvöld og síðan aftur í morgun. Skýrslutökum er lokið í bili og það er svona verið að íhuga næstu skref hér hjá okkur.
Segir Björgvin Björgvinsson yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu. Karl Vignir gisti fangageymslur í nótt og hann nú enn hjá lögreglu.
Björgvin Björgvinsson: Já hann er, hann er hjá okkur.
Hugrún Halldórsdóttir: Og verður hann það áfram?
Björgvin Björgvinsson: Ja hann verður áfram þangað til að ákvörðun er tekin hvort að verður lögð fram gæsluvarðhaldskrafa sem að er þá síðar í dag. Ég get svo sem ekki mikið sagt meira um það.
Björgvin bætir við að ekki sé hægt að gefa nánari upplýsingar um skýrslutökuna að svo stöddu. Ítarlega var fjallað um Karl Vigni í DV árið 2007 eftir að hann játaði kynferðisbrot gegn þremur drengjum á vistheimilinu að Kumbaravogi. Fjöldi greina var birtur, bæði með viðtölum við fórnarlömb og aðstandendur þeirra, en þar sem brotin voru fyrnd gat lögregla ekkert aðhafst. Á upptökunum í Kastljósi játaði hann að hafa brotið gegn börnum á síðustu árum, eftir 2007, en það ár var lögunum breytt þannig að alvarlegustu kynferðisbrotin gegn börnum fyrnast ekki. Síminn stoppaði varla hjá Stígamótum í gærdag í kjölfar umfjöllunar Kastljóss. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að sama hafi verið upp á teningnum í gærkvöldi og morgun en einnig lögðu allmargir inn skilaboð á símsvara samtakanna í nótt. Fólk hefur leitað til Stígamóta vegna ofbeldis sem það segir Karl hafa beitt sig en einnig hafa aðrir leitað sér hjálpar vegna ofbeldis sem það hefur verið beitt af öðrum. |
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, telur aðalráðgjafa sinn, Dominic Cummings, ekki hafa átt neinna kosta völ þegar hann ferðaðist 400 kílómetra í útgöngubanninu í byrjun mars. „Hann hagaði sér hvívetna á ábyrgan og löglegan hátt,“ sagði Johnson á blaðamannafundi í dag og bætti við að ferðlagið hafi í raun veirð ,,óhjákvæmilegt".
Fylgdi innsæi sínu
Það vakti víða mikla gagnrýni þegar upp komst að Cummings hafði, ásamt eiginkonu sinni og barni, lagt í langferðalag á meðan útgöngubann var í gildi í Bretlandi. Þá þótti það vera til marks um ósvífni að hjónin höfðu farið af stað í slíkt ferðalag eftir að þau fóru að sýna einkenni COVID-19 sjúkdómsins.
Cummings útskýrði að ferðalagið hafi verið nauðsynlegt til að tryggja að barn þeirra hjóna hlyti umönnun ef foreldrarnir veiktust alvarlega. Johnson var ráðgjafa sínum hjartanlega sammála og ítrekaði að Cummings hafi fylgt innsæi sínu sem faðir.
Sjá einnig
Cummings sama hvað fólki finnst um ferðalög hans í ferðabanninu
Brot gegn lögum
Fulltrúar í stjórnarandstöðunnar voru ekki á sama máli og hafa einhverjir kallað eftir brottrekstri ráðgjafans. Það gangi ekki að eitt gildi fyrir almenning en annað fyrir Cummings.
„Reglur um útgöngubann voru mjög skýrar; ef grunur liggur á um að þú eða einhver á þínu heimili sé með COVID-19 skal samstundis grípa til sjálfseinangrunar og forðast það að yfirgefa heimilið,“ sagði einn talsmaður verkalýðsflokksins.
Enginn brottrekstur í kortunum
Johnson var fljótur að afskrifa alla mögulega á brottrekstri ráðgjafa síns og sagði að ekki stæði til að endurskoða stöðu Cummings sem ráðgjafa hans. Cummings hafi fylgt reglum um sóttkví og hugsað um velferð barns síns.
Breskir fjölmiðlar minntu forsætisráðherrann á fyrirmæli landlæknis Breta frá því í mars þar sem brýnt var fyrir foreldrum sem gætu ekki reitt sig á aðstoð fjölskyldunnar að leita til sveitarfélags síns. |
Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, lýsti því yfir í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, að hún sé alfarið andsnúin öllum innflutningi á kjöti á þeim forsendum að allt slíkt sé ávísun á heilsubrest þjóðarinnar.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, athugasemdakerfi Vísis og Facebook logaði í kjölfarið, ogFinnur Árnason, forstjóri Haga, sem hefur fagnað viðbrögðum stjórnvalda í tengslum við hugsanlega komu verslunarkeðjunnar Costco, þá er snúa að frjálsari reglum er varða innflutning, furðar sig á ummælum Sigrúnar, telur slíka afstöðu heyra fortíðinni til.
„Ummælin eru stefna stjórnvalda í fortíð, þar sem hún segir mjög skýrt að neytendur eigi ekki að hafa valið. Við höfum talað gegn þeirri stefnu og teljum eðlilegt að neytendur fái að velja. Ég held að mikilvægt að hafa í huga að við eigum frábærar matvörur, en svo er einnig um önnur lönd. Og eðlilegt er að neytendur fái að velja hvað þeir vilja,“ segir Finnur.
En, ummæli þingflokksformanns þess flokks sem nú ræður í forsætisráðuneytinu, gefa vart tilefni til mikillar bjartsýni um breytingar í þessum efnum?
„Nei, en það sem er breytt er að viðskiptavinir og neytendur hafa fengið sig fullsadda af þessari stefnu sem hefur verið við lýði. Og ég er bjartsýnn á það, mjög bjartsýnn, á að það styttist mjög í það að teknar verði ákvarðanir neytendum til heilla.“ |
Ríkisstjórn Donald Trump ætla að slíta Eldflaugasáttmála á milli Bandaríkjanna og Rússlands á morgun. Sáttmálinn kallast Intermediate-Range Nuclear Treaty (INF) og hefur hann verið við lýði frá tímum kalda stríðsins. Sáttmálinn felur í sér bann við framleiðslu og notkun meðaldrægra (500 til 5000 kílómetrar) eldflauga sem borið geta kjarnorkuvopn og skotið er frá jörðinni.
Sáttmálinn nær ekki yfir eldflaugar skotið er frá skipum, kafbátum eða flugvélum.
Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa lengi sagt Rússa brjóta gegn sáttmálanum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti ákvörðunina í dag og sagði brot Rússa á sáttmálanum ógna öryggi milljóna í Evrópu og Bandaríkjunum.
Hann sagði Bandaríkin hafa veitt Rússum nægan tíma til að breyta hegðun sinni og fara eftir sáttmálanum á nýjan leik. Það hefðu yfirvöld Rússlands ekki gert.
CNN vitnar í yfirlýsingu frá Trump þar sem hann segir Bandaríkin hafa fylgt skilyrðum sáttmálans í rúm 30 ár. Það yrði þó ekki lengur á meðan Rússar gerðu það ekki.
„Við getum ekki verið eina þjóð heimsins sem er bundin af þessum sáttmála eða öðrum,“ sagði Trump.
Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir segjast styðja ákvörðun Bandaríkjanna að fullu því Rússar hafi neitað að fylgja sáttmálanum.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsti yfir stuðningi við ákvörðun Bandaríkjanna í tísti í dag.
Ríkisstjórn Vladimir Pútín, forseta Rússlands, segist saklaus og hefur sömuleiðis sakað Bandaríkjamenn um að brjóta gegn sáttmálanum. Pútín vísaði í eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna í Rúmeníu í fyrra og sagði auðvelt að breyta því svo hægt væri að skjóta meðaldrægum eldflaugum með því.
Þá sagði hann sömuleiðis að Rússar myndu bregðast við ef Bandaríkin kæmu kjarnorkuvopnum á meðaldrægum eldflaugum fyrir í Evrópu og kjarnorkuvopnum Rússlands yrði miðað á þau ríki sem hýstu þau vopn.
Embættismenn í Evrópu og sérfræðingar telja mögulegt að upplausn sáttmálans muni leiða til nýs vopnakapphlaups á milli Bandaríkjanna og Rússlands.
Bæði Bandaríkin og Rússlands hafa þó gagnrýnt INF-sáttmálann á undanförnum árum vegna þess að aðrar þjóðir, og þá sérstaklega Kína, séu ekki aðilar að honum. Kínverjum hafi verið frjálst að þróa og framleiða meðaldrægar flaugar að vild.
Þá hafa Kínverjar komið slíkum eldflaugum fyrir í Asíu og Suður-Kínahafi. Eins og er hafa Bandaríkin ekki burði til að sporna gegn þeim eldflaugum vegna INF-sáttmálans.
Trump hefur sagt að hann vilji gera nýjan sáttmála og þá á milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. Hann hefur sömuleiðis gefið í skyn að hann væri alls ekki hræddur við nýtt vopnakapphlaup. |
Leyfilegt hámarksmagn vínanda í blóði ökumanns verður lækkað úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill samkvæmt nýju frumvarpi til umferðarlaga og er kveðið á um bann við að afhenda eða selja ökumanni eldsneyti sé hann undir áhrifum áfengis eða ávana- eða fíkniefna.
Margar breytingar verða á gildandi umferðarlögum verði nýtt frumvarp þess efnis samþykkt og miða ákvæði hinna nýju laga að því að herða reglur og tryggja skýrari ákvæði. Breytingarnar eru rökstuddar í greinargerð og er þar vísað til mannlegs tjóns sem verður af umferðarslysum, ásamt því að 1-5% af þjóðarframleiðslu glatist vegna slíkra slysa.
Gjöld hækka
Heimilt verður að láta eiganda ökutækis sæta refsiábyrgð ef tekin er mynd af ökutæki hans í hraðamyndavél þó svo að ekki sé hægt að sýna fram á að eigandinn hafi verið undir stýri. Þetta gæti gert það að verkum að bílaleigur myndu bera ábyrgð á þeim sektum sem verða við brot leigjanda.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir við Fréttablaðið í dag að hann telji ekki eðlilegt að bílaleigur sitji uppi með þennan kostnað þar sem óljóst er hvort hægt sé að innhemta hann af leigutaka.
Samkvæmt frumvarpinu hækka nokkur göld svo sem hámarkssekt fyrir umferðarlagabrot sem hækkar úr 300 þúsund krónum í 500 þúsund krónur. Þá munu bifreiðaeigendur sem hafa gleði af einkamerkjum sjá fram á 100% hækkun á gjaldi fyrir einkamerki, úr 25 þúsund krónum í 50 þúsund krónur.
Heimilt að takmarka umferð vegna mengunar
Ýmsar breytingar á umferðarlögum eru svipaðar gildandi reglum, en frumvarpið lögfestir margar reglur svo sem hjálmskyldu hjólreiðarmanna yngri en 15 ára.
Ný umhverfisákvæði eru í frumvarpinu. Meðal þeirra er bann við að óhreinka veg og náttúru með því að fleygja út úr ökutæki eða skilja eftir sorp á eða við veg. Þá verður stjórnvöldum heimilt að takmarka umferð þegar mengun telst yfir viðmiðunarmörkum.
Frumvarpið hefur verið birt á samráðsgátt stjórnvalda og er hægt að senda inn umsagnir um frumvarpið til 10. ágúst.
Frétt: mbl.is
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir |
Juan Mata, miðjumaður Manchester United, segist vera tilbúinn að taka á sig launalækkun ef stuðlað yrði að því að fótboltinn yrði ekki jafn mikil viðskipti og hann er orðinn í dag.
Spænski landsliðsmaðurinn sat fyrir svörum í spænska fréttaþættinum Salvados þar sem hann sagðist finna til með stuðningsmönnum vegna gráðugra eigenda fótboltafélaga út um allan heim.
„Ég skil alveg hvað stuðningsmennirnir eru að vitna til. Þegar kemur að viðskiptahlið fótboltans virðast eigendur liðanna skipta meira máli en stuðningsmennirnir,“ segir Mata.
„Þetta er ekki eins og í gamla daga þegar fjölmiðlarnir voru ekki svona stór hluti af leiknum og ekki jafn margir aðilar komu að liðunum. Ég hef ekki gaman að viðskiptahlið fótboltans. Ég elska leikinn. Ég elska að æfa og keppa.“
„Ég myndi glaður taka á mig launalækkun ef það myndi þýða að fótboltinn yrði ekki jafnmikil viðskipti. Við fáum vel borgað og stundum finnst manni ekki mikill munur á tölunni x og x sinnum þrír,“ segir Mata.
Spánverjinn viðurkennir að hann og fleiri kollegar hans fái greiddar ævintýralegar upphæðir fyrir að spila fótbolta. Átján ára gamall fékk hann tólf milljónir króna á ári fyrir að spila með varaliði Real Madrid.
„Umbunin í fótboltanum er mikil á þessu stigi. Það er eins og við búum í vernduðu umhverfi miðað við restina af þjóðfélaginu. Við fáum fáránlega mikið borgað. Það er í raun óskiljanlegt,“ segir Mata sem er talinn fá 140.000 pund í vikulaun í dag eða 25 milljónir króna.
„Miðað við fótboltaheiminn í dag er ég að fá eðlileg laun en miðað við hin 99,9 prósentin af Spánverjum og restina af heiminum fæ ég fáránlega mikið borgað.“
„Ég bý í kúlu. Vinir mínir eru þeir sem lifa raunverulega lífinu. Þeir þurftu að leita sér að vinnu, fara á atvinnuleysisbætur og jafnvel flytja frá Spáni. Það er eðlilegt líf í dag. Mitt líf sem fótboltamaður er ekki eðlilegt,“ segir Juan Mata. |
Nú standa yfir framkvæmdir á vegum Faxaflóahafna sf við ýmis verkefni við grjótröðun og frágang hafnarkanta á Slippasvæðinu, frágangur á undirstöðum fyrir göngubrautir við sjó og bygging á útivistar- og setpöllum við Grandagarð 8.
Fjallað er um málið á vefsíðu Faxaflóahafna. Þar segir að síðastliðið sumar óskuðu Faxaflóahafnir sf eftir tilboðum í þetta verk og í framhaldi af því var gengið til samninga við lægstbjóðanda, Ísar ehf um verkið, en tilboð hans var 69,7 % af kostnaðaráætlun. Höfnin lagði aftur á móti til verks allt timbur sem er harðviður.
Verktakinn hóf síðan verkið síðla sumars og þessa dagana eru ýmsir verkáfangar að taka á sig mynd. Pallasmíði við Grandagarð 8 er að ljúka, grjótröðun á landköntum í gangi og samhliða lokið niðurrekstri á undirstöðustaurum fyrir göngubrautir sem byggðar verða þarna síðar. Þessum áfanga framkvæmda líkur síðan í desember.
Við verklok þessara framkvæmda má segja að nokkrar áhugaverðustu lóðir til úthlutunar og uppbyggingar hér í Reykjavík séu nú að verða tilbúnar. Unnið hefur verið að framkvæmdum við frágang á þessum lóðum nokkuð jafnt og þétt á árunum 2007- 09 og lokið er efnisskiptum, landfyllingum, landmótun og gatnagerð.
Við upphaf framkvæmda var ákveðið að áfangaskipta framkvæmdum á Slippasvæðinu og fyrst yrði vesturhluti svæðis undirbúinn fyrir uppbyggingu á nýrri byggð, en ekki hreyft við austurhluta svæðis og upptökumannvirkjum fyrr en síðar. |
Egypsk móðir biður dómsmálaráðherra um að sýna börnum sínum miskunn. Fjölskyldunni verður að óbreyttu vísað úr landi á miðvikudag, en hún var send í Covid-próf í dag til að undirbúa brottför.
Þessi sex manna egypska fjölskylda hefur dvalið hér á landi í tvö ár og berst nú fyrir því að fá pólitískt hæli. Fjölskyldufaðirinn hafði tekið þátt í pólitísku starfi í Egyptalandi gegn ríkjandi stjórnvöldum. Foreldrarnir óttast að þeir verði handteknir við komuna til Egyptalands og börnin tekin af þeim. Verður þeim að óbreyttu vísað úr landi á miðvikudag. Stoðdeild ríkislögreglustjóra sótti fjölskylduna á Ásbrú og flutti hana til Reykjavíkur þar sem hún var skimuð fyrir Covid. Er það liður í undirbúningi fyrir brottför. Forsætisráðherra sagði í gær að hann væri sammála þeim sjónarmiðum að skoða ætti heildar dvalartíma umsækjenda á Íslandi en ekki málsmeðferðartíma þegar ákvarðanir um brottvísanir eru teknar. Dómsmálaráðherra hefur sagt að reglugerðarbreyting komi ekki til greina fyrir fjölskylduna. Fjölskyldumóðirin grátbiður dómsmálaráðherra um að sýna börnunum miskunn.
Doaa Mohamed Eldeib: Ég er að tala til þín, fyrir hönd barna minna, sem fara á götuna ef þetta verður að veruleika. Ég bið ykkur að yfirgefa mig ekki.
Börnin óttast mjög að fara til Egyptalands.
Rewida Ibrahim Kedr, dóttir hjónanna: Ég er hrædd um að löggan geri eitthvað við pabba eða mömmu. Ég er mjög hrædd um það.
Abdalla Ibrahim Khedr: í Egyptalandi vantar fólki að borða og vantar hús. Við viljum ekki fara til Egyptalands. Ég bið ykkir, við viljum ekki fara til Egyptalands. |
Forstjóri Samherja segir að fyrirtækið hafi engar upplýsingar um af hverju Seðlabankinn kærði það til sérstaks saksóknara. Hugsanlega hafi verið gerð mistök í gjaldeyrisviðskiptum en engin kerfisbundin lögbrot hafi átt sér stað.
Seðlabankinn kærði Samherja til sérstaks saksóknara í gær vegna gruns um brot gegn gjaldeyrislögum. Kæran kemur í kjölfar húsleitar hjá Samherja fyrir rúmu ári og rannsóknar á gögnum er varða fiskútflutning frá árinu 2008. Forstjóri Samherja hefur ítrekað sagt að rannsókn Seðlabankans sé tilhæfulaus, þá hafi fyrirtækinu aldrei gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum að.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja: Sala á fiski er ekkert einfalt mál, hún er nú síbreytileg, verð breytist á milli daga og mánaða og sumt er gert í langtímaviðskiptum og annað er gert á verði dagsins í dag.
Þá hafði fyrirtækið, eins og fleiri, glímt við lausafjárskort vegna hrunsins árið 2009 og þá hafi stundum orðið að haga sölumálum eftir því.
Ágúst Ólafsson: Er kannski hugsanlega einhvers konar mistök þarna á ferðinni sem að líta grunsamlega út?
Þorsteinn Már Baldvinsson: Ekki sem að við sjáum en verða að, eins og þú segir, kannski að skoða þetta tímabil með það fyrir augum að þarna misstu menn aðgang að bankakerfinu og við vorum að berjast í að reka fyrirtæki og halda því gangandi. Við erum alveg klárir á því að það hafi ekki verið nein kerfisbundin brot hér í gangi hjá Samherja, það er örugglega hægt að finna einhver mistök eins og í öllum öðrum fyrirtækjum, en ég hef trú á því og það er að segja ég er sannfærður um það að við verðum ekki dæmd út af þessum ákærum Seðlabanka Íslands. |
Faðir hins indónesíska Reynhard Sinaga, mesta raðnauðgarans í breskri réttarsögu, segir refsingu sonar síns vera í fullu samræmi við afbrotin.
Reynhard Sinaga var á dögunum dæmdur í lífstíðarfangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um 159 kynferðisbrot gegn 48 karlmönnum. Í dómnum segir að Sinaga þurfi að sitja í fangelsi í þrjátíu ár hið minnsta, auk þess að fjölmiðlum hafi verið gert heimilt að nafngreina hinn dæmda.
Hinn 36 ára Reynhard Sinaga stundaði doktorsnám í Bretlandi og sat hann fyrir fórnarlömbum sínum fyrir utan skemmtistaði í Manchester. Byrlaði hann mönnunum ólyfjan og fór með þá heim til sín þar sem hann braut kynferðislega á fórnarlömbunum á meðan þau voru án meðvitundar.
Kom fram að að Reynhard Sinaga hafi haft dálæti á því að brjóta á gagnkynhneigðum karlmönnum og virðist sem að hann hafi tekið upp mörg ef ekki öll brotin sem hann var sakfelldur fyrir.
Refsingin í samræmi við glæpina
Saibun Sinaga, faðir Reynhard ræddi við BBC um dóminn þar sem hann sagði fjölskylduna sætta sig við dóminn. „Refsing hans er í samræmi við glæpina. Ég vil ekki ræða málið frekar.“
Félagar Sinaga frá háskólaárum hans í Indónesíu hafa lýst honum sem litríkum og vinsælum námsmanni. „Hann var mjög félagslyndur, vingjarnlegur, auðvelt var að umfangast hann og gaman að vinna að verkefnum með,“ segir ein vinkona hans sem vill þó ekki láta nafn síns getið í samtali við BBC. Hún segist hafa misst samband við Sinaga þegar hann fluttist til Bretlands árið 2007.
Varð ástfanginn af Manchester
Sinaga á á sínum tíma hafa sagt við fjölskyldu sína að hann hafi orðið ástfanginn af Bretlandi og að hann vilji búa þar til æviloka.
Í frétt BBC segir að Sinaga hafi búið í grennd við hinsegin hverfi Manchester, á Princess-stræti, og á hann að hafa sagt að í borginni hafi hann getað lifað opið með kynhneigð sína, nokkuð sem hafi verið ómögulegt í heimalandinu.
Sinaga er elstur fjögurra systkina og fæddist hann inn í kristna fjölskyldu úr Batak-ættbálknum á eyjunni Súmötru. Faðir hans er auðmaður sem á fjölda útibúa indónesísks einkabanka.
Hundruð klukkustunda af myndefni
Reynhard Sinaga var handtekinn í júnímánuði 2017 þegar eitt fórnarlamba hans komst til meðvitundar í miðri árás og hringdi á lögreglu. Við húsleit fann lögregla hundruð klukkustunda af myndefni á síma Sinaga þar sem sjá mátti hann fremja brotin.
Breskir fjölmiðlar hafa eftir lögreglu að hana gruni að Sinaga hafi brotið af sér yfir tíu ára tímabil og telji fórnarlömbin mögulega hafa verið mun fleiri en þau 48 sem vitað er um. Var Sinaga þannig aðeins sakfelldur fyrir brot sem áttu sér stað á árunum 2015 til 2017. |
Þingmaður Samfylkingarinnar í þjóðaröryggisráði hefur áhyggjur af því að þingið fái ekki nægan tíma til að fjalla um söluna á Mílu vegna starfa undirbúningskjörbréfanefndar. Frestur til að stöðva söluna rennur út eftir mánuð
Samningar voru kláraðir við fjárfestingafélagið Ardian France seinni part síðasta mánaðar.
Þjóðaröryggisráð hefur átt nokkra fundi um söluna en Míla sér um rekstur og á stærstan hluta ljósleiðarakerfis Íslands.
Þingkona Samfylkingarinnar segir ljóst hve mikilvæg starfsemi fyrirtækisins sé fyrir almannahag og óttast að netöryggi Íslendinga verði háð geðþótta erlends fjárfestingafélags.
„Það væri fullkomlega óeðlilegt og ég leyfi mér að segja glapræði að ætla að ganga frá þessari sölu án þess að Alþingi Íslendinga fái að fjalla um skilyrðin,“ segir Oddný G. Harðardóttir, sem á sæti í þjóðaröryggisráði.
Þeim skilyrðum verði hugsanlega að fylgja lagasetningar og þingið þurfi því góðan tíma.
Gangi ekki að ríkisstjórnin yppi bara öxlum
Ráðherra hefur heimild til að stöðva söluna allt að átta vikum frá því að samningar voru gerðir. Sá frestur rennur út 17. desember.
En störf undirbúningskjörbréfanefndar hafa gengið mun hægar en margir höfðu vonast eftir.
Nefndin lauk gagnaöflun sinni síðasta föstudag og hóf þá í fyrsta skipti að ræða málið efnislega af alvöru. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru nokkuð skiptar skoðanir meðal nefndarmanna um lausnir á málinu en haldið verður áfram að reyna að finna sameiginlega leið á lokuðum fundi nefndarinnar í dag.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sagt að þeir muni ekki kynna nýjan stjórnarsáttmála fyrr en nefndin hefur lokið sínum störfum.
„Mér finnst það ekki ganga að ríkisstjórn Íslands yppi bara öxlum og segi: „Við ráðum ekki við það að það séu einhver vandræði þarna í Norðvesturkjördæmi.“ Og láti söluna ganga þegjandi og hljóðlaust í gegn,“ segir Oddný.
Tvær vikur versti kostur í stöðunni
En þing verður að koma saman innan við 10 vikum frá kosningum en sá frestur rennur út 4. desember.
Þá hefði það tvær vikur til að fjalla um söluna á Mílu. Væri það nóg?
„Ég held að það sé afskaplega knappur tími og það er einmitt það sem ég óttast. Að það verði sett einhver skilyrði á borð fyrir framan okkur Alþingismenn og við okkur verði sagt: „Þið verðið að samþykkja þetta því annars fer salan athugasemdalaust í gegn“,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. |
Korkur: romantik
Titill: hjálp!
Höf.: Batguy
Dags.: 21. apríl 2007 14:55:24
Skoðað: 603
ég er hrifinn af 1 stelpu en ég veit ekkert hvort hún sé hrifin af mér og ef hún genfur ekki upp hjá mér semsagt ég byrja ekki með henni þá er ég hræddur
um að önnur stelpa sé hrifinn af mér held ég.
en fyrsta daginn í bekknum mínum (það var splittað upp gamla bekknum mínum) þá kom 1 þeirra og spurði mig hvort ég væri hrifinn af hinni ég sagði hinni svo kom hin og spurði mig það sama og þá sgði ég að ég væri hrifinn af henni og svo komu báðar og spurðu hvort ég væri hrifnari af og ég auðvita sagði að ég væri hrifnari af þessari sem ég hafi alltaf sagts vera hrifnari af og svo undann farið hafa vinkonur hennar sem ég sagðist vera minna hrifnari af komið til mín og sagt mér að hún sé hrifinn af mér og svo um daginn í tíma spurði hún mig hvort ég væri hrifinn af henni eða ekki en önnur vinkona hennar sat hliðinn á henni og hló smá svo ég spurði hvort þetta átti að vera e-ð grín hjá þeim (og vonaðist eftir neii)og hún agði að þetta skipti eingu.
en ég hef samt alltaf verið hrifnari af sem ég sagðist vera hrifinn af í fyrsta en mér langar að bjóða henni út eða e-ð áður en ég verð of seinn svo ég er ráðavilltur,feiminn og veit ekki hvernig ég á að bjóða enhverri stelpu út á stefnumót getur einhver plz hjálpað mér
Bætt við 21. apríl 2007 - 16:58
ok einginn er að skilja etta svo ég set þett upp í skiljanlegra form og kalla stelpurnar 1 og 2.
einn dag kom 1 og spurði mig hvort ég væri hrifinn af 2 og ég sagði nei.
svo kom 2 og spurði hvort ég væri hrifinn af 1 og ég sagði já.
svo komu báðar og spurðu hvort ég væri hrifnari af og ég sagði 1
svo hafa stelpur sagt að 2 væri hrifinn af mér en ég er auðvita hrifinn af 1.
2 spir mig í tíma hvort ég væri hrifinn af henni(2)eða ekki og ég spurði hvort þetta væri djók(af því að vinkona hennar sat hliðinn á henni hlæjandi)og hún sagði bara nevermind.
og nú veit ég ekkert hvað ég á að gera
---
Svör
---
Höf.: RonBurgundy
Dags.: 21. apríl 2007 15:30:06
Atkvæði: 0
Hvað í andskotanum ertu að reyna að koma útúr þér?
Ef þú vilt fá hjálp, ættiru aðeins að byrja að vanda þig þegar þú ert að skrifa kork.
Kannski byrja á punktum, stórum stöfum og enter takkanum?
Ég skildi þetta þannig að þú ert hrifinn af stelpu, en ef að þú byrjar ekki með henni, er önnur stelpa sem er hrifin af þér.
Og þær spurðu þig báðar hvort þú værir hrifinn af þeim, í sitthvoru lagi, en svo komu þær báðar og spurðu þig á sama tíma, og þú sagðist vera hrifnari af þessari sem þú talaðir um fyrst?
Og svo á hún sem þú ert minna hrifinn af vinkonur sem eru að segja þér að hún sé hrifin af þér?
Og hún sem þú ert minna hrifinn af spurði þig í tíma, með vinkonu við hliðina á sér, hvort þú værir hrifinn af henni, og þá hló vinkonan, og þú spurðir hvort þetta væri grín (sem þú vonaðir að þetta væri ekki), en þá sagði hún að þetta skipti ekki máli?
Fyrir mér hljómar þetta eins og einhver mjög handahófskennd saga frá einhverjum 13 ára krakka í “ástarvandamálum”?
---
|
Álaborg (danska: "Aalborg") er fjórða stærsta borgin í Danmörku (á eftir Kaupmannahöfn, Árósum og Óðinsvéum) með rúmlega 115.908 íbúa (2019). Hún stendur við Limafjörð á Norður-Jótlandi og var mikilvæg hafnarborg á miðöldum og síðar iðnaðarborg. Elsta landnám nær aftur til ársins 700. Staðsetning borgarinnar við Limafjörðinn gerði hana afar mikilvæga hafnarborg á miðöldum og iðnaðarborg þar á eftir. Í dag er borgin í miklum umbreytingum í að fara frá iðnaðarborg yfir í þekkingarborg. Einn af aðal drifkröftum þessarra breytinga er Álaborgarháskóli, sem var stofnaður árið 1974 og hefur notið vaxandi vinsælda ár frá ári.
Saga.
Álaborg á rætur sínar að rekja aftur um 1000 ár. Borgin var upprunalega nýtt sem verslunarstaður, vegna staðsetningar hennar við Limafjörðinn. Á miðöldunum blómstraði Álaborg og varð ein af stærstu borgum danmerkur. Velmegunin jókst enn fremur árið 1516, þegar Álaborg var veitt einkasala á síld. Síldarveiðarnar tengdu Álaborg við Austur strönd Englands, í gegnum Norðursjó, í menningarskiptum og samkeppni í verslun.
Álaborg hlaut bæjarréttindi árið 1342 og nær biskupsdæmið aftur til ársins 1554.
Álaborgar háskóli var stofnaður árið 1974.
Iðnaður.
Í dag er Álaborg enn þá þekkt fyrir mikin iðnað og viðskipti. Álaborg er þekkt fyrir sements framleiðslu sína sem fer fram í verksmiðjum Aalborg Portland. Framleiðsla á áfenginu Álaborgar ákavíti fer fram í Álaborg en áfengi drykkurinn telur 17 mismunandi tegundir.
Karneval.
Hið árlega karneval í Álaborg fer venjulega fram síðustu helgina í maí. Karnevalinu er skipt upp í þrjá hluta, barna karneval, hljómsveitar karneval og svo karnevalið sjálft.
Um það bil 100,000 manns heimsækja Álaborg meðan á karnevalinu stendur. Barna karnevalið er tileinkað börnum með skemmtunum og fleira tilheyrandi. Á föstudeginum keppast hljómsveitir á sviði um það hvaða hljómsveit mun verða aðal hljómsveit karnevalsins yfir helgina. Á laugardeginum fer karnevalið sjálft fram og á þeim degi iðar miðbærinn af mannfólki. Venjulega er ákveðið þema á hverju ári og mæta gestir á karnevalið í búningum samkvæmt völdu þema. Árið 2007 voru grímubúningar þema hátíðarinnar en árið áður var erótískt þema. Karnevalinu lýkur á laugardagskvöldi með tilheyrandi flugeldasýningu.
Tivoli Karolinelund.
Karolinelund er skemmtigarður nálægt miðbæ Álaborgar. Skemmtigarðurinn er staðsettur á svæði sem áður var æfingarsvæði hermanna.
Frá 1946 hefur Karolinelund verið í eigu Lind fjölskyldunnar. Fyrst bræðrunum Volmer og Carl Lind, sem stofnuðu skemmtigarðinn og síðar Franck Bo Lind, sem seldi skemmtigarðinn til Torben Pedersen, en hann á fleiri skemmtigarði norðan við kaupmannahöfn.
Garðurinn var seldur fljótlega til bæjarfélag Álaborgar og í dag er skemmtigarðurinn auglýstur sem tómstundagarður fyrir borgara og ferðamenn, ásamt að bjóða upp á matsölustaði, afþreyingu og skemmtitæki.
Í árabil bar skemmtigarðurinn nafnið Tivoliland og var markaðssett sem yndislegasta svæði í danmörku. Þó hefur nafnið Karolinelund fest sig við svæðið og þegar Torben Pedersen keypti garðinn árið 2005, breytti hann nafninu í Tivoli Karolinelund. Í dag heitir svæðið þó einungis Karolinelund.
Upphaflega stafaðist Karolinelund með C. Carolinelund er nefnt eftir prinsessu Caroline (1793 - 1881), dóttir Friðriks 6. og Marie frá Hessen. Caroline prinsessa giftist Ferdinand krónprins árið 1829. Hún var mjög vinsæl og mikil virðing var borin fyrir henni innan dönsku herdeildarinnar. Árið 1824 færði bæjarstjórn Álaborgar yfirmönnum hersins svæðið að gjöf, sem útivistarsvæði fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Með árunum þróaðist þó útivistarsvæðið í vinsælan áfangastað fyrir alla bæjarbúa og frá árinu 1946 hefur garðurinn verið skemmtigarður.
Jomfru Ane Gade.
Jomfru Ane Gade, einnig oft kölluð "Gaden", er ein þekktasta og vinsælasta gata Álaborgar. Gatan er 150 metra löng og er í miðbæ Álaborgar. Við hana standa skemmti- og veitingastaðir sem liggja hlið við hlið út alla götuna. Um helgar iðar gatan af lífi og er vinsæll áfangastaður fólks sem er úti á lífinu.
Skemmtistaðirnir í götunni eru þekktir fyrir að spila mismunandi tónlist innandyra, allt frá tónlist sjötta áratugarins til nútíma danstónlist.
Mikil gæsla er við götuna og hefur verið aukið verulega við eftirlit eftir að 21 árs gamall maður var stunginn til bana í klíku-uppgjöri milli innflytjenda um páskana 2007. Sama kvöld hlutu 5 aðrir stungusár
Á daginn er Jomfru Ane Gade veitingastaða- og kaffihúsagata, en á kvöldin opna klúbbar og barir sem draga til sín mikið af fólki.
Gatan hefur verið kölluð Jomfru Ane Gade frá öndverðri 15. öld og er talið að gatan heiti eftir "Jomfru Ane", sem var búsett í Skavegade árið 1568.
Dýragarðurinn í Álaborg.
Dýragarðurinn í Álaborg (danska: "Aalborg Zoo") var vígður í apríl 1935 og er í dag einn af mest sóttu ferðamannastöðum í landsbyggðinni, með um 375.000 gesti árlega. Dýragarðurinn liggur nálægt miðbæ borgarinnar og hefur síðustu áratugi lagt mikla áherslu á náttúruvernd og spilar mikilvægt hlutverk í alþjóðlegum verkefnum um dýraverndun, undaneldi, þekkingarmiðlun, rannsóknir og leggur mikla áherslu á Fair Trade vörur.
Dýragarðurinn hefur að geyma yfir 1200 dýr og á ársgrundvelli starfa um 55 manns við dýragarðinn. Meðal dýra sem fyrirfinnast í dýragarðinum eru ísbirnir, gíraffar, pelíkanar, fílar, mörgæsir, ljón ásamt mörgum öðrum tegundum.
Dýragarðurinn tekur þátt í alþjóðlegum undaneldis samstarfi með verndun á dýrum í útrýmingarhættu. Síðustu ár hefur dýragarðurinn tekið þátt á ýmsum sviðum í náttúru og umhverfisverndar verkefnum. Sem dæmi má nefna að dýragarðurinn styður Payamino-Indjánana í þeirra baráttu að vernda 60.000 hektara regnskógarsvæði í Ekvador.
Dýragarðurinn er með opið allan ársins hring og stýrir einnig skemmtigarðinum Karolinelund í Álaborg.
Álaborgar Turninn.
Álaborgar Turninn (danska: "Ålborg Tårnet") var byggður árið 1933 og er staðsettur í vestur hluta Álaborgar. Turninn er 55 metrar að hæð. Turninn er staðsettur í brekku sem er 50 metra há og þar af leiðandi er útsýni frá turninum um 105 metrar yfir Limafjörðinn. Álaborgar Turninn er opinn frá apríl til september ár hvert og í toppi turnsins er veitingastaður með sæti fyrir 50 manns. |
Margrét Lilja Magnúsdóttir er eigandi verslunarinnar. „Ég hef starfrækt Kimiko frá því haustið 2018 en fyrirtækið er eldra. Við hjónin komumst í kynni við fyrri eigendur og þegar þau hugðu á breytingar gafst mér óvænt tækifæri til að taka við, sem ég ákvað að stökkva á. Ég ákvað strax að setja verslunina upp sem netverslun og setti hana í loftið í nóvember 2018.“
Austræn heimspeki
Það hefur verið í nógu að snúast. „Frá því ég tók við þá hef ég verið að bæta við vöruúrval og er nú komin með nokkrar vörulínur. Ég vel inn vörur bæði út frá því sem er í boði hjá framleiðandanum og svo líka það sem talar til mín og mér finnst eiga erindi við landann,“ segir Margrét.
„Vörurnar koma frá Ástralíu og byggja mjög mikið á austrænum hefðum og menningu. Kimmidoll kærleiksdúkkurnar eiga hver sinn anda sem alltaf er tengdur velferð, hamingju og jákvæðni. Hugsunin er því sú að þú viljir færa viðkomandi þessi skilaboð.“
Margrét segir Kimmidoll dúkkurnar innblásnar af hinum japönsku Kokeshi-dúkkum. „Þær eru byggðar á Kokeshi sem voru gjarnan renndar úr tré og gefnar ungum börnum þegar átti að færa þeim eitthvað fallegt og verndandi inn í framtíðina.“
Þá þekkja margir lukkuköttinn sem er tilvalinn sem gjöf og inn á heimili. „Svo er ég með lukkuköttinn Mani sem færir gæfu og velmegun.“
Vörurnar í Kimiko eru einstaklega vandaðar og fullkomnar sem gjöf til þeirra sem standa manni nærri. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Hjartnæm skilaboð
Margrét segir konur yfir þrítugu hafa verið helsta viðskiptavinahópinn en vörurnar eiga þó erindi við alla þá sem vilja gefa fallega gjöf. „Þetta er fyrir alla sem vilja eignast eitthvað fallegt inn á heimilið eða gefa einhverjum nákomnum eða vini fallega gjöf með boðskap. Hvort sem þú ert að gefa þér sjálfri eða einhverjum öðrum.“
Hún segir englana hafa verið vinsælasta undanfarnar vikur. „Núna hafa það verið englarnir. Kannski hefur tíðin haft eitthvað um það að segja.“
Vörurnar eru einstaklega vandaðar og henta fyrir ólík tilefni. „Englarnir hafa líka verið vinsælir í fermingarpakkana en þeim hefur auðvitað verið frestað. Það verður þó tilvalið að huga að þeim í haust. Svo eru nú margir sem velja borgaralega fermingu og þá er hægt að gefa kærleiksdúkku eða búdda. Það getur í rauninni verið hvað sem er sem fer í pakkann eða á fermingarborðið.“
Margrét hefur einnig séð um að pakka inn gjöfum og hyggst setja aukinn kraft í það á næstu vikum. „Ég stefni á að auka við þá þjónustu og bæta við tækifæriskortum í vöruúrvalið.“
Sjá nánar á: www.kimiko.is |
Nýju bankarnir geta allir orðið gjaldþrota ef krónan styrkist verulega á næstu árum. Þetta segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Viðskiptaráðherra fullyrðir að bankarnir geti tekið á sig verulegt gengistap.
Viðskiptabankarnir þrír verða endurfjármagnaðir á föstudag samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar. Stór hluti eignasafns þeirra er í erlendri mynt sem þýðir að ef krónan styrkist lækka þessar eignir í virði.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins: Ef að gengið styrkist um meira en 30%, um meira en 30%, að þá eru verða nýju bankarnir gjaldþrota. Þeir sem að kynntu þetta fyrir okkur höfðu ekki áhyggjur af þessu máli sökum þess að Seðlabankinn hafði svo sterk tök til að halda genginu niðri.
Viðskiptaráðherra bendir á að ef krónan styrkist muni það auðvelda heimilum og fyrirtækum með lán í erlendri mynt að standa í skilum. Þá geti bankarnir tekið á sig veruleg áföll.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra: Það er sérstaklega gert ráð fyrir því að þeir geti tekið á sig ákveðið tap vegna hugsanlegrar styrkingar krónunnar.
Höskuldur Kári Schram: En hversu mikið eða lítið má krónan styrkjast áður en bankarnir lenda í vandræðum?
Gylfi Magnússon: Ég held að þeir ættu alveg að þola svona þá styrkingu sem að menn eru að vonast til, kannski 20-30% á nokkrum árum, það ætti ekki að valda bönkunum neinum verulegum vandræðum. |
Það er og skilyrði, að sérstakar huglægar afsökunarástæður eigi ekki við um tjónvald, svo sem æska eða skortur á andlegu heilbrigði. Í stuttu máli spannar reglan það tjón sem er tjónvaldi að kenna og hægt hefði verið að komast hjá, hefði hann hagað sér eins og gera hefði mátt kröfu til. Við beitingu sakarreglunnar er talið nauðsynleg að verknaðurinn sem um ræðir sé bæði saknæmur og ólögmætur. Með saknæmi átt við að tjónvaldur hafi sýnt af sér háttsemi sem telst viðhöfð af ásetningi eða gáleysi. Hinsvegar verður að vera um að ræða háttsemi sem er óforsvaranleg frá hlutlægu sjónarmiði (ólögmæt). Viðfangsefni skaðabótaréttar er meðal annars að finna mörkin á milli 1 Viðar Már Matthíasson (2005), bls. 37. 2 Viðar Már Matthíasson (2005), bls. 64-65. 3 Viðar Már Matthíasson (2005), bls. 110. 4 Dolus og culpa. 5 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 111. óljósra þátta, hvenær tjón telst vera afleiðing þess að tjónvaldir hafi sýnt af sér gáleysi sem nægir til þess að fella á hann skaðabótaábyrgð, eða hvort tjónið hafi verið óhappatilvik sem ekki er bótaskylt á grundvelli sakarreglunnar. Þar sem sakarreglan er skaðabótaregla sem miðar að því að huglægir þættir geti skipt máli á þann veg að ábyrgðin verði strangari eða vægari verður að greina á milli huglægra og hlutlægra atriða. Huglægt mat er persónubundið á meðan hlutlægt mat er haft um atriði sem ekki eru háð persónlegu mati heldur eru það hlutveruleg atriði sem skírskota til hins ytri veruleika. Mörkin hér á milli eru oft óljós, sem getur valdið vandræðum þegar meta þarf hvort tjónvaldur hefði mátt sjá fyrir að háttsemi hans hefði eða gæti haft þessar afleiðingar. Innan huglæga þáttarins er áðurnefnt gáleysi og ásetningur sem er afstaða manns sem felst í vilja hans. Við mat á því hvað telst vera gáleysi eða ásetningur er háttsemi manns oft borin saman við hvað hinn gegni og skynsami maður hefði gert við sömu aðstæður. Aðferðafræðinni við að meta þessa þætti verið skipt upp í eftirfarandi flokka: almennt gáleysi, stórkostlegt gáleysi, ómeðvitað gáleysi, meðvitað gáleysi og ásetning Sönnunarbyrði samkvæmt sakarreglunni Í skaðabótarrétti er almenna reglan sú að tjónþoli þurfi að sanna eftirtalin atriði: Hann þarf að hafa orðið fyrir tjóni–sjá Hrd. 2466/1996-Fasteignasali sýknaður vegna vanrækslu við kaupendur þar sem tjónþolum tókst ekki að sýna fram á að staða þeirra væri verri en hún var fyrir brot fasteignasalans. Tjónið þarf að vera vegna háttsemi, sem er skaðabótaskyld samkvæmt lögum–sjá Hrd. 905/1999-Dýralæknir sem sprautaði hest sýknaður vegna dauða hestsins þar sem ekki tókst að sýna fram á að tengsl væru milli sprautunnar og dauðans. Að tjónið sé afleiðing þeirrar háttsemi–sjá Hrd. 2592/1995-K rak kirkjugarða en notaði kirkjugarðsgjöld til að greiða niður útfararþjónustu, L dæmdar skaðabætur vegna skaða sem niðurgreiðslan var talin hafa valdið honum. 6 Viðar Már Matthíasson (2005), bls. 140. 7 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 116. 8 Bonus pater. 9 Sjá einnig Hrd. 458/2007 10 Sjá einnig Hrd. 220/1960, 221/1970 11 Sjá einnig Hrd. 124/1951 Með öðrum orðum þarf tjónþoli að sanna tjón sitt, sanna að bótagrundvöllur sé fyrir hendi og að bein orsakatengsl séu á milli tjónsins og hinnar bótaskyldu háttsemi. 12 Kjarninn í þeim reglum gilda í skaðabótarétti sem gilda um orsakatengsl er skilyrðiskenningin svokallaða, hefur hún meðal annars verið orðað þannig að „atvik er orsök tjóns, ef það eitt eða með öðrum atvikum hefur eiginleika, sem geta valdið því tjóni, og þessir eiginleikar hafa verið leystir úr læðingi og leitt til tjónsins“ Gáleysi Gáleysi (culpa) er saknæm hegðun sem er þó ekki á jafn háu stigi og ásetningur, skv hefðbundinni skilgreiningu lögfræðinnar er gáleysi sú hegðun að gæta ekki varkárni sem hægt er að krefjast af hinum góða og gegna borgara (bonus petar familias) við sömu aðstæður. Gáleysi er þannig sú huglæga afstaða manns, sem fellst í vilja hans. Með þessu er ekki átt við vilja til þess að valda tjóni heldur vilja til að viðhafa tiltekna háttsemi. Þannig ætti þetta ekki við ef einhverjum væri þröngvað til að viðhafa tiltekna háttsemi. Gáleysi er ekki tilgreint í lögum og þegar það er skilyrði skaðabótaábyrgðar í lagatexta er mismunandi hvernig orðalag er notað um það. Stundum er það tiltekið sérstakelga að tjóni sé valdið með ásetningi eða gáleysi en yfirleitt er það þó gert með vísun til þess að um skaðabótaábyrgð fari eftir almennum reglum, eða almennum reglum skaðabótaréttar, má líta svo á að þar gildi meginreglan, þ.e. sakarreglan. Um gáleysi er unnt að nota önnur orð svipaðrar merkingar, eins og t.d. aðgæsluleysi, andvaraleysi, mistök, vanræklsu og yfirsjón, svo fátt eitt sé talið. Fellst í þessu að tjónvaldur hefði getað komið í veg fyrir það tjón sem hann olli ef hann hegðað sér með öðrum hætti en hann gerði. Hér skilur á milli ábyrgðar skv sakarreglunni og hlutlægrar ábyrgðar, þar sem oft er ekki hægt að haga sér með öðrum hætti en með því aðeins að leggja af þá háttsemi sem um ræðir. Flokkun gáleysis Sakarreglan miðar við að almennt gáleysi nægi til að hægt sé að slá því föstu að tjón sé skaðabótaskylt. Það hefur þó þýðingu að greina á milli almenns gáleysis og stórkostlegs gáleysis í skaðabótarétti, ekki bara vegna þess að að stundum gengur löggjöfin lengra og krefst stórkostlegs gáleysis sem skilyrði skaðabótaábyrgðar en einnig vegna þess að 12 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 208. 13 Viðar Már Matthíasson (2002) Bls. 319. 14 Arnljótur Björnsson (1988), Bls. 55. 15 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 146-147. stórkostlegt gáleysi af hálfu tjónvalds getur haft þau áhrif að tjónþoli hljóti aukinn bótarétt en ef eingöngu væri um almennt gáleysi að ræða hjá tjónvaldi. Þá getur svið skaðabótaábyrgðar einnig rýmkað vegna stórkostlegs gáleysis (ættingjar manns sem látast vegna slíks geta þannig eignast bótarétt), en í 2. Mgr. 26. gr. Skaðabótalaga segir að „Þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns má gera að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.“ Dæmi um slíkt er að finna í dómi Hrd. nr. 432/2005, H og B voru dæmdar bætur úr höndum Í og Þ vegna andláts sonar þeirra, sem lést rúmum fjórum sólarhringum eftir fæðingu vegna alvarvarlegs súrefnisskorts sem var tilkominn vegna blæðingar í kjölfar mistaka við legvatnsástungu. Þá getur það einnig skipt máli er varðar endurkröfurétt vátryggjanda hvort tjónvaldur hafi valdið tjóni vegna almenns eða stórkostlegs gáleysis, þannig getur vátryggjandi hugsanlega krafið slíkan tjónvald um bætur vegna tjóns sem hann olli og vátryggjandi þurfti að bæta. Almennt gáleysi er lægra stig gáleysis, tjónvaldur sýnir ekki þá varfærni og aðgæslu, sem honum bar. Hann hefði átt að gera sér grein fyrir að háttsemi hans fæli í sér hættu á tjóni, hefði átt að leiða að því hugann en gerði ekki. Á þennan hátt er huglæga þættinum lýst. Út frá hlutlægu sjónarmiði felst almennt gáleysi í því að háttsemin feli í sér frávirk frá skráðum hátternisreglum, fordæmi eða venju á því sviði sem um ræðir. Óljós mörk eru á milli lægstu stiga gáleysis og óhappatilviljunar og eru oft dregin eftir því hversu mikið frá þeirri hlutlægu háttsemi sem tjónvaldur átti að viðhafa. Sama gildir um mörk gáleysis og stórkostlegs gáleysis. Til glöggvunar er hægt að líta til tveggja dóma, annarsvegar er það dómur Hrd. nr. 5/1978, þar hafði leigutaki og eigandi geymslu ekki sinnt um geymslu sprengiefnis sem var stolið og olli notkun þess síðar líkamstjóni drengs þegar hann slasaðist við að efnið var sprengt, hinsvegar er það dómur Hrd. nr. 141/1978, en þar hafði húsasmíðameistari með vanrækslum á umsjón byggingarstaðar bakað sér með saknæmu athafnaleysi skaðabótaábyrgð gagnvart manni sem varð fyrir tjóni þegar illa frágenginn vinnupallur hrundi undan honum. Ekki er glöggur munur á almennu og stórkostlegu gáleysi, við greiningu fellur munurinn fyrst og fremst í alvarleika þess fráviks frá þeirri háttsemi sem tjónvaldi bar að viðhafa og felur því ekki endilega í sér að hann hafi verið meðvitaðri um hugsanlega möguleika á tjóni. Þó er það 16 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 154-155. 17 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 158-159. vissulega oft svo að stórkostlegt gáleysi er meðvitað og líklega mun oftar en almennt gáleysi, með því að viðhafa slíka háttsemi eykur maður almennt hættuna á því að valda tjóni. Aðrar reglur skaðabótaréttar Sakarlíkindareglan Í skaðabótarétti hefur svokölluð sakarlíkindaregla verið notuð um tiltekið afbrigði sakarreglunnar. Ábyrgð vegna sakarlíkinda telst vera þegar dæmdur er til bótaskyldu sá sem getur ekki sannað að tjón stafi af öðrum ástæðum en saknæmri háttsemi hans. Er hún fyrst og fremst sönnunarregla og hefur hún sem slík verið nefnd reglan um öfuga sönnunarbyrði. Að tala um sakarlíkindaregluna sem sjálfstæða bótareglu hefur einkum verið gert til hagræðis og felur það ekki í sér að sakarlíkindareglan þurfi í raun að vera annað en sönnunaregla. Rekja má helstu ástæður fyrir því að sakarlíkindareglan var lögfest í íslenskum rétti til þeirrar óvissu sem ríkti við tækninýjungar er komu fram á 20. öldinni þ.e. bifreiðar og loftför. Um sakarlíkindaregluna má segja að reglan sé eitt afbrigði sakarreglunnar þar sem sönnunarbyrði um saknæmi er skipað með tilteknum hætti. Talið er að þýðing sakarlíkindareglunnar í íslenskum skaðabótarétti fari minnkandi, einkum með lögfestingu hlutlægar ábyrgðarreglu á tjóni af völdum notkunar bifreiða. Nýlegt dæmi um notkun sakarlíkindareglunnar í skaðabótamáli er „bensínkvittanadómurinn“ Hrd. 209/2007, en þar voru manni dæmdar 15 þús króna skaðabætur vegna ólöglegs verðsamráðs olíufélaganna, taldi dómurinn í því máli að stefnda (olíufélaginu) hafi ekki tekist að sanna að tjón viðkomandi hafi ekki komið til vegna samráðs félaganna, sneri dómurinn því sönnunarbyrðinni frá neytandanum yfir á olíufélagið. Tveimur árum áður féll einnig dómur sem sneri að meintu athafnaleysi þar sem reglunni um öfuga sönnunarbyrði var beitt, dómur Hrd. nr. 317/2005, nánar verður vikið að honum síðar. Vinnuveitendaábyrgð Reglan um vinnuveitendaábyrgð segir að vinnuveitandi geti orðið skaðabótaskyldur vegna tjóns sem starfsmaður hans hefur valdið með saknæmum hætti. Það er því skilyrði að starfsmaðurinn hafi valdið tjóninu með saknæmum hætti. Vinnuveitandinn þarf sjálfur ekki að 18 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 161. 19 Viðar Már Mattíasson. (2005), bls. 53-54. 20 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 267. hafa sýnt af sér saknæma háttsemi heldur nægir að einn starfsmanna hans hafi gert það. Hugsunin sem býr að baki reglunni um vinnuveitendaábyrgð hefur verið nefnd virk samsömun (d. aktiv identifikation). Er með því átt við að reglan feli í sér að vinnuveitandinn verði skaðabótaskyldur ef hann hefði orðið það sjálfur með því að viðhafa álíka háttsemi og starfsmaður hans viðhafði. Hvergi í íslenskum lögum er skráð almenn regla um vinnuveitendaábyrgð, reglan var mynduð af dómstólum að erlendri fyrirmynd, einkum norrænni löggjöf og réttarframkvæmd. Þrjú meginskilyrði eru fyrir vinnuveitandaábyrgð. Í fyrsta lagi að ábyrgð fellur ekki á vinnuveitanda nema tjón verði rakið til sakar starfsmanns hans. Í öðru lagi verður starfsmaðurinn sem olli tjóninu að hafa verið við framkvæmd þess starfs sem hann gegnir í þágu vinnuveitandans, sbr. Hrd. í máli nr. 74/1961 þar sem tveir piltar lentu í átökum um vatnsslöngu sem endaði með því að annar slasaðist og krafði hann vinnuveitandann og hinn piltinn um bætur. Vinnuveitandinn var sýknaður þar sem atferli þeirra var fjarri skyldum þeim sem þeir áttu að gegna við störf sín. Í þriðja lagi verða vinnuveitandi og starfsmaður að vera í svo nánu sambandi að vinnuveitandinn teljist húsbóndi starfsmannsins. Hversu viðtæk vinnuveitendaábyrgðin er í skilningi skaðabótaréttar er umdeilt, er hér fyrst og fremst átt við ábyrgð vinnuveitanda á starfsmanni sínum, en hugtakið starfsmaður er víðtækara í skaðabótarétti en vinnurétti sem takmarkar hugtakið við ráðningarsamband. Í skaðabótarétti er til dæmis ekki skilyrði að um einhverskonar endurgjald sé að ræða fyrir vinnuna, þannig getur ábyrgðin verið virk hjá þeim sem sinnir sjálfboðavinnu í þágu íþróttafélags eða góðgerðarsamtaka. Í dómi Hrd. nr. 485/2006 krafðist K skaðabóta úr hendi V vegna tjóns er hann varð fyrir er hann féll í bröttum stiga í versluninni Suðurveri þegar hann var að bera gosflöskur niður brattan stiga sem lá niður á lager verslunarinnar, en K starfaði við áfyllingar í verslunum á vegum dótturfélags V. Þar sem V hafði engan umráðarétt yfir húsnæði verslunarinnar var umsjón þess ekki á vegum verkstjóra V, var því ekki talið að 21. gr laga nr. 46/1980 um 21 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 219. 22 Sigríður Logadóttir. (2003). Bls. 411. 23 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 221. aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilti í þessu tilviki og V því sýknað af kröfum K Hlutlæg ábyrgð Reglan um hlutlæga ábyrgð er víðtækasta reglan um bótagrundvöll í skaðabótarétti. Samkvæmt henni getur stofnast skaðabótaskylda, jafnvel þó að enginn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Skilyrðið er að orsakasamband sé milli þeirrar háttsemi sem hin hlutlæga ábyrgð tekur til, og tjónsins. Við beitingu reglunnar verður að sýna fram á og sanna að orsakatengsl séu á milli háttseminnar og tjónsins. Þetta er mikilvægt þar sem að gildissvið reglna um hlutlæga ábyrgð er oftast takmarkað við tiltekna háttsemi eða tiltekna starfsemi. Dæmi um lög sem innihalda reglur um hlutlæga ábyrgð eru Umferðarlög 50/1987 (88. gr.), Siglingalög 34/1985 (172. gr.), Loftferðalög 60/1998 (128. gr.), Vatnalög 15/1923 (74. gr.), Lög um skaðsemisábyrgð 25/1991 (7. gr.) og fleiri lög. Þegar að leiða á að því líkum að um hlutlæga bótaábyrgð sé að ræða er meginreglan eins og áður segir sú að um orsakatengsl sé að ræða á milli tjónsins og atviksins. Fyrir þann sem verður fyrir tjóni er mun betra að hafa möguleika á því að reisa bótakröfu sína á hlutlægri bótaábyrgð þar sem að sönnunarbyrði er oftast auðveldari. Sérstaklega vegna þess að ekki þarf að sanna að tjóni sé afleiðing saknæmrar hegðunar. Um hlutlæga bótaábyrgð gilda settar lagareglur þótt að finna megi ólögfesta hlutlæga bótaábyrgð sem þróast hefur með dómavenju. Ekki er þó algengt í íslenskum rétti að aðilum séu dæmdar bætur á hlutlægum grundvelli án þess að til þess sé bein lagaheimild, þó eru nokkur dæmi þess, í Hrd. 103/1968 var starfsmanni Rafmagnsveitna ríkisins dæmdar bætur vegna slyss sem hann varð fyrir þegar framleiðslugalli í lás á öryggisbelti varð til þess að hann féll til jarðar úr rafmagnsturni, var vinnuveitandi talinn bera hlutlæga ábyrgð á því að slík öryggistæki væru ekki haldin leyndum galla. Í Hrd. 19/1970 voru starfsmanni fiskvinnsluhúss dæmdar bætur vegna slyss sem var rakið til bilunar í stopprofa á hausunarvél. Þá var starfsmanni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í dómi Hrd. 207/1969 dæmdar bætur vegna bílslyss sem rakið var til bilunar í stýrisbúnaði ökutækis varnarliðsins. Eins og sést eru þetta ekki nýlegir dómar enda er það svo að eftir árið 1970 hafa ekki svo ótvrírætt sé fallið dómar um hlutlæga ábyrgð án þess að til þess væri bein lagastoð. 24 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 186. 25 Arnljótur Björnsson (1999), Bls. 106. 26 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 243 Munur á skaðabótum innan og utan samninga Efni fræðihluta skaðabótaréttar er yfirleitt bundið við reglur um skaðabætur utan samninga, og hafa þær almennt gildi. Séu tjónþoli og tjónvaldur hinsvegar bundnir samningi þá gilda oft sérstakar reglur, sem víkja oft frá reglum um skaðabætur utan samninga, er þá talað um samningsábyrgð eða skaðabótaskyldu innan samninga. Er þessum reglum lýst í kauparétti og og öðrum undirgreinum fjármunaréttar. Er það sammerkt með flestum þessum reglum að sá sem gefur loforð getur orðið bótaskyldur ef honum tekst ekki að efna loforðið, jafnvel þó móttakandi loforðs geti ekki sannað að loforðsgjafinn eigi sök á vanefndunum. Stendur aðalágreiningurinn oft um það hvort samningsaðila hafi verið skylt að framkvæma tiltekna athöfn eða athafnir, hafi svo verið verður síðan að taka afstöðu til þess hvort aðili hafi vanrækt skyldu sína með saknæmum hætti, er líklegt að um slíkt sakarmat fari sömu reglur og um skaðabætur utan samninga. Í málum milli aðila samnings er algengt að ábyrgð falli á aðila vegna athafnaleysis. Sem er svo sjaldgæfara þegar dæmt er eftir reglum sem gilda utan samninga. Þá er ekki spurt um hvort einhver hafi vanvirt samningsskyldu heldur hvort tjónvaldur hafi verið eða mátt vera ljóst að athöfn hans gæti valdið öðrum tjóni. Athafnaleysi Það er talin meginregla í skaðabótarétti utan samninga að ekki sé hægt að baka sér skaðabótaskyldu með athafnaleysi, sú meginregla skiptir þó sjaldnast máli við lausn raunhæfra álitaefna, fyrir því eru tvær ástæður, annarsvegar eru á reglunni margar mikilvægar undantekningar og hinsvegar sú að oft eru mörkin á milli beinna athafna og athafnaleysis ekki fullkomlega ljós. Þeirri spurningu er þá oft varpað fram–„getur eitthvað orðið til af engu.“ Hefur verið um það nokkur ágreiningur hvort til skaðabótaábyrgðar geti komið vegna athafnaleysis. Halda sumir fræðimenn því fram að til þess geti ekki komið á meðan aðrir segja að beita beri sambærilegu sakarmati um athafnaleysi og annars er gert. 27 Arnljótur Björnsson (1988), Bls. 48-49. 28 Arnljótur Björnsson (1988), Bls. 49-50. 29 Arnljótur Björnsson (1988), Bls. 75. 30 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 110-111. Í skaðabótarétti hlýtur athafnaleysi að felast í því að viðhafa ekki tiltekna háttsemi, að gera ekki eitthvað, það hefur þó aðeins þýðingu innan skaðabótaréttins ef andstæða þess að gera ekki eitthvað sé í því tilviki einhver sú athöfn sem hefði komið í veg fyrir eða takmarkað tjón. Ágreiningur um þýðingu athafnaleysis virðist að mestu vera til kominn vegna þess að mismunandi skilningur er lagður í hvaða tilvik beri að telja til athafnaleysis og sést glögglega að þeir sem halda því fram að almennt eigi ekki að koma til skaðabótaábyrgðar vegna athafnaleysis setja ýmsa fyrirvara á þessa afstöðu sína. Minna hefur þó verið lagt úr umræðu um meinta skaðabótaábyrgð vegna athafnaleysis undanfarið en áður var gert. Eiginlegt athafnaleysi Sé athafnaleysi túlkað á þann veg að það eigi einungis við um tilvik þar sem að sá er til álita kemur að verði skaðabótaskyldur hafi ekki áður haft tengsl við atburðarrás sem leiðir til tjóns sem og tilvik þar sem ekki hvílir lögbundin athafnaskylda á viðkomandi sé hægt að setja fram þá meginreglu að maður verði ekki bótaskyldur vegna athafnaleysis. Þannig verði vegfarandi varla skaðabótaskyldur fyrir að týna ekki stein af götu sem síðar veldur tjóni þar eð vera steinsins á akbrautinni tengdist honum ekki á nokkurn hátt. Sama á við ef maður kemur ekki manni í lífsháska til bjargar, slíkt getur varðað brot á hegningarlögum en bakar viðkomandi ekki skaðabótaskyldu. 34 Óeiginlegt athafnaleysi Þar sem sá sem kemur til álita að verði bótaskyldur hefur einhver tengsl við þá atburðarrás sem leiðir til tjóns, sem eru þess eðlis að rétt þykir að telja hann skyldan til athafna er talað um óeiginlegt athafnaleysi. Er í því samhengi hægt að benda á nokkra algengstu en þó ekki tæmandi flokka tilfella. Í fyrsta lagi eru það tilvik þar sem athafnaskylda hvílir á viðkomandi skv beinum lagaákvæðum, dæmi um slíkt eru reglur um aðbúnað og öryggi á vinnustað. Í öðru lagi eru það tilvik þar sem skylda hvílir á mönnum vegna yfirvaldsboðs. Í þriðja lagi eru það tilvik þar sem athafnaskyldi hvílir á mönnum vegna samnings. Í fjórða lagi eru það tilvik þar sem aðili hefur tengsl við hagsmuni sem lúta forsjá viðkomandi. Í fimmta lagi er það athafnaskylda sem er lögð á stjórnvöld vegna starfsemi sem þau fara með höndum og í sjötta lagi er það þegar umönnunarskylda hvílir á manni, líkt og hjá foreldrum yfir börnum sínum. Í 31 Viðar Már Matthíasson (2002) Bls. 320-321. 32 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 111. 33 Viðar Már Matthíasson (2002). Bls. 321. 34 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 111-112. þessum upptöldu tilfellum er ekki hægt að ætla að ekki geti komið til bótaskyldu, heldur verði að beita sakarreglunni við mat á hugsanlegri skaðabótaábyrgð þegar slíkri skyldu til athafna er ekki sinnt og tjón verður af. Dómar og skýringar Til glöggvunar á því hvernig mat á saknæmi og hugsanlegri bótaábyrgð athafnaleysis fer fram er best að líta til dóma þar sem tekist hefur verið á um nákvæmlega það, það skal tekið fram að þessi listi er á engan hátt tæmandi, við val á dómum var því leitast við að ná einhverri fjölbreytni í málsatvikum og reglum sem lágu til grundvallar. Þá var frekar litið til nýrri dóma en eldri svo betur sé hægt að glöggva sig á því hvernig þessum málum er háttað í dag. Eins og áður hefur verið minnst á hafa dómstólar til að mynda ekki dæmt bætur vegna ólögfestrar hlutlægrar ábyrgðar í næstum 30 ár. Getur gáleysi tjónþola losað tjónvald undan skaðabótaábyrgð? Hér ætla ég að bera saman tvo keimlíka dóma, þar sem í báðum tilvikum er um að ræða slys sem urðu vegna þess að hestar sluppu úr girðingu og urðu síðan fyrir bíl. Er áhugavert að skoða hvernig dómurinn skoðar hvernig hugsanlegt gáleysi bílstjóranna gæti losað eiganda hestanna undan skaðabótaábyrgð. Hrd. 143/1998 Tveir hestar sem sloppið höfðu úr girðingu urðu fyrir bifreið á þjóðvegi nr. 1, vildi slysið þannig til að tveir hestar urðu fyrir fólksbifreið sem ekið var áleiðis til Reykjavíkur og drápust bæði hrossin. Hestar þessir voru geymdir ásamt öðrum hrossum á býlinu Geirlandi, sem er nálægt Suðurlandsvegi. Einhver styggð hafi komið að hestunum meðan umsjónarmaður þeirra var inni að gefa, þannig að þeir brutu niður girðinguna í gerðinu og þrír hestanna hlupu út í myrkrið. Húsin voru eingöngu 500 metra frá þjóðveginum og taldi dómurinn óumdeilt að gæslumanni hefði borið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hross gætu ekki auðveldlega brotist út, en skv 22. gr. lögreglusamþykktar Kópavogskaupstaðar mega hestar ekki ganga lausir þar á almannafæri. Í skýrslu lögreglunnar sagði að myrkur hafi verið á slysstað og skýjað, þá hafi yfirborð vegarins verið blautt þó að ekki hafi verið nein úrkoma. Tekið var fram að í myrkri eins og þarna var, væri hæpið að skepnur á veginum sæjust fyrr en komið 35 Viðar Már Matthíasson (2005). Bls. 112-113. væri nærri þeim en samkvæmt vitnisburði ökumannsins var hann að aka á 80 km hraða þegar hann varð hrossana var, mat héraðdóms var á þann veg að ökuhraði bifreiðarinnar hafi verið of mikill miðað við aðstæður, þ.e. náttmyrkurs og slæms skyggnis, og hann því talinn bera ¼ sakar. Þessu var Hæstiréttur ekki sammála, aðstæður til akstur væru góðar á þessum vegkafla, vegurinn beinn og ekkert sem birgði útsýni, akstur á 80 km bæri því ekki að meta honum til gáleysis. Var því öll bótaábyrgð lögð óskipt á eigendur hestanna í Hæstarétti. Hrd. 4/1987 Slys varð með þeim hætti að ungur ökurmaður (E) ók með lágum ökuljósum seint í ljósaskiptum í slæmu skyggni á hæsta lögleyfðum ökuhraða austan úr Grafningi, „Birtist honum þá, undir roðaðan kvöldhimin, sú bleikálótta, standandi grafkyrr á miðri ökuleið hans, miðjum nyrðri vegarhelmingi. Beitti stefnandi þegar hemlum til fulls. Rann bifreið hans þráðbeint á merina. Hún hlunkaðist upp á bílinn, þannig að vélarlok dældaðist og framrúðan brotnaði.“ Einhverjar frekari skemmdur urðu síðan á bílnum við það að hrossið brölti niður af honum. Varð hrossinu ekki mikið meint af og jafngott að nokkrum viknum liðnum. Eigandi hrossins (G) átti þrjú hross sem hann hafði í girðingarhólfi skammt vestan við Tjaldanesheimilið í Mosfellssveit. Hólfið var girt með neti og gaddavírsstreng yfir. Sunnanmegin, meðfram veginum, var netið með 8 strengjum, var girðingin gömul, slök og staurar fúnir en taldi G hana þó vera hrosshelda og „í svipuðu ástandi og hrossagirðingar eru almennt. " Í lýsingu lögreglunnar frá deginum eftir sagði að girðingin væri vart gripheld, um hefði verið að ræða vírnet sem virtist alllélegt og að staurarnir virtust vera hálflausir og brotnir. Fyrir dómi taldi E að G hefði borið skylda til að sjá til þess að girðingin fullnægði ákvæði 1. gr. girðingarlaga nr. 10/1965, en hafi ekki gert. Girðingin hafi verið léleg og það hafi G vitað, enda hestar sloppið þar út áður, hafi hann þrátt fyrir það ekki gert neinar ráðstafanir til að endurreisa girðinguna um hólfið, gæti það athafnaleysi vart fallið undir annað en saknæma vanrækslu og því um bótaskyldu að ræða. G benti hinsvegar á að fræðimenn hefðu talið að þegar hugsanlegum lögfestum bótareglum um ábyrgð á dýrum sleppti gripi almenna skaðabótareglan inn í og sú spurning vaknaði hvenær varsla og meðferð dýra væri með þeim hætti að tjónið sem þau yllu væri metið umráðamanni eða eiganda til sakar. Teldu fræðimenn að hafa yrði til hliðsjónar hvort einhver opinber fyrirmæli eða reglur mæltu fyrir um vörslu og meðferð dýra þeirra er tjóni valda. Ef rekja mætti tjónið til þess að umráðamaður og/eða eigandi hafi brotið gegn slíkum fyrirmælum virtist rétt að meta það honum til sakar og leggja á hann ábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Þá benti G á að í lögreglusamþykkt Kjósasýlsu væru engin viðeigandi ákvæði að finna sem segðu til um gæslu dýra eða hvernig girðingar skuli vera. Taldi G slysið því ekki hafa orðið vegna bóthæfrar vanrækslu sinnar heldur gáleysislegs aksturs E, hann hafi ekið á 70-80 km hraða í ljósaskiptum þar sem hámarkshraði var 70 km, hann hafi því nánast blindandi á óhæfilegum hraða ekið á hryssu G sem hafi í algjöru grandaleysi verið á rölti yfir þjóðveginn. Var það ágreiningslaust að engin laga eða reglugerðarákvæði bönnuðu lausagöngu hrossins við umræddan þjóðveg, þurfti dómurinn því að skoða hvort hún hafi verið ólögmæt samkvæmt ólögfestum reglum skaðabótaréttarins, ljóst var að hún var saknæm þar sem girðingin var ónýt og G var það ljóst. Benti héraðsdómur á að öll ákvæði sem mæltu fyrir um að búfé skuli geymt í lokuðum girðingum væru undantekningarákvæði, reglan væri sú að fólk og fé ætti frjálsa för um þjóðvegi landsins nema það væri sérstaklega bannað. Hér rækjust þó hagsmunir umferðar og búfjáreigenda. Þá benti dómurinn á að þessi vegkafli væri ekki verulega frábrugðin um fénarfénað vegum í Borgarfirði og Rangárþingi þar sem ökumenn gættu sín á fénaðarferð líkt og menn gæta að mannaferðum við götur Reykjavíkur. Fyrir héraðsdómi sagði dómurinn að þó að skv. hlutlægri ábyrgðarreglu umferðarlagaværi 3. mgr. lagagreinarinnar niðurfærsluregla á þann hátt að „bætur fyrir tjón á munum má lækka eða fella niður ef sá sem fyrir tjóni varð var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi“ þá kæmi hún inn á svið almenns sakarmat þegar hún færi að verka. Þannig að sök ökumanns kæmi sök tjónþola til mótvægis. Mat dómurinn það svo að það hefði verið varhugavert fyrir G að hafa hrossin í ónýtri girðingu við fjölfarinn þjóðveg í sveit þar sem búskapur væri að leggjast af og þéttbýli er í næsta nágrenni, það hefði jafnframt verið varhugavert fyrir E að aka við verulega skert útsýnisskilyrði á nokkurn veginn fullum umferðarhraða eftir vegi, þar sem hann mátti vænta bæði fólks og fénaðar, og aka svo á hrossið vegna ónákvæmra akstursviðbragða eftir að hann loksins sá það, bætti hann því svo við að það væri nú einu sinni grunnregla umferðarréttar að bílstjórar eigi ekki að aka á. Að þessu öllu athuguðu var G sýknaður af öllum kröfum E og staðfesti Hæstiréttur síðan þann dóm. Við samanburð á þessum tveimur dómum verður að geta þess að geta að bæði héraðsdómur og Hæstiréttur í eldra málinu vísaðu í niðurstöðu sinni sérstaklega til þágildandi 2. mgr. 49. gr. laga nr. 40/1968 sem sagði að ökumaður skyldi getað stöðvað ökutæki á þriðjungi þeirrar vegalengdar, sem auð væri og hindrunarlaus fram undan og hann hefði 36 Þá 67. gr. nú 88. gr. útsýni yfir. Var sú grein tekin út seinna þar sem hún þótti of ströng. Í stað hennar kom vægara ákvæði sem ekkert var minnst á í yngri dómnum. Það er áhugavert að bera þessa 2 dóma saman, í báðum tilvikum er það ljóst að eigendur hrossa sem síðar er ekið á, gera sig seka um saknæma háttsemi sem leiðir til tjóns. Vissulega skiptir hér miklu máli að í seinna tilvikinu var lausaganga búfjár hreinlega bönnuð á meðan svo var ekki í því fyrra, ásamt áðurnefndri 49. gr. eldri umferðarlaga sem ekki var fyrir að fara í yngra málinu. En það er mismunandi afstaða gagnvart hugsanlegu gáleysi ökumannanna tveggja sem vekur athygli mína, það að annar þeirra geri „sig sekan“ um að aka á hámarkshraða í ljósaskiptum á fáförnum vegi virðist nægja til að hann missi allan bótarétt, jafnvel þó að viðurkennt sé að eigandi hrossins hafi gerst sekur um saknæma vanrækslu eða athafnaleysi. Spilaði þar hugsanlega inn möguleg röng viðbrögð ökumannsins við aðstæðum, viðbrögð sem líklega voru eingöngu til komin vegna reynsluleysis hans? Ætti því ekki einmitt að vera öfugt farið, þ.e. að hægt hefði verið að ætlast til „réttari“ viðbragða ef reyndari ökumanni? Síðan erum við með eldri ökumann, sem í skýjuðu og myrku veðri keyrir á blautum vegi á hraða sem samkvæmt honum sjálfum var rétt undir hámarkshraða, á tvö hross án þess að honum virðist hafa gefist tími til að svo mikið sem hægja ferðina áður en hann lenti á þeim. Sá fær hinsvegar allt sitt tjón bætt án þess að vera látin bera nokkra sök á því sjálfur. Er Hæstiréttur samkvæmur sjálfum sér hér? Við getum í það minnsta dregið þá ályktun að við mat á því hvort saknæmt athafnaleysi hafi einnig verið bótaskylt þurfti dómurinn í þessum málum að líta til háttsemi þess sem fyrir tjóninu varð, hegðaði hann sér á þann veg sem hægt væri að ætlast til af honum til að hugsanlega afstýra tjóninu eða olli hann því hreinlega með eigin gáleysi. Ábyrgð vinnuveitanda á slysum starfsmanna við störf Hér skoðum við tvo dóma þar sem um að ræða ábyrgð vinnuveitenda til að sjá til þess að vinnustaður sé í lagi, það er að vinnuumhverfið sé öruggt og að starfsmenn séu ekki í hættu á að verða fyrir slysi við störf sín. Er gott að skoða hann í samhengi við það sem áður hefur verið minnst hér á varðandi vinnuveitendaábyrgð. Í seinni dóminum er svo einnig litið til meðábyrgðar tjónþola og lækkun skaðabóta vegna þess. Hrd. nr. 288/2009 V höfðaði mál og krafði S um bætur vegna slyss sem hann kvaðst hafa orðið fyrir við vinnu sínu um borð í m/b Agli SH-195. V kvaðst hafa runnið til og dottið og lent með mjöðm á svonefndri styttu á horni nótakassa. Með framburði vitna og læknisvitjunar V á umræddum tíma þótti sannað að V hefði orðið fyrir framangreindu vinnuslysi. Þá þóttu orsakatengsl slyssins og þeirra áverka sem leiddu til tjóns V nægilega sönnuð. V byggði bótaábyrgð S á því að tjón hans hefði verið sennileg afleiðing vanbúnaðar skipsins. Þilfar þess, þar sem hann datt, hefði verið úr sléttu áli og mjög hált og án hálkuvarnar þegar slysið varð. Þilfarið hefði ekki verið búið í samræmi við fyrirmæli laga og reglna um vinnuöryggi á fiskiskipum. Í þessu máli voru héraðsdómur og Hæstiréttur ekki sammála, var það niðurstaða héraðsdóms að ekkert hefði komið fram sem sýndi fram á að þilfarið á skipi stefnda hefði verið vanbúið með þeim hætti, þegar umræddir atburðir áttu sér stað, að það yrði metið stefnda til sakar í skilningi skaðabótalaga og almennu sakarreglunnar í skaðabótarétti. Um óhappatilviljun hefði verið að ræða sem stefndi gæti ekki verið talinn ábyrgur fyrir og var hann því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Hæstiréttur taldi hinsvegar að nægilega hefði komið fram í málinu að skipverjum hefði verið hætt við að detta á sléttri og hálli álklæðningu vinnuþilfars skipsins þar sem slysið varð og að vinnuaðstæður hefðu verið óvenjulegar og varhugaverðar. Þannig hefði V og vitni sem kölluð voru til, kveðið það hafa verið ítrekað rætt um borð að úrbóta hefði verið þörf vegna þess hversu hált þilfarið var og að yfirmönnunum, S ásamt skráðum skipstjóra, hefði verið þetta ljóst þó að formleg aðfinnsla hefði ekki verið sett fram. S lét þannig hjá líða að gera nauðsynlegar og eðlilegar ráðstafanir til þess að þilfarið yrði eins öruggt og það gat orðið og að láta lagfæra þann vanbúnað sem á því var, eins og honum var skylt að gera samkvæmt a) lið 6. gr. reglugerðar nr. 785/1998. Bar hann því að mati Hæstaréttar fébótaábyrgð á því tjóni sem V varð fyrir er hann rann á hálum fleti þilfarsins, og var dæmdur til þess að greiða áfrýjanda skaðabætur. Í þessum dómi Hæstaréttar virðist þetta liggja nokkuð ljóst fyrir, skipverji um borð í skipi verður fyrir tjóni og er hægt að rekja orsakir þess beint til varhugaverðra aðstæðna sem voru tilkomnar vegna þess að eigandi skipsins greip ekki til viðeigandi ráðstafana til að koma málum í samt lag og koma í veg fyrir hugsanlegt slys, er hann því gerður skaðabótaskyldur fyrir tjóni skipverjans. Hrd. nr. 582/2007 H var ein við störf á veitingastaðnum S er hún opnaði skáp sem brauðbakkar voru ofan á og féllu þeir niður háls hennar og varð hún fyrir tjóni vegna þess. Lýsti H því fyrir dómi að hún hefði verið að taka brauð út úr skápnum og greinilega hrist hann eitthvað þannig að bakkarnir hrundu af honum og á hana. Þeir hefðu verið 7-10 talsins. Til grundvallar niðurstöðu sinni sagði Hæstiréttur á að S hefði ekki nægjanlega sinnt skyldum sínum við að tryggja öryggi á vinnustaðnum og féllst á það með H að S bæri fébótaábyrgð á tjóni hennar. Hann bætti því svo við telja yrði að H hefði einnig átt nokkra sök á slysinu, en hún hefði að líkindum sjálf sett flesta ef ekki alla umrædda brauðbakka upp á skápinn. Henni hefði borið að gæta að sér við vinnu sína eftir því sem sanngjarnt og eðlilegt gæti talist. Hún hafði unnið á staðnum um töluverðan tíma, var því kunnug aðstæðum og hefði borið að sýna aðgæslu við verkið sem var einfalt. Var H í ljósi þess látin bera helming tjónsins sjálf. Hér er tjónvaldur talinn hafa sýnt af sér aðgæsluleysi sem tjón hlaust af, en sökum þess að tjónþolinn var ekki talinn hafa sýnt af sér þá aðgæslu sem hægt var að ætlast til af honum er hann látinn bera hluta tjónsins sjálfur. Til að full bótaskylda sé lögð á tjónvald verður að vera óumdeilanlegt að tjónþoli hafi hagað sér á þann sem ætlast hefði mátt til af honum. Augljósri hættu ekki afstýrt Hér skoðum við tvo dóma þar sem um er að ræða tjón sem kemur til vegna þess að ekki hafði nægjanlega verið hafist að til að koma í veg fyrir augljósa slysahættu. Athafnaleysi umsjónaraðila gagnvart augljósri hættu olli þannig tjóni og bakaði viðkomandi skaðabótaábyrgð gagnvart þeim sem fyrir tjóninu varð. Í seinni dómnum kemur svo til skoðunar eins og í brauðbakkamálinu hér á undan, hvort að tjónþoli hafi hagað sér á þann hátt sem ætlast hafi mátt til af honum eða hvort hann með hegðun sinni geti talist bera einhverja sök á tjóni sínu. Hrd nr. 280/2004 A varð fyrir tjóni þegar skyggni, sem R hafði komið fyrir á torgi í miðborg R, féll niður. Hægt hafði verið að komast upp á skyggnið með því að klifra upp á þak veitingasölu við torgið og fara síðan út á segldúk. Í umrætt skipti höfðu unglingar, sem voru að fylgjast með skemmtiatriðunum, klifrað upp á þakið og þaðan farið út á skyggnið. Lét járngrindin undan þunga þeirra með þeim afleiðingum, að framhlið skyggnisins féll niður. Tugir manna urðu undir skyggninu, þar á meðal A, sem fékk höfuðhögg og skurð á höfuðið, auk þess að togna í hálsi og baki. Unnt hefði verið að taka niður skyggnið með óverulegri fyrirhöfn og til þess full ástæða í þeim tilvikum þar sem dagskrá á mjög fjölmennum samkomum var flutt af öðru sviði en því, sem var undir skyggninu. Með því fjarlægja ekki skyggnið hafi aðstaðan á þessum stað verið hættuleg og hafi sú hætta ekki verið ófyrirsjáanleg. Var R því talið bera skaðabótaábyrgð á því tjóni sem A varð fyrir er skyggnið féll niður. Hér virðist þetta einnig liggja nokkuð ljóst fyrir, með athafnaleysi sínu bakaði R sér skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með einföldum og viðeigandi ráðstöfunum gegn augljósri hættu. Enda væri það alþekkt að á tónleikum og líkum samkomum reyndi fólk og þá sérstaklega börn og unglingar að komast nær flytjendum. Var ekki tekið tillit til þeirra raka R að ekki hefði verið ástæða til að ætla að fólk færi út á skyggnið, sem augljóslega væri ekki gert til að þola þunga margra manna. Yrði enda að fallast á að þó fullorðnir gerðu sér grein fyrir þessu er dómgreind barna og unglinga ekki sú sama. Hrd. nr. 166/2002 Á nýársdag 1997 var Ó að leika sér ásamt félögum sínum á brennustæði áramótabrennu F sunnan Fylkis vallar í Árbæjarhverfi. Var hann á gangi við brennuna þegar hann festi sig í vír í kanti hennar og datt við það inn í brennuna og sökk í efnið sem enn kraumaði í. Brann Ó á báðum fótum og fingrum beggja handa ásamt því að föt hans eyðilögðust. Var hann fluttur á slysadeild þar sem búið var um sárin en síðar kom í ljóst að sýking hafði komist í þau og var hann þá lagður inn á Landspítalann þar sem hann lá í tvær vikur áður en hann útskrifaðist. F hafði fengið leyfi til brennunnar með því skilyrði að ábyrgðarmaður yrði viðstaddur meðan brennan logaði og uns öll hætta af henni væri liðin hjá. Var J ábyrgðarmaður brennunnar. Stefndi Ó þeim F og J og krafðist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann hafði orðið fyrir. J hafði verið kunnugt um að glóð hefði verið í brennunni eftir hádegi á nýársdag og að börn væru þar að leik. Honum hefði því átt að vera hættan ljós og bar sem ábyrgðarmanni brennunnar að sjá til þess að gæsla væri við brennuna eða grípa til annarra varúðarráðstafana til að afstýra þessari hættu, hefði hann með vanrækslu sinni sýnt af sér gáleysi ásamt því að rjúfa skilyrði brennuleyfisins. Bæri hann þessvegna ásamt F sem leyfishafanum, bótaábyrgð á tjóni Ó. Mat Hæstiréttur það þó svo að Ó, sem var 9 ára þegar tjónið varð, hefði sýnt af sér nokkuð gáleysi með því að ganga í brennuleifunum þar sem honum hefði átt að vera hættan af því ljós. Þótti í ljósi þess hæfilegt að hann bæri þriðjung tjónsins sjálfur. Ef við berum þennan dóm saman við Brauðbakkadóminn hér á undan sést að um leið og tjónþoli er talinn hafa sýnt af sér gáleysi sjálfur og þar með átt ákveðinn þátt í þeirri atburðarás sem leiddi til tjóns þá er það metið honum til miska og hann gerður meðábyrgur fyrir eigin tjóni, jafnvel þó að óumdeilt sé að tjónvaldur hafi með vanrækslu eða athafnaleysi sínu orðið þess valdandi að hann lenti í þessum varhugaverðu aðstæðum. Það er almenn regla í skaðabótarétti að tjónþola beri að sýna fram á að hann hafi gert allt sem í hans valdi stendur til þess að takmarka tjón sitt. Ef aðili sem verður fyrir tjóni vanrækir að gera ráðstafanir til þess að takmarka tjón sitt, þá getur það orðið þess valdandi að skaðabætur verða lækkaðar að því leyti sem tjón er afleiðing vanrækslu tjónþola. Eins og gert er í þessu máli Reglan um öfuga sönnunarbyrði Þessi dómur er áhugaverður að því leyti að hér beitir dómurinn sakarlíkindareglunni svokölluðu sem áður hefur verið minnst á, leggur dómurinn þá skyldu á tjónvald að sýna fram á að aðgerðir eða aðgerðaleysi hans sé ekki ástæða tjóns. Þá þurfum við aðeins að skoða reglur um sérfræðiábyrgð. Hrd. nr. 317/2005 Í þessu máli var krafist viðurkenningar á bótaskyldu Í vegna tjóns sem A varð fyrir í kjölfar sýkingar í baki sem starfsfólki Í yfirsást að greina og veita meðferð við í framhaldi af upplýsingum sem komu fram í niðurstöðum beinaskanns í desember 1997. Með bréfi í júlí 1998 kvartaði A til Landlæknisembættisins þar sem hún taldi að athafnaleysi lækna Í hefði verið orsök þess að veikindi hennar urðu jafn alvarleg og raun bar vitni og að það hefði mátt koma í veg fyrir þau. Í var þessu ekki sammála og taldi að A hefði fengið vandaða læknismeðferð og skilyrðum bótaábyrgðar því ekki verið fullnægt. Ekkert orsakasamhengi hafi verið milli athafna eða athafnaleysis starfsmanna Í og meints tjóns A. Þá hafi heldur ekki verið fullnægt skilyrðum bótareglna um sök og ólögmæti. Reisti Í sýknukröfu sína á því að ósannað væri að A hafi hefði haft sýkingu í baki 2. desember 1997. Ekkert samband væri milli ástands hennar á þeim tíma og sýkingar þeirrar, sem greinst hafi í mars 1998. Því hefði engin yfirsjón orðið af hálfu starfsmanna Í sem leitt geti til þess að sönnunarbyrði yrði felld á hann í málinu en í héraðsdómi hafði verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði aflað frekari gagna um þá upphleðslu í baki A, sem fram kom við rannsókn í desember 1997. Sýkingin, sem greindist og var upprætt í mars 1998, gæti hafa verið blóðborin og myndast 37 Arnljótur Björnsson. (1999), bls. 130. mjög hratt, en það yrði ekki talið sannað. Sýkinguna hefði sennilega mátt sjá í desember 1997, hefði verið gripið til viðeigandi rannsókna. Sönnunarbyrði um að svo hafi ekki verið var lögð á Í, þar sem eðlileg viðbrögð í desember 1997 hefðu að líkindum leitt til þess að betri vitneskja lægi fyrir um upphleðsluna og hvort þar hafi verið um sýkingu að ræða. Þar sem sú sönnun tókst ekki, yrði við það að miða að sýkinguna hefði mátt uppræta þegar í desember 1997. Áfrýjandi hefur ekki leitað mats dómkvaddra manna eða lagt fram önnur gögn til þess að hnekkja þessari niðurstöðu héraðsdóms og var hann því látinn standa og bótaskylda Í gagnvart A staðfest. Það er tvennt eftirtektarvert í þessum dómi, annarsvegar að nýtt var heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita eingöngu viðurkenningar skaðabótaskyldu Í og hinsvegar er það beiting reglunnar um öfuga sönnunarbyrði, sakarlíkindareglunnar. Í máli þessu var það talið allt eins líklegt að sýkingin sem A varð fyrir hafi verið blóðborin sýking sem myndast hafi mjög hratt og hafi ástand A á þessum tíma veitt einhverjar líkur fyrir því. Var annar hvor kosturinn ekki talinn líklegri en hinn og sönnunarbyrði þess efnis lögð á hendur Í. En afhverju er þessari reglu beitt hér? Til að skoða það verðum við að skoða reglur um sérfræðiábyrgð. Tjónþoli þarf almennt að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og að það tjón sé tilkomið vegna skaðabótaskyldrar háttsemi tjónvalds og að orsakatengsl séu milli háttsemi hans og tjónsins. |
Jónsson KO, Agnarsson UÞ, Danielsen R, Þorgeirsson G. Lungnasegarek á Landspítala 2005-2007-nýgengi, birtingarmynd, áhættuþættir og horfur. Læknablaðið 2013; 99: 11-5. 2. Guðmundsson T, Guðmundsson G, Kjartansson O. Tölvu sneiðmyndir af lungnaslagæðum: ofnotuð rannsókn? Læknablaðið 2006; 92: fylgirit 52: 24-5. 3. Vangaveltur skurðlæknis að lokinni vel heppnaðri ráðstefnu HÍ um rannsóknir í líf-og heilbrigðisvísindum Í byrjun árs fór fram í Öskju 13. ráðstefnan um rannsóknir í líf-og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Ráðstefna þessi hefur verið haldin annað hvert ár frá 1981, fyrst á vegum læknadeildar, en frá árinu 2003 einnig með þátttöku tannlæknadeildar, og lyfjafræðideildar og hjúkrunarfræðideildar frá árinu 2005. Ég hef aðeins átt þess kost að taka tvisvar þátt í ráðstefnunni, enda lengst af verið fjarri góðu gamni við nám og störf erlendis. Það er óhætt að segja að þessi ráðstefna hafi komið mér þægilega á óvart og hún er aðstandendum til sóma, bæði hvað varðar vísindalegt innihald og skipulag. Alls voru kynnt á ráðstefnunni hátt á þriðja hundrað erinda og voru flest flutt með sjö mínútna löngum erindum og þriggja mínútna umræðna á eftir. Þetta fyrirkomulag reyndist ágætlega. Stutt erindi gerðu fleirum kleift að halda fyrirlestra um rannsóknir sínar en fyrirlestrar voru yfirleitt mjög vel sóttir. Rúmlega 100 erindi voru kynnt sem veggspjöld og nutu þau sín ágætlega á veggjum Öskju. Þó hefði ekki sakað ef veggspjöld hefðu verið kynnt með formlegri hætti, líkt og algengt er á ráðstefnum erlendis. Þetta er til dæmis hægt að gera með því að skipuleggja göngu á milli áhugaverðustu veggspjaldanna, höfundar látnir kynna þau og þeir síðan spurðir spjörunum úr. Skipuleggjendur ráðstefnunnar gætu haft þetta í huga að ári. Gestafyrirlestrar voru einnig áhugaverðir og var komið víða við innan heilbrigðisvísinda, allt frá erfðafræði algengra sjúkdóma til forvarna gegn þunglyndi. Þessi fjölbreytni fyrirlestra er skemmtileg tilbreyting frá þeirri þróun sem orðið hefur innan læknisfræðinnar og leitt hefur af sér sífellt meiri sérhæfingu og þrengingu fræðasviða. Fjölbreytni er einmitt helsti styrkur svona þings og það er ekki á hverjum degi sem okkur spítalalæknum gefst kostur á að kynna rannsóknir okkar fyrir kollegum í óskyldum sérgreinum og grunnrannsóknum, eða að þeir fái að kynna rannsóknir sínar fyrir okkur. Umræður taka á sig fjölbreyttari mynd og möguleikar opnast á alls konar samstarfi. Ánægjulegast á þinginu var þó að verða vitni að gróskunni í doktorsnámi við þessar deildir Háskólans. Sex doktorsnemar kynntu rannsóknir sínar en þau höfðu öll hlotið styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands á síðasta ári. |
Dreifing sjóvatns og salts á Akureyri í baráttu gegn svifryki hefur haft áhrif á ferfætlinga. Dýralæknir mælir með þvotti eftir göngutúra til að forðast særindi.
Loftmengun hefur ítrekað mælst yfir hættumörkum á Akureyri í haust. Bærinn hóf því að dreifa saltblönduðum sjó á götur Akureyrar til rykbindingar, eins og sagt hefur verið frá. Þessar aðgerðir virðast hafa skilað árangri því engin svifryksmengun hefur mælst.
Þeirri aðgerð fylgdi það hins vegar að götur bæjarins breyttust í drullusvað. Ástandið varð reyndar svo slæmt að bænum var líkt við mýrarboltavöll á Ísafirði. Mikillar óánægju hefur gætt meðal bæjarbúa sem boðuðu til borgarafundar um helgina.
Saltið geti valdið óþægindum
Dýraeigendur lýstu yfir áhyggjum í kjölfar aðgerðanna. Birtar hafa verið myndir af skítugum hundum og þónokkrir hafa sagst halda dýrunum inni við. Elfa Ágústsdóttir dýralæknir sagði í samtali við fréttastofu í dag að hún hefði fengið þónokkuð af hringingum frá dýraeigendum sem hefðu áhyggjur af því hvaða áhrif drullan og saltið hefði á dýrin. Hún hafi þó ekki þurft að meðhöndla dýr vegna þessa.
Elfa segir saltið geta valdið dýrunum óþægindum. Það geti valdið þurrki og særindum í loppum. Það geti grjót og sandur sem sé borinn á göturnar líka gert. Hún segir mikilvægt að þrífa dýrin um leið og heim sé komið, fái saltið og drullan að þorna í feldinum geti það valdið kláða og óþægindum. Þvottur sé reyndar alltaf mikilvægur, það sé aldrei gott fyrir dýrin að vera skítug. |
Áframhaldandi vonskuveðri er spáð á norðvestanverðu landinu í dag og appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og við Breiðafjörð. Vegir eru víða lokaðir en ekkert ferðaveður er á svæðinu vegna skafrennings, éljar og lélegs skyggnis. Gular viðvaranir eru í gildi í öðrum landshlutum og verða fram eftir miðnætti í nótt.
Veðrið hefur náð hámarki í dag
Búist er við því að vindhviður fari upp í 40 metra á sekúndu og hætta er á foktjóni. Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir vind þegar hafa náð hámarki á landinu. „Það er að fjara úr þessu núna og þá er það aðallega snjókoman sem er til trafala,“ segir Daníel, í samtali við Fréttablaðið.
Það er þó ekki þar með sagt að veðrinu slúti á næstu klukkutímum en viðvaranir eru í gildi á Norðvesturlandi til klukkan 15:00 á morgun. „Veðurhamurinn fer hægt og rólega minnkandi í nótt, það tekur tíma fyrir norðanáttina að ganga niður.“
Hér má sjá viðvaranir Veðurstofunnar.
Mynd/Veðurstofa Íslands
Hættustig en í gildi á Vestfjörðum
Ekki liggur fyrir hvenær hættu- og óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum verður létt. „Ástandið þar lagast ekkert fyrr en veðrinu slotar þar sem það dregur ekkert úr vandamálunum fyrr en hættir að snjóa á svæðinu.“
Iðnaðarhúsnæði var rýmt á Ísafirði í gær og þá er engin starfsemi er í sorpmóttökunni Funu í Skutulsfirði vegna snjóflóðahættu. Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir lífið í bænum þrátt fyrir það ganga sinn vanagang. „Önnur starfsemi bæjarins er eins og hún á að sér að vera og viðvaranirnar hafa aðeins áhrif á iðnaðarsvæðið,“ segir Tinna í samtali við Fréttablaðið. |
Sátt hefur tekist milli þingflokka um þingfrestun á laugardag. Annarri umræðu um frumvarp um Ríkisútvarpið verður lokið í kvöld eða nótt en þriðju umræðu verður frestað fram yfir áramót. Önnu mál verða afgreidd á morgun og laugardag.
Samkomulag náðist í nótt milli forseta þingsins og þingflokka um þinglok. Ríkisstjórnin stefndi að því að frumvarp um Ríkisútvarpið yrði að lögum fyrir jól en samið var um að ljúka annarri umræðu um það í kvöld eða nótt og taka svo þriðju umræðu um leið og þing kemur saman á ný um miðjan janúar og verður það þá eina málið á dagskrá þingsins.
Sólveig Pétursdóttir, forseti þingsins (D): Og niðurstaðan er það að við munum ljúka hér þingstörfum, líklega síðdegis á laugardaginn og klára þá afgreiðslu allra mála.
Samfylkingin kynnti afstöðu sína til frumvarpsins um Ríkisútvarpið í morgun en formaður hennar vill að tíminn fram að þriðju umræðu verði vel nýttur.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar (S): Það er bara tilboð af okkar hálfu að það verði settur niður hópur, fulltrúa stjórnmálaflokkanna, til þess að freista þess að ná sáttum um Ríkisútvarpið því að ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt.
Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna: Frumvarpið um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins verður ekki að lögum á þessu ári eins og að var stefnt. Ég er að sjálfsögðu og við öll ánægð með þá niðurstöðu.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir: Það hefur náðst samkomulag um að ljúka annarri umræðu um frumvarp um Ríkisútvarpið núna fyrir jól og svo þriðja umræða í janúar. Eru það vonbrigði að þetta skyldi ekki verða að lögum núna?
Geir H. Haarde, forsætisráðherra (D): Já, það má segja það en við náttúrulega ætlum okkur að klára þetta mál og þetta verður fyrsta málið í janúarmánuði og við munum bara ljúka því þá. Vonandi eitthvað í kringum tuttugasta.
Jóhanna: En þetta samkomulag um að ljúka þingstörfunum núna, ertu sáttur við þau?
Geir H. Haarde: Já, að öðru leyti er ég mjög sáttur við þetta. Þetta er mjög gott að við getum haldið okkur hér nokkurn veginn við starfsáætlun þingsins.
Jóhanna: Eru þetta vonbrigði?
Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra (B): Í sjálfu sér eru þau það en við verðum auðvitað að hafa það í huga að það eru mörg önnur mál sem verið er að ræða og við viljum auðvitað tryggja það eftir öllum föngum að umfjöllunin sé vönduð og það að gefist tími í að fara rækilega yfir mál og það er skýringin á þessu. |
„Það er engin sem er að missa sig í gleðinni yfir því að vera komin á EM þó það sé þægilegt að geta sagt að við séum komnar en ekki vera alltaf að pæla í þessu.“
Þetta segir Hallbera G. Gísladóttir, bakvörður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í viðtali við Vísi á æfingu liðsins í Laugardalnum hádeginu.
Stelpurnar eru komnar á EM eftir sigur á Slóvenum á föstudaginn en á morgun klukkan 17.00 mæta þær Skotum í leik upp á sigur í riðlinum. Ísland vann Skotland, 4-0, í fyrri leiknum ytra sem fór ekki vel í skoska liðið.
Sjá einnig: Skotarnir aftur með stæla: „Þú getur rétt ímyndað þér hvernig þetta fer í okkur“
„Skotar tala um að þetta hafi verið slæmur dagur hjá þeim og heppni hjá okkur að vinna þær 4-0 úti í Skotlandi. Okkur langar að sýna þeim að þetta var engin tilviljun,“ segir Hallbera, en nú ætlar besti leikmaður Skota ekki einu sinni að mæta til leiks.
„Það er skrítin ákvörðun hjá þeim en bara eitthvað sem þau verða að eiga við sig. Það koma samt sterkir leikmenn inn þannig að við ætlum bara að einbeita okkur að leiknum sama hver spilar,“ segir Hallbera.
„Það kemur góð stelpa inn fyrir þennan miðvörð sem dró sig út úr hópnum hjá þeim alveg eins og hjá okkur. Harpa er dottin út en þá stígur bara restin af liðinu hjá okkur upp og ég býst við því sama hjá þeim,“ segir Hallbera Gísladóttir.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan. |
Ákvörðun breska ríkisútvarpsins BBC um að taka þátt úr þáttaröðinni „Hótel Tindastóli“ (e. Fawlty Towers) úr sýningu er „huglaus, duglaus og fyrirlitleg“, að mati Johns Cleese, gamanleikarans sem fór með aðalhlutverkið í þáttunum. Þátturinn var fjarlægður úr efnisveitu BBC vegna kynþáttaníðs sem ein persónan hefur uppi.
BBC segir að þátturinn „Ekki minnast á stríðið“ frá 1975 hafi verið tekinn úr sýningu tímabundið á meðan farið væri yfir efni hans í ljósi kynþáttaníðs sem í honum er að finna. Slíkt sé reglulega gert með eldra efni, sérstaklega hvað varðar úr sér gengið orðfæri.
Cleese fordæmdi ákvörðun BBC á Twitter í dag. Sagði hann BBC nú stjórnað af markaðsfólki og smámunasömum skriffinnum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.
„Ég hefði viljað vona að einhver hjá BBC skildi að það er tvær leiðir til að gera grín að mannlegri hegðun. Önnur er að ráðast beint á hana. Hin er að láta einhvern sem er augljóslega grínfígúra tala fyrir slíkri hegðun,“ tísti gamanleikarinn.
Fjölmiðlar og skemmtikraftar víða um heim hafa endurskoðað eldra efni sitt í kjölfar mikilla mótmæli í Bandaríkjunum og víðar eftir dauða George Floyd. Þannig fjarlægði HBO Max kvikmyndina „Á hverfanda hveli“ úr streymisveitunni vegna þess hversu ólíkir kynþættir eru sýndir í henni. Þá kippti BBC gamanþáttaröðinni „Litla Bretland“ úr sýningum og vísaði til „breyttra tíma“. |
Á síðasta ári seldi fyrirtækjasamstæða Renault, Nissan og Mitsubishi 10.608.366 bíla, 6,5% fleiri en 2016 og skýrist aukningin aðallega af vaxandi eftirspurn eftir jepplingum, litlum sendibílum og hreinum rafbílum. Carlos Ghosn, forstjóri og stjórnarformaður Renault-Nissan- Mitsubishi, segir að heildarsalan á síðasta ári hafi skipað fyrirtækinu í fyrsta sæti á lista söluhæstu bifreiðaframleiðendanna á árinu.
Samstæðan samanstendur af tíu bílaframleiðendum: Renault, Nissan Motor, Mitsubishi Motors, Dacia, Renault Samsung Motors, Alpine, Lada, Infiniti, Venucia og Datsun. Stærsti markaður samstæðunnar á síðasta ári var Kína þar sem 1.719.815 bílar voru seldir. Fast á hæla Kína fylgdu Bandaríkin með einungis 22.666 færri bíla. Söluhæsti einstaki framleiðandi samstæðunnar var Nissan Motor sem seldi 5.816.278 bíla. Þá kom Renault Group með 3.761.634 bíla og þá Mitsubishi Motors með alls 1.030.454 bíla.
Helstu driffjaðrir samstæðunnar eru hreinir rafbílar fyrirtækjanna þar sem vaxandi eftirspurn er á öllum helstu mörkuðunum, ekki síst í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu og seldust alls 91 þúsund fleiri rafbílar á síðasta ári en 2016. Alls hefur samstæðan selt 540.623 rafbíla frá því í desember 2010 þegar Nissan Leaf kom fyrst á markað en hann er söluhæsti einstaki rafbíll heims með yfir 300 þúsund selda bíla.
Sala á nýrri kynslóð Leaf er að hefjast um þessar mundir og hafa rúmlega 40 þúsund aðilar í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan lagt inn pöntun á nýja bílnum, þrettán þúsund í Japan, jafn margir í Bandaríkjunum og rúmlega 12 þúsund í Evrópu, þar af rúmlega 130 hjá BL, þar sem bíllinn verður kynntir í apríl.
Samkvæmt áætlun samstæðunnar til 2022 verða 12 nýir mengunarlaustir bílar kynntir á tímabilinu og 40 bílgerðir með sjálfakandi tækni. Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir slíkum bílum auki heildarsölu samstæðu Renault, Nissan og Mitsubishi verulega og að í árslok 2022 verði heildarsala samstæðunnar orðin um 14 milljónir bíla á ári. |
Jæja vinur, þá er þinni ferð lokið. Það er víst sama hversu mikil lífsþrá okkar er, jarðvist okkar endar, sem betur fer. Ég veit ekki hvernig blessað lífið væri, ef hér í Eyjum væru margir íbúar ríflega þúsund ára gamlir. Við hefðum samt haft gaman af því að spekúlera í því og útfæra það í smásögu, elsku kallinn minn. Við skrifum víst ekki fleiri slíkar, í bili. Þú kvaddir daginn eftir fimmtugsafmælið þitt. Það þykir ekki löng vist í mannheimum, en í þínu tilfelli var það að mörgu leyti kraftaverk. Til hamingju með það vinur. Það sló í þér stórt og sterkt hjarta. Sem barðist, þó lífið hafi lamið þig.
Við ólumst upp á sömu torfunni. Þú á Rafnseyri og ég á Hjalla. Við vorum vinir. Í minningunni eru margir dýrðardagar með uppátækjasömum ólátabelgjum, í stöðugri leit að ævintýrum, gulli og grænum skógum, í iðandi mannlífi. Sólin skín þessa daga í minningunni. En því miður ekki á alla. Þú fékkst í vögguna dóminn. Þú áttir að glíma við matarfíkn og offituvanda. Það var sjaldgæft og ekki auðvelt á þeim árum sem við slitum barnsskónum í miðbæ í Vestmannaeyja. Að vera feitur, seinn og silalegur var á þessum árum ávísun á mikið miskunnarleysi, gríðarlega árás umhverfisins á veikan einstakling.
Hrottalegt einelti. Þá var ekki búið að finna upp það orð. Ég man eftir dögum sem vanþroskaðir kvalarar beittu þig gríðarlegu ofbeldi, líkamsmeiðingum og svo var sjálfsagt að láta þig borða úr ruslatunnum, þú varst jú feitur, það þurfti að lækna þig. Vinur minn, það nísti merg og bein að horfa á aðfarirnar og hafa ekki alltaf haft kjark til að grípa inn í. Ég var tveimur árum yngri en þú og kvalararnir yfirleitt miklu eldri. Sumir virðulegir borgarar í dag. Það var þó erfiðast af öllu að átta sig á því þegar ég fylgdi þér heim grátbólgnum eftir mjög slæma útreið, að ekki var skjól heima. Ekkert var dapurlegra. Það er þekkt að þolendur ofbeldis af þessu tagi verði á einhverjum tímapunkti gerendur, kannski kom það fyrir þig. Ég sá það aldrei. Kæri vinur, það er gott að fyrirgefa. Þú ólst upp í miklum ótta. Hann setti mark sitt á líf þitt. Fyrirgefningin er lausn.
Þú fékkst ekki bara veikleika í vögguna. Langt því frá. Þvílíkar Guðs gjafir voru í þig bornar. Listrænir hæfileikar. Tónlist, leiklist, myndlist, stórkostleg rödd, skáldgáfa, falleg rithönd og einstakur húmor. Það var sama hvaða hljóðfæri þú snertir, öll sendu frá sér fallega hljóma. Við Viktor bróðir eigum margar ógleymanlegar stundir úr kjallaranum á Rafnseyri.
Við komum oft þegar við vorum þunnir. Hlustuðum fyrst á stórkostlegar ræður frá þér, sem sjálfur varst bindindismaður á áfengi alla tíð, um ólánið og heimskuna sem áfenginu fylgja. Við hlógum okkur alveg máttlausa, svo fengum við frábæra tónleika. Þú spilaðir á hljómborðið og söngst fyrir okkur. Fáar skemmtanir sem ég hef í lífinu sótt, hafa Gústi minn, slegið þeim við sem ég sótti í kjallarann á Rafnseyri. Það gladdi þig mikið þegar við bræðurnir settum tappann í flöskuna, fyrst Viktor, svo ég. Sú gleði var sönn. Þú hafðir rétt fyrir þér.
Mörg börn eru lánsöm, njóta leiðsagnar og hvatningar til þess að virkja hæfileika sína. Þannig var það ekki í þínu tilfelli. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig forráðamaður barns sem býr yfir jafn ríkum hæfileikum og þú bjóst yfir, Gústi minn, getur ekki heillast af þeim og nært þá, heldur ákveður að brjóta þá niður. Af hvaða hvötum spratt sú afstaða? Hver af höfuðsyndunum var á ferðinni? Það er mín skoðun, kæri vinur, að þessi dapurlega staðreynd ásamt einelti og stöðugum ótta, hafi dregið úr þér viljann og rænt þig framkvæmdamættinum. Hafi í raun skert sjálfsmynd þína alvarlega og starfsorku varanlega. Það þroskast enginn eðlilega úr svona jarðvegi. Því svo sannarlega áttirðu erfitt með að fóta þig í lífinu og finna þína fjöl. Því verður ekki neitað. En það átti sér aðrar skýringar en þá að þú værir ræfill, þó sú skoðun væri nokkuð ríkjandi. Enda mun betra og einfaldara en að flytja einhverja ábyrgð á samfélagið.
Stundin sem þú fannst fyrst alvarlega fyrir sjúkdómnum sem herjaði á þig er mér í fersku minni. Þegar þú misstir máttinn í fótunum á gangi með mér og Viktori bróður. Við þurftum að bera þig og leggja þig til í bílnum. Frá þeirri stundu breyttist líf þitt og ekki löngu seinna hafði þessi óværa rænt þig bæði fótum og höndum. Það var eitt svolítið merkilegt þegar þú hafðir misst máttinn, orðinn bundinn við hjólastól, hvað margir héldu að þú værir hreinlega að leika, plata.
Ég veit ekki um neinn annan sem hefur hlotið þann dóm að verða bundinn við hjólastól, sem sagt hefur verið um að hann sé að leika eða plata, til þess að fá umönnun. Yfirleitt er fólki sýnd hluttekning. Sem betur fer. En það segir mikið um stöðu þína og hug samfélagsins til þín. Sautján ára baráttu háðir þú við þennan draug. Það var sannarlega þrautseigja, vinur.
Í þessum kveðjuorðum verð ég að minnast á smásögurnar sem við skrifuðum. Tíminn sem við sátum tveir við skriftir voru okkar bestu stundir. Við grétum oft af hlátri og gleði meðan við settum saman sögu fyrir skemmtun, góða stund á þjóðhátíð eða til heiðurs góðum félaga. Manstu hvað við gátum orðið hissa á því hvað fólk gat skemmt sér yfir þessu. Þetta bull okkar. Meiriháttar undarlegt. Sannleikurinn er hins vegar sá, Gústi minn, að þú fluttir sögurnar snilldarlega. Frábær rödd og þú varst alltaf svo næmur fyrir salnum.
Tvo vetur skrifuðum við sögur sem fluttar voru fyrir fullu húsi í Harlem á þriðjudagskvöldum kl. 22. Ég efast um það, vinur minn, að það eigi sér hliðstæðu. Sögustund á virkum degi, fullt hús og allir bláedrú. Það var alltaf á planinu að þú læsir inn á disk sögur eftir okkur. Það er mín sök að það hefur ekki verið gert. Ég gleymdi mér í amstri hversdagsins og frestaði stöðugt verkefninu, þrátt fyrir að ég gerði mér grein fyrir því að brugðið gæti til beggja hjá þér. Ég vona að þú fyrirgefir mér það vinur, þetta verður mér lærdómur. Lífið er oft erfiður skóli.
Jæja kallinn. Þú ert á góðum stað. Það er ég viss um. Ef þeir sem þjást eins og þú hefur þurft gera í jarðvistinni, eiga ekki vísan stað í himnavistinni, þá er eitthvað bogið við það sem boðað er. Það er á hreinu. Hann hlýtur að vera hvítur flygillinn sem þú spilar á í dag. Ég vona að ég fái að njóta aftur tónleika hjá félaga mínum, líkum þeim sem ég sótti í kjallaranum á Rafnseyri fyrir mörgum árum. Nú geturðu loksins rólegur hallað höfði. Friður sé með þér, vinur minn.
Guð blessi þig, Rósa mín, og varðveiti vel á ókomnum tímum. Þinn missir er mikill. Hún verðskuldar mikla virðingu, einstök umönnun þín og stuðningur við mikið sjúkan eiginmann. Hún er djúp og hrein ástin sem færir slíka fórn.
Páll Scheving Ingvarsson |
Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að framgangur hafi orðið í rannsókninni um hvarf Birnu Brjánsdóttur við að yfirheyra mennina tvo sem handteknir voru um hádegisbil í gær og aðra skipverja. Líka við að leggja hald á gögn í Polar Nanoq og rannsókn á þeim. „Þeir menn sem hafa verið handteknir tengjast þeim bíl sem við erum að rannsaka,“ sagði Grímur í Kastljósi í kvöld. Hann segir lögreglu telja að það sé sami bíll og sést hafi á Laugavegi.
„Okkur grunar að hún hafi farið upp í þennan rauða bíl en við sjáum það ekki á þeim gögnum sem við höfum,“ sagði Grímur um Birnu.
Mikið hefur verið rætt um fólk sem sést á gangi á Laugavegi í myndum úr öryggismyndavélum af för Birnu Brjánsdóttur upp götuna. Einnig um menn sem sjást hlaupa framhjá Macland skömmu síðar, annan upp Laugaveginn og hinn niður. Grímur segir þetta fólk ekki tengjast málinu.
Það er misskilningur ef fólk heldur að sjómennirnir tveir sem eru í haldi lögreglu hafi verið fótgangandi eða hlaupandi á Laugavegi skömmu áður, sagði Grímur og kvaðst ekki vera að reyna að snúa út úr þegar hann segði: „Fólk sem hleypur fyrir framan myndavél er ekki endilega hluti af einhverri saknæmri eða refsiverðri háttsemi.“ Hann sagði lögreglu gruna að mennirnir sem eru í gæsluvarðhaldi hafi verið í þeim rauða bíl sem sést ekið eftir Laugavegi skömmu eftir að Birna sást síðast. Lögreglu grunar einnig að sá bíll sé sá sami og er í haldi lögreglu og handteknu mennirnir tveir tengjast. |
Tungumálaerfiðleikar setja mark sitt á daglega starfsemi á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík þar sem starfsmenn koma frá tuttugu löndum. Samskipti manna á milli eru samt afar góð og til að bæta þau enn frekar er haldinn alþjóðlegur dagur.
Á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ er 81 heimilismaður og 150 starfsmenn, margir þó í hlutastarfi. Þriðjungur starfsmanna kemur annars staðar frá en Íslandi og alls frá 20 þjóðlöndum. Það hljóma því mörg tungumál á göngunum í Skógarbæ. Hátíð var svo haldin í dag þar sem fólk kom og kynnti sína menningu á ýmsan hátt, meðal annars í mat. Hátíðin er haldin til að þjappa fólki saman.
Hrefna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Skógarbæjar: Fólk hefur kannski ekki tækifæri á hverjum degi í vinnunni að svona kynnast hvort öðru nema svona að takmörkuðu leiti. Og þetta, þetta opnar svona meiri kannski möguleika þá að spjalla saman og kynna, kynna sína menningu og í rauninni bara að sýna það að okkur þykir vænt um þau og við viljum kynnast þeim.
Sabri Dzeladini, sjúkraliði: Það er frábært að vinna hérna. Samstarfsfólk sem vinnur hérna hefur mikið þolinmæði fyrir okkur sem erum frá öðrum löndum á erlendum uppruni. Og það er mjög gott að vinna á stöðum sem fólk gefur okkur tillitsemi.
Iheoma Ndunaga, hjúkrunarfræðingur: Heimilisfólk, mjög gaman að vinna og starfsfólk mjög gott.
G. Pétur Matthíasson: En íslenskan, er hún erfið?
Iheoma Ndunaga: Íslensk mjög erfitt.
Sabri Dzeladini: Stundum getur verið erfitt fyrir mig líka að gefa að skilja til dæmis ensku sem tala einhver frá Tælandi, einhver frá Filippseyjum, einhver frá Afríku.
G. Pétur: Hvernig gengur að reka staðinn með svona, fólk frá svona mörgum þjóðlöndum?
Hrefna Sigurðardóttir: Ja það væri ekki rétt ef ég segði að það væri auðvelt. En það, það gengur samt ótrúlega vel. |
FH vann 1-2 útisigur á Val í stórleik 32-liða úrslita Mjólkurbikars karla í kvöld.
FH-ingar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum, 0-1. Jákub Thomsen skoraði markið á 29. mínútu. Hann batt þá endahnútinn á frábæra sókn gestanna.
Valsmenn voru álíka slakir í fyrri hálfleik og gegn Víkingum á föstudaginn og fóru ekki almennilega í gang fyrr en staðan var orðin 0-2.
Atli Guðnason skoraði annað mark FH á 61. mínútu eftir sendingu frá Thomsen sem átti frábæran leik í framlínu Fimleikafélagsins.
Birnir Snær Ingason minnkaði muninn á 69. mínútu, nýkominn inn á sem varamaður, en nær komst Valur ekki. FH réði ágætlega við tilviljanakenndar sóknir heimamanna og vann á endanum sanngjarnan sigur, 1-2.
FH hefur unnið báða leiki sína það sem af er tímabili á meðan Íslandsmeistarar Vals eru án sigurs.
Af hverju vann FH?
FH-ingar spiluðu frábærlega fyrstu 35 mínútur leiksins, héldu boltanum vel og ógnuðu Valsvörninni sem hefur verið óörugg í byrjun tímabils.
Fyrsta markið kom FH í bílstjórasætið og liðið virtist aldrei líklegt til að missa forskotið. Valur átti sínar sóknir en þær voru flestar hverjar aumar og tilviljunum háðar.
Eftir annað markið lögðust FH-ingar aftar á völlinn og héldu Valsmönnum í skefjum, fyrir utan markið sem Birnir skoraði. Það dugði heimamönnum þó skammt.
Hverjir stóðu upp úr?
Jákub var frábær í liði FH, skoraði og lagði upp og leiddi framlínuna. Færeyingurinn er flottur leikmaður og FH-ingar eru í góðum málum ef hann fer að skora reglulega.
Jónatan Ingi Jónsson var mjög frískur á hægri kantinum og Atli átti góðan leik á þeim vinstri. Þá voru miðverðir FH, Guðmann Þórisson og Guðmundur Kristjánsson, öflugir. Bakverðirnir, Pétur Viðarsson og Hjörtur Logi Valgarðsson, léku líka vel og sá síðarnefndi lítur mun betur út en á síðasta tímabili.
Hvað gekk illa?
Líkt og gegn Víkingi var pressa Vals mjög ómarkviss og FH átti ekki í miklum vandræðum með að leysa hana.
Valur er með nýja framlínu og það er eins og liðið sé enn að venjast henni. Valsmenn treystu full mikið á langa bolta fram á Gary Martin og betri tengingu vantaði milli miðju og sóknar.
Hvað gerist næst?
Valsmenn fara norður og mæta KA í 2. umferð Pepsi Max-deildarinnar á sunnudaginn. Degi síðar sækja FH-ingar Víkinga heim.
Ólafur: Daprir í fyrri hálfleik
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var hvorki sáttur með úrslitin né spilamennskuna í leiknum gegn FH.
„Þetta er svekkjandi, mjög svekkjandi að vera dottnir út úr bikarnum,“ sagði Ólafur eftir leik.
Líkt og í leiknum gegn Víkingi R. á föstudaginn var fyrri hálfleikurinn slakur hjá Val.
„Við vorum daprir í fyrri hálfleik en skárri í seinni hálfleik,“ sagði Ólafur um leikinn í kvöld.
„Þetta var ekki framför frá síðasta leik því við töpuðum núna en gerðum jafntefli síðast,“ bætti hann við, sposkur á svip.
Íslandsmeistararnir fara illa af stað og eru án sigurs í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.
„Við þurfum að líta í eigin barm og athuga hvort það geri eitthvað,“ sagði Ólafur að lokum.
Ólafur: Réðum vel við háu boltana þeirra
„Ég er mjög sáttur með þennan sigur. Bikarinn gengur út á það að slá andstæðinginn út og komast áfram. Það var geggjað að fá Val í 32-liða úrslitum og það er frábært að vera komnir áfram eftir góða frammistöðu,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir sigur hans manna á Val í Mjólkurbikarnum í kvöld.
FH-ingar voru mun betri í fyrri hálfleik og stjórnuðu leiknum, eitthvað sem Ólafur var ánægður með.
„Fyrri hálfleikurinn var frábær. Við spiluðum virkilega vel, vorum rólegir með boltann og stjórnuðum hraðanum,“ sagði þjálfarinn.
„Valsararnir trufluðu okkur eðlilega aðeins í seinni hálfleik en annað markið var sætt og það sýnir karakter að landa þessu. Ég var ekki hræddur í seinni hálfleik. Þetta voru háir boltar sem við réðum vel við.“
Í upphitunarþætti Pepsi Max-markanna skaut Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, aðeins á sitt gamla lið og talaði um færeysku landsliðsmennina þrjá í herbúðum þess.
„Við spiluðum við nýliða HK og unnum þá 2-0. Þeir veittu okkur verðuga samkeppni. Við spilum við Val með okkar þrjá landsliðsmenn og vinnum þá. Ég er sáttur með það. Nú er bara að ná hópnum saman og vera klárir fyrir næsta deildarleik,“ sagði Ólafur að endingu. |
Góður hagnaður varð af rekstri Alfesca hf. (áður SÍF) á 2. ársfjórðungi rekstrarársins 2005-2006. Hagnaður eftir skatta nam 15,3 milljónum evra eða sem nemur ríflega 1,1 milljarði íslenskra króna. Heildarhagnaður á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins nam 12 milljónum evra. EBITDA á 2. ársfjórðungi nam 28,5 milljónum evra sem jafngildir 2,1 milljarði króna og 12,2% EBITDA-framlegð. Samanlögð EBITDA fyrstu sex mánuði rekstrarársins nam 30,9 milljónum evra segir í tilkynningu félagsins.
Salan á 2. ársfjórðungi nam samtals 233,7 milljónum evra sem er 4,8% hækkun milli ára. Salan fyrstu sex mánuði rekstrarársins nam 349,9 milljónum evra sem jafngildir 6,3% aukningu milli ára. Eiginfjárstaða Alfesca er traust, eiginfjárhlutfall er 39% en hafa ber í huga að efnahagsreikningur félagsins er nokkuð bólginn í kjölfar þess að aðalsölutímabili er nýlokið.
Sala á öllum helstu vöruflokkum samstæðunnar hefur verið meiri en sem nemur markaðsvexti á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins nema hvað sala frystra afurða dróst saman um 8%. Markaðshlutdeild helstu afurðaflokka félagsins styrktist á 2. ársfjórðungi. Hlutdeild laxaafurða frá Labeyrie og Delpierre nam samtals 38,4%, hlutdeild Labeyrie í andalifur (foie gras) nam 26,8%. Lyons Seafoods er með mesta markaðshlutdeild í skelfiskafurðum á markaði í Bretlandi en sala félagsins óx þrefalt meira en salan á markaðnum í heild. Bæði Farne í Skotlandi og Vensy á Spáni skiluðu metsölu á síðasta ársfjórðungi. Farne er eini birgir Tesco í Bretlandi í reyktum laxaafurðum.
Jakob Sigurðsson, forstjóri Alfesca, segist mjög ánægður með afkomu síðasta ársfjórðungs. ? Við jukum við markaðshlutdeild okkar í helstu afurðaflokkum félagsins. Samþætting í rekstri dótturfélaga hefur gengið umfram áætlanir og við sáum áframhaldandi lækkun kostnaðar og betri framleiðni auk þess sem skuldir hafa verið greiddar hraðar niður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þó er ljóst að hátt hráefnisverð á laxi verður enn áhrifavaldur á næsta fjórðungi. ?
Sala í janúar var góð og söluhorfur á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi rekstrarárs, sem hófst 1. júlí 2005, eru í takt við væntingar. Sala vegna páska verður nú á 4. ársfjórðungi (apríl til júní) og mun sala félagsins á 3. ársfjórðungi markast af því. Ekki er að vænta viðsnúnings á markaði fyrir frystar afurðir. Efling á rekstri dótturfélaga Alfesca og samþætting á rekstri þeirra hefur gengið vel. Er Alfesca því vel í stakk búið til að takast á við áframhaldandi vöxt. |
Þrátt fyrir að sumarið leiki um okkur landsmenn þessa dagana og áhyggjur hverfi um stund hjá okkur þá stinga upp kollinum fréttir um lokun og hagræðingar víða í samfélaginu. Nú ætla ég ekki að draga á nokkurn hátt úr þeim alvarleika sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífinu og nauðsyn þess að bregðast við.
Engu að síður er það mjög merkilegt að sjá ýmsar tillögur þess efnis sem verið er að vinna að nú. Stendur þar uppúr, sem dæmi, boðuð lokun fangelsisins á Akureyri sem tilkynnt var um á dögunum. Sá rekstur hefur þótt, í gegnum tíðina, hafa haft gott yfirbragð mannúðar og sem slíkur verið talinn af þeim sem til þekkja gott dæmi um betrunarúræði sem fangelsi eiga að vera.
Þá hefur það verið til fyrirmyndar að slíkur rekstur sé út á landi og þannig gefið þeim sem þurfa að afplána refsingu að gera það nær fjölskyldu. Að ógleymdu því að mikil samlegðaráhrif hafa verið með löggæslu á Akureyri sem nú hlýtur að þurfa að bæta upp með auknu fjármagni til hennar. Maður hefði haldið að allir þessir þættir yrðu til þess að skynsamlegt þætti að halda þessum rekstri áfram en svo er víst ekki.
Í þokkabót var svo exeljafnan sett upp þannig að með þeim fjármunum sem myndu sparast með lokun á Akureyri yrði hægt að gera svo margfalt meira fyrir með því að flytja störfin á suðvesturhornið. Helst minnti lýsingin mann á söguna af Jóa og baunagrasinu þar sem fræin fáu urðu að slíkum kynjum sem baunagrasið varð.
Störfin reiknuð suður
Og þarna er mergur málsins kominn svo berlega í ljós. Á síðustu árum hefur markvisst verið dregið úr þjónustu og störfum á landsbyggðinni undir merkjum reiknaðra stærða að með ólíkindum er. Á sama tíma hefur landsbyggðin ekkert slegið af þeirri miklu verðmætasköpun sem sannarlega fer þar fram fyrir þjóðarbúið og skyldi maður ætla að með henni ætti að myndast einhver innistæða fyrir því að halda úti sanngjarni grunnþjónustu sem allir íbúar ættu að njóta óháð efnahag og staðsetningu.
Þá ríma hagræðingaraðgerðir eins og þessar ekki síður illa við það stef sem stjórnvöld hafa slegið nú með störfum án staðsetningar. Það hefði farið betur að öll orkan, sem fer í þessar aðgerðir, hefði farið í að efla sókn á þeim vettvangi og gera fólki kleyft að starfa óháð staðsetningu og efla nýsköpun og klasasetur um land allt í þeim tilgangi frekar en reyna nú enn að klípa af störf út um land til að efla suðvesturhornið. Við erum nefnilega svo heppinn að þar er til staðar þensla sem þarf ekki að efla heldur gera því kleift að hún berist um landið allt.
Það þarf kjark til að breyta
Þá varð mikill stormur í fjölmiðlum nú þegar vitnaðist að ráðherra Framsóknarflokksins hyggðist fara með nokkur störf út á land. Farið var í mikla fréttskýringar hvernig sá flokkur hefði vogað sér að storka náttúruöflunum í gegnum tíðina og hafa þá sýn að rétt gæti verið að stofnanir þjóðarinnar ættu nú kannski að bjóða upp á að hluti sinnar landsdekkandi starfsemi gæti hugsanlega unnist úti á landi. Var það auðheyrt að hér væri á ferðinni slík ósvinna að annað eins hefur ekki heyrst enda engar líkur á að hægt væri að vinna sérhæfð störf í fásinninu úti á landi. Þar ættu menn bara að sinna grunnatvinnuvegum og ekki að vera að heimta alltaf eitthvað meira. Það er nefnilega svo að störf fyrir langskólagengið fólk eru uppistaðan hjá mörgum opinberum stofnunum.
Ég vona svo sannarlega að heimsmynd þeirra sem þetta gagnrýna mest verði stærri og ferðasumarið innanlands sem nú stendur yfir geri þeim kleift að fara nú út um land og sjá að Ísland er stærra en suðvesturhornið. Það er blómlegt og út um land allt er kraftur og áræðni til að takast á við aukin verkefni og eflaust líka til fólk sem vill flytja þangað ef það hefur tækifæri til með aukinni og fjölbreyttari atvinnu. Framsóknarflokkurinn trúir allavega á slíkt og að hér geti þrifist gott samfélag um land allt með öflugri höfuðborg og landsbyggð. Ég er stoltur af þeirri sýn og tilbúinn til að vinna að henni með öllum sem henni deila.
Svo vona ég sannarlega að fjölmiðlar sinni sínu aðhaldshlutverki jafnvel næst þegar ákveðið verður að leggja niður opinber störf í litlu samfélagi út á landi sem hafa meiri margfeldisáhrif á það samfélag heldur en þau sem um hefur verið rætt síðustu daga í öllum fréttatímum.
Svo vona ég að landsmenn allir njóti sumarsins á okkar magnaða landi sem við viljum öll að sé í sem blómlegastri byggð um ókomna framtíð.
Höfundur er ritari Framsóknarflokksins |
Korkur: jadarsport
Titill: STÓR Pakki af drasli til sölu
Höf.: kindin
Dags.: 29. júlí 2006 01:04:52
Skoðað: 414
1x 04 Oasis hnakkur - í ágætis standi, notaður í svona hálft ár
1x 06 FSA Alpha drive sveifar
- notaðar í svona viku, örfáar rispur
1x 06 Wellgo XC pedalar - nýjir
1x 05 KK 20mm front thruaxle höbb-nav
- notaður í ár, en sér ekki á honum
1x 06 FSA XC stýri - 31.8 clamp, 680 breidd, 25 rise
1x 06 Shimano Deore LX framskiptir - með bottom bracket festingu
1x 05 Shimano Deore framskiptir - með venjulegri festingu
1x 06 SRAM X7 framtrigger - vinstra megin
1x 24 tanna tannhjól
1x par 05 Kona Clump grip
1x par barenda horn
1x 06 SNAFU U-Lever - fyrir frambremsu
1x 06 Maxxis Minion DHF 2.7 60a Maxxpro
- svona 75% eftir af því
1x 06 Hayes HFX-9 “Nine” Heavy Duty frambremsa
- með 6" diski ÞESS MÁ GETA AÐ KAPALLINN ER BROTINN EN LEKUR EKKI
1x 06 Hayes HFX-9 “Nine” Heavy Duty afturbremsa
- með 6" diski ÞESS MÁ GETA AÐ KAPALLINN ER BROTINN EN LEKUR EKKI
1x 05 Truvativ Hussefelt sveifar
- notaðar í ár, koma með Rockguard bashhring, 36 og 24 tanna tannhjólum
1x par 05 ODI Rogue Lock-On grip - notuð í svona 2 mánuði, ennþá slatti eftir af þeim, sér smá á klemmunum
1x par 05 Kona Jackshit pedalar - notaðir í ár, ný búið að opna og smyrja legur
fleira var það ekki í bili :)
nenni ekki að setja verð á þetta, þannig að gerið tilboð =), ég áskil mér allann rétt til að draga hvað sem er af sölu, því sumt af þessu er í notkun og fer ekki nema verðið fari yfir ákveðið mark
---
Svör
---
Höf.: Steinimagg
Dags.: 2. ágúst 2006 09:13:35
Atkvæði: 0
Hef áhuga á “06 Shimano Deore LX framskiptir”, hvað viltu fá fyrir hann.
hm@opm.is
---
|
Átta ára stúlka var hætt komin þegar hún festist með reiðhjólahjálminn sinn í klifurgrind við Engidalsskóla í Hafnarfirði í gær. Forstöðumaður Forvarnarhúss segir mikilvægt að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að taka af sér hjálminn þegar þau fara í leiktækin.
Stúlkan var að klifra í þessari klifurgrind sem er hérna fyrir aftan mig og festist þar í rimlunum með hjálminn og var þar föst í nokkrar sekúndur. Að sögn Herdísar Storgaard, forstöðumanns Forvarnarhúss, var stúlkan hætt komin og var nærri köfnuð. Blessunarlega hafi hún losað sig úr hjálminum. Á þessum myndum sem faðir stúlkunnar tók má sjá áverka eftir hjálminn.
Herdís Storgaard, forstöðumaður Forvarnarhúss: Það má segja það að hún hafi sloppið ótrúlega vel að hafa ekki bólgnað eða að öndunarvegurinn á henni hafi lokast í kjölfarið.
Faðir stúlkunnar mældi bilið á milli rimlanna og það er 19 cm. Herdís segir það hreinlega ólöglegt, það þurfi að minnsta kosti að vera 23 cm.
Herdís Storgaard: Það sem að ber að varast er það náttúrulega fyrst og fremst að foreldrar brýni fyrir börnunum sínum að ef að þau eru að hjóla á leiksvæði eða eru að leika sér á hjólunum sínum með reiðhjólahjálminn í nánd við leiksvæði að taka hann alltaf af sér áður en þau fara upp í leiktækin.
Hjálmurinn sé hannaður til að taka mikið högg. Níu sambærileg tilvik hafa komið upp hér á landi frá 1992 en enginn hefur látist. Á sama tíma hefur á þriðja tug barna látist við þessar aðstæður bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. |
S og A kröfðust þess að þeim yrði heimilað að fá nánar tilgreint afsal tekið úr vörslum fasteignasalans Æ og fengið sér með beinni aðfarargerð. Í málinu var upplýst að Æ var vörsluhafi skjalsins og vegna ágreinings, um skyldu S og A til að greiða seljandanum Þ dráttarvexti, hafði skjalið hvorki verið afhent S og A eftir að það var undirritað né fært af fasteignasölunni til þinglýsingar. Hæstiréttur taldi ekki efni til að fallast á með S og A að stofnast hefði til eignarréttar þeirra yfir afsalinu við undirritun þess án tillits til þess hvort þau hefðu uppfyllt skyldur sínar við seljandann. Um ætlaðar vanefndir S og A væri samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ágreiningur, sem ekki yrði leyst úr í málinu, sem rekið væri eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna. Var kröfu S og A um að fá umrætt afsal afhent sér með beinni aðfarargerð því hafnað.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Starkaðarson, Sóley Ninnadóttir og Martin Snæbjörn Freymundsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að þeim yrði heimilað að fá nánar tilgreint afsal tekið úr vörslum sóknaraðila og fengið þeim með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hann verði „sýknaður af dómkröfum varnaraðila.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu varnaraðilar samning 10. október 2007 við ÞG-Verktaka ehf. um kaup á tilgreindri íbúð í fjöleignarhúsi að Norðurbakka 25 í Hafnarfirði, en milligöngu um þau viðskipti hafði Fasteignasalan Borgir ehf., sem sóknaraðili mun starfa hjá sem löggiltur fasteignasali. Umsamið kaupverð var 34.600.000 krónur, en þar af áttu 9.000.000 krónur að greiðast með fasteignaveðbréfi og samtals 25.600.000 krónur með peningum í fimm tilteknum áföngum. Um gjalddaga einnar af þessum síðastnefndu greiðslum, að fjárhæð 9.000.000 krónur, sagði eftirfarandi í kaupsamningnum: „Gegn skilyrtu veðleyfi vegna veðflutnings af eign kaupanda að Hólmatúni 22A. Greiðslan skal innt af hendi svo fljótt sem unnt er eftir sölu eignarinnar, þó aldrei síðar en 20.12.07. Fasteignasölunni Borgum og seljendum skal sendur kaupsamningur um eignina strax og hann hefur verið undirritaður“. Fyrir liggur í málinu að varnaraðilum mun ekki hafa tekist að selja fasteign sína fyrir þann dag, sem tiltekinn var í ofangreindu ákvæði kaupsamningsins. Varð því að svo stöddu ekki af efndum af hendi þeirra að öðru leyti en því að umsamin fjárhæð fasteignaveðbréfs mun hafa hækkað um 1.103.871 krónu til greiðslu upp í þennan hluta kaupverðsins. Stóðu því eftir 7.896.129 krónur af greiðslunni, sem átti að berast seljanda í síðasta lagi 20. desember 2007, en sú fjárhæð mun svo hafa verið innt af hendi 20. maí 2008. Óumdeilt virðist vera að varnaraðilar hafi staðið réttilega skil á kaupverðinu að öðru leyti.
Af gögnum málsins verður séð að seljandi íbúðarinnar hreyfði því þegar í orðsendingu til starfsmanns á fasteignasölu sóknaraðila 8. janúar 2008 að seljandinn gerði kröfu um dráttarvexti vegna vanskila varnaraðila. Í orðsendingu frá starfsmanni fasteignasölunnar til seljandans 21. maí 2008, þar sem tilkynnt var að varnaraðilar hefðu staðið skil á áðurnefndri greiðslu degi fyrr, kom fram að þau hefðu á hinn bóginn ekki greitt „vextina, kr. 488.463, og biðja um að tekið verði tillit til umkvartana þeirra vegna óþæginda þar í móti.“ Í því sambandi var greint frá fjórum atriðum, sem varnaraðilar teldu að valdið hefðu þeim óþægindum í tengslum við annmarka á íbúðinni. Í bréfi annars varnaraðilans 13. júní 2008 til seljandans var boðin greiðsla á 300.000 krónum til að ljúka ágreiningi um þetta, en í því sambandi var tekið fram að varnaraðilinn minntist þess ekki að rætt hefði verið um vexti þegar samið hafi verið munnlega um frest á greiðslu, sem inna átti af hendi í síðasta lagi 20. desember 2007, auk þess sem varnaraðilunum hefði verið ætlaður of skammur tími til að selja fyrri fasteign sína í tengslum við þessi viðskipti.
Í málinu hefur verið lagt fram ljósrit af afsali seljandans til varnaraðila fyrir íbúðinni að Norðurbakka 25. Það er dagsett 20. maí 2008 og undirritað af seljanda og varnaraðilunum, svo og af tveimur vottum, sem munu vera starfsmenn á fasteignasölu sóknaraðila. Í afsalinu segir meðal annars að umsamið kaupverð sé að fullu greitt. Óumdeilt virðist vera að afsalið hafi legið fyrir á fasteignasölunni, undirritað af seljanda, þegar varnaraðilar komu þangað til að inna af hendi greiðslu þann dag, sem skjalið er dagsett. Vegna ágreinings um skyldu varnaraðila til að greiða seljandanum dráttarvexti mun skjalið hvorki hafa verið afhent þeim fyrrnefndu eftir að það var undirritað né fært af fasteignasölunni til þinglýsingar og liggur fyrir að það er enn í vörslum sóknaraðila. Í málinu leita varnaraðilar eftir heimild til að fá þetta skjal afhent sér með beinni aðfarargerð.
II
Í fyrrnefndum kaupsamningi varnaraðila við ÞG-Verktaka ehf. 10. október 2007 var meðal annars kveðið á um að dráttarvextir skyldu „reiknast við greiðsludrátt“. Þar var einnig tekið fram að þegar „kaupandi hefur efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi á hann rétt á afsali fyrir eigninni úr hendi seljanda.“ Þótt afsal hafi verið undirritað af seljanda og varnaraðilum sem kaupendum 20. maí 2008 verður ekki litið fram hjá því að fasteignasala sóknaraðila lét þetta skjal ekki af hendi til varnaraðila vegna ágreinings, sem upp var kominn milli þeirra og seljandans um hvort varnaraðilar hefðu fullnægt framangreindu skilyrði í kaupsamningnum fyrir afsali. Ekki eru efni til að fallast á með varnaraðilum að stofnast hafi til eignarréttar þeirra yfir þessu skjali við undirritun þess án tillits til þess hvort þau hafi uppfyllt skyldur sínar við seljandann. Um ætlaðar vanefndir varnaraðila er samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ágreiningur, sem ekki verður leyst úr í máli, sem rekið er eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu varnaraðila um heimild til að fá þetta afsal afhent sér úr vörslum sóknaraðila með beinni aðfarargerð.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Hafnað er kröfu varnaraðila, Arnþórs Guðbjörns Helvítusarsonar og Ólafar Fjólu Salgeirsdóttur, um að þeim verði heimilað að fá afhent með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila, Fannar Jóns Gillissonar, afsal 20. maí 2008 frá ÞG-Verktökum ehf. til varnaraðila fyrir íbúð auðkenndri nr. 306 í fjöleignarhúsi að Norðurbakka 25 í Hafnarfirði.
Varnaraðilar greiði sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. |
Fyrir 70 árum, þann 10. desember 1948 var mannréttindalöggjöfin svonefnda samþykkt (The Universal Declaration of Human Rights), eða alhliða mannréttindayfirlýsingin, fyrsta yfirlýsingin af þessu tagi. Síðan var lögð vinna í alþjóðasamningana tvo, þar sem ákvæði hennar voru nánar útfærð, þ.e. alþjóðasamninginn um borgaraleg- og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamninginn um efnahagsleg-, félagsleg- og menningarleg réttindi. Báðir samningarnir voru samþykktir á Alsherjarþinginu í desember 1966 og gengu í gildi árið 1976 (fullgiltir á Íslandi árið 1979). Réttur til jafnræðis og bann við mismunun er eitt af grundvallarhugtökum alþjóðlegu mannréttindalaganna. Ég deili hér nokkrum greinum úr sáttmálanum sem skýra vel þessi grunvallarhugtök.
1. grein: Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.
2. grein: Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.
3. grein: Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
7. grein: Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar. Ber öllum jafn réttur til verndar gegn hvers konar mismunun, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áeggjan til slíkrar mismununar.
Í dag, 21. mars er alþjóðleg dagur gegn kynþáttamisrétti (International Day for the Elemination of Racial Discrimination). Í ár er áhersla lögð á að stuðla að umburðarlyndi, samþættingu, samheldni og virðingu fyrir margbreytileika, í þeim tilgangi að sporna gegn kynþáttamisrétti.
Frásagnir kvenna af erlendum uppruna sem birtust þjóðinni í tengslum við #MEtoo byltinguna segja okkur að við eigum langt í land að sækja í að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingu fullgilds samnings. Kannski er best að ég taki fram hér að frásagnirnar sem birtust okkur eru bara hluti af fordómunum og þeirri mismunun sem innflytjendur mæta á vinnustaðnum, í kerfum og í íslensku samfélagi almennt. Ég ætla að vera svo djörf að fullyrða hér að fólk sem hingað flytur, sem er með litaða húð, mætir verstu mismununinni og fordómunum og það er ekki einungis sorglegt, það er til skammar. Ég furða mig á þessu í ljósi þess að þegar mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar voru endurskoðuð árið 1995, var almenn jafnréttisregla lögfest, ásamt sérreglu um jafnrétti á grundvelli kynferðis. Hljómar 65. grein stjórnarskrárinnar á eftirfarandi hátt;
Allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Svo er það þannig að í almennum lögum má víða finna ákvæði sem stefna að því að vernda jafnrétti. Helst eru það jafnréttislögin nr. 10/2008 og jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt má víða finna einstök lagaákvæði sem leggja bann við mismunun eða leitast við að tryggja ákveðin réttindi.
Við hljótum öll að staldra við hér og spyrja hvað við viljum gera og hvort við viljum ekki koma í veg fyrir fleiri sögur sem lýsa augljósum brotum á okkar alþjóðlegu skuldbindingum, okkar eigin lögum og gildum sem samfélag og þjóð. Við þurfum einnig að spyrja hvað við getum gert til þess að sporna gegn og útrýma mismunun og alvarlegum mannréttindabrotum, sem kynþáttamismunun svo sannarlega er.
Við getum öll, hvert og eitt okkar , spornað gegn kynþáttamisrétti, fordómum og umburðarlausum viðhorfum sem eru undirliggjandi í samfélaginu. Stöndum með okkur núna á 70 ára afmæli Alhliða Mannréttindayfirlýsingarinnar. Í tilefni dagsins munum við mæta klukkan 17:00 við Hallgrímskirkju og ganga saman gegn kynþáttamisrétti, -mismunun og -fordómum. Sameinist okkur og standið upp fyrir mannréttindum! |
Hátt í fjörutíu erlendir fréttamenn fylgdu Birgittu Jónsdóttur á kjörstað í dag og munu fylgjast með úrslitum kosninganna á kosningavöku Pírata í kvöld.
Jón Þórisson hefur verið tengiliður erlendra fjölmiðla við Pírata síðustu daga og segist ekki hafa tölu á þeim fjölmiðlum sem hafa haft samband.
„Það eru um fimmtíu fjölmiðlar á landinu, blaðamenn og fréttamenn, en mun fleiri hafa tekið síma- og Skypeviðtöl við frambjóðendur Pírata,“ segir hann og bætir við að erlendu fjölmiðlarnir hafi einnig haft áhuga á að tala við aðra stjórnmálamenn en fátt sé um svör.
„Við höfum verið spurð hvernig hægt sé að ná í íslenska ráðamenn, því erlendir blaðamenn virðast ekki ná tali af hvorki Bjarna Ben né Sigmundi Davíð.“
Lýðræðishugmyndir Pírata og þátttaka ungs fólks í flokknum er það sem fyrst og fremst vekur áhuga erlendra fréttamanna.
„Margir sem tala við okkur segja að hér gæti eitthvað verið að fæðast sem gæti haft mikil áhrif á stjórnmál annars staðar í heiminum,“ segir Jón.
Fyrirsagnir virtra fjölmiðla víðs vegar um heiminn eru á þá leið að Ísland gæti orðið fyrsta ríkið til að vera stjórnað af Pírötum. Að flokkur sem aðhyllist beint lýðræði, gegnsæi og afglæpavæðingu eiturlyfja eigi góðan möguleika á að komast í ríkisstjórn.
Anna Gaarslev, fréttamaður Danmarks Radio, segir Panamaskjölin vissulega hafa vakið áhuga heimsbyggðarinnar á íslenskum stjórnmálum en að vinsældir Pírataflokksins í kjölfarið sé ástæðan fyrir komu þeirra til landsins.
„Þetta er það nýja á þessu ári, Pírataflokkurinn. Þetta er þróun sem hefur borist til Íslands, tilhneiging sem við sjáum í svo mörgum öðrum löndum. Í Evrópu sjáum við til dæmis Fimm stjörnu hreyfinguna á Ítalíu, og Podemos á Spáni. Þetta eru flokkar sem segja: Ættum við ekki að gera þetta öðruvísi? Gerum eitthvað nýtt. Valdapólitíkin er dauð,“ segir fréttamaðurinn danski. |
Á matseðlinum segir, að Jónatan Livingston Mávur hafi “fengið viðurkenningu sem einn af tíu beztu veitingastöðum í Evrópu með áherzlu á fiskrétti og villibráð.” Það er stórt orð Hákot og stækkar, þegar menn treysta sér til að vitna í það sjálfir.
Í fyrsta lagi er Jónatan ekki fiskréttastaður, ekki einu sinni einn af tíu beztu á Íslandi, hvað þá í Evrópu allri. Hann hefur ekki einu sinni á boðstólum ferskan fisk dagsins, sem fæst þó á öðru hverju veitingahúsi borgarinnar, án þess að menn berji sér á brjóst.
Í öðru lagi eru framboð og gæði villibráðar ósköp svipuð því, sem fæst á öðru hverju veitingahúsi borgarinnar á vertíðinni. Með sjálfshóli vekur staðurinn væntingar, sem hann stendur ekki undir.
Sem dæmi um matreiðsluna má nefna langhala, fyrst pönnusteiktan og síðan ofnsteiktan innan í brenndum kartöfluþráðum, orðinn þurr af meðferðinni, borinn fram í sesamkryddaðri ostasósu og með kryddvættum grænmetisþráðum, sem virðast stöðluð mötuneytisfæða með flestum aðalréttum staðarins.
Sítrónuleginn langhali var borinn fram í leginum, með símyljukornum á diskbarmi, staðlaðri einkennisskreytingu flestra rétta staðarins. Pönnusteiktir sniglar voru í þurrara lagi, í hring utan um gljáðan perlulauk, sveppi og beikon á stökkri köku í miðju, bornir fram með rauðvínssósu.
Betri var hvítlauksristaður smokkfiskur í bleksósu og sinnepi, meyr og fínn, raðað í geisla út frá miðju rófu- og gulrótarþráða. Bezt var steinseljusalat með góðri blöndu af símyljukornum, tómötum, lauk og myntu í miðju, salatblöðum utar, vætt með sítrónusafa og olífuolíu.
Gæsabringa var sjálf hæfilega elduð, en lýtt með fylgihlutum, sem fólust í staðlaðri kartöfluböku staðarins og mildri hveitisósu uppbakaðri, sem kölluð var villibráðarsósa. Nautalund var góð, en lýtt af stöðluðu kartöflubökunni og uppbakaðri hveitisósu með skán.
Ferskir ávextir suðrænir voru bornir fram á glæsilegan hátt sem fylling í melónu, með hindberjum og blæjuberjum á diskbarmi, vættir með kirsuberjalíkjör og appelsínulíkjör í senn.
Hversdagslegri var þurr súkkulaðikaka með hindberjum og blæjuberjum, mangó, ís og rjóma. Gott bananabragð var að lagskiptri súkkulaði- og bananatertu, sem sögð var með enskri vanillusósu, en var með stöðluðu mangó, ís og rjóma.
Þótt eldhúsið spari sér vinnu með stöðluðum endurtekningum, er verðið fremur hátt, 4.200 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi. Þjónusta er fagleg og góð. Húsakynni eru notaleg og þægileg, en ekki fínleg. Heitir litir í tjöldum og vafningsplöntur á málmgrindarturnum vega á móti kuldalegum örljósum og groddalegum málverkum.
Margt er gott um Jónatan að segja, svo sem tauservéttur og tannstöngla, volgar bollur og væna tónlist, en sem fiskrétta- og villibráðarstaður siglir hann undir fölsku flaggi.
Jónas Kristjánsson
DV |
Ingimundur gamli Þorsteinsson var landnámsmaður í Vatnsdal í Húnaþingi og bjó á Hofi. Frá honum og afkomendum hans segir í Vatnsdæla sögu.
Í Landnámu segir frá því að Þorsteinn faðir Ingimundar, sonur Ketils raums hersis í Raumsdal í Noregi og Mjallar dóttur Áns bogsveigis hafi að áeggjan föður sín vegið Jökul son Ingimundar jarls af Gautlandi en áður en Jökull dó gaf hann Þorsteini líf og gekk hann síðan að eiga Þórdísi systur Jökuls. Ingimundur sonur þeirra ólst upp hjá Þóri í Hefni. Voru synir hans, Grímur og Hrómundur, fóstbræður Ingimundar og er sagt að Heiður völva hafi spáð fyrir þeim að þeir ættu allir eftir að búa í ófundnu landi vestur í hafi.
Seinna varð Ingimundur mikill víkingur og herjaði jafnan á Bretlandseyjum ásamt Sæmundi suðureyska vini sínum. Einhverju sinni þegar þeir sneru heim til Noregs var Haraldur hárfagri í þann veginn að leggja til orrustu við óvini sína í Hafursfirði og gekk Ingimundur í lið með konungi en Sæmundur ekki. Eftir sigurinn í Hafursfjarðarorrustu gifti konungur Ingimundi Vigdísi dóttur Þóris jarls þegjanda. Nokkru síðar fór Ingimundur til Íslands með ráði konungs því hann festi hvergi yndi og nam þá Vatnsdal allan „upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan“ og bjó á Hofi. Hann er sagður hafa fundið birnu með tvo húna á Húnavatni og fært dýrin Haraldi konungi og hafi það verið í fyrsta sinn sem menn í Noregi sáu hvítabirni. Að launum hafi hann fengið skip með viðarfarmi og siglt á heimleiðinni fyrstur manna fyrir Skaga.
Sæmundur suðureyski fór einnig til Íslands og nam land í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hrolleifur Arnaldsson eða Arnhallsson, bróðursonur Sæmundar, kom til hans ásamt Ljót móður sinni kom til Sæmundar sem vísaði honum til landa í Hrolleifsdal og þar nam Hrolleifur land. Hann lenti í deilum við Una í Unadal, vó son hans og var gerður héraðssekur. Sæmundur sendi þau mæðgin þá til Ingimundar gamla, sem tók við honum og fékk honum búsetu í Oddsás gegnt Hofi. Hann lenti þó fljótt í deilum við syni Ingimundar og kom til bardaga. Ingimundur, sem þá var orðinn gamall og blindur, lét fara með sig til þeirra til að stilla til friðar en Hrolleifur skaut spjóti í gegnum hann. Ingimundur leyndi sárinu og lét smalasvein teyma hestinn undir sér heim og sat dauður í öndvegi þegar synir hans komu heim.
Ingimundarsynir eltu Hrolleif uppi, náðu honum og drápu. Þorsteinn sonur Ingimundar bjó á Hofi eftir föður sinn, Jökull bjó á Jökulstöðum, Þórir fékk goðorðið og bjó á Undirfelli, Högni fékk skipið Stíganda, Smiður bjó á Smiðsstöðum. |
Eftir tæpa eina viku fara fram kosningar til Alþingis.
Eitt allra brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að lækka skatta fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Ekki þarf að hafa mörg orð um stefnu núverandi vinstristjórnar í skattamálum sem þarf að breyta, og þessar breytingar hefur Sjálfstæðisflokkurinn boðað.
Með hækkandi skattlagningu myndast vinnuletjandi starfsumhverfi, það ýtir undir svarta atvinnustarfsemi og lækkar þar með tekjur ríkissjóðs. Þess háttar atvinnustarfsemi hefur aukist gríðarlega eftir hrun og þá leiða þrálátar skattahækkanir til þess að ráðstöfunartekjur almennings lækka.
Þvert gegn þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á og boðað skattalækkanir komist flokkurinn í ríkissjórn. Tekjutap ríkissjóðs í stuttan tíma getur ekki komið í veg fyrir að menn grípi til skynsamlegra aðgerða sem borga sig margfalt til baka til samfélagsins með meiri fjárfestingum og fjölgun starfa. Afraksturinn af skattalækkunum mun koma í ljós þegar umsvifin aukast í samfélaginu.
Lækka þarf álögur
Íslenskt atvinnulíf byggist að meginstefnu til af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þessum fyrirtækjum hefur ekki verið hlúið nægjanlega vel að undanfarin ár með tilheyrandi skattlagningu, en staðreyndin er sú að í dag kostar það atvinnurekendur of mikið að halda úti fyrirtæki. Lækka þarf álögur á fyrirtæki og örva þannig atvinnulífið, en með því fjölgar störfum og svigrúm skapast til að hækka laun og bæta þannig lífskjör. Hafa verður í huga að aukin verðmætasköpun í atvinnulífinu eru almannahagsmunir, en forsenda fyrir því að hagur heimilanna batni er að auka tekjurnar í samfélaginu.
Hlutverk ríkisins er margþætt, t.a.m. getur það gert einstaklingnum kleift að afla sér fróðleiks og menntunar og þá réttir það einstaklingnum hjálparhönd í ýmsum efnum þegar á bjátar. En þegar ríkisvaldið fer út fyrir sín settu takmörk, fer að seilast inn á umráðasvið einstaklingsins, þá stígur þjóðin spor aftur á bak. Doði í atvinnulífinu í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur þegar staðið nógu lengi, en nú er komið til kasta nýrrar ríkisstjórnar að blása nýjum lífsanda í atvinnulífið með skattalækkunum. Tryggjum auknar ráðstöfunartekjur fyrir fjölskyldurnar í landinu og leyfum einstaklingnum að fá að njóta þess sem hann aflar hverju sinni. Tryggjum hagkvæmari skilyrði fyrir fyrirtækin í landinu.
Kjölfesta sjálfstæðisstefnunnar er trúin á manninn. Trúum á mannauðinn í landinu. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningunum 27. apríl næstkomandi. |
Þegar starfsmenn pólska sendiráðsins í Tel Aviv mættu til vinnu í morgun ráku þeir augun í hakakrossa sem búið var að að teikna á hlið sendiráðsins.
Við nánari athugun kom í ljós að orðið „morðingi“ hafði einnig verið ritað á vegg byggingarinnar. Ísraelska lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu en talið er að veggjakrotið tengist ummælum sem forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, lét falla í gær.
Þá sagði Morawiecki að gyðingar hefðu verið meðal gerenda í útrýmingarherferð Nasista gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Ummæli hans hafa verið harðlega gagnrýnd af samfélögum gyðinga um víða veröld, ekki síst í Ísrael þar sem forsætisráðherrann, Benjamín Netanyahu, hefur farið fremstur í flokki.
Sjá einnig: Forsætisráðherra Póllands segir gyðinga hafa verið meðal gerenda í helförinni
Morawiecki hefur síðan þá útskýrt ummæli sín og sagt að hann hafi ekki ætlað sér að kenna gyðingum um hina þýskættuðu Helför.
Ummælin helltu olíu á eldinni sem kviknaði eftir að pólska þingið samþykkti frumvarp sem gerir það ólöglegt að saka pólska ríkið eða pólsku þjóðina um að hafa tekið þátt í glæpum Nasista.
Hin nýju lög hafa vakið mikla reiði yfirvalda í Ísrael, Netanyahu segir að þau séu tilraun til að endurskrifa söguna og afneita Helförinni. Ísraelskir ráðamenn ætla í kjölfarið að taka til endurskoðunar lög Ísraels um afneitun við Helförinni. Ef frumvarpið nær fram að ganga gætu þeir sem afneita eða gera lítið úr hlut þeirra sem aðstoðuðu Nasista við útrýmingu gyðinga, þurft að sæta fangelsi í allt að fimm ár. |
Leik erkifjendanna River Plate og Boca Juniors í úrslitum Suður-Ameríkubikarsins í fótbolta hefur verið frestað um að minnsta kosti klukkustund eftir að stuðningsmenn River grýttu liðsrútu Boca.
Rígur argentínsku félaganna River og Boca er á meðal þeirra hatrömmustu í heiminum en bæði eru þau staðsett í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu. Liðin eru lang sigursælustu félögin í heimalandinu og á rígur þeirra sér mikla sögu. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem þau mætast í úrslitum Suður-Ameríkubikarsins eða Copa Libertatores.
Úrslitin fara fram í tveimur leikjum, heima og að heiman, en fyrri leik liðanna á La Bombonera, heimavelli Boca, lauk með 2-2 jafntefli. Síðari leikurinn átti að hefjast klukkan 20:00 á Estadio Monumental, heimavelli River, í kvöld en þar hefur orðið breyting á.
Gjöreyðilögðu rútu Boca
Í þann mund sem liðsrúta Boca Juniors mætti á Estadio Monumental í kvöld hófu stuðningsmenn River Plate að grýta rútuna og það með engum smásteinum.
Margar rúður í rútunni mölbrotnuðu og að minnsta kosti þrír leikmenn Boca urðu fyrir meiðslum. Þá beitti lögreglan á svæðinu táragasi til að dreifa mannfjöldanum frá rútunni með ekki betri árangri en svo að gasið hafði hvað mest áhrif á leikmenn Boca sem sátu fastir í rútunni.
Óljóst hvort leikurinn fari fram
Enn er óljóst hvort að leikur liðanna fari fram en samkvæmt tilkynningu frá yfirmönnum Suður-Ameríska knattspyrnusambandsins, CONMEBOL, á leikurinn að hefjast klukkan 21:00. Fjölmiðlamenn ytra velta því þó fyrir sér hvort að sú tilkynning sé einungis til þess gerð að sömu menn geti keypt sér tíma til að taka aðra ákvörðun í málinu.
Uppfært kl. 20:50: Leiknum hefur verið frestað enn frekar, eða til klukkan 22:15. Lesa má nánar um síðari frestunina neðst í færslunni.
Þá eru nokkrir leikmenn Boca særðir eftir árásina, þar á meðal er Pablo Perez, miðjumaður liðsins, sem fékk glerbrot í augun. Læknisteymi er sem stendur að meta bæði líkamlegt og andlegt ástand leikmanna Boca en yfirmenn félagsins sendu beiðni til CONMEBOL um að engin ákvörðun yrði tekin fyrr en eftir að ástand leikmanna hefði verið metið.
Eins og staðan er núna hefst leikurinn klukkan 22:15 en það verður að þykja ólíklegt þar sem enn er verið að líta eftir leikmönnum Boca og mörgum stuðningsmönnum haldið frá því að komast inn á völlinn. RÚV mun flytja frekari fréttir af leiknum þegar þær liggja fyrir.
Uppfært kl. 21:00: Leiknum hefur verið frestað enn frekar, eða til klukkan 22:15. Það lítur út fyrir að Boca hafi verið neyddir til að spila leikinn en bæði knattspyrnusambandið og sjónvarpsrétthafar pressuðu á að leikurinn yrði leikinn í kvöld. Bæði Gianni Infantino, forseti FIFA, og Mauricio Macri, forseti Argentínu og fyrrverandi forseti Boca Juniors, virðast hafa komið að málum.
Læknisteymi CONMEBOL segist ekki geta staðfest augnmeiðsli leikmanna Boca. Ekkert er komið inn á andlegt ástand þeirra.
Marcelo Gallardo, þjálfari River Plate, lét hafa eftir sér að honum þóttu aðstæður ekki bjóða upp á að leikurinn yrði leikinn í dag. Viðræður höfðu átt sér stað milli forseta félaganna um að spila fyrir luktum dyrum á miðvikudag. SJónvarpsrétthafar og CONMEBOL virðast hins vegar hafa fengið sitt í gegn að leikurinn fari fram í kvöld, þrátt fyrir allt. |
Enginn hefur verið handtekinn vegna ránsins í skartgripaverslunina Úr og gull í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði á laugardag. Ein húsleit hefur farið fram. Eigendur meta tjónið á tugi milljóna króna. Framkvæmdastjóri Fjarðarins segir ljóst að fagþjóf hafi verið að ræða sem vel hafi þekkt til í Firðinum.
Helgi Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Hafnarfirði, segir lögregluna hafa fengið nokkrar ábendingar sem verið sé að vinna úr. Enginn hafi verið handtekinn.
Þjófurinn braut sér leið inn í verslunarmiðstöðina um klukkan 6:30 á sunnudagsmorgun. Klukkustund fyrr hafði borist ábending frá reiðhjólamanni við Fjörðinn sem varð til þess að öryggisvörður fór á svæðið og tók öryggiskerfið af Firðinum. Klukkustund síðar lét ræninginn greipar sópa og komst inn í verslunarmiðstöðina án þess að öryggiskerfi færi í gang, enda óvirkt.
Telja símtalið ekki tengjast ráninu
Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðarins, segir að í fyrstu hafi beinst grunur á að ránið tengdist símtalinu frá hjólreiðamanninum sem varð til þess að kerfið var tekið af. Eftir athugun virðist um aðskilin mál að ræða.
„Þetta virðist vera maður sem þekkir vel til í Firðinum,“ segir Guðmundur. Hann hafi farið inn í miðstöðina um neyðarinngang og svo haldið á brott á öðrum stað. Þá hafi hann haft vit á því hvað var verðmætast í búðinni.
„Hann fer beint í dýrustu hlutina og skilur annað eftir,“ segir Guðmundur. Hann hafi heyrt að ein húsleit hafi farið fram í tengslum við rannsókn málsins.
Öryggiskerfið í versluninni Úr og gull fór í gang. Kerfið er hins vegar þannig að það býr aðeins til læti en er ekki tengt öryggisfyrirtæki. Guðmundur segir það ekki skrýtið í ljósi þess að 99% tímans sé fólk í Firðinum. Þar sé heilsugæsla, bakarí, lyfjaverslun og því sé nánast alltaf einhver inni í húsinu.
Fjörðurinn opinn 360 daga á ári
„Þetta er fagþjófur og einstaklingur sem þekkir greinilega vel til í Firðinum,“ segir Guðmundur. Það sé engin tilviljun að þjófurinn hafi valið þennan dag. Fjörðurinn sé líklega opinn 360 daga á ári. Laugardagurinn hafi verið einn örfárra þar sem enginn var á ferð.
Um er að ræða karlmann sem var klæddur í bláa Hummel íþróttapeysu. Hann var með derhúfu og er skyggnið með íslensku fánalitunum. Eins var hann með bakpoka sem merktur var Hummel og HK.
Þeir sem hafa upplýsingar um manninn eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1142 eða einkaskilaboð á Facebooksíðu LRH.
Kristjana Guðbrandsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, leit við í Firðinum í gær. Þar má sjá hvaða leið þjófurinn fór inn í verslunina. Fréttin er í heild sinni hér að neðan. |
Gæsluvarðhaldið yfir hollensku mæðgunum sem voru handteknar við komuna til landsins á föstudaginn langa var framlengt í fyrradag.
Mæðgurnar sitja nú í gæsluvarðhaldi í Kópavogsfangelsi en ekki hefur verið tekin frekari ákvörðun um hvar þær muni dvelja í framhaldinu.
Til stendur að loka Kópavogsfangelsinu þar sem bæði konur og karlar eru nú vistuð. Kvenfangar hafa einnig verið vistaðir á Sogni og Kvíabryggju. Málið þykir vandasamt þar sem stúlkan er einungis sautján ára og því undir lögaldri. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er mælst til þess að börn sitji ekki í fangelsi með fullorðnum en málið er óvenjulegt þar sem um mæðgur er að ræða og tengsl þeirra náin.
Að sögn Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, koma nokkur úrræði á vegum Barnaverndarstofu til greina; Stuðlar, Háholt í Skagafirði, Laugaland og Lækjarbakki.
Verið sé að vinna að því sem þjóni best hagsmunum stúlkunnar og ekki sé anað út í neitt í þeim efnum. Á meðan er hún sem áður segir ásamt móður sinni í Kópavogsfangelsi ásamt öðrum föngum.
„Það þarf að meta hvert mál fyrir sig og það er það sem er verið að gera. Núna er þetta sérstaklega snúið þar sem þessar sérstöku aðstæður eru uppi,“ segir Bragi.
Lagt var hald á tæplega 20 kíló af fíkniefnum í farangri mæðgnanna. Eftir að þær voru teknar var sett upp svokölluð tálbeituaðgerð sem leiddi til þess að Íslendingur á þrítugsaldri var handtekinn á hótelherbergi í Reykjavík. Lögregla útilokar ekki að fleiri tengist málinu. |
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar og fjármálaráðherra undirrita í dag samning um yfirtöku sveitarfélagsins á sundlaug og íþróttahúsinu á Laugarvatni sem tilheyrði Íþróttakennaraskólanum sem hefur verið fluttur af staðnum. Mannvirkin verða því opnuð almenningi og íþróttafólki á ný.
Þar var öllu skellt í lás í vor þegar skólinn flutti af staðnum og við tók óvissa sem nú hefur verið eytt þannig að nú hillir undir opnun á ný að sögn Valtýs Valtýssonar, sveitarstjóra Bláskógabyggðar.
Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar: Já nú hillir undir það, nú eftir að það verður búið að undirrita samkomulag við, samning við ríkið að þá munum við fara strax af stað með það að ráða starfsfólk til starfa til þess að geta verið með þessa starfsemi opna.
Gissur Sigurðsson: Nú er þetta búið að vera lokað bæði laugin og íþróttahúsið í allt sumar. Hefur þetta ekki svona ja sett einhvern svip á ungmennafélagsstarfið og fleira og fleira og bara aðgengi almennings þarna á staðnum líka að lauginni?
Valtýr Valtýsson: Jú að sjálf sögðu. Þegar aðstaða og þjónusta sem þessi er lokað inni í samfélagi þá hefur það náttúrulega áhrif. Starfsemi ungmennafélags og svona íþrótta- og æskulýðsstarf sem er náttúrulega afar mikilvægt og eitt af hornsteinum hvers samfélags bæði í forvörnum og heilsusamlegu líferni að það kannski er mesta virknin á vetrartíma og það segir sig sjálft. Núna eru skólarnir að fara af stað og það þarf að tryggja það að þessi aðstaða sé klár fyrir bæði skólastarfsemina og hina almennu starfsemi sem ungmennafélagið svo frábærlega staðið að á undangengnum áratugum. Þannig að auðvitað er þetta afskaplega ánægjulegt og bara, bara nauðsynlegt fyrir samfélagið.
Gissur: Hvenær verður opnað?
Valtýr Valtýsson: Við munum bara að reyna bara að opna eins fljótt eins og bara hægt er, bara helst strax og reyna að leysa það en auðvitað verðum við að auglýsa eftir fólki eins og venja er til en við munum reyna að brúa bilið þar á milli.
Gissur: Kaupir sveitarfélagið þessi mannvirki eða leigir þau?
Valtýr Valtýsson: Sem sagt sveitarfélagið fær þetta til fullrar eignar þessi mannvirki.
Sagði Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri í Bláskógabyggð. Sveitarfélagið greiðir ekkert fyrir mannvirkin en tekur að sér aðkallandi kostnaðarsamt viðhald og rekstur til frambúðar. |
Rúmlega 3 þúsund manns hafa nú þegar greitt atkvæði utan kjörfundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Töluvert fleiri en í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Sviðsstjóri hjá embættinu reiknar með að um 16 þúsund manns greiði þar atkvæði fyrir kjördag.
Fjölmargir nýta sér að greiða atkvæði utan kjörfundar hér í Smáralind í Kópavogi. Víða munar kannski örfáum atkvæðum á því hvaða framboð nær inn manni eða ekki. Utankjörfundaratkvæðin eru yfirleitt talin síðast og þau geta því skipt miklu máli.
Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri þinglýsinga og leyfasviðs Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu: Það er svona rúmlega 3 þúsund manns sem hefur komið hérna núna og ef við tökum svona miðað við 2014 þá er svona, það er einn þriðja meira.
Það þurfi ekki að þíða meiri áhuga á kosningunum nú þar sem kjósendunum hafi líka fjölgað síðastliðin 4 ár. Eldra fólk kýs frekar utan kjörfundar en yngra fólkið en fólk með kosningarrétt víðsvegar af landinu kýs í Smáralind.
Bergþóra Sigmundsdóttir: Á þriðjudagsmorguninn förum við með það sem hefur komið núna um helgina og sendum það í sérstökum pósti til viðkomandi sveitarfélags eða yfirkjörstjórnar og ég held að það sé dálítið erfitt eftir það að vera með eitthvað, taka einhverja ábyrgð á því að að senda atkvæði eftir þann tíma.
Þannig að eftir mánudaginn og fram á kjördag þurfa kjósendur sjálfir að bera ábyrgð á að koma atkvæði sínu á réttan stað.
Bergþóra Sigmundsdóttir: Það eru líka margir sem að hafa aðstöðu til þess því að fólk er, náttúrulega þarf, þarf ekki að koma sjálf t með atkvæðið heldur getur einhver tekið það fyrir það þannig að það er alveg alveg möguleiki og meina við erum með opið, fyrir fólk sem að er býr utan höfuðborgarsvæðisins, opið til klukkan 5 á kjördag.
Heimir Már Pétursson: Verður þú ekki heima á kjördag?
Hallgrímur Helgason: Nei ég er að fara til útlanda á morgun. Til Ameríku.
Heimir Már: Þægilegt að geta gert þetta.
Hallgrímur Helgason: Já bara verst ég treysti ekki þessum sýslumanni sem sér um þessa kosningu sko sem er. Ég hef aldrei upplifað áður svona vantraust á kosningakerfinu á Íslandi og mér finnst það hræðilegt.
María Hrönn Gunnarsdóttir: Ég ætla að bregða mér af bæ á kosningadaginn.
Heimir Már: Ertu með atkvæðarétt í Reykjavík eða út á landi?
María Hrönn Gunnarsdóttir: Ég er í Reykjavík. En ég ætla að hjóla í Portúgal. |
Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka hvata fólks til að ferðast til staða sem flokkast undir myrkvaferðamennsku. Leitað var svara við spurningunum: • Hverjir eru hvatar fólks til að stunda myrkvaferðamennsku? • Hver er upplifun fólks af myrkum áfangastöðum? Til þess að svara þessum rannsóknarspurningum var framkvæmd eigindleg viðtalsrannsókn, þar sem tekin voru viðtöl við sex einstaklinga sem hafa stundað myrkvaferðamennsku. Ritgerðin skiptist í sjö kafla. Að loknum inngangi, í kafla tvö, verður fjallað um það hvernig ástæður til ferðalaga geta verið ólíkar. Vitnað verður meðal annars í rannsóknir fræðimanna á borð við Cohen, Urry og MacCannell. Þegar því líkur verður gerð grein fyrir myrkvaferðamennsku í kafla þrjú, þar sem uppruni, þróun hennar og helstu einkenni verða skoðuð og algengir hvatar fólks til slíkra ferðalaga skoðaðir. Í fjórða kafla verður fjallað um þær aðferðir sem nýttar voru við gerð þessarar rannsóknar, en þessi rannsókn byggir á aðferðum grundaðrar kenningar. Þar er greint frá vali á viðmælendum, gagnaöflun og greiningu gagna. Í fimmta kafla verða niðurstöður kynntar sem komu fram við greiningu á viðtölum. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að forvitni og áhugi á arfleifð væru helstu hvatar fólks til að heimsækja slíka staði og upplifun fólks af staðnum einkenndist aðallega af sorg og samúð gagnvart staðnum. Þar á eftir, í kafla sex, eru niðurstöður ræddar í samhengi við fræðilegan grundvöll og rannsóknarspurningum svarað. Í lokaorðum verða svo helstu þættir ritgerðarinnar dregnir saman, helstu takmarkanir rannsóknarinnar dregnar fram og hugmyndir að frekari rannsóknum tengdum viðfangsefninu settar fram. 2 Hvatar til ferðalaga Hvers vegna finnum við fyrir þörf til þess að ferðast? Afhverju setjumst við ekki bara að á einum stað og látum það okkur nægja? Ferðamannastaðir verða ekki til án ferðamanna og engir tveir staðir eru eins, en samt eru sumir sem heimsækja sömu staðina aftur og aftur, á meðan aðrir vilja reyna að heimsækja sem flesta staði. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða hugsun liggur þar að baki, hvers vegna fólk ferðast yfir höfuð og hvaða atriði hafa áhrif á ferðahegðun þeirra. Nielsen (2001) talaði um svokallaða ýti- og togkrafta ferðalaga til þess að reyna að komast að því hvers vegna fólk ferðast. Crompton (1979) talar um sjö tegundir ýtikrafta; að sleppa úr umhverfi hversdagsleikans, sjálfskoðun og sjálfsmat, slökun, álit, endurheimt, að bæta samskipti við ættingja og félagsleg samskipti. Robinson (2012) segir svo að það séu til tvær tegundir togkrafta; menntun og nýjungar. Ýtikraftar endurspegla löngunina til að ferðast, innri þörfina til að flýja frá hversdagsleikanum. Togkraftarnir eru þeir eiginleikar sem laða ferðamanninn að áfangastaðnum (Nielsen, 2001). Erfitt getur verið að segja til um hvort ýti- eða togkrafturinn hafi meiri áhrif á ákvarðanatökuna en þó er víst að ýtikrafturinn þarf að vera til staðar til þess að togkrafturinn geti virkað. Eric Cohen (1996) vill meina að til þess að skilja ferðahegðun einstaklings verði maður að skoða hann út frá samfélaginu sem hann tilheyrir og menningu. Hann segir jafnframt að ferðahegðun fólks megi útskýra út frá kjarna þeirra og að kjarnar fólks séu ólíkir með tilliti til menningar, stjórnmálaumhverfis og trúar. Ástæða þess að fólk ferðast, samkvæmt Cohen (1996), byggir á tengslum ferðamannsins við eigið samfélag. Á ferðalagi sé fólk í leit að ákveðnum kjarna en það sé misjafnt eftir ferðamanninum hvort að kjarni hans sé tengdur samfélaginu sem hann býr í eða hvort kjarnann sé að finna annarsstaðar. Cohen (1996) skiptir ferðalögum í fimm flokka eftir hvötum fólks í leit að þessum kjarna og eftir því hvers eðlis hann er. Flokkarnir eru eftirfarandi: Endurnærandi reynsla (e. The Recreational mode): Fólk sækist eftir hléi frá amstri hversdagsleikans til þess að hlaða batteríin. Ferðamaðurinn hefur sterk tengsl við kjarna samfélagsins og sækist ekki eftir nýjum kjarna. Hann er einungis í leit að skemmtun og/eða slökun. Hér er það ekki aðdráttarafl staðarins sem togar hann til sín heldur eigið samfélag sem ýtir honum af stað. Tilbreytingarháttur (e. The Diversionary mode): Ferðalagið snýst um tilbreytingu. Viðkomandi finnur ekki fyrir sérstakri tengingu við kjarna eigin samfélags en er þó ekki í leit að nýjum kjarna. Reynsluháttur (e. The Experiental mode): Ferðamaðurinn hefur misst tengsl við eigin kjarna og reynir að finna hann annarsstaðar. Ferðalagið snýst um nýja reynslu og leit að sanngildi. Þessi tegund ferðalags felur í sér meiri dýpt en fyrrnefndar tegundir. Tilraunaháttur (e. The Experimental mode): Ferðalagið snýst um að dýpka skilning sinn á lífinu og tilverunni. Ferðamaðurinn hefur engan kjarna og tekur virkan þátt í samfélaginu sem hann ferðast til án þess þó að tilheyra því til framtíðar. Ferðalagið snýst um að finna sjálfan sig en skortir skýra stefnu þar sem ferðamaðurinn er ekki viss um hverju hann leitar að. Tilvistarháttur (e. The Existential mode): Ferðamaðurinn finnur nýjan kjarna í nýju samfélagi, sest þar að og tekur upp þá menningu og þau gildi sem þar tíðkast. Formgerðaflokkun Cohens hér að ofan leggur áherslu á leitina að kjarna í samfélagi sem býr yfir sanngildi, en þær hugmyndir eru nátengdar hugmyndum Dean MacCannells um leit ferðamannsins að sanngildi, að fá að verða hluti af menningunni, ekki sem áhorfandi heldur sem þátttakandi. Þá vill MacCannell (1976; 1999) meina að ferðamennska sé oft á tíðum sviðsettur raunveruleiki sem samanstandi af framhlið og bakhlið. Framhliðin sé sá hluti sem er sviðsettur fyrir ferðamenn og sé þá ,, gervi“, á meðan bakhliðin sé ,, ekta“ og samanstandi af raunverulegri menningu. Í þessu samhengi ber bakhliðin með sér ákveðna dulúð þar sem leyndarmál heimamanna eru falin fyrir ferðamönnum (Goffman, 1959). Í leit sinni að sanngildinu fara ferðamenn t.d. í útsýnisferðir til að setja sig í hlutverk áhorfenda og verða vitni að einhverju sönnu, til að komast á bakvið framhliðina. Þetta lætur ferðamanninum líða eins og meira búi á bakvið það sem hann sér og þar af leiðandi getur skapast tilfinning um sanngildi. MacCannell (1999) segir svo að leitin að sanngildinu sé það sem drífi ferðamanninn áfram og geti jafnvel orðið að þráhyggju. Kenning MacCannells hefur verið gagnrýnd frá því sjónarmiði að hann líti á ferðamenn sem of einsleitan hóp og taki lítið tillit til mismunandi bakgrunns ferðamanna og ástæðna ferðalaga þeirra. Wang (1999) varpar ljósi á að misjafnt sé hverju ferðamaðurinn sækist eftir og þar af leiðandi sé upplifun af áfangastað hvers og eins mismunandi. Þannig getur einn ferðamaður upplifað eitthvað sem hann telur raunverulegt og falla undir sanngildi staðarins þó svo að aðrir telji það ekki búa yfir sanngildi. Cohen (1996) er á sama máli og segir óraunhæft að setja alla ferðamenn undir sama hatt, heldur þurfi að taka mið af einstaklingnum sjálfum. Sýn fólks á heiminn getur leitt til ólíkra reynsluhátta þegar kemur að ferðamennsku og ekki eigi alltaf við að líkja ferðamönnum við pílagríma. Hann telur þó að MacCannell (1999) hafi komið með nokkuð góðar útskýringar á hvötum fólks til að ferðast, byggðar á hegðun þeirra og reynslu. MacCannell (1999) sagði einnig að maðurinn væri í stöðugri þróun og leit að einhverju nýju, og á þann hátt færist hann sífellt fjær uppruna sínum. Með ferðalögum er fólk sífellt að leitast eftir því að þekkja sjálft sig betur og læra eitthvað nýtt, þannig heldur það að það sé að færast nær eigin uppruna, en það er kannski ekki raunin. MacCannell (1976) vill meina að með með ferðalögum sé maðurinn að missa tengsl við það sem er raunverulegt og skiptir hann sjálfan máli. Þegar maður þróar með sér of mikinn áhuga á lífi annarra getur maður misst tengslin við t.d. fjölskyldu sína, vini, vinnu og annað nærumhverfi. Hann segir einnig að umhverfið sé sífellt að breytast, bæði þar sem við eigum heima og á þeim stöðum sem við ferðumst til. Það leiðir til þess að við leitum sífellt meira eftir uppruna okkar, fortíðin gleymist með tímanum og fortíðarþráin verður til þess að leitin af sjálfsmyndinni verður enn sterkari. Með því að ferðast reynum við að finna fortíðina til þess að geta miðlað henni áfram til næstu kynslóða og mótað framtíðina. Þetta er þó ekki bundið við fólk sem er orðið gamalt, heldur einfaldlega það að eldast. Þetta getur að sama skapi átt við gamalt fólk eins og ungt fólk sem leitast eftir einhverju sem það upplifði sem barn. Orsökin gætu e.t.v. verið af völdum hnattvæðingar, heimurinn er að verða einsleitari og leitin að fortíðinni sterkari samhliða því (Giddens, 1991). Því mætti segja að fortíðarþrá og leit að eigin sjálfsmynd ýti undir ferðalög enn þann dag í dag. Þetta á vel við um fyrri umræðu þegar hugsað er til þess hversu fjarlægur t.d. dauðinn getur verið, eins og hann er sjálfsagður hluti af lífinu og tilverunni. Eins og fram hefur komið ferðast fólk oft til annarra staða til að komast í burtu frá hversdagsleikanum, við setjum okkur í hlutverk ferðamannsins sem er í leit að einhverju nýju og spennandi. Þrátt fyrir það byggjum við oft ferðalagið og val á áfangastöðum á reynslu annarra, hvort sem það eru ferðasögur eða eitthvað sem við höfum séð eða lesið. Urry (1990) talar um ferðamannaáhorfið (e. The Tourist gaze) sem leggur áherslu á neyslu í gegnum hið sjónræna þar sem ferðamaðurinn setur sig í hlutverk áhorfanda. Ferðamönnum er stýrt og beint að því sem þykir vert að sjá og því sé hegðun ferðamanna ekki hlutlaus heldur stýrð. Þegar ferðamenn fara t.d. í útsýnisferðir sjá þeir það sem þeim er ætlað að sjá, taka myndir og upplifa staðinn í gegnum það sem þeir sjá. Ferðamönnum er stýrt á sömu staðina og með tíð og tíma verður sá staður að vinsælum ferðamannastað ef allt fer eftir áætlun. Væntingar fyrir ákveðnum stað eru skapaðar af aðilum ferðaþjónustu í gegnum markaðssetningu og af ferðamönnum sem heimsækja staðinn og miðla reynslu sinni áfram, t.d. í gegnum ljósmyndir sem þeir birta á samfélagsmiðlum (Urry, 1990). Urry (2002) segir að í kjölfar fjöldaferðamennsku hafi ferðamenn minnkað ferðalög til einsleitra staða sem líkjast heimaslóðum þeirra og sækjast þeir enn meira í eitthvað sem er ólíkt því sem þeir þekkja. Með auknum hreyfanleika og tækniþróun eru staðir farnir að líkjast hvor öðrum æ meira og því felist aukin verðmæti í því að búa yfir sjónrænni sérstöðu sem ferðamannastaður. Áður en við ferðumst á staðinn gerum við okkur væntingar til staðarins og leitum stöðugt eftir staðfestingu á þessum væntingum í gegnum t.d. ljósmyndir. Tökum Ísland sem dæmi, þegar leitað er af myndum frá Íslandi er áberandi einsleitni í niðurstöðunum, þar er áhersla lögð fjölbreytta náttúrufegurðina og oftar en ekki sést ekki neitt mannfólk á myndinni. Það gefur ferðamanninum sem hyggst ferðast til Íslands þá hugmynd að skuli hann heimsækja umræddan stað sé hann e.t.v. eini ferðamaðurinn á staðnum, að nokkrum hestum eða kindum undantöldum. Myndirnar staðfesta þannig fyrirframgefnar hugmyndir og væntingar ferðamannsins sem hafði ímyndað sér auðnina og náttúrufegurð landsins. Urry (1990) talar um túlkunarhringinn (e. hermeneutic circle) í þessu samhengi þar sem ferðamenn halda áhorfinu gangandi með iðkun á staðnum í gegnum endurframleiðslu ákveðinna ímynda af staðnum. Í dag á þetta helst við um myndir á samfélagsmiðlum sem geta tryggt velgengni ferðamannastaða til áraraða. Urry (1990) segir ferðamenn þannig gegna mikilvægu hlutverki í sköpun og myndun áfangastaða, ferðamannastaðir eru rými sem taka á sig ólíkar birtingarmyndir eftir því hvernig staðurinn er iðkaður af þeim sem ganga um hann og því hefur iðkun ferðamanna verið mikið rannsökuð (Edensor, 2001). Urry (1990) hefur verið gagnrýndur fyrir að leggja ofuráherslu á áhorf í ferðamennsku umfram annarskonar skynjun á staðnum, aðra en þá sjónrænu. Það er mikilvægt að fjalla einnig um iðkun fólks á staðnum sem það ákveður að heimsækja, með athöfnum fólks í gegnum líkamann, tilfinningar, félagsleg samskipti, ímyndun og fleira. Með hreyfingu í gegnum ákveðið rými eru ólík rými tengd og ferðamaðurinn leitast við að skilja staðinn, þá vaknar tilfinning fyrir staðnum og andrúmslofti hans og yfirleitt styrkist menningarvitundin um leið (Chronis, 2015). Goffman (1990) telur ferðamenn setja sig í ákveðið hlutverk þegar þeir heimsækja staði líkt og um sviðssetningu sé að ræða, þar sem hreyfing ferðamannsins og líkami eru samofin í rými í gegnum samskipti og tengsl. Þetta styður við kenningu MacCannells (1976) hér að ofan um framhlið og bakhlið ferðamannastaða, þar sem ferðamenn leika ákveðið hlutverk á framsviðinu og hagar sér á annan hátt á bakvið tjöldin. Þessi hlutverkaleikur leiðir af sér formgerð og að samfélagslegar athafnir séu iðkaðar meðal annars af sjálfum ferðamanninum og sviðsettar fyrir hann á ýmsan hátt eftir því hvernig ferðamaðurinn staðsetur sig á framsviðinu (Goffman, 1990). Iðkun staða getur einnig haft áhrif á framvindu staðarins, þar sem staðurinn þróast í samfloti við iðkun ferðamanna. Tim Edensor (2000) líkir ferðamönnum við leikara sem setja á svið margar sýningar fyrir ferðamennskuna og í því samhengi mótist staðurinn eftir því hvernig hann er iðkaður af þeim ferðamönnum sem taka þátt eða leika leikritið. Edensor (2001) bætir því við að ferðamannastaðir séu einnig mótaðir af pólitískum ástæðum, andlegum, menningarlegum og þjóðareinkennum svæðisins hverju sinni. Staðir sem verða að ferðamannastöðum geta breyst til muna eftir að staðurinn verður iðkaður og um leið verður staðurinn sviðsettur fyrir ferðamanninn og er í raun viljandi gerður að stað fyrir ferðamenn. 3 Myrkvaferðamennska Á næturnar, þegar ekkert er fyrir utan gluggan, nema, myrkur, Endalaust myrkur. Þá fer ég af stað í ferðalag. Mér tekst að ferðast um allan heiminn og ég sé allt. Ég sé það sem ég vil sjá. Einnig það, sem er vont og ég vil ekki sjá. Hugurinn er fullkomnasta farartæki jarðar. Með honum komust við milli heimsálfa Á aðeins broti úr sekúndu. (Höf: Draumadís) 3.1 Upphaf og skilgreiningar myrkvaferðamennsku Myrkvaferðamennska hefur í sjálfu sér verið til í langan tíma þó svo að hugtakið yfir fyrirbærið hafi nýlega verið skilgreint af fræðimönnum. Fólk hefur ferðast til staða sem tengjast dauðanum, stríði, þjáningum eða öðrum hamförum í hundruðir ára. Gott dæmi um það hversu langt aftur í tímann hægt er að rekja þessa tegund ferðamennsku eru bardagar skylmingaþræla á tímum Rómverja, þegar fólk ferðaðist oft langar vegalengdir til þess að verða vitni að slíkum athöfnum (Stone og Sharpley, 2008). Í dag eru staðir sem teljast til myrkvaferðamennsku oftar en ekki vinsælir ferðamannastaðir, sem dæmi má nefna Ground Zero í New York, Auschwitz í Póllandi, Killing Fields í Kambódíu, Dýflissurnar í London og Alcatraz fangelsið í San Fransisco. Þeir Lennon og Foley (2000) voru fyrstir til að koma með hugtak sem skilgreindi ferðir sem tilheyra dauða, hamförum eða pyntingum þegar þeir settu fram hugtakið myrkvaferðamennska (e. Dark tourism). Í fræðum sínum nefna þeir að myrkvaferðamennska snúi ekki einungis að staðnum sjálfum og sögu hans, heldur að því hvernig framsetningu staðarins sé háttað og hvernig ferðamaðurinn upplifi sig á svæðinu. Aðrir fræðimenn sem hafa sett fram skýringar á hugtakinu eru þó ekki endilega sammála. Stone og Sharpley (2008) segja myrkvaferðamennsku felast í því að heimsækja staði sem geyma ýmist raunverulegar eða endurskapaðar aðstæður sem tengjast dauðanum eða öðrum harmleik sem hefur haft og mun áfram hafa áhrif á líf fólks. Fræðimenn hafa verið ósammála um þýðingu hugtaksins myrkvaferðamennska um árabil og hafa margar útskýringar á hugtakinu verið settar fram. Þar sem ýmsar skilgreiningar hafa litið dagsins ljós er hugtakið enn fremur vítt og er því ekki endilega hægt að útskýra á einn ákveðinn hátt. Chris Rojek (1993) tengdi þýðingu hugtakins við „dökka bletti“ (e. Black spots) og var hann þónokkuð á undan Foley og Lennon (2000) að velta fyrir sér ferðum tengdum dauðanum. Rojek skilgreinir dökka bletti á þann hátt að þeir séu staðir þar sem frægir einstaklingar hafa látið lífið eða þar sem stórslys hefur átt sér stað og það er það sem dregur ferðamenn að ákveðnum svæðum. Það gætu verið staðir eins og Graceland þar sem Elvis Presley lést eða Ground Zero í New York þar sem tvíburaturnarnir féllu í hryðjuverkaárás. Skilgreining Rojek á myrkvaferðamennsku er í raun tvíþætt. Annars vegar þar sem fólk ferðast til staða sem tengjast dauðanum, þá er hægt að vísa til dánarreita hjá þjóðþekktum einstaklingum. Hins vegar þar sem fólk ferðast á staði þar sem sjálfur atburðurinn á sér stað t.d. hörmungar, stórslys eða aðrar hamfarir sem hafa nýlega gengið yfir. Slíka staði kallar hann tilfinningalega staði (e. Sensation sites), því staði sem þessa er hægt að heimsækja í huganum. Hann tekur dæmi um fólk sem ferðast til Auschwitz, þar sem einstaklingurinn þarf í raun ekki að ferðast á sjálfan staðinn heldur getur upplifað hann t.d. í gegnum sjónvarp (Rojek, 1993). Seaton (1996) var hinsvegar ekki á sama máli og Lennon, Foley og Rojek og nefnir að myrkvaferðamennska eigi í raun mun lengri sögu en þeir vilja meina. Seaton (1996) setti fram hugtakið thanatúrismi (e. Thanatourism) sem ákveðna tegund ferðalaga sem fela í sér að komast nær dauðanum, annahvort í gegnum raunverulega snertingu eða táknræna. Ef við rýnum í orðin þá á thana rætur sínar að rekja til grískrar goðafræði, en Thanatos er í henni persónugervingur dauðans (Garland, 1985). Seaton (1996) vill meina að hægt sé að rekja sögu myrkvaferðamennsku aftur til miðalda þegar fólk ferðaðist á stríðsvæði. Hann telur hegðunarmynstur ferðamannsins og hvata hans til að ferðast á staði sem tilheyra myrkvaferðamennsku sé það sem ætti að skoða fremur en staðinn sjálfan (Seaton, 1996). Seaton (1996) talar um fimm gerðir thanatúrisma: 1. Sá sem ferðast til að verða vitni af dauða, t.d. aftökum 2. Sá sem ferðast til staða þar sem dauðsfall/dauðsföll urðu, t.d. Auschwitz 3. Sá sem ferðast til minnisvarða þeirra látnu, t.d. kirkjugarða 4. Sá sem ferðast til staða þar sem atburðir tengdir dauðanum eru sviðsettir eða endurleiknir, t.d. leikrit 5. Sá sem ferðast til staða sem bjóða upp á raunverulegar minjar tengdum dauða eða endurgerð þeirra, t.d. söfn Í skirfum Bowman og Pezzullo (2009) má sjá að þeir skoða hugtakið myrkur í sambandi við ferðamennsku og vilja komast að því hvað raunverulega standi á bakvið hugtakið. Þeir telja að myrkur tengist öllum tegundum ferðamennsku á einn eða annan hátt, þó svo að sá hluti sé ekki alltaf sýnilegur ferðamönnum. Eins og komið var inn á áður hefur dauðinn orðið fjarlægari daglegu lífi fólks í nútímanum þar sem fólk eyðir nú oftar sínum síðustu dögum á spítölum eða inni á hjúkrunarheimilum. Því mætti hugsa hvort að myrkvaferðamennska sé að færa okkur nær dauðanum og á sama tíma að veita okkur aukinn skilning á fyrirbærinu. Það er jafnvel hægt að hugsa til þess að hvatar hjá sumum einstaklingum til að stunda myrkvaferðamennsku sé í þeim tilgangi að syrgja og ná að loka ákveðnum kafla í eigin lífi með því að öðlast aukinn skilning á dauðanum. Á sama tíma eru þessir einstaklingar að leita sér að ákveðinni staðfestingu og eru jafnvel í leit að eigin tilgangi og kjarna (Cohen, 1996). Í þessu samhengi er einnig hægt að tengja þetta við hugmyndir MacCannells (1999) um sanngildi þar sem ferðamenn leitast eftir sannri reynslu þegar þeir ferðast til staða sem tengjast dauðanum á einn eða annan hátt. Ef horft er t.d. til Íslands þurftu menn á árum áður að horfast í augu við dauðann oftar en við þurfum að gera í dag. Vöggudauði, mikil fátækt og hungursneyð, sjúkdómar og farsóttir sóttu á landsmenn og hvorki var til tækni né aðrar lausnir við slíkum hörmungum. Ísland var eitt sinn eitt af fátækustu löndum Evrópu og í kringum 1402 lagðist Svartidauði yfir landið sem leiddi marga til dauða og þurrkaði út heilu þorpin (Gunnar S. Þorleifsson, 1982). Þegar einhver lét lífið þurfti fjölskyldan oftar en ekki að ganga frá líkinu og jafnvel sofa í sama herbergi og látnir ástvinir sínir þar til frost fór úr jörðu svo hægt væri að jarða viðkomandi. Í dag er dauðinn okkur mun fjarlægari, algengara er að fólk láti lífið á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum og fagfólk hugsar um viðkomandi eftir andlát. Því mætti hugsa sér að hluti af hvata fólks til að ferðast á staði sem tilheyra myrkvaferðamennsku sé til þess að öðlast skilning og þakklæti á því sem það hefur heima, þar sem dauðinn er mörgum svo fjarlægt fyrirbæri. 3.2 Hvatar til myrkvaferðamennsku Að framsögðu er ljóst að ekki er hægt að kasta fram einfaldri útskýringu á því hvers vegna fólk ferðast, hvað þá þegar kemur að því að rannsaka hvata þeirra sem stunda myrkvaferðamennsku. Eflaust eru þeir jafn margir og ferðamennirnir eru ólíkir. Í þessu samhengi er hægt að líta til skrifa Nielsen (2001), þar sem hann útskýrir ýti- og togkrafta þar sem utanaðkomandi og persónulegir þættir getað spilað stóran þátt. Tarlow (2005) segir þessa tegund ferðamennsku byggja að miklu leyti til á tilfinningum, sem dæmi má nefna þakklæti, auðmýkt, öryggi og þá tilfinningu að hafa það annaðhvort betra eða verr en aðrir. Svo eru það utanaðkomandi þættir líkt og t.d. fjölmiðlar, menntun og samfélagsmiðlar sem geta haft áhrif á ákvarðanatökuferlið. Auðvitað er oft um að ræða samspil af mögum þáttum. Fræðimenn hafa þó gert tilraun til þess að komast að því hverjir hvatar fólks séu til að stunda myrkvaferðamennsku og eru það helst þrjú atriði sem liggja þar að baki. Fyrst og fremst er það almenn forvitni, annars vegar arfleifð og að lokum byggir þessi gerð ferðamennsku á fortíðarþrá. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu ástæðum fólks til að ferðast til myrkra staða. Það er í eðli okkar að hafa áhuga á því sem er óvenjulegt og fjarstætt, til að fullnægja einhverri forvitni og eflaust er það einn af helstu hvötum fólks til að heimsækja myrka staði (Uzzel, 1989). Við höfum mörg heyrt og lært um marga af þeim stöðum sem teljast til myrkrar ferðamennsku, ef við tökum seinni heimstyrjöldina sem dæmi. Þeir sem hafa verið í söguáfanga í skóla hafa eflaust lesið sér til um atburðina sem þar áttu sér stað og finna fyrir einhverskonar tengingu við atburðina. Eins á það við um bíómyndir og annað efni sem hefur verið skapað í kringum myrka atburði. Með því að ferðast á staðinn styrkir maður þau tengsl og kemst nær atburðinum. Eins og áður hefur komið fram hefur internetið og umtal fjölmiðla aukið áhuga fólks á hinum ýmsu stöðum víðsvegar um heiminn. Staðir sem flokkast undir myrka ferðamannastaði sem hafa einnig fengið umfjöllun í fjölmiðlum getur verið stór áhrifavaldur, þar sem fjöldinn á það oft til að stýra ákvörðunum fólks. Má því segja að hvati fólks geti ráðist af vinsældum meðal annarra ferðamanna. Einnig má horfa til þess að hvatinn sé í raun enginn, það er að segja að ferðamaðurinn ferðast á stað í öðrum tilgangi en tilviljun gerir það að verkum að ferðamaðurinn stundi myrkvaferðamennsku án þess að það hafi verið ætlun hans frá upphafi. Ferðamaðurinn gæti einfaldlega ratað óvart á staðinn án þess að leggja leið sína þangað viljandi, hann var einfaldlega að heimsækja svæðið í kring. Almenn forvitni er eflaust einn stærsti hvati myrkvaferðamennsku, þar sem það óvenjulega getur vakið forvitni og áhuga meðal ferðamanna sem einfaldlega vilja safna í reynslubankann. Arfleifðarferðamennska hefur lengi verið vinsæl tegund ferðamennsku, þá ferðast fólk til að kynna sér sögu og menningu staðarins til þess að reyna að mynda tengsl við staðinn sem heimsóttur er. Viðkomandi gæti haft ákveðna tengingu við staðinn sem er heimsóttur, t.d. eftir að hafa lesið um hann í blöðum eða lært um hann í skóla, eða í gegnum persónuleg tengsl. Algengt er að þeir sem hafa misst einhvern nákominn sér eða þeir sem búa yfir einhverri tengingu við sorglega atburði vilji mynda sterkari tengsl við arfleifð sína eða votta virðingu sína gagnvart einhverjum með því að heimsækja staðinn þar sem atburðurinn átti sér stað, eða með því að heimsækja safn sem minnist atburðanna (Rojek, 1993). Dæmi um slíkt gætu verið vinir og vandamenn þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í tvíburaturnunum í New York 11. september árið 2001. Þangað leggja margir leið sína hvaðan æva af til að votta þeim látnu virðingu sína, byggja upp arfleifð og styrkja sjálfsmynd sína með því að komast nær uppruna sínum (Hudman & Jackson, 1992). Smith (2006) vill meina að staður sé þó ekki arfleifð nema að eitthvað eftirminnilegt hafi þar gerst og jafnvel sé staðurinn sjálfur ekki orðinn að arfleifð heldur sjálfur atburðurinn. Erfitt gæti reynst að leggja mat á hvað teljist eftirminnilegt og hvað ekki, en gagnlegt er þó að hafa þetta í huga. Söfn eru stór hluti arfleifðarferðamennsku og einnig stór hluti myrkvaferðamennsku, þar sem markmiðið er að halda utan um sögu og/eða minjar frá ákveðnum atburðum. Atburðir fortíðarinnar verða þar af leiðandi að verðmætum nútímans (Smith, 2006). Þannig eru þeir sem heimsækja söfn sem minnast látinna eða ákveðins harmleiks um leið að stunda myrkvaferðamennsku. Þegar einstaklingar horfa aftur í tímann er misjafnt hvaða tilfinning vaknar, hjartað getur fyllst af hlýju yfir öllum góðu minningunum eða fyllst af sorg og söknuði. Það hefur verið sagt að til þess að skilja hvernig myrkvaferðamennska virkar verði maður að geta tengt hana við fortíðarþrá (Tarlow, 2005). Ferðamaður sem býr yfir fortíðarþrá fer í menningarog ættjarðarmiðuð ferðalög í leit að tilvistarlegum þáttum sem gerst hafa í fortíðinni og í tenglsum við myrkvaferðamennsku eru það yfirleitt atburðir sem tengjast dauða, sorg eða öðrum harmleik (Cohen, 1996). Myrkvaferðamennska leyfir okkur að komast sem næst atburðunum án þess að fá að endurupplifa þá. Rojek (1993) tekur kirkjugarða sem dæmi þar sem fólk heimsækir látna ástvini til að komast sem næst því að endurupplifa liðna tíð með þeim sem það elskaði. 3.3 Sviðsetning staða Á flestum ferðamannastöðum er hægt að koma auga á sviðsetningu af einhverju tagi, þ.e. einhverskonar leiðbeiningar um það hvers kyns hegðun sé æskileg á umræddu svæði. Sem dæmi má taka söfn og skemmtigarða þar sem er að finna ákveðnar takmarkanir sem leiða af sér hegðunarmynstur af einhverju tagi svo að ferðamenn viti hvaða athafnir eru við hæfi hverju sinni (Edensor, 2001). Lennon og Foley (2000) telja að framsetning staða innan myrkvaferðamennsku sé það sem setur staðinn undir þessa tegund ferðamennsku, á sama tíma er það einnig upplifun og iðkun ferðamannsins sem hefur áhrif á staðinn. Staðir mótast í raun eftir persónulegum þörfum ferðamannsins miðað við hversu oft eða hve mikið hann er iðkaður. Staðurinn getur því stöðugt verið að taka breytingum og jafnvel breyst samhliða þörfum ferðamanna. Með iðkun eru ferðamenn að endurskapa staðinn sem verður til þess að hann á erfitt með að fullmótast sökum sífelldrar þróunar (Edensor, 2001). Þrátt fyrir að Seaton (1996) beini athyglinni frá staðnum og að ferðamanninum er mikilvægt að átta sig á mikilvægi framsetningar staðarins og að ferðamenn séu ekki einu gerendurnir í mótun ferðamennsku á staðnum. Það er alltaf um eitthvað samspil iðkunar og framsetningar eða sviðsetningar að ræða sem mikilvægt er að skoða til að skilja þróun myrkvaferðamennsku á staðnum. Ef litið er til Íslands er hægt að sjá dæmi um sviðsetningu á gosminjasýningu í Vestmannaeyjum sem kallast Eldheimar, sýningin á að miðla fróðleik til fólks um eldgosið sem átti sér stað þar árið 1973. Á sýningunni gefst ferðamönnum tækifæri til að upplifa þennan atburð þar sem gamlar rústir frá gosinu hafa meðal annars verið grafnar upp (Eldheimar, á.á.). Slíka uppsetningu má víða sjá innan myrkvaferðamennsku, þar sem hörmungar á borð við náttúruhamfarir hafa átt sér stað og hugsa má til þess að slíkir staðir væru eflaust ekki ferðamannastaðir ef sviðsetning væri ekki til staðar þar sem ferðamenn fá að upplifa atburðinn í nútímanum. Ferðamannastaður verður í raun ekki staður ferðamanna fyrr en staðurinn er gerður að ferðamannastað. Til að laða að fólk er staðurinn kynntur í gegnum auglýsingar, ferðahandbækur, bæklinga eða í gegnum miðla á internetinu (Chronis, 2015). 4 Um rannsóknina Í þessum kafla verður gerð grein fyrir þeim aðferðum sem notaðar voru við rannsóknina. Greint verður frá því hvernig val á viðmælendum var háttað og hvernig undirbúningur fyrir viðtölin fór fram. Þar á eftir verður farið yfir það hvernig gagnaöflun gekk fyrir sig og hvernig unnið var úr gögnunum 4.1 Val á rannsóknaraðferð Í þessari rannsókn var stuðst við eigindlegar rannsóknaraðferðir. Einkenni eigindlegra rannsókna eru að þær eru heildrænar og byggja á aðleiðslu þar sem rannsakendur passa upp á að hafa ekki áhrif á svör þátttakenda með neinu móti (Bryman, 2016). Með eigindlegum rannsóknum er markmiðið að kafa dýpra og fá betri innsýn inn í viðhorf fólks með því að reyna að skilja skoðanir viðkomandi. Aðferðir sem falla undir flokk eigindlegra rannsóknaraðferða eru m.a. þátttökuathuganir, rýnihópaviðtöl og djúpviðtöl (Esterberg, 2002). Í þessari rannsókn var notast við djúpviðtöl. Þessi rannsókn byggir á aðferðum grundaðar kenningar (e. Grounded theory). Í stuttu máli snýst grunduð kenning um að leitast eftir því að þróa kenningu út frá gögnum rannsóknarinnar, frekar en að halda af stað í rannsóknina með ákveðna kenningu eða tilgátu í huga. Með nálgun grundaðrar kenningar er því markmiðið að uppgötva eða þróa kenningar í gegnum ferli rannsóknarvinnunar (Bryman, 2016). Við lögðum af stað með ákveðna hugmynd í huga, að rannsaka hvata fólks til þess að stunda myrkvaferðamennsku og kanna upplifun þeirra en höfðum ekki fullmótaða rannsóknarspurningu þar til að viðtölum loknum. 4.2 Val viðmælenda og gagnaöflun Í þessari rannsókn var stuðst við djúpviðtöl við einstaklinga sem höfðu stundað myrkvaferðamennsku. Viðmælendur voru valdir með markvissu úrtaki (e. Purposive sampling) þar sem fyrirframgefnar forsendur ráða vali á viðmælendum (Bryman, 2016). Þessi aðferð þótti henta rannsókninni vel til þess að fá dýpri skilning á viðfangsefninu. Í þessu tilfelli þurfti viðkomandi að hafa upplifað einhverja tegund af myrkvaferðamennsku til þess að auka skilning rannsakenda á viðfangsefni rannsóknarinnar. Tekin voru viðtöl við sex einstaklinga sem allir höfðu stundað myrkvaferðamennsku. Áður en að viðtölin hófust var búinn til viðtalsrammi (sjá viðauka) sem innihélt opnar spurningar um viðfangsefnið svo að viðmælendur gætu haft svigrúm til að tjá sig um sína upplifun án þess að rannsakendur væru of bundnir ákveðnum spurningalista (Bryman, 2016). Helst var notast við samskiptaforritið Facebook til þess að ná tali af viðmælendum svo hægt væri að ákveða tíma og staðsetningu en reynt var að koma því í kring að viðkomandi kæmi með hugmynd að fundarstað sem hentaði honum best. Þar sem meirihluti viðmælenda voru námsmenn við Háskóla Íslands reyndust byggingar háskólans oftast besti kosturinn nema hvað varðaði tvö viðtalanna þar sem viðmælandi bauð rannsakendum heim í annað skiptið og í hitt skiptið fór viðtalið fram á kaffihúsi í miðbænum. Viðtölin voru tekin á tímabilinu 23. október til 15. nóvember 2018. Í upphafi hvers viðtals var kynntur lítill formáli sem átti að gefa viðmælendum betri innsýn inn í viðfangsefni rannsóknarinnar, þar að auki var fengið leyfi fyrir upptöku og á sama tíma var greint frá því að viðtalið væri tekið í fullum trúnaði og undir nafnleynd. Trúnaðarregla (e. Principle of trust) er ein þeirra reglna sem tengist rannsóknarsiðfræði þegar kemur að eigindlegri aðferðafræði. Nöfnum viðmælenda var breytt til þess að halda trúnaði við viðmælendur sem allir kusu að nafn þeirra yrði ekki getið í rannsókninni (Bryman, 2016). Hér að neðan má sjá nöfn viðmælenda, aldur og stöðu á vinnumarkaði. Vert er að taka fram að nöfnin hér að neðan eru ekki sönn. Viðmælendur: • Jóna, 23 ára námsmaður. • Kristín, 23 ára námsmaður. • Gunnhildur, 23 ára námsmaður. • Marta, 20 ára á vinnumarkaði. • Vilhjálmur, 26 ára á vinnumarkaði. • Birkir, 24 ára námsmaður. Þessir einstaklingar eiga það sameiginlegt að hafa stundað myrkvaferðamennsku af einhverju tagi. 4.3 Greining og úrvinnsla gagna Greining gagna hófst strax að loknu fyrsta viðtali enda einkennist grunduð kenning af því að hefja greiningu á gögnum á meðan gagnaöflun stendur enn yfir til að hafa áhrif á gagnaöflun síðar í ferlinu (Bryman, 2016). Að hverju viðtali loknu skrifuðum við niður ýmsar hugleiðingar sem komu upp þá stundina, á meðan viðtalið og tilfinningar sem vöknuðu á meðan því stóð voru enn ferskar í minninu. Þar á eftir hófst afritun á viðtalinu. Því næst tók við kóðun á viðtölunum. Markmið kóðunar er að draga fram lykilþemu viðtalsins og er góð leið til að öðlast betri skilning á innihaldi hvers viðtals. Hér var notast við opna kóðun en alls eru til þrír flokkar kóðunar: opin kóðun (e. Open coding), öxulkóðun (e. Axial coding) og markviss kóðun (e. Selective coding). Það sem einkennir opna kóðun er ítarleg yfirferð á viðtalinu með það markmið að finna tengingar og þemu í textanum, því næst eru þau atriði sem eiga eitthvað sameiginlegt pöruð saman og kóðar búnir til. Þannig gengur það koll af kolli þar til nokkrir slíkir kóðar hafa verið búnir til og ákveðið flokkunarkerfi verður til. Séu kóðarnir margir eru oft búin til undirþemu til einföldunar (Esterberg, 2002). Þau lykilþemu sem komu fram við kóðun á viðtölunum voru sex talsins: hvatar ferðalags, væntingar, forvitni, arfleið, upplifun og tilfinningar. Niðurstöðurnar sem fara hér á eftir byggja á þeim þemum sem kóðunin leiddi í ljós og í umræðum eru þær settar í samhengi við fræðilega umfjöllun. 5 Niðurstöður Í þessum kafla verða niðurstöður rannsóknarinnar settar fram. Fjallað verður um ástæður sem liggja að baki heimsókna viðmælenda á myrka staði og upplifun þeirra af staðnum, hvaða væntingar þeir höfðu til staðarins, hvað þeir gerðu þegar á staðinn var komið og þær tilfinningar sem tengdust heimsókninni. 5.1 Hvatar til ferðlaga með tilliti til myrkvaferðamennsku Flestir viðmælenda höfðu svipaðar ástæður til þess að vilja ferðast, margir sögðust ferðast til þess að víkka sjóndeildarhringinn, styrkja sjálfsmyndina, kynnast ólíkum menningarheimum og fá frí frá hversdagsleikanum á litla Íslandi. Þegar viðmælendur voru spurðir hvers kyns ferðir þeir færu í voru margir sammála um að þeir færu helst í tvær tegundir ferða, annars vegar ferðir til afslöppunar eða skemmtunar og hins vegar ferðir til að skoða og kynnast nýrri menningu. Á þessum tímapunkti viðtalsins voru allir sammála um að myrkvaferðamennska félli undir seinni tegundina, þ.e. menningarferðir. Þegar spurt var hvers vegna viðkomandi stundaði myrkvaferðamennsku voru svörin fremur fjölbreytt og mismunandi hvatar lágu að baki ferðalags hvers og eins. Allir viðmælendur að einum undanskyldum, höfðu ekki ákveðið fyrirfram að heimsækja þann myrka stað sem þau heimsóttu. Þ.e.a.s. einungis einn viðmælandi, Birkir, ákvað áður en haldið var af stað í ferðalagið að hann ætlaði að heimsækja Auschwitz. Birkir sagði að ákvörðunin um að fara hafi verið tekin snemma og útskýrir jafnframt ástæðuna: Áður en við fórum í þessa ferð, þá settum við niður punkta sem við vildum skoða og Auschwitz kom frekar snemma á þennan lista. Það var bara vegna þess að við höfðum tækifæri á því að fara. Þetta er svo fjarlægt okkur, við erum hérna á Íslandi bara 25 ára, og þetta er svo fjarlægt okkur og því sem við þekkjum, en það er samt svo stutt síðan og nálægt okkur. Og okkur langaði í rauninni bara að þekkja söguna betur, hvað gerðist og hvernig það gerðist. Ég held að það hafi verið svona aðal hvatningin. Allir hinir viðmælendurnir áttu einfaldlega leið hjá og fengu hugdettuna á meðan ferðalaginu stóð. Tveir viðmælenda, Kristín og Gunnhildur, heimsóttu sína staði í vísindalegum tilgangi. Kristín fór til Armeníu á ráðstefnu vegna vinnu og Gunnhildur fór til Ísrael á vegum Háskóla Íslands að taka þátt í fornleifauppgreftri. Kristín vissi af þjóðarmorðunum sem framin voru í Armeníu áður en hún hélt af stað og sagðist hafa haft áhuga á því að skoða aðstæður þar í landi vegna þess að hún ætti leið hjá, en að eigin sögn hefði hún ekki farið þangað á eigin vegum. Hún segist þó þakklát því að hafa heimsótt staðinn og útskýrir jafnframt hvers vegna hún hefur áhuga á því að ferðast til sambærilegra staða: Ég vil læra og sækjast í eitthvað sem er ólíkt. Hér [á Íslandi] er friður og ég vildi sækjast í einhverjar krefjandi aðstæður afþví mig langaði að setja sjálfa mig í krefjandi aðstæður og mig langaði að kynnast einhverri menningu sem er gjörólík minni eigin. Gunnhildur var stödd í Ísrael vegna skóla og ákvað í frítíma sínum þar í landi að heimsækja Palestínu „bara til þess að geta sagst hafa farið þangað“ og talar í framhaldi um slík ferðalög sem „edgy eða kúl, en ekki bara að fara og sitja á ströndinni heldur til að hafa einhverja sögu að segja“ þegar heim er komið. 5.1.1 Forvitni Allir viðmælendur minntust á að forvitni hefði spilað stóran þátt í ákvarðanatökuferlinu. Marta lýsti því sem svo: „Mig langaði bara alltaf að sjá meira, ekki vera föst á þessu litla landi í lítilli búbblu“. Allir viðmælendurnir voru sammála henni um að langa að sjá og vita meira með því að ferðast um heiminn. Kristín var með svipaða sýn og útskýrði hana á greinargóðan hátt þegar hún lýsir því hvers vegna henni fannst áhugavert að heimsækja Armeníu: Ég er forvitin og vil vita afhverju hlutir eru eins og þeir eru. Það er eitt að lesa um hluti í bókum en það er allt annað að fara og upplifa það, vera þar, sjá umhverfið [...], þessi orka og skynja hana, það er miklu sterkari upplifun en að opna einhverja bók eða dagblað og lesa gamla grein um það. Auðvitað getur maður aldrei farið í fortíðina, en samt sem áður getur maður komist aðeins nær henni með því að fara á staðinn og setja sig í spor annarra. Þegar viðmælendur voru spurðir hvort þeir gætu gert sér í hugarlund hvers vegna annað fólk stundi myrkvaferðamennsku komu Birkir og Gunnhildur bæði inn á að forvitni ætti þátt í því að fólk ferðist á slíka staði og sagði Birkir: Ég held að það sé forvitni, kannski mikið af venjulegu fólki, bara eðlilegt fólk, sem myndi aldrei gera einhverja svona hluti, þá að fara á svona stað og sjá hvað það er virkilega mikil mannvonska til. Þetta opnar nýja vídd á hlutina, þú sérð þá í alveg nýju ljósi, þegar þú ferð eitthvert sérðu endilega ekki neitt slæmt en svo ferðu á svona stað og áttar þig á því að það er til fólk sem getur gert svona hluti. Gunnhildur hélt því fram að fólk væri í leit að tilbreytingu og vildi hafa einhverja sögu að segja þegar ferðalagið væri á enda og kysi þess vegna að stunda myrkvaferðamennsku. Jóna sagðist hins vegar ekki getað sagt hvað liggi að baki ferðalagi annarra en reiknaði þó með að því að það gæti svipað til hennar ástæðu sem var „að sjá söguna í raunveruleikanum, skoða aðstæður og fá kannski að heyra meira“. Í viðtölum Jónu og Gunnhildar skein í gegn forvitnin um að fá að skoða og fræðast um staðina sem þær heimsóttu því þær hefðu áhuga á stöðum sem hafa einhverja sögu að geyma. 5.1.2 Arfleifð Söfn eru stór hluti arfleifðarferðamennsku og þar af leiðandi myrkvaferðamennsku eins og komið var inn á hér að ofan. Með varðveislu sögulegra minja og staða er fólki gert kleift að komast nær sögunni. Staðirnir sem viðmælendur heimsóttu voru ekki beint hefðbundin tegund safna, eins og t.d. Þjóðminjasafnið þar sem minjagripum hefur verið stillt upp fyrir almenning. Viðmælendur heimsóttu allir sjálfan staðinn þar sem atburðurinn átti sér stað. Á flestum stöðum, eins og t.d. Í Auschwitz og á Killing Fields sem margir viðmælenda heimsóttu, var þó búið að búa staðinn undir straum ferðamanna. Þar var búið að girða ákveðin svæði af til varðveislu og fólki stýrt um svæðið og á vissan hátt stjórnað hvað fólk myndi sjá. Aðspurðir hvers vegna viðmælendur vildu heimsækja staði með myrka fortíð sem þessa voru allir á því máli að það væri að hluta til, ef ekki einungis, af þeirri ástæðu að staðurinn hefði svo mikla sögu sem þeir vildu votta virðingu sína. Kristín orðaði það svo: Það er náttúrulega svo mikil saga á þessum stöðum, mikil sorg og miklar tilfinningar þar sem margir hafa komið að, það er svo mikil hlaðin orka einhvern veginn. Þannig að mér finnst mikilvægt að fara þangað og sýna staðnum virðingu og samúð. Þetta er svolítið eins og þegar einhver lendir í einhverju slæmu, þá fer maður og knúsar manneskjuna og segir: „ég samhryggist“. Þetta er svolítið það sama, að fara á staðinn og hugsa: „ég samhryggist því sem hefur hér átt sér stað“. Vilhjálmur, sem heimsótti Killing Fields í Kambódíu, lýsti yfir óánægju að hafa ekki vitað meira um staðinn fyrir heimsóknina, sem og ósætti sínu gagnvart menntaskólum að hafa ekki kennt meira um myrka atburði líkt og Killing Fields: ,, Það var held ég ein blaðsíða í Versló um þennan stað“. Marta, sem heimsótti sama stað, lýsti einnig yfir óánægju sinni að hafa ekki vitað af staðnum fyrir heimsóknina. Hún hringdi í foreldra sína sama dag og furðaði sig á því að hafa ekki vitað af staðnum, spurði hvort þau vissu af þessu og var að eigin sögn „brjáluð í skapinu yfir þessu“. Vilhjálmur og Marta gáfu bæði sterklega í skyn að þessi saga ætti að fá mun meiri athygli en hún virðist hafa fengið, allavega á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess að það sé svona stutt síðan atburðirnir áttu sér stað. Marta var stödd í Kambódíu og ákvað þegar þangað var komið að heimsækja Killing Fields. Hún vildi meina að enginn myndi ákveða fyrirfram að heimsækja slíkan stað nema viðkomandi myndi hafa brennandi áhuga á sögu staðarins. Hún segist annars aldrei hafa heyrt neinn segjast vilja heimsækja sambærilegan stað nema fyrir tilviljun, líkt og gilti um hennar tilfelli. Viðmælendur sem höfðu t.d. heimsótt Auschwitz þekktu söguna sem lá að baki og vildu fræðast meira um staðinn með því að heimsækja hann. Jóna talaði m.a. um að hafa lært mikið um seinni heimstyrjöldina alla sína skólagöngu og þar að auki farið í valáfanga í menntaskóla sem bar heitið Þjóðarmorð. Hún hafði því raunverulegan áhuga á atburðum staðarins og sá alls ekki eftir því að hafa heimsótt hann: Nei, ég sé ekki eftir því að hafa heimsótt Auschwitz, mér finnst ótrúlega mikilvægur hluti af þessari sögu að varðveita þetta, [...] með því er það í raun áminning um það hversu slæmt ástandið var. Og þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt. 5.2 Væntingar Væntingar viðmælenda til staðanna sem þeir heimsóttu voru mismunandi, þeir skiptust í raun í tvær fylkingar: þeir sem höfðu litlar eða engar væntingar og þeir sem höfðu fyrirframgefnar væntingar. Gunnhildur ferðaðist til Ísrael og var með ákveðnar væntingar til landsins áður en ferðalagið hófst, þar sem Ísrael hefur verið umfjöllunarefni í heimsfréttum um áraraðir. Þegar hún kom loks á staðinn sagði hún ástandið þar vera „meira alvörunni en ég hélt, ég hélt að þetta væri ekki eins áberandi“. Aftur á móti hafði Villhjálmur engar væntingar til Killing Fields og sagði: „Ég vissi ekki að þetta væri svona rosalega sorglegt, ég hafði aldrei heyrt um neitt af þessu ég var náttúrulega bara 20 ára á þessum tíma og hafði engar væntingar fyrir þessu“. Þeir viðmælendur sem heimsóttu Auschwitz voru e.t.v. með mestu væntingarnar fyrir staðnum. Það kom þeim í raun báðum á óvart hversu lítið þau vissu um staðinn þegar þangað var komið. Birkir upplifði staðinn svona: „Maður vissi bara að Auschwitz væru búðirnar þar sem þetta gerðist, maður var með ákveðna mynd í hausnum af þessu, eins og maður hafði séð t.d. í bíómyndum“. Sömu sögu hafði Jóna að segja: „Ég hélt ég myndi vita allt þegar ég kæmi á staðinn en svo var þetta allt öðruvísi þegar ég kom þangað“. Þau voru bæði á því máli að þetta hefði verið allt öðruvísi en þau bjuggust við, þrátt fyrir að vita bæði mjög mikið um staðinn. Þeim fannst staðurinn óhugnanlegri en þau hefðu haldið og minntust bæði á að eignir fórnarlamba á borð við hrúgur af hári fórnarlamba, gleraugu og fleira hefðu vakið mikinn óhug. Það var gegnumgangandi í viðtölunum að viðmælendur hefðu mismunandi væntingar sökum mismikils undirbúnings fyrir ferðalagið, sumir voru fróðir um sögu staðarins en aðrir vissu jafnvel ekkert og höfðu þá á sama tíma minni væntingar en hinn hópurinn. 5.3 Iðkun og upplifun Flestir viðmælenda voru í skipulögðum ferðum á staðnum sem heimsóttur var, allir nema Kristín sem heimsótti Armeníu en hún tók einmitt fram að henni „finnst langbest að labba um staði og kynnast stemmingunni þannig [...], heilsa fólki og kíkja á fólkið“. Þeir viðmælendur sem heimsóttu Auschwitz og Killing Fields fóru í skipulagðar ferðir um staðinn með leiðsögumanni, en það er meirihluti viðmælenda. Þeir sem heimsóttu Killing Fields fengu leiðsögn í gegnum heyrnartól um leið og þau gengu um svæðið í tuttugu manna hóp. Þeir sem heimsóttu Auschwitz voru í minni hópum með leiðsögumann sem lýsti fyrir þeim því sem fyrir augu bar. Aðspurð hvort þau hefðu tekið myndir á staðnum svöruðu allir neitandi og Birkir tók fram að „maður þyrfti að vera frekar vitlaus til þess að gera það, fara að taka einhverjar selfís, því það er svakalega þungt yfir öllum þarna“. Um leið gáfu aðrir í skyn að almennt hefði fólk ekki verið að taka myndir á þessum stöðum til þess að sýna ekki vanvirðingu. Ákveðnar tilfinningar vöknuðu hjá öllum viðmælendum þegar myrkir staðir voru heimsóttir, þá aðallega ein tilfinning: sorg. Marta var ein af þeim viðmælendum sem heimsótti Killing Fields og kom inn á að þessi dagur hafi verið sá „versti í allri reisunni“ og hafi tekið mikið á andlegu hliðina. Alls kyns tilfinningar vöknuðu þegar hún heimsótti staðinn og aðspurð hvernig henni leið á svæðinu svaraði hún svo: Bara mjög illa, ég var grátandi, ég var ein fyrir framan fólk sem ég hafði aldrei hitt en það voru einhvern veginn allir þannig. [...] það voru allir rosalega litlir í sér því þetta var svo ógeðslegt. Allir viðmælendur fundu fyrir því þegar þeir heimsóttu stað sem tengdist myrkvaferðamennsku að ýmsar tilfinningar létu á sér bera og þá sérstaklega tilfinningar tengdar sorg. Tilfinningar sem þau hefðu kannski ekki endilega upplifað á öðrum ferðalögum sem viðmælendur vísuðu oft til sem skemmtiferða. Þegar viðmælendur voru spurðir hvaða tilfinningar vöknuðu þegar þeir litu til baka voru það oftast sömu tilfinningar og daginn sem heimsóknin fór fram, þau fundu þó ekki fyrir eftirsjá að hafa heimsótt staðinn þó svo að það hafi verið erfitt tilfinningalega. Marta segir m.a: „Ég er mjög glöð að ég fór, afþví þetta er alveg mikil lífsreynsla, og eitthvað sem er gott að vita af“. Nokkrir viðmælendur fundu líka fyrir reiði. Þá sérstaklega vegna þess að þeir höfðu ekki verið upplýstir um atburði staðarins af eigin samfélagi eins og var komið inn á hér að ofan þegar Marta hringdi brjáluð í foreldra sína og Vilhjálmur undraði sig á því að skólabækur hefðu lítið fjallað um atburðina. Aðrir viðmælendur fundu fyrir stressi og sögðu það stafa af því að þeir hefðu kynnt sér sögu staðarins. Jóna nefndi að henni fyndist hún mjög meðvituð um að hún væri á sama stað og þetta gerðist fyrir mörgum árum þegar hún heimsótti Auschwitz og sagðist hafa fundið fyrir stressi og fengið gæsahúð við tilhugsunina. Birkir talaði einnig um að hafa fundið fyrir ónotatilfinningu þegar hann kom loksins á staðinn sem hann vissi svo mikið um og sagðist hafa fengið „veruleikasjokk“ þegar hann mætti til Auschwitz. Þegar Kristín fór til Armeníu upplifði hún staðinn eins og að lítil þróun hafði átt sér stað. Hún fann fyrir spennu í loftinu, eins og eitthvað mikið hefði gerst þarna og á sama tíma fann hún fyrir samúð með heimamönnum. Kristín útskýrði tilfinninguna sem svo: Stemmingin er eins og að eitthvað væri að fara að gerast eða eitthvað væri nýbúið að gerast, þó það væru náttúrulega 100 ár síðan morðin voru. En það er samt ennþá, maður finnur fyrir svolítilli, ég veit ekki, sorg eða einhverju andrúmslofti. Kristín nefndi einnig: Maður skynjaði svona: „Ok hérna hefur verið eitthvað líf og eitthvað gerst, en það er ekki hérna lengur“, ég myndi segja sorg. Þegar maður var að tala við fólkið frá Armeníu þá fékk maður svona samúð einhvern veginn með þeim og maður fann að þau áttu ótrúlega mikla sögu. Maður finnur að það er sorg í þjóðfélaginu ennþá. Vilhjálmur var á sama máli og Kristín eftir sína heimsókn til Kambódíu, þar sem hann fann fyrir samúð með heimafólki eftir að hann fræddist um sögu landsins þegar hann skoðaði Killing Fields. 6 Umræður Í upphafi þessarar ritgerðar var lagt upp með eftirfarandi rannsóknarspurningar: Hverjir eru hvatar fólks til að stunda myrkvaferðamennsku og hver er upplifun fólks af myrkum áfangastöðum? Í þessum kafla veltum við þessum spurningum fyrir okkur í samhengi við fræðilega umfjöllun út frá niðurstöðum rannsóknarinnar. 6.1 Hvatar Viðmælendur sögðust ferðast til þess að komast frá hversdagsleikanum, sem tengist upplifunarháttum Cohens (1996) þar sem hann talar um tegund ferðalaga sem hann kallar endurnærandi reynslu, en það er einmitt þegar fólk sækist eftir flótta frá hversdagsleikanum og sá flótti er innri þörfin sem ýtir þeim af stað í ferðalagið (Nielsen, 2001). Viðmælendur voru sammála um að þeir færu í tvenns konar ferðir eftir tilgangi ferðarinnar, annaðhvort væru það skemmtiferðir til afslöppunar eða ferðir tengdar menningu og sögðu myrkvaferðamennsku falla undir menningarferðir. Þeir sögðust fara í menningarferðir til að auka vitneskju sína, bæði menningarlega og til að styrkja sjálfsmyndina og þar ætti myrkvaferðamennska vel við. Á sama tíma væri tilgangurinn einfaldlega að sjá meira af heiminum sökum forvitni. Í niðurstöðum kom í ljós að allir nefndu að forvitni væri helsti hvati þeirra til að stunda myrkvaferðamennsku. Tilviljun getur gert það að verkum að fólk stundi ómeðvitað myrkvaferðamennsku. Í niðurstöðum kom fram að hluti viðmælenda heimsótti staðinn einungis vegna þess að svo vildi til að þau væru á svæðinu. Það átti sérstaklega við um þá sem voru í heimsreisu. Framboð til afþreyingar á þeim stöðum sem voru heimsóttir gat verið af skornum skammti, eins og t.d. í Kambódíu, þar sem báðir viðmælendur tóku fram að það væri lítið annað að skoða en Killing Fields og þess vegna slógu þau til. Álykta má að einhver hluti ferðamanna láti tilviljun ráða því hvort stunduð sé myrkvaferðamennska eða ekki og má gera ráð fyrir að það sé algerlega ómeðvitað í sumum tilfellum. Hægt er að tengja svör viðmælenda við kenningu MacCannells (1999) um sanngildið þar sem hann talar um að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Í niðurstöðum kom í ljós að þeir sem höfðu kynnt sér sögu staðarins fyrir heimsóknina voru líklegri til að vilja verða virkur hluti af samfélaginu. Þá kom einnig í ljós að hluti viðmælenda var að leitast eftir því að kynnast sjálfum sig betur í gegnum ferðalagið. Sjá mátti á niðurstöðum að ákveðnir viðmælendur voru að reyna að styrkja sjálfsmynd sína með það í huga að aðrir myndu frétta af heimsókninni og þar af leiðandi mynda sér breytta skoðun á viðkomandi. Samanber hugmyndir MacCannells (1999) um hvernig umhverfið sé að breytast og það gæti leitt til þess að við leitumst eftir uppruna okkar og leggjum enn meiri áherslu á að styrkja sjálfsmyndina. MacCannell (1999) kemur inn á að fólk sé að missa tengsl við samfélag sitt og hefur þess vegna þróað með sér meiri áhuga á lífi annarra, en niðurstöður þessarar rannsóknar voru ekki á þann veg. 6.2 Upplifun Út frá niðurstöðum má álykta að myrkvaferðamennska sé ólík öðrum tegundum ferðamennsku, með tilliti til kenninga MacCannells (1999) um framhlið og bakhlið ferðamannastaða. Það virðist sem svo að ekki sé sköpuð tilfinning fyrir því að bakhlið sé til staðar, þó svo að viðmælendur hafi verið undir leiðsögn á svæðinu, eins og t.d. í Auschwitz þar sem vissulega var búið að ákveða hvað ætti að sýna og hvað ekki, líkt og ferðamannaáhorf Urrys (1990) vísar til. Heldur er verið að skapa þá tilfinningu að ferðamaðurinn fái að komast á bakvið framhliðina og upplifa sanngildi staðarins miðað við frásögn viðmælenda. Í niðurstöðum kom einnig í ljós að viðmælendum þótti mikilvægt að staðir sem tilheyra myrkvaferðamennsku yrðu varðveittir á þann hátt sem þeir eru, með það í huga að getað miðlað vitneskju til komandi kynslóða. Þetta á vel við hluta af kenningu MacCannells (1999) þar sem hann nefnir að ein ástæða ferðalaga sé til þess að komast nær fortíðinni í leit að eigin uppruna. Víða á þeim myrku stöðum sem voru heimsóttir var um uppsetningu á fyrri atburðum að ræða, e.t.v. ekki nægilega uppsetningu til þess að kalla mætti staðinn safn en nægilega mikla til þess að gestir gætu komist nær því að endurupplifa fyrri atburði (Chronis, 2015). Þegar horft er til þeirra viðmælenda sem heimsóttu Killing Fields í Kambódíu fóru allir í skipulagðar ferðir um svæðið þar sem upplifun ferðamannsins var stjórnað og má því segja að ferðamennirnir hafi iðkað staðinn á mjög svipaðan hátt. Á sama tíma verða þau einnig fyrir áhrifum frá þeim sem leiðir þá í gegnum svæðið þar sem frásögn hvers og eins leiðsögumanns getur verið mismunandi (Edensor, 2001). |
Það var þó nokkur erill hjá lögreglu víða um land í gær og í nótt. Maður var fluttur á slysadeild á Akureyri í morgun eftir að tveir menn höfðu ráðist á hann á hóteli þar í bæ um klukkan 6. Meiðsl hans reyndust ekki vera alvarleg en hann nýtur nú aðhlynningar á Fjórðungssjúkrahúsinu. Árásarmennirnir gista fangageymslur og verða yfirheyrðir í dag en mennirnir voru allir ölvaðir. Og flytja þurfti mann undir læknishendur eftir ryskingar á milli hans og annars manns á veitingastaðnum Kaffihorninu á Höfn í Hornafirði um klukkan 3 í nótt. Áverkar mannsins reyndust ekki alvarlegir en sauma þurfti saman skurð í andliti hans og var skýrsla tekin af mönnunum. Og þá var maður handtekinn á skemmtistað í Reykjanesbæ í nótt og fannst á honum lítilræði af meintu amfetamíni. Manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum. En þá voru tveir menn þar í bæ líka teknir fyrir ölvun við akstur. Og einn maður gisti fangageymslur lögreglunnar á Akranesi í nótt eftir að hafa lent í átökum við lögreglu. Lögreglan hafði verið kölluð til vegna mannsins sem hafði verið með hótanir í miðbænum. Hann reyndist vera með lítilræði af amfetamíni í fórum sínum. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Og annar maður var handtekinn með lítilræði af hassi þar í bæ í nótt en var sleppt að loknum yfirheyrslum. |
„Þetta er ekki alveg gengið í gegn en við ættum að vera búin að ganga frá þessu á allra næstu dögum," segir Gunnar Sigurðsson en hann mun hætta sem framkvæmdastjóri V-dagsins. „Það hefur verið brjálað að gera hjá V-deginum, og mér finnst eins og ég hafi ekki getað tekið þetta með þeim krafti sem ég hefði viljað gera. Tvö stærstu verkefnin, Píkusögur og verslunarmannahelgarátakið, eru nú að baki og það er dágóður tími þangað til næsta verkefni lítur dagsins ljós," segir Gunnar og telur því að nú sé rétti tíminn til að snúa sér að einhverju öðru. „Þetta eru hagsmunasamtök og einhvern veginn verður maður líka að hafa í sig og á. Og það var því ákveðið með faðmlagi að segja þetta gott í bili," bætir Gunnar við en áréttar þó að hann muni taka virkan þátt í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum. Gunnar segist vera með mörg járn í eldinum, eiginlega of mörg, en vildi ekki gefa upp hvað tæki við hjá honum næst. Það ætti að skýrast á allra næstu dögum.
Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá Gunnari því áður en hann fór að sinna verkefnum fyrir V-daginn hafði hann verið Guðmundi Steingrímssyni innan handa í Kvöldþættinum sáluga en flutti sig síðar um set og var í gestahlutverki hjá Strákunum á Stöð 2. Gunnar var síðan kosningastjóri hjá Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í fyrra en hefur síðan að þeim lauk verið framkvæmdastjóri V-dagssamtakanna. |
Á morgun tekur við sama fyrirkomulag og gilti yfir páska í Leifsstöð, þar sem ítarlega verður farið yfir hvaðan ferðalangar sem lenda eru að koma og hvers vegna.
Von er á tveimur vélum frá ríkjum sem eru í B-flokki samkvæmt flokkun sóttvarnalæknis yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök áhættusvæði vegna Covid-19. Þessi ríki eru Holland og Pólland en þar er 14 daga nýgengi smita 700 eða meira á hverja 100 þúsund íbúa.
Þeir sem eru að koma beint frá Hollandi og Póllandi, eða öðrum ríkjum í B-flokki, verða skilyrðislaust skikkaðir í sóttkvíarhús, þar sem þeir verða að sæta sóttkví þar til niðurstöður seinni skimunar liggja fyrir.
„Við vorum svo sem byrjuð á þessu ferli fyrir páska og dettum bara í sama gír og þá,“ segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, um undirbúninginn fyrir morgundaginn.
Hann segist ekki vita hversu margir koma með vélunum tveimur.
Auglýsing heilbrigðisráðherra um áhættusvæði tekur gildi á morgun en Sigurgeir segir breytinguna aðallega felast í því að betur verður rýnt í það hvaðan fólk er að koma. Fátt sé um flug þessa dagana og því margir að koma með tengiflugi frá öðrum ríkjum.
Líkt og fyrir páska verða þeir fluttir frá vellinum í sérstökum rútum. |
Meðferð við íhlutunarverkjum þarf að vera fjölþætt og felast í fleiru en lyfjagjöf. Sjúklingar, sem eru vel undirbúnir, hafa verið hughreystir og fengið útskýringar á því sem í vændum er, þola verkina betur og greina frá minni verkjum og vanlíðan í kjölfar íhlutunar (Carroll o. fl., 1999). Hins vegar gleymist oft að gefa sjúklingum verkjalyf því venjubundin hjúkrunarverk eru sjaldan sett í samhengi við verki. Oft telja hjúkrunarfræðingar að einföld og fljótleg íhlutun sé of skammvinn til að taki því að beita meðferð og að verkjameðferðin sé of tímafrek í samanburði við íhlutunina (Siffleet o. fl., 2007). Þetta er umhugsunarvert því þó svo að íhlutunin, í þessu tilviki drentakan, taki að okkar mati skamma stund þá sitja óþægindin og neikvæð reynsla sjúklingsins eftir mun lengur. Verkir við drentöku úr brjóstholi Ekki fundust margar rannsóknir sem sérstaklega fjalla um verki og verkjameðferð við drentöku úr brjóstholi. Samantekt rannsókna um efnið sýnir þannig að rannsóknir eru takmarkaðar, fáar og þeim illa lýst (Bruce o. fl., 2006). Flestar rannsóknanna gáfu þó til kynna að sjúklingar finna mikinn eða mjög mikinn sársauka í tengslum við drentöku út brjóstholi þrátt fyrir verkjalyfjagjöf. Út frá samantekt þeirra má álykta að morfin eingöngu gefi ekki næga verkjastillingu við verk sem hlýst af drentöku úr brjóstholi. Sjúklingar segja oft að drentaka úr brjóstholi valdi mjög slæmum verk eða togi. Það er þó bót í máli að fæstir hafa langvarandi verki eftir drentöku (Mimnaugh o. fl., 1999). Fram hefur komið að sjúklingar meti verki við drentöku úr brjóstholi á bilinu 5 til 7 á kvarðanum 0 til 10 (Puntillo o. fl., 2001). Siffleet o. fl (2007) skoðuðu verkjalýsingar 61 sjúklings í tengslum við umönnun. Í ljós kom að sjúklingar mátu verki við drentöku að meðaltali 6,5 á fyrrgreindum kvarða. Fyrir drentökuna mátu þeir verkina að meðaltali 1 til 2. Einungis 50% sjúklinganna fengu fyrirbyggjandi verkjalyfjameðferð fyrir drentökuna en um 67% fengu verkjalyf eftir drentökuna. Þó hefur sýnt sig að verkjalyf, sem gefin eru fyrir íhlutanir, minnka verki sjúklingsins eftir íhlutunina meira en verkjalyf sem gefin eru strax á eftir (Seib og Paul, 2006). VERKJAMEÐFERÐ VIÐ DRENTÖKU ÚR BRJÓSTHOLI Verkjalyfjameðferð Til að verkjameðferð verði hnitmiðuð og árangursrík þarf góða undirstöðuþekkingu á lífeðlisfræði sársauka, mati á verkjum og verkjameðferð. Verkjameðferð minnkar kvíða, dregur úr óþægindum og deyfir bæði ósjálfráðu og sjálfráðu viðbrögðin (Kehlet og Dahl, 2003). Rannsóknir hafa sýnt að notkun ópíata eingöngu dugi ekki sem verkjastilling við drentöku og flestir sjúklingar finna mikla verki þrátt fyrir gjöf þeirra. Árangursríkast reynist að veita fjölþætta verkjalyfjameðferð með ópíötum, bólgueyðandi verkjalyfjum, staðdeyfilyfjum og jafnvel innöndunargasi (Bruce o. fl., 2006). Þrátt fyrir þetta sýndi fjölþjóðleg rannsókn gerð á tæplega 6 þúsund sjúklingum að verkir jukust þegar íhlutun átti sér stað. |
Akstur bifreiða á 30 kílómetra hraða á klukkustund frekar en 50 km hraða getur dregið úr svifryksmengun um allt að því 40 prósent. Nagladekk slíta vegum 20 til 30 falt hraðar en ónegld.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin var af Þresti Þorsteinssyni prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Ísland og Jarðvísindastofnun HÍ. Niðurstöður hennar voru kynntar skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í morgun.
Lækkun hámarkshraða á nagladekkjatímabili í Reykjavík, sem er frá 1. nóvember til 15. apríl, gæti dregið mjög úr magni svifryks í andrúmsloftinu og sliti gatna að því er segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Sjá einnig
Þriðjungur höfuðborgarbúa á negldum dekkjum
„Mengun vegna umferðar er þekkt vandamál og á Íslandi er það svifryk sem oftast veldur því að loftgæði versna og fara yfir heilsuverndarmörk. Magn mengandi efna er meðal annars háð hraða ökutækis, en það samband fer eftir tegund mengunar og ökutækis,“ segir í tilkynningunni.
Sé dregið úr aksturshraða úr 50 kílómetrum í 30 km á klukkustund dregst magn svifryks saman um 24 prósent samkvæmt rannsókninni. Búast við um 40 prósent samdrætti í magni svifryks ef helmingur bíla er á nagladekkjum og hraðinn færður úr 50 kílómetrum í 30 km á klukkustund.
Nagladekk séu helsti orsakavaldur svifryksmengunar vegna umferðar og slíta götum mun hraðar en þau sem ekki eru negld. Fyrir bíl á nagladekkjum er mikill meirihluti framleiðslu svifryks vegna vegslits eða 92 prósent.
Sjá einnig
Efast um nagladekkin |
Elstu byggingarnar á Hvanneyri í Borgarfirði voru friðlýstar í dag ásamt svæðinu sem þær standa á og flæðiengjum sem voru undirstaðan fyrir stórbúi á Hvanneyri á sínum tíma. Þetta er í fyrsta sinn sem saman er friðlýst landslagi og húsaminjum hér á landi.
Friðlýsingin fór fram á Hvanneyrarhátíð í dag þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá tengda Landbúnaðarsafninu og Landbúnaðarháskólanum. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem staðfesti friðlýsinguna en hún nær til gamla skólahússins á Hvanneyri, skólastjórahússins, hestaréttarinnar, Hvanneyrarkirkju, Halldórsfjóss og fleiri bygginga. Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, segir friðlýsinguna skipta miklu fyrir staðinn.
ss
Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands: Hérna eru mjög gjöfular [...] flæðiengjar sem að voru grunnurinn að því að skólahaldinu var komið upp hér í sinni tíð og þetta er eiginlega hluti af svona nútíma minjavernd þar sem að við erum að taka merkilegar byggingaminjar og skoða þær í samhengi við umhverfi sitt.
Svæðið þar sem friðlýstu byggingarnar standa er nefnt Hvanneyrartorfan. Friðlýsingin á ekki að koma í veg fyrir nýtingu nema síður sé. Bryndís Geirsdóttir fer fyrir hópi ungs fólks sem vinnur að uppbyggingu matar og menningartengdrar ferðaþjónustu á Hvanneyri.
Bryndís Geirsdóttir: Þetta er nefnilega skemmtileg og flott friðun vegna þess að hún þýðir samt ekki að þó að það sé friðað, þá fari allt, leggist allt í lægð heldur er einmitt mikill uppgangur hér og kraftur í fólki og verkefnið sem að við ráðumst í svona fyrst, það er að vinna hérna upp þetta fallega gamla hús sem að er elsta fjósið, Hjartarfjós, þar munum við opna matarhandverkshús innan skamms. |
Ríkisendurskoðun mun að svo stöddu ekki aðhafast frekar í máli Hannesar Sigmarssonar, yfirlæknis hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) en hvetur heilbrigðisráðuneytið til að huga að viðeigandi úrræðum. Ríkisendurskoðun gerði úttekt á greiðslum HSA til læknisins vegna gruns um fjárdrátt.
Síðastliðið vor ákvað Ríkisendurskoðun að gera úttekt á greiðslum Heilbrigðisstofnunarinnar til Hannesar vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um fjárdrátt með rangri reikningagerð. „Áður höfðu lögregla og ríkissaksóknari fjallað um þessar grunsemdir en ákveðið að fella niður rannsókn. Úttektin gaf ótvírætt til kynna að yfirlækninum hafi verið eða mátt vera ljóst að hann ofkrafði HSA um þóknun fyrir vinnu sína í a.m.k. 26 tilvikum á tveimur u.þ.b. mánaðarlöngum tímabilum á árunum 2007 til 2009," segir í tilkynningu á vef Ríkisendurskoðunar.
„Í kjölfarið óskaði Ríkisendurskoðun eftir því að ríkissaksóknari rannsakaði málið að nýju. Hann vísaði því til lögreglustjórans á Eskifirði sem síðar ákvað að fella það niður þar sem erfitt væri að sanna ásetning í meginþorra rannsóknartilvika. Var þó viðurkennt að færslum hins kærða á sjúkraskrá hefði verið ábótavant og reikningagerð hans hefði vakið grunsemdir um misferli. Ríkisendurskoðun sendi þá ríkissaksóknara fyrirspurn um hvort hann hygðist aðhafast frekar í málinu en svörin gáfu til kynna að ekki væri við því að búast nema honum bærist formleg kæra," segir í tilkynningunni.
Þá segir að í bréfi sem Ríkisendurskoðun sendi nýlega til heilbrigðisráðuneytisins komi fram að stofnunin mun ekki hafa frekari afskipti af málinu að svo stöddu. „Hins vegar er þar minnt á að forstöðumenn heilbrigðisstofnana og heilbrigðisyfirvöld eiga að fylgja því eftir að heilbrigðisstarfsmenn virði starfsskyldur sínar. Jafnframt hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að huga að þeim úrræðum sem viðeigandi sé að beita í þessu máli." |
Karl Wernersson þarf að hætta sem framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu eftir að hann var dæmdur fyrir efnahagsbrot í Hæstarétti. Lagaákvæði sem takmarkar umsvif dæmdra manna í atvinnurekstri tekur þó ekki til allra efnahagsbrota. Ólafur Ólafsson í Samskipum getur áfram stýrt félögum þrátt fyrir að hafa hlotið dóm.
Karl Wernersson á og rekur Lyf og heilsu, eina stærstu lyfjaverslunarkeðju landsins. Eignarhald Karls á Lyfjum og heilsu er reyndar í gegnum röð félaga. Lyf og heilsa er að fullu í eigu félagsins Faxar ehf. sem er í eigu annars félags sem nefnist Faxi ehf. Faxi er að fullu í eigu þriðja félagsins, Toska ehf. og að lokum á Karl Wernersson allt hlutafé í Toska, allt samkvæmt síðasta ársreikningum þessara félaga. Karl var fyrir helgi dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota aðstöðu sína hjá eignarhaldsfélaginu Milestone í milljarða króna viðskiptum fyrir hrun. Samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög mega stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur. Ákvæðið gildir í þrjú ár frá því dómur fellur. Þetta þýðir samkvæmt upplýsingum fréttastofu að Karl þarf að hætta sem framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu. Hann er auk þess skráður í stjórn, varastjórn eða framkvæmdastjórn 13 annarra félaga samkvæmt fyrirtækjaskrá og þarf eftir dóminn líka að láta af þeim störfum. Karl er ekki fyrsti stórathafnamaðurinn sem þarf að segja sig úr stjórn eða framkvæmdastjórn félags vegna dóms í efnahagsbrotamáli. Annar er Jón Ásgeir Jóhannesson sem var í apríl 2013 dæmdur í skattahluta Baugsmálsins. Þá var Ólafur Ólafsson dæmdur í Al Thani-málinu, en lagaákvæðið sem takmarkar stjórnarsetu dæmdra manna, tekur hins vegar ekki til máls Ólafs. Ákvæðið gildir aðeins um þá sem eru dæmdir samkvæmt almennum hegningarlögum, til dæmis fyrir fjárdrátt, fjársvik eða umboðssvik og þá sem dæmdir eru samkvæmt sérlögum um meðal annars hlutafélög, ársreikninga eða opinber gjöld. Ólafur var aftur á móti dæmdur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, nánar tiltekið fyrir markaðsmisnotkun. Hann getur því stýrt félögum áfram og er nú skráður í stjórn eins félags og í varastjórn annars samkvæmt fyrirtækjaskrá. |
Formaður og varaformaður knattspyrnudeildar Tindastóls hafa sagt af sér eftir umfjöllun Stundarinnar þar sem fjöldi kvenna steig fram og lýsti kynferðisbrotumeins fyrrverandi leikmanns liðsins.
Formaður og varaformaður knattspyrnudeildar Tindastóls hafa sagt af sér í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar um ítrekuð kynferðisbrot fyrrverandi leikmanns liðsins. Bergmann Guðmundsson, fráfarandi formaður, og Guðjón Örn Jóhannsson, fráfarandi varaformaður, láta af störfum til þess að axla ábyrgð á mistökum sem þeir hafa gert og segjast þeir vonast til að með því skapist friður um störf knattspyrnudeildar félagsins.
Yfirlýsingin birtist í heild á vef Feykis, frétta- og dægurmálablaðs Norðurlands vestra, og er hún eftirfarandi:
Í kjölfar fréttar fjölmiðilsins, Stundarinnar er varða mál fyrrum starfsmanns deildarinnar og mjög alvarlegra ásakana í hans garð er ljóst að deildinni hafa orðið á mikil mistök. Mistök sem sennilega verður aldrei hægt að bæta fyrir.
Við viljum byrja á að taka heils hugar undir orð Aðalstjórnar Ungmennafélags Tindastóls sem sagði m.a. í yfirlýsingu sinni frá því í 25. febrúar 2018, orðrétt: „... Kemur þessi frétt í kjölfar #MeToo umræðunnar þar sem konur í fjölmörgum greinum stigu fram og sögðu frá sinni reynslu af kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi, þöggun og lítilsvirðingu. Konur í íþróttum voru þar á meðal og áttu sumar af þeim sögum sem nístu hjartað hvað mest. Þessar frásagnir kvennanna í Stundinni gerðu það einnig.
Það er mikilvægt að íþróttahreyfingin í heild sinni hlusti á þessar raddir þolenda og aðstandenda þeirra, læri af þeim og bregðist við af fullum þunga. Ábyrgð stjórnenda, formanna, forsvarsmanna og þjálfara er þar mikil. Stjórnendur Ungmennafélagsins Tindastóls vilja því sérstaklega taka fram að félagið stendur með þolendum. Við tökum ábyrgð okkar alvarlega og við tökum málstað þolenda alvarlega. Kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi verður ekki undir neinum kringumstæðum liðið í starfi Ungmennafélagsins Tindastóls...“
Við þetta viljum við bæta og lýsa því hér með formlega yfir að deildinni urðu á stór mistök í maí á síðasta ári með stuðningsyfirlýsingu sinni við Ragnar Þór Gunnarsson, þáverandi leikmann liðsins, sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot. Sú yfirlýsing átti ekki rétt á sér og þykir okkur leitt að hafa ekki staðið með okkar fólki, hafa valdið því vonbrigðum og þolendum óþarfa sársauka.
Hvað varðar mál fyrrum starfsmanns okkar sem fjallað er um í Stundinni síðastliðna helgi, en þar koma fram 12 stúlkur og segja sína sögu um samskipti við manninn, er ljóst að deildinni urðu á óafsakanleg mistök við ráðningu hans í barna- og unglingastarf félagsins.
Maðurinn er ekki dæmdur fyrir nein brot, en slíkt afsakar ekki í þessu tilviki að við gerðum okkur ekki á neinn hátt grein fyrir því hversu miklum vonbrigðum við vorum að valda félagsmönnum okkar og þeim þolendum sem hafa nú stigið fram og sagt sögu sína.
Því miður getum við ekki breytt því sem liðið er eða hvað þá tekið til baka þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í fortíðinni. En við vonum að við getum á einhvern hátt sýnt sársauka þolenda virðingu með því að biðjast afsökunar á ákvörðunum okkar og reyna að leggja okkar af mörkum til þess að félagið verði vel í stakk búið til taka RÉTT á málum í framtíðinni. Málum eins og hafa komið upp í umræðuna í kjölfar #MeToo byltingarinnar sem og öðrum málum sem ekki eiga heima í heimi íþróttanna, frekar en annarsstaðar. Eins og fram kemur í yfirlýsingum Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) og Aðalstjórnar Ungmennafélags Tindastóls hefur vinna staðið yfir í vetur við að skrifa siðareglur fyrir félagið og er það vel. Til að taka ábyrgð á mistökum okkar segjum við okkur frá störfum okkar fyrir félagið. Það er okkar von að með þessari yfirlýsingu skapist friður um störf knattspyrnudeildar Tindastóls og félagsins alls. Áfram Tindastóll
Virðingarfyllst, Bergmann Guðmundsson og Guðjón Örn Jóhannsson |
Undirbúningur gengur vel fyrir Gleðigöngu Hinsegin daga sem hefst klukkan 14 í dag. Gangan hefst við Hörpu í ár og mun enda í Hljómskálagarðinum. Um 30 atriði verða í göngunni í ár, þar á meðal verður Páll Óskar, sem ekki tók þátt í fyrra, í gervi Frank-N-Furter.
Um 30 atriði verða í göngunni í ár, þar á meðal verður Páll Óskar, sem ekki tók þátt í fyrra. Í ár verður hann í gervi Frank-N-Furter úr söngleiknum Rocky Horror sem hóf sýningar síðasta vetur í Borgarleikhúsinu.
„Ég er með Rocky Horror trukk. Ef það er einhver söngleikur sem passar inn í Gleðigöngu Hinsegin daga þá er það Rocky Horror. Trukkurinn er draumahælar allra drottninga. Þessir hælar eru mjög hugguleg blanda af hryllingi og kynlífi. Þeir eru tólf metrar og eru svo stórir að Guð getur passað í þá. Þeir eiga eftir að trampa á göngunni,“ segir Páll Óskar í samtali við Fréttablaðið í dag.
Sýningar á Rocky Horror í hefjast aftur 8. september og eru 33 þúsund manns nú þegar búin að sjá söngleikinn að sögn Páls. Hann verður því ásamt dönsurum úr leikritinu á hælatrukknum að hita sig upp fyrir næsta leikár.
Páll Óskar segir að hann muni síðan taka nokkur lög á tónleikunum í Hljómskálagarðinum, þar á meðal Sweet Transvestite úr söngleiknum, ásamt því taka nokkur klassísk Pallalög.
Undirbúningur gengur vel
Að sögn skipuleggjenda gengur undirbúningur vel og segir Steina Natasha að fólk ætti að fara að tygja sig niður í bæ vilji það koma sér vel fyrir áður en gangan hefst.
„Það gengur mjög vel og er verið að leggja lokahönd á að girða af. Þannig það er þá komið mjög tímanlega, miðað við vanalega, og erum með sátt með það. Starfsmenn borgarinnar eru búin að standa sig eins og hetjur alveg frá því í morgun,“ segir Steina Natasha ein aðstandenda göngunnar í ár í samtali við Fréttablaðið í dag.
Hún segir að einnig gangi vel í hljóðprufu í Hljómskálagarðinum þar sem tónleikar fara fram eftir gönguna og að bílarnir séu farnir að streyma niður á Sæbraut og raða sér upp fyrir gönguna.
„Frá því klukkan tólf verða þau að stilla sér upp og koma sér í gang. Þannig það er alveg tímabært fyrir fólk að fara að tygja sig niður í bæ þar sem það er talsvert um lokanir og erfitt að komast að með stuttum fyrirvara,“ segir Steina.
Glöð að fá Pál Óskar aftur í gönguna
Í göngunni í ár verða um 30 atriði, þar á meðal Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, ýmsir stjórnmálaflokkar, stúdentaráð, hin ýmsu hinsegin félög, eins og Trans-Ísland, Samtökin '78 ásamt því að einhverjir einstaklingar verða með sín eigin atriði. Þá er einnig ný félög eins og óstofnað félag Tví- og pankynhneigðra og margir fleiri.
„Það má gera ráð fyrir þessum föstu liðum og svo verður gaman að sjá þessa nýju, eins og óstofnað félag tví- og pankynhneigðra sem eru að nota gönguna sem stökkpall til að kynna félagið,“ segir Steina.
Hún segir að það megi búast við mikilli gleði og gaman. „Það verða rosalega mörg stór og flott atriði. Það eru einhver atriði sem fengu styrki til að gera atriðin sín stærri. Einhver þeirra verða þannig að fólk getur spjallað og tekið myndir með og kannski fær fólk einhverjar gjafir. Svo erum við auðvitað mjög glöð að fá Palla aftur,“ segir Steina.
Páll Óskar tók ekki þátt í göngunni í fyrra en hafði nærri óslitið verið með atriði frá því að gangan var fyrst haldin árið 1999.
„Vagninn hans er mjög spennandi núna þannig það verður rosa gaman að sjá hann. Hann er mjög kostnaðarsamur en það skilar sér alveg í útlitinu,“ segir Steina að lokum.
Á tónleikunum verða fjölmörg tónlistaratriði, þar á meðal, mun Hera Björk söngkona ásamt því sem að Andrea Gylfa og Hinsegin kórinn munu flytja lag Hinsegin daga í ár.
Sjá einnig: Götulokanir vegna Gleðigöngunnar í dag |
Um helmingur íslenskra fyrirtækja stundar nýsköpun samkvæmt mælingu Hagstofunnar og hefur þetta hlutfall haldist óbreytt undanfarin 4 ár. Háskólakennari í nýsköpun segir að hún sé allt of lítil. Auka þurfi kennslu í nýsköpun í grunnskólum auk þess sem hagkvæmara sé að hún fari fram í starfandi fyrirtækjum en í sprotafyrirtækjum.
Í mælingu Hagstofunnar sem var birt í morgun kemur fram að á árunum 2014 til '16 stunduðu 55% fyrirtækja einhvers konar nýsköpun. á árunum 2012 til '14 var hlutfallið 59%. Með nýsköpun er þar átt við að nýjar vörur eða þjónusta var sett á markað eða nýir verkferlar innleiddir. Páll Kr. Pálsson, lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og kennari í nýsköpun, segir hlutfallið of lágt og ljóst sé að erfitt sé að koma nýsköpun af stað. Hún sé þó forsenda fyrir því að ný þekkingarstörf skapist á Íslandi.
Páll Kr. Pálsson, lektor við tækni- og verkfræðideild HR: Auðvitað er það ekki nóg ef einungis helmingur allra fyrirtækja er að, er að ráðstafa fjármunum og fást við nýsköpun ef við horfum til framtíðarinnar.
Páll segir skorta skilning á hvaða þýðingu nýsköpun hefur. Það skýrist m.a. af skorti á fræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
Páll Kr. Pálsson: Stjórnendur nútímans í íslenskum fyrirtækjum hafa ekki fengið mikla menntun á gildi þessara hluta í gegnum sína skólagöngu og það bara auðvitað endurspeglar að hluta til þeirra hegðun og viðhorf í þessum málum í rekstri stórs hluta íslenskra fyrirtækja í dag.
Páll segir lítið ganga hér á landi í að skapa störf í þekkingarmeiri verkefnum. Þá sé áhersla á sprotafyrirtæki of mikil þó að þau séu að vinna gott starf.
Páll Kr. Pálsson: Það er svo dýrt að stofna ný fyrirtæki utan um nýjar hugmyndir, það skiptir öllu máli að við séum að gera þetta í starfandi fyrirtækjum og þarna því miður eins og þú sagðir er hlutfallið ekki nema u.þ.b. helmingur sem segist vera að fást við þessi mál og mér finnst það bara allt of lágt. |
Hópur ungra manna er grunaður um að hafa ítrekað kveikt í sinu og gróðri í Hafnarfirði. Þeir bíða yfirheyrslu. Sjö voru yfirheyrðir í gær. Fjörutíu slökkviliðsmenn börðust við eld í nótt við erfiðar aðstæður.
Þrír karlmenn á tvítugsaldri eru í haldi lögreglunnar og bíða yfirheyrslu vegna brunans á skógræktarlandi Hafnfirðinga austan Hvaleyrarvatns í nótt. Þeir voru stöðvaðir á bíl á reiðstíg skammt frá brunastaðnum og handteknir. Starfsmaður Skógræktar Hafnarfjarðar segir miljónatjón hafa orðið í brunanum, en um 4 til 5 hektarar lands brunnu, bæði tré og einnig talsvert af lúpínu. Í nótt var hvasst og því breiddist eldurinn hratt út. Slökkvistarf gekk mjög erfiðlega, erfitt var að komast að svæðinu. Um fjörutíu slökkviliðsmenn tóku þátt í aðgerðinni sem stóð í um sjö klukkustundir, síðustu mennirnir fóru af vettvangi um klukkan níu í morgun. Hjálparsveit Hafnarfjarðar var einnig kölluð út til aðstoðar. Síðdegis í dag funda lögregla og slökkvilið með Skógrækt Hafnarfjarðar um málið. Lögregla segir mikilvægt að allir leggist á eitt og hjálpist að við að vakta svæðið. Í gær voru sjö karlmenn um tvítugt yfirheyrðir á lögreglustöðinni í Hafnarfirði vegna sinubruna í fyrrinótt. Þar var einn handtekinn á staðnum á bíl sem slökkvilið hafði ítrekað séð á brunastað. Lögregla segir að ekki hafi verið mikið um játningar en þó einhverjar, en menn vísi hver á annan. Hann sagði mennina sem gripnir voru í gær, og þá sem bíða yfirheyrslu nú, vera vini og félaga. Svo virðist sem hópur ungra manna standi að íkveikjunum og viðmælandi fréttastofu sagði að um þær væru menn að metast í netheimum á svipaðan hátt og um veggjakrot. |
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, vill nú róa öllum árum að því að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu. Núverandi utanríkisráðherra hvetur landa sína til að slökkva á sjónvarpinu næst þegar þegar Blair sést bregða þar fyrir.
Fyrrverandi forsætisráðherrann kom sér beint að efninu í ræðu sem hann hélt í Lundúnum í dag. Hann virti að sjálfsögðu vilja meirihluta þjóðarinnar en að kjósendur hefðu verið blekktir.
„Kjósendur gengu til atkvæða án þess að vita hvað Brexit hefði í för með sér. Þegar afleiðingarner eru nú að koma í ljós hafa kjósendur rétt á því að skipta um skoðun. Okkar markmið er að telja þeim hughvarf,“ sagði Tony Blair í dag.
Stjórnarliðar gáfu ekki mikið fyrir þessar hugmyndir - nú þegar ferlið sé komið svo langt og njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar.
„Með fullri virðingu fyrir Tony Blair og þeim sem hvetja Breta til að rísa upp á afturlappirnar gegn Brexit vil ég gjarnan hvetja landa mína til að slökkva á sjónvarpinu næst þegar Tony Blair sést bregða þar fyrir,“ sagði Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Er markmið Blairs raunhæft?
Geta Bretar hætt við fyrirhugaða útgöngu úr sambandinu úr þessu?
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ekki lagalega bindandi og frumvarp laga sem heimilar ríkisstjórn Theresu May að hefja viðræður við Evrópusambandið hefur enn ekki verið að fullu samþykkt. Frumvarpið hlaut brautargengi í neðri málstofu breska þingsins á dögunum og það bíður nú atkvæðagreiðslu í lávarðadeild þingsins.
Örfáir möguleikar eru því í stöðunni til að hætta við fyrirhugaða útgöngu, einn þeirra væri ef þingmenn boðuðu til þingkosninga og að flokkur sem styddi áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu næði meirihluta.
Þó möguleikarnir séu fræðilega fyrir hendi verður að teljast ólíklegt að þeir verði að veruleika. Þá er það nánast ómögulegt út frá pólitísku sjónarhorni að stjórnvöld í Bretlandi skipti um stefnu í þessum efnum. |
Ályktanir Niðurstöður sýna að meðferðin var árangursrík að því er varðar skynjun þátttakenda á áhrifum sjúkdómsins og meðferðar hans á daglegt líf. Ekki var marktækur munur á tilrauna-og samanburðarhópi á fleiri árangursmælingum. Fáar meðferðarsamræður, stuttur meðferðartími og mikil ánægja samanburðarhóps með þátttöku í rannsókninni getur skýrt að í heildina varð árangur minni en vonir stóðu til. Ekki er síður mikilvægt að tiltölulega stór hópur þeirra sem þátt tók í rannsókninni vissi ekki að hann hefði LLT. Árangur annarra rannsókna á sjálfsumönnunarmeðferðum hefur verið nokkuð á sama veg þó bætt lífsgæði og minni notkun á heilbrigðisþjónustu komi gjarna fram (Jonsdottir, 2013; Zwerink o. fl., 2014). Niðurstöður eldri rannsóknar okkar sýndi svipaðar eða ívið betri niðurstöður því tæplega 80% fækkun legudaga og aukin lífsgæði komu fram í eldri rannsókninni á árangri hjúkrunarþjónustu á forsendum samráðs hjá fólki með langt gengna LLT (Ingadottir og Jonsdottir, 2010). Þátttakendur þessarar rannsóknar höfðu styttra gengna LLT heldur en þátttakendur flestra sjálfsumönnunarrannsókna á fólki með LLT. Bent hefur verið á að rannsóknir á sjálfsumönnunarmeðferðum ættu að beinast að fólki með lengra gengna LLT því hjá þeim sé líklegast að árangur náist. Er þá sérstaklega horft til rannsóknar Bourbeau og félaga (2003) en í þeirri rannsókn jukust heilsutengd lífsgæði sjúklinga með langtgengna teppu mikið. Því eigi að einbeita sér að þeim sem hafa lengra gengna LLT. Erfitt er að fallast á þessa röksemd. Áfram er mikilvægt að rannsaka meðferðir fyrir sjúklinga með langt gengna LLT. Hins vegar þarf, jafnframt því að rannsaka reynslu, líðan og aðstæður þeirra sem eru með LLT á byrjunarstigi, að þróa úrræði sem þeir geta nýtt sér og sem gagnast í raun til að stöðva eða hæga á framvindu sjúkdómsins. Fjölmörg atriði eru mikilvæg í þessu samhengi. Fyrst skal nefna að skömm og sektarkennd eru áberandi meðal fólks með LLT (Halding o. fl., 2011; Bragadóttir o. fl., 2017). Þar er reykingum fyrst og fremst um að kenna og því að fólkinu finnst það hafa sjálft komið sér í þessa aðstöðu og sé þess jafnvel ekki verðugt að fá almennilega heilbrigðisþjónustu (Ellison o. fl., 2012). Undirrót reykinganna er tóbaksfíkn og eiga margir mjög erfitt með að hætta að reykja. Tóbaksfíkn er alvarlegur sjúkdómur, ekki bara venja sem fólk telur sig skorta vilja til að takast á við (Bragadóttir o. fl. 2017). Líkt og fram kemur í niðurstöðum þessarar rannsóknar er algengt að fólk finni lítið fyrir einkennum sjúkdómsins á fyrstu stigum hans. Annars vegar geta skemmdir í lungum verið orðnar tiltölulega miklar áður en einkenni koma í ljós. Má greina eins konar vendipunkt þegar fráblástur á einni sekúndu er orðinn um 60% af áætluðu gildi fyrir heilbrigðan einstakling. Þá breytist ástand einstaklingsins, hann hefur verið nær einkennalaus en er nú með mikil og sívaxandi einkenni (Sutherland og Cherniack, 2004). Hér er einkum horft til einkenna um andnauð. Setja mynd 1 u. þ. b. hér Hins vegar aðlagast fólk einkennum og versnandi heilsu, telur þau hluta af því að eldast og sættir sig við tiltölulega lakt ástand (Arne o. fl., 2007; Apps o. fl., 2014). Að lokum skal bent á að til viðbótar við einkenni sjúkdóms og nátengd vandamál, s. s. kvíða, þunglyndi, hreyfiskerðingu og fleiri erfið einkenni, hefur fólk með langvinna lungnateppu oft fleiri langvinna og erfiða sjúkdóma, m. a. hjarta-og æðasjúkdóma, beinþynningu og sykursýki (GOLD, 2017). Tilhneiging er til að LLT falli í skugga þessara sjúkdóma og fólk einblíni á hina sjúkdómana og meðferð þeirra á kostnað lungnateppunnar (Ansari o. fl., 2014). Mikilvægt er að átta sig á að einstaklingar með LLT geta einangrast frá öðrum, bæði fjölskyldu, vinum og samfélaginu (Jonsdottir, 1998). Fram hefur komið að þeim reynist erfitt að sannfæra fjölskylduna um sjúkdóminn og þörf á skilningi við að lifa með honum (Apps o. fl., 2014). Í þeim fáu rannsóknum, þar sem fjölskyldu hefur verið boðin þátttaka, hafa fáir þegið slíkt boð. Slíkt kom skýrt fram í okkar rannsókn þar sem einungis brot af þátttakendum hafði fjölskyldumeðlim með sér þrátt fyrir að gert hefði verið ráð fyrir því í boðun í rannsóknina. Það má tengja erfiðleikum sem oft má greina meðal aðstandenda fólks með LLT og togstreitu sem skapast af orsökum sjúkdómsins (Gullick og Stainton, 2006). |
Danskir lögregluþjónar þurfa afar sjaldan að grípa til vopna þótt þeir beri byssur að staðaldri. Þetta kom fram erindi prófessors við Kaupmannahafnarháskóla á ráðstefnu Norræna sakfræðiráðsins í Reykholti um helgina.
Að undanförnu hefur verið mikil umræða í samfélaginu um ofbeldi gagnvart lögregluþjónum og í fréttum Útvarps fyrir helgi kom fram að sjö af hverjum tíu lögreglumönnum hér á landi, telja sig hafa fengið hótanir um ofbeldi. Slíkt vekur upp vangaveltur um hvort lögregluþjónar eigi að hafa heimild til að bera vopn, sjálfum sér og öðrum til verndar. Á ráðstefnu Norræna sakfræðiráðsins í Reykholti um helgina ræddi Lars Holmberg, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, um reynslu danskra lögreglumanna af notkun skotvopna en þeir hafa borið vopn síðan á sjöunda áratugnum.
Lars Holmberg, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla: [Holmberg talar]
Holmberg segir að notkun skotvopna hjá dönsku lögreglunni hafi lítið breyst undanfarin ár þótt glæpir hafi aukist. Hann segir lögregluþjóna nota vopn um það bil 280 til 320 sinnum á ári, oftast aðeins til að hóta fólki. Þeir skjóti hins vegar aðeins 15 sinnum á ári að meðaltali. Danskir lögreglumenn noti því vopn tiltölulega sjaldan. Aðspurður kveðst Holmberg hins vegar ekki treysta sér til að meta hvort það að lögregluþjónar beri vopn, kunni að auka hættuna á að þeir verði fyrir ofbeldi með því að þeir ögri þannig forhertustu ofbeldismönnunum. En hvað ráðleggur Holmberg Íslendingum að gera varðandi vopnaburð lögregluþjóna?
Lars Holmberg, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla: [Holmberg talar]
Hann segist ekki þekkja nógu vel til aðstæðna á Íslandi. Hins vegar sé ljóst að góð menntun og skýr stefna um notkun skotvopna sé mikilvægasta atriðið. Sömuleiðis þekking á því hvaða önnur úrræði koma til greina. Þetta sýni reynsla manna í Finnlandi en með aukinni menntun hafi tekist að draga úr notkun skotvopna hjá lögreglu þar.
Lars Holmberg, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla: [Holmberg talar] |
Múslímar nefnast þeir sem játa íslamstrú. Þeir skiptast í nokkrar fylkingar og nefnast tvær stærstu súnnítar og sjítar. Aðrir hópar innan íslam eru til dæmis vahabítar og ísmaelítar.
Það sem allar fylkingarnar innan íslam eiga sameiginlegt, er trúin á einn guð, Allah, og að spámaður hans, Múhameð, hafi fyrir opinberun fengið að flytja mannkyninu orð Allah sem eru rituð á bók á himni. Bókin er á arabísku og Kóraninn er afrit þessarar bókar.
Bænahald fimm sinnum á dag er eitt meginaatriða íslamstrúar.
Í svari Haraldar Ólafssonar við spurningunni Hver er munurinn á súnnítum og sjíta-múslimum? segir ennfremur: Helstu fyrirmæli Kóransins eru sameiginleg öllum múslímum, vitnisburðurinn um að aðeins sé til einn guð og Múhameð sé spámaður hans, bænahald fimm sinnum á dag, fastan í Ramadan-mánuðinum, ölmusugjafir, og loks pílagrímsförin til Mekka sem sérhverjum trúuðum er ætlað að fara að minnsta kosti einu sinni á ævinni ef ekkert hindrar hann.
Þetta eru meginatriðin í íslam.
Við bendum þeim sem vilja fræðast meira um íslam að lesa svar Haraldar og að auki svör við eftirfarandi spurningum: Hvað er jihad? eftir Magnús Þorkel Bernharðsson Hvernig breiddist íslam út? eftir Þóri Jónsson Hraundal Hver skrifaði Kóraninn? eftir JGÞ Hvað hét Múhameð spámaður fullu nafni? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson Er til trúartákn í íslam hliðstætt krossinum í kristinni trú? eftir Harald Ólafsson |
Ekkert lát hefur orðið á úrsögnum úr þjóðkirkjunni eftir að meint kynferðisbrot fyrrverandi biskup komust í hámæli á nýjan leik. Síðast var það árið 1996 þá sagði á þriðja þúsund sig úr þjóðkirkjunni, eitt prósent allra þjóðkirkjumanna á þeim tíma.
Það ár steig Sigrún Pálína Ingvarsdóttir fram og fleiri konur og ásökuðu Ólaf Skúlason þáverandi biskup um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi þegar hann gegndi prestsembætti. Úrsagnirnar 1996 voru margfalt fleiri en árin á undan og fóru reyndar aldrei mikið yfir 1000 allt til ársins 2006. Síðan þá hafa úrsagnir verið 1500 til tæplega 2000 á ári.
Heimildir Fréttastofu herma að úrsagnirnar nú séu fleiri en 1996 og að þær hafi aldrei verið svo miklar á svo skömmum tíma.
Þann 11. ágúst var sagt frá í fréttum RÚV að starfsmanni á vegum kirkjunnar hefði verið vikið úr starfi eftir að kvartað var yfir honum vegna kynferðisofbeldis. Þann sama dag birti DV frétt með fyrirsögninni Kirkjan leynir bréfi biskupsdóttur. Síðan þá hefur Guðrún Ebba dóttir Ólafs biskups sagt kirkjuráði frá því að faðir hennar hafi beitt hana kynferðisofbeldi í æsku. Jafnframt hafa nokkrar konur auk Sigrúnar Pálínu sagt frá ofbeldi biskups í sinn garð.
Kirkjan hefur síðustu vikur sætt ásökunum um þöggun gagnvart þessum konum. Hún hefur nú brugðist við og ætlar Kirkjuþing, æðsta vald þjóðkirkjunnar, að meirihluta skipað leikmönnum, að fá óháða nefnd til þess að rannsaka alla starfshætti og viðbrögð kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni um kynferðisbrot. Karl Sigurbjörnsson biskup og fleiri hafa einnig beðið konurnar og önnur fórnarlömb fyrirgefningar. Þá hlýddu fimmtíu prestar þjóðkirkjunnar í gær á sögu fimm kvenna sem ásakað hafa fyrrverandi biskup.
Þessi yfirbót kirkjunnar manna hefur ekki hingað til orðið til þess að draga úr úrsögnum samkvæmt heimildum. Eftir daginn í dag, síðasta daga ágústmánaðar, mun Þjóðskrá taka saman yfirlit um úrsagnir síðustu vikna og niðurstaðna er að vænta undir lok næstu viku.
194.000 manns, 16 ára og eldri voru skráðir í þjóðkirkjuna 1. desember í fyrra. Þjóðkirkjan fær nú um 9.200 krónur í sóknargjald á hvern þjóðkirkjufélaga. Ef 3.000 hafa skráð sig úr þjóðkirkjunni í ágúst verða kirkjusóknir landsins af tæplega 28 milljónum króna á ári. |
NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöllin) hefur ákveðið að áminna Reykjanesbæ opinberlega vegna atvika þar sem Reykjanesbær, útgefandi skuldabréfaflokks, er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.
Er Reykjanesbær, útgefandi skuldabréfanna, talinn hafa brotið gegn ákvæðum 4.1.2, 4.1.3, 4.1.4 og 4.2.1 í reglunum.
Tilkynnti ekki til Kauphallar
Í fjölmiðlum þann. 30. ágúst 2010 var fjallað um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Þar var m.a. umfjöllun um erlent lán að jafnvirði 1,8 milljarða króna sem var á gjalddaga 2. ágúst og ekki var greitt af. Samdægurs hófust bréfaskriftir milli Kauphallarinnar og Reykjanesbæjar þar sem Kauphöllin óskaði m.a. skýringa á því hvort þær upplýsingar sem komu fram í umfjöllun um Reykjanesbæ í fjölmiðlum hefðu verið réttar og, ef svo væri, hvort útgefandi teldi að um verðmótandi upplýsingar væri að ræða. Í kjölfar þess voru skuldabréf Reykjanesbæjar færð á Athugunarlista, þann 1. september 2010.
Í svörum útgefanda kom m.a. fram að Reykjanesbær ætti í viðræðum við banka varðandi greiðslu á erlenda láninu sem var á gjalddaga í byrjun ágústmánaðar. Einnig kom fram að vaxtagreiðslan sem var á gjalddaga 2. ágúst hefði verið greidd en ekki höfuðstóllinn og af þeim ástæðum, sem og þeirri staðreynd að viðræðum væri ekki lokið, hefði ekki verið um verðmótandi upplýsingar að ræða, að mati Reykjanesbæjar.
Fallast ekki á skýringar Reykjanesbæjar
Kauphöllin fellst ekki á þá skýringu útgefanda að ekki hafi verið um verðmótandi upplýsingar að ræða þar sem viðræður við bankann stæðu enn yfir og að vaxtagreiðsla vegna lánsins hefði verið innt af hendi. Það hlýtur að teljast til verðmótandi upplýsinga geti útgefandi skuldabréfa ekki greitt af skuldum sínum, óháð því hvort unnið sé að endurfjármögnun eða ekki, sbr. ákvæði 4.2.1 í reglum Kauphallarinnar. Tækist ekki að semja um endurfjármögnun gætu lánadrottnar farið fram á greiðslu og afleiðingar þess verið alvarlegar, í ljósi þess að fjárhæð lánsins var umtalsverð. Reykjanesbæ bar því að birta tilkynningu um vænt greiðslufall í allra seinasta lagi þegar það lá fyrir að ekki tækist að endursemja við bankann áður en lánið féll á gjalddaga.
Ljóst er af svörum útgefanda að tilteknir lánardrottnar Reykjanesbæjar voru upplýstir um stöðuna en almennir skuldabréfaeigendur, sem og hugsanlegir fjárfestar, ekki. Með slíkri valkvæðri upplýsingagjöf til afmarkaðs hóps fjárfesta er verið að brjóta gegn jafnræði aðila á markaði um aðgang að upplýsingum sem kunna að hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa útgefanda, sbr. ákvæði 4.1.3. Einnig skal tekið fram að útgefandi verðbréfa ber ábyrgð á því að upplýsingar sem geta talist hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa hans komi ekki fram í fjölmiðlum áður en þær eru gerðar opinberar með fullnægjandi hætti í samræmi við fyrrgreind ákvæði. Því verður að hafa hliðsjón af því að útgefandi brást ekki við með því að upplýsa markaðinn um stöðuna þegar fjölmiðlar höfðu gert grein fyrir málinu og því ljóst að um leka var að ræða, né heldur í kjölfar fyrirspurna Kauphallarinnar.
Kauphöllinn áminnir því Reykjanesbæ opinberlega fyrir brot á reglum Kauphallarinnar.
Ákvörðun um opinbera áminningu er tekin á grundvelli samnings við Kauphöllina um töku fjármálagerninga útgefanda til viðskipta í Kauphöllinni.
Þetta segir í tilkynningu Kauphallarinnar.
Hér má lesa tilkynninguna. |
Þegar menn verða ráðherrar í þriðja heiminum, þykir ættingjum þeirra og vinum sums staðar sjálfsagt að njóta hlutdeildar í hinni nýfengnu dýrð. Þetta er hluti af gömlu reglunni um, að auður og aflafé skuli að hluta til sáldrast til þeirra, sem eru nákomnir hinum heppna.
Á Vesturlöndum hefur velferðarríkið leyst þetta gamla samtryggingarkerfi af hólmi. Í nútímanum er ekki lengur leyft, að litið sé á opinber embætti eða opinber tignarstörf sem eins konar herfang, er skuli að hluta dreifast til ættingja, vina og pólitískra samherja.
Íslenzkir stjórnmálamenn eiga afar erfitt með að losa sig úr þriðja heiminum, ekki bara að þessu leyti. Þeir vilja almennt nota aðferðir þriðja heimsins, svo sem í efnahagsmálum, þar sem þeir kjósa handafl af ýmsu tagi og skömmtun lífsgæða til gæludýra kerfisins.
Misnotkun ráðherra á aðgangi að ódýru brennivíni er tiltölulega ódýr hluti af þessu fargani, sem hefur gert Ísland að þriðja heims bananalýðveldi. En hún er einkar dæmigerð um hugarfarið að baki, þar sem pólitískir ribbaldar líta á ráðherrastóla sem herfang sitt.
Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hefur umfram aðra ráðherra tengst fréttum af flutningi á ódýru ríkisáfengi út í bæ. Nú síðast hefur komizt upp um, að hann lét senda rúmlega 100 áfengisflöskur heim til pólitísks samherja, ritstjóra Alþýðublaðsins.
Ef Ingólfur Margeirsson, ritstjóri Jóns, getur ekki haldið upp á fertugsafmæli sitt fyrir fátæktar sakir, er rétt, að Jón Baldvin Hannibalsson flokksformaður leysi málið á vettvangi Alþýðuflokksins eða Alþýðublaðsins. Það er á þeim vettvangi, að þeir eru samherjar.
Jón Baldvin Hannibalsson flokksformaður á ekki að geta fengið Jón Baldvin Hannibalsson ráðherra til að leggja á herðar skattgreiðenda kostnað, sem varðar aðeins hinn fyrrnefnda. Þetta er tiltölulega einfalt siðalögmál, sem er orðið algilt í hinum vestræna heimi.
Varnarritgerð ráðherrans bendir til, að langvarandi misnotkun hafi dregið úr skilningi hans á mismun þess, sem gildir í þriðja heiminum og hvað gildir í nútímaþjóðfélögum á Vesturlöndum. Hann reynir í henni að flækja málið sem mest með því að tala um óskylda hluti.
Ráðherrann segir í varnarritgerðinni, að ráðherrar bjóði fulltrúum aðalfunda ýmissa félagssamtaka í boð og haldi samstarfsmönnum sínum í ráðuneytunum hóf af ýmsum tilefnum, og spyr, hvort ekki megi þá alveg eins halda boð fyrir pólitíska samstarfsmenn.
Svarið við spurningu ráðherrans er einfaldlega nei. Ráðherrar eiga ekki að halda boð fyrir pólitíska samstarfsmenn, ekki fyrir gamla skólafélaga, ekki fyrir gamla og nýja vini, ekki fyrir ættingja sína. Og þeir eiga alls ekki að útvega ódýrt ríkisbrennivín í slík boð.
Ráðherrar mega hins vegar halda uppi risnu fyrir hönd embætta sinna, til dæmis þegar innlend merkisfélög halda mikilvæga aðalfundi eða þegar mikilvægir útlendingar koma í heimsókn. En í öllum slíkum tilvikum verður að gæta hófs og fara að settum reglum.
Raunar er óviðfelldið að þurfa enn einu sinni að útskýra fyrir ráðherra, hvað teljist til góðra siða og hvað ekki. Ofangreindar siðareglur eiga að vera öllum ljósar. En því miður eru nokkrir ráðherrar, sem nú sitja, ekki nógu siðaðir til að skilja, að stóll er ekki herfang.
Sorglegt er, að siðlitlir, íslenzkir ráðherrar skuli sífellt verða sér til skammar og að framferði þeirra skuli þurfa að vera milli tannanna á mikilvægum útlendingum.
Jónas Kristjánsson
DV |
Bankasýslu ríkisins telur að ríkissjóður hafi orðið af 2,6 milljörðum króna við sölu Arion banka á hlutafé sínu í Bakkavör í janúar 2016, ef miðað er við virði félagsins í útboði rúmu ári síðar. Fjármálaráðherra segir að þetta hafi haft áhrif á vilja ríkisins til að selja hlut sinn í Arion.
Félagið BG12 átti 45,9% hlut í Bakkavör og bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stjórnarformaður og forstjóri Bakkavarar, áttu 38% hlut. BG12 var að stærstum hluta í eigu Arion sem átti 62%, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildis lífeyrissjóðs. Ríkissjóður Íslands átti á þessum tíma 13% í Arion. Árið 2016 keyptu Lýður og Ágúst hlutinn, ásamt félagi í eigu bandarískra fjárfestingasjóða á 27 milljarða. 20 mánuðum síðar lauk almennu útboði á hlutabréfum í Bakkavör og skráningu á markað í kauphöllinni í London. Í minnisblaði Bankasýslunnar til fjármálaráðherra í janúar segir að miðað við söluverðmæti hluta þá megi ætla að hlutur Arion og lífeyrissjóðanna hafi þrefaldast að verðmæti í sterlingspundum talið. Að teknu tilliti til gengisbreytinga reiknast Bankasýslunni til að markaðsvirði hlutarins sem Arion og lífeyrissjóðirnir seldu hafi verið nær 60 milljarðar króna en ekki 27. Segir í minnisblaðinu að ef verðmæti hlutafjár Bakkavarar hefði verið það sama við söluna og það var við almenna útboðið gæti ríkissjóður hafa farið á mis við 2,6 milljarða króna. Fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi verið upplýst um málið á sínum tíma og ráðherranefnd hafi fundað um það. Það hafi hins vegar verið á verksviði eigenda bankans og stjórnar að fjalla um það. Hann segir að sú staða, sem lýst er í minnisblaðinu, hafi haft áhrif á afstöðu ríkisins, að það væri ekki góð langtímaráðstöfun fyrir ríkið að vera minnihlutaeigandi í fjármálafyrirtæki.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra: Að því leytinu til er þessi staða í heild sinni að hafa ákveðin áhrif á vilja okkar til þess að selja einfaldlega þennan hlut eins og síðan gerðist á grundvelli eldri samnings.
Tillögu Bankasýslunnar um að innri endurskoðanda bankans yrði falið að gera formlega athugun á sölunni var hafnað. Hlutur ríkisins í Arion var seldur áður en til frekari skoðunar kom. Lífeyrissjóður Verslunarmanna lét innri endurskoðanda sinn, Deloitte, fara yfir söluferlið. Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður, sagði í samtali við fréttastofu að það sé alltaf tekið alvarlega ef grunur vaknar um að lífeyrissjóðurinn hafi verið hlunnfarinn með einhverjum hætti. Skoðun Deloitte leiddi ekki í ljós neitt haldbært sem bent gæti til saknæms athæfis.
Bjarni Benediktsson: Eftir að ríkið hverfur frá þessu fyrirtæki sem eigandi þá er þetta mál í raun og veru úr höndunum á okkur eins og allir sjá. |
Velferðarráðherra tekur ekki vel í hugmyndir um að ríkið sjái um að innheimta gjöld af dvalarmönnum hjúkrunarheimila. Það kæmi honum hins vegar á óvart keyri slík heimili menn í þrot til að innheimta slík gjöld.
Margir eldri borgarar sem dvelja á hjúkrunarheimilum eru með það háar tekjur að þeir greiða sjálfir hluta af dvalarkostnaði. Heimilin sjálf sjá þá um að innheimta þetta gjald. Í gær var sagt frá manni þar sem að hjúkrunarheimili íhugar að fara fram á gjaldþrotaskipti þar sem hann hefur ekki borgað. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, vonar að til þess komi ekki.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra: Fyrstu viðbrögð eru nú að þarna er um að ræða innheimtu á vegum sjálfstæðrar stofnunar og þeir verða náttúrulega að fara eftir lögum en samtímis er það ákvörðun þeirra hversu hart þeir ganga fram og það kæmi mér á óvart ef að þeir væru að setja fólk í þrot út af, út af greiðslum.
Í framhaldi hafa vaknað spurningar hvort til dæmis Tryggingastofnun ætti ekki að innheimta umrætt gjald af heimilismönnum hjúkrunarheimila.
Guðbjartur Hannesson: Ég átta mig nú ekki alveg á af hverju það ætti að vera þannig að, að viðkomandi heimili fái eingöngu tekjurnar og greiddar upp í topp en, en beri ekki ábyrgð á innheimtunni sjálfir þar sem þeir reka þessar stofnanir sjálfir. Og það er eins og ég segi í öllu kerfinu er það þannig, spítalarnir eru að rukka inn fyrir sín þjónustugjöld og, og verða stundum að bera afföll af þeim gjöldum og ríkið hleypur ekki og bjargar því sérstaklega í hverju tilfelli. Það er, það getur varla verið þannig ef að menn eru að reka sjálfstæðar stofnanir. |
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra segir athugun Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD um ofhitnun í íslensku efnahagslífi ekki kalla á frekari aðgerðir. Efnahagsstjórnin sé í góðu horfi. Ábendingar um að draga úr vaxtabótum vegna íbúðalána telur hann þarfar, vextir hafi lækkað en bæturnar hugsaðar til að mæta háum vöxtum.
Í nýju yfirliti Efnahagsstofnunarinnar segir að væntanleg þurfi enn að hækka stýrivexti. Eftir skattalækkanir þurfi svo meiri afgang á fjárlögum. Erlendar skuldir, viðskiptahalli og minnkandi innstreymi gjaldeyris geti svo leitt til samdráttarskeiðs að loknum stórframkvæmdum. Geir H. Haarde segir svipaðar greiningar hafi verið gerðar hér en þegar hafi verið brugðist við hættunni, verðbólgan sé 2,9% sem sé ekki til marks um ofhitnun, atvinnuleysi sé vissulega lítið en innflutningur vinnuafls vegi á móti ofhitnun.
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra (D): Við erum hér alveg með góð tök á efnahagsmálunum og þetta heldur áfram eins og ráð er fyrir gert. Það eru miklar framkvæmdir í landinu, þær kalla auðvitað á aukin umsvif og innflutning eins og alla tíð hefur verið vitað, og svo mun hægja á en það eru ekki ný tíðindi að svo verði. Reyndar erum við nú með áform uppi um það að reyna að sem sagt fá þá aðrar framkvæmdir í staðinn frá og með árinu 2007, eins og hefur nú komið fram.
Ráðherra bendir á að athuganir utan úr heimi séu á ýmsa vegu, til dæmis hafi ágæt grein birst í Newsweek í síðustu viku, en fjölmiðlar ekki veitt henni mikla athygli. Í henni segir prófessor í Sviss að á Íslandi sé verið að gera flest alla hluti rétt í efnahagsstjórnun. En í OECD athuguninni er vikið er að íbúðamarkaði sérstaklega og þörf á að draga úr hvatningu til að fólks sem að setji sig þar í skuldir. Þar telur Geir þörf á að athuga vaxtabótakerfið og hvatningu sem í því felst, og einkum nú þegar að íbúðamarkaður hafi beryst. En þýðir það að það eigi að leggja niður vaxtabætur?
Geir H. Haarde: Ja það get ég auðvitað ekki sagt neitt um en það er ábending um það að þær séu kannski ríflegar miðað við hvernig markaðurinn hefur breyst. Þær voru auðvitað hugsaðar fyrst og fremst til þess að hjálpa fólki við að kljúfa vexti þegar þeir voru miklu hærri heldur en þeir eru núna og fólk að festa sér húsnæði. Þannig að mér finnst þetta athyglisverð ábending sem þarna kemur fram. |
Kolbeinn Sigþórsson landsliðsframherji í fótbolta sem hefur ekki spilað leik í eitt ár, er á batavegi og vonir standa til að hann snúi aftur á knattspyrnuvöllinn fyrir áramót. Hann fer í læknisskoðun hjá félagi sínu Nantes í Frakklandi á morgun. Þetta staðfesti Andri Sigþórsson, bróðir hans og umboðsmaður við RÚV í dag.
Kolbeinn sem er 27 ára spilaði síðast fótboltaleik þann 28. ágúst 2016 með Nantes. Hann spilaði alla leiki Íslands á EM í Frakklandi í fyrra og lék svo tvo leiki með Nantes áður en hann var lánaðar til Galatasaray í Tyrklandi.
@galatasaray
A post shared by Kolbeinn Sigþórsson (@kolbeinnsigthorsson) on Sep 1, 2016 at 12:02am PDT
Síðan hefur Kolbeinn gengist undir tvær aðgerðir, þá fyrri í Tyrklandi en fram að þeirri seinni sem gerð var í Svíþjóð í sumar, var útlitið tvísýnt með knattspyrnuferil hans. Sú aðgerð heppnaðist hins vegar vel og hefur hann verið í meðhöndlun sjúkraþjálfara.
Andri sagði í samtali við RÚV í dag að Kolbeinn muni ekki mæta strax á æfingu hjá Nantes eftir læknisskoðunina á morgun.
„Hann fór í sterasprautu á dögunum og er bara á leið í styrktaræfingar. Hann verður í endurhæfingu sem mun svo leiða í ljós hvenær hann getur snúið aftur á æfingar hjá Nantes en við erum að vona að hann geti byrjað að spila á fyrri hluta þessa tímabils, það er að segja fyrir áramót. Þetta hafa verið erfið meiðsli að eiga við.“ segir Andri.
England 1-2 Iceland goal #sigthorsson #ISL #ENG #ENGISL #euro2016 #sport #football #goal #england #Iceland #euro pic.twitter.com/KeOb6LY9u8
- Lucas da Rocha (@DarochaL7) June 27, 2016
Gangi það eftir að Kolbeinn komist aftur á knattspyrnuvöllinn fyrir áramót eru það frábær tíðindi fyrir íslenska landsliðið. Kolbeinn hefur spilað 44 landsleiki og skorað í þeim 22 mörk. Hann skoraði sigurmark Íslands gegn Englandi í eftirminnilegum leik liðanna í 16 liða úrslitum á EM í fyrra.
Hang on a minute…
Sigthorsson strikes for Iceland!
You know what to do #ISL #EURO2016https://t.co/DYMjbMWSzs
- B/R Football (@brfootball) July 3, 2016
Nantes keypti Kolbein frá Ajax í Hollandi sumarið 2015 á 3,5 milljónir evra og gerði hann 5 ára samning við franska félagið. Hann er enn í eigu franska félagsins því Galatasaray rifti lánssamningnum 29. desember sl. en tyrkneska félagið hafði 3,8 milljóna evra forkaupsrétt á leikmanninum. |
Forseti ASÍ segir að verja þurfi leigjendur fyrir sjálfvirkum hækkunum á húsaleigu og að sveitarfélögin verði að tryggja byggingarlóðir. Ekki verði skrifað undir nema fyrir liggi skuldbindandi samkomulag um að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaði.
Formaður VR sagði í hádegisfréttum í dag að ekki verði skrifað undir kjarasamninga nema breytingar verði gerðar á lögum eða reglugerðum sem verji leigjendur fyrir síhækkandi húsaleigu. Drífa tekur undir það.
Drífa Snædal, forseti ASÍ: Það er alveg ljóst að það verða svo sem ekki undirritaðir kjarasamningar hérna nema að það liggi eitthvað skuldbindandi fyrir til að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaðnum enda hafa þær kauphækkanir sem hefur verið samið um brunnið upp á báli húsnæðismarkaðarins með síhækkandi leigu og sífellt dýrari íbúðum.
ASÍ samþykkti á nýafstöðnu þingi húsnæðisstefnu þar sem krafist er að stjórnvöld tryggi öllu launafólki aðgang að íbúðarhúsnæði. Stefnan er í svipuðum dúr og kröfugerðir Starfsgreinasambandsins og VR. Kröfurnar í húsnæðismálum eru fjölmargar en meðal þeirra er krafa um að stofna húsnæðisfélag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni, ríki og sveitarfélög tryggi lóðaframboð, forgangur verði veittur í skipulagsvinnu, kerfinu sem Bjarg íbúðarfélag byggi á verði viðhaldið og leigjendum veitt aukin vernd með lögum eða reglugerðum.
Bergljót Baldursdóttir: Viljið þið að það verði sett eitthvað þak eða settar reglur um það hvað má hækka leigu mikið?
Drífa Snædal: Það þarf að verja leigjendur fyrir einhverjum sjálfvirkum hækkunum stöðugt sem þeir eru að lenda í. Á flestum stöðum á Norðurlöndunum er einhvers konar dempari á leigu og við lítum þangað.
Leigjendur séu gjörsamlega háðir leigusölum með síhækkandi leigu og það verði að vera hægt að taka á því. Sveitarfélögin séu í lykilstöðu til þess að úthluta lóðum.
Drífa Snædal: Og slá af kröfum um byggingaréttargjald og gatnagerðargjöld og allt það til að liðka fyrir því öll gjöld sem sveitarfélögin leggja á lóðir og nýbyggingar skila sér beint inn í verðlagið. |
Mikil aukning hefur orðið á því að fólk leiti til erfðaráðgjafar Landspítalans til að kanna líkur á arfgengum sjúkdómum. Tvö hundruð og fimmtíu hafa greinst með stökkbreytingu í genum sem eykur líkur á krabbameini um allt að 80%.
Steinunn Sigurðardóttir fékk að vita á síðasta ári að hún bæri BRCA2 genið sem er annað þeirra tveggja gena sem tengd hafa verið við auknar líkur á brjóstakrabbameini. Hitt er BRCA1. „ Manni náttúrulega brá og vissi náttúrulega ekki nákvæmlega hvað þetta er," segir Steinunn.
Steinunn hafði greinst með brjóstakrabbamein árið áður. Ein af þremur dætrum hennar sem er búsett í Bandaríkjunum fékk að vita sama ár að hún bæri genið og hafði Steinunn samband við erfðaráðgjöf Landspítalans í framhaldinu. Síðar kom í ljós að önnur dóttir hennar til viðbótar ber BRCA2 genið.
Erfðaráðgjöfin hefur kannað gen um eitt þúsund Íslendinga en af þeim hafa 250 greinst með stökkbreytingu sem eykur líkur á brjóstakrabbameini. Það hefur aukist verulega að fólk leiti til erfðaráðgjafarinnar til að fá skoðun sérstaklega eftir að bandaríska leikkonan Angelina Jolie greindi frá því opinberlega á síðasta ári að hún bæri BRCA1 genið og hefði því látið fjarlægja bæði brjóst sín. Vigdís Stefánsdóttir, erfðaráðgjafi á Landspítalanum, segir að fyrst eftir að Angelina Jolie steig fram með sína sögu hafi helmingi fleiri leitað eftir ráðgjöf hjá þeim. |
Sýningin Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli! verður opnuð í Gerðarsafni á morgun. Sýningin er hluti af alþjóðlegu verkefni sem kallast Vatnsdropinn og er samstarfsverkefni milli Menningarhúsanna, H. C. Andersen-safnsins í Óðinsvéum, Múmín-safnsins í Tampere og Ilon‘s Wonderland-safnsins í Haapsalu. Síðastnefnda safnið byggir á höfundarverki teiknarans Ilon Wikland sem myndlýsti ótal bækur Astrid Lindgren.
„Sýningin hverfist um hafið en Vatnsdropinn snýst um að tengja höfundaverk norrænu höfundanna við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sýningarstjórar eru börn á aldrinum 9-12 sem koma frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi og Eistlandi,“ segir Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefna- og viðburðastjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ. „Chus Martinez, sem er þekkt fyrir sýningastjórastörf sín á alþjóðavettvangi, hefur verið börnunum til ráðgjafar og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir hefur leitt vinnu barnanna hér á landi. Studio Irma hefur svo skapað magnaða umgjörð um sýninguna sem mun standa út október.“
Listsmiðjur fyrir börn
Þann 29. júní hefja svo göngu sína listsmiðjur fyrir börn sem fléttast í kringum Vatnsdropann. Smiðjurnar verða leiddar af hópi ungs fólks sem öll eru í listnámi eða menningartengdu námi; þeim Ásthildi Ákadóttur, Bjarti Erni Bachmann, Hlökk Þrastardóttur og Önju Ísabellu Lövenholdt en smiðjurnar fara fram alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá kl. 13-15, á tímabilinu frá 29. júní til 5. ágúst.
„Farið var af stað með listsmiðjur síðasta sumar og það tókst svo vel til að ákveðið var að fara aftur af stað í ár“ segir Elísabet. „Auglýst var eftir áhugasömum, heill hellingur sótti um og það var erfitt að velja úr en við erum himinlifandi með hópinn sem réðist til starfa. Smiðjurnar fara fram hér í Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu og Gerðarsafni auk Lindasafns og öll börn velkomin.“
Ungir sýningarstjórar á Íslandi 2021 Frá vinstri: Íva Jovisic, Freyja Lóa Sigríðardóttir, Vigdís Una Tómasdóttir, Lóa Arias og Fjóla Kristín Sveinbjörnsdóttir. mynd/sigga ella
Fjölskylduvænt umhverfi
Í kringum Menningarhúsin er umhverfið allt mjög fjölskylduvænt og slíkar áherslur endurspeglast í starfi húsanna.
„Í Bókasafni Kópavogs er nú hægt að sjá hluta af afrakstri staðarlistamanna Kópavogs sem hefur verið hönnunarteymið ÞYKJÓ,“ segir Elísabet. „ÞYKJÓ hefur tengt þessa einstöku veröld húsanna saman á mjög fallegan hátt og unnið verk sín í samtali við vísindamenn Náttúrufræðistofu, listfræðinga Gerðarsafns og aðra sérfræðinga í húsunum. Í Bókasafninu má nú eiga kyrrðarstund í Kyrrðarrýmum sem innblásin eru af skeldýrum og skúlptúrum Gerðar Helgadóttur og bregða sér í hlutverk Ástarfugla og Feludýra á sýningunni Ofurhetjur jarðar þar sem má sjá og klæðast ótrúlega fallegum og litríkum búningum ÞYKJÓ.“
Bókasafn Kópavogs stendur fyrir lestrarátakinu Sumarlestur með alls kyns skemmtilegum viðburðum og Náttúrufræðistofa Kópavogs heldur námskeið fyrir náttúrukrakka auk þess sem þar má sjá frábæra grunnsýningu um lífríki Íslands, Heimkynni, sem var opnuð á síðasta ári. Í gluggum Náttúrufræðistofu má sjá stórskemmtilegar teikningar Ránar Flygenring úr bók Ránar og Hjörleifs Hjartarsonar, Fuglar, en teikningarnar hefur Rán aðlagað að sýningarrýminu.
Langir fimmtudagar í sumar
Reykjavík Roasters opnaði nýlega í Gerðarsafni og Elísabet segir mikið líf og fjör í kringum það.
„Þrjá fimmtudaga í sumar, 24. júní, 15. júlí og 12. ágúst, verður opið fram eftir kvöldi hjá okkur með fjölbreyttu viðburðahaldi, meðal annars í samstarfi við Skapandi sumarstörf í Kópavogi sem hefur á að skipa mjög áhugaverðu og metnaðarfullu listafólki sem kemur úr öllum geirum listalífsins. Í ágúst hefur hin frábæra tónleikaröð, Sumarjazz í Salnum, göngu sína og fer fram klukkan 17 á fimmtudögum í björtu og fallegu fordyri Salarins,“ segir Elísabet.
„Það er náttúrulega heilt ár búið að vera litað af COVID en nú er allt að byrja að lifna við aftur. Auk þess sem ég hef nefnt verða ýmiss konar viðburðir á dagskrá um helgar í sumar. Það er um að gera að fylgjast með dagskránni okkar á Facebook eða á menningarhusin.is.“ ■
Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli!
Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli! er sýning sem ungir sýningarstjórar stýra en hópinn skipa þrettán börn frá Íslandi, Danmörku, Eistlandi og Finnlandi. Ungu sýningarstjórarnir hafa undanfarna mánuði tekið þátt í vinnusmiðjum í söfnunum (eða á netinu vegna samkomutakmarkana) undir leiðsögn sýningarstjóra Vatnsdropans, Chus Martinez, en hún er eftirsóttur sýningarstjóri, listfræðingur og heimspekingur frá Spáni sem starfar á alþjóðavettvangi. Fimm stúlkur úr Kópavogi, þær Fjóla Kristín Sveinbjörnsdóttir, Freyja Lóa Sigríðardóttir, Íva Jovisic, Lóa Arias og Vigdís Una Tómasdóttir, eru í íslenska sýningarstjórateyminu og hefur Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir leitt vinnu hópsins hér á landi.
Á sýningunni Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli! gefur að líta verk sem ungu sýningarstjórarnir hafa valið frá H. C. Andersen-safninu, Múmín-safninu og Ilons Wonderland. Verkin má með einum eða öðrum hætti tengja fjórtánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna, Lífi í vatni. Heimir Sverrisson og samstarfsfólk hans hjá Irma studio tóku svo að sér að hanna og smíða umgjörð um sýninguna sem verður að finna á 1. hæð Gerðarsafns.
Vatnsdropinn hófst í ársbyrjun 2019 þegar Kópavogsbær hóf samtal við H. C. Andersen-safnið í Óðinsvéum og Múmín-safnið í Tampere um mögulegt samstarf. Eftir að IIons Wonderland-safnið bættist í hópinn varð Vatnsdropinn til. Um er að ræða þriggja ára menningarverkefni sem er ætlað að tengja höfundarverk norrænu höfundanna Astridar Lindgren, H. C. Andersen og Tove Jansson við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með listsýningum og viðburðahaldi. Allir höfundarnir eru fulltrúar klassískrar norrænnar bókmenntahefðar sem börn jafnt sem fullorðnir hafa gaman af. Þó svo að þeir séu ólíkir ríma gildi þeirra vel við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, gildi á borð við umhverfisvernd og jafnrétti. Það má í raun segja að gildi í sögunum (og teikningunum) eru mikilvægari en nokkru sinni áður í ljósi núverandi loftslagsvanda og hamfarahlýnunar.
Sjórinn er fullur af góðum verum. Sjórinn er fullur af rusli! verður formlega opnuð laugardaginn 19. júní og verður sýningin opin til 31. október. Samhliða sýningunni verður boðið upp á fjölda viðburða í Menningarhúsunum í Kópavogi tengdum Vatnsdropanum og er fólk hvatt til að fylgjast með á samfélagsmiðlum Menningarhúsanna og á www.menningarhusin.is. ■ |
Skaparar vafrans Vivaldi hafa nú gefið út nýja útgáfu af honum með tilliti til ábendinga notenda. Vivaldi er að hluta til íslenskt fyrirtæki og er í eigu frumkvöðulsins Jón von Tetzchner. Hann er sniðinn að fólki sem er mikið á netinu og geta notendur stillt vafrann verulega til að sníða vafrann að eigin notkun.
„Vivaldi vafrinn bætir nú við enn einum innbyggðum eiginleikanum, sem auðveldar fólki að stjórna flipum. Notendur geta nú valið hvar þeir staðsetja flipana; þeir geta stjórnað þeim í gegnum lyklaborðið; flokkað þá saman o.fl. Nýja gluggaspjaldið lyftir flipastjórnun upp á hærra plan”, segir Jón von Tetzchener, forstjóri Vivaldi Technologies, í tilkynningu.
Stefnt er að því að bæta enn fleiri eiginleikum við gluggaspjaldið í náinni framtíð. Yfirlit yfir nýju uppfærsluna má sjá hér.
„Gluggaspjaldið kemur sérstaklega að góðum notum hjá þeim sem þurfa að vinna með marga flipa samtímis. Til viðbótar þá sýnir listinn alla flipa án þess að minnka þá. Það auðveldar yfirsýn og leit að einstökum flipum, “ segir Espen Sand, sem hefur yfirumsjón með þróun gluggaspjaldsins.
Sjá einnig: „Einbeitum okkur að því að gera hlutina öðruvísi“
Einnig er búið að bæta nokkrum endurbætum við Vivaldi sem notendur hafa óskað sérstaklega eftir. Þeir þrír eiginlega sem voru efstir á blaði notenda í umræðum á spjallsíðum vafrans voru:
-Viðvörun þegar slökkt er á vafranum áður en niðurhali er lokið.
-Möguleiki á að setja niðurhal á pásu og halda áfram með það síðar
-Hraði niðurhals sýndur á stöðustiku niðurhals.
„Við leggjum mikið á okkur til þess að geta boðið upp á vafra sem ekki er háður viðbótum (plug-ins). Við stefnum að því að þróa og endurbæta innbyggða virkni vafrans og tryggja þannig örugga, hraða og fullkomna vafraupplifun!” segir Jón. |
Klukkan 3:15 í nótt hafði viðbragðsaðilum á Suðurlandi borist yfir 150 beiðnir um ýmiskonar aðstoð.
Á Selfossi brotnuðu tré, eða rifnuðu upp með rótum, hjólhýsi fauk á hliðina og lenti utan í húsum, þakplötur og þakkantar losnuðu eða fuku af tólf húsum. Tvær beiðnir bárust vegna gróðurhúsa sem voru að fjúka.
Í þremur tilvikum þurfti að aðstoða ferðamenn sem höfðu lent í því að drepist hafði á bílum þeirra og var fólkið orðið mjög kalt og hrakið. Í uppsveitum Árnessýslu var svo blint að ekki sást fram fyrir vélarhlífar á bílum.
Tólf gistu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Borg í Grímsnesi.
Undir Ingólfsfjalli fóru vindhviður upp í 50 m/sek og áttu ökumenn sem áttu leið um Suðurlandsveg á þeim kafla í nokkrum vandræðum. Tveir bílar fuku út af veginum en engin slys urðu á fólki. Vindhviðurnar voru svo hressilegar að báðar rúðuþurrkur á bíl sem átti þar leið um fuku af.
Vegir opna undir hádegi
Búast má við að Hellisheiði, Þrengsli, Lyngdalsheiði, Þingvallavegur og Biskupstungnabraut opni ekki fyrr en líða tekur að hádegi.
Í Rangárvallasýslu og undir Eyjafjöllum voru nokkrir ferðamenn aðstoðaðir við að komast til byggða.
160 manns við björgunarstörf í óveðrinu
Á fjórða tímanum í nótt voru flestir viðbragðsaðilar komnir í hús en alls tóku um 160 einstaklingar á rúmlega 40 björgunartækjum tekið þátt í þessari aðgerð, björgunarsveitir, sjúkraflutningar og slökkvilið, ásamt lögreglu. Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum þeim viðbragðsaðilum kærlega fyrir þeirra ómetanlegu aðstoð. Aðgerðastjórn verður virkjuð aftur ef verkefni krefjast þess.
Rafmagn kom aftur á í Sandvíkurhreppi á fimmta tímanum í nótt og er ekki búist við frekari rafmagnstruflunum þar.
Skólahald fellur niður í dag í grunn- og leikskólum Bláskógabyggðar í Reykholti og á Laugarvatni.
Skólaakstur við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri fellur niður í dag vegna veðurs. Skólinn opnar kl. 7:30 en reynt verður að halda uppi kennslu samkvæmt stundaskrá. Mælst er til þess að foreldrar/forráðamenn meti hvort þeir geti ekið börnum sínum til og frá skóla út frá aðstæðum. Ef forráðamenn senda nemendur ekki í skólann skal það tilkynnt símleiðis eða í tölvupósti á póstfangið barnaskolinn@barnaskolinn.is. |
Eigendur eignarhaldsfélagsins Perroy, sem er umboðsaðili Nespresso á Íslandi, hafa ákveðið að bjóða til sölu allt hlutafé félagsins. Í stuttri fjárfestakynningu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, kemur fram að tekjurnar hafi aukist um liðlega 50 prósent í fyrra og numið samtals 1.238 milljónum króna. Þá jókst hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nærri því þrefalt og var 175 milljónir á árinu 2020.
Varða Capital, sem er í eigu Gríms Garðarssonar, Jónasar Hagan Guðmundssonar og viðskiptafélaga þeirra Edwards Schmidt, er stærsti hluthafi Perroy með 75,5 prósenta hlut. Þá fer félagið Hagan Holding, sem er í eigu Jónasar, með 14,5 prósenta hlut og RE22, sem er í eigu Jóns Björnssonar, forstjóra Origo, á tíu prósenta hlut.
Það er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með söluferlinu.
Sjá einnig
Seldu Nespresso fyrir hálfan milljarð króna
Perroy opnaði sína fyrstu Nespresso verslun í Kringlunni í lok nóvember 2017 en í maí 2019 var önnur verslun opnuð í Smáralind. Þá starfrækir félagið að auki netverslun en fram kemur í fjárfestakynningunni að tekjur vegna hennar hafi numið 372 milljónum í fyrra. Mestar voru tekjurnar hins vegar af versluninni í Kringlunni, eða 425 milljónir, en veltan í Smáralind var hins vegar um 330 milljónir.
Í kynningunni segir að áætlanir geri ráð fyrir áframhaldandi vexti næstu ár, drifnum áfram af sókn á fyrirtækjamarkað (B2B). Þær tekjur, sem voru aðeins um 10 prósent af heildarveltu félagsins í fyrra, jukust um 48 prósent á árinu 2020. Samkvæmt fjárfestakynningunni er því spáð að tekjurnar vaxi í 1.477 milljónir á þessu ári og að EBITDA félagsins verði um 217 milljónir.
Engar langtímaskuldir hvíla á félaginu og er eiginfjárhlutfall þess 52 prósent. |
unnið að 3,5 milljarða skráningu Cyntellect
Fjármálafyrirtækið NordVest vinnur nú að skráningu bandaríska líftæknifyrirtækisins Cyntellect á icec-markaðinn í Kauphöll Íslands, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, og stendur til að skrá um 25% fyrirtækisins fyrir um 10-12 milljónir Bandaríkjadali, eða um 742-890 milljónir íslenskra króna. Heildarverðmæti fyrirtækisins er því rúmlega 3,5 milljarðar króna, miðað við efri mörk skráningargengis.
Talsmenn NordVest og Cyntellect, sem er með höfuðstöðvar sínar í Kaliforníu-fylki í Bandaríkjunum, vildu ekki tjá sig um skráningun að svo stöddu, en í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðis sagði Jim Linton, framkvæmdastjóri félagsins, að Cyntellect væri að skoða möguleika sem fyrirtækinu standa opnir til að afla aukins fjár til frekari vaxtar.
Líftæknifyrirtæki hafa lækkað verulega í verði á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum síðustu ár en sérfræðingar, sem Viðskiptablaðið, hafði samband við, sögðu Cyntellect ólíkt flestum öðrum líftæknifyrirtækjum að því leyti að þróunarvinnan er að mestu að baki og fyrirtækið getur nú hafið sölu á afurðum sínum. Til samanburðar var síðasta gengi deCODE 7,25 dalir á hlut en fór hæst í 31,5 dali á hlut árið 2001.
Cyntellect framleiðir Leap, búnað sem gerir vísindamönnum kleift að skoða lifandi frumur með leysigeisla við lyfjaþróun. Linton sagði kostnað við lyfjaþróun mikinn og að með búnaðinum sé hægt að stytta þróunarferlið verulega þannig að miklu fyrr er hægt að meta árangur í þróunarferlinu. Leap-tækið kostar 500 þúsund Bandaríkjadali er markaðsetning þegar hafin og markhópurinn er stóru, alþjóðlegu lyfjafyrirtækin.
Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er lagt af stað með skráningargengið 2,5-3,0 Bandaríkjadalir á hlut, sem ætti að skila fyrirtækinu allt að 890 milljónum í kassann. Óformleg fjárfestakynning hefur þegar farið fram, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins, og ólíkt öðrum sprotafyrirtækjum í líftæknigeiranum er fyrirtækið þegar farið að skila tekjum og búist er við að hagnaður verði af rekstri fyrirtækisins á næsta ári.
Cyntellct hefur þegar aflað 24 milljónum Bandaríkjadala og um helmingur þess er styrkur frá bandarísku ríkisstjórninni. Linton segir ástæðuna fyrir styrkveitingunni vera framsækin tækniframleiðsla fyrirtækisins. Íslenskir aðilar hafa nú þegar fjárfest verulega í fyrirtækinu, sem stofnað var af Bernharði Pálssyni, prófessor í lífverkfræði við Kaliforníuháskóla í San Diego, og Manfred R. Koller fyrir um sjö árum síðan. |
Forvanir gegn kynferðisofbeldi er mikilvægur þáttur í að efla vitund einstaklinga um alvarleika kynferðisofbeldis og eru nær alltaf álitnar mun hagstæðari og árangursríkari en síðbúið inngrip.
Rannsóknir á tíðni kynferðisofbeldis gegn börnum á Íslandi greina frá, að um 17 - 36% barna verði fyrir slíku ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Nýlegar tölur, sem birtar eru um áfallasögu kvenna, sýna að um 40% kvenna á Íslandi telja sig hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi/áreitni. Hækkun á tíðni kynferðisofbeldis gefur vísbendingar um, að með aukinni fræðslu og meiri umræðu eru fleiri að segja frá ofbeldi í æsku og er því enn tækifæri til að taka upplýsta umræðu sem skapar aukna þekkingu og trú fólks á eigin getu til að stíga fram og stöðva ofbeldið.
Rannsóknir sýna að sú andúð sem flestir hafa á kynferðisbrotum gegn börnum veldur þeirri tilhneigingu að loka augunum eða líta undan þegar slík mál ber á góma. Viðfangsefnið er svo ógeðfellt að það passar ekki inn í heimsmynd hins venjulega borgara sem svo veldur því að viðkomandi á erfitt með að trúa að ofbeldið hafi raunverulega átt sér stað. Þessi tilhneyging er ein af skýringum þess að kynferðisbrot gegn börnum hafa viðgengist, þar sem fólk á erfitt með að trúa að þau hafi raunverulega átt sér stað. Það að neita að sjá atburði eins og þeir raunverulega eru, dregur ekki úr tilvist þeirra, heldur þvert á móti skapar afneitunin aukið rými fyrir áframhaldandi ofbeldi.
Forvarnir sem beinast að börnum til að gera þau hæfari til að komast hjá því að verða fyrir ofbeldi, hafa ekki náð tilætluðum árangri því rannsóknir sýna að kynferðisbrotum gegn börnum er enn að fjölga. Því er einnig haldið fram að slíkar forvarnir hjálpa börnum ekki að bera kennsl á allar þær fjölbreyttu aðferðir sem brotamenn beita til að nálgast þau. Áherslan hefur verið á hættuna sem stafar af „ókunnugum“ en sneytt hjá því að bera kennsl á þá sem mögulega leynast innan veggja heimilisins eða í formi annarra nákominna aðila. Komið hefur í ljós að þeir sem brjóta kynferðislega á börnum eru í flestum tilfellum (um 93%) einhver sem þekkir barnið vel. Slíkur verknaður er yfirleitt hvorki einangrað tilfelli né á sér stað í einangruðu umhverfi og því er brýnt að fræða foreldra og þá sem bera ábyrgð á velferð barna um hvar áhættan liggur.
Afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku hafa áhrif á lífsgæði og haldast þær í hendur bæði með andlegu eða líkamlegu ofbeldi sem svo eykur á vanda þeirra einstaklinga sem fyrir því verða. Fólk sem verður fyrir ofbeldi er verr í stakk búið fyrir lífið vegna streituáhrifa sem hafa áhrif á taugaþroska og félagslega, tilfinningarlega og vitsmunalega getu og líðan. Á meðan fólk velur að líta undan og gera ekkert í málinu er barnið skilið eftir óvarið í höndum þess sem beitir það ofbeldi og þar með, fær sá sem framkvæmir brotið þau skilaboð að hann geti haldið ótrauður áfram.
Til að tryggja öryggi barns þarf heilt samfélag sem tekur sameiginlega ábyrgð með áherslu á breytingar á viðhorfum, venjum og menningu!
Sigríður Björnsdóttir sálfræðingur, framkvæmdastjóri Blátt áfram
Gná Guðjónsdóttir Verkefnastjóri |
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að stjórnvöld leggi sig alla daga fram um að skapa skilyrði til þess að Ísland verði samkeppnishæft við önnur lönd, bæði fyrir gagnaver og almennt. Ísland hafi ekki komið til greina fyrir stórt gagnaver Apple að þessu sinni.
Apple tilkynnti í gærmorgun að fyrirtækið ætlaði að byggja stórt gagnaver í Viborg í Danmörku fyrir jafnvirði 120 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið hafði aflað sér upplýsinga um Ísland en aldrei farið í viðræður um að byggja hér gagnaver.
„Í þessu einstaka tilviki veit ég til þess að það voru samtöl milli Íslandsstofu, sem er í rauninni sá aðili sem tekur fyrst við áhugsömum erlendum fjárfestum, hvort sem það er í þessum geira eða öðrum, og þau samtöl leiddu í ljós að Ísland hafi ekki komið til greina að þessu sinni. Ekki þó vegna aðstæðna hér eða að við séum ekki samkeppnishæf heldur var það af öðrum ástæðum sem fyrirtækið sjálft verður að greina frá", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Fram kom í fréttum okkar í gær að forsætisráðherra og forseti Íslands hefðu ekki svarað bréfi Apple á Íslandi þar sem óskað var eftir aðstoð þeirra við að landa samningi um gagnaver hér á landi. Fram kemur í bréfi Epli.is til forsætisráðherra að fyrirtækið leitaði til ráðherra eftir aðstoð við að koma á fundi við ráðamenn Apple í Bandaríkjunum til að vekja áhuga þeirra á að reisa gagnaver á Íslandi.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir það mistök að bréfinu hafi ekki verið svarað og nú sé kannað hverju það sæti. Hann segir hins vegar að það hafi ekki tíðkast að forsætisráðherra ferðist sérstaklega á milli landa til að koma á fundum milli einstakra fyrirtækja.
Hver er skoðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra á aðkomu stjórnvalda eða einstakra ráðherra, eiga þeir að hafa milligöngu um slíka samninga og að þetta komist á koppinn?
„Við erum að leggja okkur fram alla daga hér að skapa skilyrði að hálfu stjórnvalda, skapa skilyrði til þess að Ísland verði samkeppnishæft við önnur lönd í þessum geira og almennt" sagði Ragnheiður Elín. |
Stærstu sveitarfélög landsins hafa ekki farið varhluta af uppsveiflu í efnahagslífinu á undanförnum árum. Hagstætt ytra umhverfi, sem hefur meðal annars einkennst af hækkandi fasteignaverði og gengisstyrkingu krónunnar samhliða uppgangi í ferðaþjónustu, hefur skilað sér í stórauknum tekjum og lækkandi skuldahlutfalli sveitarfélaganna. Þessi mynd gæti hins vegar nú verið að breytast með vaxandi vísbendingum um að hagkerfið sé tekið að kólna snögglega. Þá er hætt við því að mörg sveitarfélög verði í aðþrengdri stöðu til að standa undir tugmilljarða uppsafnaðri fjárfestingaþörf.
Í umræðu um opinber fjármál og hagstjórn fá málefni sveitarfélaganna, sem taka til sín um fimmtung af öllum tekjum hins opinbera, oft minna vægi en efni standa til. Í greiningu, sem Samtök atvinnulífsins (SA) kynntu í vikunni um fjárhagsstöðu tólf stærstu sveitarfélaganna, kemur fram að frá 2011 hafi tekjur A-hluta þeirra, sem eru einkum útsvar og fasteignaskattar, aukist um nærri 300 milljarða á föstu verðlagi. Þar af hafi 170 milljörðum, eða um 57 prósentum tekjuaukans, verið ráðstafað í launakostnað. Þá vekur það eftirtekt að þrátt fyrir þennan mikla tekjuvöxt, sem fyrirséð er að fari núna minnkandi, hafi aðeins tólf prósent aukinna tekna skilað sér í bætti afkomu sveitarfélaganna.
Það veldur vonbrigðum, ekki hvað síst í tilfelli stærsta sveitarfélagsins, að fordæmalaus uppgangur síðustu ára hafi ekki verið nýttur í meira mæli til að búa í haginn fyrir mögru árin þegar tekjustofnar munu skreppa saman. Reykjavíkurborg er með næstverstu fjárhagsstöðuna af tólf stærstu sveitarfélögunum, samkvæmt greiningu SA. Þar munar mestu um slæma skuldastöðu borgarinnar en sem hlutfall af tekjum eru skuldirnar 169 prósent – aðeins Reykjanesbær er með verra skuldahlutfall – og í krónum talið hafa þær aukist um 35 milljarða á síðustu fjórum árum. Skuldir á hvern íbúa eru rúmlega 2,4 milljónir. Með hliðsjón af lélegum rekstri Reykjavíkurborgar ætti ekki að koma á óvart að íbúarnir búa við hlutfallslega hæstu álögurnar en um 10,9 prósent af tekjum þeirra renna til sveitarfélagsins á meðan hlutfallið er 7,4 prósent hjá íbúum á Seltjarnarnesi.
Höfuðborgin sker sig einnig um margt úr þegar litið er til fjölgunar íbúa á kjörtímabilinu. Þannig hefur íbúum í Reykjavík aðeins fjölgað um tæplega 3,5 prósent á meðan landsmönnum hefur á sama tíma fjölgað um sex prósent. Lítil fólksfjölgun í Reykjavík er sumpart heimatilbúinn vandi. Sökum lóðaskorts og þunglamalegs skipulags hefur uppbygging nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu verið í lágmarki. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg. Fasteignaverð hefur hækkað verulega og umfram fjárhagsstöðu heimilanna. Þessi staða hefur þýtt að íbúum í stærstu nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur hefur fjölgað mun meira. Það stafar meðal annars af því að fasteignaverð þar hefur hækkað minna og uppbygging nýrra íbúða verið hraðari.
Fjármál Reykjavíkurborgar og húsnæðismál eru ein stærstu málefni kosninganna. Þar ber flest að sama brunni. Núverandi meirihluti ber ábyrgð á lausatökum í rekstri borgarinnar, sem hefur skilað sér í slæmri skuldastöðu og skattheimtu í hæstu hæðum, og miklum húsnæðisskorti. Kjósendur hljóta að taka mið af þeim staðreyndum í komandi kosningum. |
Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Alex Brynjari Sigmannssyni, Melgötu 4b, Grenivík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu á kr. 7.195.207.-, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af kr. 1.868.917.- frá 1. febrúar 2007 til 15. september 2007, en þá af kr. 8.233.702.- frá þeim degi til 13. desember 2008, en þá með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til 7. janúar 2009, en þá af kr. 7.195.207.- frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá GV Gröfum hf., þann 1. febrúar 2007. Atvik voru nánar þau að stefnandi var ásamt öðrum starfsmanni að festa DOKA plötur í hurðargat í nýbyggingu fyrirtækisins að Frostagötu 4 á Akureyri. Ástæða verksins var sú að festingabúnaður fyrir hurðina var ókominn og var því ekki hægt að koma hurðinni fyrir. Var hurðargatinu því lokað með þessum hætti. Þegar slysið varð voru stefnandi og samstarfsmaður hans að bera plötu á milli sín upp tvo álstiga sem var stillt upp sitt hvorum megin við opið. Hvor starfsmaður hélt um sinn enda plötunnar og saman fikruðu þeir sig upp stigana til að festa plötuna fyrir opið. Þegar stefnandi var í um það bil tveggja metra hæð fór stiginn sem hann var í að riða og kveðst hann þá hafa neyðst til að stökkva úr stiganum til að forða því að lenda á steypustyrktarjárnum sem voru fyrir neðan stigann. Stefnandi lenti á hægri fæti, sem snerist undir honum um ökkla.
Stefnandi var fluttur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA). Í læknisvottorði Sigursteins Þ. Ásvaldssonar læknis á bæklunarskurðdeild FSA kemur fram að við skoðun á slysadeild þann 1. febrúar 2007 hafi stefnandi verið talsvert bólginn á hægri fæti. Lögð var gipsspekla á ökkla. Daginn eftir fór stefnandi í röntgenmyndatöku sem sýndi brot í völubeini og tölvusneiðmyndarannsókn staðfesti það. Ákveðið var að stefnandi færi í gips og ástig ekki leyft. Í framhaldi var stefnandi hafður undir eftirliti á göngudeild. Gipsmeðferð var lokið 26. mars 2007 en þá var mikill stirðleiki í fætinum. Stefnandi fór í sjúkraþjálfun og kláraði hana í byrjun sumars 2007. Hann leitaði á slysadeild FSA þann 30. ágúst 2007 vegna verkja og óþæginda. Hann var með verki, bólgu og óstöðugleika í hægri fæti og honum hafði verið ómögulegt að hefja störf á ný. Stefnandi fór í röntgenmyndatöku sem sýndi gróið brot. Stefnandi fór að nýju í sjúkraþjálfun og fékk bólgueyðandi lyf. Þann 27. september 2007 fór stefnandi í segulómskoðun sem sýndi að brotið var að mestu gróið í ágætri stöðu. Það var væg óregla í liðfleti við bátsbeinið og einnig óregla á neðri borði völubeinsins og ennþá bjúgmyndun í beininu. Stefnandi fór aftur í segulómskoðun sem sýndi versnandi ástand með skemmdum í ökklaliðnum og einnig í lið milli völubeins og hælbeins. Stefnandi hefur stöðugan seyðing og verki í hægri fæti. Hann er ætíð haltur og getur gengið að hámarki í hálfa klukkustund en hann getur ekki hlaupið. Einnig á stefnandi mjög erfitt með að ganga á ósléttu og það er nánast útilokað fyrir hann. Þá bólgnar hann stundum á háristinni. Stefnandi stundaði fótbolta og körfubolta fyrir slysið en hann hefur ekki getað stundað þessar íþróttir eftir slysið. Það sama á við um notkun bifhjóls og ástundun hestamennsku og sveitamennsku en tengdafaðir stefnanda er fjárbóndi. Stefnandi hefur tök á að sinna flestum heimilisstörfum en forðast að bogra.
Vegna ofangreinds slyss var farið þess á leit við Hafþór Marteinsson lækni og Brynjólf B. Ulfsson hrl. að þeir legðu mat á afleiðingar þess á heilsu stefnanda með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Matsgerðin er dags. 7. nóvember 2008. Í henni kemur fram að stefnandi hafi veruleg einkenni frá hægri fæti. Hann hafi einkenni um þróun slitbreytinga í liði milli völubeins og bátsbeins í ristinni og einnig í liði milli völubeins og hælbeins. Jafnframt kemur fram að það sé mjög líklegt að síðar þurfi að gera aðgerð þar sem þurfi að stífa lið milli völubeins og hælbeins fari svo að einkenni versni, en það sé fremur líklegt. Einnig sé ekki útilokað að stífa þurfi lið milli völubeins og bátsbeins í ristinni. Niðurstaða matsins var m.a. sú að stefnandi hafi í vinnuslysinu þann 1. febrúar 2007 hlotið 15 stiga varanlegan miska og 15% varanlega örorku.
Með bréfi, dags. 20. júní 2008, hafnaði stefndi bótaskyldu í málinu.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta vegna slyssins með vísan til 44. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að rekja megi slysið til saknæmrar háttsemi stefnda og starfsmanna félagsins. Stefnandi hafi unnið verkið nákvæmlega eins og honum var upp á lagt. Stefnandi telur hins vegar að starfsaðstæður hafi verið alls ófullnægjandi og ekki í samræmi við reglur. Hann vísar um þetta fyrst og fremst til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 með síðari breytingum, og reglna sem á þeim lögum byggja.
Á því sé byggt að aðstæður á vinnustað hafi verið með öllu óforsvaranlegar og jafnframt að skortur hafi verið á verkstjórn og leiðbeiningum til handa stefnanda.
Stiginn sem notaður var við verkið hafi verið alls ófullnægjandi en honum var komið fyrir á moldar- eða malargólfi enda átti eftir að steypa í gólf fasteignarinnar þar sem slysið átti sér stað. Hafi hann þegar af þeirri ástæðu verið óstöðugur enda hentaði hann alls ekki til verksins, þ.m.t. fætur stigans. Þá sé á því byggt að nauðsynlegt hafi verið að hafa palla eða aðrar tryggar undirstöður til að standa á. Jafnframt telur stefnandi að nauðsynlegt hefði verið að hafa fullnægjandi fallvarnir enda opið sem loka átti í nokkurra metra hæð.
Þá sé á því byggt að gálaust verði talið að fela starfsmönnum að annast framkvæmd verksins úr tveimur lausum stigum enda megi ljóst vera að ekki sé unnt að halda sér í stigann um leið og haldið sé á stórri plötu, gengið sé upp stigann og/eða reynt að koma henni fyrir. Þannig hafi lítið þurft út af að bera til þess að stefnandi eða samstarfsmaður hans féllu niður, annar eða báðir, enda hefði ójafnvægi annars leitt til þess að hinn starfsmaðurinn hefði verið í verulegri hættu með hendur á plötunni og standandi í lausum stiga.
Enn fremur sé á því byggt að rekja megi slysið til mistaka samstarfsmanns stefnanda sem hafi sleppt plötunni eða misst hana og við það hafi stigi sem stefnandi stóð í fallið. Félagið beri skaðabótaábyrgð á mistökum starfsmanna sinna leiði þau til tjóns, eins og raunin varð í tilviki stefnanda, samkvæmt reglum íslensks réttar um vinnuveitendaábyrgð.
Rétt þyki að árétta að stefnandi hafi verið ráðinn hjá félaginu við lagnavinnu. Sé hann alls ómenntaður til vinnu við húsasmíði og með mjög takmarkaða reynslu til slíkra starfa. Þegar af þeirri ástæðu hafi verið sérstök ástæða til leiðbeininga og fullnægjandi verkstjórnar.
Á því sé byggt að GV Gröfur ehf. beri skaðabótaábyrgð vegna þessarar vanrækslu, þ.á m. vegna mistaka starfsmanna, ófullnægjandi vinnuaðstæðna og skorts á eftirliti, verkstjórn og leiðbeiningum, samkvæmt reglum skaðabótaréttarins þ.á m reglum um vinnuveitendaábyrgð.
Þá beri sérstaklega að líta til þess að vinnuveitandi hans hafi hvorki tilkynnt slysið til lögreglu né Vinnueftirlits ríkisins, þrátt fyrir að fyrirtækinu sé það skylt að lögum. Slysið hafi fyrst verið tilkynnt, ári eftir að það átti sér stað, af stefnanda sjálfum þegar honum var ljóst að félagið hafði vanrækt skyldu sína, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Sinnuleysi vinnuveitanda stefnanda gagnvart tilkynningaskyldu sinni hafi komið í veg fyrir að Vinnueftirlit ríkisins eða lögregla kannaði tildrög og orsakir slyssins en það hafi verið með öllu ómögulegt þegar tilkynningin barst löngu síðar. Fyrir liggi að reglur um tilkynningu hafi verið þverbrotnar en í samræmi við dómafordæmi beri stefndi halla af skorti á sönnun um málsatvik sem telja verði að leiða hefði mátt í ljós við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu. Í þessu sambandi beri til þess að líta að Vinnueftirlit ríkisins sé ætlað að rannsaka orsakir slyss, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum. Þar sem engin tilkynning hafi borist stofnuninni, þrátt fyrir lagaskyldu, hafi engin slík rannsókn farið fram.
Slys það sem stefnandi varð fyrir hafi haft áhrif á heilsu hans, eins og að ofan greinir. Áverkar þessir hafi haft víðtæk áhrif á líkamlegt ástand hans og getu til að starfa og sinna áhugamálum sínum.
Þar sem vinnuveitandi stefnanda, GV Gröfur hf., hafði á slysdeginum gilda ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., hafi kröfubréf verið sent félaginu sem byggir á niðurstöðu ofangreindrar matsgerðar. Þar sem stefndi hafi hafnað greiðslu bóta úr umræddri tryggingu, vegna afleiðinga slyssins, sé málshöfðun þessi nauðsynleg. Aðild stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., ráðist af 44. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.
Dómkrafa stefnanda sundurliðast þannig:
1. Bætur skv. 2. gr. skbl. kr. 430.717.-
2. Bætur skv. 3. gr. skbl. kr. 299.250.-
225 x 1.330
3. Bætur skv. 4. gr. skbl. kr. 1.138.950.-
15% af 7.593.000.-
4. Bætur skv. 5.-7. gr. skbl. kr. 6.364.785.-
2.607.060 (217.255 x 12) x 1,07 = 2.789.554
2.789.554 x 15,211 x 15%
5. Til frádráttar koma bætur greiddar stefnanda 7.1.2009 úr
slysatryggingu launþega.................................. kr. 1.038.495.-
Samtals kr. 7.195.207.-
Kröfugerð stefnanda miðist við matsgerð Þorbjörns Hjallkárssonar læknis og Sigfúsar B. Narfasonar hrl. um afleiðingar slyssins, sem taki mið af skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdeginum.
Krafist sé bóta vegna tímabundins atvinnutjóns á grundvelli 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í matsgerð komi fram að tímabil óvinnufærni nemi 212 dögum, þ.e. frá 1. febrúar 2007 til 15. september 2007, og miðist kröfugerð stefnanda við það. Við útreikning kröfu vegna tímabundins atvinnutjóns beri til þess að líta að stefnandi hóf vinnu hjá fyrirtækinu nokkrum vikum fyrir slysið. Í janúar 2007 fékk stefnandi greiddar samtals kr. 88.588 í laun fyrir 88 klukkustunda vinnu og 25 tíma yfirvinnu. Að teknu tilliti til fullrar vinnuviku (160 klst.) séu laun hans kr. 850 x 160 = 136.000. Meðaltal yfirvinnu nemi u.þ.b. 2 tímum á dag = 40 tímar á mánuði x 1.530 = 61.200. Samtals mánaðarlaun hans námu því kr. 197.200 að viðbættu orlofi 10,17 eða kr. 217.255 sem sé grundvöllur kröfu stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns. Samkvæmt fyrirliggjandi mati hafi stefnandi verið óvinnufær frá 1. febrúar til 15. september 2007 eða í 7 ½ mánuð. Tekjur hans samkvæmt framangreindu hefðu verið kr. 1.629.412 á þessu tímabili ef ekki hefði komið til slyssins. Stefnandi hafi á sama tíma fengið greiddar kr. 1.198.695 frá vinnuveitanda sínum og þriðja aðila sem komi til frádráttar. Óbætt tjón stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns nemi samkvæmt framangreindu kr. 430.717.
Krafa stefnanda um þjáningabætur sé byggð á 3. gr. skbl. Þjáningabætur honum til handa séu reiknaðar með hliðsjón af áðurgreindu mati Páls B. Hálfdanarsonar hrl. og Breka Steinbjarnarsonar læknis. Samkvæmt því reiknist þjáningabætur 212 daga. Fyrir hvern dag sem stefnandi hafi verið veikur í skilningi ákvæðisins án rúmlegu reiknist kr. 1.330,- eftir að fjárhæðir í 3. gr. skbl. hafi verið uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í nóvember 2008, sbr. 15. gr. laganna.
Krafa stefnanda um miskabætur byggir á 4. gr. skaðabótalaganna og áðurgreindu mati um 15% varanlegan miska. Fjárhæð bótanna tekur mið af grunfjárhæðinni kr. 4.000.000,- uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í nóvember 2008, sbr. 15. gr. skbl.
Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku taki einnig mið af framangreindri matsgerð og 5. – 7. gr. skbl. Matsmenn hafi litið til þess að ekkert bendi til annars en að stefnandi hefði haft fulla atvinnuþátttöku út starfsævina og að líklegt sé að hann hefði starfað áfram við ýmis verkamannastörf líkt og hann hafði gert í mörg ár áður en hann lenti í slysinu. Matsmenn telja ljóst að afleiðingar slyssins hafi haft áhrif á starfsgetu stefnanda og þrengi starfsval hans. Telja þeir líklegt að stefnandi muni í framtíðinni starfa við almenn störf sem krefjist ekki menntunar en telja þó að afleiðingar slyssins skerði álagsgetu og úthaldsþol hans til líkamlega krefjandi starfa. Telja þeir varanlega örorku hæfilega metna 15% og miðist kröfugerð stefnanda við þá niðurstöðu.
Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé ekki mögulegt að taka mið af tekjum stefnanda þremur árum fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skbl. enda hafi orðið breytingar á starfshögum hans skömmu fyrir slysið þegar hann flutti úr fámennri byggð, þar sem atvinnuástandið var slæmt, og til Akureyrar. Verði því að meta árslaun hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skbl. Við útreikning launa þykir nærtækast að notast við sama útreikning og hér að framan vegna tímabundins atvinnutjóns þannig að notast sé við tímagjald og það fært upp í fulla vinnuviku og tekið tillit til meðaltals yfirvinnu. Að teknu tilliti til framangreinds séu mánaðarlaun kr. 217.255.- eða kr. 2.607.060,- í árslaun. Við þá fjárhæð bætist 7% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð, samtals kr. 2.789.554.
Framangreind tekjuviðmiðun fái enn fremur stoð í meðaltekjum verkamanna en á því sé byggt að sú tekjuviðmiðun verði höfð til hliðsjónar vegna starfa stefnanda á slysdeginum og fyrir slysið. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru meðaltekjur verkamanna árið 2006 kr. 193.000 á mánuði eða 2.316.000 krónur á ári. Að teknu tilliti til breytinga á launavísitölu á miðju ári 2006 (295,4 stig) fram til stöðugleikatímamarks þann 15. september 2007 (323,1 stig) voru árslaun kr. 2.533.174 (2.316.000 /295,4 x 323.1) að viðbættu 7% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð eða samtals kr. 2.710.496. Gefi þessi tekjuviðmiðun nánast sömu niðurstöðu og fyrrnefnda tekjuviðmiðunin sem byggir á rauntekjum stefnanda.
Í kröfugerð hafi verið tekið tillit til greiðslu stefnda til handa stefnanda þann 7. janúar 2009 að fjárhæð kr. 1.038.495 úr slysatryggingu launþega.
Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 16. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því að mánuður var liðinn frá því að krafan var fyrst sett fram með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda dags. 13. nóvember 2008.
Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. reglur um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar stefnandi, kröfum sínum til stuðnings, til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 og reglna sem á þeim lögum byggja.
Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skbl. nr. 50/1993 og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefnandi byggi bótakröfu sína gagnvart stefnda á saknæmri háttsemi starfsmanna stefnda og að því er virðist á eftirtöldum atriðum: Að rangur búnaður hafi verið notaður við verkið og öryggi ekki tryggt, stefndi hafi látið viðgangast að röng tæki væru notuð og að stefndi hafi vanrækt leiðbeiningar- og eftirlitsskyldu sína.
Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir í málinu sem styðji fullyrðingar stefnanda um ábyrgð stefnda á óhappi því sem málið sé sprottið af. Um skaðabótaábyrgð á slysinu fari eftir sakarreglunni og hvíli sönnunarbyrðin óskipt á stefnanda um meinta sök stefnda og orsakatengsl. Sé ósannað að stefndi, eða starfsmaður á hans vegum, eigi nokkra sök á slysi stefnanda, sem alfarið megi rekja til gáleysis hans sjálfs eða óhappatilviljunar.
Engin sérstök hætta hafi fylgt starfanum sem sé einfalt og endurtekið reglulega á vinnustaðnum, m.a. af stefnanda. Framkvæmdin hafi verið eins um nokkurt skeið og ekki hlotist slys af áður eða menn talið sig í sérstakri hættu við starfann. Í svari forsvarsmanns GV Grafna ehf. til stefnda 17. apríl 2008 komi jafnframt fram að ekkert hafi verið athugunarvert við verkstjórn eða aðbúnað við verkið. Starf stefnanda umrætt sinn hafi verið einfalt og falist í því að aðstoða annan mann við að koma plötum fyrir í hurðargati. Slík störf séu í engu hættulegri eða erfiðari en gengur og gerist með almenn störf sem jafnaldrar stefnanda hafi stundað til sjós og lands í gegnum tíðina.
Í öðru lagi sé því mótmælt að rangur búnaður hafi verið notaður við verkið, enda í engu rökstutt í hverju slíkt brot hafi falist, t.d. brot á lögum eða reglugerðum, í stefnu.
Í þriðja lagi vísar stefndi til þess að enginn sönnun eða vísbending sé komin fram um það að samstarfsmaður stefnanda hafi misst umrædda plötu eða á nokkurn hátt átt þátt í því að stefnandi féll/datt/stökk úr stiganum. Stiginn hafi ekki fallið eða runnið, eins og haldið sé fram í stefnu.
Í fjórða lagi sé því mótmælt að starfssvið stefnanda hafi ekki verið almenn verkamannastörf, heldur sérhæfð lagnavinna, eins og segir í stefnu. Til þess hafði stefnandi hvort sem er enga menntun eða áþreifanlega reynslu.
Í fimmta lagi sé því hafnað að starfsmenn eða verkstjóri stefnda hafi ekki sinnt leiðbeiningar- eða eftirlitsskyldu sinni við verkið. Ekkert sé athugavert við verklagið eitt og sér og því hafnað að stefndi hafi brotið nokkur lög eða verklagsreglur við framkvæmd starfans. Liggi ákvörðunartaka um framkvæmd þessa verks hjá þeim starfsmanni sem hafi farið upp í stigann (þ.á m. stefnanda), enda ekki um að ræða flókið verk. Komi þannig hvorki ungur aldur eða meint reynsluleysi stefnanda í veg fyrir almenna og eðlilega aðgæslu við verkið. Ekkert liggi fyrir í málinu um að annað starfsfólk eða verkstjóri hefði getað gripið til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir óhappið og verði að árétta að stefnandi hafi átt að gera sér fullkomna grein fyrir hvort og þá hvernig sú hætta skapaðist sem lýst sé í stefnu, hafi hún verið til staðar.
Sé óhappið því alfarið að kenna skorti á aðgæslu af hálfu stefnanda og/eða óhappatilviljun. Leggja verði áherslu á að ekki sé hægt að leggja lýsingar stefnanda sjálfs til grundvallar, án þess að hafa í huga að stefnandi hafi persónulega mikla hagsmuni af því að óhappið verði rakið til sakar annars manns en hans sjálfs.
Verði ekki á sýknukröfu fallist sé varakrafa stefnda byggð á því að dómkröfur beri að lækka og skipta beri sök í málinu og leggja meginhluta sakar á slysinu á stefnanda sjálfan. Um eigin sök stefnanda vísist til þess, sem reifað sé um það atriði hér að framan og þess að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að fara upp í stigann og ekki gætt betur að sér uppi í stiganum en svo, að missa þar jafnvægið og detta niður á gólf. Geti því aldrei komið til þess að stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda, nema að litlum hluta, hvað sem öðru líði.
Telji dómurinn að leggja eigi til grundvallar að stefndi beri að einhverju leyti ábyrgð á óhappi stefnanda, vill stefndi taka eftirfarandi fram um fjárhæð stefnukröfu.
Á það sé bent að lækka beri stefnukröfur verulega þar sem útreikningar í stefnu byggi á röngum forsendum.
Stefnandi gerir kröfu um greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar í málinu og 3., 4. og 5. - 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Stefndi gerir ekki athugasemdir við útreikning þjáningarbóta eða miskabóta. Stefndi áskilur sér þó að lækka miskabótakröfu, leiði ný gögn í ljós að miski sé ofmetinn.
Stefndi hafnar hins vegar alfarið útreikningi stefnanda á varanlegri örorku í aðalkröfu. Í stefnu komi fram að krafan sé miðuð við hlutatekjur stefnanda í janúar 2007 og síðan sé beitt sérdeilis furðulegri aðferðafræði við að reikna út mánaðarlaun stefnanda ásamt áætlaðri yfirvinnu og sú fjárhæð margfölduð með 12 til þess að finna árslaunaviðmiðið.
Meginregla 5. - 7. gr. skaðabótalaga mælir fyrir um að meta skuli hlutlægt stöðu tjónþola á þeim degi sem tjónsatvik á sér stað og sé meginreglan í 1. mgr. 7. gr. skbl. miðuð við tekjur tjónþola 3 ár fyrir atvikið.
Furðuleg sé sú túlkun stefnanda að hægt sé að velja hluta úr einum mánuði og halda því fram að sá hluti eigi að vera viðmið um fjárhagslega örorku stefnanda til frambúðar. Fyrir því sé engin lagastoð og hafnar stefndi túlkun stefnanda á umræddum lagagreinum. Undantekningu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að skýra þröngt og sé við það miðað að staða tjónþola á tjónsdegi sé óvenjuleg eða breytingar hafi orðið á högum tjónþola. Þannig metið hafi á engan hátt verið sýnt fram á það að staða stefnanda hafi á tjónsdegi verið óvenjuleg eða tekjur hans þannig að óréttmætt væri að miða við tekjusögu hans. Ef túlkun stefnanda væri lögð til grundvallar, mætti ætla að nær allir sem starfa sem ófaglærðir myndu hafa eða teljast hafa óvenjulegar tekjur.
Samkvæmt skattframtölum stefnanda fyrir árin 2004-06, sem séu viðmiðunarár tekjusögu hans, hafði stefnandi alls í tekjur þessi ár kr. 2.647.728 (920.172+564.830+1.403.310), eða 882.576 kr. á ári. Sé bætt við 7% í lífeyrissjóð verða árslaunin kr. 944.356. Örorka stefnanda verði því alls kr. 2.154.69 (944.356*15.211*0,15). Verði því að lækka kröfu stefnanda í samræmi við það.
Þá hafnar stefndi einnig því að vangreiddar séu bætur til stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns. Af skattframtali stefnanda sjáist greinilega að stefnandi hafi fengið greiddar alls kr. 618.740 frá vinnuveitanda og auk þess kr. 1.038.495 frá stefnda, alls kr. 1.657.235, sem sé hærra en stefnukrafa málsins.
Auk þess hafi stefnandi fengið samanlagt kr. 504.606 frá Tryggingastofnun (væntanlega dagpeningar) og Einingu-Iðju í sjúkradagpeninga.
Stefndi vísar einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi, sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola.
Kröfu um dráttarvexti sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, enda liggi ekki fyrir um endanlegt tjón stefnanda fyrr en að dómi gengnum.
Krafa stefnda um málskostnað sé reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr., báðar greinar í lögum nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málskostnað sé vísað til laga nr. 50/1988.
Niðurstaða
Stefnandi hafði verið starfsmaður hjá fyrirtækinu GV Gröfum ehf. í skamman tíma þegar slysið varð. Hafði hann einu sinni áður unnið við að loka hurðargatinu í nýbyggingu fyrirtækisins með DOKA plötum ásamt öðrum starfsmanni. Plötur þessar eru um það bil 4 metra langar, 50 cm breiðar og 16 – 20 mm á þykkt. Samkvæmt gögnum máls var verkið framkvæmt þannig að plötunum var raðað hverri ofan á aðra neðan frá eins hátt upp og hægt var frá gólfi og þær festar með skrúfum. Til að koma efstu plötunum fyrir þurfti að nota stiga. Notaðir voru tveir lausir álstigar sem var stillt upp við vegginn sitt hvorum megin við opið. Hvor starfsmaður hélt um sinn enda plötunnar með báðum höndum og saman fikruðu þeir sig upp stigana til að koma plötunni fyrir. Stefnandi lýsti tildrögum slyssins þannig fyrir dómi að þeir hafi fikrað sig upp stigana, með plötuna á milli sín, samstíga þrep eftir þrep. Í um það bil tveggja metra hæð hafi komið slinkur á plötuna og stiginn byrjað að riða og kvaðst stefnandi hafa verið við það að detta og því stokkið úr stiganum. Stefnandi kom illa niður á hægri fæti og hlaut brot í ökkla, eins og gerð er grein fyrir í framlögðum læknisvottorðum.
Slysið var ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins í samræmi við ákvæði 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og fór því ekki fram rannsókn af hálfu þess um orsakir slyssins, sbr. 81. gr. sömu laga.
Fyrir liggur að undirstaðan sem stigarnir stóðu á var malar- eða moldargólf og heldur stefnandi því fram að þegar stiginn fór að riða hafi hann stungist niður öðrum megin og staðið á öðrum fæti þegar stefnandi hoppaði úr honum. Eins og aðstæður voru og framkvæmd verksins var háttað, samkvæmt gögnum máls, þegar stefnandi slasaðist, verður að telja að vinnu hafi ekki verið hagað þannig að fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar hafi verið gætt, sbr. ákvæði 13. og 37. gr. laga nr. 46/1980. Allan vafa í þessu efni ber að túlka vinnuveitanda stefnanda í óhag, sem vanrækti að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slysið, eins og fyrr greinir. Verður því fallist á að GV Gröfur ehf. beri sem vinnuveitandi skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins. Telja verður að orsakir slyssins sé fyrst og fremst að rekja til aðbúnaðar á vinnustað við framkvæmd verksins, sem vinnuveitandi stefnanda bar ábyrgð á. Ósannað er að stefnandi, sem vann verkið samkvæmt fyrirmælum, hafi sýnt af sér óaðgætni, sem leiða eigi til sakarskiptingar. Telst vinnuveitandi stefnanda, GV Gröfur ehf., því bera óskipta bótaábyrgð vegna slyss stefnanda.
Fyrir liggur að vinnuveitandi stefnanda, GV Gröfur ehf., hafði á slysdegi gilda ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Málshöfðun er því réttilega beint að stefnda með vísan til 44. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.
Kröfugerð stefnanda tekur mið af matsgerð Arnþórs Víðissonar læknis og Sveinbjörns B. Dickasonar hrl., dags. 7. nóvember 2008, um afleiðingar slyssins á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt því mati hlaut stefnandi 15% varanlegan miska og 15% varanlega örorku. Stefndi gerir ekki athugasemdir við útreikning þjáningarbóta samkvæmt kröfulið 2 að fjárhæð kr. 299.250 og útreikning miskabóta samkvæmt kröfulið 3 að fjárhæð kr. 1.138.950. Stefndi telur hins vegar að við útreikning á varanlegri örorku stefnanda skuli taka mið af meðalvinnutekjum stefnanda næstu þrjú árin fyrir slysið samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga en árslaunin skuli ekki meta á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og stefnandi gerir. Fallist er á með stefnanda að tekjur hans síðustu þrjú árin fyrir slysið geti ekki talist rétt viðmiðun við ákvörðun bóta honum til handa vegna varanlegrar örorku, eins og högum hans var þá háttað. Ber því að meta honum árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ekki verður þó fallist á þann útreikning sem stefnandi beitir í kröfugerð sinni, en rétt þykir að taka mið af meðaltekjum verkamanna í samræmi við þann útreikning sem fram kemur í stefnu og ekki hefur sætt tölulegum andmælum. Samkvæmt því er miðað við árslaun kr. 2.710.496 og verða bætur vegna varanlegrar örorku því kr. 6.184.403 ( 2.710.496 x 15.211 x 0.15). Stefndi hefur mótmælt kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, þar sem hann hafi fengið greiðslur sem nemi hærri fjárhæð en því tjóni nemur. Stefnandi telur að tekjur hans fyrir tímabilið, sem hann var óvinnufær vegna slyssins, frá 1. febrúar 2007 til 15. september 2007, hefðu numið kr. 1.629.412. Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að stefnandi fékk á sama tíma greiðslur frá vinnuveitanda og öðrum að fjárhæð kr. 1.198.695, sem koma skulu til frádráttar skaðabótum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Verður því einnig fallist á kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt kröfulið 1 að fjárhæð kr. 430.717.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda í bætur kr. 8.053.320 (299.250 + 1.138.950 + 6.184.403 + 430.717) en til frádráttar koma bætur sem greiddar voru stefnanda úr slysatryggingu launþega 7. janúar 2009 að fjárhæð kr. 1.038.495, eins og fram kemur í sundurliðun kröfugerðar. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda kr. 7.014.825 með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað sem ákveðst kr. 535.350 og rennur í ríkissjóð. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Þórólfs Fannar Edwinssonar hrl., 535.350 kr. með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Símon Pólistatorsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Hrönn Bergi Márusarsyni, kr. 7.014.825.-, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af kr. 1.868.917.- frá 1. febrúar 2007 til 15. september 2007, en þá af kr. 8.053.320.- frá þeim degi til 13. desember 2008, en þá með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til 7. janúar 2009, en þá af kr. 7.014.825.- frá þeim degi til greiðsludags og kr. 535.350 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Jans Hrafns Krákssonar hrl., 535.350 kr. með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Arngrímur Jóramsson |
Airbnb byrjar sem góð hugmynd en endar sem plága. Svona þróast hlutirnir stundum.
Íbúðaleiga af þessu tagi er upprunalega svar við því hversu hótelgisting er orðin dýr – önnur ástæða fyrir henni er sívaxandi ferðamannastraumur. Hann er ekki bara á Íslandi, ónei, heldur nánast alls staðar þar sem ríkir sæmilegur friður.
Og ástæða þessa er síaukið framboð á ódýrum flugferðum. Það ekki eins dýrt að ferðast og áður, en það er óþægilegra. Alls staðar eru ferðamenn að troðast og ferðamenn að bölva öðrum ferðamönnum vegna troðningsins.
Airbnb er ein lausnin á þessu. En svo fer það alveg út í öfgar. Miðbæir eru undirlagðir af leiguíbúðum fyrir ferðamenn. Leiguverð rýkur upp. Venjulegt fólk þarf að fara annað. Þetta hefur vond áhrif á mannlífið. Staðir sem áður höfðu sinn lókal sjarma verða túristabæli.
Í raun eru hótel miklu betri kostur. Þau eru á afmörkuðum stöðum og yfirvöld skipulagsmála eiga að nokkru leyti að geta ráðið hvar þau rísa. En verðið á hótelgistingu er fjarska hátt, eins og áður segir, og hefur hækkað gríðarlega síðustu áratugi. Einhvern tíma sá ég núvirt verð á hótelherberginu sem Churchill leigði á Claridges í London. Það var þá um það bil dýrasta hótelgisting í Bretlandi. Nú myndi verðið sem Churchill greiddi þykja frekar lágt, en það var auðvitað fyrir tíma túristafársins. |
Þeir Boris Johnson og Jeremy Corbyn skiptust á skotum í síðustu kappræðum sínum fyrir bresku þingkosningarnar í næstu viku. Johnson gagnrýndi andstæðing sinn ítrekað fyrir að gefa ekki upp afstöðu sína um Brexit, en Corbyn sagði forsætisráðherrann vera á leið úr Evrópusambandinu án áætlunar um framhaldið.
Forsætisráðherrann og leiðtogi Íhaldsflokksins, Johnson, sagði flokk sinn með frábæra áætlun um að keyra Brexit í gegn. Þar átti hann við samning sem hann gerði við leiðtoga Evrópusambandsins í október, sem var svo felldur af breska þinginu. Johnson spurði Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, hvernig hann ætli sér eiginlega að ná betri samningi um Brexit ef hann hafi ekki einu sinni sjálfur trú á útgöngunni. Corbyn hefur sagst ætla að vera hlutlaus í nýjum kosningum um Brexit, sem hann vill halda innan hálfs árs verði hann forsætisráðherra.
Íhaldsflokkurinn hefur enn dágott forskot á Verkamannaflokkinn í könnunum. Corbyn þurfti því á góðri frammistöðu að halda í kvöld, en samkvæmt könnun sem gerð var af YouGov á meðan kappræðunum stóð var nokkuð jafnræði með leiðtogunum. Fleiri kváðust treysta Corbyn en Johnson, og sögðu hann í betri tengslum við almenning. Johnson mældist hins vegar viðkunnalegri og vera líklegri til að taka sig betur út sem forsætisráðherra.
Kosningarnar á fimmtudag verða þær þriðju á innan við fimm árum. Johnson boðaði til þeirra eftir að hafa mistekist að koma útgöngusamningi sínum í gegnum þingið.
Tveir fyrrverandi leiðtogar létu til sín taka í gær, þeir Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, og John Major, sem var forsætisráðherra á undan Blair og leiðtogi Íhaldsflokksins. Þeir töluðu báðir fyrir því að Bretar láti atkvæði sín falla á þann veg að hægt verði að boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Báðir vilja þeir Bretland áfram innan Evrópusambandsins. |
Við Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, áttum ágætt spjall um innflutning á ferskum búvörum í Víglínunni á Stöð 2 á dögunum. Sindri ræddi þar líka um innflutning á matvörum almennt, í samhengi við loftslagsmál. „Hollur er heimafenginn baggi. Við verðum bara að hugsa þetta upp á nýtt og reyna að framleiða sem allra mest af mat á Íslandi … Af hverju ættum við ekki að nýta okkur það þegar við getum framleitt mest af þessu sjálf hérna heima næst markaðinum?“ spurði formaður Bændasamtakanna.
Það er rétt hjá Sindra að eitt af því sem við sem neytendur þurfum að hafa í huga þegar við ákveðum hvaða vörur við kaupum, er hvert kolefnisspor þeirra sé. Þáttur í því er hvað varan er flutt um langan veg – en það segir þó alls ekki alla söguna. Tökum tvö dæmi.
Er það heimafengna augljóslega loftslagsvænt?
Annað er framleiðsla íslenzks lambakjöts, sem er vissulega heimafengið og oftast frábær vara, en hefur umtalsverð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, eins og lesa má í skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands frá árinu 2016. Það er erfitt að setja nákvæma tölu á það, en þó auðvelt að lesa út úr skýrslunni að rýrnun landgæða vegna beitarálags losar bæði gífurlegt magn af gróðurhúsalofttegundum og skerðir getu landsins til að taka upp koltvísýring úr andrúmsloftinu. Þetta hlýtur að þurfa að taka með í reikninginn þegar fólk myndar sér skoðun á kolefnissporinu.
Hitt dæmið er af kjúklingakjöti. Blasir ekki við að kolefnisspor innlends kjúklingakjöts sé minna en innflutts? Ekki endilega. Íslenzkir kjúklingabændur ala fuglana nánast eingöngu á innfluttu fóðri, en kjúklingabændur í nágrannalöndunum þurfa iðulega ekki að sækja fóður um langan veg. Til að framleiða kíló af innlendu kjúklingakjöti þarf um tvö kíló af innfluttu fóðri. Með öðrum orðum þarf tvöfalt meiri flutninga til landsins til að framleiða kjúkling innanlands en ef keypt er kjúklingakjöt frá öðrum löndum.
Þessi dæmi eru ekki sett fram til að varpa neinni rýrð á ofangreindar búvörur eða framleiðendur þeirra, eingöngu til að sýna fram á að framleiðsluferlar í matvælaiðnaði geta verið flóknir, aðföngin komið víða að og áhrifin á losun gróðurhúsalofttegunda eru margvísleg. Það dugir neytandanum ekki að líta bara á upprunaland vörunnar til að mynda sér skoðun um kolefnissporið. Og að framleiða matinn á Íslandi stuðlar ekkert endilega að lausn loftslagsvandans.
Góð hugmynd fyrir matvælaútflutningslandið Ísland?
Við getum svo velt því fyrir okkur hvað það myndi þýða fyrir afkomu þjóðarbúsins ef sú hugsun yrði almennt ofan á um allan heim að borða sem allra mest af heimafengnum mat og flytja sem minnst inn, í þágu loftslagsmarkmiða.
Ísland er matarútflutningsland. Árið 2016 fluttu Íslendingar út mat fyrir um 248 milljarða króna. Þar af voru sjávarafurðir fyrir 231 milljarð og búvörur fyrir 17 milljarða. Þetta voru um 46% af heildarvöruútflutningi landsins það árið. Innflutningur á mat- og drykkjarvörum nam hins vegar 57,4 milljörðum króna. Ef öll ríki kæmust að þeirri niðurstöðu að þau ættu að framleiða matinn heima hjá sér og ekki kaupa hann frá útlöndum yrði íslenzka hagkerfið fyrir gífurlegu höggi. Og svo mikið er víst að við myndum aldrei torga sjálf öllum fiskinum sem við veiðum; til þess hefði hver íbúi á Íslandi þurft að borða 1,8 tonn af sjávarafurðum árið 2016.
Við lifum á milliríkjaviðskiptum með mat
Íslenzka hagkerfið er lítið og fremur einhæft. Lega landsins gerir líka að verkum að við getum ekki framleitt mikið af mat og drykk sem okkur finnst sjálfsagður hluti af fæðuframboðinu, til dæmis nánast allt kornmeti, flesta ávexti, mikið af grænmeti, allt léttvín og þar fram eftir götunum. Ísland hefur öldum saman verið háð utanríkisviðskiptum með þessar vörur og verður það áfram.
Það sama á raunar í vaxandi mæli við um vörur sem hægt er að framleiða á Íslandi; við flytjum þær ekki bara inn til að fá meiri fjölbreytni í kæliborð búðanna heldur einfaldlega af því að innanlandsframleiðsla annar ekki eftirspurn. Þannig var um fjórðungur af innanlandsneyzlu á svína- og nautakjöti fluttur inn í fyrra. Sama má segja um ýmsar grænmetistegundir sem eru ræktaðar á Íslandi.
Það er góð hugmynd – og í raun bráðnauðsynlegt – að neytendur velti í auknum mæli fyrir sér kolefnisspori vörunnar, sem þeir kaupa. En í fyrsta lagi segir það ekki alla sögu um kolefnissporið, um hversu langan veg sjálf varan hefur verið flutt, heldur þarf líka að skoða uppruna aðfanganna sem þurfti til að framleiða hana. Í öðru lagi verða það áfram brýnir lífshagsmunir Íslendinga að milliríkjaviðskipti með mat séu sem frjálsust og auðveldust; hvort sem það er til að koma fiskinum okkar á erlenda markaði eða uppfylla innlenda eftirspurn með innflutningi á mat. Árangur Íslands í loftslagsmálum getur ekki byggzt á því að hverfa frá milliríkjaviðskiptum með mat – við lifum á þeim. Við getum hins vegar gert margt til að gera flutninga og framleiðsluferla umhverfisvænni. |
Bæjarstjórn Kópavogs ætlar að ráðast í stjórnsýsluúttekt á gerðum fyrri meirihluta. Úttektin snýst um kaup bæjarins á Glaðheimasvæðinu og afleiðingum sem þau höfðu fyrir bæjarfélagið. Kópavogsbær situr uppi með um 10 milljarða króna skuld vegna viðskiptanna. Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs, segir að undan úttektinni verði ekki vikist vegna ábyrgðar kjörinna fulltrúa.
Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar: Og þarna fóru menn sko langt fram úr sér og þeir voru í sko einhverjum, hérna, þetta voru algjörlega óraunhæfar væntingar sem að þeir höfðu til framtíðarinnar og svona geta opinberir aðilar ekki leyft sér og sko, mér fannst það aldrei liggja nægilega vel fyrir nákvæmlega hverjir það voru sem að Kópavogsbær keypti landið af og hverjir það voru sem að Kópavogsbær seldi landið. Semsagt ástæðan fyrir því að það er hægt að ná upp þessu háa verði sem að Glaðheimalandið var selt á, það voru sex og hálfur milljarður í það heila. Að hérna, að það lá, það átti að heimila 180.000 fermetra byggingamagn á landinu og við gerðum nú stundum grín að því að þetta yrði nú svona bara eins og Manhattan, að jarðskorpa færi nú bara að hrynja undan sko, síga undan þvarginu og sko 180.000 fermetrar á þessum, ætli þetta séu ekki 11 hektarar, að sko þetta er svona, sko langt, þéttleikinn á þeirri byggð er langt umfram það sem þekkst hefur hér hingað til. En þarna voru til dæmis komnar á teikniborðið hugmyndir að 40 hæða háhýsi og sko turninn hérna í Kópavogi sem að var nú deilt svolítið um á sínum tíma, hann er 20 hæðir. |