source
stringlengths 710
1.19M
|
---|
Ísak Ernir Kristinsson, körfuboltadómari og flugþjónn, hefur verið skipaður stjórnarformaður hjá þróunarfélaginu Kadeco af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. Stundin greinir frá.
Ísak tekur við stjórnarformennskunni af Georgi Brynjarssyni hagfræðingi sem var skipaður formaður stjórnar árið 2017 þegar Benedikt Jóhannesson tók við lyklunum að fjármálaráðuneytinu. Georg var einn af stofnendum Viðreisnar. Sagði Benedikt að til stæði að leggja starfsemi Kadeco niður hvað varðaði sölu eigna, þær væru svo til allar seldar.
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og Sjálfstæðismaður, var skipaður formaður stjórnar árið 2014 af Árna Sigfússyni, þáverandi bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Mánaðarlaun stjórnarformanns Kadeco hafa verði 270 þúsund krónur undanfarin ár.
Þekkir ungliðastarf Sjálfstæðisflokksins út og inn Ísak er 24 ára, nemi í viðskiptafræði sem hefur rekið gistiheimili í Reykjanesbæ ásamt fjölskyldu sinni. Hann hefur verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins frá sextán ára aldri þar sem hann hefur meðal annars verið formaður Heimis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, og átt sæti í stjórn SUS. Þá var hann varabæjarfulltrúi hjá flokknum í Reykjanesbæ á nýloknu kjörtímabili.
Félagið Kadeco var stofnað 24. október 2006 í kjölfar lokunar Bandaríkjahers á herstöð sinni við Keflavíkurflugvöll í þeim tilgangi að taka við þeim eignum sem ekki yrðu nýttar áfram til flugvallarreksturs eða í öryggissamstarfi Norður-Atlantshafsbandalagsins.
„Markmið og tilgangur Kadeco er að leiða þróun og umbreytingu á þessum eignum og landi sem Varnarliðið skildi eftir sig til borgaralegra nota. Í því felst meðal annars nauðsynleg undirbúningsvinna, svo sem úttekt á svæði og mannvirkjum ásamt þróunar- og vaxtarmöguleikum þess í samráði við þá aðila sem hafa hagsmuna að gæta,“ segir á heimasíðu Kadeco.
Ísak hefur getið sér gott orð sem körfuboltadómari hér á landi. Hann er sonur Kristins Óskarssonar, eins reyndasta dómara landsins. |
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, hefur ákveðið að höfða dómsmál gegn íslenska ríkinu vegna skipunar í Landsrétt.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, hefur ákveðið að höfða dómsmál á hendur íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu dómsmálaráðherar og Alþingis við skipun í embætti dómara við Landsrétt að því er kemur fram í bréfi Jóhannesar til fjölmiðla. „Ég, sem umsækjandi um embætti dómara við Landsrétt, hæstaréttarlögmaður og borgari í þessu landi, get ekki sætt mig við að réttur sé brotinn á einstaklingum, eins og hér háttar til, án þess að bregðast við. Háttsemi af þessu tagi á ekki að líðast,“ segir Jóhannes.
Hægt er að lesa bréf Jóhannesar Rúnars í heild sinni hér:
Undirritaður sótti, í góðri trú og á faglegum forsendum, um embætti dómara við Landsrétt, sem auglýst var laust til umsóknar í febrúar sl.
Dómsmálaráðherra ákvað hinn 29. maí sl. að ganga framhjá umsókn minni þrátt fyrir að sérstök fagleg dómnefnd, sem skipuð er af ráðherra og starfar samkvæmt lögum, hefði komist að þeirri niðurstöðu að ég væri meðal þeirra 15 umsækjenda sem nefndin taldi hæfasta til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Meirihluti Alþingis staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra þann 1. júní sl.
Stjórnskipun lýðveldisins byggir á þrígreiningu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Með ákvörðunum sínum eru tvær greinar ríkisvaldsins, framvæmdavaldið, hér dómsmálaráðherra, og löggjafarvaldið, Alþingi, að hlutast til um skipan þeirrar þriðju, dómsvaldsins. Stjórnvöld eru bundin af lögum og ákvarðanir þeirra verða að eiga sér stoð í lögum.
Það er valdníðsla þegar stjórnvald misnotar opinbert vald með þeim hætti að ólögmæt og ómálefnaleg sjónarmið, svo sem vinátta, flokkshagsmunir eða óvild, ráða ákvörðun þess. Í bók Páls Hreinssonar, hæstaréttardómara og dómara við EFTA dómstólinn, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, segir á bls. 126: „Að baki sérhverri stjórnvaldsákvörðun verða að búa málefnaleg sjónarmið. Það er ótækt að geðþótti eða hrein tilviljun ráði niðurstöðu máls. Af þessum sökum eru stjórnvöld að lögum bundin við að byggja matskenndar ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Þess vegna eru málefnaleg sjónarmið aðeins lögmæt.“
Fyrir liggur að meta þarf hvort málsmeðferð við skipun dómara við Landsrétt hafi verið lögmæt eða ólögmæt, þar með hvort ákvörðun dómsmálaráðherra um að víkja frá niðurstöðu hinnar faglegu dómnefndar hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum eða ekki.
Dómsmálaráðherra bar skilyrðislaust að velja þá 15 einstaklinga sem hæfastir voru meðal umsækjenda í embætti dómara við Landsrétt, án tillits til kynferðis, skoðana eða stöðu.
Málsmeðferð dómnefndarinnar, þar sem umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt voru metnir innbyrðis, var mjög yfirgripsmikil, fagleg og vönduð og tók margar vikur. Óháð því hvort niðurstaða nefndarinnar um það hverjir teldust hæfastir meðal umsækjenda var efnislega rétt eða röng, eða hvort menn eru sammála eða ósammála henni, þá fól mat dómnefndarinnar í sér, að umsækjendur voru, allir sem einn, metnir á jafnréttisgrunni, af sama fólkinu, á sama tíma og umfram allt á sömu forsendum.
Það hefði átt að vera grundvallarforsenda fyrir ákvörðun dómsmálaráðherra, um að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar, að ákvörðun hennar og aðdragandi væri jafn vandaður og málsmeðferð og ákvörðun nefndarinnar. Ráðherrann þurfti auk þess að fylgja lögum við ákvörðun sína og þar með að byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum. Hafi ráðherrann ekki gert það þá er ákvörðun hennar ólögmæt.
Færa má fyrir því sterk rök að málsmeðferð dómsmálaráðherra hafi verið andstæð lögum og að réttur hafi verið brotinn á þeim umsækjendum sem hún ákvað að fella brott af lista dómnefndarinnar.
Rökstuðningur dómsmálaráðherra fyrir því að víkja frá niðurstöðu nefndarinnar stenst auk þess enga efnislega skoðun. Rökstuðningur ráðherrans er almenns eðlis, ógagnsær og óljós. Hvergi er sem dæmi vikið að því hvers vegna ráðherra taldi rétt að ganga framhjá þeim tilteknu fjórum umsækjendum sem hún gerði né hvers vegna hún kaus að velja nákvæmlega þá fjóra umsækjendur í þeirra stað sem hún valdi, fremur en til að mynda aðra umsækjendur. Rétt er að undirstrika að sjónarmið um að jafna stöðu karla og kvenna voru ekki meðal þeirra raka sem dómsmálaráðherra vísaði til í rökstuðningi sínum og ættu þar af leiðandi ekki að koma til frekari skoðunar í þessu samhengi.
Hefði dómsmálaráðherra byggt á sjónarmiðum um kynjajafnrétti við ákvörðun sína, sem hún gerði ekki samkvæmt framansögðu, þá hefði ráðherrann engu að síður fyrst þurft að færa fullnægjandi rök fyrir því að um jafn hæfa umsækjendur væri að ræða, eftir að hafa sannreynt það á áreiðanlegan og vandaðan hátt. Þá fyrst gat reynt á kynjasjónarmið í þessu samhengi en fyrr ekki.
Samkvæmt lögum um dómstóla getur dómsmálaráðherra ekki skipað í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur er einn eða samhliða öðrum, nema Alþingi heimili slíkt.
Alþingi bar að kynna sér forsendur dómsmálaráðherra fyrir því að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar, áður en ákvörðun var tekin og fullvissa sig um að forsendur ráðherrans væru málefnalegar og réttar. Alþingi var kunnugt um marga þeirra annmarka sem voru á málsmeðferð og rökstuðningi dómsmálaráðherra fyrir ákvörðun hennar um að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar, áður en atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi um málið. Meirihluti Alþingis ákvað þrátt fyrir það að staðfesta tillögur dómsmálaráðherra.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður:
„Það er sannfæring mín að málsmeðferð dómsmálaráðherra og Alþingis við val á umsækjendum til skipunar í embætti dómara við Landsrétt hafi brotið í bága við lög. Ég trúi því ekki að þriðja grein ríkisvaldsins, dómsvaldið, muni láta það viðgangast átölulaust.
Ákvörðun dómsmálaráðherra um að víkja frá niðurstöðum faglegrar dómnefndar um hæfni umsækjanda um embætti dómara við Landsrétt var hvorki tekin með þeim hætti, né á grundvelli þeirra forsendna, sem lög áskilja. Alþingi hefði átt að bregðast við og hafna breyttri tillögu ráðherrans. Meirihluti Alþingis brást því hlutverki sínu.
Ég, sem umsækjandi um embætti dómara við Landsrétt, hæstaréttarlögmaður og borgari í þessu landi, get ekki sætt mig við að réttur sé brotinn á einstaklingum, eins og hér háttar til, án þess að bregðast við. Háttsemi af þessu tagi á ekki að líðast.
Ég hef því tekið ákvörðun um að höfða dómsmál á hendur íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu dómsmálaráðherra og Alþingis við skipun í embætti dómara við Landsrétt.“
Kópavogi, 14. júní 2017,
Jóhannes Rúnar Jóhannsson |
Ólafsfirði 31. mars 2020
Bæjarstjórn Fjallabyggðar
Gránugötu 24
580 Siglufirði
Í aðdraganda síðustu bæjarstjórnakosninga var eins og oft vill verða farið af stað með hugmyndir og loforð um ýmis verkefni. Kosningaloforðum er jafnvel kastað fram af meiri ákefð en ígrundun og eru stundum illframkvæmanleg vegna kostnaðar eða þau ganga ekki saman með raunverulegri þörf þegar betur er að gáð.
Eitt af kosningaloforðunum sem nú eru á áætlun er uppbygging keppnisvallar með gervigrasi. Opinberlega hef ég ekki séð nein gögn um þetta verkefni, hvorki nákvæma kostnaðaráætlun, greiningu á þörfinni eða hvort aðrir raunhæfir kostir eru í stöðunni. Í samtali við fólk í sveitafélaginu hef ég heyrt að æ fleiri eru farnir að efast um réttmæti þess að fara í svo gríðarlega kostnaðarsama fjárfestingar fyrir tiltölulega fámennan hóp.
Í fjárhagsáætlun Fjallabyggðar vegna reksturs og framkvæmda fyrir árið 2020 kemur fram að sveitarfélagið stendur einkar vel fjárhagslega, sem ber að þakka. Það sem ég hinsvegar furða mig á er ógagnsæið við gerð fjárhagsáætlana, að það skuli vera hægt að leggja þær fram án þess að hvorki liggi fyrir framkvæmda- eða kostnaðaráætlanir. Það er svolítið eins og að reka puttann uppí vindin til að finna hvaðan vindurinn blæs.
Ég velti því einnig fyrir mér hvort bæjarstjórnin hafi haft jafnrétti að leiðarljósi þegar sú ákvörðun var tekin að setja mörg hundruð milljónir í gervigrasvöll? Ég veit til þess að víða um heim er verið að innleiða kynjaða hagstjórn, líka hér á Íslandi. Kynjuð hagsstjórn snýst ekki um að vera með sitthvora áætlunina fyrir kynin eða telja hversu miklum fjármunum er eytt í þau. Hún snýst heldur ekki um að eyrnamerkja fyrirfram ákveðna upphæð í jafnréttisverkefni heldur snýst hún um að beita jafnrétti þegar kemur að útgjöldum. Þá þurfa þeir sem taka ákvarðanir um einstaka útgjaldaliði að spyrja sig hvort hinn eða þessi útgjaldaliður muni hafa áhrif á jafnrétti eða hvort það muni auka misréttið? Mun fjárfesting í gervigrasvelli þjóna afmörkuðum hópi eða mun hún mismuna kynjum?
Í pólitík er gjarnan litið á það sem veikleika að skipta um skoðun að betra sé að standa við loforðin sama hvað, jafnvel þó ýmsir séu farnir að efast um að hugmyndin sé góð. Mér hefur aldrei þótt það minnkun að skipta um skoðun, þvert á móti þá þykir mér það merki um víðsýni að rýna skoðanir sínar og hugmyndir til gagns og meta stöðuna út frá því. Mér fynndist eðlilegt í ljósi alls að bæjarstjórn endurskoðaði þessa ákvörðun sína og kannaði aðra möguleika í stöðunni.
Í málefnasamningi meirihlutans er lögð áhersla á aukið íbúasamráð, þetta verkefni væri að mínu mati kjörið til þess. Það mætti t.d koma á fót hópavinnu þar sem ólíkum skoðunum er velt upp og aðrir kostir skoðaðir. En hingað til hefur ekkert samráð verið haft um málefni sveitarfélagsins, hvorki einstök verkefni né framtíðarstefnu þess. (Sveitastjórnarlög, X. kafli. Samráð við íbúa. -102. gr. Réttur íbúa til áhrifa á stjórn sveitarfélags.)
Að þessu sögðu þá óska ég eftir að fá svör við eftirfarandi spurningum varðandi íþróttavöllinn:
Liggur fyrir greining á þörf fyrir keppnisvöll með gervigrasi?
Var ákvörðunin um uppbyggingu gervigrasvallar tekin út frá kynjaðri fjárhagsáætlun?
Liggur fyrir fullnægjandi kostnaðaráætlun vegna heildar framkvæmdarinnar?
Hver er áætlaður árlegur rekstrarkostnaður eftir framkvæmdina?
Hefur verið skoðað hvaða aðrir kostir eru í stöðunni og hver sá kostnaður mögulega væri þ.m.t. rekstrarkostnaður?
Virðingarfyllst
Valur Þór Hilmarsson
Kirkjuvegi 12
625 Ólafsfirði
Skjáskot/Fjallabyggð |
Korkur: humor
Titill: litir.
Höf.: sansan
Dags.: 3. apríl 2008 02:45:16
Skoðað: 953
Tveir gyðingar, Davíð og Símon, voru á leið úr sýnagógunni og rifust ákaft.
Davíð segir við Símon: Þú segir að svart sé ekki litur, ég segi að það sé litur.
Þetta þras þýðir ekkert, við verðum að fá rabbínann til að skera úr um þetta, segir Símon Þeir kalla á rabbínann og segja honum frá rifrildinu.
Við skulum athuga hvað bókin helga segir um þetta, segir rabbíninn og vill fara varlega í að kveða upp dóm.
Nær í bókina helgu og blaðar í henni um stund og segir svo: Jú, jú, bókin helga segir að svart sé litur.
Þá lá það fyrir og ekki hægt að draga í efa það sem bókin helga sagði.
Skömmu síðar blossar aftur upp hávaðarifrildi milli gyðinganna tveggja og Davíð segir við Símon:
Þú segir að hvítt sé ekki litur, ég segi að það sé litur. Við verðum að fá botn í þetta og þeir eru
sammála um að kalla aftur á rabbínann.
Um hvað eruð þið nú að rífast? spyr rabbíninn. Ég segi að hvítt sé litur en
hann ekki, svarar Davíð. Við skulum sjá hvað bókin helga segir um þetta, svarar rabbíninn á ný.
Jú, jú, það er ekki um að villast, bókin helga segir að hvítt sé litur.
Þarna sérðu, segir Davíð við Símon,
þú hefðir átt að trúa mér - þetta var litasjónvarp sem ég seldi þér!
---
Svör
---
Höf.: Paze
Dags.: 3. apríl 2008 14:51:57
Atkvæði: 0
Hvað ertu gömul?
Sæt mynd af þér, en ég vill ekki enda á sama stað og Steingrímur Njálsson :(
Ef þú ert yfir 16, addaðu mig and let's get it poppin', aiight?
---
Höf.: gazzer
Dags.: 3. apríl 2008 20:24:15
Atkvæði: 0
haha, 18 ára…. shiiiitt, að fíla 14 ára
---
Höf.: Paze
Dags.: 3. apríl 2008 21:34:10
Atkvæði: 0
Gaur.. Lestu aðeins.. Farðu síðan og togaðu hausinn úr rassgatinu á þér, lestu smá meira, og svaraðu svo.
---
Höf.: gazzer
Dags.: 3. apríl 2008 22:28:11
Atkvæði: 0
Hvað ertu gömul?
Sæt mynd af þér, en ég vill ekki enda á sama stað og Steingrímur Njálsson :(
Ef þú ert yfir 16, addaðu mig and let's get it poppin', aiight?
þetta skiptir varla máli, þar sem þú sagðir að þér fyndist hún sæt….
---
Höf.: Paze
Dags.: 4. apríl 2008 06:28:08
Atkvæði: 0
Sæt stelpa, eigum við að ræða það eitthvað?
Þýðir ekki að ég myndi snerta hana.
---
Höf.: Pesi
Dags.: 4. maí 2008 23:58:26
Atkvæði: 0
-How old are you?
-14
-I herd 16!
---
Höf.: Paze
Dags.: 5. maí 2008 01:10:37
Atkvæði: 0
I WON'T FUCK HER FFS.. Gæti það örugglega, en ekki séns dude!
---
Höf.: Pesi
Dags.: 5. maí 2008 01:12:29
Atkvæði: 0
ég er að djóka:D
luuvvv!
---
|
Guus Hiddink, knattspyrnustjóri Chelsea, var að vonum sáttur eftir sannfærandi 3-0 sigur á Crystal Palace en þetta var fyrsti sigur Chelsea síðan Hiddink tók við liðinu á ný.
Sjá einnig: Chelsea sýndi sitt rétta andlit í sannfærandi sigri | Sjáðu mörkin
Eftir tvö jafntefli í röð gegn Manchester United og Watford var allt annað að sjá til liðsins í dag og sýndu margir leikmenn loksins sitt rétta andlit eftir slaka frammistöðu fyrri hluta tímabilsins.
„Þetta var frábær frammistaða og verðskuldaður sigur en við verðum að stilla væntingarnar. Þetta er fyrsti sigurinn eftir tvö jafntefli í röð og en þurftum svo sannarlega á þessu að halda,“ sagði Hiddink sem sagði að það vantaði ekki gæðin í leikmannahóp Chelsea.
„Það fer ekki framhjá neinum að það eru gæði í leikmannahópnum en það á það til að gerast að meistaralið séu kærulaus. Það getur verið erfitt að vinna sig upp úr því,“ sagði Hiddink sem segir stefnuna á að ná einum af fjóru efstu sætum deildarinnar.
„Það er mikið eftir af tímabilinu og við munum halda áfram að berjast á meðan möguleikinn á sæti í Meistaradeildinni er til staðar. Þetta er sterk deild en ef við spilum jafn vel og í dag gefum við okkur möguleikann á því að færa okkur upp töfluna,“ sagði Hiddink. |
Í síðustu tvö skipti sem að fæðingarorlof hefur verið lengt hefur barnsfæðingum fjölgað í kjölfarið segir Ingólfur Gíslason. Virk þátttaka föður í uppeldi fyrsta barns eykur líkur á að mæðurnar vilji eignast annað barn.
Árið 1980 eignuðust íslenskar konur að meðaltali 2,5 börn en fimm árum síðar var þessi talan komin niður í rétt ríflega 1,9. Þá fór frjósemi að aukast að nýjum toppi var náð 1990. Aftur fór að síga á ógæfuhliðina og árið 2002 var tíðni fæðinga aftur komin í 1,9. Aftur fór þá frjósemi að aukast. Lög um fæðingarorlof hafa haft áhrif á þessar sveiflur.
Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri Jafnréttisstofu: Þessi uppsveifla sem að verður 1986 held ég að tengist því að þá var orlofið lengt úr þremur mánuðum í sex og síðan sú uppsveifla sem að við erum að upplifa núna hún held ég alveg örugglega geti ekki skýrst af öðru heldur en þessum lögum.
Við breytingar á lögum árið 2000 lengdist fæðingarorlof feðra. Það telur Ingólfur skipta miklu máli.
Ingólfur V. Gíslason: Einn af stóru þáttunum að baki ákvörðun konu um að eignast barn númer 2 eða barn númer 3. Það er hve virkur faðirinn var við umhyggju fyrsta barnsins. Ef að hún er ánægð með hans þátttöku í þeirri umhyggju þá er hún alveg til í fleiri börn.
Og aukin frjósemi er mjög mikilvæg.
Ingólfur V. Gíslason: Við erum núna komin upp í 2,1 barn á konu sem er það sem er svona miðað við að sé það sem þurfi til þess að þjóð viðhaldi sér. |
Atvinnuvegaráðuneytið neitar að endurgreiða innflutningsfyrirtækjum kostnað vegna útboðsgjalds á tollkvótum sem dómstólar hafa dæmt andstætt stjórnarskránni. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir svör ráðuneytisins óskiljanlega stjórnsýslu og óboðlega framkomu við neytendur.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í þremur dómsmálum í mars síðastliðnum að útboðsgjald sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra innheimti fyrir innflutningskvóta á búvörum væri skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og að löggjafinn hefði framselt ráðherra of víðtækt skattlagningarvald í andstöðu við áðurnefnd stjórnarskrárákvæði. Fyrirtækin sem eiga hlut að máli, Hagar, Innes og Sælkeradreifing, hafa reynt að fá fyrirframgreidd útboðsgjald endurgreitt og hleypur fjárhæðin á hundruðum milljóna króna. Kjarni málsins er sá að fyrirtækin þrjú greiddu fyrirfram útboðsgjald sem nú hefur verið dæmt að er andstætt stjórnarskránni. Þau vilja því eðlilega fá peningana sína til baka. Atvinnuvegaráðuneytið skautar hins vegar fram hjá þessari grundvallarstaðreynd í málinu í svarbréfum sínum við erindum fyrirtækjanna. Í svarbréfum ráðuneytisins er engin efnisleg umfjöllun um hvernig eigi að endurgreiða fyrirtækjunum hið fyrirframgreidda útboðsgjald sem er andstætt stjórnarskránni.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda: Þetta er algjörlega óboðleg stjórnsýslu. Fyrst rökstyður ráðuneytið ákvörðun sína um hafna endurgreiðslu gjaldsins bara alls ekki. Það er farið fram á frekari rökstuðning og þá er sagt, jú við fórum eftir lögunum. En málið snýst einmitt um að dómstóll hefur sagt, lögin ganga gegn stjórnarskrá landsins. Þannig að þetta er algjörlega óskiljanleg stjórnsýsla, algjörlega óboðleg framkoma við neytendur. Við vorum að skrifa undir kjarasamninga í gær sem að sko halda ekki nema að hér verði passað upp á kaupmáttinn og að verðlag fari ekki úr böndum og á sama tíma heldur ríkisvaldið fram svona vitleysu sem hækkar verðið á innfluttum mat um tugi prósenta.
Ólafur segir að það blasi við að fyrirtækin þrjú höfði mál til að fá tjón sitt bætt ef ríkissjóður endurgreiði þeim ekki.
Ólafur Stephensen: Það blasir algjörlega við, það er búið að greiða þetta gjald fyrirfram fyrir allt árið. Það er ekki búið að velta því út í verðlagið. Að taka það af, að endurgreiða það, það leiðir samstundis til verðlækkunar á innfluttum búvörum.
Ekki náðist í dag í Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna málsins. |
Fyrirtækið EM Orka hyggst reisa 35 vindmyllur í landi Garpdals norðan Gilsfjarðar í Reykhólahreppi. Vindmælingar og umhverfismat er hafið og í kvöld er verkefnið kynnt fyrir íbúum.
Góð vindskilyrði í Garpsdal
EM Orka er dótturfélag EM holdings sem er samstarfsfyrirtæki írsks vindmylluþróunarfyrirtækis EM Power og danska vindmylluframleiðandans Vestas. Ríkarður Örn Ragnarsson er verkefnastjóri EM orku. Hann segir að EM Power hafi leitað víða á landinu að hentugum stað fyrir vindorkuver: „Aðstæður í Garpsdal gefa til kynna mjög góð vindskilyrði, það er stutt í næsta tengivirki og fjallið myndar náttúrulega skermum frá næstu hýbýlum.“
35 vindmyllur
Landið verður leigt af landeigendum í Garpsdal og til stendur að tengja vindorkuverið með jarðstreng við tengivirki Landsnets í Geiradal, en þangað eru sex kílómetrar. Ríkarður segir að miðað við fyrstu áætlanir sé gert ráð fyrir 35 150 metra háum vindmyllum, sem er eins og tvær Hallgrímskirkjur, og allt að 126 MW. Til viðmiðunar er fyrirhuguð Hvalárvirkjun 55 MW. Ríkaður segir að þó ýmislegt geti breyst eftir umhverfismat og vindmælingar, sem er gert ráð fyrir að taki um tvö ár. Næstu skref felast í því að hefja viðræður við sveitarfélagið um að koma vindorkugarðinum í aðalskipulag Reykhólahrepps.
Vindurinn á Vesturlandi eftirsóttur
Auk EM-Orku eru tvö önnur fyrirtæki að hefja vindmælingar í Dölum og nágrenni fyrir vindorkugarða. Storm-Orka hyggst reisa allt að fjörutíu vindmyllur við Hróðnýjarstaði í Dalabyggð og þá greindi Morgunblaðið frá áformum Quadran Iceland Development um að reisa 12 til 24 vindmyllur í landi Sólheima í Dalabyggð.
Kynna áformin í Króksfjarðarnesi í kvöld
EM orka boðaði til íbúafundar í Króksfjarðarnesi í kvöld til að kynna verkefnið; áform, útlit og ávinning fyrir sveitarfélagið og þá sem að því standa. Ríkarður segir að fyrirtækið hafi ekki hug á því að selja orkuna stórum orkukaupendum heldur sé litið til aukinnar raforkueftirspurnar. „Þetta er að okkar mati besta leiðin til að framleiða orku á Íslandi, sér í lagi því að þetta er afturkræfur kostur, þú getur eftir lífdaga vindmylla vindorkugarðsins fjarlægt hann.“ |
Íslenska landsliðskonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir segist hafa fengið hótanir frá ítalska félaginu Verona eftir að hún og Arna Sif Ásgrímsdóttir neituðu að snúa aftur til Ítalíu eftir jólafrí þar sem liðið stóð ekki við samninga.
Berglind Björg og Arna Sif eru nú báðar lausar allra mála og ætla báðar að spila í Pepsi-deildinni 2018, Berglind með Breiðabliki en Arna með Þór/KA.
Umboðsmaður þeirra beggja hafi ráðlagt þeim að fara heim til Íslands í jólafríinu og taka allar eigur sínar með. Hann ætlaði síðan hjálpa þeim að rifta samningnum þaðan.
„Það gekk ekkert sérstaklega vel. Við fengum hótunarbréf eftir að við reyndum að rifta. Við svöruðum því ekki og þá fengum við annað hótunarbréf sem var verra en það fyrra. Þeir ætluðu ekki að taka þetta í mál, sögðu að við værum ekki professional og það yrðu afleiðingar,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir í samtali við RÚV.
Þjálfari Verona hótaði þeim í ítölskum fjölmiðlum og þær Berglind Björg og Arna Sif áttu að fá að finna fyrir þessu. Þeim var eðlilega ekki skemmt en þær gerðu sér enga grein fyrir hversu langt félagið myndi ganga með þessar hótanir.
„Er ítalska mafían að fara koma til Íslands og slátra okkur," sagði Berglind í fyrrnefndu viðtali við RÚV.
Verona samþykkti loksins að leyfa þeim að fara en þær þurfa báðar að sjá eftir peningum sem ítalska félagið skuldaði þeim.
„Ef við förum ekki fram á allan þann pening sem þeir skulda okkur þá ætla þeir að leyfa okkur að fara. Við samþykktum það því okkur er alveg sama um þennan pening og vildum fara. Það gekk allt upp og núna erum við bara að bíða eftir félagaskiptunum sem eiga vonandi að koma í gegn í næstu viku,“ sagði Berglind Björg sem er nú komin til móts við íslenska landsliðið í Algarve í Portúgal.
„Við reynum bara að hlægja að þessu og við reyndum að gera það úti líka. Þetta var mjög erfitt á tímabili en svo vorum við bara; Við verðum að hlægja að þessu, annars gengur þetta ekkert upp,“ sagði Berglind Björg í viðtalinu við RÚV en það má finna það allt hér. |
Bæta þarf þjónustu við aldraðra en það tekur tíma segja fulltrúar í fjárlaganefnd sem í dag hittu aðstandendur heimilisfólk á hjúkrunarheimilum. Nefndarmenn vilja sjálfir ekki búa við þau skilyrði sem boðið er upp í dag.
Aðstandendur heimilisfólks á nokkrum vistheimilum aldraðra hittu fulltrúa úr fjármálanefnd í dag. Fjallað var um mönnunarmál og að oft þurfi tveir til þrír vistmenn að deila einu herbergi. 13. nóvember í fyrra gengu aðstandendur aldraðra á sömu stofnunum á fund heilbrigðisnefndar og segja má að þá hafi þeim verið lofað öllu fögru. Tæpu ári síðar var annar fundur og enn var lofað. Nú var sem áður sagði komið að fjárlaganefnd.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks: Fyrir ekki svo mörgum árum þá þótt þetta alveg boðlegt og þótti vera ágætt og við vorum auðvitað að byggja upp okkar þjónustu. Núna hafa viðmiðin breyst og við gerum kröfu um það að það sé einbýli og það tekur auðvitað tíma að breyta kerfinu, byggja ný rými og breyta þeim sem að fyrir eru. Auðvitað er erfitt þegar að við stjórnmálamennirnir erum að svara og horfum kannski til lengri tíma en það er okkar starf að við þurfum að horfa til lengri, við þurfum að skipuleggja þessa hluti þannig að við séum að horfa til þjóðarheillar og þeirra möguleika sem við höfum til að spila úr.
Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslyndra: Fjárlaganefnd tekur náttúrulega svona stefnumál upp og skoðar þau en fjárlaganefnd setur ekki stefnuna í svona málum. Það er heilbrigðisráðuneytið sem gerir það og ríkisstjórnin.
Aðalbjörn Sigurðsson: Myndir þú láta bjóða þér þetta í ellinni?
Illugi Gunnarsson: Ja, þú þarft ekki að spyrja að því. Auðvitað vona ég það að það verði ekki mitt hlutskipti og það, ég óska engum, engum þess.
Guðjón Arnar Kristjánsson: Nei, ég myndi örugglega helst vilja búa einn. Ekki þar fyrir að, að ég hafi ekki gaman að félagsskap. |
Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson kvaddi köttinn Gutta á föstudag eftir alls átján ára samveru. Gutti var orðinn nítján ára gamall þegar nýru hans byrjuðu að gefa sig.
Söngvarinn minnist Gutta í hjartnæmri færslu á Facebook-síðu sinni og fer yfir fjörugt lífshlaup hans. Hann segist vera fullur sorgar og það muni taka langan tíma að venjast því að hafa ekki sálufélaga sinn lengur á heimilinu.
„Gutti fæddist í október 2002, og stakk af frá fyrri eiganda í Þingholtunum vegna ósættanlegs ágreinings við annan ógeldan gaur á sama heimili. Gutti ákvað að labba af stað og leita sér að íbúð í 101 eða 107 og þar hófst mikið flakk sem stóð lengi yfir,“ skrifar Páll Óskar.
Í kjölfarið hafi Gutti meðal annars verið handsamaður á Prikinu, Sólon, Rammagerðinni, Íslandsbanka á Eiðistorgi, Tóbaksbúðinni Björk og Happdrætti DAS.
„Hann var oft gómaður í miðasölu Háskólabíós og einu sinni var hann böstaður í Sal 1 þar sem hann var að horfa á kvikmynd Mel Gibsons The Passion of Christ.“
Lifað kóngalífi fram á seinasta dag
Páll segir að leiðir þeirra hafi legið saman í mars árið 2004 þegar Gutti mætti óboðinn í afmælið hans. Poppstjarnan hafi ekki verið lengi að taka Gutta upp á sína arma sem lifði síðan kóngalífi í Vesturbænum fram á sinn seinasta dag.
„Fyrstu þrjú árin þakkaði hann mér lífgjöfina með því að veiða allt sem hafði púls. Stundum leit heimilið út eins og hjá keðjusagarmorðingjanum í Texas. Einu sinni var keyrt á önd í götunni fyrir framan húsið. Gutti var eina vitnið. Hann dró líkið af öndinni af götunni, gegnum innkeyrsluna, inn í garð og tróð henni svo gegnum stofugluggan. Hann móðgaðist þegar ég varð brjálaður og fannst ég vera vanþakklátt pakk.“
Einstaklega gáfað dýr
Söngvarinn heldur áfram og segir að Gutti hafi verið einstaklega gáfaður og óttalaus köttur. Eftir sem áður hafi hann verið orðinn nítján ára háaldraður köttur undir lokin með mikla gigtveiki.
„Ævikvöldið var töfrum líkast. Ég vakti yfir honum alla nóttina, það var kyrrt og fallegt veður, logn og stjörnubjart og við horfðum á uppáhalds kvikmyndina hans, Terminator 2: Judgment Day.
Aðeins 15 mínútum áður en Dagfinnur Dýralæknir kom heim til að hjálpa Gutta að sofna svefninum langa, fór Gutti í sinn loka labbitúr út í garð, þótt hann gæti varla stigið í lappirnar né haldið haus, bara til að tékka á yfirráðasvæðinu. Jafnvel við dauðans dyr, þá var hann ennþá á vakt,“ skrifar Páll Óskar sem segist aldrei eiga eftir að kynnast öðrum eins ketti.
Tónlistarmaðurinn er þakklátur fyrir að hafa fengið að deila síðustu átján árum undir sama þaki og þessi vinur sinn.
„Blessuð sé minning Gutta, sem náði að lifa í 19 ár (alls 92 mennsk ár) og var hvíldinni feginn þegar nýrun hans luku keppni í síðustu viku. Ég er alveg í klessu hérna. Búið að vera mjög erfitt að skrifa þessa minningargrein og skoða allar þessar gömlu myndir. Maður grenjar og tekur svo hlátursköst inn á milli,“ segir Páll Óskar.
„Mikið var gott að deila lífinu með þér, Gutti. Takk fyrir að velja mig sem lífsförunaut. Ég hefði ekki getað valið betri kött. “ |
„Ég tel ekki vænlegt til árangurs að taka til beinna varna fyrir frú Agnesi biskup af því að þar með vöðum við inn í þá gildru sem búið er að spenna upp,“ segir Kristján Björnsson, formaður Prestafélags Íslands, í bréfi til presta innan þjóðkirkjunnar um áramótin.
Eins og kunnugt er hafa fréttir verið sagðar af launamálum og kjörum presta og biskupa í kjölfar ákvörðunar kjararáðs fyrir jól um breytingar á launum þessara hópa. Þar hefur umfjöllun um mál Agnesar M. Sigurðardóttur biskups verið mest áberandi enda er hún launahæsti starfsmaður þjóðkirkjunnar og fékk 22 prósenta launahækkun sem auk þess var afturvirk í eitt ár.
Fram kom á Vísi í gær að Prestafélagið hafði lagt til við kjararáð að biskupinn fengi um 170 þúsund króna meiri hækkun en síðan varð raunin. Ef farið hefði verið að vilja félagsins hefðu mánaðarlaun biskups hækkað í um 1.720.000 krónur í stað þeirra 1.553.000 króna sem biskupi voru úrskurðaðar. Launahækkunin hefði þá verið 34 prósent.
Ljóst er af fyrrnefndu bréfi formanns Prestafélagsins að hann telur fréttaflutning af þessu málefni skipulagðan til að koma höggi á þjóna kirkjunnar. Ráðlegt sé að prestar almennt stígi ekki inn í umræðuna um kjaramál biskupsins.
„Við það mun umfjöllun um frú Agnesi fá nýtt eldsneyti sem tryggir áframhaldandi neikvæða umfjöllun um hana á þennan persónulega hátt sem verið er að reyna að leiða okkur inn í,“ segir í bréfi Kristjáns.
Athygli vekur að Kristján sýnist telja kynferði biskupsins ráða innihaldi frétta um kjaramálin. „Þetta er örugglega kynbundin aðför. Það mætti vel hugsa það í ljósi #metoo eftir áramótin og bið ég ykkur að hugsa það vel,“ skrifar Kristján í bréfi sínu.
Í samtali við Fréttablaðið kveður þó við annan tón hjá Kristjáni er hann er spurður hvort fréttaflutningur af kjaramálum biskups markist af því að hún er kona.
„Það er búinn að vera alvarlegur og góður þungi í #metoo-byltingunni og mér finnst vera svo mörg alvarleg mál sem liggja þar að baki; ofbeldi og brot gagnvart fólki að mér finnst ekki vera hægt að nota þá umræðu yfir þessa stöðu,“ segir Kristján. Ekki þurfi að vorkenna biskupi Íslands.
„Ég er líka mjög skeptískur á það að nota hugtök eins og kynbundið ofbeldi eða einelti um stöðu í pólitík eða stöðu embættismanns vegna þess að þau hugtök eru svo dýr í mínum huga,“ heldur Kristján áfram. Þessi hugtök eigi við um fólk sem hafi raunverulega orðið fyrir gríðarlegu ofbeldi og verulegum skakkaföllum í lífinu. „Mér finnst ekki réttlætanlegt að nota svoleiðis hugtök um þessa stöðu sem er núna. Við erum ekki í neinu einelti.“ |
Samskip gagnrýna að gögn sem fengin eru með húsleit hafi ratað til fjölmiðla. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að það sé með öllu óásættanlegt að stjórnvöld afhendi fjölmiðlum slíkar upplýsingar.
Samskip hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta um ætlað samráð á flutningamarkaði. Þar segir að starfsemi Samskipa hafi ávallt grundvallast á samkeppni á öllum mörkuðum og félagið hafi verið leiðandi í að skapa virka samkeppni.
Trúnaður ekki til staðar
Samskip lýsa því yfir að skýr samkeppnislög og skilvirkt eftirlit séu nauðsynleg til að tryggja heilbrigt atvinnulíf. Það sé sjálfsögð og eðlileg krafa að trúnaður ríki um gögn sem aflað er við húsleit, með dómsúrskurði, á meðan mál eru til rannsóknar. Sá trúnaður er ekki til staðar, segir í yfirlýsingunni. Gögnum hafi verið komið til fjölmiðla um mál sem ekki er búið að ákveða hvort tekið verður til rannsóknar, og áður en ákærur hafi verið gefnar út.
Samskip segja með öllu óásættanlegt að stjórnvöld, hvort sem það er Samkeppniseftirlitið eða Sérstakur saksóknari, afhendi fjölmiðlum upplýsingar þar sem bornar eru á fram alvarlegar sakir, sem hlutaðeigandi einstaklingar og fyrirtæki hafa ekki verið upplýstir um og hafa enga möguleika á að svara fyrir sig eða bera hönd fyrir höfuð sér með neinum hætti.
Yfirlýsing frá Samskipum:
„Vegna frétta síðustu daga um ætlað samráð á flutningamarkaði vilja Samskip koma eftirfarandi á framfæri:
Félagið starfar af heilindum á markaði þar sem ríkir virk samkeppni. Það er skoðun okkar að skýr samkeppnislög og skilvirkt eftirlit séu nauðsynleg til að tryggja heilbrigt atvinnulíf.
Starfsemi Samskipa hefur ávallt grundvallast á samkeppni á öllum mörkuðum og félagið hefur verið leiðandi í að skapa virka samkeppni. Samskip hafa verið óhrædd við að benda eftirlitsaðilum á þegar félagið telur að keppinautar á markaði fari ekki að lögum. Ábendingar okkar til Samkeppniseftirlitsins hafa m.a. leitt til sektargreiðslna eins af samkeppnisaðilum okkar.
Eftirlitsaðilar gegna ábyrgðarmiklu hlutverki og heimildir þeirra til rannsókna eru afar víðtækar. Því er það sjálfsögð og eðlileg krafa að trúnaður ríki um gögn sem aflað er með jafn inngripsmikilli aðgerð og húsleit, með dómsúrskurði, á meðan mál eru til rannsóknar. Sá trúnaður er ekki til staðar og gögnum hefur verið komið til fjölmiðla um mál sem ekki er búið að ákveða hvort tekið verður til rannsóknar, hvað þá að ákærur hafi verið gefnar út.
Það er með öllu óásættanlegt að stjórnvöld (Samkeppniseftirlitið eða Sérstakur saksóknari) afhendi fjölmiðlum upplýsingar þar sem bornar eru á aðila alvarlegar sakir, sem hlutaðeigandi einstaklingar og fyrirtæki hafa ekki verið upplýstir um og hafa enga möguleika á að svara fyrir sig eða bera hönd fyrir höfuð sér með neinum hætti.
Það er vægast sagt undarlegt að vera leiksoppur í því sem virðist vera barátta ríkisstofnana fyrir tilvist sinni og/eða auknum fjárveitingum og gersamlega óásættanlegt að orðspori, mannorði og sjálfsögðum mannréttindum sé ýtt til hliðar fyrir slíka hagsmuni.
Hjá Samskipum starfa yfir 500 manns. Starfsfólkið og fjölskyldur þeirra þurfa að sitja undir órökstuddum dylgjum um mál sem enn er til skoðunar. Í gær sendi Samkeppniseftirlitið frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að eftirlitið sé „ekki reiðubúið að staðfesta þá umfjöllun sem fram kom í Kastljósi í gærkvöldi. Þá skal sérstaklega tekið fram að rannsókn málsins er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar.“ Rétt er því að varast að fella dóm í málinu en bíða eftir því að niðurstaða liggi fyrir. Samskip hafa ekkert að fela og treysta því að niðurstaða skoðunar Samkeppniseftirlitsins og Sérstaks saksóknara sýni það.
Við vitum að ábyrgð okkar er mikil og við erum meðvituð um þær skyldur sem við berum gagnvart viðskiptavinum okkar og þá um leið almenningi í landinu. Starfsfólk Samskipa hefur unnið ötullega og eftir bestu samvisku að því að stuðla að virkri samkeppni og aukinni hagsæld á Íslandi með því að bjóða viðskiptavinum sínum hagkvæmar lausnir í flutningum og flutningatengdri þjónustu atvinnulífinu í landinu og samfélaginu öllu til heilla.“ |
Þrátt fyrir að tæplega tveir mánuðir séu liðnir síðan bankahrunið dundi yfir hefur íslenskum fyrirtækjum gengið illa að ná upp eðlilegum bankaviðskiptum á milli landa. Enn eru verulega vandkvæði að taka á móti gjaldeyri og skila honum frá sér. Mörg íslensk fyrirtæki gripu til þess ráðs að nota dótturfélög í Færeyjum eða stofna bankareikninga þar og náðu þannig að halda samskiptum við erlenda viðskiptavini.
Einn þeirra sem notuðust við dótturfélag í Færeyjum segir að þeir hafi strax brugðið á það ráð að nota reikninga þar til að eiga samskipti við erlenda viðskiptavini. ,,Við eigum félag í Færeyjum og ákváðum því að nota þá leið. Það var ekki eins og við værum að velja eitthvert land heldur var þetta heppilegasta staðan. Við létum erlenda viðskiptavini leggja inn á reikninga þar til að hafa aðgengi að gjaldeyri sem við gátum notað til að halda þessu gangandi. Annars hefðum við lent í hrikalegum vandræðum og lentum reyndar í vandræðum eins og flest íslensk fyrirtæki,” sagði þessi fyrirtækjastjórnandi.
Hann benti á að rétt eins og öll önnur íslensk fyrirtæki þá voru þeir með beiðnir inn í Landsbankanum sem voru í biðröð og nutu ekki forgangs. Á tímabili hafi stefnt í alvarlegt ástand. Með því að fara færeysku leiðina hefðu þeir haft aðgengi að fjármunum sínum og það hefði gengið hnökralaust.
Enn er gríðarlegur skortur á gjaldeyri og erfitt að verða sér út um hann og fyrirtæki eru því að lenda í miklum vandræðum. Sumir viðskiptavinir sýna þessu skilning á meðan aðrir trúa ekki því sem gengur á. Því er langt í frá að þetta sé hnökralaust og stjórnvöld vilja vera láta. Því halda þeir sem notað hafa Færeyjaleiðina henni opinni áfram. |
Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til þess að útvega Félagsstofnun stúdenta lóðir undir 600 námsmannaíbúðir á næstu fjórum árum. Þetta var innsiglað með samningi borgarinnar við Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands sem undirritaður var í dag.
Kveðið er á um það í samningnum að meirihluti íbúðanna skuli vera staðsettur í nágrenni miðborgarinnar. Meðal þeirra svæða sem verið er að skoða er svokallað Hlemmur + svæði, nágrenni Hverfisgötu, nágrenni hafnarsvæðisins og Vatnsmýri. Samstarf og samráð verður við Háskóla Íslands vegna hugsanlegrar uppyggingar í nágrenni við Háskólann segir í tilkynningu borgarinnar.
Þar kemur einnig fram að hluti íbúðanna verði einnig á nýbyggingarsvæðum og verður sérstaklega tekið mið af þörfum stúdenta með fjölskyldur eins og við Sléttuveg og í Úlfarsárdal. Á miðborgarsvæðum verður uppbygging miðuð við að bílastæðakröfur stúdenta séu almennt lægri en gengur og gerist og skuldbinda Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands sig til að framfylgja þeim markmiðum eftir með áherslu á fjölbreytta samgöngukosti.
Þá er ætlunin að blanda saman hefðbundinni íbúðabyggð og uppbyggingu fyrir stúdenta til að stuðla að fjölbreyttri íbúabyggð á uppbyggingarreitum jafnt á þéttingar- sem og nýbyggingarsvæðum.
Stofnaður hefur verið samráðshópur sem skipaður er fulltrúa skipulags- og byggingasviðs, fulltrúa framkvæmda- og eignasviðs, fulltrúum frá Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráði Háskóla Íslands og ber hann ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar og tryggir náið og stöðugt samráð á milli aðila um tækifæri og fyrirkomulag uppbyggingarinnar. |
Frakkland og Danmörk mættust í seinni leik dagsins í A-riðli á Evrópumóti kvenna í handbolta sem fram fer í Danmörku þessa dagana. Eftir mikinn baráttuleik voru það Frakkar sem báru sigur úr býtum og fara með fjögur stig í milliriðil.
Frakkland og Danmörk eru tvær af sterkustu þjóðum heims í kvennahandbolta og það var mikið í húfi fyrir þennan leik stórleik, sigurvegari leiksins gat farið með fjögur stig í milliriðla sem gæti reynst dýrkeypt þegar líður á mótið.
Mikið fjör var í leiknum til að byrja með og hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu. Fyrir þennan leik höfðu þessi lið fengið á sig fæst mörk allra á mótinu og því ljóst að barátta og markvarsla einkennir þessi lið. Sú varð einmitt raunin og varnir beggja liða spiluðu virkilega vel framan af, sömu sögu má segja um markmennina Amandine Leynaud og Söndru Toft. Liðin skiptust eins og áður sagði á að skora allt þar til undir lok fyrri hálfleiks þegar Laura Flippes skoraði annað mark Frakka í röð og kom Frökkum 12-11 yfir sem var staðan í hálfleik.
Í lok fyrri hálfleiks og í byrjun seinni hálfleiks hikstaði sóknarleikur Dana all verulega, þær fundu engin göt á sterkri vörn Frakka og Frakkar gengu á lagið sóknarlega. Pauline Coatanea kom Evrópumeisturunum 16-12 yfir þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og danska liðið virtist ráðalaust. Staðan varð svo enn verri þegar Alexandra Lacrabere kom Frökkum fimm mörkum yfir í stöðunni 18-13 með marki úr vítakasti stuttu síðar. Þennan mun náðu Danir ekki að vinna til baka og þurftu að játa sig sigraða í leikslok, þetta er fyrsti leikur sem gestgjafarnir tapa en þær fara í milliriðla með tvö stig á meðan Frakkar taka með sér fjögur. Lokatölur urðu 23-20 og var Amandine Leynaud valin best í leikslok eftir að hafa varið 11 skot í marki Frakka. |
Átján ára piltur sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi neitaði ofsaakstri fyrir dómi í morgun. Sérfræðivitni bar að bíllinn hefði farið of hratt til að mynd af honum næðist á eftirlitsmyndavél.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í dag en það var í ágúst á síðasta ári sem Eyþór Darri Róbertsson lést, 17 ára gamall, eftir að bíll sem hann var farþegi í hafnaði á húsvegg. Eyþór höfuðkúpubrotnaði og var slökkt á öndunarvél tveimur dögum eftir slysið. Ökumaður bílsins var einn besti vinur Eyþórs. Hann mætti fyrir dóm í fylgd bróður síns og föður. Aðstandendur Eyþórs Darra voru einnig mættir. Ökumaðurinn sagði fyrir dómi í morgun að hann hefði verið á 70 kílómetra hraða áður en slysið varð. Í ákæru segir að ætlaður hraði sé 119 kílómetrar á klukkustund. Mögulegur lágmarkshraði sé 102 en mögulegur hámarkshraði sé 136 kílómetrar á klukkustund. Leyfilegur hámarkshraði var 50. Pilturinn sem ók sagði að þeir hafi verið þrír í bílnum og að við götuljósin við Hörpu hafi þeir staðnæmst á rauðu ljósi við hliðina á sams konar bíl og séð að þar voru þrjár stúlkur. Auk ökumannsins kom farþegi bílsins fyrir dóminn í morgun sem og allar stúlkurnar. Fram kom að strákarnir höfðu verið að fíflast í þeim á ljósunum, þeir hækkað í græjunum og veifað til þeirra. Þær veifuðu á móti og brostu. Öll neituðu þau að hafa verið í spyrnukeppni en ökumenn beggja bíla gáfu engu að síður í þegar græna ljósið kom. Þá fannst þeim ómögulegt að áætla hraða bílsins sem Eyþór Darri var í. Ein stúlkan taldi ökumanninn þó hafa ekið glannalega, mun hraðar en aðrir bílar á Geirsgötunni og sveigt á milli þeirra. Eftir að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum lenti bíllinn á þessum steini hér. Steinninn, sem vegur tæpt hálft tonn, lenti hér á þessum húsvegg og það gerði bíllinn líka sem bókstaflega flaug og lenti með framljósin hér í tæplega tveggja metra hæð. Meðal sérfræðivitna sem komu fyrir dóminn var prófessor í vélaverkfræði sem kom að rannsókninni og sagði útilokað að bíllinn hefði verið á undir 100 kílómetra hraða. Þá sagði hann að eftirlitsmyndavél á svæðinu með 15 metra sjónsvið og tók tvær myndir á sekúndu hafi aldrei náð mynd af bílnum sem staðfesti fyrra mat. |
Kjör eldri borgara dragast stöðugt aftur úr kjörum annarra hópa í samfélaginu. Þetta segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Hún segir að hópur eldri borgara eigi ekki fyrir jólagjöfum handa barnabörnum sínum.
Þórunn var gestur Óðins Jónssonar á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar sagði hún að þótt miklum tíma hafi verið varið í umræður um kjör eldri borgara á lokadögum Alþingis hafi ekki náðst nein niðurstaða um að laga þeirra kjör.
„Fyrir ári hækkuðu lífeyristekjur um 3%. Þá er ég að tala um frá almannatryggingum. En árið á undan var launaþróun upp á 6%. Þannig að ár eftir ár upplifir þetta fólk þessa miklu skerðingu. Árið þar á undan hækkaði um 3,6% en launaþróun var 5,8%. Þannig að það er þessi upplifun, okkar, kjaranefnda og annarra, á því að það vanti alltaf upp á.“
Þið dragist sem sagt alltaf meira og meira aftur úr?
„Að okkar mati gerum við það. Og við höfum verið í viðræðum við ráðuneytin í haust um hvernig nákvæmlega þetta er allt reiknað út. Vegna þess að 69. grein almennatryggingalaga segir að líta skuli til launaþróunar. Og menn takast meira að segja á um það orð.“
En nú benda ráðamenn á að þetta sé veruleg krónutöluhækkun sem þessi hópur er að fá.
„Það er það. En enn og aftur, þá er verið að tala um prósentur og krónur. Til dæmis ef við horfum til pars sem býr saman og er að fá um 193 þúsund á mánuði, þá er það fólk að fá innan við 20 þúsund krónur í hækkun. Hinir sem búa einir eru að fá kannski 22 þúsund króna hækkun. Þetta á ekkert skylt við það sem var að gerast á almenna vinnumarkaðnum.“
Þórunn segist hafa miklar áhyggjur af stórum hópi eldri borgara.
„Til okkar kemur fólk sem á ekki fyrir jólagjöfum fyrir barnabörnin sín, og verður að spara við sig í mat og öðru. Og það er líka hópur fólks sem fær pening í vasann frá börnunum sínum. Og það er ekki það samfélag sem við héldum að við værum í.“
Sýnist þér að afkoma ríkissjóðs sé þannig að hægt sé að gera betur?
„Það er engin spurning. Og þegar við fórum á fund fjárlaganefndar drógum við þetta fram. Og við drógum það líka fram að veikasti hlekkurinn er sá sem fær sérstaka uppbót. Og við lögðum það á borðið fyrir fjárlaganefnd. Og margt af því sem við sögðum virtist koma þeim á óvart. Og Vigdís Hauksdóttir tekur það upp í fréttum í gær og vill gera eitthvað betur,“ segir Þórunn. |
Þau fyrirtæki sem vegnar hvað best til lengri tíma eiga það sameiginlegt að þeim stjórnar fólk sem tekst vel að draga fram ólík sjónarmið starfsmanna við ákvarðanatöku. Opnar spurningar og erfiðar vangaveltur eru þar boðnar velkomnar og sama á jafnvel við um ágreining.
Þetta gerist ekki nema fyrirtækið hafi á að skipa öflugum stjórnendum með ólíkan bakgrunn og þankagang. Sem leið að þessu markmiði hafa fyrirtæki þróað með sér ýmsar aðferðir til að hæfustu einstaklingarnir manni hverja stöðu. Sérhæfð ráðningafyrirtæki aðstoða við að búa til góða liðsheild og fremstu fyrirtækin nota þróaðar aðferðir við ráðningar og frama starfsfólks til að finna þann rétta í starfið.
Í þessu ljósi er fróðlegt að velta fyrir sér aðferðunum sem er beitt þegar skipað er á lista stjórnmálaflokka. Augljóst er, ekki síður en í rekstri fyrirtækja, að miklu máli skiptir að í stjórnmál veljist hæfir einstaklingar með ólíkan bakgrunn og reynslu, bæði konur og karlar. Til að slíkt gerist er nauðsynlegt að ferlið sem notað er til að laða fólk til starfa í stjórnmálum stuðli að því að öflugt fólk hafi bæði áhuga og möguleika á að komast að og að reynsluheimur þeirra, sem að lokum mynda hóp kjörinna fulltrúa, sé sem fjölbreytilegastur.
Af þessu er ljóst að vandasamt er að skipa fólk á framboðslista. Á Íslandi hafa forval og prófkjör verið áberandi síðustu áratugi hjá öllum flokkum vegna réttmætrar gagnrýni á skort á lýðræði við uppstillingar. Prófkjör, forval og persónukjör geta þó dregið úr fjölbreytni þeirra einstaklinga sem veljast til áhrifa innan stjórnmálaflokka til lengri tíma litið. Einstaklingar sem velja að taka þátt í þeim hanaslag sem persónukjör getur verið, eru líklegri til að eiga margt sameiginlegt á sama hátt og þeir sem tækju aldrei þátt í persónukjöri eru frekar af sama sauðahúsinu. Mun meiri líkur eru á að mannblendinn og opinskár einstaklingur taki þátt í prófkjöri en sá sem er hlédrægur, hógvær og ómannblendinn. Marga skortir þannig þá eiginleika sem nauðsynlegir eru til að taka þátt í prófkjörum en geta samt sem áður búið yfir eiginleikum sem gera þá að frábærum þing- eða sveitarstjórnarmönnum. Það er mjög mikilvægt að á Alþingi og í sveitarstjórnir, líkt og í bestu fyrirtækin, veljist fjölbreyttur hópur einstaklinga hvort sem þeir eru félagslyndir eða ómannblendnir, opinskáir eða feimnir. Svo fremi sem þeir séu öflugir.
Uppstilling er einnig síður en svo gallalaus. Mun færri koma þannig að því að velja á lista og lýðræði því í lágmarki. Vandasami þátturinn í uppstillingarferlinu er að velja gott og víðsýnt fólk í valnefndir sem misnotar ekki aðstöðu sína og tryggir eingöngu pólitískum bandamönnum sínum sæti. Uppstilling getur þó virkað vel ef fulltrúar í valnefndum ná að hugsa til framtíðar og kalli, líkt og stjórnandi fyrirtækis, eftir öflugum en ólíkum einstaklingum sem spyrja ólíkra spurninga og ná til ólíkra hópa.
Aukin krafa um persónukjör endurspeglar vilja kjósenda til að hafa aukin áhrif á hverjir verða kjörnir fulltrúar án þess að þurfa að taka þátt í forvali flokkanna. Flestir vilja hafa bein áhrif á val þingmanna og vilja jafnvel fá að stilla upp sínum eigin lista. Þetta er réttmæt krafa og eitthvað sem þingmenn verða að ræða ýtarlega hvernig megi útfæra. Vera má að þessi skortur á beinum áhrifum kjósenda sé hluti skýringarinnar á litlu trausti til Alþingis. Persónukjör gæti þó fælt enn frekar frá þann hóp frambjóðenda sem forðast hefðbundin prófkjör en gæti annars orðið þjóðinni öflugur liðsauki því það er enn vandasamara að kynna sig og sín sjónarmið fyrir heilli þjóð en litlum hluta hennar í prófkjöri.
Besta leiðin væri að skipta reglulega um leiðir við val á þing- og sveitarstjórnarmönnum þannig að lýðræðið fái að njóta sín til skiptis við uppstillingu þar sem nýtt fólk úr ólíkum áttum er fengið til starfa. Færa má sterk rök fyrir því að flokkarnir verði einnig að sækja fólk út í samfélagið, fólk með ákveðinn bakgrunn sem að öllu jöfnu tæki aldrei þátt í prófkjörsslag. Hugsanlega mætti velja hluta listans með prófkjöri og hluta með uppstillingu eða reyna aðferð breska Íhaldsflokksins þar sem áhugasamir skila inn ferilskrá og fara í gegnum svipað ferli og þegar sótt er um starf í fyrirtæki.
Mögulega þurfa flokkar að eiga í handraðanum skýrar reglur um nokkrar leiðir við val á lista sem gefa ólíkum einstaklingum tækifæri hverju sinni. En þar til fjölbreytnin eykst ættu flokksbundnir einstaklingar, sem ætla að velja fólk á framboðslista næstu vikur, að hafa í huga mikilvægi þess að öflugt fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu veljist til starfa á Alþingi. |
„Þessi rök hafa aldrei verið notuð í yfir 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins, svo Týr viti."
Það kom mörgum á óvart að Jón Gunnarsson yrði fyrir valinu sem einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Eftir að valið var tilkynnt spurði Ríkisútvarpið Jón hvort hann hefði sóst hart eftir því að verða ráðherra. „Ekkert harðar en bara svona gengur og gerist meðal þingmanna. Ég tel mig vera ágætlega að þessu kominn. Hef sterkt umboð úr síðustu kosningum og mínu kjördæmi," svaraði Jón að bragði.
* * *
Nú er ekki víst að þetta sé Íslandsmet í þvælu, en það lætur nærri. Í fyrsta lagi vita allir sem eitthvað vita um innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins að Jón Gunnarsson sóttist gríðarlega hart eftir því að verða ráðherra, ásamt nokkrum stuðningsmanna sinna. Þar voru notuð þau rök að í raun væri enginn ráðherra úr kjördæminu, því Bjarni Benediktsson væri ráðherra vegna stöðu sinnar sem formaður flokksins. Þessi rök hafa aldrei verið notuð í yfir 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins, svo Týr viti.
* * *
Svo er það stuðningurinn. Jón fékk 23,8% atkvæða í annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi sem fór fram í júní. Til samanburðar er gagnlegt að skoða niðurstöðu prófkjörs í Suðurkjördæmi. Guðrún Hafsteinsdóttir fékk 48,2% atkvæða í fyrsta sæti listans. Hún bauð sig gegn sitjandi þingmanni í kjördæminu en almennt er talið að sitjandi þingmenn hafi forskot í prófkjörum.
* * *
Það er því í besta falli algjört rugl að halda því fram að Jón Gunnarsson hafi notið einhvers sérstaks stuðnings. Reyndar væri hægt að halda því fram að stuðningurinn hafi verið mjög lítill fyrir sitjandi þingmann til 14 ára og ritara flokksins. Í raun alveg ömurleg niðurstaða fyrir Jón.
* * *
Það kunna að vera aðrar málefnalegar ástæður fyrir valinu á Jóni Gunnarssyni og ástæða til að óska honum farsældar í starfi. En hvorki hann né formaður flokksins eiga að fara með ósannindi um þær – frekar að sleppa því að ræða þær.
* * *
Að mati Týs missti Sjálfstæðisflokkurinn af ágætu tækifæri. Í fyrsta sinn í sögu hans lá beinast við að meirihluti ráðherra Sjálfstæðisflokksins yrðu konur. Ekki vegna þess að þær eru konur, heldur af því að þær eru oddvitar í sínum kjördæmum og hæfar. Týr skilur bara alls ekki hvers vegna þetta tækifæri var látið fara forgörðum.
Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. |
Russell Westbrook er kominn í þrennuformið og með sinni þriðju í síðustu fjórðum leikjum þá komst hann upp í þriðja sætið yfir flestar þrennur í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.
Þetta var líka þrennukvöld fyrir gamla liðsfélaga hans James Harden en líkt og 54 stig Harden dugðu ekki í fyrrakvöld þá dugði þrennan hans ekki í nótt. Houston Rockets tapaði með 20 stigum á heimavelli á móti Dallas Mavericks.
Russell Westbrook var með 23 stig, 19 fráköst og 15 stoðsendingar í 100-83 sigri Oklahoma City Thunder á Cleveland Cavaliers. Þetta var 107. þrennan hans á ferlinum og er hann nú kominn upp við hlið Jason Kidd í þriðja sæti listans.
Nú eru aðeins þeir Oscar Robertson (181) og Magic Johnson (138) fyrir ofan Russell Westbrook. Kidd þurfti 1247 leiki til að ná þessum 107 þrennum sínum en þetta var bara 760 leikur Westbrook.
Russell Westbrook missti af fyrstu leikjum tímabilsins eftir að hann fór í hnéaðgerð á undirbúningstímabilinu. Liðið tapaði fjórum fyrstu leikjum sínum en hefur nú unnið 13 af síðustu 16.
Þrennan í nótt var þriðja þrenna Russell Westbrook í síðustu fjórum leikjum. Hann var líka með þrennu á móti meisturum Golden State Warriors (11 stig, 11 fráköst, 13 stoðsendingar) og Denver Nuggets (16 stig, 10 fráköst, 12 stoðsendingar) og er farinn að nálgast þrennumeðaltali sem hann hefur verið með undanfarin tvö tímabil.
Nýliðinn Luka Doncic var með 20 stig á aðeins 24 mínútum þegar Dallas Mavericks vann laufléttan 128-108 útisigur á Houston Rockets. Það hefur bæði gengið illa á útivelli í vetur og á móti Houston undanfarin ár en slóvenska undrabarnið er að breyta miklu fyrir Dallas-liðið.
James Harden var með 25 stig, 17 stoðsendingar og 11 fráköst fyrir Houston en það var langt frá því að duga alveg eins og 54 stiga leikur hans í fyrrinótt. Liðið saknar mikið Chris Paul sem er meiddur en þetta var fjórði tapleikurinn í röð.
Hinn 19 ára gamli Doncic hefur nú skorað tuttugu stig eða meira í 10 af 18 leikjum tímabilsins og hann hefur farið fyrir betri leik Dallas-liðsins að undanförnu. Dallas tapaði 8 af fyrstu 11 leikjum sínum en þetta var þriðji sigurleikurinn í röð.
Damian Lillard setti niður 10 þriggja stiga körfur og skoraði alls 41 stig í 115-112 sigri Portland Trail Blazers á Orlando Magic. Þetta er nýtt met hjá Portland í þristum í einum leik en Lillard hitti úr 10 af 15 þriggja stiga skotum í leiknum.
Giannis Antetokounmpo bætti við enn einum stórleiknum í 116-113 sigri Milwaukee Bucks á nágrönnunum í Chicago Bulls. Giannis var með 36 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar.
Úrslitin í NBA-deildinni:
Los Angeles Clippers - Phoenix Suns 115-99
Portland Trail Blazers - Orlando Magic 115-112
Houston Rockets - Dallas Mavericks 108-128
Milwaukee Bucks - Chicago Bulls 116-113
Minnesota Timberwolves - San Antonio Spurs 128-89
New Orleans Pelicans - Washington Wizards 125-104
Oklahoma City Thunder - Cleveland Cavaliers 100-83
Brooklyn Nets - Utah Jazz 91-101
Charlotte Hornets - Atlanta Hawks 108-94
Philadelphia 76ers - New York Knicks 117-91 |
Lokað verður fyrir umferð um Ölfusárbrú á miðnætti vegna framkvæmda. Aftur verður opnað fyrir umferð klukkan sex í fyrramálið. Brúnni verður lokað á ný klukkan átta annað kvöld og verður nýtt brúargólf steypt um nóttina. Steypan þarf að þorna í nokkra daga og er áætlað að brúin verði lokuð til 20. ágúst.
Gangandi vegfarendur komast um brúna meðan á framkvæmdum stendur, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Hjáleiðir fyrir ökutæki verða meðal annars um Þrengsli og Óseyrarbrú á Eyrarbakkavegi. Í uppsveitum eru hjáleiðir um Biskupstungnabraut, Skálholtsveg, Bræðratunguveg og Skeiðaveg.
Brúin er orðin mjög slitin og hjólför orðin 40 til 50 millimetra djúp, að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Yfir sumartímann er um 17.000 bílum ekið yfir brúna á sólarhring. Brúin er 6,1 metri að breidd og er áætlað að vinnusvæði verði um 3,3 metrar á breidd og því ekki mögulegt að halda einni akrein opinni fyrir almennri umferð. Vinna myndi tefjast mikið með umferðarstýringu, segir um ástæður lokunarinnar á vef Vegagerðarinnar.
Ákveðið var að steypa brúargólfið í ágúst svo að steypan yrði fljótari að harðna, skólar ekki byrjaðir og aðeins farið að hægja á umferð ferðamanna.
Uppfært:
Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er von á rigningu á morgun og koma rigningarskýin fyrr að landi en upphaflega var gert ráð fyrir. Flýta þarf því lokun brúarinnar á mánudag um fjórar klukkustundir. Brúin verður því lokað klukkan 16 í stað klukkan 20, mánudaginn 13. ágúst. |
Starfsgreinasamband Íslands (SGS) mótmælir harðlega þeirri gróflegu mismunun sem Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) ætlast til að sveitarfélögin sýni gagnvart sínu starfsfólki. Kjaradeila SGS og sveitarfélaganna er í hörðum hnút og var vísað til Ríkissáttasemjara vegna þess að Samninganefnd sveitarfélaganna krafðist þess að SGS félli frá fyrirliggjandi samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda og það yrði ekki rætt í kjaraviðræðunum.
Vegna þess hversu samningaviðræður við sveitarfélög og ríki hafa dregist náðist samkomulag, þ.e. við aðra samningsaðila en SGS, að starfsfólk með lausa kjarasamninga fengi eingreiðslu að upphæð 105.000 kr. sem greiðist út 1. ágúst sem innágreiðsla fyrir nýjan kjarasamning.
SÍS hefur ákveðið einhliða að félagsmenn í félögum innan SGS fái ekki þessa eingreiðslu, og hefur sent póst til allra sveitarfélaga þar sem þeim er beinlínis bannað að koma eins fram við alla sína starfsmenn. Hér er greinilega verið að reyna að kúga SGS til uppgjafar og ótrúlegt að sveitarfélögunum finnist það sæmandi að greiða ekki lægst launaða starfsfólkinu umrædda eingreiðslu líkt og öðrum.
Sambandið hefur borið það fyrir sig að eingreiðslan þurfi að tengjast tæknilegum atriðum um endurskoðun viðræðuáætlunar sem á sér enga lagastoð og er hreinn fyrirsláttur. Af sama meiði eru yfirlýsingar af hálfu SÍS um að það sé á einhvern hátt óheimilt að ræða stöðuna og deilumálin í fjölmiðlum. Það bendir til þess að þau vita að málatilbúnaður þeirra og rökstuðningur er afar veikur.
Næsti viðræðufundur í deilunni er ekki boðaður hjá Ríkissáttasemjara fyrr en 21. ágúst næstkomandi. Í ljósi þess og þeirra einstrengislegu fyrirmæla sem fram koma í pósti sambandsins hefur SGS boðað til sérstaks formannafundar 8. ágúst til að ræða þessa alvarlegu stöðu og ákveða næstu skref. SGS krefst þess að störf og framlag okkar félagsmanna í þágu sveitarfélaganna um land allt verði virt og þeim ekki mismunað með þessum gróflega hætti. Haldi Samband íslenskra sveitarfélaga þessari afstöðu til streitu er hætta á að það þýði hörð átök.
Af ein.is |
X var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa sparkað tvisvar sinnum í höfuð brotaþola á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur svo að hann hlaut af áverka á andliti. Var héraðsdómur staðfestur um annað en refsingu X og hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið að hluta, og til greiðslu skaðabóta til handa brotaþola.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hafsteinn Kristófer Dvalinsson, Friðjón Gunnlaugur Unnsteinsson og Hans Ernstsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru að öðru leyti en því að hafa sparkað einu sinni í höfuð brotaþola, A, en til vara er krafist refsilækkunar þótt sakfellt verði samkvæmt ákæru. Þá krefst hann lækkunar á dæmdum bótum til handa brotaþola og þess að þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði greiðist úr ríkissjóði.
Brotaþoli krefst staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur sér til handa.
Ekki eru efni til að fallast á að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt svo einhverju skipti fyrir úrslit málsins. Þótt ekki verði fullyrt um hversu oft ákærði sparkaði í höfuð tjónþola þar sem hann lá á gólfi veitingastaðarins Apóteksins við Austurstræti er sannað að ákærði sparkaði oftar en einu sinni. Verður við það miðað að hann hafi sparkað tvisvar sinnum í höfuð tjónþola sem hlaut svokallaða háorkuáverka á andliti, svo sem fram kom í vætti Daða Más Ónesímussonar munn- og kjálkaskurðlæknis fyrir héraðsdómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Þegar litið er til atvika allra og afleiðinga árásar ákærða verður refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Á hinn bóginn verður fallist á með héraðsdómi að binda refsinguna skilorði að hluta, eins og greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 373.348 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Theódórs Arnþórs Ottóníussonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur og málskostnað A fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur. |
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 27. apríl, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 9. október 2015, á hendur X, ..., ... „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa föstudaginn 13. júní 2014, á hótelherbergi á Fosshótel ... við ... á ..., við störf sem heilunarmiðill, ítrekað snert og strokið kynfæri Y utanklæða, viðhaft kynferðislegt tal við hann og hvatt Y til að fróa sér að ákærða viðstöddum. Telst þetta varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu Y, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. júní 2014 til greiðsludags af framangreindri fjárhæð.“ Þá er gerð krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2014 til greiðsludags. Einnig er krafist þóknunar til handa réttargæslumanni vegna réttargæslustarfa. sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008 sbr. 216. gr. sömu laga.
Ákærði neitar sök. Hann krefst sýknu og þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi og sýknu af bótakröfu.
Málavextir
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom Y, hér eftir nefndur brotaþoli, á lögreglustöðina ... kl. 17:00 hinn 13. júní 2014 og var í fylgd afa síns og ömmu. Kvaðst brotaþoli vilja kæra X, ákærða í máli þessu, fyrir kynferðisbrot sem hann hefði framið á hótelherbergi þar í bænum, er ákærði hefði tekið á móti brotaþola sem heilunarmiðill. Í skýrslunni er haft eftir brotaþola að ákærði hefði talað um að brotaþoli væri „með einhverja uppsafnaða spennu“ og hefði sett aðra hönd sína á brjóstkassa brotaþola en hina í klof honum. Því næst hefði ákærði þreifað á brotaþola utan klæða, „segir að hann finni að hann rísi en tekur þá höndina burt, segir mér að ég megi taka hann út og klára dæmið.“ Brotaþoli hefði neitað því. Í skýrslunni er meðal annars haft eftir brotaþola: „Ég segi honum ítrekað að nú sé komið nóg.“
Í málinu liggur hljóðupptaka af samskiptum ákærða og brotaþola umrætt sinn. Mun afi brotaþola, vitnið A, sem hafði frumkvæði að því að brotaþoli kom á hótelherbergið til ákærða, hafa skilið eftir upptökutæki á borði í herberginu og þannig mun upptakan til komin. Snemma í samtali ákærða og brotaþola beinist talið að samskiptum brotaþola við stúlkur, sem ekki hafi gengið vel. Segir ákærði þá: „Já já. Og svo náttúrulega færðu löngun og þá stækkar hann og þá þarf að gera eitthvað.“ Því svarar brotaþoli með orðunum: „Já já ég leysi það sjálfur.“ Í framhaldi af þessu verða talsverðar samræður um annað. Ákærði spyr svo: „Fer hún vel í þig þessi orka? Veitir hún þér slökun?“ og brotaþoli játar því. Ákærði segir þá: „ég finn að hún leysir þig eitthvað upp líka, finnst þér það?“ en brotaþoli segist ekki vita það. Ákærði segir þá: „Ja ég meina kemur einhver... þú veist eins og það sé eitthvað að harðna þarna niðri eða er það vitleysa hjá mér?“ Brotaþoli segir „Nei“. „Er hann að harðna?“ spyr ákærði. „Bara ósjálfrátt“ svarar brotaþoli. Í framhaldi af þessu segir ákærði: „Já það er allt í lagi, þá hefur orkan bara mjög góð áhrif á hann, vinnur bara á svæðið“. Síðan segir ákærði „Settu bara [heyrist ekki þar sem hann talar lágt] yfir hérna, veita honum frið. Er svolítið síðan þú losaðir úr honum?“ . „Kannski svolítið“ svarar brotaþoli. „Já, þess vegna er hann svona viðkvæmur þannig“ segir ákærði þá. Stuttu síðar segir ákærði: „Þú mátt alveg taka hann sjálfur og strjúka hann ef að þú vilt, þó að ég sé hér.“ Brotaþoli svarar „Nei þetta er allt í lagi.“ Ákærði hummar þá og brotaþoli segir: „Mér finnst þetta fínt bara svona, liggja svona eins og ég er.“ Ákærði segir þá: „Jæja elskan. Þó að ég komi svona við þig?“ „Já“ svarar brotaþoli. „Er þetta vont eða gott?“ spyr ákærði. „Bara þægilegt“ svarar brotaþoli. „Já. Ég er nú að setja orku allsstaðar.“ segir ákærði þá. Eftir nokkur orð þeirra um vöðvabólgu og fleira sem brotaþoli kveðst glíma við, segir ákærði: „Já við þurfum bara að gera góðverk á þér, ég held það bara, losa þig við þessar bólgur og pínur. Hana nú getur þú tekið við nú er komið nóg stuð í hann. Taktu bara utan um hann sjálfur og hafðu hendina þarna niðri þá getur þú notið þess, að innanverðu eða hvar sem að þú vilt hafa hendina.“ Þessu svarar brotaþoli með orðunum: „Bara fínt svona.“ Ákærði segir þá: „Já. Þá getur þú strokið um hann og við setjum orku, strokið upp eftir honum, já svona og fá hann til að rísa eða taka hann út bara og rísa, það er engin feimni í því hjá okkur hér. Já en er ekki þægilegra að leyfa honum að vera þarna á milli... buxunum hann réttir betur úr sér þá, ég held það, ef þú vilt. Þú ert feiminn við þetta elskan.“ Brotaþoli svarar: „Ha?“ Ákærði segir þá: „Ég sagði hafa hann utan við, þá getum við strokið hann betur á móti þér og við setjum orku á það. ... Finnur þú orkuna sem að kemur?... Nú mátt þú taka við ef að þú vilt.“ Brotaþoli svarar: „Nei þetta er gott.“ Ákærði svarar: „Ha?“ Brotaþoli segir: „Svona.“ Ákærði spyr: „Bara fínt?“ og brotaþoli játar því.
Allnokkru síðar, eftir umræður þeirra um annað, segir ákærði: „Já sko, komdu á bakið. Hvernig líður þér akkúrat núna?“ Brotaþoli svarar: „Afslappaður.“ Ákærði segir þá: „Er það ekki?“ og brotaþoli segir „Jú.“ Ákærði spyr þá. „Líður þér vel hérna inni hjá mér?“ og brotaþoli segir „já“ við því.
Af hálfu ákærða er í máli þessu byggt á að upptakan hafi verið gerð án vitundar hans og leyfis. Hann mótmælir að byggt verði á henni í málinu.
Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 7. júlí 2014. Lýsti hann þá að ákærði hefði þreifað á kynfærum brotaþola í fimm mínútur eða svo, þar á meðal strokið þau með fingrum upp og niður. Spurður hvort hann hefði sagt eitthvað á meðan á þessu hefði gengið svaraði brotaþoli: „Ég fraus.“ Sjálfur hefði brotaþoli ekki svarað tali ákærða um kynferðislega löngun.
Í málinu liggur vottorð H læknis um brotaþola, dags. 3. mars 2016. Segir þar meðal annars að brotaþoli eigi „við andlega vanheilsu að stríða. Strax á barnsaldri komu fram frávik hjá honum hvað varðar þroska og hegðun. Um sjö ára aldur, árið 2003, fór hann í uppvinnslu vegna ofvirkniröskunar, þráhyggju og áráttu, ásamt kækjasögu. Hann hafði þá þegar um 3-4 ára sögu um mikla kæki. Hafði einnig frá byrjun verið með mikil einkenni hvað varðar ofvirkni, athyglisbrest, hvatvísi og ýgi. Uppvinnslan leiddi í ljós að hann uppfyllti greiningarviðmið fyrir Tourette heilkenni og athyglisbrest með ofvirkni. Einnig var hann með óeðlilega lága vöðvaspennu. Skyn- og hreyfivandamál. Hegðunarerfiðleikar í skólanum. Síðar hefur hann greinst með ódæmigerða einhverfu. Hann var með umönnunarbætur fram að 18 ára aldri, en síðan verið öryrki vegna þessara sjúkdóma. [...] Hann sýndi nokkur geðrofseinkenni í júlí 2015 og lagðist inn á geðdeild Sjúkrahússins á ..., þar sem hann dvaldi í 3 vikur. Greindur með tvíhverfa lyndisröskun. Lyfjameðferð hans var þá einnig breytt. Hann hefur frá vorinu 2013 farið í viðtöl hjá sálfræðingi stöku sinnum vegna vanlíðunar og sjálfsvígshugsana. [Brotaþoli] mun hafa orðið fyrir kynferðisbroti í lok maí 2014, á .... Í kjölfarið leitaði hann á ný til E sálfræðings haustið 2014. Þessi atburður var honum mikið áfall og situr mikið í honum. Hann hefur sýnt klár einkenni áfallastreituröskunar. Á Becks þunglyndis og kvíðakvörðum mældist hann einnig með alvarleg einkenni á þeim báðum.“
Í málinu liggur læknabréf vegna ákærða, dags. 21. júní 2012, og undir skráð nöfn læknanna J og K. Segir þar meðal annars að ákærði hafi leitað til bráðalækninga Landspítalans vegna bakverkja sem leiði niður í fætur og máttarminnkunar. Þá segir einnig: „Einnig kveðst hann hafa verið ófær um holdris í a.m.k. 2 ár og vita þau hjón ekki upphaf þess, tengja það helst við forhúðaraðgerð, en velta einnig fyrir sér hvort gæti verið tengt fyrra spinal stenosu kasti.“
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði lýsti starfi sínu þannig að hann setti hendur sínar yfir sjúklinginn og væri sjálfur aðeins „millistykki“. Kæmi til sín mikil orka sem færi svo í sjúklinginn. Sjálfur hefði ákærði augun lokuð á meðan en opnaði í þeirra stað „þriðja augað“ og sæi þá „áruna“. Oftast væri ekki mikið um snertingar en því stýrðu þeir sem ynnu með honum, læknar að handan. Kynfæri væru hins vegar aldrei snert.
Um það tilvik sem hér er til umræðu sagði ákærði: „Ég er ekki að horfa á hann með mínum eigin augum og get því ekki fylgst með nákvæmlega en, hérna, það er ekki fyrr en að höndin þarf, ég að færa hana svona yfir, sem sagt, yfir á hérna mjaðmastykkið. sem er eldrautt, og eins lærið, að þá stoppar það hérna, þegar kemur eitthvað hérna við hægri höndina á mér og ég stoppa og opna á mér augun og sé þá að honum rís hold og ég spyr hann þá hvað sé í gangi, ef ég man þetta nokkurn veginn rétt. Og hann segir að sér líði svo ofboðslega vel, þetta sé svo góð orka. En ég sagðist ekki geta unnið svona. Við yrðum að, það yrði að gera eitthvað í þessu.“ Ákærði sagðist hafa þurft „að snúa honum við og [hefði sett] höndina á hérna mjaðmastykkið“ og bætti við: „Þeir vildu það, og á lærið. Það eru bara þessir tveir staðir sem að hendurnar á mér svona ja nánast snertu, kannski verið aðeins of nærri.“ Ákærði sagði að brotaþoli hefði rætt við sig kynferðislegar langanir sínar og hefði ákærði séð að „þessi orka sem að hann fékk, hún var enn til vandamála“ og hefði ákærði sagt „við hann, þú verður að setja höndina á þér yfir kynfærin þín og ég ætla að setja mínar fyrir ofan og setja kalda orku, fá kalda orku senda til þess að kæla þig niður. Þannig að ég geti haldið áfram að vinna. En svona get ég ekki unnið með þig. Það er ekki hægt. Það er ekki viðeigandi.“ Brotaþoli hefði verið alveg sammála.
Ákærði sagðist hafa þurft að ýta á mjaðmabein brotaþola, „vegna þess að tengingin á milli mjaðmabeins og lærleggs, þar sem að vöðvinn sko kemur saman, það var eitthvert vesen þar. Þurfti að ýta, ýta aðeins svona með lófunum, ég vinn alltaf með lófunum. Og þá sagði hann nú, ef ég man rétt, nú fer verkurinn.“ Ákærði var spurður um „strokhljóð“ sem heyrst hefðu á upptöku af samskiptum þeirra brotaþola og skýrði hann þau þannig að brotaþoli hefði legið uppi í rúmi í „nælonbuxum, gallabuxum, eða nælon, svona windbreaker-buxum sem að náðu sko við upp að mitti. Þannig að hann mátti ekki hreyfa sig, að þá fór að skjálfa og braka.“ Nánar spurður um þetta bætti ákærði við: „Já, þegar að ég fer yfir, þá myndast þessar bylgjur og ef að það hafa verið yfir eða nálægt gallafatnaði hjá honum að þá gæti hafa komið sko bylgjurnar á fötin, en það ætti ekki að hafa skrjáfað í þeim.“ Ákærði var spurður hvort hann hefði verið „eitthvað að hvetja hann til þess að fróa sér þarna á staðnum“ og svaraði hann: „þegar að hann fékk þetta holdris, og þessi orka, hann var alltaf að tala um að þessi orka hún færi svo ofboðslega vel í sig, að þá skynjaði ég það að honum fyndist að nú væri tími til kominn að fara að losa og ég hafði náttúrulega ekkert annað en bara salerni fyrir hann til að bjóða upp á.“ Ákærði hefði ekki hvatt brotaþola til slíks. Brotaþoli hefði sett höndina yfir kynfæri sín og ákærði hefði sett sína hönd þar fyrir ofan „og eftir það þá var hann bara alltaf með hendurnar í klofinu. Síðast þegar ég sá. En hvort að hann var eitthvað að skrjáfa þar yfir bara ég veit ekki, ég hafði um nóg annað að hugsa, eða ég var að fókusera inn á lærlegginn og mjaðmabeinið á honum, því hann kom draghaltur inn en hann fór óhaltur út.“ Ákærði var spurður hvort hann hefði „sagt við hann að hann gæti alveg tekið hann út og strokið honum ef að hann vildi.“ Ákærði svaraði: „Nei, ekki kannski, kannski ég sjálfur orðað það þannig við hann, en hann sko, ef að hann hefur verið að fitla við sig þarna niðri, ja ekki bað ég um það, og það held ég að við, þegar að ég bauð honum að hann gæti bara farið fram á salernið, því að tíminn var að renna út, þetta voru ekki nema eins og ég segi nítján mínútur sem að hann var inni hjá mér og þær eru fljótar að líða.“ Ákærði var nánar spurður hvort hann hefði sagt „að hann gæti alveg tekið hann út og strokið hann, liminn“, og sagðist ákærði ekki hafa orðað það þannig. Spurður hvort hann hefði sagt brotaþola „að taka hann út og fá hann til að rísa“ svaraði ákærði. „Það þurfti ekkert að taka neitt, hann var risinn.“ Bætti ákærði svo við: „Þessi orka, ég réði bara ekkert við, við reyndum að setja á hann kælingu eins og hægt var og hann var orðinn eldrauður í framan.“ Fyrst hefði gengið vel að „kæla“ brotaþola niður, en ákærði gæti ekki gert nema einn hlut í einu og hefði farið að „vinna aftur í lærinu á honum og bakinu“. Þegar borið var undir ákærða að brotaþoli hefði hjá lögreglu sagt að ákærði hefði viðhaft slík ummæli og þá verið að strjúka kynfæri hans utanklæða svaraði ákærði: „Ég var að strjúka, eins og ég var búinn að segja, sólarplexus, magastöðin, hvort að hefur getað verið að orkubylgjurnar hafi snert án þess að ég hafi tekið eftir því, ég sé það ekki vegna þess að ég er ekki að horfa með mínum augum heldur þarf að horfa með þriðja auganu, það er orkan sem að ég er að skoða og áran hans, en hendurnar á mér komu aldrei við hann, það er alveg 110 prósent.“ Mögulegt væri að orkubylgjur hefðu snert kynfæri brotaþola, „það er eini möguleikinn, því að hendurnar á mér komu aldrei við kynfæri drengsins.“ Mögulegt væri að brotaþoli hefði skynjað þessar orkubylgjur þannig að það væru hendur ákærða sem snertu sig, „því að hann er það mikill draumóramaður.“ Ákærði sagði brotaþola aldrei hafa beðið sig um að stöðva eða hætta meðferðinni. Hann hefði aldrei „frosið“ heldur þvert á móti verið glaður yfir að vera verkjalaus í fyrsta skipti í langan tíma. Eftir tímann hefði brotaþoli faðmað sig og þakkað sér með handabandi.
Ákærði sagðist hafa gengist undir aðgerð og við hana hefði farið í sundur „taug eða skyntaug fyrir hérna kynlíf“, með þeim afleiðingum að ákærði hefði „engar tilfinningar gagnvart kynlífi, engar.“ Hefði ákærði því engar kynhvatir.
Ákærði sagðist ekki hafa samþykkt hljóðritun fundar þeirra brotaþola. Slíkt leyfði hann á miðilsfundum en aldrei á lækningafundum. Afi brotaþola hefði sagt sér í síma, fyrir þennan fund, að hann hefði hljóðritað fyrri fund sinn og ákærða, og hefði ákærði þá sagt að slíkt væri bannað.
Ákærði var sérstaklega spurður út í orð sín af hljóðupptöku, þar sem hann hafi sagt „Þú mátt alveg taka hann sjálfur og strjúka hann ef þú vilt þó að ég sé hér.“ Ákærði sagðist hér hafa haft í huga „ef hann hefði frekar viljað klára sig og fara inn á bað.“ Ákærði var þá spurður um orðin „og þó að ég komi svona við“, og svaraði hann að hann teldi að það yrði „svolítið conflict á milli því sem er verið að skrifa niður og því sem að raunverulega er í sambandi, ég var að segja þér áðan frá, frá bylgjunum sem koma frá orkunni, að það skarist á, og það er erfitt að útskýra hvort að ég er að því eða þeir. Ég er náttúrulega ábyrgur fyrir öllu saman, hvað sem að þeir gera, þá verð ég að svara fyrir það.“ Ákærði tók fram í þessu samhengi að hendur sínar hefðu ekki snert á brotaþola. Þegar ákærði hefði notað orðin „þó svo að ég komi við þig“ hafi hann ekki átt við að hann kæmi við brotaþola með höndunum. Ákærði var sérstaklega spurður um orðin „Svona nú getur þú tekið við, nú er komið nóg stuð í hann“, og svaraði hann: „Þá erum við að tala um bylgjurnar. Það er búið að, sem sagt ljósið, hann fær þessa, þessa orkuspennu í sig, þessa góðu orku sem að virðist, hann er sá eini sem að ég veit um sem að hefur orðið fyrir kynferðislegri, hérna hvað eigum við að segja, ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir þetta, tilfinningu fyrir þessu, þessari tegund af orku. Ég hef aldrei heyrt að, þetta er fyrsti, fyrsta skipti.“
Borin voru undir ákærða ummæli brotaþola í lögregluskýrslu um að ákærði hefði hreyft kynfæri brotaþola til og frá og hefði strokið „svo fram og aftur þarna rétt yfir“. Ákærði hafnaði þessu sem algerlega röngu. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt orð hans.
Brotaþoli sagðist hafa verið í heimsókn á ... hjá ömmu sinni og eiginmanni hennar, A. A hefði sagt sér að á hótelinu í bænum væri staddur heilari úr ... og að sá gæti hjálpað sér „með möguleg kvíðavandamál“, einelti og vinaleysi. Þeir hefðu farið á hótelið á fund heilarans og hefði A haft orð fyrir þeim og meðal annars sagt ákærða að hann myndi skilja upptökutæki eftir á borði.
Brotaþoli lýsti fundi þeirra ákærða þannig að ákærði hefði beðið sig um að leggjast á rúmið en sjálfur sest á stól við rúmstokkinn. Þeir hefðu byrjað að tala saman, fyrst um æsku brotaþola, skólagöngu og slíkt en síðan hefði ákærði spurt hvort brotaþoli hefði átt í vandræðum með samskipti sín við stúlkur. Hefði brotaþoli játað því og vísað til feimni sinnar. Þarna hefði heilunin verið byrjuð. Ákærði hefði haldið höndinni yfir líkama brotaþola og sagst vera að finna orkuna og áruna. Hefði ákærði talið sig finna mikla orku og „væri mikill svona spenningur á milli lappanna“. Í framhaldi af því hefði ákærði lagt hendur á kynfæri brotaþola, utan klæða. Það hefði án nokkurs vafa verið gert af ásetningi. Limur brotaþola hefði legið út á hlið í buxunum „og hann rétti hann við.“ Brotaþoli hefði ekki trúað að þetta væri að gerast. „Ég fraus.“ Framvindunni lýsti brotaþoli svo: „Strax við þetta og hann byrjar að þreifa á mér, á mér, svo bað hann hérna, þá náttúrulega ósjálfrátt fór hann að stækka og hann sagði, og þótt ég sé ekki með límheila þá límdist þessi setning inn í hausinn á mér. Hann sagði mér að það væri allt í lagi að taka hann út og klára dæmið.“ Þetta hefði brotaþoli skilið sem vísun til sjálfsfróunar og hefði sagt nei við. Hann hefði skilið orð ákærða þannig að þetta hefði hann átt að gera „þarna á staðnum, þar sem að ég lá.“ Þetta væri sér mjög minnisstætt. Á þessu hefði gengið af og til í um stundarfjórðung. „Hann hélt áfram því að hann var að kanna orkuna mína. Fór alltaf með hendurnar af svæðinu en kom svo, var eins og bara, hann kemur alltaf aftur að því.“ Brotaþoli kvaðst hafa fundið greinilega fyrir snertingu „á klofinu“. Stuttu eftir þetta hefði brotaþoli risið upp, ákærði sagt að „þetta væri búið og allt í góðu og ég labbaði út úr herberginu.“ A hefði verið fyrir utan að ræða við konu ákærða og hefði brotaþoli spurt hann hvort þeir gætu farið en A viljað fara fyrst og ræða við ákærða. Brotaþoli hefði gengið heim til ömmu sinnar og sagt henni hvað gerst hefði. Í framhaldinu hefði hann farið og kært.
Brotaþoli var spurður um þau orð sín, er hann setti fram kæru hjá lögreglunni á ..., að hann hefði ítrekað beðið ákærða um að hætta. Brotaþoli svaraði: „Ég verð að svara því að eftir að þetta gerðist þá fannst mér ég lítill og varnarlaus. Þess vegna, ég sagði þetta og ég gerði það svo, ég sagði þetta svo oft við hann í hérna inni í hausnum á mér að ég trúði því sjálfur. Mér leið eins og þetta væri, [þetta] korter leið mér eins og væru fimmtán klukkutímar og þú getur ímyndað þér að á fimmtán klukkutímum hvað mér hefur oft, getað hugsað að hann hafi hætt, hann hafi hætt.“ Í raun og veru hefði hann hins vegar ekki beðið ákærða um að hætta.
Brotaþoli var spurður um svar sitt, „bara þægilegt“, þegar ákærði spurði hann hvort „þetta [væri] vont eða gott“. Brotaþoli sagðist hafa verið hræddur og hafa óttast um líf sitt. Ákærði hefði hins vegar ekkert sagt eða gert til þess að ógna honum. Brotaþoli hefði legið á rúminu en ákærði setið á stól við rúmið, „þannig að hann var fyrir ofan mig“. Ákærði „beygði sig yfir mig og ég, ég var hræddur um að þetta myndi bara verða verra.“ Brotaþoli var spurður hvernig ákærði hefði getað vitað að hann væri „ósáttur við meðferðina“ og kvaðst brotaþoli ekki geta svarað því.
Vitnið B móðir brotaþola sagði hann hafa reynt að hringja til sín strax eftir fundinn við ákærða. Þau hefðu ekki náð saman þá en síðar um daginn. Brotaþoli hefði sagt sér að ákærði hefði þuklað á honum og komið við og strokið kynfæri hans. Vitnið sagðist ekki hafa ástæðu til að efast um frásögn hans. Vitnið sagði að gagnvart ókunnugum léti brotaþoli hluti „eiginlega yfir sig ganga“ en stæði fast á sínu gagnvart þeim sem hann þekkti. Þegar brotaþoli hefði hlustað á upptökuna hefði hann orðið miður sín, „honum fannst að hann hefði átt að segja bara nei“.
Vitnið A sagðist hafa haft frumkvæði að því að brotaþoli færi til ákærða enda hefði hann haft trú á ákærða „sem fagmanni eða góðum manni í þessum geira“. Vitnið sagði að „þegar maður fer svona til miðils að þá er yfirleitt svona mönnum boðið upp á að taka upp þessa fundi og þannig að menn gætu svona sest niður og hlustað á það á eftir. [Ákærði] var ekki með svona tæki þannig að ég ákvað að nota mitt og hann vissi af því og samþykkti það alveg.“ Vitnið hefði borið þetta undir ákærða þegar það hefði fylgt brotaþola inn á herbergið. Nánar spurt sagðist vitnið hafa sagst leggja tækið „hérna“ og hafa litið svo á að ákærði vissi af því. Tækið hefði verið á skrifborði, aftan við rúmið, fyrir allra augum.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki vitað af upptökunni þegar hann hefði, síðar sama dag, farið til lögreglunnar.
Vitnið sagðist hafa sjálft tvívegis farið í heilun til ákærða. Í bæði skipti hefði ákærði lagt hendur á bringu þess en ekki víðar um líkamann.
Vitnið D lögregluþjónn á ... staðfesti skýrslu sína. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt hvort brotaþola hefði verið gerð grein fyrir reglum er gilda um vitnaskyldu- og ábyrgð, áður en skýrsla hafi verið tekin af honum. Það væri þó líklegt enda venja að gera svo.
Vitnið E sálfræðingur sagði brotaþola upphaflega hafa leitað til sín vorið 2013 í kjölfar sjálfsvígshugsana og vanlíðunar. Hefðu þeir átt allnokkur viðtöl þar sem þeir hafi tekið á þunglyndi og kvíða. Vitnið hefði þá tengst „þjónustuteymi sem var í kringum hann í tengslum við menntaskólann sem hann sótti á þeim tíma og félagsþjónustuna og gekk alveg ágætlega.“ Eftir þetta hefði orðið hlé á samskiptum þeirra þar til brotaþoli hefði leitað til vitnisins á ný haustið 2014 og þá sagst hafa orðið fyrir kynferðisbroti í maí það ár. Hafi brotaþoli þá verið með helstu einkenni áfallastreituröskunar auk þunglyndis og kvíða. Hefði vitnið ekki greint hjá honum einkenni áfallastreituröskunar áður.
Vitnið sagðist ekki hafa staðið brotaþola að því að segja ósatt.
Vitnið F, eiginkona ákærða, sagðist hafa spjallað við stjúpafa brotaþola, vitnið A, á meðan á fundi ákærða og brotaþola hefði staðið. Sér hefði fundist brotaþoli ungur að sjá og hefði því spurt A um aldur hans, en ákærði vildi alltaf hafa fullorðna með ef hann ynni með fólk undir lögaldri. A hefði svarað því til að brotaþoli væri átján ára en hefði þroska á við fjórtán ára.
Vitnið sagði að ákærði hefði hringt og sagt að þau mættu koma. Þau hefðu farið til þeirra en þeir þá komið á móti þeim og brotaþoli þá verið mjög glaður og kátur. Þau hefðu eitthvað spjallað saman og brotaþoli hefði þá skyndilega snúið sér við og „knúsað“ ákærða, faðmað hann að sér og þakkað fyrir. Síðan hefðu þau farið saman fram og A þá farið til hliðar með brotaþola og talað eitthvað við hann. Við það hefði framkoma brotaþola gjörbreyst, hann farið „allur að vafra svona fram og til baka og var að tala við afa sinn að hann vildi fara heim með hann.“ Hann hafi verið „greinilega ekki frosinn eins og sagt var þarna inni, hann var mjög glaður og kátur þar.“ Kvaðst vitnið tengja breytingu á viðmóti brotaþola við „eitthvað sem A segir við hann.“
Vitnið G, sem var rannsóknarlögregluþjónn á þeim tíma er málið kom upp, gaf skýrslu en ekki þykir ástæða til að rekja hana sérstaklega.
Niðurstaða
Í málinu liggur fyrir hljóðupptaka af fundi ákærða og brotaþola. Vitnið A mun hafa skilið upptökutæki eftir á hótelherbergi ákærða og hljóðritið þannig orðið til. Þetta segir ákærði að hafi verið gert án heimildar sinnar. Hvað sem um það má segja hefur ekkert komið fram í málinu sem gerir að verkum að telja verði að það brjóti gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar þótt litið verði til upptökunnar eins og annarra gagna málsins.
Ekki er deilt um að á hljóðupptökunni heyrast þeir tala, ákærði og brotaþoli. Er óhætt að miða við að upptakan geymi óbreytt þau orð sem milli þeirra fóru umrætt sinn.
Samkvæmt þessu liggur fyrir í málinu hvaða orð þeir ákærði og brotaþoli létu falla á fundi sínum. Á hljóðupptökunni heyrast ítrekað taktföst skrjáfhljóð, sem helst verður líkt við strokhljóð. Þykja þau styðja þann framburð brotaþola að ákærði hafi strokið honum en afar ósennilegt þykir að hljóðin séu komin til af hreyfingum brotaþola sjálfs.
Ákærði lýsti fyrir dómi að hann hefði séð að brotaþola hefði risið hold og hefði hann þá sagt að hann gæti ekki „unnið svona“, það væri ekki hægt og ekki viðeigandi. Af hljóðupptökunni fæst önnur mynd af því sem fram fór. Þegar brotaþoli hefur svarað játandi þeirri spurningu ákærða hvort „eitthvað [sé] að harðna þarna niðri“ svarar ákærði og segir meðal annars: „Já það er allt í lagi, þá hefur orkan bara mjög góð áhrif á hann, vinnur bara á svæðið“ og bætir fljótlega við að brotaþoli megi „alveg taka hann sjálfur og strjúka hann ef að þú vilt, þó að ég sé hér.“ Nokkru síðar segir ákærði: „Hana nú getur þú tekið við, nú er komið nóg stuð í hann. Taktu bara utan um hann sjálfur og hafðu hendina bara niðri, þá getur þú notið þess, að innan verðu eða hvar sem að þú vilt hafa hendina.“ Eftir að brotaþoli hefur svarað: „Bara fínt svona“ segir ákærði: „Já. Þá getur þú strokið um hann og við setjum orku, strokið upp eftir honum, já svona og fá hann til að rísa eða taka hann út bara og rísa, það er engin feimni í því hjá okkur hér.“ Ákærði bætir svo við: „Já en er ekki þægilegra að leyfa honum að vera þarna á milli, buxunum, hann réttir betur úr sér þá, ég held það, ef þú vilt. Þú ert feiminn við þetta elskan.“
Sú ólíka mynd að þessu leyti sem framburður ákærða fyrir dómi og upptakan sjálf gefa af því sem fram fór dregur úr trúverðugleika ákærða.
Er brotaþoli kom á lögreglustöð, sama dag og fundur þeirra ákærða var haldinn, kvaðst hann hafa margbeðið ákærða um að hætta. Sú frásögn hans fær ekki stoð á upptökunni og fyrir dómi sagði brotaþoli þetta ekki hafa verið rétt hjá sér. Hann gaf á þessu þá skýringu fyrir dómi að í huga sér hefði hann sagt þetta svo oft að hann hefði verið farinn að trúa því sjálfur að hann hefði í raun og veru margbeðið ákærða um að hætta. Sú skýring brotaþola getur vel verið rétt en þetta atriði er engu að síður til þess fallið að draga heldur úr trúverðugleika hans. Annað hefur hins vegar ekki komið fram sem dregur úr trúverðugleikanum.
Ljóst er af upptökunni að ákærði segir brotaþola að honum sé velkomið að „taka hann sjálfur og strjúka hann“, hann segir brotaþola að nú geti hann „tekið við, nú [sé] komið nóg stuð í hann“. Hann hvetur brotaþola til að taka „bara utan um hann sjálfur“ og hafa „hendina bara niðri, þá [geti hann] notið þess“, hann geti „strokið um hann og við setjum orku, strokið upp eftir honum, já svona og fá hann til að rísa eða taka hann út bara og rísa“ og „hafa hann utan við, þá getum við strokið hann betur á móti þér og við setjum orku á það“. Af þessu er ljóst að ákærði viðhefur kynferðislegt tal við brotaþola og hvetur hann til sjálfsfróunar. Hvergi kemur fram að ákærði leggi til að brotaþoli bregði sér afsíðis í þeim tilgangi.
Brotaþoli fór til lögreglu sama dag og fundur þeirra ákærða átti sér stað og bar þá að ákærði hefði farið með höndina í klof honum og þreifað á honum utan klæða. Fyrir dómi bar brotaþoli eindregið að ákærði hefði snert og strokið kynfæri sín utan klæða en ákærði neitaði því staðfastlega, með þeirri undantekningu að hann kveðst hafa, við meðferð á maga brotaþola, „rekið hendina fyrir tilviljun í getnaðarlim [brotaþola] en að það hafi gerst án ásetnings hans til snertingar við það svæði“, svo sem það er orðað í greinargerð ákærða. Ýmis orð ákærða á hljóðupptökunni þykja veita vísbendingar hér. Eins og rakið hefur verið segir ákærði á einum stað að brotaþoli megi „alveg taka hann sjálfur og strjúka hann“. Því neitar brotaþoli og segir: „Mér finnst þetta fínt bara svona, liggja svona eins og ég er.“ Þá svarar ákærði: „Jæja elskan. Þó að ég komi svona við þig?“ Nokkru síðar segir ákærði meðal annars: „Hana nú getur þú tekið við, nú er komið nóg stuð í hann. Taktu bara utan um hann sjálfur“. Enn nokkru síðar segir ákærði: „Ég sagði hafa hann utan við, þá getum við strokið hann betur á móti þér og við setjum orku á það.“ Þykir þetta benda til þess að ákærði hafi í raun strokið kynfæri brotaþola utan klæða, svo sem brotaþoli ber. Þau skrjáfhljóð sem áður hefur verið minnst á eru sterk vísbending um strokur þótt út af fyrir sig verði ekki fullyrt af þeim hljóðum einum hvar strokið hafi verið. Þegar horft er á tilvitnuð orð ákærða, framburð brotaþola sem í öllum aðalatriðum er trúverðugur þrátt fyrir það atriði sem getið var um áður og þær ályktanir sem dregnar verðar af skrjáfhljóðunum, þykja styrkar stoðir hafa verið færðar undir þann lið ákærunnar að ákærði hafi ítrekað snert og strokið kynfæri brotaþola utan klæða. Þykir ekki annað en neitun ákærða mæla því í gegn. Þykir ekki skynsamlegur vafi á því atriði og telst það sannað gegn neitun ákærða.
Ákærði hefur sagt að vegna afleiðinga læknisaðgerðar sé honum holdris ómögulegt. Læknisfræðileg gögn sem hann hefur lagt fram sýna að hann hefur borið um þetta við lækna á árinu 2012. Er í sjálfu sér ekki ástæða til að efast um þetta í málinu. Þótt litið sé svo á að ákærði geti ekki náð holdrisi leiðir ekki af því að hann geti ekki framið brot eins og þau sem honum eru gefin að sök.
Brotaþoli var átján ára að aldri þegar fundur þeirra ákærða fór fram. Ljóst er af upptökunni að brotaþoli reyndi ekki með orðum að stöðva ákærða. Þótt brotaþoli hafi alltaf neitað tillögum ákærða um að hann tæki sjálfur að strjúka sig verður því ekki jafnað til þess að hann hafi reynt að stöðva þær strokur og snertingar sem sannað er að ákærði hafði í frammi. Á hinn bóginn verður að horfa til aðstöðunnar í umrætt sinn. Ákærði er fullorðinn maður sem fær til sín ungan pilt til meðferðar og veit þá um ýmis bágindi hans. Vitnið A hafði í upphafi fundarins sagt ákærða að brotaþoli hefði „glímt við ADHD og allan pakkann og hvað eina alveg allt sitt líf“. Brotaþoli segist vera með „mikið þunglyndi og svona sjálfsvígshvatir" og kveðst vera vera „félagslega einangraður“ og nefnir dæmi því til stuðnings. Í skýrslu hjá lögreglu, sem tekin er síðla kvölds 13. maí 2014, að kvöldi þess dags er fundur ákærða og brotaþola fór fram, segir ákærði um brotaþola: „Vandamálið hjá honum er margþætt, eins og A var búinn að segja mér. Hann er með sjálfsvígshugsanir, það er búið að reyna að senda lækna, hann er búinn að fara til lækna og hann sætir einelti, hann er mjög grannur, ég hélt fyrst að hann væri með anorexiu.“
Brotaþoli kom á fund ákærða, að áeggjan vitnisins A, til að freista þess að fá einhverja hjálp við því sem hrjáði hann. Ákærða var kunnugt um bága stöðu hans eins og rakið hefur verið. Þótt brotaþoli hefði ekki haft uppi sérstök mótmæli við háttsemi ákærða mátti ákærði ekki, eins og atvikum var háttað, draga af því þá ályktun að brotaþoli væri háttseminni samþykkur. Ákærði snertir og strýkur kynfæri brotaþola utan klæða, viðhefur við hann kynferðislegt tal og hvetur hann til sjálfsfróunar inni á herberginu. Telja verður að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að með þessu bryti hann gegn brotaþola en hann hafi haft háttsemina í frammi engu að síður. Hefur ákærði með þessu brotið gegn 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga svo sem honum er gefið að sök í ákæru.
Ákærða, sem kominn er undir sjötugt, hefur ekki verið gerð refsing svo kunnugt sé. Verður litið til þessa, honum til málsbóta. Á hinn bóginn er brotið framið gegn ungum pilti sem glímt hafði við verulega erfiðleika en leitað ákærða í von um einhverja bót.
Þegar á allt er horft verður ákærði dæmdur til sex mánaða fangelsis en fullnustu refsingarinnar skal frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði hefur framið ólögmæta meingerð gegn brotaþola. Er hún til þess fallin að auka á þá erfiðleika sem brotaþoli hefur glímt við frá unga aldri. Verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 400.000 krónur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði en bótakrafan var kynnt ákærða 29. september 2014.
Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórs B. Marðarsonar hæstaréttarlögmanns, 905.355 krónur og 59.228 króna útlagðan kostnað hans. Þá verður ákærða gert að greiða 558.000 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sunnu Bjarneyjar Jósúadóttur hæstaréttarlögmanns, 69.680 króna ferðakostnað réttargæslumannsins og 5.715 króna útlagðan kostnað. Loks verður ákærða gert að greiða 165.517 króna annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra féll til vegna starfa þess lögmanns sem gætti hagsmuna ákærða á rannsóknarstigi og ferðakostnaðar vitna. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun verjanda og réttargæslumanns. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu ákæruvaldsins fór með málið Elí Finnbogi Freymarsson aðstoðarsaksóknari.
Málið dæma héraðsdómararnir Kári Eyvindarson, Daði Sigurlássson og Egill Jóasarson.
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði Y 400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. júní 2014 til 29. október 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 905.355 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns B. Guðfinnssonar hæstaréttarlögmanns og 59.228 króna útlagðan kostnað hans, 558.000 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns, Elísabetar Óskar Ingjaldsdóttur hæstaréttarlögmanns, 69.680 króna ferðakostnað réttargæslumannsins og 5.715 króna útlagðan kostnað réttargæslumannsins og 165.517 króna annan sakarkostnað. |
Heimamenn í Norðurþingi krefjast enn frekari aðkomu ríkisins að uppbyggingu samfélagsins nú þegar Alcoa er hætt við álver á Bakka. Iðnaðarráðherra segir áform um stórfellda atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi ekkert hafa breyst.
Á sjötta ár hefur álver Alcoa á Bakka verið það verkefni sem heimamenn í Norðurþingi hafa fyrst og fremst veðjað á. Verkefni að þeirri stærðargráðu sé besta leiðin til að leysa úr þeim byggðavanda sem við er að etja. Nú er komin upp ný staða. Miklum fjármunum hefur verið varið í Bakka-verkefnið og það hefur í raun orðið til þess að ýmsum brýnum verkefnum í sveitarfélaginu hefur verið frestað og þau lögð til hliðar.
Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, segir að á sínum tíma hafi verið ákveðið að reyna að snúa vörn í sókn og þá þýði ekkert annað en að vera hugrakkur og reyna að haga málum þannig að það verði uppbygging, atvinna og hagvöxtur í sveitarfélaginu. Hann segir að vissulega hafi það krafist fórna og þar sem Alcoa og kraftur þess sé ekki lengur fyrir hendi þurfi nýtt afl. Stjórnvöld þurfi því að koma að fyrirhugaðri uppbyggingu með verulegum hætti.
Bergur Elías segir að ef þau geri það ekki setji þau atvinnuuppbyggingu á þessu svæði í uppnám. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, heitir Þingeyingum stuðningi. Ákvörðun Alcoa breytir engu um áform stjórnvalda um stórfellda atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi í tengslum við þá orku sem þar eigi að sækja. Bergur Elías segir að þar sem mikill vilji sé fyrir hendi þá efist hann ekki um að stjórnvöld muni skila sínu og hann vænti þess að það reynist satt að það verði búið að landa nokkrum verkefnum eigi síðar en á næsta ári. |
Að meðaltali létust færri hér á landi fyrstu 15 vikur ársins en létust á sama tímabili á undanförnum þremur árum. Dauðsföllum fór fækkandi eftir miðjan mars eða um það leyti sem samkomubann tók gildi.
Sums staðar erlendis hafa andlát vegna kórónuveirufaraldursins verið vantalin. Þannig létust helmingi fleiri í Wuhan af völdum sjúkdómsins en upphaflega var talið. Þessi vangreining var rakin til þess að skortur var á sýnatöku og sjúkrarými framan af auk þess sem töluvert var um að fólk sem dó í heimahúsum hafi ekki ratað í skýrslur yfirvalda sem COVID-19 tilfelli. Svipað var uppi á teningnum víðar, til dæmis í Bretlandi og í Bandaríkjunum en þar var tala látinna hækkuð um nokkur þúsund eftir yfirferð og endurskoðun gagna. Og ef horft er til heildarfjölda andláta hefur þeim fjölgað víða erlendis samanborið við andlát síðustu ára. Miðað við tölur Hagstofunnar yfir andlát það sem af er ári virðist ekki vera um slíkt að ræða hér, þvert á móti létust færri á fyrstu vikum þessa árs en á sama tíma undanfarin ár. Að meðaltali dóu 45,9 á viku fyrstu 15 vikur áranna 2017-2019. Fyrstu 15 vikur ársins 2020 dóu aðeins færri eða 44,3 að meðaltali á hverri viku. Eftir miðjan mars fór dauðsföllum fækkandi. Óvíst er hvort það tengist því að samkomubann var sett á um svipað leyti en sóttvarnalæknir sagði á fundi almannavarna í gær að smitvarnir almennings, tveggja metra reglan, sótthreinsun og handþvottur hafi haft þau viðbótaráhrif að aldrei hafi færri öndunarfærasýkingar og niðurgangspestir greinst eins og á undanförnum mánuði. Þá dór verulega úr umferð vegna samkomubannsins eða um næstum 40% í Reykjavík og um þriðjung á Hringveginum. |
Íslenska frjálsíþróttalandsliðið varð í sjötta sæti í 2. deild Evrópukeppni landsliða sem fór fram í Stara Zagora í Búlgaríu um helgina.
Ísland varð ofar en bæði Kýpur og Slóvenía en íslenska liðið missti fimmta sætið til Króatíu á seinni deginum.
Þetta var samt mjög góð frammistaða hjá íslenska liðinu í frumraun í 2. deild og gefur góð fyrirheit fyrir næsta ár.
Það gekk alls ekki allt upp hjá íslenska liðinu og meiðsli voru að stríða nokkrum í liðinu þessa helgi. Íslenska liðið átti því fleiri stigi inni sem vonandi detta inn seinna.
Ísland var í 5. sæti eftir fyrri daginn, þremur og hálfu stigi á undan Króötum. Króatarnir fengu hinsvegar fjórtán fleiri stig á seinni deginum og tóku fimmta sætið örugglega.
Danir komu mörgum á óvart og unnu glæsilegan sigur eftir baráttu við heimamenn í Búlgaríu en íslenski hópurinn setti sér það markmið fyrir mótið að vera ofar en Danir. Danska liðið var hinsvegar í miklu stuði og vann að lokum með sex stigum.
Lokastaðan í 2. deildinni 2015:
1. Danmörk 224 stig
2. Búlgaría 218 stig
3. Ungverjaland 202,5 stig
4. Serbía 179,5 stig
5. Króatía 167 stig
6. Ísland 156,5 stig
7. Kýpur 151 stig
8. Slóvenía 127,5 stig |
Matvælastofnun og atvinnuvegaráðuneytið upplýstu almenning ekki um að vistvæni eggjaframleiðandinn Brúnegg uppfyllti ekki kröfur um vistvæna framleiðslu. Stjórnvöld hafa haft upplýsingar um blekkingar Brúneggja árum saman.
Litlu munaði að Matvælastofnun tæki allar varphænur Brúneggja í sína vörslu í fyrra vegna alvarlegra athugasemda við aðbúnað fuglanna. Matvælastofnun segir að neytendur hafi verið blekktir. Gögn Matvælastofnunar um Brúnegg ná allt aftur til ársins 2007 og ráðuneytið var upplýst um málið 2013 en almenningur fékk ekki að vita að málinu fyrr en Kastljós fjallaði um það í kvöld.
Tryggvi Aðalbjörnsson: Telur Matvælastofnun þá að það sé ekki í hennar verkahring að tilkynna neytendum þegar það er verið að segja þeim ósatt?
Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar: Ég, ég er ekki þeirrar skoðunar og vil aldrei halda því fram að það sé ekki okkar, okkar hérna verksvið að tilkynna neytendum ef það er augljóst að það er verið að svíkja þá. En, en..
Tryggvi: Var það ekki augljóst í þessu tilfelli?
Jón Gíslason: Ja, ég, ég hefði talið það fyrir þá eitt fyrirtæki. En við erum í rauninni að tala um í rauninni kerfi sem að er verið að nota af fjölmörgum fyrirtækjum.
Eggjaframleiðendur eru hluti af Bændasamtökunum.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands: Já, það sem kom fram í þessum Kastljósþætti var mjög sláandi og kemur okkur verulega á óvart. Bændasamtökin að sjálfsögðu undir öllum kringumstæðum fordæma illa meðferð á dýrum. Hún á ekki að líðast og það er ljóst að reglur hafa verið brotnar hjá þessum framleiðanda.
Fréttamaður: Óttastu eitthvað að þetta mál svona veiki traust neytenda til bænda?
Sindri Sigurgeirsson: Ja þetta hefur að sjálfsögðu áhrif. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á það að við allt dýrahald, þá hugi menn að velferð dýranna og um merkingu afurðanna. Séu menn að nota réttar upplýsingar til neytenda, það er bara mjög mikilvægt.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Já, og hingað er kominn Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. Ólafur, hvernig blasir þetta mál við þér?
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna: Þetta er náttúrulega grafalvarlegt mál. Þetta er hryllingur sem að við sáum hérna í Kastljósi í kvöld. Og það er náttúrulega sko, óhuggulegt til þess að vita að, að það sé farið svona með dýr. Og ég trúi nú ekki öðru en að þetta sé undantekning. Mér finnst líka mjög alvarlegt út frá sjónarhorni neytenda að neytendur skyldu ekki vera upplýstir um þetta. Og ég vil nú halda því fram að það hafi verið miklu skilvirkara að upplýsa neytendur um þetta vegna þess að sko neytendur eru hinn endanlegi dómur um, um matvæli og aðrar vöru. Og neytendur hefðu alveg klárlega, neytendur vilja ekki versla við þá sem að, sem að annast ekki dýr vel sem að, sem að huga ekki að velferð dýra og neytendur vilja ekki láta plata sig.
Sigríður Hagalín: En hver er réttur neytenda í svona málum?
Ólafur Arnarson: Ja ég tel að neytendur eigi rétt til að fá upplýsingar. Þetta er grunnréttur neytenda, að vara sé rétt merkt og neytendur fái líka upplýsingar um það ef að eitthvað er að aðbúnaði við framleiðsluna, aðbúnaði dýra vegna þess að neytendur, við höfum séð það til dæmis í svínaræktinni að neytendur risu upp og neituðu að láta bjóða sér þá meðferð sem að, sem að dýrin máttu sæta. Og ég er alveg sannfærður um að það sama hefði gerst hér og það virðist það sama vera að gerast hér. Það er mjög mikil bylgja sýnist manni á samfélagsmiðlum í kvöld og mikil reiði neytenda.
Sigríður Hagalín: En hvað geta til dæmis Neytendasamtökin gert? Hvernig ætlið þið að bregðast við þessu?
Ólafur Arnarson: Við, við höfum kannski engin formleg úrræði til að bregðast við. Sko, sterkasta vopn neytenda er upplýsingin og okkar náttúrulega barátta er í mörgum tilfellum að upplýsa neytendur, fá upplýsingar frá opinberum aðilum og það er mjög alvarlegt finnst mér hvernig þetta mál virðist hafa dáið inni í ráðuneytinu og verið, verið kæft eða kafnað þar, að, að eftirlitsaðili hér, stjórnvald skuli í mörg ár vera með þetta mál og aldrei skuli neytendur vera upplýstir og allan þennan tíma fá fyrirtæki og fær fyrirtækið að vera með stimpilinn Vistvæn framleiðsla sem að er náttúrulega í raun og veru hálfgert plat vegna þess að það hefur aldrei verið neitt almennilegt eftirlit með vistvænni framleiðslu hér á Íslandi. Og ég lít svo á að sko íslensk landbúnaðarframleiðsla og landbúnaðarframleiðsla almennt, hún skiptist í tvo flokka. Það er annars vegar hefðbundinn landbúnaður og hins vegar lífrænn landbúnaður þar sem að er sko, vottun sem að neytendur geta treyst. En það er engin vistvæn vottun sem að neytendur geta treyst.
Sigríður Hagalín: Akkúrat. Þakka þér kærlega fyrir þetta Ólafur. Við fylgjumst nánar með þessu máli. |
voru þrír með aðra sérgrein Number of patients 180 en heimilislækningar; einn hafði lyf-og lungnalækn-160 ingar sem sérgrein, annar var sérfræðingur í húð-og 140 kynsjúkdómum og sá þriðji 120 var sérfræðingur í barnalækningum. Nærri öll 100 þjónusta sérfræðilækna á 80 Norðulandi eystra er veitt á Fjórðungssjúkrahúsinu á 60 Akureyri (FSA). Samtals starfa 48 læknar á Norður-40 landi eystra, auk 10-12 að 20 stoðarlækna sem eru í starfs 0 þjálfun á FSA. 0 1 2 3 Sjúklingar, sem voru að minnsta kosti í þrjá mánuði samfellt á meðferð með sykursterum á tímabilinu, voru teknir til rannsóknar og einnig þeir sem fengu endurteknar meðferðarhrinur, sem samanlagt náðu þremur mánuðum á ári. Einstaklingar er ekki höfðu lögheimili á Norð-Austurlandi voru útilokaðir frá rannsókninni, svo og þeir er neituðu þátttöku. Spurningablaðið sem fylgdi kynningarbréfinu til sjúklinganna samanstóð af fimm aðalspurningum varðandi neyslu mjólkurafurða, kalks, vítamína, lýsis, auk annarrar lyfjanotkunar en prednisólons, svo sem hormónalyfja, kalsítóníns eða bísfosfónata. Upplýsingum var safnað á kerfisbundinn hátt úr sjúkraskrám varðandi eftirfarandi þætti: ábendingar fyrir meðferð, upphafs-og viðhaldsskammta prednisólóns, meðferðarlengd og skráða fylgikvilla. Ennfremur var staðfest úr sjúkraskrám önnur lyfjanotkun á rannsóknartímabilinu. Að lokum voru skoðaðar meðferðarákvarðanir er beindust gegn beinþynningu. Upplýsingum var safnað í töflureikniforritið Excel-Pc á dulkóðuðu formi. Rannsóknaráætlunin var samþykkt af siðanefnd læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (21.04. 97) og Tölvunefnd Dómsmálaráðuneytisins (16.04. 97). Siðanefnd landlæknisembættisins fjallaði einnig um rannsóknaráætlunina (26.06. 97). |
Bókfærðar eignir þrotabús Kaupþings nema um 1.700 milljörðum króna. Bókfærðar skuldir bankans nema 4.100 milljörðum króna. Þetta kemur fram í skýrslu um slitameðferð Kaupþings sem kynnt var kröfuhöfum í morgun. Kröfur upp á samtals 22 milljarða króna barst of seint til slitastjórnar.
Fulltrúar kröfuhafa í þortabú gamla Kaupþings mættu til skiptafundar slitastjórnar bankans á Nordica í morgun. Eins og fram hefur komið bárust ríflega 28 þúsund kröfur í búið. Heildarfjárhæð lýstra krafna nemur um 7.300 milljörðum króna. Afstaða hefur verið tekin til um 16 þúsund krafna. Stærstur hluti þeirra eru kröfur um vaxtagreiðslur vegna innistæðna á Edge innlánsreikningum sem bankinn hleypti af stokkunum hálfu ári fyrir hrun eða í mars árið 2008. Skuldir innlánanna hafa verið greiddar og námu greiðslurnar um 58 milljörðum íslenskra króna. Á fundinum var skýrsla um slitameðferð Kaupþings kynnt og skýringar gefnar á afstöðu til krafna. Í henni kemur fram að forgangskröfur eru ríflega 13.500 og almennar kröfur tæplega 13 þúsund. 42 launakröfur voru gerðar í búið. Öllum nema einni var hafnað eða hafnað að svo stöddu. Kröfum um bónusgreiðslur var hafnað algjörlega. Um það bil 2.200 kröfur féllu á tíma og bárust of seint. Þær nema 22 milljörðum króna og litlar sem engar líkur eru á því að nokkuð af þeim endurheimtist. Þessar kröfur voru ekki færðar inn í kröfuskrána. Sumar þeirra voru póstlagðar í Danmörku nokkrum vikum áður en lokafrestur rann út þann 30. desember. Engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna þær bárust skilanefndinni svona seint en leiða má líkur að því að einhverjar þeirra hafi hreinlega týnst innan um jólakortaflóðið á pósthúsum. Stærsti ráðstefnusalurinn á Hótel Nordica var þéttsetinn af dökkklæddum lögmönnum kröfuhafanna sem sumir hverjir hafa þúsundir þeirra á herðum sér. Vaxtakröfuhafar eru til að mynda 16 þúsund og hafa kröfur þeirra flestra verið samþykktar með breytingum. Fundurinn fór fram á íslensku en hann var samstundis þýddur yfir á nokkur tungumál af túlkum sem sátu í glerbúrum fyrir ofan salinn. Áætlað er að fundinum ljúki um þrjúleytið í dag og við greinum nánar frá honum í fréttum okkar í kvöld. |
Að minnsta kosti sex börn í Fossvogsskóla sýna einkenni vegna myglu í Fossvogsskóla þrátt fyrir miklar viðgerðir á húsinu til að uppræta myglu.
„Börnin halda áfram að veikjast, það er alveg staðreynd. Og veikindin lýsa sér með ýmsum slæmum líkamlegum hætti, blóðnösum, uppköstum, höfuðverkjum, útbroddum um líkamann. Þessu fylgir líka mikil andleg vanlíðan og kvíði, ekki síst þeim yngri sem finnst þau á einhvern hátt mögulega bera ábyrgð á að þeim líði svona sem er mjög slæmt og ekki líðandi á nokkurn hátt.“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla og fulltrúi foreldra í skólaráði.
Hann segir að minnst sex börn hafi veikst eftir að viðgerðum lauk. Framkvæmdir við skólann hafa kostað yfir hundrað milljónir. Í lokaskýrslu Verkís um framkvæmdirnar kemur fram að talið er að hættuleg mygluefni berist úr umhverfinu inn í skólann en finnist ekki þar innanhúss.
„Helsti sveppafræðingur landsins hrakti þessa niðurstöðu mjög eindregið. Sagði að þessar hættulegu tegundir sem höfðu fundist í sýnum, hún hefði ekki fundið þær í náttúrunni á Íslandi fyrir utan í eitt skipti á sínum starfsferli. Svo hún taldi mjög ólíklegt að þessar tegundir fyrirfindust í umhverfinu á Íslandi og væru að bera utanfrá inn í skólann. Þessar tegundir væru mun þekktari fyrir það að þrífast í rakaskemmdu efni innanhúss.“ segir Karl.
Hann segir að grettistaki hafi verið lyft í endurbótum í Fossvogsskóla en sérfræðingar þurfi að útskýra fyrir foreldrum hvað hafi verið gert og hver næstu skref eigi að vera til að leysa það í eitt skipti fyrir öll.
Lengri útgáfu viðtals við Karl má heyra hér að ofan. |
H krafðist fjárnáms hjá S fyrir kröfu samkvæmt áskorunarstefnu áritaðri um aðfararhæfi af héraðsdómara á árinu1988. S taldi sig hafa greitt kröfuna að fullu og mótmælti skyldu sinni til greiðslu áfallina dráttarvaxta fyrir lengra tímabil en sem nam undangengnum fjórum árum frá dagsetningu greiðsluáskorunar H. Málsaðilar deildu um þá ákvörðun sýslumanns að halda áfram fjárnámi, þrátt fyrir mótmæli S. Talið var að dráttarvextir, sem fallið hefðu í gjalddaga eftir áritun áskorunarstefnu H árið 1988, hafi ekki orðið gjaldkræfir samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, fyrr en síðar. Var fyrningarfrestur því liðinn um þá dráttarvexti, sem gjaldfallið höfðu fjórum árum áður en hann rauf fyrningu með aðfararbeiðni sinni. Með hliðsjón af því hvernig aðfararbeiðni H var háttað, var ákvörðun sýslumanns um að halda áfram fjárnámi hjá S, felld úr gildi.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiður Ernestsson, Vignir Ebenesersson og Sigursteinn Sjafnarsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. mars 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 1999, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 9. október 1998 um að halda áfram fjárnámi hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfu varnaraðila um fjárnám hafnað. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms, svo og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði styðst fjárnámsbeiðni varnaraðila við áskorunarstefnu áritaða um aðfararhæfi af héraðsdómara 24. nóvember 1988. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort dráttarvextir, sem féllu í gjalddaga fyrir 30. apríl 1994, séu fallnir niður fyrir fyrningu, en sóknaraðili hefur ekki uppi önnur mótmæli við fjárkröfu varnaraðila. Heldur sóknaraðili því fram að kröfur um dráttarvexti af höfuðstól kröfu varnaraðila fyrnist á fjórum árum samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en að öðrum kosti séu kröfurnar fallnar niður fyrir tómlæti hans. Fjárnámsbeiðni varnaraðila er hins vegar á því reist að dráttarvextir af dómkröfu fyrnist á 10 árum samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laganna.
II.
Samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast kröfur samkvæmt dómi, sem ekki falla undir ákvæði 2. gr. laganna, á 10 árum. Af síðari málslið sama töluliðar leiðir þó að krafa um vexti samkvæmt dómi fyrnist því aðeins á 10 árum, að vextirnir hafi verið gjaldfallnir þegar dómur gekk um þá.
Áritun héraðsdómara á stefnu hefur sama gildi og dómur samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 179. gr. sömu laga með áorðnum breytingum, sbr. 23. gr. laga nr. 38/1994. Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 14/1905 hófst 10 ára fyrningarfrestur 24. nóvember 1988 um höfuðstól kröfu varnaraðila og þá dráttarvexti sem gjaldkræfir voru þann dag. Dráttarvextir, sem eftir það féllu í gjalddaga, urðu hins vegar ekki gjaldkræfir, eðli málsins samkvæmt, fyrr en síðar. Átti 2. töluliður 3. gr. laga nr. 14/1905 því við um kröfur til þessara dráttarvaxta, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi rofið fyrningu krafnanna fyrr en með aðfararbeiðni, sem barst sýslumanninum í Reykjavík 11. ágúst 1998, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt framangreindu var þá fyrningarfrestur liðinn hvað varðar þá vexti, sem gjaldfallið höfðu fyrir 11. ágúst 1994. Sóknaraðili hefur hins vegar aðeins haft uppi mótmæli við greiðslu dráttarvaxta, sem féllu fyrir 30. apríl 1994.
Af gögnum málsins verður ráðið að hluti dráttarvaxtakröfu varnaraðila sé kominn til vegna vaxta, sem þegar voru gjaldkræfir við áritun áskorunarstefnu hans 24. nóvember 1988 og því ófyrndir. Af aðfararbeiðni varnaraðila verður hins vegar ekki ráðið hvaða fjárhæð þessir vextir nemi. Sama á við um vexti af málskostnaði. Er þessi skortur á sundurliðun í aðfararbeiðni varnaraðila í andstöðu við ákvæði 10. gr. laga nr. 90/1989. Eru því ekki uppfyllt skilyrði aðfarar um aðfararbeiðni varnaraðila að því er varðar þessa liði. Verður fallist á með sóknaraðila að hafna kröfu varnaraðila um að haldið verði áfram fjárnámsgerð hjá sóknaraðila.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 9. október 1998 um að halda áfram fjárnámsgerð í eignum sóknaraðila, Stálsmiðjunnar hf., að kröfu varnaraðila, Hávöxtunarfélagsins hf., er felld úr gildi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 100.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. |
Helgiathöfnin var að hefjast. Hátíðlegir tónar orgelsins hljóðnuðu. Söfnuðurinn var tilbúinn og klerkurinn stóð andspænis fólkinu og lyfti höndum. Aldrei þessu vant var klerkurinn karlkyns að þessu sinni.
„Förum með trúarjátningu vora, gott fólk,“ tónaði hann hljómmikilli röddu og þó svo mildri.
Söfnuðurinn reis á fætur og hver manneskja lagði hönd á hjarta. Svo upphófst einum rómi:
„Ég trúi á Guð föður, almáttugan skapara himins og jarðar. Ég trúi á hans einkason sem getinn er af heilögum anda, fæddur af hinni helgu móður, píndur á dögum Sigríðar Friðjónsdóttur, líflátinn, látinn og grafinn, steig niður til heljar en reis –“
Bíðum nú andartak. Hvað er Sigríður Friðjónsdóttir að gera í þessari trúarjátningu? Er hún ekki ríkissaksóknari? Vammlaus embættismaður með öllu og ekki við nein trúmál kennd? Hvaða rugl er þetta?
Jú, þetta upphaf greinarinnar var auðvitað bara leikur, eða öllu heldur tilraun til að sjá hvernig það liti út ef á legg kæmust í veröldinni einhver ný trúarbrögð sem bæru þó allan keim af kristindómnum. Og þar hefði til dæmis líka verið um að ræða einhvers konar frelsara sem hefði lent upp á kant við yfirvöldin, verið fangelsaður og dæmdur, og látið lífið við einhverjar þær aðstæður sem fylgismönnum hans þættu jafngilda lífláti, en svo hefði spurst út skömmu seinna að hann hefði alls ekki dáið – og svo framvegis. Og ef þeir sem tryðu á þennan nýja ónefnda frelsara vildu svo líka apa trúarjátningu sína eftir trúarjátningu kristinna manna, þá kynni það undarlega að gerast að inn í hana dytti nafn embættismanns eins og til dæmis Sigríðar Friðjónsdóttur, einfaldlega af því hún vann sína vinnu samviskusamlega og sótti til saka fyrir einhver augljós lögbrot þann mann sem tiltekinn söfnuður taldi seinna að hefði í rauninni verið guð.
Það sem ég á í rauninni við er þetta: Er það ekki öldungis stórskrýtið að í trúarjátningu íslensku þjóðkirkjunnar, þeirri játningu sem allir kristnir menn fara með væntanlega reglulega, og ekki síst fermingarbörn um páskaleytið – er það semsé ekki stórskrýtið að í henni skuli vera að finna nafnið á annars nær óþekktum rómverskum embættismanni, manni sem hafði áreiðanlega ekki minnsta áhuga á trúmálum, heldur lagði sig bara fram um að sinna sínu lögbundna starfi af samviskusemi og alúð?
Ég á við Pontíus Pílatus. Hann var landstjóri Rómverja í Júdeu um það bil sem Jesúa frá Nasaret var handtekinn og ákærður, dæmdur og krossfestur, og gegndi ekki ósvipuðu hlutverki í þeim prósess og saksóknari ríkisins gerir á Íslandi nútildags, þótt reyndar væri Pílatus dómari um leið; aðgreining hinna ýmsu valdþátta var heldur skammt á veg komin í Rómaveldi. Sá ágæti maður Pílatus reyndi að sinna sínu starfi eins og best hann gat og hann hefði ugglaust látið segja sér það tvisvar og jafnvel þrisvar og jafnvel töluvert oftar að frekar hversdagsleg embættisverk sem hann vann án þess að leiða mjög að því hugann rétt fyrir páska árið 33, þau hefðu á endanum leitt til þess að fermingarbörn á Íslandi (landi sem Pílatus vissi að vísu ekki að væri til) þylji nú nafn hans í sjálfri trúarjátningu sinni heilagri:
„Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn,“og svo framvegis.
Þetta eru undarleg örlög fyrir okkar mann Pílatus.
Hver hann var? Það er nefnilega ekki gott að segja. Ekkert, nákvæmlega ekkert, er um hann vitað áður en hann var skipaður landstjóri Rómverja í Júdeu árið 26 eftir Krist. Hann var ekki af neinni hefðbundinni valdaætt í Róm, ættarnafnið hans kemur einfaldlega hvergi fyrir nema hjá honum sjálfum, og eftir hans dag, þá gufar nafnið upp jafn snögglega og það birtist í spegli sögunnar. Mér þykir lang sennilegast að Pílatus hafi verið sérlegur skjólstæðingur Luciusar Sejanusar, en hann var lífvarðaforingi Tíberíusar keisara frá árinu 14 og safnaði að lokum svo miklum völdum í sínar hendur að hann var eiginlega orðinn valdamesti maður ríkisins, ekki síst eftir að Tíberíus settist að á eynni Kaprí árið 26 en lét Sejanus um hina daglegu stjórn ríkisins í Róm.
Gömlu öldungaráðsættirnar og sömuleiðis ættingjar Tíberíusar sáu ofsjónum yfir sívaxandi völdum Sejanusar og hann hefur því lagt sig allan fram um að efla sína stuðningsmenn til æ meiri valda – svo hann hefði bandamenn gegn öfundarmönnum sínum. Þar á meðal hefur Pontíus Pílatus verið.
Hann hefur líklega verið af lágaðli hinna svokölluðu riddara og næstum áreiðanlega utan af landi, upprunninn í einhverjum miðlungsbæ eða þorpi ekki allfjarri Róm og hefur svo verið sendur til heimsborgarinnar af mömmu sinni og pabba í von um að hann hlyti þar frægð og frama. Það er næsta víst að Pílatus hefur slegist í hóp ungu mannanna sem löngum héldu til á Rómartorgi, eða Forum Romanum, og reyndu að vekja á sér athygli með einhverjum ráðum – þetta voru hópar mismikilla töffara sem áttu ekkert voða mikinn pening og þurftu helst að verða skjólstæðingar einhverra auðkýfinga eða embættismanna svo þeir kæmust almennilega áfram – til þessara manna hefur Sejanus leitað þegar hann þurfti að koma sér upp sveit tryggra fylgismanna, og einhvern tíma hefur hann vikið sér að ungum slánalegum sveitastrák sem var eitthvað að gaspra á torginu og gera sig breiðan og spurt hann:„Hvað heitir þú, væni?“ – og sláninn svaraði:„Pílatus, herra, Pontíus Pílatus.“
Það má ennfremur ímynda sér að Pílatus hafi fyrsta kastið verið settur í eitthvert miðlungsembætti hjá lífvarðasveitunum, kannski var hann birgðastjóri, kannski gjaldkeri, en svo sama ár og Sejanusi tókst að ýta Tíberíusi til Kaprí að sinna sínum pedófílsku hvötum, þá var lífvarðaforinginn orðinn nógu traustur í sessi til að geta gert lágaðalsguttann af birgðaskrifstofunni að hvorki meira né minna en landstjóra heimsveldisins í Júdeu. Það sem mamma heima í sveitinni hefur áreiðanlega verið stolt!
Því þótt Júdea væri afskekkt skattland og fjarri Róm, þá var það nú virðingarstarf samt að vera þar landstjóri. Starfið fólst aðallega í tvennu, að safna sköttum og halda friðinn og Pílatus hefur gengið til verks af algjörri samviskusemi og miklum metnaði. Í þeim heimildum sem til eru um Pílatus, aðrar en guðspjöllin, þar kemur fram að hann var heilmikið hörkutól og að minnsta kosti þrisvar vakti hann gríðarlega andúð þegna sinna Gyðinganna, sem fannst hann lítilsvirða trú þeirra og sjálfsvitund með yfirgangi og frekju.
Einn þeirra Gyðinga sem skrifaði um Pílatus, Fíló frá Alexandríu, segir að hann hafi verið„hefnigjarn skapofsamaður“og ennfremur„ósveigjanlegur, viljasterkur og óaflátanlegur“. Og þegar Gyðingar skrifuðu einu sinni til Tíberíusar til að kvarta undan landstjóra sínum, þá segir Fíló að Pílatus hafi óttast að í bréfinu yrði komið upp um múturnar, móðganirnar, ránsmennskuna, svívirðingarnar, illvirkin, aftökurnar án dóms og laga og þrotlausa og alltumlykjandi grimmdina, sem einkennt hafi alla hans stjórnartíð. Tíberíus mun reyndar einu sinni hafa sett ofan í við Pílatus en hann hélt þó embætti sínu í heil tíu ár, sem var fáheyrt í skattlandinu Júdeu.
Og merkilegast af öllu var að Pílatus lifði af þótt Sejanus félli í ónáð og væri líflátinn árið 31, þá upphóf Tíberíus miklar hreinsanir á mönnum Sejanusar sem ekki þurftu að kemba hærurnar. En Pílatus hélt velli fimm ár enn. Það sýnir að hvað sem líður lýsingum Fílós og fleiri á grimmd og hörku Pílatusar (lýsingum sem áreiðanlega hafa verið ýktar töluvert) þá hefur hann verið flinkur og þrautseigur embættismaður. Og þegar hann dæmdi Jesúa frá Nasaret til dauða, þá var hann ósköp einfaldlega að gegna skyldu sinni – að bæla niður hugsanlegan óeirðasegg. Aftökur slíkra manna voru mjög algengar í Júdeu og töldust hvorki tíðindum sæta, né þóttu þær sérstök grimmdarverk á sínum tíma.
En þessi dugmikli embættismaður, landstjóri, skattastjóri, saksóknari, dómari, hann endaði svo í trúarjátningu útbreiddustu trúarbragða heimsins. Skyldi mamma hans hafa hætt við að senda strákinn sinn í frægðarleit til heimsborgarinnar ef hana hefði grunað þau örlög hans? |
Demi Moore og Ashton Kutcher ætla að ganga í það heilaga í Kabbalah stíl í nóvember. "Þau eru afar hamingjusöm og nú lítur út fyrir að brúðkaup verði haldið í kringum Þakkargjörðarhátíðina." Parið hefur fetað í fótspor Madonnu og Britney Spears og eru virkir félagar í Kabbalah trúarsamtökunum og halda því til Ísrael eftir brúðkaupsferðina til að fá blessun trúarleiðtogans.
Demi er 15 árum eldri en Ashton og hefur tvisvar áður verið gift. Þegar hún var 18 ára giftist hún tónlistarmanninum Freddy Moore en leikkonan hefur haldið eftirnafni hans síðan. Hún var gift leikaranum Bruce Willis í mörg ár og á með honum þrjár dætur. Samkvæmt vinum parins ætla þau að halda daginn hátíðlegan á sveitabýli Demi í Idaho. Þau kynntust í partý hjá rapparanum Puff Daddy í New York á síðasta ári og fóru fljótt að vera saman en Ashton fór niður á skeljarnar á Sundance kvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári og gaf henni risa stóran demantshring. Honum kemur vel saman við dætur hennar og fyrrum eiginmanninn líka. Á tíma voru sögur í gangi um að Bruce ætlaði að vera svaramaður.
"Þó mér lítist vel á ráðahaginn ætla ég ekki að ganga svo langt og bjóða mig fram sem svaramaður," sagði leikarinn hneykslaður á slúðrinu. Bruce er hins vegar á lausu þessa dagana. Hann hætti nýlega með Baywatch gellunni Brooke Burns og sagði að þau hefðu þroskast í sundur en aldursmunurinn á milli þeirra var enn meiri en hjá Ashton og Demi.
Bruce varð fimmtugur á dögunum og áður en hann hætti með Burns fóru þau á djammið saman. Vitni sögðu að hann hefði hagað sér eins og smákrakki og að hún hefði þurft að halda honum uppi. "var alveg á eyrunum og var alltaf að klípa kærustuna í rassinn. Á endanum datt hann bara niður dauður við barinn og greyjið stelpan varð að biðja fólk að hjálpa sér að drösla honum upp á hótelherbergi." |
Handboltinn fór af stað að nýju í dag eftir langt jólafrí. Heil umferð var spiluð í Olís deild kvenna. Framarar eru enn á toppi deildarinnar eftir góðan sigur á Stjörnunni. Þá halda Valskonur öðru sætinu eftir stórsigur á KA/Þór á Hlíðarenda.
Garðabæ tók Stjarnan á móti toppliði Fram. Síðasti leikurinn í Olís deild kvenna fyrir jólafrí var spilaður 8. desember og því var eftirvæntingin töluverð þegar flautað var til leiks í Garðabænum í dag. Fram var með þriggja stiga forskot á Val eftir 11 umferðir en Stjarnan var fimm stigum þegar og í þriðja sætinu. Leikurinn var jafn lengst af í fyrri hálfleik en Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13. Framarar komu betur til leiks í seinni hálfleik og breikkuðu bilið jafnt og þétt en þegar yfir lauk munaði sjö mörkum á liðunum, 32-25. Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í liði Fram með 8 mörk líkt og Hanna Guðrún Stefánsdóttir hjá Stjörnunni.
Valsarar fóru illa með norðankonur
Valskonur burstuðu KA/Þór á Hlíðarenda með 16 marka mun 32-16. Í hálfleik var staðan orðin 18-7 fyrir heimakonum og eftir því sem leið á leikinn jókst bilið milli liðanna. Valskonur halda því öðru sætinu í deildinni. Sandra Erlingsdóttir var markahæst í liði Valskvenna og markvörðurinn Íris Björk Símonardóttir átti stórleik með 60% vörslu, 22 af 35 skotum, og gerði KA/Þór erfitt að koma bolta í netið. Markahæst í liði gestanna frá Akureyri var Rakel Sara Elvarsdóttir en hún gerði 4 mörk.
HK átti auðvelt með Aftureldingu
HK vann á heimavelli öruggan 33-23 sigur á Aftureldingu sem eru á botninum án stiga. HK náði fljótlega öruggu forskoti á Aftureldingu sem jókst eftir því sem leið á leikinn og var lengst af 10 mörk sem varð svo niðurstaðan. Markahæstar í liði HK voru þær Sigríður Hauksdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir með átta mörk hvor. Telma Rut Frímannsdóttir var markahæst í liðið gestanna, einnig með átta mörk. HK heldur fjórða sætinu með sigrinum.
Jafntefli í Hafnarfirðinum
ÍBV gerði sér ferð á Ásvelli í Hafnarfirði þar sem þær mættu Haukum. Leikurinn var mjög jafn lengst af og komust Haukakonur mest þremur mörkum yfir en staðan var 12-10 fyrir Haukum í hálfleik. Þegar þrjár mínútur voru eftir að leiknum voru Haukar einu marki yfir 22-21 en ÍBV jafnaði skömmu síðar og síðustu tvær mínútur leiksins voru markalausar og niðurstaðan því 22-22 jafntefli. Liðin eru í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar. Markahæst í liði Hauka var Guðrún Erla Bjarnadóttir með átta mörk og í liði ÍBV var það Sunna Jónsdóttir með sjö mörk. |
Tvöfalt fleiri greindust með HIV smit og lekandasmit í fyrra en árið áður. Þá greindust þriðjungi meira með sárasótt. Sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af því að margir virðist bera HIV smit án þess að vita af því.
Tölurnar er að finna í nýjustu farsóttarfréttum Landlæknisembættisins en þar eru tekin saman greind kynsjúkdómasmit á síðasta ári. Samkvæmt tölunum greindust 33 tilfelli af sárasótt á árinu 2016. Þau voru 23 árið áður og eru næstum 90% þeirra karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum. 86 greindust með lekanda í fyrra sem er nánast tvöföldun frá fyrri árum. 3/4 þeirra eru karlmenn. Þá greindust óvenju margir með HIV smit á síðasta ári eða 27 sem er meira en tvöfalt fleiri en árið áður. 14 þeirra voru með íslenskt ríkisfang og í rúmum helmingi tilfella var smitið rakið til útlanda. Sóttvarnalæknir lýsir áhyggjum af því að sex greindust með alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins, það er óvenju mikið. Að auki voru þrír einstaklingar með merki um langt genginn sjúkdóm. Það bendir til þess að margir geta verið lengi með sýkingu af völdum HIV án þess að hennar verði vart. Sóttvarnalæknir telur brýnt að gripið verði til opinberra aðgerða til að snúa þróuninni við, til dæmis auka samvinnu Velferðarráðuneytisins og sóttvarnalæknis við heilbrigðiskerfið, skólakerfið og grasrótarsamtök. |
Sterkasta skákmót ársins í heiminum hefst í Laugardalshöll í dag. Þá setjast að tafli skáksveitir 35 landa til að berjast um Evrópumeistaratign landsliða. Í hópi skákmeistara eru tíu af tuttugu sterkustu skákmeisturum heims með norska heimsmeistarann Magnus Carlsen í fararbroddi.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, sem átti hugmyndina að því að koma með þennan stórviðburð til Íslands, segir að óumdeilanlegt sé að EM landsliða sé stærsti skákviðburður á Íslandi allt frá því að Bobby Fischer og Boris Spasskí tefldu „einvígi aldarinnar“ í Laugardalshöll. Undirbúningur hefur staðið síðustu fjögur ár enda er umfang mótsins gríðarlegt, en erlendir gestir eru um 500 talsins.
„Fólk má eiga von á þvílíkri veislu og spennu í Höllinni,“ lofar Gunnar en auk Skáksambands Íslands stendur að Evrópumótinu Skáksamband Evrópu, með stuðningi ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar auk fjölda stofnana, fyrirtækja og einstaklinga.
Alls senda 35 lönd lið til keppni í opnum flokki en af 178 keppendum eru 133 stórmeistarar mættir til leiks. Í kvennaflokki senda þrjátíu lönd sín lið þar sem þrettán stórmeistarar eru meðal 146 keppenda.
Þrjár sveitir tefla fyrir Íslands hönd – landslið karla og kvenna auk „gullaldarliðsins“ sem skipað er hjörð sjóaðra stórmeistara, eða þeim Helga Ólafssyni, Jóhanni Hjartarsyni, Jóni L. Árnasyni, Margeiri Péturssyni og Friðriki Ólafssyni. Þeir náðu 5. sæti á Ólympíuskákmótinu 1986, sem er besti árangur sem íslenskt skáklandslið hefur náð.
Skákskríbentar erlendir telja Rússa sigurstranglegasta í opnum flokki enda með sterkasta liðið á pappírnum. Ríkjandi Evrópumeistarar Asera munu þó hafa eitthvað um það að segja enda hafa þeir hampað titlinum í tveimur af þremur síðustu Evrópumótum þvert á líkur. Lið Úkraínu er þá einnig ægisterkt, sem jafnframt verður sagt um sveit Frakka, Englendinga og Armena. Í kvennaflokki eru þrjú lið í sérflokki - sveitir Georgíu, Rússlands og Úkraínu.
Erfitt er að meta hvað telja má ásættanlegan árangur fyrir íslensku liðin. Viðmælendur Fréttablaðsins nefna að fyrir karlaliðið megi lokasæti um miðjan hóp teljast ásættanlegur árangur – kvennaliðið er spurningarmerki. En um það eru menn sammála að ef skákgyðjan leiðir saman gullaldarliðið og íslenska karlaliðið þá muni höllin víbra af spennu, enda tap óhugsandi fyrir báðar sveitir. |
ÍBV vann ellefu marka sigur á Fjölni í áttundu umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld en leikurinn fór fram í Vestmannaeyjum.
Þetta var þriðji heimasigur ÍBV-liðsins í röð og liðið nálgaðist topplið Vals sem tapaði stigi á heimavelli í gær.
Fjölnisliðið náði að jafna í 1-1 en þá komu þrjú Eyjamörk í röð og ÍBV-liðið var síðan komið sjö mörkum yfir í hálfleik, 16-9.
ÍBV liðið komst mest sextán mörkum yfir, 30-14, en Fjölnisstelpurnar löguðu aðeins stöðuna í lokin ekki síst fyrir frammistöðu Guðrúnar Jennýjar Sigurðardóttur sem skoraði þrjú mörk á lokakaflanum.
Ester Óskarsdóttir heldur áfram að spila vel með ÍBV en hún var markahæst á vellinum í kvöld með sjö mörk. Fjögur marka hennar komu á fyrstu fimmtán mínútum leiksins á meðan Eyjakonur komust í 11-4.
Þetta var síðasti leikurinn í áttundu umferð. ÍBV er í 3. til 4. sæti ásamt Fram en bæði lið eru með 10 stig. Valskonur eru með fjórtán stig og Haukar eru með ellefu stig.
ÍBV - Fjölnir 33-22 (16-9)
Mörk ÍBV: Ester Óskarsdóttir 7, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 6, Ásta Björt Júlíusdóttir 6, Sandra Dís Sigurðardóttir 5, Asuncion Batista 3, Greta Kavaliuskaite 3, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Kristrún Ósk Hlynsdóttir 1, Díana Kristín Sigmarsdóttir 1.
Mörk Fjölnis: Andrea Jacobsen 6, Guðrún Jenný Sigurðardóttir 4, Berglind Benediktsdóttir 2, Helena Ósk Kristjánsdóttir 2, Elísa Ósk Viðarsdóttir 2, Ólöf Ásta Arnþórsdóttir 2, Díana Ágústsdóttir 2, Diljá Baldursdóttir 1, Ylfa Dögg Ástþórsdóttir 1. |
Bæjarráð ítrekar hér með andstöðu sína við öll áform um skerðingu flugþjónustu á Reykjavíkurflugvelli og skorar á ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur að tryggja óskerta starfsemi Reykjavíkurflugvallar og þar með öryggishagsmuni íbúa landsbyggðarinnar, a.m.k. þangað til jafngóð eða betri lausn finnst.
Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Vestmannaeyja í dag vegna deiliskipulags Vatnsmýrarinnar. Ennfremur segir: Bæjarráð telur með öllu ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á Landspítalann þar sem staðsett er sérhæfð þjónusta s.s. hjartaþræðingar, heila- og taugaskurðlækningar og vökudeild.
Árið 2015 voru 93 einstaklingar fluttir í sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum - um flugvöllinn í Reykjavík - til læknisþjónustu þar í borg og árið 2014 voru þeir 109. Því miður er óraunhæft að ætla að í náinni framtíð skapist þær aðstæður í íslenskri heilbrigðisþjónustu að ekki verði þörf á að koma mörgum af erfiðustu tilfellunum sem koma upp á landsbyggðinni á Landspítalann við Hringbraut. Þjónusta sjúkraflugs er því meðal búsetuforsenda í Vestmannaeyjum eins og svo víða á landsbyggðinni.
Bæjarráð höfðar til þeirra sanngirnissjónarmiða að aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi sé tryggt. Ef hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni ganga eftir myndi það hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðarinnar. |
„Það er móðgun við Íslandssöguna og alveg sérstaklega við Vestmannaeyinga, sem minnast hryllingsins 16.-18. júlí 1627, þegar allt líf á staðnum var lagt í rúst, hátt í 250 teknir fastir og tugir drepnir.“ Svo skrifar Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, sem segir áform um mosku í Sogamýri hættuleg og móðgandi. Rifjar hann upp Tyrkjaránið í þessu samhengi í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur hefur verið yfirlýstur andstæðingur þess að Félag múslima á Íslandi fái að reisa mosku í Sogamýri og hefur borgarstjórinn fyrrverandi skrifað nokkrar greinar um málið. Hann heldur áfram í Morgunblaðinu í dag í grein sem ber yfirskriftina „Orð Adams Bandaríkjaforseta um íslam.“
Munu gera líf „óbærilegt“ hér á landi
„[John Quincy] Adams hafði litlar mætur á íslamstrú og virðist hafa kynnt sér bakgrunn hennar betur en margur kristinn maðurinn nennir að gera. Sérstaklega nú á tímum, þegar þorri stjórnmálamanna, a.m.k. hérlendis, er uppteknari við að tryggja sér auð og völd en að vinna að hagsmunum núlifandi og ófæddra kynslóða,“ skrifar Ólafur og vitnar í skrif Adams sem var forseti Bandaríkjanna frá 1825-1829. Hann lætur í kjölfarið þung orð falla.
„Hafa skyldi orð þess mikla stjórnmálaskörungs í huga nú, þegar hér á landi ríkir skefjalaus undanlátssemi við múslima, sem eru þegar orðnir fram úr hófi plássfrekir í okkar samfélagi og munu gera líf afkomenda okkar óbærilegt hérlendis, á meðan borgaraleg og kristin öfl þora ekki að rísa gegn áhrifum íslams hér á landi.“
Ólafur lýsir enn á ný furðu sinni yfir því að sú staða sé komin upp að „Samfylkingaflokkarnir í Reykjavík, sem hafa náin tengsl við samtök múslima félaga, sem fara ekki dult með hrifningu sína á bræðralagi Morsis í Egyptalandi, séu langt komnir með að koma fyrir mosku á einum mest áberandi stað í borginni.“ Segir Ólafur það móðgun við Íslandssöguna og Eyjamenn í kjölfarið. |
Eyjakonan Elísa Viðarsdóttir var í gær valin í A-landsliðshópinn fyrir Algarve-bikarinn en þetta er í fyrsta sinn sem landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson velur hana í keppnishóp. Elísa mun hitta þar fyrir markadrottninguna og eldri systur sína Margréti Láru Viðarsdóttur sem er markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi.
Elísa var að sjálfsögðu í skýjunum þegar Fréttablaðið heyrði í henni í gær. „Þetta er mjög kærkomið enda er þetta draumur hvers knattspyrnumanns," sagði Elísa og þeir sem til hennar þekkja í Eyjum og annars staðar vita að hún hefur metnað til að ná langt.
„Ég er búin að leggja mjög hart að mér síðastliðið ár og er búin vinna að því markvisst það að komast í landsliðið síðasta eina og hálfa árið," segir Elísa sem spilaði mjög vel með spútnikliði ÍBV í fyrrasumar en nýliðarnir náðu þá þriðja sæti deildarinnar. Elísa er fimm árum yngri en systir hennar Margrét Lára Viðarsdóttir sem hefur skorað 63 mörk í 77 A-landsleikjum.
„Það hefur verið langþráður draumur að fá að spila með stóru systur enda hefur maður alltaf litið upp til hennar," segir Elísa sem er mjög ólíkur leikmaður enda spilar hún í vörninni og vanalega sem bakvörður. „Við erum eiginlega bara svart og hvítt," segir Elísa í léttum tón.
Elísa er nýkomin heim frá Þýskalandi þar sem hún heimsótti stóru systur hjá þýska stórliðinu Turbine Potsdam. „Ég var í heimsókn hjá henni fyrir tveimur vikum og æfði með þeim hjá Potsdam. Það var rosalega gaman og þvílík reynsla sem ég fékk þar á þessum tíu dögum. Það gekk framar vonum," segir Elísa og hún ætlar sér langt.
„Það er draumur númer eitt, tvo og þrjú að komast í eitt að bestu liðum í heimi. Maður þarf að taka þetta skref fyrir skref, byrja á því að koma sér í landsliðið og svo í liðið. Þá eru manni allir vegir færir því eins og landsliðið er í dag þá er þetta eitt besta landslið í heimi. Það hefur verið erfitt að komast í landsliðið síðustu ár enda stelpurnar alltaf að verða betri og betri. Það er frábært að vera byrjuð að banka á dyrnar," segir Elísa og hún er sannfærð um að æfingarnar í Potsdam hafi verið góður undirbúningur. |
Ný tækni gæti gert okkur kleyft að ganga um regnskógana með David Attenborough, skoða pýramídana eða bara fara á stefnumót, allt á meðan við sitjum heima í stofu. Sýndarveruleiki er næsta stóra skrefið í tölvuleikjaheiminum en byltingin gæti teygt sig inn í flesta geira samfélagsins að mati sérfræðinga.
Á síðustu árum hafa nokkur fyrirtæki þróað búnað sem á að gera fólki kleyft að upplifa sýndarveruleika heima hjá sér, með misjöfnum árangri þó. Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri hjá Senu, segir að vélarafl hafi skort og tæknin ekki verið komin nógu langt.
Og maður fór á ýmsar sýningar í gegnum tíðina og þá var alltaf, maður kom heim með sjóveikistilfinningu, maður þurfti bara að leggja sig í viku eftir að hafa verið með alls kyns hjálma á höfðinu og alltaf voru menn bara þetta er komið.
Ólafur er sannfærður um að á næstu árum muni sýndarveruleiki verða hluti af lífi okkar á mörgum sviðum.
Ég held að þetta verði mikið notað í bara námi bæði það að koma fólki inn á framandi slóðir eða aftur í tímann eða fram í tímann eða á staði sem að hefur verið erfitt að gera ljóslifandi hingað til. Þannig að þetta getur verið notað bara í læknisfræði eða sálfræði að hjálpa fólki að komast yfir alls kyns fóbíur, kannski horfast akkurat í augun við það því þetta er raunverulegt umhverfi sem þú ert kominn í. Ég held að þetta komi til með að vera bara mikil breyting á okkar lífi. Þú ert farinn að heimsækja hluti og staði sem þú gast ekki ímyndað þér að þú ættir eftir að koma á fram að því. Og í þessu raunveruleikastigi sem þetta er komið í núna þá er þetta alveg hreinlega ótrúlegt sko. |
Norðurþing telur óviðunandi að gamlar húseignir Síldarverksmiðja ríkisins standi auðar og yfirgefnar á Raufarhöfn. Sveitarfélagið hefur óskað eftir viðræðum við ríkið um úrbætur. Ábyrgð ríkisins sem lóðareiganda er mikil, segir sveitarstjóri Norðurþings.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist nokkuð ljóst að ríkið á lóðina sem gömlu verksmiðjuhús Síldarverksmiðja ríkisins á Raufarhöfn standa á. Norðurþing hefur sent fjármálaráðherra bréf þar sem bent er á að húseignirnar séu í mikilli niðurníðslu og finna þurfi á þessu lausn. Því óskar sveitarfélagið eftir viðræðum við ríkið án tafar um leiðir til úrbóta. Bergur Elías Ágústsson er sveitarstjóri Norðurþings.
Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings: Þarna er lóð í eigu ríkisins með verksmiðjumannvirkjum í niðurníðslu sem að er mikill lýti á þeim fallega stað sem að Raufarhöfn er. Og það er sveitarstjórn mikið í mun að reyna að bæta úr því ástandi og það er alveg ljóst að ábyrgð ríkissjóðs sem eiganda lóðarinnar er mjög rík. Það er tvennt í stöðunni. Annars vegar er það að þau mannvirki sem ekki verða nýtt, þau þarf að fjarlægja. Og geta menn fundið lausn eða verkefni fyrir önnur húsnæði þá erum við tilbúin til að, til að eiga samstarf við ríkisvaldið um þau mál.
Verksmiðjuhúsin komust í eigu Síldarvinnslunnar hf. árið 2003 og eftir að starfseminni var hætt þremur árum síðar ráðstafaði fyrirtækið þessum húseignum á Raufarhöfn til einstaklinga og félaga. Meðal annars til Álfasteins sem tekið var til gjaldþrotaskipta fyrir rösku ári. Eftir standa flestar af þessum húseignum auðar og yfirgefnar og það telur Norðurþing óásættanlegt.
Bergur Elías Ágústsson: Ábyrgð ríkisins er mikil sem eiganda lóðarinnar. Á því er enginn vafi. |
Fríða Dís Guðmundsdóttir opnaði listasýninguna Próf/Tests á Ljósanótt um helgina en þetta er hennar fyrsta málverkasýning. Innblásturinn á bakvið sýninguna kemur frá hennar löngu bið eftir því að verða ófrísk. Fríða fékk neikvæða útkomu á þungunarprófum í 56 mánuði, áður en hún sá loksins línurnar tvær sem hún hafði beðið svo lengi eftir. Fríða Dís og Þorsteinn Surmeli eiginmaður hennar eignuðust son sinn Dag fyrir þremur mánuðum en hún varð ófrísk af honum í sinni sjöttu glasafrjóvgun.
„Við eigum hvort annað“ Fríða Dís var tvítug þegar þau kynntust og þau byrjuðu að reyna að eignast barn í febrúar árið 2012 eftir að hafa verið saman í fimm ár. Fríða Dís var greind með legslímuflakk eða endómetríósu í apríl árið 2012 en þá var hún 25 ára gömul. „Ég fékk greiningu eftir að hafa gengið á milli lækna vegna slæmra magaverkja,“ segir Fríða Dís. Glasafrjóvgun hefur reynst vel fyrir margar konur með legslímhimnuflakk en ferlið reyndist Fríðu Dís langt og erfitt.
„Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef notað mörg óléttupróf, suma mánuði tók ég fleiri en eitt. En það tók okkur hjónin 57 mánuði að verða barnshafandi.“
Fríðu Dís leið andlega vel á meðgöngunni en fór snemma að vera slæm í grindinni og gat lítið sem ekkert athafnað sig á síðari hluta meðgöngunnar. „Það tók á en var fljótt að gleymast þegar við fengum drenginn í hendurnar. Dagur Þorsteinsson Surmeli kom í heiminn 2. júní og er nú orðinn þriggja mánaða. Hann er algjör draumur og dafnar mjög vel. Þetta er best í heimi.“ segir Fríða Dís.
Fríða Dís segist ekkert alltaf hafa verið bjartsýn á ná að verða ófrísk en stuðningur eiginmannsins hafi verið ómetanlegur.
„Að greinast með endómetríósu var svolítill skellur, þá fyrst var þetta orðið að vandamáli. Ég drakk í mig allan fróðleik um endómetríósu sem ég komst yfir. Að fá vitneskju um að 40 prósent þeirra kvenna sem greinast kljást við ófrjósemi var ekki til að bæta gráu ofan á svart. Maðurinn minn stappaði þó alltaf í mig stálinu þegar mér leið verst og reyndist mér alveg svakalega vel. Eftir enn eitt neikvæða prófið ætlaði svartnættið mig lifandi að éta , þá segir hann við mig „Fríða mín, við eigum hvort annað“, það er sennilega það fallegasta sem nokkur hefur sagt við mig.
Fljótt að gleymast „Við byrjuðum í glasafrjóvgunarferli hjá Art Medica í janúar 2015 og kláruðum ferlið okkar í IVF í október 2016 með jákvæðu prófi. Við fórum alls í tvær meðferðir og settir voru upp sex fósturvísar samtals, sá síðasti varð að barni. Við maðurinn minn mættum alltaf full af bjartsýni til bæði Art Medica og IVF. Starfsfólkið var yndislegt og hjálplegt við okkur og við berum þeim vel söguna, sér í lagi IVF. Lyfjameðferðin fór að taka verulega á þegar fimmti fósturvísirinn var settur upp og ég var komin í mikið hormónaójafnvægi. Eftir að fyrri meðferðin kláraðist, þá eftir fimm misheppnaðar tilraunir, ákváðum við ásamt Ingunni Jónsdóttur hjá IVF að ég færi í blæðingarstopp fram að næstu meðferð. Það fól í sér að ég var slitlaust á pillunni í nokkra mánuði til að reyna að minnka bólgurnar. Það er stórkostleg þversögn í því að vera á pillunni að reyna að eignast barn en gaf góða raun fyrir okkur.“
Fríða Dís segir að það sé mikill ókostur að meðferðirnar séu ekki meira niðurgreiddar hér á landi.
„Eftir að við hófum nýja meðferð á haustmánuðum 2016 hjá IVF fengum við jákvætt próf eftir fyrstu tilraun þar, þá sjötti fósturvísirinn sem fer upp. Við tökum prófið snemma morguns 5. október. Það var stórkostleg lífsreynsla, við erum ennþá að jafna okkur á því. Það er ótrúlega frelsandi að fá sinn heitasta draum uppfylltan.“
Málverkunum fylgir sorg og von Próf/Tests listasýning Fríðu Dísar er á Listasafni Reykjanesbæjar og stendur opin til 15.október næstkomandi.
„Sýningin er í grunnin mín leið til að koma frá mér erfiðum tilfinningum. En þegar á botninn er hvolft snýst sýningin um þá sem geta samsamað sig voninni og sorginni sem fylgir málverkunum. Á sýningunni eru 57 olíumálverk, öll í sömu stærð og í tveimur litum, hvítum og rauðum. Fyrirmynd málverkanna eru 57 þungunarpróf. 56 verkanna eru með einu rauðu lóðréttu striki á hvítmáluðum striga sem munu liggja líkt og rauður þráður í gegnum sýninguna en 57. verkið stingur í stúf enda sýnir það tvö rauð, lóðrétt strik. Hvert málverk táknar einn mánuð í því 57 mánaða ferli sem það tók okkur hjónin að búa til barn.“
Málverk Fríðu Dísar bera hvert heiti þess mánaðar og árs sem það stendur fyrir, allt frá febrúar 2012 til október 2016 þegar hún tók síðasta prófið.
Átti ekki von á að verkin yrðu svona mörg „Verkin eru þannig mjög persónuleg en ekki síður táknræn. Persónuleg vegna þess að með verkunum er ég, og við hjónin, að opna fyrir hluta lífs okkar sem við höfum hingað til haldið út af fyrir okkur og táknræn þar sem hvert strik á sýningunni stendur fyrir eina tilraun sem hefur mistekist. Og hvert strik táknar jafnframt von og þrá okkar hjóna til að eignast barn.“
Fríða Dís starfar sem tónlistarmaður og lærir Jazzsöng í tónlistarskóla F.Í.H en hún var í BA-námi í listfræði þegar hugmyndin af sýningunni kviknaði.
„Þegar ég fékk hugmyndina að málverkasýningunni Próf/Tests hafði glugginn á þungunarprófinu birst mér með einu striki sem síendurtekið stef í að verða eitt og hálft ár. Ég var í listfræði í HÍ á þessum tíma og mikið að vinna með myndlestur, mér fannst glugginn á þungunarprófinu vera eins og málverk. Þegar hugmyndin að sýningunni kviknaði var því ekki áætlað að verkin yrðu jafn mörg og raunin varð. Ég er þó þakklát fyrir að verkin urðu 57 því á tímabili var ég ekki lengur viss hvort að sýningin yrði að veruleika yfir höfuð. Sjálf var ég heldur ekki viss hvort ég hefði taugar í að opna mig á þennan hátt fyrir almenningi en hugmyndin að sýningunni var þó sífellt að gera vart við sig í huga mér.“
Umræðan um barnleysi er viðkvæm Hugmyndin að sýningunni hefur verið lengi í bígerð en Fríðu Dís fannst hún ekki geta hafist handa við sýninguna fyrr en lokaverkið með tveimur strikunum, varð að veruleika.
„Það var ekki fyrr en ég sá verkið, Henry Ford Hospital (1932), eftir nöfnu mína Fridu Kahlo á sýningu hennar og Diego Rivera, Art in Fusion, á Musée de l'Orangerie í París á haustmánuðum 2013 að ég vissi að ég ætlaði að láta verða af sýningunni, það er að segja ef ég yrði svo lánsöm að geta lokað henni með verki af tveimur strikum. Verk Kahlo sýnir upplifun hennar á fósturmissi og snart mig svo djúpt að hún skildi mig eftir í tárum. Á þessari stundu vissi ég að sýningin Próf/Tests væri stærri en ótti minn við afhjúpun og gagnrýni. Ég ber þó ekki ein þungann af afhjúpuninni og því var næsta skref að segja eiginmanni mínum frá hugmyndinni. Ég hefði ekki þurft að mikla það fyrir mér því hann tók vægast sagt vel í hugmyndina, eins skapandi og stórkostleg mannvera hann er, og hvatti mig heilshugar til að framkvæma hana.“
Fríða Dís segir að viðtökurnar hafi verið verið hreint út sagt ótrúlegar síðan sýningin opnaði á fimmtudag. Margir hafa gefið sig á tal við mig og sent mér skilaboð og deilt með mér sinni reynslu, ég er mjög þakklát fyrir það. Umræðu sem fylgir barnleysi er viðkvæm en við verðum að finna leiðir til að tala saman. |
Strætó var í fyrra rekinn með tapi fjórða árið í röð. Tapið jókst um 81% frá árinu 2007. Fjármálastjóri Reykjavíkurborgar segir í umsögn um ársreikning fyrirtækisins frá í fyrra að væri það einkafyrirtæki yrði það ekki talið rekstrarhæft.
Verulegur hallarekstur hefur verið hjá fyrirtækinu síðustu fjögur ár og hefur eiginfjárstaðan versnað um 817 milljónir króna á tímabilinu þrátt fyrir viðbótarframlög árin 2007, 08 og 09 um 550 milljónir króna. Í árslok 2008 var eigið fé neikvætt sem nam 57% af heildareignum Strætó. Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, segir í umsögn sinni um ársreikninginn að ef um venjulegan fyrirtækjarekstur væri að ræða myndi þessi staða kalla á fyrirvara í áritun ytri endurskoðanda en þess sé þó ekki þörf þar sem sveitafélögin sem eigi Strætó beri ábyrgð á skuldbindingunum. Eigendurnir eru Reykjavíkurborg, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarneskaupstaður og sveitafélagið Álftanes. Birgir Björn segir að helstu niðurstöðu sem lýsi fjárhagslegri stöðu Strætó sýni slæma stöðu fyrirtækisins. Hlutfall um arðsemi eigna sé neikvætt um þriðjung, veltufjárhlutfall sem sýni hæfi Strætó til að standa í skilum með skuldir sínar teljist ekki ásættanlegt og skuldsetningarhlutfall sé verulega hátt eða 194%. Þá muni vaxtakostnaður íþyngja fyrirtækinu verulega næstu misseri en heildarskuldir voru í árslok um 1752 milljónir króna. Framundan sé kostnaðarsöm endurnýjun á strætisvögnum og aksturssamningum og fyrirtækið meti það svo að kostnaður muni aukast um 5-700 milljónir króna árlega. Í umsögninni segir að hlutur fargjaldatekna hafi lækkað undanfarin ár en framlög sveitarfélaganna aukist á móti. Á tímabilinu 2004-2008 hafi hlutur fargjalda lækkað úr 37% í 21% og framlög eigenda aukist úr 61% í 77%. Meginskýring einkum árin 2005 og 6 megi rekja til tilrauna með að láta strætó ganga á 10 mínútna tíðni, rafrænt greiðslukerfi auk ýmissa breytinga á leiðakerfi. Í fyrrasumar hafi verið tekin upp ný afsláttarkort, svokölluð sumarkort, sem áttu að leiða til hækkunar tekna en höfðu öfug áhrif. |
Forsætisráðherra sér ekki fyrir sér að nýr innanlandsflugvöllur verði gerður í Hvassahrauni. Ráðherrar úr ríkisstjórninni taka ekki vel í það að flytja innanlandsflugið úr Vatnsmýri í Hvassahraun.
Rögnunefndin leggur til að kannaðir verði frekar möguleikar á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Nefndin var skipuð aðilum Reykjavíkurborgar, Icelandair og ríkisins. Svo virðist þó sem andstaða sé meðal ríkisstjórnarinnar við gerð nýs flugvallar í Hvassahrauni. „ Ég á nú mjög erfitt með að sjá að það geti gengið upp,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Atvinnuvegaráðherra og utanríkisráðherra hafa einnig lýst yfir efasemdum um verkefnið á Facebook. Þá hefur formaður Samgöngunefndar Alþingis sagt að það verði aldrei gerður flugvöllur í Hvassahrauni. Það sé útilokað að Alþingi leggi til það fjármagn sem til þarf. Undir þetta tekur Sigmundur Davíð. „ Það er augljóst að það er útilokað eins og sakir standa,“ segir Sigmundur.
Umdeildar byggingarframkvæmdir
Deilt hefur verið um fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir í Vatnsmýrinni, og undirbúningsframkvæmdir við flugvallarsvæði. Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur sagt að Norðaustur-suðvestur flugbrautinni verði ekki lokað, fyrr en ákvörðun um framtíðarskipulag liggi fyrir. „ Þær athugasemdir sem ég hef gert eru þær að þessar framkvæmdir eru, ég hef orðað það sem svo að þetta væri undanfari fyrir frekari framkvæmdir, sem myndu þá hafa áhrif á rekstur þriðju brautarinnar á flugvellinum. Okkar útgangspunktur, enn og aftur, verður að vera sá, að við getum haldið uppi öruggu innanlandsflugi, og það verða engar ákvarðanir teknar í ráðuneytinu aðrar en þær að það sé tryggt,“ segir Ólöf.
Samkvæmt áhættumati Samgöngustofu er áhættan við að loka flugbrautinni talin þolanleg. Niðurstaðan liggur á borði innanríkisráðherra.
En á forsætisráðherra vona að haldið verði áfram með framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll? „ Ja, ekki miðað við þetta, miðað við það að menn ætli að sammælast um það að tryggja að öryggi flugvallarins áfram og að hætta átökunum um Reykjavíkurflugvöll. Þá kann að vera að borgin vilji gera einhverjar ráðstafanir gagnvart þeim sem að hafa haft hug á að byggja á flugvallarsvæðinu eða upp að því,“ segir Sigmundur.
Sigmundur telur áhuga hjá borgaryfirvöldum á að kanna nýjan flugvöll frekar. Skiptar skoðanir séu um næstu skref. „ En þess vegna er líka svo mikilvægt að menn skuli þó vera sammála um það að á meðan að slíkar hugsanlegar framtíðarvangaveltur eigi sér stað, þá verði Reykjavíkurflugvöllur áfram á sínum stað og í þeirri mynd sem að hann er núna.“
Hann er ekkert að fara neitt? „ Nei, hann er ekkert að fara í fyrirsjáanlegri framtíð, nei alls ekki.“ |
Mikill viðbúnaður er í Tyrklandi í aðdraganda áramótanna, en á nýársnótt verður rétt ár liðið frá því að grímuklæddur byssumaður réðist inn í næturklúbb í Istanbúl og skaut á gesti af handahófi með kalasnikov-hríðskotariffli, myrti 39 og særði um 70 til viðbótar. 37.000 lögreglumenn verða á vakt í Istanbúl í nótt, meira en tvöfalt fleiri en í fyrra. Auk þess munu um 4.000 manns úr her og strandgæslu standa vörð um öryggi borgarbúa um áramótin.
Yfirvöld hafa jafnframt gripið til þess ráðs að hreinlega banna allan nýársfagnað á mörgum vinsælustu stöðum borgarinnar fyrir slíkar uppákomur, svosem á Taksim-torgi og torgum og almenningsgörðum í Sisli-verslunarhverfinu og Besiktas-hverfinu. Öllum akstursleiðum til þessara svæða verður lokað síðdegis í dag. Borgaryfirvöld banna líka alla umferð flutningabíla um miðborg Istanbúl frá því snemma morguns í dag og fram eftir degi á morgun.
Tyrkneska ríkisfréttastofan Anadolu greinir einnig frá því að lögreglumenn í dulargervi muni sinna öryggisgæslu á Taksim-torgi. Það gæti spillt nokkuð áætlunum lögreglunnar, að fréttastofan upplýsir líka hvernig þeir hyggjast dulbúast, nefnilega sem sölumenn lottómiða og heitra kastaníuhneta.
Í Ankara verða hátt í 10.000 lögreglumenn á vakt og bannað að safnast saman á Kizilay-torginu í hjarta höfuðborgarinnar, þar sem fólk hefur löngum safnast saman til að fagna nýju ári. Hundruð manna, þar á meðal fjölmargir útlendingar, hafa verið handtekin síðustu daga vítt og breitt í Tyrklandi, grunuð um tengsl við og jafnvel aðild að hinum illræmdu hryðjuverkasamtökum, Íslamska ríkinu, að sögn yfirvalda. Þó nokkrir í þessum hópi eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk um áramótin. |
Endurskoða á reglur um lausagöngu katta á Akureyri. Kona sem staðið hefur í stríði við kött í hverfinu í rúmt ár kom heim úr ferðalagi í vikunni og hennar beið heldur ógeðfelld gjöf.
Erna Gunnarsdóttir, framhaldsskólakennari: Hann kemur hérna yfir lóðina, stekkur hér upp á skjólvegginn við sólpallinn, stekkur hingað upp á svalirnar, héðan og inn í gluggann, inn um gluggann og inn á rúm mjög gjarna, hjónarúm.
Akureyrarbæ berast reglulega kvartanir um lausagöngu katta sem gera þarfir sínar í görðum og ógni fuglalífi. Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkti fyrir rúmu ári að endurskoða reglurnar með það að markmiði að takmarka lausagöngu. Sú vinna stendur enn yfir.
Erna Gunnarsdóttir: Það er ekkert við þennan krúttlega kött að sakast en maður svona spyr sig um hvort að eigendurnir þurfa ekki að gera einhverjar frekari ráðstafanir.
Skiptar skoðanir eru meðal bæjarbúa um málið.
Óðinn Svan Óðinsson: Hvað finnst þér um lausagöngu katta á Akureyri?
Halla Jensdóttir: Ég er mjög á móti því.
Óðinn: Hvers vegna?
Halla Jensdóttir: Vegna þess að mér finnst að þetta eigi bara að vera í bandi eins og hundar.
Óðinn: Hvað finnst þér um að kettir fái að ganga lausir hérna um bæinn?
Gunnar Sigurbjörnsson: Það hefur ekki truflað mig neitt.
Ónafngreindur viðmælandi: Þetta skítur í beðin hjá manni.
Óðinn: Finnst þér að það ætti að vera eitthvað regluverk varðandi ketti hérna á Akureyri?
Ónafngreindur viðmælandi: Já, það má bara binda þá eða, já, hafa þá í bandi.
Erna segir ónæðið hafa náð hámarki þegar hún kom heim eftir ferðalag um helgina og við henni blasti óvæntur glaðningur.
Erna Gunnarsdóttir: Það var þessi della hérna og hann hefur hreiðrað um sig hérna í leðursófanum upp við einhvern hérna svona loðinn púða og haft það notalegt og ekki alveg náð að hérna halda í sér.
Óðinn: Kannski haft það of notalegt?
Erna Gunnarsdóttir: Sennilega, sko. Þá var mér nú allri lokið og tók mynd og skrifaði póst á Facebook og það var sanni manni mælt að það hrúguðust skilaboð frá fólki sem að var í svipaðri stöðu, að berjast við ketti en þetta er greinilega mjög algengt vandamál hérna á Akureyri. |
Fyrirsætan Louise Parker gaf Balenciaga bókstaflega puttann á Instagram um daginn þar sem hún var ekki ánægð með tískuhúsið. Að hennar sögn var henni flogið til Parísar, þar sem hún beið lengi eftir mátun, hárið hennar var klippt en ákveðið var síðan að hún tæki ekki þátt í sýningunni.
Fyrirsætur hafa verið duglegar undanfarið að gagnrýna tískuhúsin fyrir það hvernig farið er með fyrirsætur og eru aðstæður breyttar og orðnar mun betri. Nú þarf að vera með sálfræðing baksviðs til að tryggja að aðstæður séu góðar, en Louise nefndi að sá hafi ekki verið sýnilegur. Einnig þarf að vera með læknisvottorð sem sýnir fram á heilbrigði og líkamsþyngd.
Balenciaga harmar þetta atvik og að þeim finnist leiðinlegt að þetta hafi farið svo. Hins vegar segja þeir að hún hafi fengið greitt fyrir eins og hún hafi gengið í sýningunni, en einnig að það hafi aldrei verið staðfest við hana að hún yrði með í sýningunni.
Er ekki betra samt að staðfesta fyrirsætuna í sýninguna áður en hárið hennar er klippt og útliti hennar breytt? Áfram fyrirsætur sem ekki láta vaða yfir sig.
It feels great to take a 12 hour trip for a client, be fitted after waiting for hours, agree to have your hair cut for their show, only to be cancelled the following day. Now that you're finally paying attention to "model's rights" (I also got that doctors note to confirm a healthy BMI) maybe I'd feel better if I met with your so called therapist that's on call 24/7. Thanks for the haircut @balenciaga Thanks @kering_official #fuckyoubalenciaga #kering
A post shared by Louise Parker (@louiseparker) on Sep 30, 2017 at 10:39am PDT |
Swansea er fallið úr ensku úrvalsdeildinni eftir tap gegn Stoke í lokaumferð deildarinnar í dag. Liðið þurfti á kraftaverki að halda til þess að halda sæti sínu í deild hinna bestu en það gekk ekki eftir.
Swansea þurfti að vinna Stoke á og Southampton að tapa fyrir Manchester City til þess að liðin yrðu jöfn að stigum í 17. sætinu. Southampton var hins vegar með 10 mörk á Swansea í markatölu og því þurfti City að bursta Southampton og Swansea vinna með nokkrum mun.
Walesverjarnir töpuðu hins vegar á heimavelli fyrir Stoke, liði sem var nú þegar fallið úr deildinni, og því skipti ekki máli hvað gerðist í Southampton.
Dagurinn byrjaði vel fyrir Swansea því Andy King kom heimamönnum yfir eftir aðeins korters leik. Gestirnir svöruðu hins vegar fljótt og jöfnuðu gegn gangi leiksins. Xherdan Shaqiri átti frábæra sendingu inn á Badou Ndiaye sem skoraði framhjá Lukasz Fabianski í markinu.
Peter Crouch var svo búinn að koma Stoke yfir áður en flautað var til leikhlés með skallamarki eftir aukaspyrnu. Mark Crouch var það þúsundasta í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Hvorugu liðinu tókst að skora í seinni hálfleik en Stoke komst næst því þegar Anthony Taylor dæmdi vítaspyrnu snemma eftir leikhléð. Shaqiri lét hins vegar Fabianski verja frá sér spyrnuna og lokatölur urðu 2-1 fyrir Stoke og kveðja bæði liðin því ensku úrvalsdeildina í dag. |
Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Kaupþings í nótt til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi. Allir stærstu viðskiptabankarnir eru því komnir í þrot.
Fjármálaeftirlitið fór inn í bankana á grundvelli heimilda Alþingis sem samþykktar voru með neyðarlögum á mánudagskvöld. Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir eru innistæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu. Útibú bankans á Íslandi, þjónustuver, hraðbankar og netbankar eru opnir, segir á vef Fjármálaeftirlitsins en þess má geta að forstjóri FME virðist horfinn í það minnsta reynist ómögulegt að finna manninn og fá hann til að tjá sig um stórviðburði síðustu vikna. Exista er stærsti hluthafinn í Kaupþingi með tæplega 25% hlut. Í hópi annarra stórra hluthafa eru lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er með 3,3% hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna með 3,2% hlut og Gildi, lífeyrissjóður með 2,9% hlut. Erfiðlega hefur gengið að fá fólk úr atvinnulífinu til að tjá sig um það sem gerst hefur í bankaheiminum en menn eru þó sammála um að hið ómögulega hafi gerst að allir stóru bankarnir hafi farið í þrot á einni viku, nú síðast Kaupþing og segja fjármálasérfræðingar að orð Davíðs Oddssonar í Kastljósi um að Íslendingar myndu ekki borgar erlendar skuldir sínar, hafa valdið því að allt gekk af göflunum í Bretlandi.
Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði hjá HR: Þetta er engu lagi líkt og getur ekki verið annað heldur en að ríkisstjórnin taki á þessu vandamáli.
Á seðlabankastjóri þá að víkja?
Ólafur Ísleifsson: Svarið er augljóst.
Skoðum aðeins það sem gerst hefur síðan ákveðið var að þjóðnýta þyrfti Glitni í stað þess að veita bankanum neyðarlán. Þjóðin fór á hvolf við þessi tíðindi eins og von var en Fjármálaeftirlitið sendi reyndar síðan frá sér tilkynningu í gærdag um að Glitnir væri hæfur í Kauphöllinni að nýju. Landsbankinn fylgdi svo í kjölfar Glitnis og það aðeins á nokkrum dögum og nú í nótt fór Kaupþing sömu leið. |
Hátt í helmingur svarenda í könnun um lífskjör og hagi öryrkja hefur átt í erfiðleikum með að greiða venjuleg útgjöld. Fátækt virðist vera hlutskipti margra öryrkja.
Hátt í helmingur svarenda í könnuninni er óánægður með fjárhagsafkomu sína og konur fremur en karlar. Heildar mánaðartekjur öryrkja voru að meðaltali tæpar 175.000 krónur á síðasta fjórðungi 2008.
Rannsóknin er unnin við Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands og er um hagi og viðhorf örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og stóð könnunin frá því í september 2008 til janúar 2009. Guðrún Hannesdóttir félagsfræðingur vann úr niðurstöðunum og skrifaði skýrslu sem kynnt voru á fréttamannafundi hjá Öryrkjabandalagi Íslands fyrir hádegi.
Lagður var spurningalisti með 116 spurningum fyrir öryrkja í símakönnun en einnig var þeim gefinn kostur á að svara spurningarlistanum á netinu. 1400 manna úrtak var tekið úr skrá yfir örorkulífeyrisþega og 100 manna úrtak úr skrá endurhæfingarlífeyrisþega. Svarhlutfall var tæp 60%. Hátt í helmingur svarenda er óánægður með fjárhagsafkomu sína. Litlu færri segja að á síðastliðnum 12 mánuðum hafi þeir átt í erfiðleikum með að greiða venjuleg útgjöld.
Fleiri konur en karlar hafa átt í slíkum erfiðleikum og 82% þeirra kvenna sem eru með barn innan 18 ára aldurs. Meirihlutinn, 69% karla og 74% kvenna voru með undir 200.000 krónur í heildartekjur á mánuði sama ár. Giftar konur og einhleypir karlar eru hlutfallslega flest þeirra sem eru í neðstu tekjuflokkunum. |
Hæstiréttur hefur hafnað kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um að hún fái lista, frá Símanum og Vodafone, um alla GSM-síma sem tengdust sendi við Friðarhöfn í Vestmannaeyjum nóttina sem stórtjón varð vegna íkveikju á hafnarsvæðinu. Málið er nokkuð sérstakt því þarna metur Hæstiréttur að friðhelgi einkalífsins vegi þyngra en rannsóknarhagsmunir lögreglu.
Sextánda desember varð stjórtjón í eldsvoða hjá Ísfélaginu í Eyjum og lék strax grunur á að þetta væri íkveikja. Gegnt Friðarhöfn í Eyjum, - á Hánni, er GSM sendir sem beinist meðal annars að brunastað. Lögreglan vildi fá upplýsingar frá Símanum og Vodafone um alla símnotkun í gegnum þennan sendi frá hádegi laugardaginn 16 desember til klukka tíu að kvöldi sama dags. Vildi lögregla fá upplýsignar um síma sem hringt var úr og númer sem hringt var í. Einnig lista yfir sendar og móteknar SMS sendingar.
Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði lögreglu í vil og dæmdi símafyrirtækin til að afhenda þessar upplýsingar. Þau skjóta málinu til Hæstaréttar sem snýr dómnum og telur að beiðni lögreglu sé of víðtæk enda verði að liggja fyrir rökstuddur grunur um að ákveðin sími eða símar hafi verið notaðir í tengslum við brotið svo að þetta sé hægt að heimila. Vísar Hæstiréttur til 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins til að rökstyðja dóminn en hann kváðu upp Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum, Karl Gauti Hjaltason segir að það sé ekki til framdrráttar rannsókninni að fá þessa höfnun. Annars segir hann að fullur þungi sé í rannsókninni sem nú um stundir er meðal annars sinnt af tveimur rannsóknarlögreglumönnum úr Reykjavík. Hann vill ekki greina frá því hvort fram séu komnar einhverjar vísbendingar um það hver eða hverjir beri ábyrgð á þessari íkveikju. |
Starfslok Birgis Jónssonar forstjóra Íslandspósts verða þegar nýr eftirmaður hefur verið fundinn. Byrjaði í júní 2019.
Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu og hafa hann og stjórn félagsins gengið frá samkomulagi um starfslokin. Birgir hóf störf hjá Póstinum í byrjun júní 2019 og hefur frá þeim tíma ásamt stjórn og nýju stjórnendateymi, stýrt félaginu í gegnum mikið og að því er segir í fréttatilkynningu farsælt umbreytingaferli.
Tekist hafi að treysta rekstrargrundvöll fyrirtækisins og skapa því sterkari stöðu til framtíðar. Þá hafi þjónusta Póstsins verið bætt og aukin. Framundan eru sögð áframhaldandi krefjandi og ný verkefni hjá Íslandspósti en Birgir mun gegna starfi forstjóra þar til eftirmaður hans hefur verið ráðinn.
„Stjórn Íslandspósts þakkar Birgi fyrir góð störf en margt hefur áunnist í rekstri Íslandspósts frá því hann tók við starfinu. Birgir hefur verið öflugur starfsmaður sem hefur leitt umbreytingaferli hjá fyrirtækinu, skapað góða liðsheild og starfsanda,“ segir Bjarni Jónsson stjórnarformaður Íslandspósts.
„Stjórn félagsins þakkar Birgi fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Framundan eru krefjandi verkefni í stefnumótun og við að bæta enn frekar þjónustu hjá Íslandspósti.“
Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts segir mikinn viðsnúning hafa orðið í rekstri Íslandspósts.
„Það hefur verið sannur heiður að fá að takast á við þetta krefjandi verkefni með þessum öfluga hópi starfsmanna um land allt,“ segir Birgir..
„Næstu skref hjá mér eru óráðin en ég fer frá borði fullur þakklætis fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og ég hlakka mikið til að sjá Póstinn blómstra sem aldrei fyrr í höndunum á öllu því góða fólki sem þar starfar.“ |
Good Design eru ein virtustu hönnunarverðlaun Japans og eru þau veitt þeirri hönnun sem þykir skara fram úr þeim 100 tilnefningum sem komast inn á lista Good Design á hverju ári.
Suzuki Jimny stóð uppi sem sigurvegari Good Design verðlaunanna, en þau eru hönnunarverðlaun efnahags-, viðskipta- og iðnaðarráðuneytis Japan og hönnunarstofnun Japans veitir. Good Design eru ein virtustu hönnunarverðlaun Japans og eru þau veitt þeirri hönnun sem þykir skara fram úr þeim 100 tilnefningum sem komast inn á lista Good Design á hverju ári.
Nýr Jimny kom á markað í splunkunýrri gerð í júlí síðastliðnum í Japan eftir að hafa verið óbreyttur í 20 ár. Hönnunin byggist á fegurðinni í einfaldleikanum og áherslu á mikið notagildi. Yfirbyggingin er kassalega sem auðveldar ökumanni að átta sig á staðsetningu og aðstæðum bílsins. Þetta stuðlar að aukinni akstursgetu í óbyggðum. Hönnunin stuðlar að mikilli hagkvæmni og notagildi hvað varðar hleðslu og akstur í þrengslum og litanotkun jafnt í innanrými sem á yfirbyggingu er lífleg. Suzuki mun áfram leggja áherslu á afburða hönnun og bjóða fram hágæðavöru sem höfðar til kaupenda.
Í athugasemdum dómnefndar kom þetta fram: „Jimny hefur náð óskoraðri sérstöðu á heimsmarkaði fyrir bíla þar sem kennir margra grasa. Endurhönnun bílsins byggist á þeim grundvallarþáttum sem gera Jimny að því notadrjúga ökutæki sem hann er og er okkur mjög að skapi. Í nýjustu kynslóð bílsins hefur tekist að töfra fram fágaða útlitshönnun en halda um leið í þá góðu útlitsþætti sem einkenndu fyrri gerðir.“ Stofnað var til Good Design verðlaunanna árið 1957 sem Good Design vöruvalskerfið (eða G Mark kerfið) að frumkvæði alþjóðaviðskipta- og iðnaðarráðuneytis Japand. Good Design vöruvalskerfið er hið eina í Japan sem með yfirgripsmiklum hætti metur, mælir og verðlaunar hönnun. |
Ég vil byrja á því að þakka Anítu vinkonu minni fyrir þessa skemmtilegu áskorun. Okkur Anítu þykir rosalega gott og gaman að borða góðan mat og þess vegna tek ég ánægð við þessari áskorun.
Kjúklingaréttur
4 kjúklingabringur
salt og pipar
1 krukka fetaostur
1 krukka rautt pestó
salthnetur eða ritz kex
rifinn ostur.
Fetaosturinn (ásamt olíunni) er settur í botninn á eldföstu móti. Kjúklingabringunum er svo raðað yfir fetaostinn og þær svo kryddaðar með salti og pipar. Pestóinu er smurt yfir bringurnar og rétturinn settur inní ofn í ca. 20-30 mín. Rétturinn er svo tekinn út og salthnetunum eða ritz kexinu er stráð yfir bringurnar. Svo er toppað með rifnum osti. Þetta er bakað í um 10 mín. til viðbótar eða þar til osturinn er bráðinn. Gott að bera fram með fersku salati og hrísgrjónum eða kúskús.
Svo bara verð ég að láta fylgja með uppskrift af einni bestu köku sem ég hef smakkað, en hún slær alltaf í gegn þegar ég baka hana.
Maríukaka
3 egg
3 dl sykur.
Þeytt vel saman.
4 msk smjör
100gr suðusúkkulaði.
Brætt saman og hellt saman við eggjahræruna.
1 tsk salt
1 tsk vanilla
1 & 1/2 dl hveiti.
Blandað varlega saman við.
Þetta er svo bakað við 180°c í 17 mín.
Karmella
4 msk smjör
1 dl púðursykur
3 msk rjómi.
Soðið í þunna karmellu á meðan kakan bakast.
1&1/2 pakki pecanhnetur brytjaður.
Kakan er tekin út og pecanhnetunum stráð yfir, karmellunni er svo hellt þar yfir. Kakan er svo sett aftur inní ofn og bökuð í 17 mín. til viðbótar.
1 plata af suðusúkkulaði brytjuð og stráð yfir kökuna um leið og hún er tekin úr ofninum.
Ég hef ákveðið að skora á góða vinkonu mína, en ég bara hreinlega elska að borða hjá henni. Allt sem hún útbýr er gott og ég get svarið að hún getur örugglega gert soðna ýsu spennandi en það er að mínu mati einn mest óspennandi matur sem ég borða. Silvía Björk, ég sendi boltann yfir til þín. |
Mikil vinna er framundan hjá þjóðum heims við að laga sig að nýjum loftslagssamningi sem var undirritaður í París um helgina. Þetta segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hann vonar að sett verði alþjóðlegt gjald og losun gróðurhúsalofttegunda.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands: Það eru mörg mál sem voru þarna rædd en komust ekki öll inn. Eitt af því er að, mjög mikið rætt, styrkir, opinberir styrkir til olíuvinnslu, til kolanámuvinnslu. Og þetta er eitt af því sem verður örugglega tekið á á næstu, tekist á um næstu ár að þessi styrkir verði aflagðir þannig að endurnýjanleg orka eigi betri séns í að keppa um hylli neytenda. Síðan held ég að komi nú líka meiri umræða um að það verði sett alþjóðlegt gjald á losun gróðurhúsalofttegunda, kolefnis þannig að á heimsvísu verði komið samræmt gjald á það að los, gegn þessari losun þannig að það verði muni aftur auðvelda endurnýjanlegri orku að komast að.
Auður H. Ingólfsdóttir, alþjóðstjórnmálafræðingur, segist ekki hafa átt von á því að leiðtogar þjóða heims kæmu sér saman um að tveggja gráðu hlýnun gæti verið of mikil.
Auður H. Ingólfsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur: Kannski það sem kom mér mest á óvart var þetta samkomulag um að 2 gráðurnar væru kannski bara of mikið og í framtíðinni þyrftum við að stefna ekki bara á það að vera vel innan við þær heldur helst að miða að því á endanum að halda okkur við 1,5 gráðu. Þó við séum ekki komin með loforð til að komast þangað að það sé sem sagt komið í svona pólitískt skjal sú tala, mér fannst það svolítið merkilegt, ég átti ekki von á að það mundi ganga í gegn. |
Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli misnotaði markaðsráðandi stöðu sína við afgreiðslu farþegaflugvéla, samkvæmt niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Félaginu er gert að greiða 80 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Samkeppniseftirlitið segir Flugþjónustuna hafa beitt beinskeyttum og sértækum aðgerðum gegn Vallarvinum og þannig komið í veg fyrir viðskipti þess félags.
Fram til ársins 2001 var Flugþjónustan, áður Flugleiðir, með einkaleyfi til að afgreiða farþegaflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Flugþjónustan, einnig nefnt IGS, er dótturfélag Icelandair Group, sem aftur er í eigu FL Group. 2001 hóf félagið Vallarvinir samkeppni við Flugþjónustuna og segir Samkeppniseftirlitið að við það hafi flugafgreiðslugjöld lækkað stórlega á Keflavíkurflugvelli. Eftir sem áður hafi Flugþjónustan þó haft yfirburðastöðu á markaðnum, enda hafi það nánast alla afgreiðslu fyrir systurfélagið Icelandair.
Til að viðhalda markaðsyfirráðum sínum gerði félagið einkakaupasamninga við tíu flugfélög. Með því var samkeppni um mikilvæga viðskiptavini útilokuð segir Samkeppniseftirlitið og var það brot á samkeppnislögum. Eitt af þeim félögum sem gekk til viðskipta við Vallarvini 2001 var þýska flugfélagið LTU, sem hafði á einkaleyfistímanum verið þjónað af Flugþjónustunni. Samkeppniseftirlitið segir að í gögnum málsins komi fram að LTU teldi sig hafa þurft að sæta einokunarverðlagningu af hálfu Flugþjónustunnar og greiða um 50% hærra verð en annars staðar í Evrópu, áður en Vallarvinir komu til sögunnar. Eftir að LTU sneri sér til Vallarvina gerði Flugþjónustan LTU tilboð um allmikla verðlækkun sem var talsvert undir því verði sem Vallarvinir treystu sér til að bjóða. LTU flutti viðskipti sín þá aftur til Flugþjónustunnar. Eftir þetta gerði Flugþjónustan fleiri viðskiptavinum Vallarvina tilboð til þess að ná þeim til sín. Samkeppniseftirlitið segir að ekki hafi verið rekstrarlegar forsendur fyrir því verði sem Flugþjónustan bauð LTU og tap hafi verið á farþegaflugafgreiðslu félagsins. Í tilboðinu til LTU hafi falist beinskeytt og sértæk aðgerð gegn Vallarvinum sem hafi verið til þess fallin að draga úr umsvifum þess félags og þar með samkeppni á mikilvægum markaði sem hafi áhrif á stóran hluta ferðaþjónustu í landinu. Fyrir þetta er Flugþjónustunni gert að greiða 80 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna brota á 11. grein samkeppnislaga. |
Hæstv. forseti. Umræða um þjónustu við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða er víðfeðm og forræði málaflokksins er á margra höndum. Því verða málinu ekki gerð viðunandi skil í stuttri utandagskrárumræðu enda er tilgangur minn með þessari umræðu í dag að beina athyglinni að vanda fjölskyldna barna og unglinga með geðræna sjúkdóma vegna viðvarandi úrræðaleysis innan velferðarþjónustunnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra ber þyngstu ábyrgðina og því skiptir höfuðmáli hvernig þjónustunni er háttað, þ.e. hvernig heilbrigðisþjónustan er byggð upp með tilliti til forvarna, nærþjónustu, sérfræði- og sjúkrahúsþjónustu og síðast en ekki síst þverfaglegrar vinnu og samstarfs stofnana innan og utan heilbrigðiskerfisins.
Hæstv. forseti. Nú eru liðin tíu ár frá því að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna. Við þá breytingu virðast hafa orðið nokkur vatnaskil við greiningu og meðferð barna með geðræna sjúkdóma, sérstaklega meðferð vægari sjúkdóma. Við breytinguna var gengið út frá því að sérfræðiþjónusta skóla sæi um ráðgjöf, forvarnir og greiningu á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum hafi þessir erfiðleikar áhrif á nám nemenda, en ríkið sæi um meðferð barna og unglinga með geðræn vandamál.
Sérfræðiþjónusta, þ.e. greining og meðferð vægari einkenna, stuðningur við foreldra og veikari börn, fór út úr skólunum án þess að vísað væri á viðeigandi heilbrigðisþjónustu eða úrræði. Það var enginn til að taka við boltanum og er það ekki enn tíu árum síðar. Afleiðingin hefur m.a. komið í ljós með mikilli aukningu umsókna á barna- og unglingageðdeildir Landspítala – háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Sum sveitarfélög hafa nú ákveðið að bjóða upp á þjónustu á þessu sviði þótt samkvæmt reglugerð sé óljóst hvort það sé í þeirra verkahring. Það eru eingöngu hin stærri og fjársterkari sveitarfélög sem geta tekið að sér aukna þjónustu við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða og eykur það enn frekar á ójöfnuð fjölskyldna eftir búsetu. Þjónusta á þessu sviði er því ófullnægjandi vegna skorts á meðferðarúrræðum. Eins er mikil óreiða í skipulagi þessara mála.
Hæstv. forseti. Á Íslandi eru sjötíu þúsund börn og talið er að um 3–5% þeirra eða um fjögur þúsund börn séu með verulegar geðraskanir en meira en helmingi fleiri þurfa á tímabundinni aðstoð að halda. Hér á landi eru úrræði fyrir 0,6% barna á aldrinum 0–18 ára á öllu landinu. Til samanburðar má nefna að í Noregi og Danmörku eru úrræði fyrir um 2% barna á þessum aldrei. Hafa Danir frekar fjölgað meðferðarúrræðum en hitt. Því eru hér miklu færri pláss eða úrræði til að sinna þessum börnum.
Aukin lyfjanotkun barna og unglinga með geðraskanir veldur mörgum áhyggjum. Margar skýringar liggja að baki þessari þróun, m.a. hafa geðrænir sjúkdómar verið vangreindir allt fram á síðustu ár, en börn geta í dag fengið faglegri greiningu og meðferð með tilkomu fleiri sérfræðinga á þessu sviði. Önnur skýring er sú að heimilislæknar ávísi um of lyfjum þegar önnur úrræði eru ekki fyrir hendi. Hugsanlega væri hægt að draga úr ávísunum lyfja ef nægur stuðningur innan og utan skólakerfisins væri fyrir hendi fyrir þessar fjölskyldur. Geðheilbrigðisþjónustu barna hefur lítið verið sinnt á heilsugæslustöðvum hingað til þótt slíkt falli vel að hlutverki þeirra samkvæmt lögum. Ítrekað hefur verið bent á nauðsynlegar úrbætur og í því skyni voru gerðar lagabreytingar svo að hægt væri að ráða fleiri starfsgreinar inn á stöðvarnar og voru sálfræðingar nefndir sérstaklega í þessu sambandi.
Hæstv. forseti. En ekkert hefur gerst, hvorki fastráðningar né að gengið sé til samninga við sálfræðinga um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins. Mikið skortir á stuðning við foreldra barna með geðraskanir og telja þeir að allt of löng bið sé eftir þjónustu þegar börn hafa fengið viðeigandi greiningu eða hún fáist alls ekki. Starfsfólk á barna- og unglingageðdeildum er undir miklu álagi og ætti nýliðun lækna á þessu sviði að vera hæstv. heilbrigðisráðherra áhyggjuefni. Álag á sjálfstætt starfandi sérgreinalækna hefur aukist ár frá ári og hafa skapast erfiðleikar í þjónustunni þar sem einingafjöldi Tryggingastofnunar ríkisins hefur ekki fylgt þróuninni. Þessi staða hefur enn aukið erfiðleika fjölskyldna í brýnum vanda. Það er ekki ásættanlegt að þurfa að bíða í marga mánuði eftir tíma hjá barna- og unglingageðlækni.
Hæstv. forseti. Ég hef lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra:
Telur ráðherra að geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga sé ásættanleg í dag? Ef ekki, hvaða þjónustu þarf að bæta? Hver er forgangsröðun innan ráðuneytisins í þessum málaflokki í dag? Er unnið að stefnumörkun á þessu sviði og ef svo er, hverjar eru helstu áherslur heilbrigðisráðherra í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga? Að lokum: Hvað tefur viðbyggingu og endurbætur á húsakynnum BUGL við Dalbraut?
Virðulegur forseti. Spurt er: Telur ráðherra að geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga sé fullnægjandi? Því er til að svara að eðli heilbrigðisþjónustunnar er almennt þannig að það er ávallt erfitt að halda því fram að tilteknir þættir þjónustunnar séu fullnægjandi. Í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna hefur hins vegar mikið verið gert á undanförnum árum og margt mjög vel gert. En við þurfum hins vegar að halda áfram að byggja upp þjónustuna. Vísbendingar eru um að vandi hafi aukist meðal tiltekinna hópa og þar þurfum við að beita okkur sérstaklega. Ég mun leggja áherslu á það í ráðuneytinu.
Í öðru lagi spyr hv. 10. þm. Norðaust. hvað það sé sem betur mætti fara. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og flytja þjónustuna við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra nær þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Ég heyri að við hv. þm. Þuríður Backman erum sammála um það.
Við þurfum á þeim vettvangi að grípa fyrr inn gagnvart þeim sem eiga við vandamál að stríða og það er einmitt þetta sem verið er að gera, t.d. á heilsugæslunni í Grafarvogi sem gæti orðið öðrum gott fordæmi, enda árangurinn af því starfi góður. Það er því ekki rétt að ekkert hafi verið gert. Þar er einmitt tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar í gangi við að efla greiningarþjónustu og fyrstu meðferð og það verkefni lofar mjög góðu.
Einnig er verið að vinna á svipuðum nótum á Akranesi og Suðurlandi, þann þátt erum við að efla. Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss er í ákveðnu lykilhlutverki á þessu sviði og þar þarf að efla þjónustuna t.d. með öflugri göngudeildarþjónustu og styrkja möguleika starfsmanna BUGL til að veita tiltekna þjónustu á landsvísu og styðja við bakið á þeim öðrum stofnunum sem sinna börnum. Síðan þarf að tryggja að legudeildirnar, barna- og unglingadeild, eflist og dafni.
Virðulegi forseti. Í þriðja lagi spyr þingmaðurinn hvaða vinna sé í gangi á þessu sviði. Undanfarin missiri hefur verið lögð mikil vinna í að bæta stöðu barna og unglinga með geðraskanir. Fyrir utan bein fjárframlög hefur verið lögð áhersla á bæði úttektir og stefnumótun. Tvennt vil ég nefna sérstaklega sem ég bind miklar vonir við, fyrir utan það sem ég nefndi hér að framan, og snýr það að aukinni þjónustu markvisst í heilsugæslunni. Sérstakur verkefnisstjóri var fenginn til að gera tillögur um hvernig samþætta megi þjónustu hinna ýmsu kerfa við börn og unglinga með geðraskanir á grundvelli úttektar sem hann gerði.
Nefnd um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni skilaði fyrir stuttu tillögum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Tillögurnar og nefndarálitið má finna á heimasíðu ráðuneytisins en þar er gerð grein fyrir aðstæðum og helstu úrræðum á þessu sviði og bent á að forræði á geðheilbrigðismálum barna er margskipt. Tillögurnar eru raunhæfar og þeim má hrinda frekar hratt í framkvæmd og að því er stefnt. En þær eru þessar helstar:
Í fyrsta lagi eru tillögur sem lúta að því að tryggja börnum og forráðamönnum þeirra greiða leið að þjónustu og bæta samfellu þjónustunnar. Þar er gert ráð fyrir að stjórnendur stofnana skýri starfssvið stofnananna.
Í öðru lagi eru markmið sem lúta að því að tryggja börnum nauðsynlega þjónustu og koma í veg fyrir tafir í því sambandi. Tillögur undir því markmiði falla að því að efla heilsugæsluna með þverfaglegri nálgun nokkurra fagstétta og að sálfræðiþjónusta í skólum verði efld. Gert er ráð fyrir tenglakerfi innan heilsugæslunnar, svokallaðs „case manager“ sem beri ábyrgð á hverju barni og fjölskyldunni.
Í þriðja lagi eru markmið sem lúta að bættu aðgengi barna og unglingageðdeildar á BUGL og styttingu biðlista þar. Tillaga þar lýtur að því að hraða framkvæmdum við nýbyggingu barna- og unglingageðdeildar.
Virðulegur forseti. Einnig er spurt hvaða vinna sé nú í gangi í heilbrigðisráðuneytinu á þessu sviði. Því er til að svara að það stendur yfir vinna við að hrinda framangreindum tillögum í framkvæmd. Þess utan vil ég nefna að sænskur sérfræðingur hefur verið fenginn að fara yfir málin í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Sérfræðingurinn heitir Anders Milton og er þekktur í Svíþjóð fyrir störf sín á þessu sviði en hann var af hálfu sænsku ríkisstjórnarinnar fenginn til að gera úttekt á geðheilbrigðisþjónustu Svía. Hann mun fá nokkur vandamál til skoðunar sem hafa blasað hér við um nokkurt skeið og gera grein fyrir viðhorfum sínum og leggja fram hugmyndir sínar um hvernig megi bæta úr strax í sumar. Ég bind því talsverðar vonir við starf hans.
Þá tel ég einnig rétt að geta þess að áform um uppbyggingu á barna- og unglingageðdeild við Dalbraut hafi verið til skoðunar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Áformin gera ráð fyrir kostnaði við framkvæmd sem nemur um 680 millj. kr. en fyrsti áfanginn er nú sérstaklega til skoðunar. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum tekið saman er búið að safna rúmum160 milljónum í þá framkvæmd.
Í fjórða lagi er spurt, hæstv. forseti: Er verið að vinna að stefnumörkun á þessu sviði? Og ef svo er, hverjar verða helstu áherslur í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga? Ég vil nefna hérna sérstaklega að færa þjónustuna nær börnunum, þ.e. að efla hana á heilsugæslusviðinu.
Frú forseti. Það eru nákvæmlega þrjú ár í þessum mánuði frá því að tillögur frá fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, voru samþykktar og sendar voru út fréttatilkynningar um að geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni skyldi hafa algjöran forgang. Tvennt átti að gera. Stækka og byggja við barna- og unglingageðdeildina og auka göngudeildarþjónustu. Þetta var rétt fyrir síðustu kosningar. Ekkert hefur verið gert enn þá. Ég spyr: Voru þetta innantóm kosningaloforð? Þrjú ár eru liðin.
Aldrei í 35 ára sögu barna- og unglingageðdeildarinnar hefur verið annað eins álag á deildinni, segir yfirlæknirinn. Biðlistar hafa aldrei verið lengri en nú. Yfir 100 börn bíða eftir fyrstu komu á deildina en þar að auki eru langir biðlistar eftir innlögn.
Milli 70 og 80 börn bíða eftir iðjuþjálfun. Svona má halda áfram. Eftirspurnin eykst jafnt og þétt og deildin hefur ekki haft undan lengi vegna ónógra úrræða. Ekki er síður skortur á stuðningi og sérúrræðum utan deildarinnar. Læknar deildarinnar hafa nú séð sig knúna til að skrifa ráðherra bréf og krefjast þess að gripið verði til ráðstafana án tafar.
Mikið álag er á starfsfólki deildarinnar sem er orðið langþreytt á að framkvæmdir við stækkun BUGL dragist á langinn. Við getum ímyndað okkur álagið á aðstandendur barnanna sem bíða eftir þjónustunni. Áætlað er að framkvæmdir við stækkun BUGL taki þrjú ár frá því að framkvæmdir hefjast og um 100 milljónir vantar þrátt fyrir að fyrirtæki, samtök og einstaklingar hafi komið með fjárframlög að undanförnu. Það þarf að spýta í lófana. Við getum ekki látið börn og unglinga með geðræna sjúkdóma líða fyrir
Virðulegi forseti. Sennilega eru fá mál viðkvæmari og erfiðari úrlausnar en vandi barna og ungmenna með geðraskanir og áhrif veikinda þeirra á nánustu fjölskyldur. Það er þung byrði að glíma við þann harða veruleika þegar barn eða ungmenni í fjölskyldu á við geðrænan vanda að stríða. Oft er slík byrði óbærileg og álagið getur vegið að undirstöðum fjölskyldunnar. Stuðningur samfélagsins við slíkar aðstæður getur skipt sköpum um afdrif viðkomandi barns og fjölskyldunnar sem heild.
Á síðustu árum hefur verið lögð mikil áhersla á að mæta vaxandi þörf og eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, eins og hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir áðan. Þjónusta við geðfötluð börn og ungmenni er veitt af heilbrigðis- og meðferðarstofnunum, hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum, á heimilum, í skólum, innan félagsmálakerfisins, svo fátt eitt sé nefnt. Málefni þeirra falla því undir mörg ráðuneyti og koma til kasta fjölmargra aðila.
Ég tel að öllum sé ljóst að aukin samhæfing í þjónustu við geðfötluð börn er stærsta viðfangsefnið fram undan. Foreldrar upplifa sig oft eins og þeir séu að berjast við marghöfða þurs þegar þeir eru að leita úrræða fyrir börn sín. Hér er því verk að vinna.
Í skýrslu nefndar sem gefin var út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í nóvember 2005 um þessi mál er lagt til að heilsugæslan verði samhæfingaraðili og tengiliður fjölskyldna við meðferðaraðila og stuðningsaðila vegna vanda barna þeirra.
Ég vil leggja áherslu á að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Skólaskylda barna er til sextán ára aldurs. Skólaheilsugæslan hefur í auknum mæli komið að málefnum barna og ungmenna með geðraskanir og hefur yfirsýn yfir vanda þeirra. Skólaheilsugæslan er snertiflötur heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og menntakerfisins og er þess bær að axla formlega slíka ábyrgð, enda koma þar að fjölmargir fagaðilar sem hafa víðtæka þekkingu á þessum málum, þar með taldir sálfræðingar sem sérstaklega hefur verið rætt um hér í dag.
Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Þuríði Backman fyrir að færa þetta mál hér til umræðu í Alþingi. Málið varðar geðheilbrigði barna og unglinga. Geðsjúkdómar snerta fjölmarga í samfélaginu og ekki einungis þá sem veikjast heldur einnig og oft ekki síður aðstandendur þeirra.
Fullyrða má að viðhorf til geðsjúkdóma hafi breyst til batnaðar á síðustu áratugum. Þó er staðan erfið og verður sífellt brýnna að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á öllum þjónustustigum, bæði hjá sveitarfélögum og ríki.
Þann 1. þessa mánaðar lýstu fjórir sérfræðilæknar á barna- og unglingadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, BUGL, yfir miklum áhyggjum af þróun þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Vildu sérfræðingarnir að gripið yrði til róttækra ráðstafana án tafar. Þeir bentu m.a. á að auka þyrfti úrræði í nærumhverfi barna og unglinga sem glíma við geðraskanir af einhverju tagi.
Gríðarlegt álag hefur verið á barna- og unglingadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss um langa hríð. Biðlistar langir og mikið álag á starfsfólki deildarinnar. Framkvæmdir við stækkun deildarinnar hafa tafist verulega og þegar framkvæmdir við viðbygginguna hefjast loksins líður að minnsta kosti eitt ár þar til unnt verður að taka bygginguna í notkun. Þeim sem koma á göngudeild BUGL hefur fjölgað um 30% á milli ára og meira en 100 börn bíða eftir fyrstu komu á göngudeild, auk þess sem tugir barna bíða eftir innlögn.
Af þessu má sjá að bæta þarf grunn- og geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga almennt og einnig þarf að bæta aðstöðu barna- og unglingageðdeildar svo fljótt sem unnt er.
Öllum er ljóst að stjórnvöld verða að sinna þessum málaflokki mun betur og ég vona að þessi umræða á hinu háa Alþingi skili börnum og unglingum ávinningi og verði til þess að þeim málaflokki verði betur sinnt af stjórnvöldum í framtíðinni.
Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja máls á þessu mjög svo brýna máli. Það má velta því fyrir sér hvað veldur að ár eftir ár gjósa upp umræður um geðheilbrigðismál barna og unglinga. Í grein í Morgunblaðinu 15. nóvember er haft eftir Ólafi Ó. Guðmundssyni, yfirlækni BUGL, með leyfi forseta:
„Hvert geta foreldrar eða kennarar leitað, þegar barn hegðar sér eða líður illa? Svarið er … að markviss verkaskipting … er ekki til.“ - Og því tilviljunum háð hvernig leitað er til þeirra aðila sem eiga að sinna þessum málum. - „Hver ber ábyrgð á óreiðunni, sem hefur þróast ómarkvisst í áranna rás? … Lýst er eftir leiðakorti um óreiðustíga þess kerfis, sem mæta á vanda hins stóra hóps barna og unglinga, sem búa við skert aðgengi að nauðsynlegri þjónustu …“
Grunnskólar landsins þurfa að reiða sig á að fyrir liggi greining frá barna- og unglingageðlækni ef nemandi á í vandkvæðum og þarf stuðning við kennslu. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga tekur ekki þátt í kostnaðinum nema að slíkar greiningar liggi fyrir. Þegar biðin er svona löng og málin í slíkum ólestri eru það börnin sem líða fyrir. Á meðan reyna skólayfirvöld að leysa málin og kennarar allt of oft með mál sem ættu að vera í höndum barna- og unglingageðlækna.
Í lok síðasta árs skrifuðust á þáverandi hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson, og nokkrir sjálfstætt starfandi barna- og unglingageðlæknar í Morgunblaðinu. Þar var m.a. tekist á um einingafjölda sem ætlaður var í málaflokkinn. Að mati læknanna var ekki tekið tillit til aðstæðna ársins á undan sem var um margt ólíkt því sem venjulegt er, og er þar átt við verkfall kennara og samningsleysi milli sérfræðilækna og Tryggingastofnunar.
Það sem við þurfum að einblína á er að í lok ársins í fyrra voru allt að sjö vikur sem barna- og unglingageðlæknar gátu ekki sinnt sínu starfi, eins og Páll Tryggvason hefur sagt frá opinberlega. Það kemur líka fram að enginn er að nema þessi fræði við Háskóla Íslands og við þurfum að sjá til þess að prófessorsstaða verði til við háskólann svo einhver vilji læra fagið. Auk þess verðum við að búa til heildstætt teymi, líta á heildarmyndina, klára málin á landsvísu, samhæfa vinnu ráðuneyta og sveitarfélaganna
Frú forseti. Þegar rætt er um geðheilsu barna- og unglinga, stefnu og framtíðarsýn, þarf að taka margt með í reikninginn. Að leggja grunn og viðhalda góðri geðheilsu barna og unglinga er viðfangsefni og skylda samfélagsins í heild sinni. En því miður verður ekki hjá því komist að á hverjum tíma greinast börn með geðraskanir sem hafa mismikil áhrif á þeirra daglega líf.
Heildarstefna í málaflokknum hlýtur að byggja á góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, hér skarast verksvið ráðuneyta og einnig er mismunandi aðkoma sveitarfélaga að málinu. Jafnframt lögbundnum skyldum sínum eru skólar misvel í stakk búnir til að sinna sannanlega veikum börnum. Almennur kennari hefur litla sem enga sérþekkingu á meðhöndlun geðraskana, enda þurfa þessi börn á þjónustu starfsfólks úr heilbrigðisþjónustunni að halda.
Við vitum að nú er verið að vinna að stækkun barna- og unglingageðdeildar og er það vel. Því eins og staðan er í dag eru það aðeins börn sem eru í bráðri lífshættu eða haldin mjög alvarlegum geðtruflunum sem komast til innlagnar.
Öflug eftirfylgd og ráðgjöf er nauðsynlegur þáttur þjónustunnar sem barna- og unglingageðdeildin þarf að veita öllum þeim er málið varðar.
Frú forseti. Að mínu mati er ekki nægilegt að sinna aðeins þeim veika. Foreldrar þurfa á góðri ráðgjöf að halda og systkini þurfa líka sinn stuðning. Það segir sig sjálft að fjölskyldutengsl og daglegt líf inni á heimilum barna með geðraskanir fer úr skorðum og oft hefur ástandið varað árum saman.
Ég veit að allir þeir sem láta sig málið varða hafa miklar væntingar til nýrrar og öflugrar geðdeildar og ég treysti hæstv. heilbrigðisráðherra til að vinna hratt og örugglega í þessum mikilvæga málaflokki.
Frú forseti. Það ber að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að efna til þessarar utandagskrárumræðu. Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga á Íslandi er ekki ásættanleg í dag. Þetta er enn og aftur spurning um forgangsröðun hjá núverandi ríkisstjórn. Einkavæðing, stóriðja og sendiráð eru yfirleitt efst á lista í stað þess að taka til hendinni hér heima og þá fyrst og fremst í heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra og geðheilbrigðismálum barna og unglinga.
Í frétt á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss þann 12. maí 2004 kemur fram að samkvæmt áætlun gæti viðbótarhúsnæði barna- og unglingageðdeildar verið tilbúið til notkunar um mitt ár 2006. Ekki hefur það ræst og ekki er að heyra, miðað við umræðuna hér í dag eða svör ráðherra, að það sé að gerast á næstunni. Almenningur hefur sýnt þessu skilning og mikinn áhuga eins og sést þegar farið er yfir listann með þeim aðilum sem gefið hafa fé til verkefnisins, hálf önnur milljón til BUGL með styrktartónleikum, foreldrafélag færir gjafir, Félagsstofnun stúdenta, Gámaþjónustan, Skeljungur, Kögun, Lions-menn. En ekkert gerist. Það er spurning hvort menn séu að bíða eftir Jóhannesi í Bónus til að þetta fari af stað.
Frú forseti. Það þarf að skoða fleira en BUGL til að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Þangað fara alvarlegustu tilfellin en vegna vægari tilfella getur dugað sú þjónusta sem er í almannakerfinu, þ.e. heilbrigðis-, félags- og skólakerfinu, en það þarf að samþætta þjónustu og meðferðarúrræði. Hægt er að finna tillögur að lausnum í því sambandi í skýrslu sem ráðherra lét vinna og vitnaði til áðan, Samhæfing í málefnum barna og unglinga með geðraskanir. Frú forseti. Þessari skýrslu var skilað 31. ágúst 2004. Þetta er góð skýrsla með góðum tillögum að úrbótum en ekkert hefur gerst. Enn og aftur virðist það gerast, sem margoft hefur verið nefnt hér, að menn láti vinna svona skýrslur og telji að þá séu þeir lausir
Frú forseti. Þann 11. mars sl. birtist ítarlegt viðtal við Sigrúnu Ólafsdóttur í Blaðinu. Sigrún vinnur að doktorsverkefni í félagsfræði við Indiana-háskólann í Bandaríkjunum. Doktorsverkefni Sigrúnar fjallar um heilbrigðismál og sérstaklega stöðu geðrænna vandamála í heilbrigðiskerfinu. Í störfum hennar hefur komið fram að einkum tveir þættir skipti afar miklu máli varðandi hvernig tekið er á geðrænum vandamálum barna og unglinga, annars vegar að hugað verði að fordómum í samfélaginu, hvernig þeir birtast og hvaða áhrif þeir hafa á líðan og upplifun barna sem eiga í erfiðleikum, og hins vegar verður að huga að aðstæðum og úrræðum sem eru í boði fyrir börn sem eiga við andlega vanlíðan að stríða.
Varðandi aðstæður og úrræði má segja að of mikil áhersla hafi verið lögð á hið læknisfræðilega sjónarhorn þar sem lyfjagjöf á að vera hin endanlega lausn á geðheilbrigðisvanda barna og unglinga. Þetta þýðir ekki að læknisfræðilega sjónarhornið sé ekki mikilvægt eða að lyf hjálpi ekki börnum í einhverjum tilfellum. Hér er hins vegar átt við að hvorki sé nægjanlegt tillit tekið til þess sem aðrar stéttir hafa fram að færa né að tekið sé á þeim félagslegu aðstæðum sem börn búa við. Það er t.d. mikilvægt að velta fyrir sér langtímaafleiðingum þess að hafa börn á geðlyfjum og/eða að hafa þau inni á stofnunum frekar en að fyrsta skrefið sé á þann veg að þeim sé hjálpað í skólakerfinu eða reynt sé að bæta úr félagslegum aðstæðum þeirra. Til dæmis fara öll börn á grunnskólaaldri í læknisskoðun á hverju ári. Það mætti spyrja hvort við þyrftum ekki einnig að huga að andlegri heilsu þeirra. Þetta þýðir ekki að við séum að sjúkdómsvæða geðheilsu þeirra heldur undirstrika mikilvægi þess að athuga hvernig börnum almennt líður. Því er grundvallaratriði að önnur meðferðarúrræði sem boðið er upp á, t.d. af sálfræðingum og iðjuþjálfum, fái notið sín að fullu í kerfinu.
Frú forseti. Hluti af vandanum liggur í heilbrigðiskerfinu, t.d. er þjónusta geðlækna niðurgreidd á meðan sálfræðiþjónusta er það ekki. Þannig verður beinni leið á milli þess að fara til heimilislæknis og síðan til geðlæknis frekar en að vísað sé á aðrar úrlausnir.
Hæstv. forseti. Heilsugæslan er sá grunnur sem á að byggja nærþjónustuna á. Því er mikilvægt að efla starfsemi hennar með fleiri starfsgreinum, þverfaglegri vinnu og samvinnu við skóla- og félagsmálayfirvöld, enda fannst mér vera samhljómur hjá okkur hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra. Þá kallar maður eftir meiri viðbrögðum í yfirlýsingum og ræðum þar sem þetta er samkvæmt heilbrigðisstefnu stjórnvalda, bæði í lögum og eins í yfirlýsingum fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra án þess að því hafi verið fylgt eftir.
Í hverju samfélagi, sveitarfélagi eða heilsugæsluumhverfi höfuðborgarsvæðisins þarf að vera til staðar þverfaglegt teymi sem fólk, foreldrar og börn, kennarar og aðrir, geta leitað til þegar geðrænn vandi kemur upp. Ég tel að nú sé nóg komið af skýrslum, þær leiða í ljós að þetta sé það sem við eigum að byggja á.
Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra nefndi hér tvo hópa sem sérstaklega þyrfti að huga að, hún nefndi ekki hvaða hópar það væru en ég tel að sérstaklega þurfi að horfa til framhaldsskólanema, þeir vilja oft falla milli stafs og hurðar eða milli kerfa, og svo er annar hópur sem eru unglingar í fíkniefnaneyslu. Staða þeirra er mjög erfið, af öllum erfiðum
Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um málefni þeirra sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða, og sérstaklega barna. Mér heyrist vera nokkur samhljómur í því að þingmenn telja að efla eigi sem mest nærþjónustuna og það er að sjálfsögðu til þess að koma í veg fyrir að vandamálið þróist, og leita leiða til að koma til móts við stærsta hópinn sem er minna veikur en sá hópur sem er langt genginn með sinn sjúkdóm.
Það er einmitt það sem ég tel mjög mikilvægt, þ.e. að efla úrræðin í nærþjónustunni, í heilsugæslunni. Þess vegna eru þau verkefni sem eru núna í gangi mjög spennandi. Þar er einmitt verið að efla heilsugæsluna til að takast á við vandann til að greina hann mjög snemma í ferlinu og hefja fyrstu meðferð.
Að sjálfsögðu er það ekki nóg. Það er hópur sem þarf á mun meiri þjónustu að halda, sérhæfðari þjónustu eða 3. stigs þjónustu, og þá kemur til kasta BUGL á Landspítalanum. Það þarf líka að efla þá starfsemi sem þar er. Hér er kallað eftir viðbyggingu sem verið hefur í umræðunni og það er mjög eðlilegt. Það er talið að framkvæmdin kosti um 680 millj. kr. og fyrsti áfangi er til skoðunar. Búið er að gera frumathugun fyrir þann áfanga og lýsa áformum um bygginguna. Það hefur nú verið sent til fjármálaráðuneytisins til skoðunar
Virðulegur forseti. Ég vil einnig draga fram að ég bind nokkrar vonir við starf þessa Svía, sem er sérfræðingur á þessu sviði og hefur skoðað þetta fyrir Svíana, og að hann komi með hugmyndir, af því að þetta er þverfaglegt og það er skipt forræði yfir málaflokknum en það gerir þetta svo flókið
Frú forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum frávísunartillögu við málið. Við teljum að hér sé enn eitt einkavæðingarfrumvarpið á ferðinni í að einkavæða almannaþjónustuna. Þó að einstakir þingmenn stjórnarliða hafi gefið yfirlýsingar um að ekki standi til að selja Rafmagnsveitur ríkisins þó að þær verði hlutafélagavæddar, hafa aðrir sagt annað.
Það er verið að setja í gang sama ferli hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Landssíminn fór í gegnum. Fyrst var hann hlutafélagavæddur og gefnar hástemmdar yfirlýsingar um að hann yrði aldrei seldur, skömmu seinna var hann settur í söluferli og er nú allur seldur. Ég held að þjóðin vildi heldur hafa átt hann nú.
Frú forseti. Þess vegna flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hljóðar svo:
„Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað.
Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu.
Með vísan til framanritaðs vísar Alþingi máli þessu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“
Frú forseti. Verði þessi tillaga ekki samþykkt og frumvarpið komi til atkvæða sem slíkt þá erum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs andvíg þessu frumvarpi og einstökum greinum þess. Við leggjum áherslu á að Rafmagnsveitur ríkisins eru grunnalmannaþjónustufyrirtæki sem á að vera í sameign landsmanna og á ekki að einkavæða.
Hæstv. forseti. Við samfylkingarmenn afgreiddum þetta mál frá iðnaðarnefnd með fyrirvara. Við höfum áður tekið þátt í því að samþykkja hér að gera fyrirtæki á orkusviði að hlutafélögum og teljum ekki óeðlilegt að þannig sé með slík fyrirtæki farið. Þetta var að vísu nokkuð gallað frumvarp og það eru fimm breytingartillögur við þær tíu greinar sem eru í frumvarpinu sem segir auðvitað sína sögu um það.
Við flytjum auk þess breytingartillögu við frumvarpið þar sem við leggjum til að fjármálaráðherra fari með eignarhaldið í fyrirtækinu. Það kom mjög skýrt fram í umfjöllun í nefndinni að mikil nauðsyn er á því. Fram kom frá þeim aðilum sem eru að vinna í orkugeiranum, t.d. frá fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og fleirum að auðvitað er óforsvaranlegt og veldur hagsmunaárekstri að hæstv. iðnaðarráðherra, sem úthlutar réttindum til rannsókna og nýtingar á orkulindum, velji á milli þeirra fyrirtækja sem undir hana eru sett með þeim hætti sem þarna er, þ.e. sem yfirmaður Rariks, Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða velur hún á milli þeirra fyrirtækja og annarra fyrirtækja sem eru í samkeppninni á þessu sviði sem verið er að myndast við að setja á.
Þessu er nauðsynlegt að breyta og við flytjum því þessa breytingartillögu við 3. gr.
Af sjálfu leiðir að þar sem við höfum afgreitt þetta mál með jákvæðum hætti verðum við að leggjast gegn tillögu Vinstri grænna um að vísa málinu frá. Við höfum hins vegar það við málið að athuga sem ég hef fært hér fram.
Það er ýmislegt jákvætt við að gera fyrirtækið að hlutafélagi. Það gerir því mögulegt að vinna hraðar og jákvæðar að þeim verkefnum sem eru á sviði fyrirtækja af þessu tagi. Ég held að ekki eigi að leggja stein í götu þessa fyrirtækis þó að það sé í opinberri eigu. Það er jú vel að merkja gert ráð fyrir því að öll hlutabréfin verði í eigu ríkisins áfram.
Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Hér er um eðlilega breytingu að ræða og mjög gott mál.
Hér er verið að gera rekstur Rariks sveigjanlegri með það að markmiði að bæta þjónustu við viðskiptavini Rariks hf. Jafnframt mun reksturinn í framtíðinni verða hagkvæmari sem mun að sjálfsögðu þá leiða til þess að raforkureikningar 49 þúsund notenda, viðskiptavina Rariks hf., munu lækka um alla framtíð.
Það er engin tilviljun, hæstv. forseti, að m.a. Hitaveita Suðurnesja skuli vera hlutafélag, Norðurorka skuli vera hlutafélag og Orkubú Vestfjarða. Það eru fleiri aðilar á þessum markaði sem einnig eru á þessu formi. Það er nefnilega samdóma álit stjórnenda þessara fyrirtækja að hlutafélagaformið sé best til þess fallið að reka fyrirtæki sem þessi í samkeppnisrekstri, með það að markmiði, eins og ég nefndi áðan, að veita viðskiptavinum sínum betri þjónustu og lægra raforkuverð til framtíðar litið.
Hæstv. forseti. Það er þjóðsaga sem Vinstri grænir hafa uppi í sölum Alþingis að hér sé verið að einkavæða Rarik hf. Kveðið er skýrt á um það í því frumvarpi sem hér um ræðir að öll hlutabréf í Rarik hf. skuli vera áfram í eigu ríkisins. Hér er því einungis um söguburð að ræða af hálfu þingmanna Vinstri grænna að verið sé að fara að selja þetta fyrirtæki úr almenningseigu. Það er ekki á stefnuskrá Framsóknarflokksins.
Hæstv. forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um að setja Rafmagnsveitur ríkisins yfir í hlutafélag. Í slíkt ferli hefur verið farið með Orkubú Vestfjarða nú þegar. Það verður að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að allt ferlið á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar varðandi raforkumál hefur ekki þjónað hagsmunum almennings, þvert á móti. Það hefur orðið til kostnaðarauka fyrir almenning og nú síðast notaði hæstv. iðnaðarráðherra það sem rök fyrir ákveðnum svörum sínum í þessum ræðustól að tekin hefði verið upp skattlagning á orkufyrirtækin og þess vegna hefði m.a. orkuverð hækkað.
Þetta er ekki rétt.
Það er afar leitt til þess að vita að hæstv. ráðherra skuli vera svo trénuð, hæstv. forseti, að hún geti ekki skipt um skoðun á máli sem greinilega færir þjóðinni ekki ábata.
Hvað á þingmaðurinn við með því að konan sé trénuð?
Með því á ég við að hún sitji kyrr í því fari sem hún hefur markað sér.
Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna.
Hæstv. forseti. Ég tel að það ferli sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur leitt áfram í raforkumálum almennt sé ekki þjóðinni og fólkinu í landinu til hagsbóta. Þess vegna er það niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum að styðja þá frávísunartillögu sem hér verður borin upp og síðan munum við, að henni felldri ef svo fer, sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Hæstv. forseti. Umræða um hlutafélagavæðingu raforkugeirans hefur að talsverðu leyti snúist um eignarhald. Þar höfum við fengið fjórar útgáfur frá stjórnarmeirihlutanum, talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað fyrir sölu á Rarik ef gott verð fæst, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sem kunnugt er talað fyrir því að raforkugeirinn verði seldur og hefur ráðherra nefnt lífeyrissjóðina sérstaklega í því sambandi, formaður iðnaðarnefndar hefur síðan talað fyrir því að meirihlutaeign í Rarik eigi að vera á hendi ríkisins og síðan í fjórða lagi höfum við sjálft frumvarpið sem lögbindur að Rarik verði einvörðungu í eign ríkisins.
Í okkar huga snýst deilan ekki fyrst og fremst um eignarhaldið, heldur þá ákvörðun að markaðsvæða þessa starfsemi. Það hefur einfaldlega sýnt sig að fyrir neytendur er miklu skynsamlegra að hafa grunnþjónustu samfélagsins rekna sem þjónustu en ekki á grundvelli samkeppni. Alls staðar erlendis hefur markaðsvæðing raforkugeirans misheppnast. Samkeppnin hefur látið á sér standa, við hefur blasað samþjöppun, samráð, hærra verðlag og rýrari þjónusta. Við segjum nei við slíku.
Hæstv. forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar bárum fram þessa tillögu til að láta reyna á það hvort einhver sannfæring væri á bak við það sem við höfum heyrt hjá fjölmörgum þingmönnum hér, að þeir teldu mjög eðlilegt að ábyrgð á þessu fyrirtæki væri hjá fjármálaráðuneytinu en ekki ráðherra iðnaðarmála. Ég lýsti því fyrr í dag hvernig hagsmunaárekstrar eru bókstaflega í höndum þessa ágæta ráðherra þegar hún afgreiðir mál hinna ýmsu aðila í raforkugeiranum. Það var þess vegna mjög sérkennilegt að hlusta á nei frá ýmsum þingmönnum sem ég hef heyrt segja já um þetta mál áður. Það segir sitt um það að handjárnin virka vel þegar á þarf að halda í sölum Alþingis, líka sitthvað um það hvað menn hafa velt mikið fyrir sér hvernig þeir afgreiða mál í sölum Alþingis
Frú forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um lagafrumvarp um heimilisofbeldi. Það sem þetta frumvarp gerir einkum er að bæta við refsiþyngingarástæðu í lögin þegar kemur að heimilisofbeldi. Að mati okkar í Samfylkingunni snýst þetta mál hins vegar ekki eingöngu um að þyngja refsingar, heldur um hvort við höfum lög sem ná utan um heimilisofbeldi með fullnægjandi og heildstæðum hætti.
Heimilisofbeldi er eitt algengasta mannréttindabrot á Íslandi en hvergi er minnst á heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf og það er hvergi skilgreint. Það má því segja að heimilisofbeldi sé týndur brotaflokkur í kerfinu. Nú er dæmt eftir mörgum ólíkum lagaákvæðum fyrir heimilisofbeldi sem þó eru ekki fullnægjandi að því er varðar þetta ofbeldi.
Heimilisofbeldi hefur nefnilega margs konar sérstöðu. Það á sér stað innan veggja heimilisins og getur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem oft nær yfir langan tíma og er jafnvel án sýnilegra áverka. Líkamsárásarákvæði núgildandi laga, sem fyrst og fremst leggja áherslu á hið líkamlega tjón en ekki hið andlega, ná því ekki almennilega utan um heimilisofbeldi og því hefðum við viljað að sett yrði sérstakt ákvæði í lögin um heimilisofbeldi sem tæki tillit til sérstöðu þessa ofbeldis. Það vildu einnig Stígamót, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum Háskóla Íslands, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Alþýðusamband Íslands.
Frú forseti. Við styðjum það hænuskref sem þetta frumvarp býður upp á en við teljum að þingheimur hefði átt að ganga lengra í þessum efnum og setja sérstakt lagaákvæði um heimilisofbeldi eins og aðrar þjóðir hafa gert.
Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til atkvæðagreiðslu er þess eðlis að það hefur í rauninni fengið mikinn stuðning. Það skref sem hér er stigið hefur verið stutt af flestum ef ekki öllum þeim aðilum sem um það hafa fjallað og sú tillaga sem felst í frumvarpinu nýtur jafnframt stuðnings þeirra hv. þingmanna sem um það hafa fjallað, bæði í nefnd og hafa tekið til þess afstöðu í umræðum.
Ég er ósammála hv. 10. þm. Reykv. s., að hér sé um að ræða hænuskref. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. Í því felst mikilvæg heimild fyrir dómara til þess að líta til náinna tengsla brotaþola og geranda í brotum af þessu tagi, gefur dómara tilefni til þess að beita þyngri refsingu þegar sá trúnaður er brotinn sem felst í þessum nánu tengslum. Þess vegna held ég að þetta sé mikilvægt mál. Í því felst líka, og í afgreiðslu þess, sterk vísbending um það hversu alvarlegum augum löggjafinn lítur brot af þessu tagi.
Það er rétt sem hv. 10. þm. Reykv. s. benti á, það eru skiptar skoðanir um það hversu langt eigi að ganga í þessum efnum, þ.e. hvaða úrræði séu virkust til að berjast gegn heimilisofbeldi. Menn eru sammála um þau markmið að löggjafinn og stjórnvöld verði að taka fast á þessum málum. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er auðvitað bara hluti af þeim aðgerðum sem eru í gangi í því sambandi og má minna á að í stjórnsýslunni hafa af hálfu lögreglunnar verið settar nýjar verklagsreglur sem ég bind miklar vonir við að muni skila betri árangri í þessum málum. Auðvitað er þetta mál ekki einangrað, það er liður í aðgerðum til þess að vinna gegn heimilisofbeldi en á hinn bóginn hafa vissulega verið skiptar skoðanir um það hvort æskilegt væri, eða jafnvel tækt inn í hegningarlögin, að setja sérstakt heimilisofbeldisákvæði af því tagi sem hv. þingmaður vísaði til. Ég tel að sú athugun sem fram hefur farið af hálfu refsiréttarnefndar, og farið hefur verið vandlega yfir og rætt nákvæmlega í allsherjarnefnd, gefi ekki tilefni til að setja slíkt ákvæði inn í löggjöfina á þeirri forsendu að refsiákvæði verða að vera skýr, refsiheimildir í lögum verða að vera skýrar og þær hugmyndir sem uppi hafa verið um ákvæði af þessu tagi hafa ekki falið í sér nægilega skýra verknaðarlýsingu og þar með ekki nægilega skýra refsiheimild til að það mundi falla inn í hegningarlög okkar að setja
Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum það frumvarp sem hér er verið að greiða atkvæði um en við viljum ítreka að hér er farið allt of skammt inn á þá braut og það þarf að stíga miklu ákveðnari og meira afgerandi skref. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er þetta: Við þurfum að ná að draga verulega úr og helst útrýma heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi er ein ljótasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis í samfélagi okkar. Boðið hefur verið upp á þverfaglegt samstarf til að fara í þær lagabreytingar sem þörf er á að gera í þessu tilliti. Ekki hefur verið tekið í þær útréttu hendur á nægilega jákvæðan hátt hvað varðar ríkisstjórnina. Það er nauðsynlegt að fara í þessa vinnu með þeim frjálsu félagasamtökum sem hafa gefið kost á sér og boðið fram fræðslu sína og reynslu í þessum efnum. Ég held að það sé einboðið að það verði að halda áfram á þessari braut. Til að ná almennilega utan um lagaákvæði er varða heimilisofbeldi þarf að fara í þverfaglega vinnu í þeim efnum.
Ég hef talað hér fyrir austurrísku leiðinni sem heimilar að lögregla fái í hendurnar tæki til að fjarlægja ofbeldismann af heimili í stað þess að börn og konur séu gerð burtræk af sínu eigin heimili, sem fórnarlömb, flóttamenn í sínu eigin landi og sett í kvennaathvarf á meðan ofbeldismaðurinn kemst upp með það að sitja inni á heimilinu.
Það er algerlega nauðsynlegt að þær leiðir séu skoðaðar sem nágrannalönd okkar hafa verið að festa í lög. Það er skrýtið að íslenska ríkisstjórnin skuli draga lappirnar í þessum efnum og skuli núna, þriðja árið í röð, geyma frumvarp mitt um austurrísku leiðina í allsherjarnefnd og heimila ekki að það frumvarp verði afgreitt út. Það hefur fengið mjög jákvæðar undirtektir, mjög góðar umsagnir og það er ekkert eftir annað en vilji ríkisstjórnarinnar til að stíga það skref, skrefið sem á vantar til að við séum hér að taka afgerandi skref í löggjöf sem kemur til með að draga úr heimilisofbeldi.
Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum styðjum þetta mál og teljum að hér sé ekki farið of skammt. Ég tel einmitt að menn eigi að fara varlega í þessum málum, þau eru viðkvæm og ég held að ef menn fara yfir þessi mál ætti þeim að verða ljóst að fæst þeirra verða leyst í fangelsum landsins, hvað þá í réttarsölum. Það á miklu frekar að beina sjónum að úrræðum til að aðstoða fólk út úr ástandinu sem ríkir á heimilum. Mönnum hlýtur að vera ljóst að þessi mál snúast oftar en ekki um óreglu frekar en margt annað.
Ég styð þetta mál, frú forseti.
Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem er að ganga til atkvæða er lagt til að veita heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Málið er skýrt með því að það sé talið nauðsynlegt að afsala til Landsvirkjunar þessari eign vegna þess að gert hafi verið ráð fyrir því í upphafi þegar Landsvirkjun var stofnuð að ríkið legði þessa eign til.
Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í úrskurði óbyggðanefndar frá 2002, sem í raun hrindir þessu máli af stað, kemur fram að í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum sé hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum. Í öðru lagi fékk ríkislögmaður málið til umsagnar og komst að þeirri niðurstöðu að hann telur niðurstöðu óbyggðanefndar ágætlega rökstudda, sannfærandi og eðlilega og telur jafnframt líklegt að niðurstöður nefndarinnar varðandi lands- og vatnsréttindi Landsvirkjunar á þessu svæði yrðu staðfestar af dómstólum ef eftir því yrði leitað. Þá kemst ríkislögmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður óbyggðanefndar hafi hvorki breytt eignarhlutföllum né réttarstöðu eigenda Landsvirkjunar. Í ljósi þessara álita ríkislögmanns og úrskurðar óbyggðanefndar vantar tilgang frumvarpsins. Ég spurði eftir því í umræðunni um frumvarpið hvers vegna frumvarpið væri flutt í blóra við álit ríkislögmanns og í andstöðu við úrskurð óbyggðanefndar, og fengust engin svör við því.
Ég spurði líka eftir því hvers virði þau réttindi sem verið væri að gefa Landsvirkjun með þessu frumvarpi væru en það fengust engin svör við því.
Ég vek athygli á því að ef frumvarpið nær fram að ganga er verið að afsala úr höndum ríkisins þessum réttindum að hálfu til annarra aðila. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægt að vita hvers virði þau réttindi eru. Ég fer því fram á það, virðulegi forseti, að allsherjarnefnd komi saman á milli 2. og 3. umr. og afli upplýsinga við þessum spurningum og kanni tilgang frumvarpsins. Ég treysti mér ekki til að standa að þessu frumvarpi miðað við þær upplýsingar sem ekki hafa fengist og mun því ekki greiða atkvæði um málið, heldur sitja hjá og bíða, vonandi, betri upplýsinga um það við 3. umr. málsins.
Hæstv. forseti. Þær athugasemdir sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði grein fyrir áðan komu fram, réttilega, við 2. umr. málsins í umræðum hér í gær. Það er rétt að fram komi að ég lýsti því í þeirri umræðu sem framsögumaður nefndarinnar í þessu máli að ég teldi að hv. þingmaður læsi hugsanlega fullmikið í frumvarpið miðað við það sem efni þess gæfi tilefni til. Hér er um að ræða frumvarp sem felur það í sér að staðfesta skýrt réttarástand og eignarheimildir sem gengið var frá við stofnun Landsvirkjunar fyrir rúmum 40 árum þannig að ekki væri hugmyndin að fara í neina nýja eignayfirfærslu, heldur fyrst og fremst að staðfesta að þær yfirlýsingar sem þá voru gefnar og það framsal réttinda sem þá átti sér stað með samningi aðila væri staðfest. Sú hefur verið nálgun okkar í allsherjarnefnd í þessu máli og á þeirri forsendu var málið afgreitt út úr allsherjarnefnd.
Hv. þingmaður hefur komið fram með ný sjónarmið í þessu máli, sem ekki höfðu heyrst áður í þessari umræðu, og jafnframt óskað eftir upplýsingum. Ég sem framsögumaður í málinu mun taka það upp á næsta fundi allsherjarnefndar og leggja til að málið verði tekið þar aftur til athugunar til þess að fara yfir þessar athugasemdir og vonandi greiða úr þeim sjónarmiðum sem upp hafa komið þannig að 3. umr. geti hafist án þess að einhverjir þættir séu þar óvissir. Þess vegna mun ég leggja til í allsherjarnefnd að þetta verði aftur tekið til meðferðar. Þó ítreka ég þá persónulegu skoðun mína að ekki sé tilefni til að hafa þær áhyggjur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur. En það er sjálfsagt að fara yfir málið á vettvangi nefndarinnar.
Hæstv. forseti. Eftir samráð við félaga mína sem eiga sæti í allsherjarnefnd geri ég eftirfarandi grein fyrir afstöðu okkar til málsins, nú þegar þessum vangaveltum hefur verið lýst hér. Ég las þetta mál, eins og sennilega flestir, með því að skoða fyrst og fremst athugasemdir við lagafrumvarpið. Í þeim stendur, með leyfi forseta:
„Forsvarsmenn ríkisins voru í góðri trú um að það væri eigandi þeirra réttinda sem lögð voru fram af þess hálfu til sameignarfélagsins enda byggðust þau á afsali frá fyrirtækinu Titan h/f frá árinu 1952.“
Það er ástæða til að halda að þarna sé í raun og veru sett fram röng fullyrðing. Svo heldur áfram:
„Þar sem eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun hefur ásamt öðru miðast við framsal vatnsréttinda og lands á þessu svæði til fyrirtækisins er það niðurstaða eigenda fyrirtækisins að nauðsyn beri til að flytja frumvarp þetta og leita með því eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar beinum eignarrétti að þessum réttindum. Með því móti er tryggt að fyrirtækið verði að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar eins sett og til var stofnað …“ - Hér er talað um úrskurð óbyggðanefndar en þegar úrskurður hennar er skoðaður kemur það fram sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að í raun sé niðurstaðan sú að þessi gamli samningur, hvað varðar Titan, kemur málinu ekkert við. Óbyggðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að þessar réttarheimildir hafi verið utan við þann eignarrétt sem þar var um að ræða, eða menn töldu að um væri að ræða, eins og segir hérna, með leyfi forseta:
„Eins og að framan er rakið hefur löggjafinn í skjóli valdheimilda sinna veitt Landsvirkjun með lögum, ákveðinn en þó óskilgreindan nýtingarrétt á svæði því sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 er það hlutverk óbyggðanefndar að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Þau sérstöku réttindi sem löggjafinn hefur veitt Landsvirkjun falla í öllum meginatriðum utan þeirrar hefðbundnu eignarréttarlegu skilgreiningar sem liggur nefndu lagaákvæði til grundvallar.“
Þetta þýðir einfaldlega að það sem Landsvirkjun var lagt til á þessum tíma kom þessu Titan-máli ekkert við. Það hefur ekki orðið nein breyting á því eignarhaldi sem um var að ræða og var lagt til Landsvirkjunar við úrskurð óbyggðanefndar, engin breyting. Það virðist samt vera sem forráðamenn Landsvirkjunar hafi séð sér hag í því
Við munum sitja hjá við þetta mál núna og óskum eindregið eftir því að málið komi inn til nefndarinnar eins og um var talað en líka að iðnaðarnefnd fái að líta yfir það.
Hæstv. forseti. Ég vil geta þess hér, þar sem ég er einungis áheyrnarfulltrúi fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd, að ég hef haft mjög miklar efasemdir um þetta mál og ég gerði grein fyrir þeim í nefndinni en stöðu minnar vegna í henni hafði ég ekki tök á að gefa hér minnihlutanefndarálit.
Efasemdir mínar byggjast að hluta til á þeirri stefnu þessarar ríkisstjórnar að skilgreina vatn undir einkaeignarrétt. Ég tel að hér sé á ferðinni angi af því máli sem mótast í sjálfu sér af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur í þessum málum sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa mótmælt hér harðlega.
Í umræðunni í gær sem ég átti því miður ekki kost á að vera viðstödd velti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson upp ákveðnum atriðum sem ég tel fullt tilefni til að skoða nánar í nefndinni og ég fagna því að hv. þm. Birgir Ármannsson, sem hefur verið talsmaður nefndarinnar í þessu máli, skuli hafa gefið yfirlýsingu um að málið verði, vegna þessara nýju upplýsinga, kallað inn í nefndina aftur.
Það er nefnilega þannig að þjóðlenduúrskurðurinn frá 2002 leiðir það í ljós, sem jafnvel eru áhöld um, að ríkið hafi ekki haft yfirráð yfir þeim réttindum sem það lagði inn í Landsvirkjun 1965, og með þeim gerningi sem hér er lagt til að farið verði í færir ríkið sér þessi réttindi einhliða og af því að ríkisstjórnin getur það í krafti lagasetningarvaldsins virðist hún vilja gera það. Bent hefur verið bent á að aðrar leiðir séu færar í þessum efnum, t.d. sú sem getið er um í umsögn Umhverfisstofnunar en hún er sú að ríkið héldi réttindunum hjá sér en innheimti leigu eða endurgjald, í samræmi við 3. gr. þjóðlendulaganna, af Landsvirkjun.
Frú forseti. Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Gnúpverjahreppur hefði ekki átt afréttinn sem um ræðir og því hvorki verið til þess bær að afsala þar landi né vatnsréttindum en í mínum huga vakna við lestur þessa máls spurningar um það hvort, þegar öllu er á botninn hvolft, Gnúpverjar hafi ekki haft til að bera næmari tilfinningu fyrir landinu sem í hlut á en Landsvirkjun og hvort þá sé bara ekki réttast að fela þeim þessi réttindi frekar en Landsvirkjun. Landsvirkjun gæti þá greitt þeim
Forseti vekur athygli hv. þingmanna á því að þeir eru hér að fjalla um atkvæðagreiðsluna en ekki efnislega um málið sem er til atkvæða.
Virðulegi forseti. Ég kem upp til að tjá mig um atkvæðagreiðsluna í þessu máli og lýsi því jafnframt yfir að ég hef miklar efasemdir varðandi málið. Þeir þingmenn sem talað hafa á undan mér hafa í raun og veru lýst því ágætlega. Allt frá því að ég sá þetta frumvarp fyrst læddist að mér sá illi grunur að hér væri vont mál á ferðinni. Sá grunur hefur ekki minnkað. Ég skil ekki hvað gerir það að verkum að svo mikið liggi á að afgreiða málið í gegnum þingið. Mjög alvarlegar spurningar hafa vaknað um það hvort við séum að gera hér rétt eða rangt.
Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að málið verði tekið fyrir aftur í allsherjarnefnd en að iðnaðarnefnd fái líka að skoða málið og það komi ekki aftur til 3. umr. fyrr en að mjög vandlega athuguðu máli og að kallaðir verði á fund þessara nefnda færustu lögspekingar okkar í þessum málum til að skýra hvaða álit þeir hafi á þeim gjörningi sem hér er að fara fram.
Ég ætla ekki að fara nánar út í málið efnislega hér og nú en lýsi því yfir að ég mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.
Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um 1. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að forsætisráðherra hafi heimild til að gera nákvæmlega það sama og hann gerði 1965, þ.e. afsala sér ákveðnum réttindum til ákveðinnar virkjunar.
Óbyggðanefnd sló varnagla við að ríkið hefði haft heimild til að afsala þessum réttindum. Það vill svo til að við úrskurð óbyggðanefndar féll eignin til nákvæmlega sama aðila, þ.e. ríkisins. Ríkið er að afsala sér núna nákvæmlega sömu hlutum og það gerði 1965 og er nákvæmlega jafnmikill eigandi og þá þannig að ég sé engan mun á því og greiði atkvæði með þessu. |
Fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og forstjóri fyrirtækisins, kunna að hafa farið út fyrir umboð sitt þegar þeir gerðu samninga um peningagreiðslur til Ölfuss vegna Hellisheiðarvirkjunar. Málið þarfnast frekari skoðunar að mati núverandi stjórnarformanns.
Árið 2006 gerði Orkuveita Reykjavíkur samning við sveitarfélagið Ölfus vegna virkjunar á Hellisheiði. Samningurinn fól meðal annars í sér rúmlega 52 milljón króna greiðslu Orkuveitunnar til þáverandi bæjarstjórnar og bæjarstjóra Ölfus vegna aukinna umsvifa og álags. Úttektarnefnd um Orkuveituna sem kynnti niðurstöður sínar síðastliðin miðvikudag telur að þessir samningar þarfnist frekari skoðunar. Þá fékk sveitarfélagið 75 milljónir króna greiddar vegna uppgræðslustarfa vegna rasks. Þessar 75 milljónir eru í uppgræðslusjóði Ölfuss en síðar var ákveðið að vextir af þeim fjármunum yrðu nýttir til fjölbreyttra uppgræðsluverkefna en ekki aðeins vegna rasks við virkjunina. Einnig stóð til að Orkuveita Reykjavíkur myndi greiða ýmsan kostnað í Ölfusi svo sem veglýsingu og lagningu ljósleiðara inn á heimili í sveitarfélaginu. En Orkuveitan hefur ekki staðið við þann hluta samningsins. Reyndar mun sveitarfélagið Ölfuss hafa leitað óformlega eftir því að Orkuveitan stæði við allan samninginn, en Haraldur Flosi Tryggvason, núverandi stjórnarformaður mun hafa svarað því þannig til að partíið væri búið, samningurinn yrði ekki fullefndur.
Karen Kjartansdóttir: Er þetta rétt eftir þér haft ?
Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur: Ég man nú ekki nákvæmlega orðalagið, kannski var þetta svona en efnislega já, þá hef ég lýst þeirri afstöðu minni að þessi samningur yrði ekki efndur að fullu að óathuguðu máli að minnsta kosti. Hugsanlega eiga þeir lögformlegan rétt á því að þetta verði gert.
En er hugsanlegt að fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar og forstjóri hafi farið út fyrir umboð sitt með þessum samning?
Haraldur Flosi Tryggvason: Það kann að vera, þetta þarfnast skoðunar.
Karen: Og, þetta gæti þá verið ólögmætur samningur?
Haraldur Flosi Tryggvason: Það gæti verið flókin staða sem að skapast við það já.
Karen: En reynist þetta löglegur samningur, þurfið þið þá ekki að efna hann?
Haraldur Flosi Tryggvason: Ég geri ráð fyrir því, jú. |
Ríkisstjórn Filippseyja ætla ekki að fjarlægja gamalt herskip sem er strand á rifi í Suður-Kínahafi, eins og Kínverjar krefjast. Her Filippseyja hefur notað skipið sem varðstöð á yfirráðasvæði landsins í Suður-Kínahafi sem Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til.
Áhöfn skips strandgæslu Kína reyndi nýverið að koma í veg fyrir að Filippseyingar kæmu birgðum til þeirra hermanna sem halda til á skipinu og krafðist Kína þess í kjölfarið að skipið yrði fjarlægt.
Eftir að birgðaskip þurftu frá að hverfa í síðustu viku voru fleiri send og tókst þeim að koma birgðum til áhafnar skipsins strandaða, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Rifið Second Thomas Shoal sem skipið BRP Sierra Madre er strandað á er innan tvö hundruð mílna landhelgi Filippseyja. Því var vísvitandi siglt í strand árið 1999 og var markmiðið að ítreka tilkall Filippseyja til Spratly-eyja.
Skipið var smíðað í Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni og var hannað til að flytja skriðdreka á átakasvæði.
Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og þar á meðal hafsvæðis ríkja eins og Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Filippseyjar kærðu Kína fyrir Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.
Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.
Reuters fréttaveitan hefur eftir Delfin Lorenzana, varnarmálaráðherra Filippseyja, að kröfur Kínverja séu innihaldslausar. Það séu Kínverjar sem séu þar sem þeir eigi ekki að vera. Samkvæmt alþjóðalögum, sem Kínverjar hafa skrifað undir, tilheyri rifið Filippseyjum. |
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur mátt þola mikla gagnrýni fyrir að styrkja ekki liðið fyrir tímabilið og 1-3 tap á móti Aston Villa var bara olía á þann eld. Hann ræddi þessa gagnrýni á blaðamannfundi í dag.
„Þetta voru alltof sterk viðbrögð. Við höfðum bara tapað einum leik frá því í byrjun mars og þess vegna var tapið á móti Villa áfall. Þetta tap var líka áfall af því að þetta var fyrsti leikur tímabilsins en við unnum Meistaradeildarleik á útivelli á móti Bayern og unnum svo 3-0 útisigur á Fenerbahce," sagði Arsene Wenger á blaðamannafundi fyrir seinni leik Arsenal og Fenerbahce í umspili um sæti í Meistaradeildinni.
„Þessi óánægja magnaðist upp af því að þið fjölmiðlamenn eru búnir að heilaþvo fólkið á Emirates. Við höfum ekki unnið titil í mörg ár og þess vegna er öll umfjöllun svona neikvæð. Við verðum að komast í gegnum þetta og einbeita okkur að því að spila fótboltaleiki," sagði Wenger.
Arsene Wenger talaði líka um það að það þýddi lítið fyrir hann að hlusta á allar þessar gagnrýnisraddir því þær hjálpa honum ekki að taka réttustu ákvörðunina. Wenger hélt einnig áfram að tala um að hann þurfi að styrkja liðið en félagsskiptaglugginn lokar í næstu viku.
„Ég hef ekki ákveðinn fjölda af nýjum leikmönnum í huga en við þurfum á liðstyrk að halda. Leikmennirnir sem ég hef í dag deila með mér sýn um hvernig á að spila fótbolta og þeir vilja spila fótbolta eins og ég vil sjá hann spilaðan. Þetta eru sérstakir leikmenn og það er bara pláss í liðinu fyrir leikmenn sem geta lagt eitthvað sérstakt til liðsins," sagði Wenger. |
Korkur: tilveran
Titill: Vírusaðvörun
Höf.: hulda
Dags.: 8. janúar 2002 13:11:39
Skoðað: 364
mail sem ég fékk ákvað að pósta því hingað þar sem ég fékk þennan vírus..
>Sæl öllsömul.
>
>Mér þykir það leitt en ég fékk vírus gegnum netið sem fer sjálfkrafa til ALLRA SEM ERU Í ADRESSUBÓKINNI minni. Þetta þýðir að ÞÚ ert örugglega með þennan vírus ef þú ert ekki með nýlegt vírusvarnar-forrit. Vírusinn sefur í tölvunni þinni í 14 daga og eyðileggur svo allt á harða diskinum þínum. Eftirfarandi eru leiðbeiningar um það hvernig þú getur athugað hvort hann sé í tölvunni þinni og eytt honum ef svo er.
>
>Ég var sjálf að enda við að eyða honum úr tölvunni minni.
>
>Kveðja, Helena Stefánsdóttir
>
>
>1. Farðu í “start”, síðan í “find” eða “search” eftir því sem við á í tölvunni þinni.
>
>2. Smelltu á “files and folders”.
>
>3. Skrifaðu “sulfnbk.exe” (þetta er vírusinn) í reitinn “named”. Í “look in” reitnum skaltu athuga hvort þú sért örugglega að leita í c-drifi
>
>4. Smelltu á “find now” eða “search”.
>
>5. If skjalið birtist (ljótt svart merki) með nafninu sulfnbk.exe, EKKI OPNA ÞAÐ.
>
>6. Hægri smelltu á skjalið, farðu niður á “delete” í kassanum sem birtist og smelltu þar.
>
>7. Tölvan spyr hvort þú viljir senda skjalið í “recycle bin”, smelltu á “yes”!
>
>8. Farðu í “recycle bin” og tæmdu hana eða tvísmelltu á hana, veldu sulfnbk.exe og eyddu því.
>
>9. Ef þú fannst vírusinn, vertu þá svo væn(n) að áframsenda þennan póst á alla sem eru í adressubókinni þinni.
>
>Þakkir til Gary Ferguson
>
>Virus alert - I've just received this message and removed the virus
> >from my files, but as you were in my address book, you may have
> >received it too.
> >
> >Birna Mattíasdóttir
> >
> >This probably won't apply if your anti-virus software's up to date,
> >but
> >…..
> >I got this virus, and chances are you have it too, since you're all
> >in
> >my
> >>>address book<<. It lies dormant for 14 days, then kills your hard
> >>>drive.
> >
> ><>address book>>
> >
> >>>Here's how to stop it<<
> >
> >
> >The directions for removing it are easy.
> >
> >1. Go to ‘start’ - then to ‘find or search’ (depending on your
> >computer)
> >
> >2. In the ‘search for files or folders’ type in sulfnbk.exe –this
> >is
> > the << virus >>.
> >
> >3. In the ‘look in’ make sure you're searching Drive C.
> >
> >4. Hit ‘search’ button (or find)
> >
> >5. If this file shows up (it's an ugly blackish icon that will have
> > the name:
> >
> > >>>'sulfnbk.exe'<<< !!! DO NOT OPEN IT !!!
> >
> >6. Right click on the file - go down to delete and left click.
> >
> >7. I will ask you if you want to send it to the recycle bin, say
> >yes.
> >
> >8. Go to your desktop (where all your icons are) and double click on
> >the recycle bin.
> >
> >9. Right click on sulfnbk.exe and delete again - or empty the bin.
> >If you find it send this email to all in your address book, because
> >that'show it's transferred. <br><br><img src="
http://www.hugi.is/bornin/image.php?mynd_id=2445
“> <font color=”#FF0000“>Hulda</font> kveður að sinni
******************************************
Ég á svo flotta Heimasíðu! Ligga Ligga Lái!!
<a href=”
http://kasmir.hugi.is/hulda
"> Kassjmíhr síjðan míjn! </a
---
Svör
---
Höf.: [Notanda eytt]
Dags.: 8. janúar 2002 15:22:22
Atkvæði: 0
Hvenær ætlar fólk að fara að læra. Þetta er bull og vitleysa og ekkert annað. Kíkjið bara hér ef þið trúið mér ekki:
http://www.europe.f-secure.com/hoaxes/sulfnbk.shtml
. Það tók mig tvær sekúndur að tékka á þessu á google.
Þið sem hafið hent þessu getið samt sem áður verið róleg, þetta er ekki mikilvæg skrá en ef þið viljið fá hana aftur eru ábendingar í skjalinu hér fyrir ofan. En hugsið ykkur ef þetta hefði verið kernel skráin og þið hefðuð eytt henni!<br><br>E-220
—–
There are two rules to success in life:
1. Don't tell people everything you know.
---
Höf.: hulda
Dags.: 8. janúar 2002 15:23:53
Atkvæði: 0
var að fá sent hérna að þetta er bara <a href="
http://www.complex.is/icelandic/sulfnbkgabb.html
“>gabb!</a>
<br><br><img src=”
http://www.hugi.is/bornin/image.php?mynd_id=2445
“> <font color=”#FF0000“>Hulda</font> kveður að sinni
******************************************
Ég á svo flotta Heimasíðu! Ligga Ligga Lái!!
<a href=”
http://kasmir.hugi.is/hulda
"> Kassjmíhr síjðan míjn! </a
---
Höf.: demonz
Dags.: 8. janúar 2002 16:56:00
Atkvæði: 0
Í alvöru Hulda…ég held að EEE hafi verið að segja það hérna fyrir ofan…ég fekk svona aðvörun og leitaði bara á altavista og vá ég fann það sama og EEE að þetta væri bara hoax eða gabb.<br><br>known as Demon[] not demonz
---
|
Í fyrsta skipti verða veitt sérstök verðlaun í Hörpu fyrir besta vörumerki heims í orkugeiranum á grundvelli staðla sem íslenskur fræðimaður í markaðsfræði þróaði.
Dagana 19. til 20. september næst komandi verður sérstök ráðstefna, Charge, í Hörpu um þýðingu vörumerkja fyrir fyrirtæki í orkuiðnaði. Ráðstefnan er hugarfóstur Friðriks Larsen en hann vann á sínum tíma doktorsritgerð um vörumerki og markaðssetningu í orkusölu. Á ráðstefnunni verður besta vörumerkið í orkugeiranum valið í fyrsta skipti á heimsvísu.
Friðrik Larsen, framkvæmdastjóri Larsen Energy Branding: Og það er voðalega gaman að það sé gert á svona stórum skala núna. Við erum með stærstu fyrirtæki í heimi sem standa að valinu og stærstu ráðgjafafyrirtæki í heimi og öll helstu orkusamtök heims og eftir standa 15 fyrirtæki víðs vegar um heiminn sem eru að keppa um að verða besta vörumerki heims. Og það er voða ánægjulegt að það séu Íslendingar sem að veita þessi verðlaun en við erum orkubúnt, við erum orkuþjóð og það beinir svona mjög jákvæðri athygli að okkur hérna heima.
Fjölmiðlafólk frá öllum heimshornum mun sækja ráðstefnuna og umfangið er talsvert og kostnaðurinn eftir því.
Friðrik Larsen: En við erum að fara ansi nálægt 100 milljónum, það er glettilega mikið.
Í doktorsritgerð Friðriks er m.a. fjallað um vörumerkjastjórnun á smásölumarkaði fyrir rafmagn.
Friðrik Larsen: Þegar ég byrjaði í doktorsnáminu fyrir 10 árum síðan þá átti ég ekki að fá að skrifa um þetta af því að þeir úti sögðu að það væri ekki hægt, þetta myndi ekki skipta máli en það skiptir miklu máli, ekki kannski jafnmiklu máli af því að í dagvöru þá ferðu út í búð og þú velur eitthvað úr rekkanum og þú tekur ákvörðun á staðnum. Þannig er það ekki með orku. Þannig að þetta hefur ekki sams konar áhrif en þetta skiptir þó því máli að ef þú gerir þetta ekki þá verðurðu Kódak og verður, ferð á hausinn. |
Síðastliðinn þriðjudag varð nokkurt uppnám „á markaði" vegna ummæla minna um Íbúðalánasjóð. Eitthvað fór tímasetningin fyrir brjóstið á stressuðum viðskipavinum kauphallarinnar, þó innihald þess sem ég sagði gæfi vart tilefni til upphlaupa og æsings. Ég sagði ekkert annað en það sem allir „markaðsaðilar" vita. Íbúðalánasjóður á í miklum vanda og á honum þarf að taka til skamms tíma og til frambúðar. Í ljósi sögunnar þarf þetta upphlaup þó vart að koma á óvart. Sumir viðskiptavinir kauphallarinnar virðast alltaf jafn hissa þegar bent er á augljósa hluti.
Haustið 2010 þurfti ríkissjóður að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða króna. Ég samþykkti það framlag á Alþingi en gerði að skilyrði að fram færi rannsókn á Íbúðalánasjóði. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er væntanleg innan tíðar.
Undanfarna mánuði hefur farið fram á vegum fjármálaráðherra úttekt á stöðu Íbúðalánasjóðs og nauðsynlegra aðgerða til að lágmarka tjón ríkissjóðs og þar með almennings á Íslandi. IFS greining vann skýrslu fyrir ráðherra og þar segir m.a.: „Með kerfisbreytingu sjóðsins hinn 1. júlí 2004 og tilheyrandi skiptiútboði var lagður grunnur að þeim vanda sem sjóðurinn hefur átt við að glíma á síðustu misserum. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn verið með opna vaxtaáhættu/uppgreiðsluáhættu sem lýsir sér í að skuldir sjóðsins eru óuppgreiðanlegar meðan útlán sjóðsins eru það ekki. Þessi áhætta er stærsta áhætta sjóðsins að mati IFS." Mér og „markaðnum" hefur lengi verið þessi áhætta ljós og lýsti ég þeirri skoðun minni á þriðjudaginn að grípa yrði til aðgerða.
Ríkisstjórnin ákvað sl. þriðjudag að óska eftir því við Alþingi að stofnfé Íbúðalánasjóðs yrði aukið um 13 milljarða króna á fjárlögum 2013. Þá má búast við frekari framlögum á næstu árum til sjóðsins og allt stefnir í að kostnaður ríkisins vegna hans verði a.m.k. 50 milljarðar þegar upp er staðið. Fyrir þá peninga væri hægt að reisa nýjan Landspítala. Alþingsmenn hafa tjáð sig af minna tilefni! |
Tekjur af rafíþróttamóti sem haldið verður hér í sumar munu hlaupa á hundruðum milljóna hið minnsta.
Rafíþróttamótið Mid-Season Invitational, sem haldið verður í Laugardalshöll í sumar, mun varlega áætlað skila innlendum aðilum um 300-400 milljónum króna með beinum hætti, en óbein áhrif gætu vegið mun þyngra þegar upp er staðið.
Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar Íslandsbanka, segir mikil tækifæri fyrir Ísland fólgin í að laða að hingað alþjóðleg rafíþróttamót. Ólafur Hrafn Steinarsson formaður Rafíþróttasambands Íslands segir landið hafa alla innviði og aðra burði til að vera mjög ákjósanlegur staður í því sambandi, enda mótið í sumar eitt stærsta rafíþróttamót heimsins og hörð samkeppni um að fá að halda það.
Má líkja við önnur íþróttastórmót
Björn skiptir efnahagslegum áhrifum af mótinu í þrennt. Fyrst komi beinar tekjur af mótinu sjálfu, leiga á aðstöðu, gisting keppenda og aðstandenda og útgjöld þeirra í mat og annað. Næst komi afleidd starfsemi og utanumhald; allskyns þjónusta í tengslum við mótið og keppendur. Þriðji liðurinn er landkynning, sem ríkir mest óvissa um, en hefur jafnframt möguleikann á því að verða langstærstur þegar upp er staðið.
„Að ákveðnu leyti má bera þetta saman við önnur stórmót í íþróttum, þar sem þú ert annars vegar að líta á beinar tekjur sem fást af því að fólk sem kemur hingað til lands þurfi að gista á hótelum og borða mat og svo framvegis, en síðan er það afleidd starfsemi sem þessu fylgir.“
Hátt í hálfur milljarður varlega áætlað
Varlega áætlað gerir Björn ráð fyrir að þeir muni eyða á bilinu 300-400 milljónum í uppihald heilt yfir. „Þetta miðast við um það bil 40 þúsund kall á dag á hvern aðila, sem er talsvert undir því sem gestir stærri ráðstefna eyða hérna, og því nokkuð varfærið mat. Þeir eru að fara að vera svo lengi að þeir eru kannski ekki að fara að gera jafn mikið og þeir sem staldra skemur við á hverjum einasta degi.“
Við það muni síðan bætast allt umstangið í kring, en Björn segir enn ekki liggja fyrir almennileg greining á umfangi þess. „Sem dæmi lítur allt út fyrir að þessu muni fylgja umfangsmesti innflutningur á tölvu- og útsendingarbúnaði hingað til lands sem um getur. Þetta verður talsvert stærra en stærstu tónleikar sem hér hafa verið haldnir í því sambandi.“
Það muni því hífa heildartöluna upp á við, en á móti dragi áhrif faraldursins á það hvað gestirnir hreinlega geti gert úr henni. „Það eru auðvitað ákveðnar takmarkanir núna á því hvað fólk getur verið að gera á meðan það er á svæðinu.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. |
Hörð átök voru á Alþingi um tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um afturköllun ákæru á hendur Geir Haarde. Þingmaður Samfylkingarinnar segir ekkert efnislega hafa breyst í málinu sem réttlæti tillöguna. Ákæran er ranglæti en ekki réttlæti segir formaður Sjálfstæðisflokksins.
Þungt hljóð var í þingmönnum en þessa umræðu ber upp á þriðja afmælisdag búsáhaldabyltingarinnar þegar kveikt var í Óslóartrénu á Austurvelli. Bjarni Benediktsson mælti fyrir tillögunni klukkan hálfellefu og lagði til að henni yrði vísað til saksóknarnefndar Alþingis að lokinni fyrri umræðu.
Þá fór af stað umræða um fundarstjórn þar sem stjórnarþingmenn sögðu það kristaltært að tillagan ætti ekki heima í þeirri nefnd enda saksóknarnefnd ekki ein af fastanefndum þingsins, slíkt væri fráleitt.
Síðan fór af stað umræða um það hvort tillagan væri þingtæk en eins og áður hefur komið fram hefur yfirlögfræðingur Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að svo sé enda tillagan á dagskrá þingsins. Bjarni Benediktsson segir skýrt að málið sé á forræði þingsins.
„Ég hef fundið sem sagt fyrir því að á meðal þingmanna hafa orðið sinnaskipti. Mönnum þykir að það sé ranglæti hér á ferð, að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt við endanlega afgreiðslu málsins. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hvernig það gerðist hér í þingsal. Það muna þeir, sem þar sátu og þeir sem fylgdust með,“ sagði Bjarni.
Magnús Orri Schram sagði að ekkert hefði breyst í málinu efnislega, frá því alþingi tók ákvörðun um það.
„Hafi hins vegar einhverjir hug á því að skipta um skoðun, hvort málið eigi að fara til efnislegrar meðferðar fyrir Landsdóm, þá er það ekki á grunni þess að brotið hafi verið á réttindum viðkomandi ráðherra né heldur að eitthvað efnislegt hafi komið fram. Heldur eru þeir hinu sömu að viðurkenna að ákvörðun sína hafi þeir tekið út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki efnislegum. Því ekkert efnislegt hefur breyst í málinu,“ sagði Magnús Orri.
Gunnar Bragi Sveinsson sagði pólitískt uppgjör ekki geta vera fólgið í því að draga einn mann til ábyrgðar, það þurfi meira til. „Nú ef pólitiíkin brást, þá á það sér miklu lengri sögu, sem nær fram á daginn í dag og mínútuna sem er að líða, því sumir þeirra sem tóku að sér að vinna úr hruninu hafa tekið ákvarðanir sem þarfnast svo sannarlega rannsóknar við.“
Magnús Orri mælti fyrir tillögu til rökstuddrar dagskrár, sem hann lagði fram ásamt Eygló Harðadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur en hún felur í sér að málinu verði vísað frá. Það eru enn fjölmargir á mælendaskrá og þegar þessari umræðu lýkur verða greidd atkvæði um tillögu Magnúsar Orra. Verði hún samþykkt verður málinu vísað frá og ekki tekið aftur fyrir á þessu þingi. Verði hún felld heldur þingleg meðferð málsins áfram. Umræðan á alþingi var þung og það kemur ekki í ljós fyrr en síðar í dag hvernig það fer. |
KYNNING: Sjótækni hefur áratuga reynslu af þjónustu við sjávarútveg um allt land. Sérhæft í köfunarþjónustu, þjónustu við fiskeldi, neðansjávarlögnum og viðhaldi hafnarmannvirkja.
Þó að Sjótækni sé stærsti þjónustuaðili við fiskeldi á landinu erum við að sinna mun víðari verkefnum í sjávarútvegi. Við bjóðum upp á sérhæfða hafsækna verktakaþjónustu í sjó og vötnum,“ segir Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri Sjótækni.
Sex kafarar starfa í fyrirtækinu, allir með mikla reynslu enda þarf töluverða kunnáttu til að geta starfað neðansjávar. „Hér innanhúss er ein almesta reynsla í köfunarþjónustu á landinu,“ segir Kjartan sem sjálfur er enginn aukvisi þegar kemur að köfun en hann hefur starfað í faginu frá árinu 1976, eða í 42 ár.
Kafarar Sjótækni sinna ýmsum verkefnum. Til dæmis viðhaldi hafnarmannvirkja, lagningu, viðhaldi og viðgerðum á neðansjávarlögnum og sæstrengjum og viðhaldi skipa, svo fátt eitt sé nefnt. Kjartan segir þörfina á slíkri þjónustu alltaf til staðar. „Köfunarþjónusta er mikilvægur hlekkur í sjávarútveginum.“
Sjótækni veitir einnig ráðgjöf á sviði neðansjávarlagna, hvort sem um ræðir röralagnir eða sæstrengi. Það getur einnig lagt til efni til slíkra framkvæmda.
Fyrirtækið hefur einnig á sínum snærum nokkra kafbáta, bæði litla og stóra. „Þetta eru fjarstýrðir bátar sem við notum til að sinna ýmsu eftirliti með mannvirkjum neðansjávar. Með kafbátunum má taka myndir en stærsti kafbáturinn er einnig útbúinn verkfærum sem hægt er að nota neðansjávar. Til dæmis til að festa hluti, taka þá upp eða í sundur eða í ýmsa mælingavinnu neðansjávar.“
Sjótækni er byggð á gömlum grunni sem nær aftur til ársins 1991. Hjá fyrirtækinu starfa um 14 starfsmenn og gerir það út fimm báta auk nokkurra minni hraðbáta og vinnupramma. Í dag er fyrirtækið með starfsstöðvar á Tálknafirði og höfuðborgarsvæðinu en sinnir verkefnum um allt land. En hvar er mest að gera? „ Við vinnum um allt land en mikið af okkar starfsemi tengist fiskeldi á Vestfjörðum og síðustu áratugi höfum við verið töluvert í Vestmannaeyjum við nýlagnir, eftirlit, viðhald og viðgerðir á öllum lögnum milli lands og Eyja.“ |
Allt áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli lá niðri í tvær klukkustundir í morgun eftir að bilun kom upp í tölvubúnaði hjá Isavia. Sjö flugvélar sátu fastar á jörðu niðri en viðgerð lauk á tíunda tímanum.
Um var að ræða bilun í sjálfvirku flugupplýsingakerfi í flugstöðvarmiðstöðinni í Reykjavík sem miðlar gögnum til flugumferðarstjóra.
Friðþór Eydal, talsmaður Isavia: Þegar að slíkt gerist sem er afar sjaldgæft að þá grípa menn til staðlaðra ráðstafana sem að eru bara með því laginu sem að var áður en að menn tóku eða fóru að nýta sér tölvutæknina við flugumferðarstjórn og, en það hægir hins vegar svolítið á afgreiðslunni og til þess að létta á þá er undireins hætt að hleypa flugvélum í loftið eða inn á flugstjórnarsvæðið á meðan að verið er að vinna að biluninni og koma sjálfvirka miðlunarkerfinu í gang aftur.
Segir Friðþór Eydal, talsmaður Isavia. Allt áætlunarflug lá niðri í tæpar tvær klukkustundir á meðan viðgerð stóð yfir en engin hætta skapaðist. Sjö vélar sátu fastar á jörðu niðri og ljóst að einhverjir hafa misst af tengiflugi. Friðþór segir að bilunin hafi ekki haft áhrif á innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli en ástæða bilunarinnar verður rannsökuð og viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hún endurtaki sig ekki. |
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands, ræddu um Norðurskautsráðið og öryggismál Finnlands og samskipti við Rússland á fundi sínum í Helsinki í morgun. Forsetarnir mættu í fylgd eiginkvenna sinna, Elizu Reid og Jenni Haukio, til fundarins í finnska forsetabústaðnum sem stendur rétt fyrir utan miðborg Helsinki.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, forsetafrú, mætti í morgun til fundar við Sauli Niinistö, forseta Finnlands, og Jenni Haukio, eiginkonu hans, í finnska forsetabústaðnum sem stendur steinsnar frá miðborg Helsinki á bökkum Eystrasaltsins. Það rigndi þegar íslensku forsetahjónin stigu út úr bílnum sem flutti þau að forsetabústaðnum og það fór vel á með forsetahjónunum. Þegar þau stilltu sér upp til myndatöku fyrir framan fjölmiðlamennina sem þangað voru komnir sló Guðni á létta strengi og sagði "gott veður í Finnlandi eins og alltaf". Eftir að hafa ræðst við um stund héldu forsetarnir blaðamannafund þar sem þeir undirstrikuðu gott samband milli þjóðanna og samstarf þeirra á vettvangi Norðurskautsráðsins en Ísland tekur þar við formennsku af Finnum vorið 2019. Þá sögðu þeir að þeir höfðu sömuleiðis rætt á fundi sínum öryggismál og ástandið í Rússlandi. Guðni heldur í heimsókn í finnska þingið síðdegis þar sem hann ræðir við Maria Lohela, þingforseta, en dagskrá Guðna lýkur svo í dag með heimsókn í finnska forsætisráðherrabústaðinn þar sem hann ræðir við Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands. Í ár eru liðin 100 ár frá því að Finnar öðluðust sjálfstæði frá Rússum. Íslensku forsetahjónin taka þátt í hátíðarhöldum á morgun í tilefni þess ásamt fleiri þjóðhöfðingjum frá Norðurlöndunum. |
Formaður fjárlaganefndar Alþingis stefnir að því að koma frumvarpi fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninganna í þriðju umræðu eigi síðar á miðvikudag. Nú vinnur nefndin að því að gera Tryggingasjóði innistæðueigenda kleift að taka lán fyrir skuldinni.
Fjárlaganefnd Alþingis kemur saman klukkan 10 í dag.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar: Nú við höfum verið að ræða núna milli annarrar og þriðju umræðu þessar fyrirvarastyrkingu á þeim eða svona yfirferð á því hvað þarf til, við vorum með Tryggingasjóð innistæðueigenda á fundi í gær og þeir koma aftur á eftir klukkan 10.
Óvíst er hvenær málið verður sett í þriðju umræðu en það veltur meðal annars á því hvernig vinnan í fjárlaganefndinni gengur í dag. Guðbjartur segir að nú sé aðallega unnið að því að gera Tryggingasjóði innistæðueigenda kleift að taka lán til að greiða Icesave skuldina.
Guðbjartur Hannesson: Svo komu þarna efasemdir um það að fyrirvararnir héldu fyrir breskum dómstólum, við höfum verið að reyna að skýra það ákvæði og reyna að tryggja að það leiki enginn vafi á því. Þetta eru svona megin atriðin og svo hvernig hérna uppgjör á sér stað ef að það verður greiðslufall hjá okkur eða við ráðum ekki að fullu við þetta í lok tímabilsins. Allir okkar fyrirvarar hafa byggst á því að það séu viðræður og uppgjör á milli aðila áður en að sem sagt hérna Alþingi tekur svo endanlega ákvörðun varðandi ábyrgðirnar.
Í dag verða þingflokksfundir en Guðbjartur telur ólíklegt að þingfundur verði fyrr en á miðvikudag. |
Fyrrverandi eigendur Skeljungs, þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, fullyrða að Íslandsbanki hafi reynt að fá þau til að leppa þriðjungshlut í fyrirtækinu. Segja þau bankann hafa viljað komast hjá því að tilkynna eftirlitsaðilum um eignarhald sitt á félaginu.
Hjónin Svanhildur Nanna og Guðmundur saka Íslandsbanka um að hafa reynt að láta þau gangast undir samkomulag þar sem þau ættu áfram eignarhaldsfélagið Skel Investments sem fór með þriðjungshlut í Skeljungi en Íslandsbanki ætti hins vegar að stjórna þeim. Þetta kemur fram í Viðskiptablaði Morgunblaðsins en í viðtali lýsa hjónin fjandsamlegum samskiptum við Íslandsbanka. Hjónin högnuðust um milljarða króna þegar þau seldu eignarhlut sinn í Skeljungi á dögunum svo þau eru ekki á flæðiskeri stödd fjárhagslega eftir þessi samskipti sín við bankann. Með sölunni á Skeljungi lauk fimm ára eignarhaldi þeirra hjóna á fyrirtækinu en kaup þeirra á Skeljungi af Íslandsbanka eru ein umtöluðustu viðskipti eftir hrun. Ráðning Einars Arnars Ólafssonar sem forstjóra Skeljungs í maí 2009 átti eftir að hafa mikil eftirmál fyrir öll samskipti eigenda Skeljungs við Íslandsbanka, eins og Morgunblaðið greinir frá en Einar Örn hafði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafarbankans haft umsjón með söluferli félagsins sumarið áður. Guðmundur Örn segir að það sé leppun á eignarhaldinu á Skeljungi sé beinlínis tekin fram í samkomulagi sem þau hjón hafi fengið sent frá Íslandsbanka. Bankinn hafi ekki viljað eignast Skeljung formlega en bankinn var með veð í hlutabréfunum í fyrirtækinu vegna seljendaláns sem hann veitti við kaup þeirra hjóna á Skeljungi. Þá hafi samskiptin við Íslandsbanka farið frá því að vera ósanngjörn yfir í að vera fjandsamleg eftir að Einar Örn var ráðinn til Skeljungs frá bankanum. Íslandsbanki fór þó fram á meira en að þau hjón myndi leppa hlut bankans í hlut Skeljungi fram að þeim tíma sem að félagið yrði selt. Í drögum að samkomulagi hafi verið lögð mikil áhersla á að fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka fengi öll þau verkefni er lúta að sölu Skeljungs. Þetta þýðir í raun að Íslandsbanki fór á svig við lög um fjármálafyrirtæki og samkeppnislög í samskiptum sínum við hjónin. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, gaf ekki kost á viðtali þegar fréttastofan náði tali af henni í morgun. Íslandsbanki sendi frá sér yfirlýsingu á tólfta tímanum, þar er þessum ásökunum ekki svarað nákvæmt efnislega eða með tilgreindum dæmum heldur er umfjöllun Morgunblaðsins almennt vísað á bug. |
Aðalfundur Golfklúbbs Þorlákshafnar var haldinn fyrir skömmu og þótti takast mjög vel. Vel var mætt á fundinn og einhugur í aðalfundargestum.
Klúbburinn fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári og var fyrsti formaður klúbbsins, Georg Már Michelsen gerður að heiðursfélaga á aðalfundinum.
Flestar lykiltölur í rekstri klúbbsins voru jákvæðar á síðasta ári. Hagnaður var af starfseminni upp á rúmlega 200 þúsund krónur, en miklar framkvæmdir voru á vellinum á síðasta ári og árin á undan. Félagar í klúbbnum hafa unnið mjög ötult starf við þessar framkvæmdir auk þess sem bæjarfélagið hefur stutt klúbbinn með myndarlegum hætti.
Heimsóknum á golfvöllinn fækkaði örlítið á síðasta ári og má að mestu skýra það með slöku tíðarfari síðasta vor. Góðu fréttirnar eru hins vegar að félögum í klúbbnum fjölgaði talsvert og má rekja fjölgunina að mestu leyti til þess að æ fleiri Þorlákshafnarbúar eru að uppgötva þessa perlu í bæjarlandinu sem golfvöllurinn er. Þá kom nokkur hluti nýrra félaga af höfuðborgarsvæðinu og ljóst að margir eru tilbúnir að aka þessa stuttu vegalengd til að spila á vellinum.
Golfklúbburinn sinnir barna- og unglingastarfi vel og síðasta sumar stjórnaði Ingvar Jónsson því starfi. Þess má geta að ungmenni undir tvítugu greiða engin félagsgjöld í klúbbinn. Þá var einnig blómlegt kvennastarf í klúbbnum á síðasta ári, en það var Ásta Júlía Jónsdóttir sem sá um það starf.
Aðalfundurinn samþykkti tillögu stjórnar um ýmis gjöld. Þannig kostar árgjald í klúbbnum aðeins 48 þúsund krónur sem er það sama og á síðasta ári. Fullyrða má að það er með því allra lægsta sem þekkist á Íslandi. Tekið er vel á móti nýliðum í klúbbnum og sýnir það best að ársgjald nýliða fyrstu tvö árin er samtals 48 þúsund krónur.
Kosið var í stjórn klúbbsins og allir sem skipuðu stjórnina áður voru endurkjörnir. Guðmundur Karl Baldursson var endurkjörinn formaður klúbbsins og aðrir í stjórn eru Ingvar Jónsson, Magnús J. Guðmundsson, Magnús Ingvason og Óskar Logi Sigurðsson. Ásta Júlía Jónsdóttir og Óskar Gíslason voru svo endurkjörin í varastjórn. |
Orkuveitan hefur sent 36 bændum, fyrrverandi eigendum hitaveitufélagsins Austurveitu, bréf þar sem krafist er 11 milljóna króna í skaðabætur vegna samningsbrots sem rýri verðmæti veitunnar. Verði krafan ekki greidd fyrir lok dagsins í dag verður höfðað skaðabótamál.
Orkuveitan keypti hitaveitufélaginu Austurveitu í janúar 2004 fyrir 88 milljónir króna. Á dögunum sendi Orkuveitan bréf á fyrrverandi eigendur Austurveitu þar sem segir að samningurinn hafi verið brotinn. Orkuveitan hafi staðið í þeirri trú að viðskipti við Jón Hólm Stefánsson, fyrrverandi stjórnarformann Austurveitu, hafi fylgt með í kaupunum en hann var einn af stærri viðskipavinum veitunnar. Nú hafi Jón Hólm sagt upp viðskiptum við Orkuveituna og tengt sig við borholu á landareign sinni. Orkuveitan heldur því fram að Jón Hólm hafi á samningstímanum verið búinn að ganga frá leigu á borholunni og haldið því leyndu fyrir Orkuveitunni. Ásgeir Margeirsson, hjá Orkuveitunni segir að því sé um samningsbrot að ræða því gert hafi verið ráð fyrir að viðskiptin fylgdu með og síðan myndu bætast við ný viðskipti.
Ásgeir Margeirsson, hjá Orkuveitunni: Þetta er sérstaklega alvarlegt mál í ljósi þess að það er formaður stjórnarinnar sem að hættir síðan viðskiptum við veituna og hann hefði átt að upplýsa okkur um það áður. Vteljum einfaldlega að við höfum ekki fengið réttar upplýsingar og bestu fáanlegu upplýsingar um horfur viðskipta veitunnar á þessum tíma.
Jón Hólm Stefánsson segir Orkuveituna fara með rógburð, bréfið sé persónuleg árás á sig sem verði svarað af lögfræðingi. Hann hafi gengið frá leigu á borholu mörgum mánuðum áður en samningurinn við Orkuveituna var gerður. Ekkert ákvæði sé í samningnum sem bindi fyrrverandi eigendur til að halda viðskiptum áfram við Orkuveituna. Það hafi ennfremur komið fram á samningsfundinum að nokkrir af eigendum Austurveitu gætu nýtt orku í eigin landi. Jón Hólm segir að telji Orkuveitan sig hafa eitthvað fyrir sér í kröfu sinni, eigi hún að stefna sér en ekki öllum fyrrum eigendum Austurveitu. Ásgeir segir að það geti farið svo að það verði gert. |
Í dag, 25. nóvember, er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi, en þema ársins er “Orange the World: Fund, Respond, Prevent, Collect!" . Sökum COVID-19 verður engin Ljósaganga í ár sem vanalega markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem lýkur svo 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi. Harpa verður hins vegar lýst upp í appelsínugulum lit líkt og undanfarin ár, en liturinn er táknrænn litur fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Í dag skulum við í stað Ljósagöngu kveikja á kertum í minningu þeirra 45.073 kvenna sem myrtar hafa verið af hendi náins fjölskyldumeðlims á heimsvísu það sem af er ári 2020.
Samhliða alvarlegum efnahags- og félagslegum áhrifum heimsfaraldursins COVID-19 og aukinni félagslegri einangrun fólks hefur „skuggafaraldur“ kynbundins ofbeldis farið vaxandi um allan heim. Það er staðreynd að í neyð líkt og nú ríkir á heimsvísu eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi og því miður fer tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgandi með hverjum deginum. Í sumum löndum hefur fjölgun hringinga í neyðarlínur fimmfaldast. Annars staðar hefur formlegum kvörtunum um heimilisofbeldi fækkað þar sem erfiðara reynist fyrir þolendur að sækja sér hjálpar eftir hefbundnum leiðum.
Margar konur og stúlkur eru einangraðar og bundnar heima með ofbeldismönnum sínum vegna samkomu- og útgöngubanna. Nýjustu úttektir og rannsóknir benda til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna til viðbótar verði beittar kynbundnu ofbeldi. Á sama tíma er fjármagni oft beint frá nauðsynlegri stoðþjónustu á borð við kvennaathvörf og neyðarlínur.
Á heimsvísu hafa yfir 240 milljónir kvenna þurft að þola ofbeldi af hendi nákomnum aðila á síðustu tólf mánuðum. Þessi fjöldi mun að öllum líkindum aukast þar sem áhyggjur af heilsufari og fjárhagslegu öryggi skapar aukna streitu á heimilum sem þegar eru undir miklu álagi. Faraldurinn hefur einnig hræðileg áhrif á konur og stúlkur með fötlun sem geta átt í erfiðleikum með að tilkynna ofbeldi og misnotkun. Þá eru einnig aðrir jaðarsettir hópar í hættu svo sem konur í flóttamannabúðum.
Á sama tíma og 70% þeirra sem eru í framlínunni um allan heim að bjarga mannslífum vegna COVID-19 eru konur, hefur ekkert þríeyki stigið fram til að bjarga þeim 137 konum sem drepnar eru á hverjum einasta degi allan ársins hring. Af hverju erum við ekki brjáluð yfir því ofbeldi og mannréttindabrotum sem framin eru gegn konum og stúlkum á hverjum einasta degi? Af hverju höfum við ekki gert allt sem í okkar valdi stendur til að bregðast við ofbeldisheimsfaraldrinum sem geysað hefur frá örófi alda?
UN Women er til staðar fyrir konur í faraldrinum og mætir þörfum þeirra. UN Women þrýstir á að konum sem beittar eru heimilisofbeldi sé veittur aðgangur að viðeigandi þjónustu; lögreglu, neyðarmóttöku og athvörfum. Í kvennaathvörfum UN Women hljóta konur heilbrigðisþjónustu, sálræna aðstoð, lagalega aðstoð og atvinnutækifæri auk þess að búa við öruggt húsaskjól.
Við hjá UN Women á Íslandi erum uggandi yfir bakslaginu sem COVID-19 hefur haft á jafnréttisbaráttuna. Bakslagið veldur því að aldrei hefur þörfin fyrir fjármagn til UN Women verið meiri. Með því að kaupa táknrænar gjafir UN Women getum við öll; einstaklingar og stjórnendur fyrirtækja, lyft grettistaki í að snúa þróuninni við. Saman getum við verið ljós í myrkri fyrir konur um allan heim.
Höfundur er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. |
„Það eru alls konar leiðir til að redda sér. Fólk getur keypt sér pakkaliti. En mér prívat og persónulega finnst bara smart að vera svolítið óklipptur, það sýnir bara samstöðu og smá grá rót er bara allt í lagi,“ segi Svavar Örn Svavarsson hárgreiðslumeistari um hvað fólk eigi að gera við hárið á sér í samkomubanninu.
Hárgreiðslustofur, rakarastofur og snyrtistofur eru nú lokaðar og einhverjir farnir að verða dálítið minna snyrtilegir en venjulega, auk þess sem gráu hárin kunna að vera meira áberandi. „Eins og staðan er núna, það besta er að næra vel hárið, nota réttu sjampóin og næringarnar,“ segir Svavar í samtali við Síðdegisútvarpið. „Það er hægt að nota sprey með brúnum lit sem og fólk hefur reddað sér með því að spreyja aðeins í rótina, þó ekki nema aðeins í skiptingu eða við andlitið.“
Margir karlar geti líka reddað sér með bartskera til að snyrta aðeins í kringum eyrun. „En hárið vex nú ekki nema sirka tvo sentímetra á þessu tímabili, mér finnst bara kúl að vera svolítið gelaður og sýna samstöðu.“ Svavar segir að margar vinkonur sínar hafi mestar áhyggjur af því að komast ekki í vax. „Þær segja að það sé bara loðnuvertíð uppi og niðri og út og suður. Þannig við verðum ansi frýnileg þegar þessu samkomubanni lýkur, held ég. En mér finnst þetta bara sjarmerandi. Við eigum bara að redda okkur með þessum hárvörum sem standa til boða og svo eru sumir sem eru klárir að lita sig.“
Það borgi sig þó að fara varlega. „Þetta er vonandi bara einn og hálfur mánuður. En ég held þetta sé eitthvað sem við ættum ekki að hafa of miklar áhyggjur af. Bara nota hárvörur. Annars held ég að það sé enginn að fara að missa kúlið þó hann sé kominn með smá rót.“ En er Svavar ekkert hræddur um að detta úr æfingu? „ Góð spurning. Stundum þegar ég fer í sumarfrí og kem aftur til baka þarf maður smá tíma til hitna aftur. Auðvitað dettur maður úr æfingu, en það tekur ekki nema nokkra klukkutíma, þá er maður dottinn í gírinn aftur. Og ég hlakka alveg óskaplega til að komast aftur í vinnuna, að hitta viðskiptavinina.“ |
„Sakir rúmrar lausafjárstöðu bankakerfisins hafa bankar almennt ekki haft þörf fyrir lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans. Frá aprílmánuði 2009 hafa því þeir Seðlabankavextir sem mest áhrif hafa á aðra skammtímavexti, t.d. peningamarkaðsvexti og innlánsvexti í bankakerfinu, verið vextir á innlánsreikningum bankans."
Þetta segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt hefur verið á heimasíðu Seðlabankans. Þar segir að eins og áður hefur komið fram eru þessir vextir 9,5%. Vísbendingar eru um að miðað við þá vexti sé umframlausafé til staðar, sem er ástæða þess að efnt verður til útboðs innstæðubréfa.
„Gengi krónunnar hefur haldist nokkuð stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun hinn 13. ágúst, þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Velta á gjaldeyrismarkaði hefur einnig aukist. Gengi krónunnar hefur þó áfram verið lágt, sem hefur hægt á hjöðnun verðbólgunnar. Eigi að síður er þess vænst að sökum mikils slaka í efnahagslífinu, sem dregur úr hættu á því að nýlegar hækkanir vindi upp á sig, muni verðbólga hjaðna ört á ný síðar á árinu," segir í yfirlýsingunni.
„Ýmis jákvæð teikn eru á lofti. Á sama tíma og dregið hefur úr þörf fyrir inngrip hefur afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd verið nokkru meiri en vænst var. Uppsöfnun á gjaldeyrisinnstæðureikningum fyrirtækja í bönkunum hefur stöðvast. Útflutningsverðlag hefur styrkst. Einnig hefur áhættuálag á krónueignir haldið áfram að minnka, eins og m.a. birtist í lækkandi skuldatryggingarálagi.
Að farið sé í kringum gjaldeyrishöftin hefur lengi verið áhyggjuefni og stuðlað að lágu gengi krónunnar. Til viðbótar því að tryggja næga ávöxtun krónueigna hefur Seðlabankinn því gripið til aðgerða er miða að því að efla eftirlit og framfylgd haftanna.
Skilyrði fyrir því að hægt sé að byrja að afnema höft á fjármagnshreyfingar í áföngum gætu bráðlega verið til staðar, að því gefnu að tvíhliða og fjölþjóða fjármögnun sé tryggð. Meðal annarra skilyrða má nefna að stjórnvöld haldi áfram að fylgja eftir langtímaáætlun í ríkisfjármálum, eins og þau hafa skuldbundið sig til, og að endurskipulagning fjármálakerfisins sé langt komin.
Í meginatriðum hefur þessum markmiðum verið náð. Í því sambandi er rétt að leggja áherslu á að fyrsta endurskoðun framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun stjórnvalda er mikilvægt skref í þá átt að auka tiltrú á íslenskt efnahagslíf og er því forsenda þess að afnám fjármagnshafta takist vel. Á meðan á umbreytingaskeiðinu stendur munu ákvarðanir í peningamálum taka mið af því markmiði að stuðla að stöðugu gengi krónunnar." |
"Ég fékk hugmyndina að myndinni veturinn 2000, ég var heima hjá mér í Kaupmannahöfn og þá var skyndilega bankað á hurðina hjá mér. Það var þekktur danskur barnasálfræðingur sem stóð fyrir utan dyrnar og hann spurði mig hvort ég væri sá sem hafði gert myndina Festen. Ég sagði auðvitað já. Þá sagði barnasálfræðingurinn að hann væri með hugmynd að annarri mynd sem ég gæti gert og hann rétti mér mikinn fjölda dómsmála."
Svo lýsir leikstjórinn Thomas Vinterberg því hvernig hugmyndin að kvikmyndinni Jagten varð til. Jagten verður frumsýnd hér á landi annað kvöld.
Kvikmyndin er hádramatísk og tekst á við erfitt málefni. Mads Mikkelsen sýnir einstakan leik í hlutverki leikskólakennarans Lucas sem sakaður er um barnaníð af lítilli dóttur vinar síns. Lygin breiðist hratt um heimabæ Lucasar og innan skamms er hann orðinn skotmark múgæsings og hann nánast gerður útlægur úr samfélaginu.
Með önnur hlutverk fara Thomas Bo Larsen, Annika Wedderkopp og Susse Wold sem snýr aftur á hvíta tjaldið eftir 27 ára hlé.
"Dönsk kvikmyndagerð hefur saknað Susse Wold. Hún hefur verið fjarverandi í 27 ár. Hún er undraverð, falleg og frábær leikari," sagði Vinterberg um Wold. Leikkonan er Íslendingum meðal annars kunn fyrir hlutverk sitt sem Gitte Graa í sjónvarpsþáttunum vinsælu Matador.
Jagten var frumsýnd þann 20. maí á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra. Hún var þá fyrsta dönskumælandi myndin sem hefur keppt til Gullpálmans frá árinu 1998. Mads Mikkelsen hlaut verðlaun fyrir besta leik í karlhlutverki það árið fyrir túlkun sína á Lucasi. Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og kvikmyndahúsagesta og á vefsíðunni Rottentomatoes.com fær hún 91 prósent í einkunn frá gagnrýnendum og einkunnina 8,3 á vefsíðunni Imdb.com. |
Fjármálaráðherra stefnir að því í haust að leggja fram lagafrumvarp um hækkun á virðisaukaskatti á matvæli. Þá verður efra þrep virðisaukaskattsins lækkað. Þeir sem eigi erfitt með að ráða við hækkunina kunni að fá aðstoð í gegnum bótakerfið.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi frá áformum um virðisaukaskattbreytingar á ráðstefnu Deloitte í morgun. Bjarni segir í samtali við fréttastofu að stofnaður verði stýrihópur um málið. Virðisaukaskattur á matvæli er nú 7% og efra þrepið er 25,5%. Bjarni segir að markmiðið sé að einfalda kerfið um leið og skoðaðar verði leiðir til að breikka skattstofninn.
Bjarni vill ekki fullyrða hvenær þessar breytingar komi til framkvæmda. „En við munum leggja áherslu á að hraða þessari vinnu. Þetta er kerfisbreytingu af þeirri stærðargráðu að hún mun þurfa að miðast við áramót. Ef mögulegt er að leggja fram frumvarp strax næsta haust þá mun ég gera það.“
Bjarni segir að munurinn milli virðisaukaskattsþrepanna sé óeðlilega mikill og efra þrepið of hátt. „Það er með því hæsta sem þekkist í heiminum og svo erum við líka með undanþágur frá virðisaukaskattskerfinu sem ég tel tímabært að taka til skoðunar.“
Bjarni segist ekki geta sagt nú hversu mikið virðisaukaskattur á matvæli kunni að hækka. „ Á móti slíkri hækkun á neðra þrepinu myndum við grípa til mótvægisaðgerða og þar er ég sérstaklega að horfa til vörugjaldanna sem starfshópurinn mun sérstaklega taka til skoðunar samhliða þessu.“
Hann segir aðrar leiðir til að koma til móts við þau heimili sem verst standa en með lægra virðisaukaskattsþrepi og nefnir þar sérstaklega bótakerfið.
Bjarni segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnunin hafi bent á að það sé ómarkviss leið til að ná til þeirra tekjulægri að innheimta sérstaklega lítinn virðisaukaskatt af nauðsynjavörum. „En með því að ríkið verður af mjög miklum tekjum með sérstaklega lágu þrepi þá erum við ekki bara að ná til þeirra sem aðgerðin beinist að heldur til allra Íslendinga. Þannig að það er hægt að fara aðrar leiðir til þess að koma til móts við þá um leið og maður nær því markmiði að einfalda kerfið.“ |
Nýjasta Gylfa slúðrið frá Englandi er að Everton vonist nú til þess að „tapa“ bara 25 milljónum þegar þeir selja Gylfa Þór Sigurðsson í sumar.
Everton er sagt ætla að styrkja liðið sitt með stjörnuleikmönnum í sumar en með hverjum deginum aukast líka sögusagnir um að liðið ætli líka að selja dýrasta leikmanninn í sögu félagsins.
Football Insider hefur það eftir heimildarmönnum sinnum á Goodison Park að Everton hlusti nú eftir tilboðum í íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson.
Gylfi er þrítugur og á eftir tvö ár af samningi sínum. Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Gylfa því hann hefur ekki komið að mörgum mörkum á leiktíðinni og þá hefur hann einnig spilað aftan á vellinum en hann er vanur.
Everton keypti Gylfa frá Swansea City árið 2017 fyrir 45 milljónir punda og hefur ekki borgað svo mikið fyrir annan leikmann. Samkvæmt frétt Football Insider þá binda nú forráðamenn Everton vonir til þess að ná að selja Gylfa fyrir tuttugu milljónir og „tapa“ bara 25 milljónum pundum.
Carlo Ancelotti ætlar að koma Everton í topp fjögur á næstu árum og það lítur út fyrir að hann telji best að gera það án þátttöku Gylfa. Gylfi var samt að fá að spila mikið hjá Ítalanum en Carlo Ancelotti færði hann þó mun aftar á völlinn.
Gylfi hefur byrjað 23 sinnum inn á vellinum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er alls með eitt mark og tvær stoðsendingar í 26 leikjum.
Í fyrra var Gylfi með 13 mörk og 6 stoðsendingar í 38 leikjum en fyrsta tímabil hans með Everton skoraði Gylfi 4 mörk og gaf 3 stoðsendingar í 27 leikum. |
KA/Þór gerði sér lítið fyrir og vann Íslandsmeistara Fram, 24-23, í Olís-deild kvenna í fyrradag. Nýliðarnir hafa komið liða mest á óvart í vetur. Gott líkamlegt form og sterk vörn hefur fleytt norðanstúlkum langt.
Línumaðurinn ungi og efnilegi, Anna Þyrí Halldórsdóttir, tryggði nýliðum KA/Þórs frækinn sigur á Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára, Fram, í KA-heimilinu á þriðjudaginn. Gestirnir jöfnuðu í 23-23 og lokasókn heimakvenna, sem voru manni færri á þessum tímapunkti, var komin í öngstræti þegar Martha Hermannsdóttir fann Önnu Þyrí inni á línunni. Hún skilaði boltanum í netið, skoraði sitt fimmta mark og tryggði KA/Þór stigin tvö.
„Við stefndum að því að vinna þennan leik eins og alla aðra. Eftir dapran leik á móti HK ætluðum við að svara fyrir okkur. Þetta var mjög sætt,“ sagði Hulda Bryndís Tryggvadóttir, leikmaður KA/Þórs, í samtali við Fréttablaðið í gær.
Sigurinn á Fram var fjórði sigur KA/Þórs í Olís-deildinni í vetur en liðið er í 4. sæti með átta stig, þremur stigum á eftir toppliði Vals. En hefur þessi góða byrjun komið leikmönnum KA/Þórs á óvart?
„Í rauninni ekki. Þegar deildin byrjaði sáum við að allir geta unnið alla. Við erum kannski búnar að vinna leiki sem ekki margir bjuggust við að myndum vinna. En við erum með mikið sjálfstraust,“ svaraði Hulda en KA/Þór vann Grill 66 deildina á síðasta tímabili og tryggði sér þar með sæti í deild þeirra bestu.
Varnarleikur KA/Þórs hefur verið sterkur það sem af er tímabili en aðeins Valur hefur fengið á sig færri mörk en nýliðarnir.
„Við spilum mjög góða 6-0 vörn. Þegar við náum að stilla upp er erfitt að brjóta vörnina okkar á bak aftur. Svo höfum við hlaupið virkilega vel til baka,“ sagði Hulda sem játti því að lið KA/Þórs væri í góðu líkamlegu formi, eftir að hafa tekið vel á því á undirbúningstímabilinu.
„Við byrjuðum snemma og höfum æft virkilega vel. Það skilar sér. Við þurftum að æfa svona eftir að hafa komið upp úr Grill 66 deildinni. Það voru alveg viðbrigði. Við höfum lyft meira en vorum samt líka í hörkuformi í fyrra.“
Þegar þriðjungur af Olís-deildinni er búinn er KA/Þór í góðri stöðu og mun nær toppi en botni. Hulda segir að Norðanstúlkur leyfi sér að dreyma um að komast í úrslitakeppnina.
„Okkar markmið var fyrst og fremst að halda okkur uppi. Eins og staðan er núna lítur það vel út. Auðvitað horfir maður á úrslitakeppnina en samkeppnin er mikil. Það er draumur að komast þangað og við ætlum að reyna það,“ sagði Hulda.
Næsti leikur KA/Þórs er gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum í Coca Cola bikarnum á morgun. Norðanstúlkur komust alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar á síðasta tímabili og voru ekki langt frá því að komast í sjálfan úrslitaleikinn. KA/Þór tapaði með tveggja marka mun, 23-21, fyrir Haukum í undanúrslitunum.
„Það var frábært. Okkur langar aftur í Höllina. Það er ekkert leyndarmál,“ sagði Hulda og bætti við að frammistaðan í bikarkeppninni á síðasta tímabili hafi gefið KA/Þór styrk og trú fyrir átökin í Olís-deildinni í vetur.
„Við sáum að við vorum ekkert mikið lakari en Haukar og við erum búnar að vinna þá í vetur. Við vitum alveg hvað við getum,“ sagði Hulda að lokum. |
Þorsteinn Másson, verkefnastjóri hjá Landssambandi Smábátaeigenda, fullyrðir að auðvelt sé að efla strandveiðikerfið og tryggja smábátaeigendum stöðuga atvinnu yfir sumartímann.
„Ef okkur er alvara með að halda lífi í sjávarbyggðunum okkar er besta leiðin að efla og tryggja smábátakerfið," segir Þorsetinn Másson í nýrri grein í tímaritinu Brimfaxa. Hann segir að skilninur stjórnvalda á mikilvægi smábáta virðist stundum takmarkaður, þrátt fyrir að smábátar séu víða máttarstólpar í atvinnulífi á landsbyggðinni.
„Það er auðvelt að bæta við strandveiðipottinn þannig að hægt sé að róa 4 daga í viku yfir sumartímann," segir hann í greininni. „Þetta er í raun alveg sáraeinfalt."
Iðjulausir dögum saman
Halldór Ármannsson, formaður Landssambands Smábátaeigenda, útskýrir að naumt sé skammtað í strandveiðikerfinu. „Oft fá menn bara einhverja sjö til tíu daga í mánuði sem þeir mega róa þar til þeir eru stoppaðir," segir hann. Ástæðan sé sú að takmarkað magn af kvóta skiptist á marga smábáta sem keppast um veiðarnar.
Yfir sumartímann er um 8.600 tonnum af afla úthlutað til strandveiða. Þessu magni er deilt niður á landsfjórðunga og skipti milli sumarmánaða. Raunin er því sú að bátar á hverju svæði bítast um 500-600 tonn af afla í hverjum mánuði. Halldór segir að eðlilega sé aflinn fljótur að klárast, og þá sitji sjómennirnir upp til hópa iðjulausir og bíði eftir næsta mánuði.
Vantar ekki nema 2000 tonn í viðbót
Halldór segir að ekki þyrfti að auka aflaheimildir í kerfinu mikið til þess að tryggja að menn gætu róið út allan mánuðinn. „Það þyrfti ekki nema um 2000 tonn í viðbót yfir allt sumarið. Þetta er lítið brot af heildaraflamarkinu," segir Halldór og nefnir til samanburðar Kleifarbergið, frystitogara útgerðarfélagsins Brim, sem kom með 1900 tonn úr einum 40 daga túr. Hann tekur þó fram að þetta hafi verið metafli hjá einum togara. „En við gætum aukið aflaheimildir í strandveiðikerfinu um svipað magn af fiski og tryggt rúmlega 300 bátum vinnu út allt sumarið. Þá gætu menn róið fjóra daga í viku, fjórar vikur í mánuði, alla mánuði sumarsins," segir Halldór.
Hann segir að þetta yrði einnig til þess að minnka pressu á smábátaeigendum. Þegar þeir sjái fram á að þeir hafi bara örfáa daga í hverjum mánuði til veiða, þá skapist hvati til að sigla jafnvel þó illa viðri.
Halldór hvetur stjórnvöld til að hugleiða þessa leið. „Þetta eru svo byggðavænar aðgerðir á landsbyggðinni, að það skiptir öllu máli á þessum svæðum," segir Halldór. |
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 2. mars sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 25. nóvember 2016, á hendur X, kt. [...], [...], [...] fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 18. janúar 2015 í aftursæti bifreiðarinnar [...] á bifreiðastæði við M við [...] í [...], beitt A ólögmætri nauðung og haft samræði við hana í leggöng gegn vilja hennar, en ákærði tók niður um hana buxurnar fyrir utan bifreiðina, hún girti þær aftur upp um sig og féll í aftursæti bifreiðarinnar þar sem ákærði lagðist ofan á hana, tók á ný niður um hana buxurnar og hafði við hana samræði, þrátt fyrir að hún segði honum ítrekað að hún vildi það ekki. Hlaut A af verknaðinum lítinn skurð við leggangaop.
Er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2015 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Undir aðalmeðferð málsins féll ákæruvaldið frá því að hlotist hefði lítill skurður við leggangaop af verknaðinum.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Jafnframt krefst hann aðallega frávísunar bótakröfu en til vara verulegrar lækkunar. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglu var hún kölluð á neyðarmóttöku til að ræða við stúlku sem væri þar í skoðun vegna gruns um nauðgun. Hitti lögreglan þar fyrir brotaþola, A, og móður hennar, B. Brotaþoli var sýnilega ölvuð en gaf skýra frásögn. Hún kvaðst vera [...]nemi í M en gerandinn, ákærði, væri einnig [...]nemi þar. Hún greindi frá því að árshátíð hefði verið hjá M og bæði hún og ákærði hefðu verið undir áhrifum áfengis. Undir lok kvöldsins hefðu þau farið að tala saman, þau hefðu gengið saman út og farið að bifreið ákærða. Hann hefði opnað afturhurð bifreiðarinnar, fyrir aftan ökumannssætið. Ákærði hefði þar sagt við hana að hann hefði „viljað hana“ síðustu fjóra mánuði. Hún hefði svo dottið inn í aftursætið. Ákærði hefði þá lagst ofan á hana og haft við hana samfarir. Hann hefði svo haft sáðlát og taldi hún að sæði hefði farið í sæti bifreiðarinnar. Brotaþoli taldi að hún hefði ekki áttað sig á hvað væri að gerast því hún hafi verið sljó vegna ölvunar. Hún hefði þó oft sagt nei og meðal annars logið því að hún ætti kærasta. Eftir þetta hefði ákærði staðið upp og farið frá bifreiðinni. Hún hefði þá sagt við hann að hún væri farin, en hún hefði ætlað að ná rútu í bæinn klukkan 2. Atvikið hefði gerst skömmu fyrir það. Hún hefði séð yfirmann sinn við húsið, farið til hans og sagt honum frá þessu. Hún hefði svo farið með rútunni og móðir hennar sótt hana í [...] og farið með hana á neyðarmóttöku.
Ákærði var handtekinn morguninn eftir. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði hann sök en sagðist hafa haft samfarir við brotaþola með hennar samþykki. Hann lýsti því að þau hefðu farið saman út að bifreið hans til þess að ná í húslykla hans. Það hefði verið ákveðið augnaráð á milli þeirra, hann hefði opnað afturhurð bifreiðarinnar og brotaþoli hefði ákveðið að taka niður um sig buxurnar og lagst í aftursætið. Hann hefði sjálfur klætt sig úr buxunum á meðan hún hefði lagst niður. Þau hefðu svo haft samfarir sem hefðu staðið í um tvær mínútur. Hún hefði svo farið án þess að segja neitt við hann.
Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 19. janúar 2015 þar sem hún greindi frá því að hafa verið á árshátíð M. Boðið hefði verið upp á vín. Hún hefði setið á hringborði ásamt öðrum [...]nemum. Undir lok kvöldsins hefði hún farið í símann sinn og þegar hún hefði litið upp hefðu allir verið farnir frá borðinu nema ákærði. Hann hefði bent henni á að koma og spjalla. Í framhaldi hefði hann boðið henni að koma út með sér. Hún hefði talið að hann vildi fara út að reykja og farið með honum. Þau hefðu gengið út á bifreiðastæði. Þar hefði hann farið að tala um að hún vildi hann, hann hefði verið til í hana síðustu fjóra mánuði og væri búinn að vera að fylgjast með henni og fleira slíkt. Allt í einu hefði hann verið búinn að opna hurðina á bifreið sinni. Hann hefði svo girt niður um hana og reynt að kyssa hana á meðan. Hún hefði náð að hífa buxurnar upp aftur og sagt að hún vildi þetta ekki, en hann hefði reynt að sannfæra hana um að hún vildi þetta. Henni hefði brugðið við þetta og hafi misstigið sig og fallið inn í bifreiðina. Hún hefði lent sitjandi en dottið niður, hugsanlega hefði hann ýtt við henni. Hann hefði síðan farið ofan á hana og nauðgað henni. Hann hefði tekið buxurnar hennar niður. Hún hefði reynt að halda fyrir en það hafi ekki gengið. Hún hefði sagt endalaust að hún vildi þetta ekki og hefði meira að segja nefnt nafn á einhverjum sem væri kærastinn hennar. Hún hefði svo lamast og ekkert vitað hvað hún ætti að gera. Þetta hefði tekið um tvær til þrjá mínútur og hefði endað með því að hann hefði fengið sáðlát og farið út úr bifreiðinni eftir það til að pissa. Hún hefði tekið upp símann sinn og ætlað að hringja í móður sína en þá munað að hún átti ekki inneign. Hún hefði mætt C, samstarfsmanni sínum, á bifreiðastæðinu og talað við hann og D, yfirmann sinn. Brotaþoli gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 19. mars 2015 og greindi þá frá atvikum með sambærilegum hætti.
Í skýrslu neyðarmóttöku vegna komu brotaþola aðfaranótt 18. janúar 2015 er greint frá frásögn hennar með sama hætti og hjá lögreglu. Kemur þar fram að nælonsokkabuxur hennar hafi verið rifnar á hægra hné. Hún hafi verið hrufluð á hnénu og þar hafi verið byrjandi bláleitt mar. Þá hafi verið lítill, grunnur skurður eða rifa kl. 6-7 við leggangaop.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði kvaðst hafa verið á árshátíð M að kvöldi 17. janúar 2015. Þau A hefðu setið við sama hringborðið ásamt fleiri samstarfsmönnum þeirra. Boðið hefði verið upp á áfengi og þau hefðu bæði verið vel í því en hann myndi þó vel eftir atvikum. Þau hefðu ekki talað mikið saman um kvöldið en hist við útganginn þegar rútan hefði verið að fara án þess að það hefði verið skipulagt. Hann hefði þurft að sækja húslykla í bifreið sína og hefði boðið henni að ganga þangað með honum. Þau hefðu rætt lítillega saman á leiðinni að bifreiðinni. Hann hefði opnað framdyr bifreiðarinnar en lyklarnir hafi ekki verið þar. Þá hefði hann opnað afturdyrnar og fundið lyklana þar í úlpuvasa. Hann kvað þau hafa verið að ræða saman en mundi ekki um hvað. Hann kvaðst ekki muna til þess að þau hefðu kysst og þau hefðu ekki rætt neitt kynferðislegt. A hefði staðið við bensínlokið. Hún hefði verið í dökkum leggingsbuxum sem hún hefði tekið niður á hæla. Hann hefði tekið þessu sem kynferðislegum skilaboðum og sjálfur tekið niður um sig buxurnar. Á meðan hefði hún sest inn í bifreiðina og svo lagst niður. Hann hefði farið ofan á hana og þau hefðu haft samfarir sem hafi ekki staðið lengi yfir. Hvorugt þeirra hefði sagt neitt á meðan. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt henni að hann væri hrifinn af henni. A hefði ekkert gert eða sagt sem hefði bent til þess að hún væri þessu mótfallin. Hún hefði auðveldlega getað öskrað, en 50 til 100 metrar hafi verið að rútunni og um 100 metrar að hurðinni á staðnum.
Eftir þetta hefði hann farið út úr bifreiðinni til að pissa. A hefði þá horfið en hann ekið bifreið sinni heim. Hann hefði átt kærustu, liðið illa yfir því að hafa haldið fram hjá og viljað komast heim. Hann hefði ætlað að skilja bifreiðina eftir og verið búinn að senda kærustunni skilaboð um að sækja sig þar sem rútan stöðvaði. Tvær rútur hefðu átt að fara í bæinn úr M þetta kvöld. Seinni rútan hefði verið að fara á þessum tíma. Hann hefði ekið beint heim til kærustunnar þessa nótt og sofnað þar. Hann hefði átt símtal við E, samstarfskonu sínu, á leiðinni, en hún hefði hringt til hans og hann hringt til baka. Hún hefði spurt hann af hverju hann hefði verið að keyra. Hún hefði séð hann aka í burtu og haft áhyggjur af honum. Hann hefði beðið hana um að segja ósatt þar sem hann hefði ekki viljað að yfirmaður hans vissi af akstrinum, en hann væri mjög mótfallinn ölvunarakstri. Hann hefði átt að mæta til vinnu klukkan 10 næsta morgun.
Ákærði kvaðst hafa starfað með A í sex til átta mánuði. Hún hefði átt erfitt uppdráttar í vinnunni og hann hefði stutt við hana. Aldrei hefði verið neitt kynferðislegt á milli þeirra og þau hefðu ekki talað um persónulega hluti. Eftir þetta atvik hefði honum verið gert að segja upp starfi sínu í M. Hann hefði hins vegar séð brotaþola í skólanum þar sem þau hefðu verið í námi í sama skóla. Hann hefði reynt að forðast hana til að valda henni ekki óþægindum.
Vitnið A kvaðst hafa farið á árshátíð M umrætt kvöld. Þar hefði verið boðið upp á áfengi og hún hefði fengið sér af því. Hún taldi að hún hefði fengið sér fordrykk og tvo drykki á barnum. Undir lok kvöldsins hefðu allir [...]nemarnir setið við sama hringborð. Hún hefði hringt í móður sína til að spyrja hvort hún mætti fara í bæinn með vinnufélögum sínum. Er hún hefði litið upp úr símanum hefðu allir nema ákærði verið farnir frá borðinu. Hún hefði ekki þekkt ákærða vel og þau hefðu ekkert verið búin að ræða saman um kvöldið. Ákærði hefði beðið hana að ræða við sig og svo spurt hvort hún vildi fara út í „sígó“. Hún hefði verið óörugg þar sem hún hefði verið eini kvenkyns [...]neminn og því verið ánægð með að hann vildi kynnast henni nánar. Hún hefði því fallist á að fara með honum út. Hún hefði verið „pínu full“ eða „tipsy“ og óstöðug á fótunum í hælaskónum. Hún hefði runnið og dottið í hálku fyrir utan.
Það næsta sem hún hefði vitað var að þau hefðu verið komin út að bifreið hans á bifreiðastæði sem hafi verið nokkuð frá húsinu. Hann hefði opnað afturdyr bifreiðarinnar og hvíslað að henni „ég veit að þú vilt þetta“. Hún hefði hváð og hann þá sagt að hann hefði viljað hana síðustu fjóra mánuði og væri búinn að fylgjast með henni. Hún hefði verið hrædd og ekki vitað hvað um hann væri að tala. Hann hefði reynt að kyssa hana þar sem hún hefði staðið við afturdekk bifreiðarinnar og á sama tíma tekið niður um hana buxurnar, en hún hefði verið klædd í kjól og nælonsokkabuxur. Hún hefði fengið mikið sjokk og híft buxurnar aftur upp en þá fallið inn í bifreiðina. Hún hefði komið sitjandi niður en svo misst jafnvægið og fallið alveg niður. Hún hefði svo ekki vitað fyrr en ákærði hefði verið kominn ofan á hana og nauðgað henni um leggöng. Hún hefði ítrekað sagt nei, sagt að hún ætti kærasta og nefnt nafn stráks sem hún hefði verið að hitta. Hún hefði svo frosið en haldið áfram að segja „nei“, „ekki gera þetta“ og „hættu“. Ákærði hefði þó ekki hætt fyrr en hann hefði „fengið það“ í bifreiðinni. Þetta hefði tekið nokkrar mínútur og hann hefði ekki sagt neitt á meðan.
Ákærði hefði svo farið út úr bifreiðinni til að pissa. Hún hefði þá flýtt sér út og mætt C, samstarfsmanni sínum, og sagt honum frá þessu. Þá hefði hún talað við D, en hann hefði rætt við móður hennar í síma. Á meðan hún hefði rætt við D hefði hún séð ákærða aka á brott. Hún hefði rætt við fleiri yfirmenn sína og síðan farið heim með rútunni þar sem F hefði setið hjá henni og huggað hana. Móðir hennar hefði svo sótt hana í [...] og farið með hana á neyðarmóttöku.
Ákærði hefði verið í skólanum á síðustu önn og hún hefði átt mjög erfitt með að sjá hann þar. Hún hefði látið kennarana vita að hún væri hrædd við ákærða en engu að síður hefði hún rekist á hann og orðið mjög skelkuð og grátið. Hún hefði tvisvar sinnum leitað til sálfræðings vegna þessa. Hún hefði hætt í fyrra sinnið þar sem henni hefði fundist verra að tala svona mikið um þetta. Henni hefði liðið mjög illa og farið að skera sig. Hún hefði einu sinni verið stöðvuð af lögreglu á ofsahraða en hún hefði þá ætlað sér að keyra út af því hún hefði ekki getað hugsað sér að lifa svona.
Vitnið B, móðir A, kvaðst hafa hringt í hana rúmlega hálftvö um nóttina til þess að vita hvenær hún færi með rútunni heim þar sem hún hefði ætlað að sækja hana. Hún hefði verið mjög hress og spurt hvort hún mætti færa í bæinn áður en hún kæmi heim. Vitnið hefði viljað að hún gerði það ekki enda hafi verið janúar og kalt í veðri og hún bara verið á kjól og þunnum jakka. A hefði svo hringt í sig grátandi um 20 til 25 mínútum síðar. D, yfirmaður hennar, hefði svo komið í símann og sagt að henni hefði verið nauðgað. Vitnið kvaðst hafa ekið til móts við rútuna og farið með dóttur sína á neyðarmóttöku. Hún hefði verið grátandi og niðurbrotin og lýst því að hún og ákærði hefðu verið tvö eftir við borðið. Hann hefði beðið hana um að tala við sig og svo boðið henni út með sér að reykja. Þá hefði hann þurft að sækja eitthvað í bifreið sína þar sem hann hefði reynt að kyssa hana. Hún hefði ýtt honum frá en hann tekið niður um hana sokkabuxurnar. Hún hefði þá togað þær upp aftur og reynt að segja honum að hún ætti kærasta. Dóttir hennar hefði áður verið kát og brosandi stúlka en eftir þetta hafi hún orðið hrædd, skapstygg og stutt í grátinn. Hún hefði farið að skaða sjálfa sig og í eitt skipti hefði lögreglan tekið hana við akstur á 164 km hraða þar sem hún hafi ætlað sér að „klára þetta“. Hún hefði átt erfitt í haust þar sem ákærði hefði verið í skólanum hennar, en hún hefði náð að ljúka önninni með aðstoð sálfræðings. Hún hefði verið í meðferð bæði hjá sálfræðingi og geðlækni og um tíma verið á þunglyndislyfjum.
Vitnið E greindi frá því að hún hefði verið kærasta ákærða í nokkur ár fram til ársins 2012. Þau hefðu setið við sama borð á árshátíðinni í M ásamt fleirum. Hún hefði tekið eftir því að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis. Hún hefði ekki séð hann fara af árshátíðinni en um klukkan 2, þegar síðasta rútan hafi verið að fara, hefði hún séð bifreið hans ekið burt af malarbifreiðastæði á miklum hraða. Þar sem hún hefði vitað að hann væri ekki í ástandi til að aka hefði hún reynt að hringja í hann. Hann hefði ekki svarað en síðan hringt til baka. Hann hefði beðið hana um að segja ósatt um það að hann hefði farið heim með fyrri rútunni yrði hún spurð. Ákærði hefði átt að mæta til vinnu daginn eftir. Vitnið kvaðst sjálf hafa farið heim með rútunni en brottför hennar hefði tafist nokkuð. Hún hefði séð brotaþola koma inn í rútuna en ekki séð í hvernig ástandi hún hefði verið. Hún hefði ekki mætt til vinnu daginn eftir. Kærasta ákærða hefði hringt í sig daginn eftir árshátíðina og spurt um hana. Vitnið kvaðst í framhaldinu hafa spurst fyrir í vinnunni um hvað hefði gerst og fengið að heyra af atvikinu milli ákærða og brotaþola. Brotaþoli hefði svo einnig sagt henni frá þessu þegar þær hafi tekið rútu heim saman eftir fyrstu vakt þeirra saman eftir atvikið. Líðan brotaþola hefði ekki verið góð en allir í vinnunni hefðu lagt sig fram um að reyna að láta henni líða betur.
Vitnið C kvaðst hafa starfað með bæði ákærða og brotaþola. Hann lýsti því að vinnustaður þeirra hefði verið karlavinnustaður og brotaþoli því í minnihlutahópi þar. Umrætt kvöld hefði hann mætt brotaþola grátandi og í losti eftir árshátíðina. Hún hefði sagt að ákærði hefði nauðgað sér í bifreið. Hann hefði kallað til yfirmann og sagt honum frá þessu. Vitnið kvaðst hafa unnið áfram með brotaþola eftir þetta atvik. Hún hafi breyst eftir þetta en hún hafi meðal annars greint honum frá því að henni liði hræðilega.
Vitnið D var [...] í M. Hann kvaðst hafa verið á árshátíðinni en er henni hefði verið lokið hefði C [...]nemi komið til hans og sagt honum að eitthvað hefði komið upp á hjá brotaþola. Hann hefði hitt brotaþola sem hefði verið niðurbrotin og grátandi og átt erfitt með að tala. Hún hefði sagt að sér hefði verið nauðgað í bifreið. Hann hefði svo rætt við móður hennar í síma og fengið hana til að mæta rútunni í fyrsta stoppi. Rútan hefði verið á starfsmannabifreiðastæði austan við [...]. G [...] hefði einnig verið þarna staddur og hann hefði farið og náð í F, sem hefði verið með brotaþola í rútunni. Vitnið greindi frá því að [...] hefði verið karlavinnustaður. Það væri ekki auðvelt að vera [...]nemi og það gæti verið enn erfiðara fyrir stúlku.
Vitnið G [...] kvaðst hafa unnið með ákærða og brotaþola. D hefði kallað hann til þessa nótt og sagt eitthvað hafa komið upp á hjá brotaþola. Hann hefði sótt hana og farið með hana inn í rútu. Hún hefði verið illa haldin, grátið og verið með ekka. Maskarinn hennar hefði lekið niður á kinnar og sokkabuxur hennar verið rifnar. Hún hefði greint frá því að ákærði hefði nauðgað sér í bifreið hans. Hún hefði sagt nei en hann hefði sagt við hana „þú vilt þetta“. Vitninu hefði fundist rökrétt að kona kæmi að þessu og hann hefði því sótt F. Vitnið kvaðst enn starfa með brotaþola. Hann hefði greint miklar breytingar á henni eftir þetta. Áður hefði hún verið hress og jákvæð en hefði eftir þetta átt erfið tímabil og hefði „misst gleðina“. Henni hefði reynst erfitt að byrja í skólanum og þegar ákæra hefði verið gefin út. Þau hefðu stutt hana til að ljúka náminu en hún hafi mörgum sinnum ætlað að hætta. Hún hafi margoft brotnað niður í vinnunni og þurfi stundum að fara heim. Hún væri að reyna að byggja sig upp en þetta væri ofarlega í huga hennar. Hann taldi ekki að brotaþoli hefði átt undir högg að sækja á vinnustaðnum en að hún væri lítil í sér.
Vitnið F starfaði á [...] M. Hún kvaðst hafa kannast við bæði ákærða og brotaþola í gegnum starfið. Þegar hún hefði verið komin í rútuna eftir árshátíðina hefði G beðið hana um að koma og tala við brotaþola. Brotaþoli hefði verið ein taugahrúga, skolfið og grátið mikið og verið í rifnum sokkabuxum. Hún hefði spurt hana hvað hefði gerst og brotaþoli þá sagt að sér hefði verið nauðgað. Hún hefði lýst því að fara með ákærða út að bifreið hans. Hann hefði orðið ágengur og þröngvað sér upp á hana. Þá hefði hann hvíslað að henni „ég veit þú vilt þetta“ þegar hún hefði sagt „nei“ og „hættu“. Móðir brotaþola hefði mætt rútunni í [...]. Brotaþoli hefði áður verið mjög hress en eftir þetta oft grátið í vinnunni. Atburðurinn hefði haft mikil áhrif á hana og hún hafi oft ætlað að segja upp og gefast upp í skólanum.
Vitnið H kvaðst hafa verið kærasta ákærða í janúar 2015. Hún hefði vaknað við að hann kom heim af árshátíðinni en hefði reiknað með að sækja hann í rútuna. Hún hefði spurt hann hvernig hann hefði komið og hann svarað því til að vinnufélagi hans hefði skutlað honum. Henni hefði ekki virst hann drukkinn. Þau hefðu vaknað um klukkan 10 morguninn eftir og hann hefði farið til vinnu. Þrír lögreglumenn hefðu komið til hennar og sagt henni að ákærði væri sakaður um brot. Ákærði hefði hringt í hana um klukkan 6 og sagt henni að hann hefði verið með stelpu. Hann hefði lýst því að þau hefðu farið út í bifreið hans þar sem hún hefði sjálf farið inn í aftursætið. Hann hefði svo „puttað“ hana en ekkert meira hefði gerst. Vitnið kvaðst hafa haft samband við E, fyrrverandi kærustu ákærða, sem hefði sagt henni að hún hefði séð hann aka á brott, en hún hefði ekki vitað meira. Þau ákærði hefðu slitið sambandi sínu.
Vitnið Júlíana Hamíðsdóttir varðstjóri staðfesti skýrslu sína í málinu. Hún kvaðst hafa hitt brotaþola ásamt móður hennar á neyðarmóttöku. Hún hefði fyrst rætt við hana og síðan rannsóknarlögreglumaðurinn. Hún hefði svo skrifað skýrsluna þegar hún kom aftur á lögreglustöðina. Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir ástandi brotaþola en vísaði um það til skýrslunnar.
Vitnið Ásmundur Þórhallur Tindrason rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa hitt brotaþola og rætt við hana á neyðarmóttöku ásamt Ellen. Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir ástandi hennar. Hún hefði verið ölvuð en ekkert mjög mikið. Hún hefði lýst því að ákærði hafi þröngvað henni til samræðis í aftursæti bifreiðar hans. Hann hefði ekki fylgt málinu eftir.
Vitnið Ólöf Valbrandsdóttir, sérfræðilæknir á neyðarmóttöku, lýsti því að brotaþoli hefði verið í hálfgerðu losti er hún hitti hana en hún hefði greint skýrt frá og virst trúverðug. Hún hefði komið beint af vettvangi og greint frá því að hafa verið á árshátíð. Hún hefði svo farið út með vinnufélaga sem hefði ýtt henni í aftursæti bifreiðar sinnar og haft samfarir við hana gegn hennar vilja. Hann hefði svo ekið í burtu. Brotaþoli hefði drukkið áfengi en ekki verið mjög drukkin. Hún hefði haft grunnan skurð við leggangaop og sviðið við sýnatöku. Um mjög nýlega rispu hefði verið að ræða sem væri líklega innan við sólarhrings gömul. Erfitt væri að segja til um hvernig hún hefði komið til.
Vitnið Inga Sveinbjörg Guðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, ræddi við brotaþola áður en hún hitti lækni og kvaðst muna eftir henni. Hún hefði gefið trúverðuga og nákvæma sögu. Hún hefði komið mjög fljótlega eftir atvikið og verið með grátbólgin augu og í miklu uppnámi. Hún kvaðst ekki muna ölvunarástand hennar.
Vitnið Elva Allansdóttir sálfræðingur kvað brotaþola hafa verið vísað til sín af [...] M. Hún hefði átt við hana 11 viðtöl á tímabilinu frá 20. janúar til 19. ágúst 2015. Hún hefði átt við töluverðan kvíða og depurð að stríða og hefði gjarnan grátið í viðtölunum. Hún hefði upplifað ótta og bjargarleysi við atburðinn. Hún hefði farið í gegnum miklar tilfinningasveiflur, liðið betur en svo verr á ný. Hún hefði reynt að forðast hugsanir um atburðinn og verið í afneitun vegna afleiðinganna. Hún hefði einangrað sig félagslega og misst löngunina til að lifa. Í framhaldi af því hefði hún sent brotaþola til geðlæknis og brotaþoli farið á lyf við þunglyndi og kvíða. Brotaþoli hefði verið greind með áfallastreituröskun og alvarlega yfirstandandi geðlægð. Áfallastreituröskunin væri til komin vegna atviksins í janúar 2015 en [...] eða [...] hefði ekki nein áhrif á greininguna svo sem komið hefði í ljós með mismunagreiningu. Brotaþoli hefði talað um að þekkja sjálfa sig ekki lengur, vita ekki hvað væri að henni eða af hverju henni gæti ekki hætt að líða illa. Það hefði reynst henni erfitt að starfa á vinnustaðnum sem hafi verið stöðug áminning um atburðinn. Hún hefði átt erfitt með sambönd við stráka. Hún hefði byrjað að hitta einhvern en slitið því þar sem hún hefði ekki getað hugsað sér að stunda kynlíf. Hún hefði greint frá því að hafa skorið sig og ekið á 165 km hraða þar sem hún vildi fyrirfara sér. Brotaþoli hefði viljað gera hlé á meðferðinni vegna vanlíðunar. Vitnið hefði talið nauðsynlegt að hún héldi meðferðinni áfram en ekki getað neytt hana til þess.
Vitnið Svanhvít S. Lárusdóttir sálfræðingur kvað brotaþola hafa leitað til sín vegna erfiðleika við að stunda nám sitt. Ákærði hefði verið í skólanum á sama tíma þrátt fyrir að henni hefði verið lofað að svo yrði ekki. Líðan hennar hefði verið slæm og hún hefði verið í miklu uppnámi. Hún hefði glímt við kvíða, depurð, streitu og einbeitingarskort og haft augljós áfallaeinkenni. Hún hefði dregið sig í hlé og lent í árekstrum vegna tilfinningalegs uppnáms. Atvikið í janúar 2015 væri orsök þessara einkenna en ekki væru aðrir þættir sem hefðu haft áhrif á vanlíðan hennar. Sálfræðingurinn kvaðst hafa nýtt hugræna atferlismeðferð og áfallameðferð með brotaþola og hefði náð talsverðum árangri. Brotaþoli hefði náð betra jafnvægi og getað stundað nám sitt. Hún hafi þó alls ekki náð fullum bata.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann kveðst hafa haft samræði við brotaþola í bifreið sinni aðfaranótt 18. janúar 2015, en það hafi verið með hennar samþykki og að hennar frumkvæði. Brotaþoli lýsti því hins vegar að ákærði hefði þvingað sig til samræðis þrátt fyrir að hún hefði ítrekað neitað og sagt honum að hætta.
Ákærða og brotaþola ber saman um að málsatvik þar til að bifreið hans er komið. Þeim ber saman um að ekkert kynferðislegt hafi verið á milli þeirra og ekkert í þá veru hafi verið rætt. Ákærði lýsti því fyrir dóminum að brotaþoli hefði orðalaust við bifreiðina tekið niður um sig buxurnar og lagst inn í aftursæti bifreiðarinnar. Hann hefði litið svo á að í þessu fælust kynferðisleg skilaboð og hefði þá líka tekið niður um sig buxurnar og farið ofan á brotaþola. Brotaþoli lýsir því hins vegar að er að bifreiðinni hafi verið komið hafi ákærði opnað afturdyrnar. Hann hafi reynt að kyssa hana og taka niður sokkabuxurnar hennar og meðal annars sagt við hana að hann hefði viljað hana síðustu mánuði og hann vissi að hún vildi hann. Þá lýsti hún því að hún hefði fallið inn í bifreiðina er hún hafi híft sokkabuxurnar aftur upp og ákærði þá komið ofan á hana. Hún hefði ítrekað greint ákærða að hún vildi þetta ekki en hann ekki látið segjast. Ákærði og brotaþoli bera með svipuðum hætti um að hann hafi að þessu loknu farið út úr bifreiðinni og pissað en brotaþoli hafi farið á brott.
Brotaþoli mætti samstarfsmanni sínum strax eftir atvikið en hann kallaði til fleiri samstarfsmenn þeirra. Vitnin C, D, G og F lýstu því öll að brotaþoli hefði verið í miklu uppnámi og grátið sáran. Hún hefði greint frá því sem hefði gerst með sama hætti og lýst er að framan. Þá lýstu vitnin miklum breytingum sem hafa orðið á brotaþola eftir þetta.
Strax í kjölfarið fór brotaþoli á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota. Læknir og hjúkrunarfræðingur af neyðarmóttökunni greindu frá því að brotaþoli hefði verið í áfalli en greint frá á skýran og trúverðugan hátt. Frásögn hennar þar var í samræmi við lýsinguna að framan. Þá liggja fyrir vottorð tveggja sálfræðinga um andlegt ástand brotaþola eftir atvikið. Sálfræðingarnir lýstu þessu fyrir dóminum og töldu báðir að slæmt ástand brotaþola yrði einungis rakið til þessa atburðar.
Fyrir liggur að ákærði hafði þessa nótt ætlað að taka rútu heim af árshátíðinni. Hann greindi frá því að erindi hans að bifreiðinni hafi verið að sækja húslykla en hann hefði svo ætlað heim með rútunni. Þá ætlaði kærasta hans að sækja hann í rútuna. Við bifreiðina snerist honum hugur og hann ákvað að aka heim þrátt fyrir að hann væri undir áhrifum áfengis, en hann lýsti því sjálfur að hafa verið „vel í því“. Ákærði skýrði þetta með því að honum hefði liðið illa yfir framhjáhaldi sínu og viljað komast heim, auk þess sem hann hefði þurft að mæta til vinnu morguninn eftir og viljað hafa bifreiðina til taks. Vitnið E bar að hún hefði séð ákærða aka á brott á miklum hraða. Þá ræddi hún við hann í síma og reyndi án árangurs að fá hann til að hætta akstrinum. Skýringar ákærða á því hvernig hann ók á brott þessa nótt eru með nokkrum ólíkindablæ en á sama tíma og hann ók á brott var rúta að fara í bæinn sem hann hafði ráðgert að taka.
Bæði ákærði og brotaþoli hafa verið stöðug í framburði sínum um framangreind atvik. Þau eru ein til frásagnar um það sem gerðist í bifreið ákærða umrædda nótt. Framburður brotaþola, um að hún hafi ekki verið samþykk samræðinu, fær hins vegar stuðning í framburði vitna, sem rakinn hefur verið, sem sáu hana strax eftir atburðinn. Þá styðja lýsingar vitna á líðan brotaþola eftir atburðinn frásögn hennar. Það er niðurstaða dómsins að leggja beri trúverðuga frásögn brotaþola, sem studdur er framburði vitna, til grundvallar niðurstöðu í málinu. Er því sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi beitt ólögmætri nauðung og haft samræði við brotaþola gegn hennar vilja með þeim hætti sem lýst er í ákæru, að því undanskildu að fallið hefur verið frá þeim afleiðingum sem þar eru greindar. Ákærði hefur með háttsemi sinn gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði hans var hann [...] dæmdur til 2 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn [...] almennra hegningarlaga. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð framangreinds dóms og verður hann nú tekinn upp og refsing dæmd í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir nauðgunarbrot gagnvart 17 ára gamalli stúlku, en hann var sjálfur 24 ára að aldri þegar brotið var framið. Við ákvörðun refsingar verður litið til ákvæða 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og a-liðar 195. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur. Brot hans var til þess fallið að valda brotaþola mikilli andlegri vanlíðan. Þá verður ráðið af vottorðum og framburði sálfræðinga fyrir dóminn að hún hafi glímt við margvíslega erfiðleika og þjáðst af áfallastreituröskun. Er þetta jafnframt stutt af framburði móður brotaþola og vinnufélaga sem lýstu þeim breytingum sem orðið hafa á henni eftir atburðinn. Með hliðsjón af framangreindu verður fallist á miskabótakröfu hennar eins hún er fram sett.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmars Karlsbergssonar hrl., 1.412.360 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Silju Styrbjarnardóttur hdl., 779.960 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærði 379.912 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Júlíana Úlfsdóttir saksóknari.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ellen Eðvardardóttir og Albert Sveinn Jeremíasson og Kristín Hallmarsdóttir settur héraðsdómari.
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákærði greiði A 2.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar til 5. apríl 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Daða Elínórssonar hrl., 1.412.360 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Heklu Írisar Haraldsdóttur hdl., 779.960 krónur, og 379.912 krónur í annan sakarkostnað.
Magdalena Ingigeirsdóttir
Ari Dagur Kornelíusson
Dagmar Hilaríusdóttir |
Björn Einarsson, formaður Víkings, ætlar að gefa kost á sér til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Þessu er haldið fram á fréttavefnum Vísi.
Það kom mörgum á óvart í gær þegar Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ til tíu ára, sagðist ekki myndu bjóða sig fram til áframhaldandi setu á ársþingi sambandsins í febrúar.
Guðni Bergsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði, hefur þegar tilkynnt framboð og Björn hafði fram til þessa legið undir feldi. Nafn Guðrúnar Ingu Sívertsen, varaformanns KSÍ, hefur einnig verið nefnt í þessu samhengi og sagðist hún í samtali við fotbolta.net ekki útiloka neitt í þeim efnum.
Það virðist því stefna í spennandi formannskjör í Vestmannaeyjum í febrúar.
Björn sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Björn Einarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Víkings, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi KSÍ 11. febrúar. Björn hefur mikla og víðtæka reynslu af stjórnarstörfum í íþrótta- og knattspyrnuhreyfingunni. Hann var formaður knattspyrnudeildar Víkings 2007-2013 og formaður aðalstjórnar Víkings frá 2013 auk þess sem hann hefur setið í stjórn Íslensks toppfótbolta (ÍTF). Björn hefur auk þess 20 ára reynslu af að stýra fyrirtækjum bæði hér á landi sem og erlendis. Hann hefur verið framkvæmdastjóri TVG-Zimsen frá árinu 2006. Björn mun ekki þiggja laun sem formaður KSÍ.
„Ég hef fengið mikla hvatningu úr knattspyrnuhreyfingunni undanfarnar vikur til að bjóða mig fram til formanns KSÍ. Þetta er ákvörðun sem ég tek að mjög vel yfirlögðu ráði. Margt gott hefur áunnist innan sambandsins síðastliðinn áratug en engu að síður er skýr krafa um breytta og öflugri stjórnsýslu innan KSÍ sem mikilvægt er að hlusta á. Ég tel mig koma með mikla reynslu og þekkingu úr knattspyrnuhreyfingunni og atvinnulífinu til að vinna að þessum breytingum með jákvæðum hætti og samvinnu allra aðila. Mjög mikilvægt er að styrkja ímynd KSÍ gagnvart samfélaginu, aðildarfélögunum og samstarfsaðilum, innlendum sem erlendum. Það er mikill mannauður og reynsla innan stjórnar og á skrifstofu KSÍ sem nýta þarf vel og vandlega. Efla þarf sjálfstæði skrifstofu KSÍ og styrkja hana enn betur til að takast á við daglegan rekstur. Ennfremur er mikilvægt í mínum huga að tryggja þarf skýrt jafnvægi milli stjórnar KSÍ og skrifstofu sambandsins. Það er mikil og góð vinna unnin í grasrótinni og á meðal aðildarfélaga KSÍ. Tryggja þarf öflugri brú á milli KSÍ og aðildarfélaganna sem hafa margar og ólíkar þarfir. Ég mun beita mér fyrir því að að efla umgjörð og vinnuramma landshlutafulltrúa sambandsins og styrkja þannig tengingu landsbyggðarinnar við KSÍ. Ég mun leggja mig allan fram og vinna af krafti og heilindum fyrir öll aðildarfélög KSÍ og íslenska knattspyrnu. Tækifærin eru sannarlega til staðar í þessum frábæra meðbyr sem íslensku landsliðin, bæði kvenna og karla, hafa búið til fyrir okkur,“ segir Björn. |
Hlutfall þeirra sem segjast hafa séð falsfréttir eða efast um upplýsingar á netinu er mun hærra á Íslandi en í Noregi. Átta af hverjum tíu Íslendinga sögðust hafa efast um upplýsingar og sjö af hverjum tíu hafa komist í tæri við falsfréttir með einhverjum hætti.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Hún byggir á niðurstöðum spurningakönnunar Maskínu sem gerð var í febrúar og mars síðastliðnum.
Í Noregi voru 13,4% færri sem efuðust um sannleiksgildi upplýsinga heldur en á Íslandi og 25,7% færri sem höfðu rekist á eða fengið sendar falsfréttir. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd, segir ýmsar ástæður geta verið á þeim mun sem snýr að falsfréttum.
„Mögulega er miðlalæsi meira hér á landi og því erum við frekar að koma auga á falsfréttir. Þá gæti líka verið að skilningur á falsfréttum hér sé annar en í Noregi og því séum við til dæmis að flokka fréttir sem við erum ósammála sem ósannar.“
Skúli segir mögulegt að hugtök skorti á íslensku til aðgreiningar milli falsfrétta sem dreift er vísvitandi, þeim sem dreift er án ásetnings og þegar réttum upplýsingum sé dreift í annarlegum tilgangi.
Langflestir svarenda sögðust hafa rekist á upplýsingaóreiðu eða falsfréttir um kórónuveirufaraldurinn á Facebook, eða 83,1% og tæp 40% á öðrum samfélagsmiðlum.
Þátttakendur kváðust hafa í 22,3% tilvika rekist á slíkar fréttir í ritstýrðum dagblöðum og 4,3% í tölvupósti. Ríflega helmingur kannaði í kjölfarið aðrar heimildir en tæp 24% aðhöfðust ekkert.
Aldur, tekjur og menntun hafa áhrif varðandi viðbrögð við falsfréttum og sannleiksgildi upplýsinga. Skúli segir skýrsluna mikilvæga við greiningu á miðlalæsi.
„Við sjáum í gegnum alla skýrsluna að yngstu þátttakendurnir, 15 til 17 ára og þeir elstu 60 ára og eldri), eiga í mestum vandræðum með að að koma auga á og bregðast við falsfréttum og upplýsingaóreiðu.“ |
miðvikudagur, júlí 13, 2005
Ég fór með Don Andra á Batman begins í gær og sú lífreynsla var ekki peningana virði. Í fyrsta lagi þá var oft á tíðum suð ekki ósvipað því og þegar maður setti rykuga vínilplötu á fóninn í gamla daga og það var að gera mig mega pirraðan. Það gjörsamlega spillti myndinni fyrir mér og ég sé eftir að hafa ekki heimtað endurgreiðslu því ég gat engan veginn sökkt mér inn í myndina eins og maður gerir oft þannig að maður hálfpartinn verður hluti af myndinni og gleymir því að maður situr í bíósal og er að horfa á myndina. Síðan voru atriði í myndinni sem gátu bara á engann hátt staðist rök og þá er ég samt ekki að meina atriði sem mega brjóta lögmál eðlisfræðinnar í þessari gerð kvikmynda. Án þess að gefa upp plottið í lokin þá vil ég benda fólki á að pæla í því eftir að hafa séð myndina að menn eru a.m.k. 65% vatn og rakinn í loftinu er talsverður og kemur í veg fyrir að öndunarfærin okkar ofþorni. Að auki eru allar lífverður að talsverðum hluta vatn og því er endirinn jafnfáránlegur og endirinn á myndinni Signs. Ég er virkilega ósáttur við þessa mynd. Andri var sammála mér um mörg þessara atriða en veit ekki hvort hann sé jafnósáttur og ég en þrátt fyrir þessi atriði þá myndi ég flokka þessa mynd sem ágætis afþreyingu. Samtölin í myndinni voru vel skrifuð og skemmtileg auk þess sem tæknibrellurnar voru mjög góðar. Þetta er divx-mynd en ekki bíó-mynd. |
Hátt í eitthundrað íslenskar fjölskyldur bíða eftir barni til ættleiðingar og hefur biðlistinn aldrei verið svo langur. Nýjar reglur stytta hins vegar biðtímann verulega fyrir fólk sem bíður eftir því að ættleiða annað barn.
Flest börn sem hafa verið ættleidd hingað til lands undanfarin ár hafa verið frá Kína, Kólumbíu og Indlandi. Ættleiðingarreglur víða um heim hafa hins vegar verið hertar og færri börn ættleidd en áður.
Eingöngu 14 börn voru ættleidd á þessu ári. Biðlistar eftir barni til ættleiðingar hafa aldrei verið lengri. 99 fjölskyldur bíða eftir að ættleiða barn hér á landi og þriðjungur þeirra býður eftir öðru barni. Kristjana Hinriksdóttir og Atli Freyr Kjartansson ættleiddu 15 mánaða stúlku frá Kólumbíu í júní á þessu ári. Þau biðu í rúm fjögur ár eftir henni og segja biðina erfiða.
„Hún hefur áhrif á allt í lífinu. Lífið er bara í bið á meðan að þú ert að bíða eftir barni," segir Kristjana.
Áður máttu kjörforeldrar ekki sækja um annað barn til ættleiðingar fyrr en ári eftir heimkomu fyrsta barnsins. Nú hefur því verið breytt og má hefja umsóknarferlið sex mánuðum fyrr. Þau segja verulega muna um það en stytta mætti tímann enn frekar.
„Þessir sex mánuðir sem á að stytta þennan tíma um getur munað að lágmarki ár í bið úti," segir Atli. „En þegar hún er 3 til 4 ár er manni mjög mikilvægt að geta hafist strax handa," segir Kristjana.
Reglur í íslensku stjórnsýslunni séu hins vegar hamlandi og biðtími og reglur í viðkomandi ættleiðingarlöndum ættu að gilda í staðinn. Þau eru staðráðin í að ættleiða annað barn og hafa þegar sent frá sér umsókn .
„Þetta er svo stórkostleg lífreynsla og stórkostlegt upplifun að við getum ekki hugsað okkur neitt en að fara aftur til Kólumbíu og helst fyrir 2014," segir Kristjana. |
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur ákveðið að skipa Höllu Bergþóru Björnsdóttur í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. maí næstkomandi.
Hún var valin úr hópi þriggja umsækjenda til að gegna starfinu. Halla Bergþóra var metin hæfust umsækjenda af hæfnisnefnd að því er segir í tilkynning á vef stjórnarráðsins.
Halla Bergþóra er lögfræðingur að mennt og hefur gegnt embætti lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra frá árinu 2015. Þar áður gegndi hún embætti sýslumanns á Akranesi frá árinu 2009.
Hún tekur við starfi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu af Sigríði Björk Guðjónsdóttur sem var nýlega skipuð í embætti ríkislögreglustjóra.
Alls sóttu fjórir um embættið, en einn þeirra, Jón H. B. Snorrason, dró umsókn sína til baka. Að því er fram kemur í frétt á vef Ríkisútvarpsins sendi Jón erindi til dómsmálaráðuneytisins þar sem hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að draga uppsögn sína til baka.
Í erindinu gerði hann alvarlegar athugasemdir við störf hæfnisnefndar og gerði hann að sérstöku umtalsefni mat nefndarinnar á Höllu Bergþóru.
Að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins sagði Jón H. B. í erindi sínu að mat nefndarinnar á Höllu Bergþóru með allt öðru móti um sömu atriði núna en voru vegna umsóknar hennar um starf ríkislögreglustjóra nýlega.
Sagði Jón H. B. málsmeðferð nefndarinnar ekki geta verið forsvaranlegan grunn fyrir stjórnvaldsákvörðun ráðherra. |
Forseti (GSv) :
Áður en gengið er til umræðunnar, skal þetta tekið fram: Það er að vísu svo, að frv. til fjárlaga fyrir árið 1944 hefur áður verið lagt fyrir þetta þing, sem sé í öndverðri setu þess á síðast liðnu vori, af hæstv. fjármálaráðherra. Ber hann nú á ný annað fjárlagafrv. fram, sem hér liggur fyrir, og mun ætlazt til, að hið fyrra falli þar með úr sögunni, þótt komið sé það til hv. fjvn. Hefur þeim, sem að málinu standa, þótt þetta hentara, að breyttum ástæðum, heldur en að bera fram veigamiklar brtt. á þessu stigi. Er og efni málsins hið sama, hvor aðferðin sem er viðhöfð. En að forminu er þetta óvenjulegt, og mætti um það deila, hvort þingsköp ætluðust til þessarar aðferðar, en þau banna hana heldur ekki, og verður því látið við það lenda.
Í annan stað segja þingsköp í 51. gr., að útvarpa skuli framsöguræðu fjármálaráðherra um frv. til fjárlaga o. s. frv., sem einnig fór fram í hið fyrra sinnið. Þótt vafasamt sé, hvort skylda þessi nær nema til eins skiptis um fjárlög fyrir sama ár, hefur eigi þótt viðeigandi að svo vöxnu að víkja frá þessari reglu nú, með því líka, að eigi hafa þingflokkarnir komið sér saman um annað og einn flokkur a. m. k. sama sem óskað slíkra umræðna, sem þá eigi yrði frá skákað samkv. 55. og 56. gr. þingskapa. Fer því útvarpsumræðan fram.
Fyrstur talar hæstv. fjmrh., Björn Ólafsson, um það bil hálfa klukkustund; þá hv. 6. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, f.h. Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins, í hálftíma, þá hv. 2. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, f.h. Framsóknarflokksins, í hálftíma; þá hv. þm. Ísaf. , Finnur Jónsson, f.h. Alþýðuflokksins, í hálftíma; þá hv. 3. þm. Reykv., Jakob Möller, f.h. Sjálfstæðisflokksins, í hálftíma. Að lokum hefur hæstv. fjmrh. stundarfjórðung til andsvara.
Fjmrh. (Björn Ólafsson) :
Herra forseti. Við umr. þær, er fóru fram í vor um frv. til fjárlaga 1944, gat ég þess, að frv. það, sem þá var lagt fram, var lagt fyrir Alþingi eingöngu til þess að fullnægja bókstaf stjórnarskrárinnar. En hún mælir svo fyrir, að fjárlagafrumvarp skuli lagt fram í byrjun hvers reglulegs þings. Í vetur var ógerlegt að leggja fram nýtt frv., sem nokkra stoð hefði í veruleikanum, og var því nær eingöngu um að ræða endurprentun á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár.
Nú er lagt fram nýtt frv., sem byggist á ýtarlegum athugunum á útgjöldum ríkisins og áætlun um tekjurnar í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur á þessu ári. Fyrra frumvarpið hefur því verið tekið aftur. En við þetta skapast það fátíða fyrirbrigði, að tvisvar þarf að útvarpa fyrstu umræðu um fjárlög sama árs.
Við umræðuna í vor gerði ég grein fyrir afkomu liðins árs, eins og venjulegt er. Ég mun því ekki endurtaka neitt af því að þessu sinni, en ég mun hins vegar gera grein fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir, greina að nokkru frá afkomu ríkissjóðs fyrra helming þessa árs og dýrtíðarráðstöfunum eins og þær verða til 15. september.
Hver sá, sem á að fjalla um og semja fjárlög, hlýtur að reka sig fljótlega á þá staðreynd, að miklir örðugleikar eru á því að áætla tekjur og gjöld ríkisins með nokkru öryggi heilu ári fyrir fram, ekki sízt þegar flest er á hverfanda hveli, eins og nú er. Fjárlög eiga að leggjast fyrir Alþingi 15. febrúar ár hvert, fyrir fjárhagsárið, sem hefst 320 dögum síðar. Eins og nú er högum háttað, má telja þetta ógerlegt, ef fjárlögin eiga ekki að verða því nær hrein endurprentun af fjárlögum undangengins árs. Ég tel þess vegna, að það ætti að athugast gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt og skynsamlegt að breyta fjárhagsári ríkisins þannig, að það sé frá 1. júlí til 30. júní, í stað þess að nú er fylgt almanaksárinu. Auk þess sem Alþingi gæti þá gengið frá samningu fjárlaga aðeins 2–3 mánuðum áður en fjárhagsárið hefst, mundi þetta hafa í för með sér, að hvert reglulegt þing ætti að geta fengið prentaðan og endurskoðaðan ríkisreikning næsta árs á undan, eða 7½ mánuði eftir að árinu lýkur, í stað þess að nú fær þingið reikningana 1–2 árum síðar. - Ég mun ræða þetta mál nánar síðar.
Eins og tekið er fram í grg. frv., hafa verið gerðar á því nokkrar formbreytingar, sem ég tel, að nauðsynlegar séu. Er hér sérstaklega um að ræða færslu ýmissa gjaldaliða frv. milli greina, þar sem telja má, að liðirnir eigi betur heima. Enn fremur hafa liðir innan hverrar greinar verið flokkaðir nokkuð á annan veg en áður, til þess að færa þá til betra efnislegs samræmis. Vænti ég, að háttv. þingmönnum finnist, að með breyt. þessum sé heldur stefnt til bóta.
Þá kem ég að tekjubálki frumvarpsins. Tekju- og eignarskattur, ásamt stríðsgróðaskatti, eru áætlaðir 25 millj. króna. Er það 2 millj. hærra en í fjárlögum þessa árs. Samkv. bráðabirgðaathugun á tekjum ríkisins á þessu ári af tekju-, eignar- og stríðsgróðaskatti er líklegt, að þær verði samtals um 29 millj. kr. Er það 6 millj. umfram áætlun.
Þrátt fyrir þessa hagstæðu útkomu og þrátt fyrir það, að mjög sæmilega lítur út með afkomu í landinu á þessu ári, hef ég talið óverjandi að áætla skattatekjurnar hærra en 25 millj. á næsta ári. Þessar tölur geta aldrei orðið annað en ágizkun, og jafnan má búast við, að komið geti skyndilegar breytingar, sem kollvarpa öllum slíkum áætlunum.
Tekjur af vörumagnstolli eru áætlaðar 5 millj. kr. Er það 1 millj. kr. lægra en í fjárlögum þessa árs.
Verðtollur er áætlaður 23 millj., og er það 1½ millj. hærra en á þessu ári. Þegar saman eru lagðir þessir tollar, má segja, að áætlunin sé því nær hin sama bæði árin.
Tolltekjurnar til júníloka þessa árs, eða fyrir fyrra helming ársins, hafa verið þannig, að það svarar til þess, að tolltekjurnar væru um 42 millj. yfir árið með sama framhaldi, á móti áætlun í fjárlögum 27½ millj.
Þótt útlit sé fyrir, að þessir tollar fari talsvert fram úr áætlun á þessu ári, þá teldi ég það mjög óvarlega farið, ef tolltekjur næsta árs væru áætlaðar í samræmi við það.
Ástæða er til að ætla, að innflutningur þessa árs verði ekki minni að krónutali en í fyrra. En undir innflutningnum er það að sjálfsögðu komið, hversu miklar tolltekjurnar verða. Ef ófriðurinn yrði til lykta leiddur á miðju næsta ári, mundi innflutningurinn að krónutali minnka talsvert mikið. Byggist það fyrst og fremst á því, að farmgjöld og tryggingar mundu lækka mikið, en eins og kunnugt er, er verðtollur tekinn af þessum gjöldum. Ýmsar aðrar ástæður geta og valdið samdrætti í innflutningnum, og því væru það lítil búhyggindi að styðjast á fremsta hlunn í þessu efni, með því að áætla tekjurnar hærri og binda sér síðan bagga með auknum útgjöldum í samræmi við það.
Um aðra tekjuliði er það að segja, að þeir eru mjög svipaðir því, sem er í núverandi fjárlögum, enda hefur reynslan sýnt, að greiddar tekjur fara mjög nærri áætluninni.
Tekjur af ríkisstofnunum eru á næsta ári áætlaðar 7.194.622 kr., og er það um 700 þús. kr. lægra en á þessu ári. Stafar það af því, að rekstrarhagnaður landssímans er áætlaður minni en áður. Munar það um 850 þús. kr. Og þegar þess er gætt, að eignabreytingar landssímans á næsta ári nema 1430 þús. kr., þá verður ríkissjóður að leggja þessari stofnun til um eina milljón króna til ráðstafana, sem telja mætti, að landssíminn ætti með venjulegum hætti að geta staðið straum af. Ríkissjóður getur að mínu áliti ekki haldið áfram slíku framlagi til þessarar stofnunar, sem að réttu lagi ætti að geta gefið ríkinu álitlegar tekjur, auk þess sem hún greiddi fyrir eigin framkvæmdir, svo fremi að þær séu ekki mjög óvenjulegar.
Ég kem þá að gjaldabálki frumvarpsins. Gjöldin eru áætluð samtals 67174 þús. kr., og eru þá meðtalin útgjöld á sjóðsyfirliti. Þetta er því hæsta fjárlagafrumvarp, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Heildarútgjöldin í síðustu fjárlögum nema 65 millj. 406 þús. kr.
Þetta eru háar tölur, og mönnum kemur að sjálfsögðu fyrst til hugar, hvort öll þessi útgjöld séu nauðsynleg. Ekki er þess að dyljast, að sumt mætti nema burtu, en meginhluti útgjaldanna er til stofnana, fyrirtækja og framkvæmda, sem ríkið verður að standa straum af, þau eru annaðhvort sem þættir, er ekki verður án verið í framkvæmdastjórn þjóðfélagsins, eða sem liðir bundnir við fjárlögin með sérstakri löggjöf. Þessi útgjöld eru tekin samkv. áætlunum viðkomandi stofnana og fyrirtækja. Slíkar áætlanir er venjulega erfitt fyrir fjármálaráðuneytið að gagnrýna, ef þær fara ekki með óvenjulegum hætti fram úr fyrri áætlunum, sem haldizt hafa með nokkrum breytingum frá ári til árs. Mér er ljóst, að margt mætti betur fara í rekstri ríkisins yfirleitt, en því verður ekki kippt í lag, svo að gagni komi, nema með gagngerðri athugun á hverri stofnun og hverju fyrirtæki ríkisins. Slíka athugun þyrfti að gera á öllum rekstri; hvort sem um er að ræða vinnuaðferðir og starfslið í ráðuneytunum eða skipaútgerð, járnsmíði og verzlunarrekstur ríkisins. Um þetta hefur, að ég hygg, verið rætt hér á Alþingi ekki alls fyrir löngu, en slík athugun hefur ekki komizt í framkvæmd. Ríkisstjórnin hefur þetta mál til athugunar.
En til þess að gefa hv. þingmönnum svo skýra hugmynd um rekstur ríkisins sem hægt er, eins og sakir standa, verður útbýtt næstu daga fjölrituðum fylgiskjölum með fjárlagafrumvarpinu, og sýna þau starfsmannaskrár og sundurliðaðan kostnað hinna ýmsu stofnana, fyrirtækja og framkvæmda.
Eins og ég sagði áðan, eru flestir liðir fjárlaganna lítt hreyfanlegir, og miklum sparnaði verður ekki við komið nema með gagngerðum athugunum og harðhentum ráðstöfunum. Á vorn mælikvarða er ríkisbúskapurinn orðinn mikið bákn, og þess verður vel að gæta, að þjóðinni sé ekki reistur hurðarásinn um öxl. Þegar auðvelt er að afla fjár, eins og nú er, er hætta á því, að ekki sé gætt sparsemi svo sem skyldi og þess vegna vaxi kostnaður við ýmsar greinir ríkisstarfrækslunnar. Síðar, þegar tekjurnar þverra, getur reynzt erfitt að færa gjöldin til baka.
Samanburður á ýmsum greinum gjaldanna nú við síðustu fjárlög er ekki auðveldur, vegna þess að í frumv. eru aukauppbætur og verðlagsuppbætur færðar við hvern þann lið, sem slíkar uppbætur tekur, en í fjárlögum þessa árs eru þessar uppbætur færðar í einu lagi á 19. gr. Breytingar eru þó ekki miklar, en ég skal gera nokkra grein fyrir þeim helztu.
Í 12. gr. hefur liðurinn til viðbótar húsnæði við ríkisspítalana verið hækkaður talsvert, eða upp í 800 þús. kr. Þörfin fyrir viðbótarhúsnæði fyrir þessa spítala er orðin mjög brýn, og verður að leitast við að bæta úr henni á þann hátt, sem heppilegast þykir. Enn þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um, hvernig fé þessu verði bezt varið til að bæta úr þörfinni, en gerð verður grein fyrir því síðar.
Í þessu sambandi þykir mér rétt að vekja athygli á því, að rekstrarhalli ríkisspítalanna fjögurra, landsspítalans, Klepps, Vífilsstaða og Kristness, er áætlaður að nema nálega tveimur milljónum króna á næsta ári. Þetta er mikill halli, og virðist mér sjálfsagt, að tekið sé til athugunar, hvort gerlegt þykir að gera á því nokkrar breytingar.
Að því er 13. gr. snertir mun því verða haldið fram af sumum, að lækkað sé framlag til verklegra framkvæmda, sökum þess að frumvarpið gerir ráð fyrir 1800 þús. kr. til nýrra þjóðvega í stað 3600 þús. kr. í núverandi fjárlögum. Og auk þess mun verða bent á, að til brúargerða er ætlað 250 þús. kr. í stað 1146 þús. kr.
Því var haldið fram á þinginu í vetur af sumum þingmönnum, að nauðsynlegt væri, að ríkið héldi uppi miklum verklegum framkvæmdum með byggingu brúa og nýrra akvega. Ég vakti hins vegar athygli á, að líklegt væri, að mikil atvinna yrði í landinu og vafasamt, hvort hægt yrði að fullnægja eftirspurn um vinnuafl. Miklar verklegar framkvæmdir af hálfu ríkisins væru því ekki nauðsynlegar til að halda uppi atvinnu, en gætu á hinn bóginn orðið til þess að keppa við atvinnuvegina um vinnuaflið.
Þetta hefur reynzt svo. Nokkrar helztu fjárveitingar til nýrra akvega verða ekki notaðar á þessu ári, vegna erfiðleika á að fá nauðsynlegan vinnukraft. Efnisskortur hefur og háð brúarsmíði. En samkv. því loforði, sem ég gaf á Alþingi í vetur við umræðu fjárlaganna, hefur verið lagt fyrir vegamálastjóra að leggja til hliðar það fé, sem veitt hefur verið til nýrra akvega og brúa, en ekki hefur verið notað á þessu ári, til þess að hægt sé til þess að taka síðar til þeirra framkvæmda, sem fjárlögin gera ráð fyrir.
Með þetta fyrir augum hefur verið lækkað framlagið til nýrra akvega. En hins vegar hefur þótt nauðsyn bera til að hækka viðhald og endurbætur vega um 1200 þús. kr. Þegar um verklegar framkvæmdir er talað, þá er að vísu ekki mikill munur á því, hvort um nýbyggingu eða viðhald er að ræða.
Þegar rætt er um lagningu nýrra akvega, verða menn að minnast þess; að hver nýr vegarspotti heimtar viðhald og endurbætur, þegar hann hefur verið lagður. Þótt landsmenn hafi enn mikla þörf fyrir nýja akvegi á ýmsum slóðum, verður sú forsjá að fylgja þeim framkvæmdum, að ríkissjóður fái staðið undir viðhaldinu, því að annars er vegagerðin unnin fyrir gíg.
Nú er akvegakerfi landsins um 5000 kílómetrar, enda hefur það vaxið óðfluga síðustu árin. Viðhaldið hefur og farið vaxandi ár frá ári, og á þessu ári er talið, að það muni nema um 9 milljónum króna. Af því mun ríkissjóður fá endurgreitt um helminginn. Er af þessu ljóst, að nokkur ástæða er til að stinga við fótum og gera sér grein fyrir, hvert stefnir í þessum málum og hvort vér fáum risið undir viðhaldi vegakerfisins, ef framhaldið á vegalagningunni verður með þeim hætti, sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Hins vegar mætti hugsa sér, að með þessi mál yrði farið með nokkuð öðrum hætti eftir stríð og þau tekin upp á nýjum grundvelli með enn meiri stórhug. - Um það eru engar deilur, að vegi ber að leggja um landið, svo að akfært verði um allar sveitir og samgöngur greiðar milli allra landshluta. Búast má við, að sú krafa verði enn háværari í framtíðinni en hún hefur verið til þessa. Og það verður heimtað, að vegirnir séu góðir og vegagerðin varanleg. Það verður því að líkindum eitt af stórmálum næstu ára að koma vegakerfi landsins í það horf, sem nú tíðkast í öðrum menningarlöndum. En þangað til slíkt verður tekið til umræðu, verðum vér að líta á málið eins og það horfir við nú.
Í frv. er tekin aðeins lítil fjárhæð til hafnargerða og ekkert til bryggjugerða og lendingarbóta. Engar tillögur hafa ráðuneytinu borizt í þessu efni, og því hafa fjárveitingar í því skyni ekki verið teknar í frv.
Í 16. gr. hefur verið tekinn upp nýr liður, 2 millj. króna framlag til áburðarverksmiðju. Ríkisstjórnin telur byggingu áburðarverksmiðju svo mikið nauðsynjamál, að hún taldi rétt að flýta fyrir málinu á þennan hátt. Er gert ráð fyrir, að þetta fé verði lagt til hliðar og geymt á sérstakan hátt, þar til heppilegt þykir að hefjast handa um bygginguna. Um ráðstöfun á þessu fé og því, sem síðar kann að verða lagt fram, verður að sjálfsögðu ákveðið með sérstökum lögum.
Í 17. gr. hefur verið tekinn upp sérstakur liður, sem er 100 þús. kr. fjárveiting til kvenfélagasambands Íslands. Jafnframt eru niður felldar nokkrar smáfjárhæðir til ýmissa kvenfélaga á landinu. Ríkisstj. hefur verið skýrt svo frá, að flest eða öll kvenfélög landsins hafi myndað með sér samband það, er ég nefndi, í því skyni sérstaklega að beita sér fyrir húsmæðrafræðslu, heimilisiðnaði og garðyrkju. Starfsemi kvenfélaga víðsvegar um land hefur verið mjög í brotum vegna fjárskorts og samtakaleysis. Nú virðist vera bætt úr því síðarnefnda með kvenfélagasambandi Íslands, en hætt er við, að starfsemin verði framvegis í molum, nema ríkið rétti því hjálparhönd fjárhagslega. Talið er, að þessi fjárveiting sé nægileg til þess, að kvenfélögin geti hafið starfsemi með skipulegum hætti um land allt, og tel ég þessu fé vel varið, ef það getur orðið til þess, að íslenzkar konur fái vakið öfluga hreyfingu og víðtæka starfsemi til eflingar húsmæðrafræðslu, heimilisiðnaði og garðyrkju í landinu.
Ég hef þá nefnt þær breytingar, sem nokkru máli skipta í gjaldabálki frumvarpsins. En ég vil gjarnan minnast á 22. gr. frv., sem felur í sér heimild handa ríkisstj. til ýmissa ráðstafana. Í þessa grein hafa oft verið settar heimildir um stórar fjárgreiðslur, sem líklegt var eða vitanlegt, að notaðar mundu verða á fjárhagsárinu. Þegar svo stendur á, er réttara, að slíkar fjárhæðir komi í gjaldabálk fjárl. , því að annars sýna fjárlögin í rauninni villandi niðurstöðu. Ég hef því látið stytta þessa grein eftir því, sem tök voru á. Enn fremur hafa verið numdar úr henni heimildir til ýmissa stofnana um eftirlaun. Þessar sömu heimildir hafa staðið ár eftir ár í fjárlögum, en það virðist eðlilegast, að slíkar heimildir séu gefnar í eitt skipti fyrir öll með sérstökum lögum. Hefur þessi kostur verið valinn, og sérstakt frumvarp hefur verið lagt fram um þetta efni.
Ég skal þá gera stutta grein fyrir afkomu fyrri hluta þessa árs samkv. því bráðabirgðayfirliti, sem fyrir liggur.
Samkv. bráðabirgðaathugun er líklegt, að skattar verði á þessu ári sem hér segir:
1.
Tekju- og eignarskattur
22
millj.
kr.
2.
Stríðsgróðaskattur (hluti ríkissj.)
7
-
-
3.
Verðlækkunarskattur
6,7
-
-
Áætlun tekju-, eignar- og stríðsgróðaskatts á fjárlögum þessa árs er, eins og áður er sagt, 23 millj. kr. Má því gera ráð fyrir, að skattarnir fari um 6 millj. kr. fram úr áætlun. Verðlækkunarskattinum var ráðstafað með sérstökum lögum, eins og kunnugt er, en búast má við, að á skorti allt að 1½ millj., að hann hrökkvi fyrir þeim greiðslum, sem dýrtíðarlögin gera ráð fyrir. En í þeim er ákveðið að verja skattinum til verðlækkunar á afurðum og til alþýðutrygginga (3 millj.).
Tollar hafa til þessa farið allmikið fram úr áætlun. Til 1. júlí hafa aðflutningstolltekjur verið þannig:
1.
Vörumagnstollur
5154000. 00
2.
Verðtollur
16257612.00
Samtals kr.
21411612.00
Áætlunin fyrir allt árið er 27½ millj. kr. Vörumagnstollurinn fyrstu sex mánuði ársins er því nær nákvæmlega eins og hann var fyrstu sex mánuðina í fyrra. Hins vegar er verðtollurinn um 3 millj. kr. hærri en hann var á sama tíma í fyrra. Um það er erfitt að segja, hvort tolltekjurnar verði eins miklar það, sem eftir er ársins. Ýmislegt getur valdið því, að úr þeim dragi. En eftir því, sem séð verður nú, er ekki ástæða til að ætla annað en að tolltekjur fari allverulega fram úr áætlun á þessu ári.
Gjöldin greinast þannig í heild til 1. júlí:
1.
Samkvæmt fjárlögum
25944583.00
2.
Samkvæmt sérstökum lögum
975138.00
3.
Samkvæmt heimildum í 22. gr.
414337.00
4.
Samkvæmt þingsályktunum
366498.00
5.
Væntanleg fjáraukalög
356204.00
Samtals
28056760.00
Á sama tíma eru tekjurnar samtals 27707541.00 Það er ákveðin stefna stjórnarinnar að halda öllum greiðslum ríkisins innan þeirra marka, sem fjárlög eða önnur lög setja, eftir því sem framast er kostur. En þess er ekki að dyljast, að á tímum sem þeim, er nú standa yfir, geta greiðslur orðið nauðsynlegar til hluta, sem fjárlög gera ekki ráð fyrir.
Þótt það bráðabirgðauppgjör, sem fyrir liggur, sýni að ýmsu leyti hagstæða útkomu, er enn of snemmt að fullyrða nokkuð um heildarafkomu ársins. Stór hluti af tekjum ríkissjóðs innheimtist ekki fyrr en síðari hluta ársins, og enn hvíla á ríkinu miklar fjárhagslegar skuldbindingar, sem eftir er að greiða af hendi.
Í sambandi við þetta þykir mér rétt að skýra frá, að samkvæmt þingsályktun 30. marz var hagstofunni falið að reikna út þjóðartekjurnar árin 1936 til 1941. Skýrsla um þetta hefur mér nú borizt í hendur, og sýnir hún, að heildartekjur þjóðarinnar hafa verið sem hér segir:
1936
108050
þús.
1937
117706
-
1938
119566
-
1939
128519
-
1940
210468
-
1941
345076
-
Skýrsla þessi sundurliðuð mun verða lögð fram í þinginu bráðlega.
Eftir er þá að minnast á einn útgjaldalið ríkissjóðs, sem ekki er í fjárlögum, og það eru ráðstafanir vegna dýrtíðar.
Ríkisstjórnin ákvað í desember síðastliðnum að lækka verð á kjöti á innlendum markaði samkv. heimild í lögum nr. 98 9. júlí 1941 um 1 kr. hvert kíló. Útgjöld ríkissjóðs vegna þessarar ráðstöfunar hafa verið sem hér segir:
Janúar
283
þús.
kr.
Febrúar
290
-
-
Marz
273
-
-
Apríl
315
-
-
Samtals
1161
þús.
kr.
Á sama tíma var lækkað verð á smjöri með framlagi úr ríkissjóði, og eru útgjöldin fyrir það talin þannig janúar-apríl (4 mán.):
Rjómabússmjör
51713 kíló á 7/65
kr.
395604.00
Heimaunnið smjör
33981 - - 5/30
-
180099.00
Samtals
kr.
575703.00
Frá þessu dregst hagnaður af erlendu smjöri, sem þegar hefur verið flutt til landsins,
áætlað - 293000.00
eftir kr. 282703.00
Alls hefur verið flutt inn 95 tonn af erlendu smjöri. Helmingur þess, eða það, sem fyrst kom, varð dýrara í innkaupi en gert hafði verið ráð fyrir. Síðasta sendingin, sem kom frá Suður-Ameríku, kostar hér á staðnum með öllum kostnaði, en að frádregnum tolli, um 7.50 hvert kíló. Hagnaðurinn af því, eins og stendur nú, er um 4.20 á kíló, sem varið er til að lækka útsöluverð innlenda smjörsins.
Gert er ráð fyrir að flytja inn meira smjör, og tel ég, að ríkissjóður þurfi ekki mikil útgjöld að hafa vegna verðlækkunar á smjöri, sérstaklega þegar þess er gætt, að framleiðslan innanlands er nú talin mjög lítil. Samkvæmt dýrtíðarlögunum frá síðasta þingi (13. apríl) var heimilað að lækka verð á kjöti og mjólk á innlendum markaði gegn framlagi úr ríkissjóði. Þessi heimild var notuð á þann hátt, að greitt var af kindakjöti 1.60 á kíló, og er kjötmagnið samtals 1643 tonn frá 1. maí til 15. sept. og fjárhæðin 2628 þús. Við þetta bætist ærkjöt og nautakjöt,
áætlað ........ 193
Samtals kr. 2821 þús.
Af mjólk voru fyrst greiddir 35 aurar af hverjum lítra, er lækkaði svo í júlí niður í 25 aura vegna þess að framleiðendur áttu að taka á sínar herðar það, sem svaraði vísitölulækkuninni, en það reyndist 10 aurar á lítra. Á tímabilinu 1. maí til 15. sept. er talið, að útgjöld ríkissjóðs vegna lækkunar á mjólkurverðinu nemi um 2200 þús. kr.
Eru þá útgjöld ríkissjóðs samtals vegna framangreindra ráðstafana um 5 milljónir króna til 15. sept. Undir þessum ráðstöfunum á verðlækkunarskatturinn að standa, eins og áður er getið.
Sú vísitölulækkun, sem orðið hefur vegna framangreindrar verðlækkunar, hefur að líkindum sparað ríkissjóði útgjöld, er nema um 1½ milljón króna til 15. sept.
Bein útgjöld ríkissjóðs vegna dýrtíðarlaganna frá 13. apríl verða því:
Verðlækkun á innlendum afurðum 5 millj. kr.
Til alþýðutrygginga 3 - -
Á móti þessum 8 millj. fær ríkissj. 6,7 - - í verðlækkunarskatt.
Ég hef þá í stórum dráttum gert grein fyrir frv. því, sem fyrir liggur, fyrir afkomu ríkissjóðs fyrri helming þessa ás og fyrir þeim gjöldum, sem dýrtíðarráðstafanirnar hafa haft í för með sér.
Þótt afkoma ríkissjóðs virðist vera mjög sæmileg eins og sakir standa, eru allar áætlanir fram í tímann byggðar á sandi, meðan þjóðin hefur ekkert fast undir fótum í dýrtíðarmálunum. Sú óvissa, sem nú liggur eins og móða yfir öllum atvinnurekstri þjóðarinnar, torveldar allar framkvæmdir, dregur úr viljanum til starfa, örvar eyðslusemi og gerir menn tómláta um framtíðina. Þjóðin þarfnast fjárhagslegs öryggis til að geta starfað, og hún verður að fá það.
Það er og annað og meira í húfi en sparifé landsmanna, sem þeir hafa dregið saman á áratugum og nú er hið lifandi blóð atvinnurekstrarins í landinu. Í húfi er einnig það, sem mikill hluti þjóðarinnar þarf að bíta og brenna, af þeirri einföldu ástæðu, að verðbólga, sem engar skorður eru settar, mundi stöðva alla útflutningsframleiðslu landsins. Til þessa má ekki koma, ef nokkur kostur er að fyrirbyggja það.
Nú er gerlegt að setja skorður við frekari vexti verðbólgunnar og þar með tryggja þann atvinnurekstur í landinu, sem starfað getur með núverandi verðlagi.
Ég efast um, að til sé nokkur maður í þessu landi, sem vildi taka á sig þá ábyrgð, eins og sakir standa, að opna nú flóðgáttir dýrtíðarinnar, meðan nokkur von er um að halda öldunni í skefjum.
Áætlun sú á tekjum og gjöldum ríkissjóðs fyrir árið 1944, sem hér liggur fyrir, er að miklu leyti háð þeim ákvörðunum, sem teknar verða í dýrtíðarmálunum fyrir 15. september.
Herra forseti. Fjárlfrv. það, er hér liggur fyrir, er það fyrsta, sem núv. hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþingi, því að frv. hennar í vor getur ekki talizt fjárlagatillögur hennar.
Frv. þetta ber það með sér, að hæstv. ríkisstj. telur ekki nauðsynlegt að gera neinar verulegar breytingar á fjármálastefnu liðinna ára. Frv. markar enga nýja stefnu og miðar lítið að því að mæta þeim mörgu erfiðu verkefnum, sem nú liggja fyrir þjóðinni í atvinnu- og öryggismálum hennar.
Við umræður um fjárlög fyrir komandi ár verður ekki hjá því komizt að athuga nokkru nánar það ástand, sem nú ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar, og jafnframt, hvernig snúast þarf við þeim vandamálum, sem þar blasa við og hljóta fyrr en varir að krefjast úrlausnar.
Við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom greinilega í ljós viðhorf flokkanna á Alþingi til þessara vandamála, og þykir mér því rétt að rifja nokkuð upp þá afgreiðslu.
Fjarlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár var lagt fyrir Alþ. af fyrrv. ríkisstjórn, sem fór frá völdum í desembermánuði s.l. Við afgreiðslu þeirra fjárlaga hafði Sósfl. í fyrsta skipti nokkur áhrif á fjárlagaafgreiðslu, þar sem hann þá átti orðið 10 þingmenn, og átti þá í fyrsta skipti fulltrúa í fjárveitinganefnd og gafst með því bætt aðstaða til að fylgjast með ýmsum einstökum atriðum frumvarpsins.
Við afgreiðslu fjárlaga s.l. vetur sýndi það sig, að gömlu þjóðstjórnarflokkarnir voru sammála um, að ekki væri þörf á að skipta um stefnu að neinu verulegu ráði um fjárframlög ríkisins, hvorki með tilliti til þess að undirbúa stórfelldar breytingar í atvinnumálum þjóðarinnar né heldur til þess að auka lífsöryggi fólksins með fullkomnari tryggingum eða með því að tryggja því næga atvinnu.
Horfurnar í atvinnumálum landsins voru þó á þann veg á s.l. vetri, að lítt var sæmandi að afgreiða svo fjárlög, að ekki væru gerðar ráðstafanir til þess að tryggja næga atvinnu.
Þá hafði verið hér um nokkurt skeið næg atvinna af völdum hinna erlendu herliða, sem hér voru, en full ástæða var til að búast við, að slík atvinna hyrfi þegar minnst varði, og engum gat blandazt hugur um, að á þvílíkri atvinnu var ekki hægt að byggja í framtíðinni, og ef atvinnuleysið og vandræðin áttu ekki að ráða hér ríkjum strax og herliðin færu héðan eða hættu hér vinnuframkvæmdum, þá varð ríkisvaldið þá þegar að hefja undirbúning atvinnuframkvæmda í stórum stíl og gera ýmsar óhjákvæmilegar breytingar á atvinnulífi landsins, til þess að allir gætu haft vinnu og borið það úr býtum, sem lífskröfur nútímans heimta.
En gömlu þjóðstjórnarflokkarnir töldu að ekkert lægi á, og þrátt fyrir sífellt skraf þeirra um komandi hrun og atvinnuleysi, þá bólaði ekki á neinum ráðum frá þeim um gagnráðstafanir.
Þeirra stefna virtist vera að halda sem mest að sér höndum og streitast gegn tillögum um fjárframlög til atvinnutryggingar og aukins öryggis alþýðunnar.
Sósfl. bar fram við afgreiðslu síðustu fjárlaga ýmsar tillögur, sem miðuðu að atvinnuaukningu.
Megintillögur flokksins í þeim efnum voru drepnar, en hann fékk því þó til leiðar komið, að nokkur fjárhæð var áætluð til þess að mæta atvinnuleysi, ef það bæri að höndum.
Flokkurinn bar einnig fram till. um mjög veruleg fjárframlög til tryggingamála með sérstöku tilliti til þess, að tryggingamálalöggjöfin yrði endurskoðuð og endurbætt verulega.
Þjóðstjórnarflokkarnir gömlu voru ekki síður sljóir á nauðsyn þess að leggja fram fé til tryggingamálanna en til aukinnar atvinnu, og voru því allar tillögur okkar þar um drepnar við afgreiðslu fjárlaganna. En við afgreiðslu dýrtíðarlaganna tókst þó að fá nokkra upphæð lagða fyrir til tryggingarmálanna, svo nú er allmikið hægara um vik að framkvæma nauðsynlegar breytingar í þeim málum en annars hefði verið.
Þá er einnig að minnast í þessu sambandi á umleitanir okkar sósíalista um að fá lagt fram fé til þess að koma upp samvinnubyggðum eða sveitaþorpum með tilliti til þess að fullkomna framleiðslutækni landbúnaðarins.
Fjárveitingar í þessu skyni mættu einnig harðri mótspyrnu og urðu óverulegar.
En í stað raunhæfra aðgerða í þeim málum hefur meir borið á heimskulegum hártogunum og útúrsnúningum um þessar nauðsynlegu breytingar á landbúnaði okkar, og þeir menn, sem bezt hafa viljað íslenzku sveitafólki með tillögum þessum, hafa verið hundeltir fyrir skoðanir sínar og sérstaklega af launuðum fulltrúum bænda.
Þrátt fyrir það, að ekki tókst á s.l. vetri við afgreiðslu fjárl. að fá fram nýja stefnu, sem miðaði ákveðið að því að leysa aðsteðjandi erfiðleika og undirbúa atvinnuvegi þjóðarinnar undir að nýta til fulls vinnuorku landsmanna og bjóða þannig öllum sómasamleg lífsskilyrði við innlenda vinnu, sem byggja mætti á í framtíðinni, - þá vannst eigi að síður allmikið á, og óhætt er að fullyrða, að í mörg ár hafa þó ekki verið afgr. fjárlög, sem veittu jafnmiklu fjármagni til nauðsynlegra framkvæmda og viðurkenndu þó eins mikið og þessi fjárlög skyldur ríkisins til þess að hafa til atvinnu, ef atvinna brygðist. Og ýmsar smærri leiðréttingar fengust á fjárl. að þessu sinni, sem fram að því hafði ekki þýtt að nefna.
Engum dylst, sem með afgreiðslu fjárl. fylgdist, að aukinn styrkur sósíalista til áhrifa á afgreiðslu mála á Alþingi réð í þessum efnum úrslitum, þó að fjarri færi því, eins og við var að búast, að við gætum talið afgreiðslu fjárlaganna á þá lund, sem við hefðum ætlazt til.
Nú, þegar hér liggur fyrir nýtt fjárlfrv. með sama aðgerðaleysissvipnum og öll hin fyrri, og ákveða á um fjármála- og atvinnumálastefnu komandi árs, teljum við sósíalistar alveg sérstaka nauðsyn þess, að tekin verði upp ný stefna, er miði að eflingu atvinnulífsins og yfirleitt raunhæfum aðgerðum gagnvart þeim vandamálum, sem síðasta Alþingi hljópst frá og ég hef nú nokkuð greint frá.
Við höfum veitt því athygli, að með öðrum þjóðum er það nú mikið rætt og að því unnið að undirbúa gífurlegar atvinnuframkvæmdir að stríðinu loknu. Sömuleiðis fer nú fram skipulagning almennra trygginga hjá ýmsum þjóðum, og fullvíst má telja, að almennt verði lífsöryggi alþýðunnar stórkostlega aukið í flestum löndum að stríðinu loknu.
Við Íslendingar komumst ábyggilega ekki hjá því, fremur en aðrar þjóðir, að lífskröfur þjóðarinnar vaxa mjög frá því, sem þær voru fyrir stríð, og það er víst, að íslenzk alþýða líður það ekki, fremur en alþýða annarra landa, að atvinnuleysið eigi að taka við á ný, strax þegar ófriðnum er lokið.
Við verðum því strax að hefja undirbúning að því að mæta þessum nýju víðfangsefnum, er koma áður en varir.
Atvinnuvegir okkar eru nú flestir illa komnir og mjög ófærir um að tryggja öllum landsmönnum næga atvinnu og þau lífskjör, er menn nú almennt krefjast.
Okkur er það öllum ljóst, að landbúnaður okkar er rekinn með gersamlega úreltu fyrirkomulagi, og nýsköpun hans verður að eiga sér stað, ef fólkið, sem í sveitunum býr og að landbúnaði vinnur, á að lifa við sæmileg lífsskilyrði eða í samræmi við kröfur tímans.
Það verður þegar í stað að leggja fram verulegar fjárhæðir til þess að koma landbúnaðinum á framleiðsluhæft stig.
Ríkið þarf strax að eignast þær jarðir, þar sem sveitaþorpum er ætlað að koma. Slíka staði þarf að skipuleggja, og ríkið verður að ganga á undan og reisa þar ýmsar opinberar byggingar, svo sem læknisbústaði, skóla, fyrirmyndarbú o. þ. h. Jafnhliða slíkum framkvæmdum á þessum fyrirhuguðu þorpssvæðum munu án efa rísa upp verzlunarstöðvar og byggðin smám saman þéttast, og um leið mundu skapast aukin skilyrði til verkaskiptingar og stórvirkari vinnuaðferða á þessum stöðum. Með auknu þéttbýli til sveita mundi og sveitafólkinu skapast aðstaða til að njóta margra þeirra þæginda nútímans, sem strjálbýlið getur ekki veitt því, og ekki er ósennilegt, að þróun búnaðarins í þessa átt mundi reynast áhrifameiri vörn gegn flótta fólksins úr sveitunum en það kák, sem nú hefur einkum verið haft í frammi því til varnar.
Það hefur orðið hlutverk okkar sósíalista að benda á þá brýnu nauðsyn að þétta byggðina og notfæra sér með sambýlinu hin samvirku framleiðslutæki. Flestir hugsandi menn hafa játað, að þessi þróun landbúnaðarmálanna er óhjákvæmileg og sjálfsögð, en þrátt fyrir réttmæti þessara tillagna hafa ýmsir þeir menn, sem hingað til hafa talið sig réttkjörna forvígismenn bænda, reynt með flestum hugsanlegum ráðum að rangfæra þessar hugmyndir um þéttbýli sveitanna. Menn þessir, sem fengið hafa nær einráðir að stjórna landbúnaðarmálum þjóðarinnar í um 15 ár og skilið við atvinnumál sveitanna jafnlangt á eftir tímanum og raun ber vitni um, reyna í sífellu að æsa bændur gegn þessum tillögum. Þeir hafa reynt að túlka samfærslu byggðarinnar á þann hátt, að meining okkar væri að láta þegar í stað flytja allt sveitafólk, jafnvel með valdi, á nokkra tiltekna staði, og svo sé meiningin að leggja í eyði mikinn hluta af landinu. Okkur er einmitt ljóst, að breytt búskaparlag í landbúnaðarmálum okkar verður ekki tekið upp svo nokkru nemi, nema með þróun, en einmitt af þeim ástæðum þarf líka strax að hefjast handa og beina þróuninni inn á rétta braut.
Þá hafa andstæðingar okkar sósíalista haldið því að bændum, að með þessum tillögum okkar um breytt búskaparlag í sveitum værum við í rauninni að svívirða sveitastörfin og níða niður þá menn, sem í sveitunum starfa. Og í því sambandi hefur okkur verið borið á brýn, að við sæjum ekki skussaskapinn í vinnubrögðunum í bæjunum.
Bændum er hreint enginn greiði gerður með slíkum málaflutningi sem þessum. Það er vitanlega fásinna að fara í heimskulegan samanburð á því, á hvorum staðnum, í sveit eða við sjó, sé meir til af úreltum atvinnutækjum eða hvorum megin framleiðslutækni sé lengra á veg komið. Aðalatriðið er að viðurkenna í þessu hið sanna og reyna að koma fram nauðsynlegum úrbótum.
Okkur sósíalistum er fullkunnugt um, hvernig ástandið í þessum efnum er í kaupstöðunum og hvernig t. d. mætti með auknu skipulagi og bættum framleiðslutækjum auka stórkostlega afrakstur þeirra, sem að fiskframleiðslu vinna. En það er alveg sérstaklega nauðsynlegt, að bændum almennt skiljist, að stórfelldra breytinga er þörf í atvinnumálum þeirra, ef þeir í framtíðinni eiga að fá notið þeirra lífsþæginda, sem þeir réttilega eiga kröfu til og þeir nú heimta. Vitanlega skiptir það enga eins miklu og sveitafólkið sjálft, að framleiðsluafköst í landbúnaðinum verði aukin, því að þótt nú á þessum tíma og með þeim ráðum, sem til hefur verið gripið, hafi tekizt að tryggja bændum sæmileg lífskjör, þá er alveg víst, að þau framleiðsluafköst, er nú eru í okkar sveitabúskap, geta ekki í framtíðinni haldið uppi slíkum lífskjörum.
Með aukinni atvinnu í þorpum og kauptúnum úti um land mundi verkamönnum þar tryggð hliðstæð aðstaða og hér hefur verið í Reykjavík og bændum nú hefur verið tryggð. Og með aukinni skipulagningu útgerðarinnar, svo sem með því að fiskimenn fái að njóta hins raunverulega söluverðs fiskjarins og með því að fiskverðið fái haldizt í því raunverulega verði, sem um var samið fyrir rúmu ári síðan, miðað við útgerðarvöruverð, mundi mega tryggja fiskimönnum hliðstætt kaup og bændum og fastlaunamönnum.
Það má öllum vera ljóst, að þessi launakjör geta ekki staðizt nema stuttan tíma, ef framleiðsluafköst í atvinnuvegum okkar breytast ekki verulega frá því, sem þau hafa verið, enda er það auðvitað óeðlilegt í sjálfu sér að tryggja hátt kaup fyrir nauðalítil framleiðsluafköst.
Við verðum að gera okkur ljóst, að ef við viljum njóta lífsþæginda nútímans, þá verðum við jafnframt að tileinka okkur vinnutækni hans.
Eins og ég gat um í upphafi, sýnir fyrirliggjandi fjárlfrv. hæstv. ríkisstj. fullkomið skilningsleysi gagnvart þeim stóru vandamálum, sem ég hef hér einkum gert að umtalsefni. Fjárlfrv. vanrækir ekki aðeins að leggja fram fé til þessara mála, heldur dregur það beinlínis úr framlögum til verklegra framkvæmda.
Til vegagerða er áætlað að verja á aðra milljón kr. lægri upphæð en er í fjárlögum þessa árs. Það vekur einnig sérstaka undrun, að einkum virðist vera dregið úr framlögum til ýmissa þeirra vega, er síðasta þing lagði áherzlu á að verja fé til, svo sem að koma einum mesta útgerðarbæ landsins, Siglufirði, í vegasambandið. Sama er að segja um framlag til þess að koma Vestfjörðum í samband, lagningu Krísuvíkurvegar, Oddsskarðsvegar o. fl., o. fl.
Til hafnarmála og vitamála er varið aðeins þriðjungi þess, er áætlað var í síðustu fjárlögum. Framlag til byggingar nýrra vita er einnig lækkað og var þó til skammar lágt. Til íþróttasjóðs, sem hefur með höndum stórfelldar framkvæmdir um byggingar íþróttamannvirkja, er framlagið ekkert hækkað og aðeins veitt tæplega helmingur þess, sem íþróttanefnd ríkisins taldi nauðsynlegt.
Fleiri dæmi mætti nefna um minnkandi framlög til verklegra framfaramála samkv. þessu frv., sem hér er ekki tími til að rekja nánar.
Ég hef lýst því, að við sósíalistar teljum, að stefna beri í aðra átt en frv. þetta gerir. Við munum leggja til, að tillag til verklegra framkvæmda og menningarmála verði stórum hækkað, en alveg sérstaklega munum við þó leggja áherzlu á, að með ríflegum fjárveitingum verði reynt að efla atvinnuvegina og fullkomna framleiðslutækni þeirra.
Engu skal um það spáð, hvaða afdrif þetta frv. fær, en ekki þætti mér ólíklegt, ef dæma má af reynslunni, að meir muni bera á togstreitu hinna valdameiri flokka um beina styrki úr ríkissjóði til einstakra atvinnuhópa en viðleitni til þess að breyta framleiðslutækni atvinnuveganna, svo að þeir, sem við þá vinna, fái notið sæmilegs kaups.
Mér kæmi ekki ókunnuglega fyrir sjónir, þótt kröfur um lækkun kaups verkamanna og þá einnig kaups bænda yrðu háværari og af meira kappi sóttar en tilraun til þess að leyfa bæði verkafólki og bændum að njóta núverandi kaups með því að gera framleiðsluna færari en hún nú er að bera slíkt kaup.
Leiðin á ekki að vera sú að lækka kaup fólksins niður í það, sem illa rekin atvinna og úr sér gengin vinnutækni þolir, heldur hin, að fullkomna svo vinnutæknina, að framleiðslan geti boðið þeim, sem að henni vinna, sómasamleg lífskjör, annars hlýtur líka sú framleiðsla fyrr eða síðar að deyja.
Herra forseti. Sá ræðumaður, sem síðast talaði, af hálfu Sameiningarflokks alþýðu - sósíalistaflokksins, minntist nokkuð á landbúnaðarmál og talaði eins og sá, sem þekkingu hefur. Ég vil aðeins segja við hann, að bændur þurfa ekki að sækja skilning á þeim málum til kommúnista. Þeir hafa gert sér ljóst, hvert stefna ber, og gert till., sem fulltrúar kommúnista reyna að eigna sér jafnframt því sem þeir dreifa út um landið áróðri um störf bænda.
Þetta fjárlagafrv. , sem hér liggur fyrir, sýnir nokkuð, hversu ástatt er í landinu. Útgjöldin eru 62 millj., tekjurnar 68 millj., meira en þrisvar sinnum hærra en fyrir stríð. Þetta sýnir, hvað verðbólgan er mikil, og þó er langt frá því, að frv. sé eins og reyndin verður. Ég ætla ekki að vera margorður um frv., en bara benda á ýmislegt til að sýna, hvernig sett er í frv. af handahófi til verklegra framkvæmda og hve ýtarlegrar yfirvegunar sú hlið málsins þarf við.
Það er öllum ljóst, að vegakerfið þarf mikilla bóta við, en slíkar endurbætur er ekki hægt að framkvæma nema með miklum bótum á öllum vinnuaðferðum og öflun nýtízku áhalda til vegavinnu. Það er ekki hægt fyrir 120 þús. sálir að ætla svo marga menn til vegagerðar sem þyrfti, ef handaflið eitt væri notað.
Það er einn liður í fjárlagafrv. , sem Framsfl. hefur ástæðu til að gleðjast yfir, en það er framlag til áburðarverksmiðju. Flokkurinn hefur unnið að undirbúningi þess máls á undanförnum árum og er það mikil ánægja, að nú skuli veitt þetta framlag.
Ég sé ekki ástæðu til að telja upp einstaka liði. Aðalatriðið er það, að frv. þarf mikillar endurskoðunar við: Og það verða menn að gera sér ljóst, að fjárveitingar til verklegra framkvæmda verður að veita með því fororði, að þær verði að bíða, ef ekki er vinnuafl fyrir hendi.
Þá ætla ég að víkja almennt að fjárhags- og atvinnumálum. Á liðnum stríðsárum hafa Íslendingar haft mikið tækifæri til að efla ríkissjóðinn. Fjármagnið hefur flætt inn í landið. Þrátt fyrir innflutning, mikinn að magni, og talsverða verðhækkun hefur þjóðin eignazt yfir 300 millj. kr. innieign í Bretlandi og Bandaríkjunum. Annað eins tækifæri hefur aldrei komið áður. En hvernig hefur tekizt að nota það? Tekjur ríkissjóðs hafa margfaldazt, fjórfaldazt árin 1941 og 1942 og meira en fimmfaldazt síðan. Það er niðurstaða þriggja stríðsára, að rekstrarafgangurinn 1940 var 5½ millj., 1941 18 millj. og 1942 10 millj., eða alls yfir 33 millj., reiknað með tölum hæstv. fjmrh. á síðasta þingi. Þar við er það að athuga, að þá var búið að draga frá útflutningsverðbætur á landbúnaðarvörur. Raforkusjóður á 10 millj. og framkvæmdarsjóður 11 millj., eða 2/3 hluta af fénu. Allur afgangur allra áranna nemur því aðeins nokkurra mánaða útgjöldum ríkisins. Skuldir ríkissjóðs voru í árslok 1939 56,6 millj., en 51 millj. í lok ársins 1942. Það hefði ekki þurft mikla ráðdeild til þess, að handbært fé ríkisins hefði verið helmingi meira, miðað við þau tækifæri, sem gefizt hafa, og það án þess að skattabyrðar manna yrðu þyngri en þær eru nú. Það stefnuleysi, sem hefur ríkt í fjárhags- og dýrtíðarmálum, náði hámarki 1942 undir forustu hv. þm. G.-K., og var ausið milljónatugum af hinum gífurlegu tekjum, sumpart vegna hækkunar á kostnaði af völdum dýrtíðarinnar, en sumpart vegna uppbóta til atvinnugreina, sem vegna dýrtíðarstefnunnar hafa orðið að fá miklar verðlagsuppbætur til að geta staðizt.
Í tekjuöflunarmálum ríkisins hefur verið þannig á haldið, að sá flokkur, sem hafði fjmrh. - Sjálfstfl. -, hefur streitzt gegn skattlagningu stríðsgróðans svo sem hann treystist til. Það var lengi stefna þess flokks að láta skattfrelsisákvæðin standa, og fyrir þetta skattfrelsi skyldi útgerðin gefa sjómannaskóla. Þó var hægt að þoka svo um, að allháir skattar væru lagðir á gróðann, en aðalatriðið er ekki setning löggjafar, heldur framkvæmd skattal. Það var ekki hægt að henda reiður á stríðsgróðanum með venjulegum aðferðum. Till. kom fram um skattadómstól, svipað og er í öðrum löndum, dómstól, sem átti að kryfja til mergjar framtölin og sjá um, að skattal. væru framkvæmd. Þetta hefði átt að koma að gagni, og er ekki ólíklegt, að það hefði tekizt, en þá skeður það, að maður er skipaður í hið þýðingarmikla embætti skattadómara, sem var alls ekki fær til starfsins, en ekkert hefur verið gert til úrbóta. Það er á allra vitorði, að framkvæmd skattal. er því óviðunandi, þrátt fyrir skipun skattadómstólsins. Það, sem þarf að gera, er að stofna sterkan skattadómstól með öruggu valdi og þyngja refsingar fyrir skattsvik. Í þess stað stinga menn höfðinu í sandinn, en fylgja því að hækka skattstigann. Hvers vegna getur þetta átt sér stað? Á stríðstímum er ekki hægt á Alþ. að fá samtök um þá stefnu, sem ber að fylgja, og stjórn með meiri hl. Alþ. á bak við sig. Ástæðan til þess er sú, að fulltrúar Sameiningarfl. alþýðu - sósíalistafl. , hafa alveg hliðrað sér hjá því að koma nálægt nokkru jákvæðu starfi að þessu leyti, og í skjóli þeirra hafa stríðsgróðamenn getað leikið lausum hala.
Ég vil þá víkja að dýrtíðarmálunum. Árið 1942 var sá nýstárlegi háttur upp tekinn, að stjórnarvöldin hættu að skipta sér af þýðingarmestu málum þjóðarinnar, en beittu sér fyrir einu máli aðeins, kjördæmabreyt. og tvennum kosningum í sambandi við hana. Svo mikið kapp var á þetta lagt, að ríkisstj. keypti hlutleysi kommúnista með beinu loforði um, að ekkert yrði gert til að framkvæma löggjöf gegn dýrtíðarflóðinu. Árangurinn birtist í hækkaðri vísitölu, úr 183 í 273. Menn stóðu höggdofa. En brátt fundu menn af reynslunni, að það var hægra sagt en gert að lækka dýrtíðina. Þurfti það ekki að koma mönnum svo á óvart, þegar þess er gætt, hversu reyndust samtökin um að stöðva dýrtíðina.
Þegar farið var að fjalla um þetta á síðasta þingi, var á það bent, að eðlilegast væri að lækka dýrtíðina með því að fá samkomulag um allsherjar lækkun verðlags og kaupgjalds í landinu í sanngjörnum hlutföllum. Framleiðendur landbúnaðarvara vildu fallast á hlutfallslega lækkun. Reynslan hefur sýnt, hvort það var ósanngjarnt. Nú vildu sumir lögbjóða einhliða lækkun landbúnaðarvara. Það var komið í veg fyrir, að þetta gæti tekizt, og mega nú allir sjá af störfum 6 manna n., hversu mikil sanngirni var í því. Fulltrúar verkamanna vildu ekki fallast á neina lækkun yfirleitt. Þar með var útséð um, að á því þingi yrðu samtök um neitt varanlegt úrræði í dýrtíðarmálunum. Sumir virtust ekki gera sér þetta fyllilega ljóst. Sérstaklega var að heyra á hæstv. fjmrh., að hann vildi ekki viðurkenna þessa staðreynd og liti svo á, að sú leið væri fær og einhlít til varanlegs árangurs að borga dýrtíðina niður með framlögum úr ríkissjóði. Það var bent á, að enda þótt hægt væri að nota það úrræði, ef um lágar fjárhæðir væri að ræða og auðvelt til tekjuöflunar, væri hér öðru máli að gegna. Samtök fengust ekki, en til samkomulags við ríkisstj. var þó samþ. heimild til að borga niður dýrtíðina, en ég varaði við þeirri stefnu, þar sem svo ótryggt var, að sú lækkun yrði til frambúðar. Ég taldi rétt, úr því sem komið var, að verja ekki stórum fjárfúlgum út í óvissu til þess að lækka vísitöluna um örfá stig. Sérstaklega fannst mér þetta rétt fyrir þær sakir, að Alþ. ákvað að setja nefnd til þess að rannsaka hlutfallið milli verðlags og kaupgjalds.
Ríkisstj. kaus að fara aðra leið. Hún hefur mjög notað heimildir til að borga niður dýrtíðina. Öll lækkun á vísitölunni hefur orðið fyrir framlög úr ríkissjóði, og það liggur fyrir að taka ákvörðun um það innan skamms, hvort á að láta dýrtíðina enn vaxa eða hvort nú fást samtök.
Hin hliðin á dýrtíðinni, þ. e. hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags, kemur nú til athugunar. Ég ætla ekki að ræða um brigzl og sleggjudóma, sem fram hafa komið, en auðséð var, að einskis mátti láta ófreistað til að eyða þeirri tortryggni, sem hafði skapazt, og slökkva þann eld, sem tendraður hafði verið. Það tókst á síðasta þingi að fá nefnd, sem átti að hafa lokið störfum fyrir 15. ágúst og lauk störfum á réttum tíma. Menn gerðu sér ekki miklar vonir um, að störf hennar gætu leitt til niðurstöðu, en það fór þó svo, að n. gat komið sér saman, og vakti það almenna ánægju.
Nefndin hefur komizt að niðurstöðu um það, hvað hæfilegt mat er á þeim tekjum, sem þeir hafa, sem unnið hafa að landbúnaði undanfarna mánuði.
Þá er komið að framkvæmd þessa samkomulags og hvernig það verkar í framkvæmd. Höfuðtilgangur með starfi nefndarinnar var að finna hlutfall milli verðlags og kaupgjalds stéttarfélaga, og er það orðað svo í l. , með leyfi hæstv. forseta:
„Skipa skal sex manna nefnd, er finni grundvöll fyrir vísitölu framleiðslukostnaðar landbúnaðarafurða, er fara skal eftir við ákvörðun verðs landbúnaðarvara og hlutfall milli verðlags landbúnaðarvara og kaupgjalds stéttarfélaga, er miðist við það, að heildartekjur þeirra, er vinna að landbúnaði, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Skal í því sambandi tekið tillit til þess verðs, sem fæst fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir.“
Samkv. þessu ákvæði hefur n. starfað, og verðlagið, sem n. segir, að þurfi að fást fyrir landbúnaðarafurðir á innlendum markaði, er beinlínis byggt á því, að það verð fáist fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir, sem n. reiknar með, þegar hún talar um heildartekjurnar. Ef það brygðist með útflutningsverðið á landbúnaðarafurðunum, þá eru allar stoðir felldar undan dómi n. og starf hennar gert marklaust. Það gengi þvert á tilgang l. og það, sem vakti fyrir Alþ., sem sé að heildartekjur þeirra, sem vinna að landbúnaði, verði sambærilegar við tekjur annarra vinnandi stétta. Það hlýtur því að verða einn liður, og sá fyrsti, sem þarf að vinna að í framhaldi af samkomulagi sex manna nefndarinnar, að greiða uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, þannig að úrskurður n. um verðlagið fái staðizt. Tilgangur l. er skýr og ótvíræður um þetta. Og tækist svo ógiftusamlega til, að Alþ. breytti nú um stefnu í þessum málum, þá yrði allt eyðilagt, sem áunnizt hefur um þennan mikilsverða þátt málsins. Verðlag á innlendum markaði yrði þá að hækka stórlega frá því, sem n. hefur ákveðið, og dýrtíðin magnaðist þá enn frá því, sem ella þarf að verða, og er þó fyrir ærinn vandi um það, hversu með skuli fara sjálft dýrtíðarmálið. Kem ég að því síðar.
Það mega teljast undur mikil frá almennu sjónarmiði, þótt eigi væri við góðu að búast úr þeirri átt, að forkólfar kommúnista hafa látið málgagn sitt taka afstöðu gegn því, að samkomulag sex manna n. yrði framkvæmt á þann hátt að greiða útflutningsbætur, og krefjast þess þar með, að Alþ. breytti alveg um stefnu frá því í vor er leið, - eða kannske það sé ætlun þeirra að binda bændur við ákveðið verð á innlendum markaði, sem n. hefur ákveðið og byggt á því, að tiltekið verð fáist fyrir útfluttar vörur, en svíkjast svo um að gera ráðstafanir til þess, að þetta verð í raun og veru fáist? Má segja, að þessi afstaða er ólík afstöðu þeirra fyrir kosningar, þegar þeir greiddu atkv. með útflutningsuppbótinni á afurðir landbúnaðarins, sem þá voru mun hærri en gera má ráð fyrir, að uppbæturnar verði nú.
Það hefur verið talað um styrki til landbúnaðarins í sambandi við þetta mál. En þetta er verðjöfnun til þess að halda jafnvægi í atvinnulífinu og koma í veg fyrir þau stórkostlegu almennu vandræði, sem af því kynnu að stafa fyrir þjóðina nú þegar - og ekki síður seinna -, ef afkoma annars aðalatvinnuvegs þjóðarinnar yrði í algerðu ósamræmi við afkomu allra annarra atvinnuvega í landinu. Það er ekki sjaldan talað um styrki í þessu sambandi, og sennilega vegna þess, að ráðstafanirnar fara fram með milligöngu ríkissjóðs. En í sambandi við þetta væri freistandi að gera því nokkur skil, hver grundvöllur muni vera undir tekjum manna og stétta yfirleitt, eins og nú er háttað málum. Eru það eðlileg viðskipti, byggð á venjulegum viðskiptamöguleikum, sem skapa þennan grundvöll nú um stundarsakir? Ég hygg, að eðlilegt væri, að menn gæfu því máli gaum, áður en þeir fella dóma sína um þær ráðstafanir, sem gerðar eru til þess að skapa nokkurt fjárhagslegt jafnvægi með þjóðinni, og áður en menn nefna einn þiggjanda og annan veitanda í þeim viðskiptum.
Nú er spurningin: Hver verða áhrif sex manna n. í dýrtíðarmálunum? Það hefur orðið vart við talsverðan misskilning í þessu sambandi. Sumir halda, að það sé fundin lausn dýrtíðarmálanna í heild. Og ég hef séð í blaði, sem telur sig annars hafa talsvert um þetta að segja, - hygg það sé Vísir -, að nú sé ekki eftir nema stutt skref í dýrtíðarmálunum, eftir að þetta samkomulag er fengið. Það samkomulag er óendanlega mikilsvert, en það er misskilningur, að það sé leiðarendi í dýrtíðarmálunum. Nú er annaðhvort að gera að hækka útsöluverð varanna, þannig að dýrtíðin hækki aftur, eða að borga niður dýrtíðina enn með framlagi úr ríkissjóði. En þetta er ekki það eina, sem til er í dýrtíðarmálunum. Eina skynsamlega leiðin væri að færa niður í réttum hlutföllum verðlag og kaupgjald, jafnframt því sem tryggð væri framkvæmd skattalaganna, eignarskattur lögleiddur til þess að tryggja það, að stríðsgróðinn rynni til almenningsnota. En til þess að koma slíku áleiðis, þarf sterk samtök og samkomulag þeirra aðila, sem hlut eiga að máli. Þetta er eina raunverulega lausnin á dýrtíðarmálunum. Verði nú enn farin sama leiðin og ríkisstj. hefur farið í sumar, er allt jafnóleyst og áður í dýrtíðarmálunum, stórfé eytt til þess eins að fresta því, sem fram hlýtur að koma, ef ekki fást samtök um raunhæfar ráðstafanir. Slíkt leiðir ekki til neinnar niðurstöðu, en sýgur meir og meir fjármagnið frá nauðsynlegum framkvæmdum síðar.
Þar með vil ég þó ekki segja, að ekki geti legið fyrir það ástand, að menn neyðist til þess að verja fé til að fresta um stundarsakir því, sem hlýtur fram að koma. En ótakmarkaður fjáraustur í því skyni á ekki rétt á sér. Það þarf að athuga gaumgæfilega, hvað verið er að fara í þessum málum og hvaða líkur eru til þess, að frambúðarárangur fáist.
Í þessu sambandi vil ég gera fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvað það kostar yfir árið - ekki aðeins í nokkra mánuði - í framlagi að halda vísitölunni eins og hún er nú, miðað við þau framlög, sem nú eru greidd á afurðir, og þær hækkanir, sem þurfa að verða samkv. dómi sex manna n.
Fáist hins vegar ekki samtök um þessa stefnu í dýrtíðarmálunum, sem ég lýsti, þá er hægt, eins og ég sagði áður, að reyna að fresta því, sem fram á að koma. En frambúðarlausn verður það. engin. Nú er óðum að koma fram það, sem þeir sögðu, sem vildu stöðvunina 1941 og 1942. Landbúnaðurinn, annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, þarf verðlagsuppbætur, sem annars hefðu verið sáralitlar eða engar. Smáútvegurinn er víða kominn að því að stöðvast. Það er farið að tala um atvinnuleysi, þó að setulið sé enn hér í landinu og mjög mikil viðskipti við það. Allt það, sem gerzt hefur, sýnir, að það hefði verið öllum fyrir beztu að stöðva dýrtíðina, - að samkomulag hefði náðst um það. Og mér þykir það einkennilegt, ef mörgum verður ekki hugsað til þess, þegar litið er fram á ástandið, sem blasir við, - hverjum og einum verður ekki hugsað til þess, hvað hann hafi í raun og veru unnið við þessa dýrtíð og þessar háu kaupgjaldstölur. Hvernig er hlutfallið eftir allt kapphlaupið milli kaupgjalds og afurðaverðs? Er það ekki eitthvað svipað og þegar lagt var af stað? Ég ætla engu að spá um það, hvað verður nú á Alþ. En ég geri mér litla von um, að hér verði samtök um að gera það, sem skynsamlegast er, eins og Alþ. er skipað síðan um síðustu kosningar. Stærsti flokkur þingsins, Sjálfstfl., á 20 þm., nær 2/5 þingsins. Hann kvaðst hafa ætlað að hafa forustuna. En sú forusta hefur í engu sést, og er ekki að búast við, að hún verði skeleggari hér eftir. Flokkurinn getur ekki staðið saman um úrlausnir aðkallandi vandamála, og er það eðlilegt framhald af vinnubrögðum flokksins 1942, þegar hann gekk svo langt að kaupa stundarvöld með loforði um, að engin afskipti skyldu höfð af hinum mest aðkallandi vandamálum. Hins vegar hefur kommúnistum verið trúað fyrir um 1/5 hluta þingsæta, 10 sætum. Þeir létu kjósa sig við síðustu kosningar til þess að koma á fót því, sem þeir kalla vinstra samstarf, og töluðu sem eldheitir umbóta- og lýðræðismenn. Ekki voru kjörseðlarnir meir en svo komnir niður í atkvæðakassann, þegar þeir fóru að troða illsakir við þá menn, sem þeir létu kjósa sig til þess að starfa með. Allir kannast við það, sem gerðist á s.l. vetri um samningaumleitanir til þess að prófa, hversu þessum mönnum væri innan rifja. Þessu lyktaði með því, að þeir voru knúðir til að játa, að þeir hefðu alls ekki viljað samvinnu. Þeir voru svo gersamlega króaðir af, að þeir misstu jafnvægið. Létu þeir málgagn sitt birta það, að þeir hefðu getað unnið með hinum, ef þeir hefðu samþ. allt, sem kommúnistar vildu, annars ekki, og varð sú yfirlýsing fræg. Kommúnistar hafa orkað því, að pólitísk áhrif verkamanna á undanförnum árum hafa orðið algerlega neikvæð. Stríðsgróðamennirnir hafa haft áhrif sín í beinu skjóli kommúnista. Menn höfðu sínar afsakanir fyrir síðustu kosningar. En nú er alveg vorkunnarlaust að sjá, hvernig spilin liggja. Hér á Alþ. eru margir, þrátt fyrir allt, sem enn reyna að finna það skásta og gera það skásta, sem við verður komið á næstunni, eins og kringumstæðurnar eru. En margir munu spyrja utan Alþ.: Hvað getum við gert, og hvað stendur þetta ástand lengi? Um það veit enginn. En það, sem þeir geta gert, sem eru utan Alþ., er að undirbúa breyt. á skipun Alþ. Ég fullyrði, að með þjóðinni er til nægilega sterkur meiri hl. manna, sem vill umbætur og hefur nægilega skyldar skoðanir til þess, að samstarf milli slíkra manna væri eðlilegt, þótt greina kunni á um ýmis atriði og sum veigamikil. Þetta fólk er að finna meðal kjósenda Framsfl. og Alþfl. Það er einnig að finna meðal kjósenda Sjálfstfl. og Sósfl. frá síðustu kosningum. En forustulið þessara flokka hefur tvímælalaust brugðizt þessum mönnum. Nú er spurningin: Hvað tekst lengi að viðhalda þessu ástandi? Ná umbótaöflin að sameinast, eða verður þeim sundrað, eins og verið hefur undanfarið, af niðurrifsmönnum til hægri og vinstri? Á því veltur framtíð þjóðarinnar kannske meir en nokkru öðru nú á næstu árum.
Ég bið hæstv. forseta að afsaka, hvað ég hef talað lengi. Ég gætti þess ekki.
Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur, eins og hæstv. fjmrh. þegar er búinn að taka fram, breytt formi þessa fjárlagafrv. allverulega, að mestu leyti eftir bendingu frá fjvn. þeirri, sem starfaði á síðasta þingi. En hún hefur fært þetta fjárlagafrv. mjög í þá sömu átt og fjárlagafrv. það, er ráðherra Sjálfstfl. lagði fyrir Alþingi s.l. ár. Sú breyt. er til hins verra, því að með henni er mjög dregið úr öllum verklegum framkvæmdum og fjárlagafrv. einungis ákvæði um að greiða úr ríkissjóði fjárhæðir, sem annaðhvort eru bundnar með sérstökum lögum eða ríkissjóður getur ekki komizt hjá að greiða. Þetta er í sjálfu sér stefna, þó að hún sé ekki góð, - stefna íhaldsins eða afturhaldsins.
Í fjárlfrv. er framlag til nýrra vega lækkaðir 3 millj. 562 þús. kr. í 1 millj. 800 þús. kr., eða um 1762 þús. kr. Þá er framlag til brúargerða því sem næst þurrkað út, og nemur sú lækkun 896 þús. kr. Enn fremur hafa öll framlög til hafnargerða verið afnumin, og nemur sú lækkun 1 millj. 681 þús. kr. Þá hefur hæstv. fjmrh. fundið köllun hjá sér til að krukka í atvinnubótaféð og lækka það um 300 þús. kr. Alls nema þessar lækkanir, sem hæstv. fjmrh. leggur til, að gerðar verði á framlögum til verklegra framkvæmda frá því, sem ákveðið er í síðustu fjárlögum, hátt á 5. millj. kr. Ýmsar aðrar opinberar framkvæmdir, sem gert var ráð fyrir í síðustu fjárlögum, hafa verið lækkaðar. En á móti kemur framlag til áburðarverksmiðju, sem ætlazt er til, að lagt verði í sérstakan sjóð, 2 millj. kr., og nokkur hækkun á framlagi til viðbótarbygginga við ríkisspítalann.
Á þessu fjárlfrv. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður þurfi að gera neitt til að bæta úr atvinnuleysi í landinu, og er sú stefna, að áætla ekkert annað en það, sem allra naumast verður komizt af með til verklegra framkvæmda, á þessum óvissu tímum mjög varhugaverð og verður að áteljast. Hins vegar má segja, að hið breytta form á fjárlagafrv. sé til bóta. Á því eru þó undantekningar, og má þar nefna, að í áætlun vegamálastjóra er orlofsfé fært til sérstakra útgjalda með 200 þús. kr. Þetta er hvergi gert á neinum öðrum lið í þessu fjárlagafrv. Hvers vegna er t. d. kostnaður vegna orlofs í stjórnarráðinu, vegna orlofs hjá pósti og síma og öllum skrifstofum ríkisins ekki talinn sem sérstakur liður, ef ástæða var til að uppfæra þetta sem sérstakan lið á vegamálunum? Eða hefur hæstv. fjmrh. tekið þetta upp til. þess eins að sýna, að vegamálastjóri væri yfirleitt á móti því, að verkamenn fengju orlof? Ef rétt er að telja orlofsfé vegavinnuverkamanna sem sérstakan útgjaldalið, verður það einnig að gerast hjá öllum öðrum starfsmönnum. Sé ekki gætt samræmis í þessu, verða fjárlögin eins konar spegill af lyndiseinkunnum og skoðunum einstakra embættismanna, sem tæplega verður að teljast viðeigandi.
Hæstv. fjmrh. minntist nokkrum orðum á framkvæmd vegamála og að ekki hefði verið unnið við ýmsa vegi vegna skorts á vinnuafli, en vildi sætta menn við þetta með því að lýsa yfir, að fé það yrði lagt á sérstakan reikning og unnið fyrir það síðar, og framlög því lækkuð í þessu frumvarpi, er því nam. Mér eru sérstaklega kunnar framkvæmdir í vegamálum á Vestfjarðaveginum yfir Kollabúðaheiði. Þar hefur aðeins verið unnið með fáum mönnum Langadalsmegin og engar vegavinnuvélar verið notaðar. Þarna er heill landshluti, sem bíður eftir vegasambandi við aðra landshluta. Vestfirðingar hafa verið hafðir útundan, og þegar fjárveiting fæst loks hjá Alþingi, að því er ætlazt er til, til þess að koma vegasambandinu í framkvæmd á þessu og næsta ári, strandar allt á framkvæmdaleysi eða mótþróa vegamálastjóra. Hann heldur því fram, að vegleysurnar til þessa landsfjórðungs séu svo miklar, að ekki sé unnt að koma þangað vegavinnuvélum, en vélar þessar eru að þyngd 8 eða 9 smálestir, og þarf meira en meðalíhaldssemi til þess að halda því fram, að ekki sé unnt að flytja svona vél milli landshluta á sjó eða landi: Þó stjórn vegamálanna hafi að undanförnu gleymt Vestfirðingum, vil ég ekki sætta mig við svona viðbárur fyrir hönd Vestfirðinga og vænti þess fastlega, að þm. Vestfirðinga efli með sér samtök og krefjist þess, að vegasambandinu við Vestfirði verði komið á þegar á næsta ári, svo sem áformað var, og mun þetta vel framkvæmanlegt með nýtízkuvegavinnuvélum, sem þegar eru fyrir hendi.
Fáist vegamálastjóri ekki til þess að flytja vegavinnuvélar til Vestfjarða, munu aðrir sjá ráð til þess.
Á þeim stutta tíma, sem ég hef haft til að athuga þetta fjárlagafrv. , hef ég rekið mig á annað dæmi en það, sem ég nefndi um orlofsféð, að hæstv. fjmrh. hefur tekið upp í frumvarpið áætlun frá embættismanni án þess að athuga hana nánar. Á ég þar við framlag til sauðfjárveikivarna á 16. gr., sem áætlað er 3 millj. 489 þús. kr. Segir í greinargerð frv., með leyfi hæstv. forseta:
„Farið hefur verið eftir áætlun sauðfjársjúkdómanefndar, enda þótt áætlunin sé ófullkomin og lítt rökstudd.“
Þar sem hér er um að ræða mjög stóra fjárhæð, sem eflaust getur að einhverju leyti orkað tvímælis, verður að átelja það, að fjármálaráðuneytið lætur hana frá sér með þessum ummælum, án þess að krefjast nákvæmrar greinargerðar og rökstuðnings frá sauðfjárveikiherrunum, og það því fremur, þar sem það hafði rúma fjóra mánuði til stefnu á milli þinga til þess að undirbúa þetta frv.
Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um fjárlfrv. En þó má geta þess, að fjármálaráðuneytið hefur tekið sig til og sundurliðað 16. gr., framlag til hinna ýmsu atvinnuvega. Er landbúnaðurinn þar með 6 millj. 899 þús. 678 kr., sjávarútvegurinn með 510 þús. kr., og iðnaðurinn með 2 millj. 593 þús. 500 kr. Hér af 2 millj. kr. framlag í áburðarverksmiðju. Það er síður en svo, að ég vilji telja eftir þau framlög, sem áætluð eru til landbúnaðar. En þó finnst mér ástæða til að benda á, að betur megi róa frá hálfu sjávarútvegsins heldur en gert hefur verið að undanförnu, ef framlög til hans eiga að komast í eitthvert samræmi við framlög til landbúnaðarins. Í framlaginu til landbúnaðarins er innifalið framlag til sauðfjárveikivarna, um 3½ millj, kr., en ekki neinar uppbætur á markaðsvörur til landbúnaðarins.
Frumvörp til fjárlaga sýna jafnan stefnu þeirrar ríkisstjórnar, sem leggur frv. fyrir Alþingi. Að þessu sinni er stefna ríkisstj. sú, að áætla ekkert til að bæta úr væntanlegu atvinnuleysi, þótt það komi yfir landsmenn.
Í sambandi við afgreiðslu þessa fjárlfrv. mun ég minnast nokkrum orðum á þau helztu mál, sem liggja fyrir Alþingi til afgreiðslu. Má þar fyrst nefna dýrtíðarmálin. Það má vera mönnum gleðiefni, að samkomulag fékkst í sex manna nefndinni um verð á landbúnaðarafurðum. Hins vegar getur niðurstaða n. mjög orkað tvímælis. N. hefur miðað við meðaltekjur verkamanna og sjómanna, sem hún telur vera 15500 kr. En þær tekjur geta tæplega verið fyrir hendi hjá verkamönnum og sjómönnum úti á landi, þótt þær kunni að vera til hér í Reykjavík. Nefndin fer heldur létt yfir þá staðreynd, að bóndinn fær sínar eigin vörur til heimilisins, svo sem mjólk, kjöt og garðávexti, með miklu lægra verði heldur en kaupstaðarbúinn, þó að hún að vísu segi, að það leiði til lækkunar á útgjöldum bóndans. Hins vegar telur hún bændum það að réttu til hækkunar, eins og hún kemst að orði, „að bóndinn verði undir venjulegum kringumstæðum að leggja á sig mikla sunnudaga- og helgidagavinnu.“ Enginn efast um, að þetta sé rétt. Hins vegar hefði ég gaman af að sjá þann verkamann eða sjómann, sem náð hefur meðaltekjum þeim, sem nefndin áætlar, 15 þús. og 500 kr., án þess að leggja á sig mikla sunnudaga- og helgidagavinnu.
Einn skeleggur kommúnisti var settur í nefnd þessa frá Alþýðusambandinu, og virðist baráttufýsi hans fyrir öreigunum við sjóinn lítt hafa komið í ljós við nefndarstörfin, ef allt erfiði sjómanna og verkamanna í eftirvinnu og helgidagavinnu hefur gleymzt.
Dýrtíðarmálin verða sennilega enn sem fyrr örðug viðfangs fyrir Alþingi. Því að þótt samkomulag hafi fengizt um verð það, sem bændur eiga að fá heim til sín fyrir afurðirnar, er enn eftir að ákveða útsöluverð þeirra til neytendanna. Enn fremur er eftir að ákveða um, hvort uppbót skuli greidd á afurðir þær, sem bændur selja til útlanda. Þetta eru viðkvæm mál, sem verður að ráða til lykta eftir rækilega athugun og af réttsýni. En ríkisstjórnin virðist ætla að ráða fram úr þeim málum með áhlaupum. Hækkun sú, sem leyfð var á álagningu tóbaks með lögum frá Alþingi í fyrradag, mun vera ætluð til þess að greiða niður útsöluverð á landbúnaðarafurðum, og má furðu gegna, ef það vekur ekki nokkurn ugg um, hversu hyggilega verður ráðið fram úr þessum málum, ef ætlunin er að flaustra þeim af.
Dýrtíðarmálið er tvímælalaust eitthvert mesta vandamálið, sem liggur fyrir Alþingi, jafnvel þótt samkomulag hafi fengizt í sex manna nefndinni, eins og ég áðan sagði. Þetta mál verður að ræðast fyrir opnum tjöldum og athugast gaumgæfilega. En það virðist ekki vera öllum ljóst.
Því að nú þegar í þingbyrjun hefur verið gerð tilraun til að ráða því til lykta á bak við tjöldin - með því að binda alþingismenn á undirskriftir áður en málið kemur til umræðu í þinginu.
Í gær var útbýtt til flokkanna undirskriftaskjali, er hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Við undirritaðir alþingismenn bindumst samtökum um það, að Alþingi, er nú situr, tryggi með fjárframlagi úr ríkissjóði þær verðuppbætur á kjöt, gærur, ull og osta frá árinu 1943, sem selt er á erlendum markaði, að framleiðendur beri úr býtum það verð, sem nefnd sú hefur ákveðið, sem skipuð var samkv. lögum um dýrtíðarráðstafanir frá síðasta þingi.“
Slík undirskriftasmölun í byrj un þings um mál, sem ekki er farið að ræða á Alþingi, mun vera algert einsdæmi í þingsögunni og er sízt til þess fallin að vekja traust á þeim málstað, sem leitað er undirskrifta fyrir, eða létta úrlausn málsins á einn eða annan veg, og þinginu sjálfu til háðungar.
Vel má vera, að eigi verði komizt hjá að greiða bændum uppbót á markaðsvörur, sem fluttar eru út úr landinu. En hins vegar verður það mál að athugast mjög rækilega, áður en það er afgreitt. Uppbætur hafa verið greiddar úr ríkissjóði þannig, að ríkustu bændur í landinu hafa fengið stórfé, en fátækustu bændurnir mjög lítið.
Maður, sem ekki á nema 50 kindur og hefur stóra fjölskyldu fram að færa, hefur ekki fengið uppbót nema sem svarar fjáreign sinni. En nágranninn, sem hefur 500 fjár og ef til vill hefur fáa menn á framfæri og er vellauðugur maður, hefur fengið tíu sinnum hærri uppbætur. Stærsti hluti uppbótanna, eins og þær hafa verið greiddar, hefur þannig runnið til þeirra, sem sízt hafa þess þörf, en þeir, sem mesta þörfina höfðu, hafa fengið minnst. Eigi að halda þessum uppbótargreiðslum áfram, verður að breyta til um stefnu, þannig að ekki verði haldið áfram að greiða þeim ríkustu stórfé, en láta fátæka bændur sitja á hakanum. Flokkslega séð eru ríkustu bændurnir efalaust sterkustu stuðningsmenn ýmist Sjálfstfl. eða Framsfl. En hins vegar verður að gera þá kröfu til þessara flokka beggja, að þeir sýni fátækum bændum og meðalbændum nokkurt réttlæti og leggi í svipinn flokkshagsmuni á hilluna.
Þá verður einnig að gæta þess við greiðslu uppbóta, að hið háa verð, sem ákveðið hefur verið, leiði eigi til þess, að almennt verði lógað miklu fleira fé í haust heldur en ástæða er til og bændur verði ekki örvaðir til þess að skera niður bústofninn.
Það er eigi nema rétt og skylt, að hlaupið verði undir bagga með einstökum atvinnuvegi á hörðum tímum. Hins vegar verður harðlega að átelja þá óþinglegu meðferð, sem einstakir þingmenn hafa gert tilraun til, að höfð verði á þessu máli. Og Alþingi verður vel að gæta þess, að það sýni þegnum sínum ekki misrétti í þessu eða öðru.
Þeir, sem telja sig fulltrúa bænda hér á Alþingi, verða að vita það, að ef það er ætlun Alþingis að tryggja einni stétt manna í landinu, sem þó eru ekki embættismenn ríkisins, lágmarkstekjur, þá hlýtur að koma krafa frá öðrum stéttum um. að fá sams konar tekjutryggingar hjá Alþingi. Margt bendir til, að atvinnuleysi geti orðið hér á landi á næsta ári. Þá er það vitað, að sjórinn vill oft bregðast. Fái bændur tekjur sínar tryggðar, hlýtur jafnframt að verða borin fram krafa frá sjómönnum, verkamönnum og öðrum láglaunastéttum, að þær fái einnig sínar tekjur tryggðar. Og þær ráðstafanir verða þá að gerast samtímis og uppbætur eru greiddar til bænda.
Ef ríkið er búið að taka að sér að tryggja einni stétt manna í landinu tekjur, getur Alþingi á engan hátt neitað öðrum stéttum um það sama. Það væri þess vegna hróplegt ranglæti, ef Alþingi afgr. svona mál með undirskriftum á bak við tjöldin, áður en kostur hefur gefizt á að ræða það á þingfundum og athuga það í nefndum og láti trygginguna eingöngu ná til einnar stéttar.
Margir telja það Alþingi til vansa, að það hefur sjálft eigi getað myndað þingræðisstjórn. En eigi mundi hitt síður til vansa, ef stærstu málin væru afgr. með undirskriftasmölun milli þingmanna og ákveðin útborgun úr ríkissjóði svo mörgum milljónum næmi, eins og hér er verið að fara fram á, hversu góður sem tilgangurinn annars væri.
Fyrir Alþ. liggja ýmis vandamál önnur en dýrtíðarmálin. Má þar tilnefna launalögin. Það er kunnugt, að ríkisstj. hefur skipað nefnd til að endurskoða þau. Þessi nefnd mun skila áliti, meðan þing situr. Mikils ósamræmis gætir nú í launum ýmissa starfsmanna ríkisins og einnig samanborið við ýmsar stéttir þjóðfélagsins. Þetta misræmi verður Alþingi að leiðrétta, og væri óskandi, að það yrði gert á þessu Alþingi, sem nú situr. Starfsmenn ríkisins hafa að ýmsu leyti borið skarðan hlut frá borði. Það verður að krefjast af þeim, að þeir leysi störf sín vel af hendi. En hins vegar hafa þeir einnig rétt á að krefjast þess af ríkinu, að ríkissjóður launi þeim sómasamlega.
Þriðja stórmálið, sem væntanlega verður lagt fyrir Alþingi til úrlausnar, eru breytingar á alþýðutryggingalögunum. Alþýðutryggingalögin, sem Alþýðuflokkurinn á sínum tíma kom fram á Alþingi, mættu í fyrstu talsverðri mótspyrnu og voru af mörgum misskilin, og það svo mjög, að talið var, að Alþfl. hafi við kosningarnar 1937 tapað nokkru fylgi vegna þessarar löggjafar. Reynslan hefur hins vegar fært mönnum heim sanninn um það, að þessi löggjöf er þörf og góð, alþýðunni í landinu til mikilla hagsbóta og nauðsynleg þjóðfélagsleg varúðarráðstöfun. Því lengur sem tryggingarnar hafa staðið, því meiri vinsældum eiga þær að fagna. Og nú er svo komið, að almenn krafa er uppi um stórfelldar endurbætur og viðauka við alþýðutryggingalöggjöfina. Lífeyrissjóðurinn er enn eigi tekinn til starfa, en í stað þess eru greidd nokkur ellilaun og örorkubætur eftir sérstökum ákvæðum. Af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af þeirri löggjöf, sem nú gildir um tryggingar, hafa komið upp öflugar raddir um, að nú skuli nota tækifærið, sem ríkissjóður hefur á því að bæta úr um tryggingar og leggja fram verulegt fé til þeirra, þannig að þeim verði komið í enn betra horf en nú er.
Í fjórða lagi verður að gera ráð fyrir því, að frá milliþn. í sjávarútvegsmálum komi eitthvað viðvíkjandi sjávarútveginum. Nefnd þessi hefur nú starfað um hríð, og enn er of snemmt að segja nokkuð um, að hvaða niðurstöðu hún kemst. En þó vil ég geta þess, að n. mun á einu máli um, að nauðsyn sé að bæta mjög úr um félagslega uppbyggingu sjávarútvegsins og koma málum hans þannig fyrir, að hann fái sjálfur sem allra mest af hagnaði þeim, sem verzlun með þarfir hans gefur. Enn er of snemmt að segja með vissu, á hvern hátt þessar till. verða frá nefndinni. En sem dæmi um, hve aðkallandi þetta er orðið, vil ég nefna, að olíuverð olíufélaganna hefur verið undanfarið frá geymi úti á landi 51 eyrir kílóið, en síldarverksmiðjur ríkisins keyptu á s.l. sumri olíu fyrir tilstilli atvmrh. frá sama stað og með sama verði og olíufélögin og seldu hana á 38 aura kílóið. Þegar kreppan kemur yfir sjávarútveginn, hlýtur ein helzta varnarráðstöfun sjávarútvegsins að verða sú, að útgerðin njóti sjálf sem allra mest af verzlunarhagnaðinum, og er það eitt af mestu vandamálum Alþingis að koma þessum málum þannig fyrir, að svo gæti orðið.
Eins og nú standa sakir, eru félagsmál útvegsins að öðru leyti þannig, að smáútgerðin velur engan aðila til þess að gefa upplýsingar og halda fram rétti sínum við heildarsamninga þá, sem gerðir hafa verið um sölu á afurðum til útlanda.
Fimmta og ekki minnsta málið, sem Alþingi fær til úrlausnar, er stjórnarskrármálið. Öllum flokkum ber saman um það, að vér Íslendingar eigum að skilja við Dani og stofna lýðveldi hér á Íslandi. Um þetta er ekki nokkur minnsti ágreiningur. Hins vegar hefur menn greint nokkuð á um það, á hvaða tíma þetta skyldi gert. Og þó að undarlegt sé, þá hefur því verið haldið fram, að eitthvert mest aðkallandi sjálfstæðismál okkar nú á tímum sé það að losna undan kúgun Dana. Danir eru, eins og allir vita, hertekin þjóð og píndir undir kúgunarhæli nazismans. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá fulltrúa ríkisstj. Íslands í Kaupmannahöfn um það, að Danir muni að stríðinu loknu fallast á skilnað. Enn fremur hafa bæði Bretar og Bandaríkjamenn lofað að viðurkenna sjálfstæði okkar og heitið að beita sér fyrir því við friðarsamningana, að aðrir geri hið sama. Við höfum því meiri tryggingu fyrir því nú en nokkru sinni fyrr að fá sjálfstæðismál okkar farsællega til lykta leidd í ófriðarlokin.
Þrátt fyrir þetta hafa forustumenn stjórnmálaflokka hér á landi, og þá einkum tveggja, Sjálfstfl. og Kommfl. , sem kallar sig sósíalistaflokk, reynt að þyrla upp um þetta mál miklu moldviðri og krefjast þess, að við skiljum nú þegar við Dani, án þess að tala við þá. Þetta mál mun verða afgr. ásamt með stjórnarskrárbreyt. , og er, eins og ég áðan sagði, enginn ágreiningur um, hvernig það skuli afgreitt, heldur eingöngu um það, hvort nú eigi að nota tækifærið, meðan Danir eru sem verst haldnir, eða hvort málinu sé slegið á frest þangað til unnt er að fá viðtal við þá aftur sem frjálsa menn.
Miklar umræður hafa orðið um þennan þátt stjórnarskrármálsins. En hins vegar hefur varla verið minnzt á annan þátt þessa máls, sem er í rauninni miklu óráðnari og mikilsverðari en skilnaðurinn við Dani, sem þegar er tryggður. Sá þáttur er um það, hvers konar mannréttindi skuli verða ákveðin í hinni nýju stjórnarskrá hins íslenzka lýðveldis. Nýi tíminn, nýi heimurinn, sem við vonum, að verði byggður upp að stríðinu loknu, krefst aukinna mannréttinda. Og í rauninni hefði verið eðlilegast, að höfuðumræður um stjórnarskrármálið hefðu orðið um þann þátt, af því að hinn þátturinn er í rauninni útkljáður. Því að vissulega mun hann heldur geta valdið ágreiningi en hinn, sem allir eru sammála um.
Þau nýju mannréttindi, sem Alþfl. fyrir sitt leyti mun krefjast, að verði ákveðin í hinni nýju stjórnarskrá, munu meðal annars verða þau, að hver vinnufær maður fái raunverulegan rétt til vinnu og að hver vinnufær maður skuli vera skyldur til þess að vinna fyrir sér. Að í stjórnarskránni verði tryggð lífsafkoma hinna vinnandi stétta og rétturinn til hennar. Jafnframt verði búið þannig um hnútana hvað viðvíkur lýðfrelsi og lýðræði, að það verði í stjórnarskránni sjálfri tryggt enn þá betur en nú er.
Öll þessi mál eru mjög örðug viðfangs og mikilsvert, að lausn þeirra takist sæmilega hjá Alþingi. En þó að svo verði, er eftir að sjá um framkvæmd þeirra. Það er mjög hæpið, að framkvæmd mála, einkum stórra nýmæla, geti farið vel úr hendi, nema Alþingi myndi ríkisstjórn, sem er samhent meiri hluta Alþingis. Á þessu er, því miður, enginn kostur. Og þeir, sem hæst láta nú um nauðsyn þess, að við skiljum tafarlaust við Dani, eiga meðal annars sök á því.
Þeir bera ábyrgð á núverandi stjórnarástandi, og má þar til sanninda nefna, að í átta manna nefndinni, sem starfaði á s.l. hausti, bar Einar Olgeirsson, fulltrúi Kommfl. , fram tillögu 3. des. 1942 um það, að ríkisstjóri skipaði ríkisstjórn á þann hátt, sem hann síðar gerði. Hæstv. ríkisstjórn er þannig beinlínis skipuð eftir tilmælum kommúnista, þó að þeir láti ekki alltaf vel við henni. Með þessari tillögu hefur Kommfl. , þvert ofan í vilja mikils þorra kjósenda sinna, komið í veg fyrir, að hér á landi geti myndazt vinstri samvinna og þá einkum um úrlausn þeirra mála, sem ég hef hér rakið, ekki hvað sízt stjórnarskrármálsins. Segja má, að að ýmsu leyti hafi staðið á Framsfl. En þó tel ég, að þegar tilraunir til vinstri stjórnar fóru út um þúfur í vetur sem leið, hafi verið sleppt tækifæri, sem þá var fyrir hendi til þess að fá hin frjálslyndari öfl Framsfl. inn á skynsamlega leið um úrlausn ýmissa þeirra vandamála, sem alþýðunni á Íslandi er algerlega nauðsynlegt, að leyst verði nú á næstunni.
Hver sá, sem unnið hefur félagslegt og efnalegt frelsi, mun berjast fyrir upp á líf og dauða að halda því. Sá þáttur hinnar nýju stjórnarskrár er því stærsta sjálfstæðismál okkar, en um þetta fæst því miður engin vinstristjórnarsamvinna.
Er eigi annað fyrir en að alþingismenn geri sitt bezta til að leysa þessi mál, sem ég hef nefnt hér, eftir því, sem ástæður leyfa. Hins vegar hlýtur bæði úrlausn þeirra og þó einkum framkvæmd að verða mjög örðug, vegna þess að ekki ríkir nein meirihlutastefna hér á Alþingi, og ríkisstjórn sú, sem nú fer með völdin, er í rauninni ekki annað en skoðanalaus embættismannastjórn, sem einungis framkvæmir það allra nauðsynlegasta, sem komizt verður af með, og hefur tæplega nokkurn þann skilning á hinum nýja tíma, sem krafizt verður að ófriðnum loknum, enda ekki til þess ætlazt.
Stærsta verkefni okkar auk þeirra mála, er ég hef nefnt, og stærsta sjálfstæðismál okkar er að undirbúa okkur undir hinn nýja tíma. Slíkur undirbúningur verður að vera verk alþýðunnar.
Vonir alþýðunnar á Íslandi um heppilega úrlausn mála og örugga framkvæmd þeirra hljóta að byggjast á því, ef unnt væri að efla aftur vinnu milli fulltrúa bænda og verkamanna, þannig að unnt væri að mynda stjórn lýðræðissinnaðra umbótaflokka, en til þess að svo verði, þurfa fulltrúar þessara stétta, hver um sig, að sýna fyllsta réttlæti og sanngirni í garð hinna, en varast að láta kné fylgja kviði, eftir því hver er sterkari á Alþingi í það og það skiptið.
Fjármálaráðherra hefur nú gert allglögga grein fyrir þeim gagngerðu breytingum, sem hann hefur gert á fjárlfrv. frá því í vor, bæði efnislegum og formlegum. Efnislegu breytingarnar felast, í sem fæstum orðum sagt, í því, að rekstrartekjur ríkissjóðs eru í nýja frv. áætlaðar 11 milljónum og tæpum 800 þús. hærri en í því gamla, eða 66 millj. 964 þús. í stað 55 millj. 180 þús., og rekstrarútgjöldin 9½ millj. hærri, eða 62 millj. 519 þús. í stað 53 millj. og 23/4 þús., og greiðslujöfnuður verður hagstæður um 1 millj. 76 þús. í stað þess að vera óhagstæður um 561 þús.
Hækkunin á rekstrartekjunum er fengin með því að áætla tekju- og eignarskattinn og hluta ríkissjóðs af stríðsgróðaskatti hvorki meira né minna en 10 milljónum hærri en í fyrra frumvarpinu, eða 25 millj. í stað 15, og verðtollinn 3 milljónum hærri, eða 23 milljónir í stað 20. En hins vegar er fellt niður útflutningsgjaldið, sem var áætlað 1 millj., og hæstv. ráðh. virðist vera trúaður á það, að þessar áætlanir geti staðizt.
Um tekju- og stríðsgróðaskattinn er þess getið í aths. við frv., að samkv. bráðabirgðayfirliti nemi þessir skattar 29 millj. í ár, en líkur séu til, að afrakstur sjávarútvegs og verzlunar og afkomuskilyrði almennt verði hagstæð í ár. Og um tollana er sagt, að verðtollurinn hafi verið kominn upp í 16 millj. og vörumagnstollurinn í 5 millj. 1. júlí í ár, og jafnvel þó að allverulega kunni að draga úr innflutningi á næsta ári og þó að verðlag á erlendum varningi lækki, þá þyki áætlunin ekki óvarleg.
En er það nú þetta, sem áætlunin byggist á? Er ekki verðlagið á útflutningsafurðunum því sem næst það sama í ár eins og á s.l. ári? Og er ekki hins vegar allur kostnaður við að framleiða þær jafnvel miklu hærri nú? En ef svo er, hvernig má það þá verða, að afkoma atvinnuveganna geti orðið eins góð í ár og í fyrra og skattþol þeirra því sem næst jafnmikið? Og innflutningsverzlunin? Er ekki jafnt og þétt verið að takmarka innflutning og herða á verðlagseftirlitinu? Og hvernig getur þá arðurinn af verzluninni og tollarnir af innflutningnum haldist í sama eða svipuðu horfi og áður? Þó að innflutningurinn hafi orðið mikill fyrri hluta ársins samkv. gömlum innflutningsleyfum, þá skilst mér, að vaxandi takmörkun innflutningsleyfa, eftir því sem á líður, hljóti mjög að draga úr innflutningnum síðari hlutann.
Athugasemdirnar við tekjubálk fjárl. , sem frv. fylgja, byrja á þessum orðum: „Rekstrartekjur ríkisins eru áætlaðar 1212145 kr. hærri en í núgildandi fjárlögum.“ - Ég er ekki alveg óhræddur um, að þessi aths. kunni að fela í sér skýringu á því, hvers vegna hæstv. stjórn hefur látið leiðast til þess að spenna bogann eins hátt og hún gerir í tekjuáætluninni. Að hún hafi litið svo á, að það mundi verða betra til afspurnar í þinginu og jafnvel víðar að vera heldur fyrir ofan en neðan „núgildandi fjárlög“ í áætlunum sínum um tekjurnar og þá jöfnum höndum um gjöldin.
Ég sá þess getið í blaði einu, að þetta fjárlfrv. væri hæsta fjárlagafrv. , sem lagt hefði verið fyrir Alþingi. Það var áreiðanlega ekki sagt hæstv. stjórn til áfellis, enda engin ástæða til þess í rauninni. Hækkun fjárl. frá ári til árs, síðan núverandi ófriðarástand hófst, hefur verið óumflýjanleg. Útgjöld ríkisins hafa hlotið að hækka að minnsta kosti í hlutfalli við dýrtíðina í landinu. Á undanförnum árum má heita, að fjárlagafrumvörp stjórnarinnar hafi nokkurn veginn haldizt í hendur við dýrtíðina. Hins vegar hafa fjárlögin í meðförum þingsins einatt viljað fara nokkuð fram úr því. Þetta frv. er hins vegar fyrsta fjárlagafrv. , sem kemur þannig frá stjórninni, að það yfirbýður dýrtíðina. Má sjá það af því, að á árinu 1939 urðu rekstrarútgjöld ríkisins aðeins rúmlega 19 millj., og ættu þau því, miðað við vísitöluna 250, eins og gert er ráð fyrir í frumv., að nema rúml. 48 millj. á næsta ári. En samkv. þessu frv. er þeim áætlað að verða 62½ millj., eða sem næst 30% hærri og ef miða ætti við vísitöluhækkun eins og vísitalan væri komin upp í 325 stig. Ég áfellist nú ríkisstj. ekki svo mjög fyrir þetta. Bæði er það, að það er nokkuð að vonum, að ríkisstj. teldi ekki ástæðu til að hafa slíkan hemil á útgjaldaaukningu ríkissjóðs, eins og gert væri með því að takmarka hana við vísitöluhækkunina og leggja þá jafnframt til grundvallar útgjöldin á kreppuárunum. Og í annan stað rak hæstv. ríkisstj. sig á það í sambandi við afgreiðslu Alþingis á fjárl. yfirstandandi árs, að hún má lítils stuðnings vænta af hálfu þingsins við slíka fjármálastefnu. Það má því telja „mannlegt“ af hálfu ríkisstj., þó að hún félli fyrir þeirri freistingu að láta það á sjást, að hún væri engu síður en hv. Alþingi fær um að sýna af sér rausn í meðferð fjárlaganna. Og fjárlagafrv. er þá heldur ekki nema aðeins örlítið hærra en fjárlög yfirstandandi árs, eins og hv. Alþingi gekk frá þeim.
Ég vil nú að sjálfsögðu ekki fullyrða neitt um það, að tekjur ríkisins á árinu 1944 muni verða minni en áætlað er í frv. En það er fleira, sem hafa verður í huga en það, hvort tekjurnar kunni að bregðast. Undanfarin ár hafa tekjurnar farið síhækkandi frá ári til árs, en að því rekur fyrr eða síðar, að breyting verður á því. En þegar að því kemur, að tekjurnar fara að minnka, þá eigum við það eitt víst, að útgjöldin fylgja þeim ekki eftir. Og við verðum vel að muna það, að það eru ekki aðeins tekjurnar, sem hafa farið langt fram úr áætlun síðustu árin, heldur gegnir sama máli um útgjöldin. Hæstv. ríkisstj. áætlar nú tekjurnar eins hátt og hún gerir í því trausti, að ekki komi fyrir neinar óvæntar breytingar, sem verði þess valdandi, að þær bregðist, t. d. að afkomuskilyrði atvinnuveganna versni til muna. En er það ekki alveg augljóst, að slíkar breytingar muni vera alveg yfirvofandi, ef ekkert verður að gert? Er ekki yfirvofandi og jafnvel skollin á stórkostleg verðhækkun á innlendum afurðum, sem annaðhvort verður að halda niðri með greiðslum úr ríkissjóði eða þá að hún hlýtur að valda stórfelldri hækkun vísitölunnar og þar með kaupgjaldsins? Mér er kunnugt um, að gert er ráð fyrir, að verðhækkunin á kjöti á innanlandsmarkaðinum muni valda 12½ stigs hækkun á vísitölunni. Er þá ekki séð fyrir því, að framleiðendurnir fái eins hátt verð fyrir útflutt kjöt og þeim hefur verið ákveðið af nefnd þeirri, sem falið var að ákveða það, og verður þá varla komizt hjá annaðhvort að greiða uppbót á útflutningsverðið eða þá að hækka enn verðlagið á innlenda markaðinum, en við það mundi vísitalan enn hækka um nokkur stig, en hve mörg, veit enginn að svo stöddu, af því að óvíst er bæði um útflutningsverðið og útflutningsmagnið.
Þá er enn fremur vitað, að verðhækkunin á neyzlumjólk mun valda 3½ stigs hækkun á vísitölunni, auk þeirrar hækkunar, sem af hlutfallslegri verðhækkun ýmissa mjólkurafurða mundi leiða. Enn bætist hér við stórfelld verðhækkun á kartöflum, sem væntanlega hlyti að hækka vísitöluna um mörg stig, jafnvel þó að kartöflur yrðu lítt fáanlegar.
Hæstv. stjórn hefur nú fengið heimild til að hækka álagningu tóbakseinkasölunnar á tóbaksvörur um 200%, en mér er tjáð, að hún muni þó ekki ætla sér að nota þá heimild til fulls. Einnig mun vera í ráði að auka álagningu á áfengi jafnvel enn meira, og hefur heyrzt, að þessum tekjuauka, sem með þessum hætti fengist af tóbaks- og áfengisverzlununum, ætli stjórnin að verja til lækkunar á útsöluverði á kjöti og mjólk á innanlandsmarkaðinum. En jafnvel þó að það ráð verði upp tekið, þá er enn eftir að taka afleiðingunum af verðhækkuninni á þeim afurðum öðrum, sem ég taldi upp, og að bæta upp útflutningsverðið á kjötinu, ef ekki á að leggja verðmuninn á því ofan á innlenda verðið. Hér er því um að ræða annaðhvort hækkun vísitölunnar væntanlega um 20–30 stig, og er þá ekki djúpt tekið í árinni, eða þá greiðslur úr ríkissjóði, er nema mundu allt að því jafnmörgum milljónum. Og er ég ákaflega hræddur um, að tekjuáætlun fjárlagafrv. muni ekki reynast svo varleg, að hún þyldi þann ábæti ofan á venjulegar, óhjákvæmilegar umframgreiðslur.
Það var talið hér áður, að gera yrði ráð fyrir því, að fjárlagaútgjöldin færu ævinlega a. m. k. 15% fram úr áætlun, og reynslan virtist staðfesta það. Síðustu árin, eða síðan ófriðarástandið hófst, hafa umframgreiðslur farið langt fram úr þessu. Ég væni hæstv. núv. ríkisstj. ekki um það, að hún hafi ekki fullan hug á að halda útgjöldunum sem mest í skefjum í framkvæmdinni. En ég bendi þó á það, að það er ákaflega óvarlegt að gera ekki ráð fyrir því, að slíkar óhjákvæmilegar umframgreiðslur kunni að verða sem svarar 20–25% af áætluðum útgjöldum. Ég þykist vita, að hæstv. stjórn hefur viljað vanda sem mest allar áætlanir sínar og gert það eftir því, sem föng stóðu til. En ég tel það ákaflega vel sloppið, ef útgjöldin samkv. þessu frv. fara ekki mun meira fram úr áætlun en þetta. Það þarf engar „óvæntar breytingar“ til þess, að bein rekstrarútgjöld ríkisins, sem eru áætluð 62½ millj., verði allt að 80 millj., þegar öll kurl koma til grafar. Og þar við bætist svo, að frv. á eftir að ganga í gegnum hreinsunareld fjvn. og Alþingis, og má því vafalaust enn vænta hækkunar á því, áður en það fer út úr þinginu.
Ef einhverjar „óvæntar breytingar“ verða, t. d. ef dýrtíðin vex enn til muna og kaupgjald og launagreiðslur hækka þá samtímis, þá verða svona 10 millj. í viðbót ekki lengi að safnast saman. En slíkar breytingar mundu þá einnig geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir afkomu atvinnuveganna og því samfara fyrir tekjuáætlun fjárlaganna.
En ef nú á að forða því, að dýrtíðin, þ. e. a. s. hin viðurkennda vísitöludýrtíð, vaxi okkur yfir höfuð og leggi framleiðsluatvinnuvegi landsmanna alveg að velli, hvar á þá að taka það fé, sem til þess þarf að borga hana niður, eins og það er kallað? Það er alveg augljóst, að tekjuaukinn af áfengis- og tóbakseinkasölunum muni hrökkva skammt til þess, jafnvel þó að hann yrði í reyndinni allt að 9 millj., eins og ég hef heyrt að áætlað sé. Mér er ókunnugt um, á hvaða rökum sú áætlun er byggð, en hitt veit ég, að gera verður ráð fyrir, að verðhækkunin á þessum vörum dragi til stórra muna úr sölu þeirra. Það er rétt, að verðinu á tóbaksvörunum hefur verið haldið lægra en í rauninni mætti telja eðlilegt með tilliti til verðlags á öðrum neyzluvörum almennings, en það hefur verið gert m. a. vegna þess, að kunnugt hefur verið um það, að óleyfileg sala hefur farið fram á þessum vörum í allstórum stíl með miklu lægra verði, og má gera ráð fyrir því, að sú verzlun færist mjög í aukana, svo að gróðinn á verðhækkuninni geti orðið nokkur vonarpeningur. Og svipuðu máli er að gegna um áfengið. En eins og ég sagði áðan, þá hrekkur jafnvel hinn áætlaði ágóði af þessari verðhækkun skammt til þess að borga niður þá dýrtíðaraukningu, sem yfirvofandi er. Ég fæ ekki betur séð en að hvað sem í þessu verður gert, þá hljóti það að bitna á framleiðsluatvinnurekstri landsmanna, þeim, sem til þessa hefur getað staðið óstuddur, hvort sem heldur verður látið skeika að sköpuðu um dýrtíð og vísitölu og framleiðslukostnaðurinn þannig látinn aukast von úr viti, eða þá, að til þess ráðs yrði gripið að hefja nýja herferð á þennan atvinnurekstur með nýjum álögum í því skyni að afla fjár til að borga dýrtíðina niður. En í því efni er þegar svo langt gengið, að til fulls ófarnaðar horfir, ef lengra verður haldið á þeirri braut.
Við verðum að fara að gera okkur það ljóst, að tímar stríðsgróðans eru senn á enda og að erfiðleikarnir eru á næstu grösum. Við verðum að fara að búa okkur undir það, að sú breyting geti fyrr en varir orðið á fjármálaþróuninni, að í stað sívaxandi tekjuafgangs á rekstrarreikningi ríkisins kunni að koma tekjuhalli. Og þó að tekju- og stríðsgróðaskattur verði í ár 29 millj. og 25 millj. næsta ár, og þó að vörumagnstollur og verðtollur fari langt fram úr áætlun í ár og standist áætlun á næsta ári, þá er þess að gæta, að allt það fé, sem ríkissjóði kann þannig að áskotnast, er kreist út undan blóðugum nöglum atvinnuveganna og alls almennings í landinu. Og því meira fé, sem þannig er tekið til þarfa ríkissjóðs til mismunandi aðkallandi og nauðsynlegra nota, því hallari fótum stendur framleiðslan og afkoma alls almennings, þegar að þrengir.
Hér á hinu háa Alþingi hefur mikið verið um það rætt, hve mjög ríði á því, að hið opinbera sé við því búið, þegar stríðinu lýkur, að hefjast handa um framkvæmdir, sem skapað geti atvinnulausu og aðþrengdu fólki sæmileg lífsskilyrði, og í því skyni er þess krafizt, að safnað sé fé í digra sjóði, með því að skattleggja sem mest allan lífvænlegan atvinnurekstur í landinu, og helzt svo nærri þeim atvinnurekstri gengið, að honum sé ekkert eftir skilið til þess að tryggja afkomu sína og þeirra, sem af honum eiga að hafa framfærslu, einmitt þegar þrengingarnar ber að höndum, sem nauðsynlegt er talið að létta öðrum með opinberum aðgerðum.
Það er engu líkara en að það þyki litlu máli skipta og jafnvel engu varða, hvort sá atvinnurekstur, sem fyrir er, fær að lifa eða deyja, aðeins ef einhverju nýju er komið á fót, sem það opinbera beitir sér fyrir. Mér skilst hins vegar ekki annað en að fyrst og fremst verði að kosta kapps um það að halda þeim atvinnurekstri við lýði, sem fyrir er, en síðan að auka þar við eftir beztu getu og eins og nauðsyn krefur til þess að öllum geti vegnað vel í landinu. Það gildir alveg jafnt um þann atvinnurekstur, sem fyrir er, eins og þann, sem koma skal, að á velgengni hans veltur öll afkoma og velmegun landsfólksins.
Þegar að atvinnuvegunum kreppir, svo að þeir verða að draga saman seglin, þá hlýtur óhjákvæmilega að kreppa að landsfólkinu í heild. Og til þess að tryggja velmegun alls almennings er aðeins ein leið, og hún er sú, að tryggja afkomu framleiðslunnar í landinu, og skiptir í því sambandi engu, hvort það er einkaframtakið, sem ber veg og vanda af framleiðslunni, eða hún er að meira eða minna leyti á vegum þess opinbera eða algerlega þjóðnýtt. Hver leiðin, sem er valin, verður að sjá fyrir því, að hún sé rekin á fjárhagslega tryggum grundvelli, að reksturinn hafi alltaf að baki sér öfluga sjóði til þess að geta staðizt áföll.
Af því leiðir, að þar sem einkaframtakið á að beitast fyrir framleiðslunni, verður að varast það að ganga svo nærri afkomu atvinnurekendanna með skattaálögum, að þeim sé ekkert eftir skilið nema rétt til hnífs og skeiðar. Það verður að sjá fyrir því, að þeir geti lagt til hliðar ríflegar fúlgur í góðu árunum til að standast áföll erfiðari tíma og til þess að endurnýja framleiðslutæki sín. Með því er ekki aðeins verið að tryggja þeirra hag, heldur einnig jafnframt allra, sem afkomu sína eiga undir viðskiptum við þá og fyrirtæki þeirra og þá, sem að þeim starfa. Og alveg með sama hætti yrði að sjá þjóðnýttum atvinnurekstri borgið. - Slíkur rekstur mundi alveg eins fara á hausinn á erfiðleikatímunum og einkareksturinn, ef öllum afrakstri hans í góðu árunum væri úthlutað ýmist til þeirra, sem að honum vinna, eða þá sem eyðslueyri þess opinbera.
En það eru ekki aðeins framleiðslufyrirtækin, sem þurfa að hafa aðstoð til þess að safna sjóðum. Í þjóðfélagi, sem byggist á grundvelli einkaframtaksins, er nokkur fjársöfnun einstaklinganna þjóðfélagsleg nauðsyn og lífsskilyrði heilbrigðrar þróunar athafnalífsins og hvers konar framkvæmda. Því meiri, sem slík fjársöfnun er, því betri verða skilyrðin til bættrar afkomu almennings. Fé, sem lagt er fyrir, framkallar athafnir, sem miklu fleiri njóta góðs af en eigendur þess, og verða oft og einatt öðrum margfalt meiri féþúfa.
Það er þannig auðsætt, að varhug verður að gjalda við því að ganga of langt í beinum skattaálögum, bæði á atvinnufyrirtæki og einstaklinga, eða svo langt, að það hamli nauðsynlegri fjársöfnun til tryggingar og aukningar verklegra framkvæmda í landinu, og það engan vegin vegna hagsmuna þeirra, sem fénu kunna að safna, heldur fyrst og fremst vegna hagsmuna alls almennings.
Og enn er það auðsætt, að ef nú horfir illa um afkomu framleiðsluatvinnuveganna í landinu vegna yfirvofandi aukningar dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðarins, svo að jafnvel liggi við borð, að þeir komist í þrot af þeim sökum, þá verður ekki úr því bætt með því að leggja á þá nýjar skattabyrðar, þó að það væri í því skyni gert að koma í veg fyrir hækkun beina framleiðslukostnaðarins með því að borga niður dýrtíðina. Og ef það á að gera, þá verður að finna aðrar leiðir til þess að standa straum af þeim kostnaði. Og yrði það þá ekki helzt með þeim hætti, að stillt væri öðrum útgjöldum ríkisins svo í hóf, að núv. tekjustofnar hans nægðu til að standast öll útgjöld, sem óhjákvæmilegt þætti á hann að leggja?
Það komu fram í ræðum annarra hv. þm. nokkur atriði, sem e. t. v. væri ástæða að taka til athugunar, en ég get þó ekki nema að mjög litlu leyti, af því að mínum tíma er að verða lokið. Ég get ekki látið hjá líða að beina því til hv. 2. þm. S.-M., að hafi hann orðið fyrir vonbrigðum út af því, hve lítinn árangur löggjöfin um skattadómara hefur borið, þá getur hann engum um kennt nema sjálfum sér. Lögin um skattadómara voru sett alveg eins og hann vildi hafa þau. Og skattadómari, sem skipaður var, er einnig kunnur sem þrautreyndasti maður í landinu í þessum málum. Hins vegar hefur skattanefnd, sem einmitt er skipuð af hv. 2. þm. S.–M., ekki talið ástæðu til að nota sér aðstöðu hans að neinu leyti.
Þá sagði hv. þm., að það furðulega hafi skeð eftir að stjórnarskiptin urðu árið 1942, að þá hafi stjórnarvöldin látizt ætla að skipta sér af þýðingarmesta máli þjóðarinnar, en keypt sér hlutleysi kommúnista með því að lofa að leggja engar hömlur á kauphækkun. En hér skýtur svo skökku við, að þetta er þveröfugt. Að því leyti, sem samningar voru milli Sjálfstfl. og Kommfl. í sambandi við stjórnarskiptin, þá var það áskilið, að löggjöfin um gerðardóminn væri óhögguð. Hitt kom í ljós, eins og undanfarin reynsla hafði þá þegar sýnt, að mundi verða niðurstaðan, að sú löggjöf mundi verða algerlega gagnslaus í framkvæmd. Það hafði hún reynzt, meðan þessi hv. þm. átti sæti í stjórninni. Það var ekki fyrst eftir stjórnarskiptin, sem stjórnarvöldin létu sig þetta ekki skipta, því að í hans stjórnartíð var einnig látið skeika að sköpuðu um þessa hluti, enda bersýnilegt, að ekki varð við ráðið, eins og allt var.
Hv, þm. Ísaf. gerði hér sjálfstæðismálið að umtalsefni. Hann er sjálfsagt búinn að gleyma, að í sambandi við stjórnarskiptin 1942 var samið milli Alþfl. og Sjálfstfl. að leiða sjálfstæðismálið til lykta á því ári með þeim hætti, sem nú er haldið fram af Sjálfstfl., að eigi að gera tafarlaust. Það er eins og þessi hv. þm. sé ekki vel að sér í stjskr. Hann talar um það, að það ríði mest á ákvæðum þeim, sem eiga að vera í hinni nýju stjskr., - að það eigi að tryggja mannréttindi. Ég veit ekki betur en að í núgildandi stjskr. séu ákvæði, sem eiga að tryggja mönnum það, sem hann taldi mesta nauðsyn, að tryggt væri.
Fjmrh. (Björn Ólafsson) :
Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, gerði ég ráð fyrir, að mér mundi legið á hálsi fyrir það, sem þeir kalla, að ekki sé séð fyrir fjárveitingu til verklegra framkvæmda eins og stundum áður. Hv. fulltrúi Sósfl. , Lúðvík Jósefsson, hélt fram, að fjárlfrv. sýndi enga nýja stefnu í framkvæmdum og framleiðslu eftir stríð og sýndi skilningsleysi á gildi framfaramála. Ég vil benda hv. þm. á það, að það hljóta jafnan að vera mjög ákveðin takmörk fyrir því, hve fjárlagafrv. getur markað nýja stefnu í framkvæmdum og framleiðslu fram í tímann. Á þetta ekki sízt við um þetta frv., þar sem Alþ. hefur þegar gert ráðstafanir til þess að marka stefnu í atvinnumálum eftir stríðið með því að skipa nefnd til að gera till. í þessu efni. Og flokkur hv. þm., Sósfl. , á fulltrúa í þessari n., svo að honum ætti að vera innan handar að gera þar till. um það. sem hann telur á skorta í sambandi við fjárlagafrv.
Hv. þm. Ísaf. var talsvert þungorður um það, að afnumin hafa verið framlög til hafnargerða og brúa og að „krukkað hefur verið í atvinnubótaféð,“ eins og hann orðaði það. Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst, að ekki er hægt fyrir stj. að taka í fjárl. framlög til hafnargerða og brúargerða, nema fyrir liggi málaleitan í þá átt frá réttum aðilum. Um þetta hafði stj. ekki borizt neitt. Alþingi mun venjulega hafa frumkvæðið um þetta atriði, a. m. k. að miklu leyti.
Um atvinnubótaféð er það að segja, að það virðist næstum kynlegt að veita stórfé í fjárl. til atvinnubóta á sama tíma sem eftirspurnin eftir vinnuafli í landinu er meiri en nokkru sinni hefur áður þekkzt og meiri en hægt er að fullnægja. Ég ætla ekki að fara hér út í notkun þess fjár, sem kallað er atvinnubótafé í fjárl.
En ég geri ráð fyrir, að ég geri það að umtalsefni við fjvn. Því að mínum dómi má mjög mikið um það deila, hve réttlátt er að halda uppi slíkri fjárveitingu sem þar er gert.
Sami hv. þm. ásakaði mig harðlega fyrir að láta ekki færa í fjárl. orlofsfé skrifstofufólks og starfsmanna ríkisins. Orlofsfé er fært á vegamálin og á kostnaðaráætlun landssímans fyrir verkamenn, sem þar vinna. En mér vitanlega fá fastlaunaðir starfsmenn ekkert orlofsfé, því að þeir fá orlof sitt með fullu kaupi. Ég vænti þess, að hv. þm. átti sig á þessu við nánari athugun, að ásökun hans er mjög hæpin, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í þá gagnrýni, sem þessi hv. þm. bar fram.
Hv. 2. þm. S.-M, bar einnig fram gagnrýni vegna verklegra framkvæmda. Ég vil benda þeim hv. þm. á, að það er fleira verklegar framkvæmdir en vegagerð. Það verður varla um það deilt, að þær 2 millj., sem veittar eru til áburðarverksmiðju, eru verklegar framkvæmdir.
Ég held það hafi verið sami hv. þm. sem gerði að umtalsefni vélar við vegavinnu. Ég get skýrt frá því, að vegamálastjórnin hefur tekið þetta mál til athugunar og þegar fengið nokkrar stórvirkar vélar, sem komnar eru í starf. Og það er fullur áhugi fyrir því hjá vegamálastjórninni að ná þeim vegavinnuvélum, sem nú eru til í landinu og hafa nýlega verið fluttar inn, þegar tækifæri verður til þess. Því að það er öllum ljóst, að þær vélar geta breytt mikið þeim vinnuaðferðum, sem nú eru.
Út af fyrirspurn hans um, hverju mundi nema framlag til að halda óbreyttu verði á kjöti og mjólk, þegar tillit er tekið til grundvallar, sem settur hefur verið af vísitölunefnd, skal ég taka fram, að ég er ekki tilbúinn að leggja ákveðnar tölur fram um þetta, en hygg það fé muni nema nálægt 10 millj. kr. Ég álít, að ef greiddur er mismunur á því verði, sem gert er ráð fyrir að áliti n., og því verði, sem nú er selt við á innlendum markaði, þá mundi það halda vísitölunni nokkuð óbreyttri. Ef verð innanlands á landbúnaðarafurðum ætti að hækka eins og n. ákveður, þá mundi það nema 17 stigum í vísitölu. Ef hins vegar tap bænda á útfluttu kjöti ætti að bætast við verð á innlendum markaði, mundi kjötkílóið að öllum líkindum verða að hækka upp í 11–12 kr. Og ef slíkt verð yrði á kjötinu innanlands, er líklegt, að vísitalan hækkaði um 30 stig, þ. e. að hún færi upp í 280 stig. Slíka hækkun á framleiðslukostnaði innanlands, sem af því leiddi, gæti útflutningsframleiðslan í landinu að mínu áliti alls ekki borið. Það er dýrt að greiða niður dýrtíðina, en það verður dýrara að gefa henni lausan tauminn. |
Kvikmyndin Tenet er tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár fyrir leikmyndahönnun (production design). Leikstjóri myndarinner er Christopher Nolan.
Íslendingar fá tvær tilnefningar til Óskarsverðlauna í ár, teiknimyndin Já fólkið er tilnefnd í flokki stuttteiknimynda og lagið Húsavík sem besta lagið.
Sjá einnig: Já-fólkið tilnefnd til Óskarsverðlauna
Sjá einnig: Húsavík tilnefnt til Óskarsverðlauna
En hópur íslendinga kom einnig að Tenet, eins og Eggert Ketilsson, listrænn stjórnandi við framleiðslu myndarinnar, segir í viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Eggert var yfir leikmyndadeild myndarinnar, en hann hefur áður unnið með Nolan, síðast við gerð Dunkirk, sem einnig fékk tilnefningu fyrir leikmyndahönnun. Hinar myndirnar voru Interstellar og Batman Begins, sem báðar voru að hluta teknar upp á Íslandi.
Í ljós kom að Bretar réðu ekki við umfang Tenet og því voru Eggert og íslensk áhöfn hans kölluð til. „Í þessu tilfelli, fyrir þessa mynd, kom upp sú staða að Bretarnir og heimamenn sem voru að vinna við myndina réðu ekki við umfangið þannig að mig vantaði mannskap. Mig vantaði áhöfn, bara einn tveir og þrír,“ segir Eggert í viðtali við Síðdegisútvarpið. „Það sem er svo einstakt hér á Íslandi er að þú getur hringt í menn og fengið þá innan 24 tíma og það gerðist. Ég fékk áhöfn til Tallinn og svo vindur þetta upp á sig. Nolan þekkir íslenska kvikmyndagerðarmenn og leikmyndamenn og kann ákaflega vel við þá. Hann segir að það sé aldrei vesen með Íslendingana, það er viss heiðarleiki í vinnumennskunni og hlutirnir látnir gerast,“ segir Eggert, sem segir skemmtilegt og gefandi að vinna með Nolan.
„Hann vinnur á gamlan máta og tekur allt upp á filmu og gerir mikið af leikmyndum og tæknibrellurnar gerðar á staðnum. Það eru mikil forréttindi að vinna með honum á þessum stafrænu tímum.“
Auk Eggerts störfuðu Hallur Karl Hinriksson og Steingrímur Þorvaldsson sem áferðarmálarar og við smíðar og uppsetningu störfuðu Gunnar Kvaran, Freyr Ásgeirsson, Stígur Steinþórsson og Jón Andri Guðmundsson.
Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér. |
Fyrrverandi eigendur Húsasmiðjunnar hafa stefnt viðskiptafræðingi fyrir meiðyrði meðal annars fyrir að hafa notað um þá nýyrðið féfletta til aðgreiningar frá fjárfestum. Þeir segja staðhæfingar um féflettingu algjörlega staðlausar.
Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, hefur skrifað allmargar greinar um aðdraganda hrunsins og afleiðingar. Í einni slíkri í sumarlok notar hann nýyrðið féflettir ítrekað.
Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur: Sem er svona svipað eins og fjárfestir til aðgreiningar frá fjárfesti því að fjárfestir það er sá sem setur fé í atvinnufyrirtæki og skapar heimilum og fjölskyldum viðurværi og það er sæmdarheiti.
Viðskiptafélagarnir Árni Hauksson og Friðrik Hallbjörn Karlsson stefndu Ragnari fyrir þessa grein og aðra til þar sem Ragnar sakar þá um að hafa eignast Húsasmiðjuna á sínum tíma án þess að leggja fram nokkurt eigið fé, hlaðið hana skuldum og síðan tekið á fyrirtækinu nokkra snúninga og greitt sjálfum sér stórfelldan arð. Félagarnir segja þetta ósannar aðdróttanir og krefjast þess að þessi fyrirsögn verði dæmd ómerk sem og stór hluti greinanna. Þá krefjast þeir allt að tveggja ára fangelsisdóms yfir Ragnari og miskabóta. Ragnar játar því að þeir hafi ekki verið dæmdir fyrir lögbrot í fjárfestingum sínum en kennir því um að stjórnvöld hafi ekki sinnt eftirlitsskyldum með brotum á hlutafélagalögum.
Ragnar Önundarson: Þeir hafa ekki fylgt eftir skýlausu banni Evrópska efnahagssvæðisins alls um að fyrirtæki veiti aðstoð við að kaup sjálft sig. Þetta er margbrotið á Íslandi og hefur verið látið afskiptalaust árum saman og kannski í heilan áratug.
Fréttastofa hafði samband við lögmann þeirra sem stefna Ragnari en hann taldi ekki ástæðu til að tjá sig um málið í fjölmiðlum. Ærumeiðingarstefnan var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. |
Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður telur tekjur ríkisins af virðisaukaskatti á eldsneyti hafa aukist um um það bil 600 milljónir króna vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna. Hún telur nauðsynlegt að framkvæmd verði úttekt á því hve mikið af því sem hún kallar ránsfeng olíufélaganna hafi runnið inn í ríkissjóð. Í þjóðfélaginu sé kallað eftir því að olíufélögin skili ránsfengnum til baka og komið verði í veg fyrir að olíufélögin láti almenning standa straum af sektargreiðslum sínum í hærra verið á vöru og þjónustu olíufélaganna. Sömu kröfu verði að gera til ríkisvaldsins. Jóhanna var málshefjandi í umræðu utan dagskrár um þetta mál á Alþingi í dag. Geir Hilmar Haarde, fjármálaráðherra var til andsvara. Hann sagði hag ríkissjóðs nátengdum högum fólksins í landinu.
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra: Ríkissjóður hefur ekki haft neinn hag af háu olíuverði, þvert á móti hefur það aukið rekstrarkostnað ýmissa ríkisstofnana og hækkað almennt verðlag. Málflutningur þingmannsins stenst ekki. Skýrsla Samkeppnisstofnunar um meint samráð olíufélaganna er grafalvarlegt mál, eins og áður hefur verið rætt hér á Alþingi, en kenningar þingmannsins sem að hér hafa verið reyfaðar gera lítið úr alvöru málsins.
Umræðan stendur enn yfir en meðal þeirra sem tekið hafa til máls er Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna. Hann efast um að hægt sé að tala um mikinn gróða ríkissjóðs af hinu ólögmæta samráði olíufélaganna, þótt tekjur af virðisaukaskatti kynnu að hafa aukist þá hafi kostnaður á öðrum sviðum gert það líka. Í það minnsta væri þar um inn- og útstreymi úr sameiginlegum sjóði að ræða. Eðlilegt væri þó að ræða þessi grafalvarlegu mál frá öllum hliðum á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna: Skaðinn í atvinnulífinu verður aldrei bættur til fulls. Hversu mikið betur stæðu ýmsar greinar atvinnulífs, til dæmis stærsti viðskipta, einstaki viðskiptavinur olíufélaganna sjávarútvegurinn, ef þeir hefðu haft þá fjármuni handa á millum sem olíufélögin hafa ranglega af þeim tekið á undanförnum árum? Og muna menn ekki þá tíma að olíufélögin voru áskrifendur af myndarlegum hagnaði á hverju einasta ári, jafnvel á mestu erfiðleikatímum sjávarútvegsins? Þar sá aldrei högg á vatni. |
Íslensk stjórnvöld hafa til skoðunar varnaráætlun sem Bandaríkjamenn hafa lagt til grundvallar í viðræðum um skipan varnarmála á Íslandi. Geir H. Haarde forsætisráðherra, sem stýrir viðræðunum fyrir Íslands hönd, sagðist eiga von á því að samkomulag milli þjóðanna tveggja myndi nást fyrir septemberlok, en þá er áætlað að varnarliðið verði farið af landi brott. „Ég geri ráð fyrir því að fallist verði á varnaráætlunina, ef það næst samkomulag um málið í heild."
Geir kynnti í gær fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, hvaða tillögur hefðu komið fram í varnarviðræðunum. „Þetta mál er í viðræðuferli. Í síðustu viku fóru fram viðræður þar sem meðal annars var farið yfir varnaráætlun sem lögð hefur verið til grundvallar af hálfu Bandaríkjamanna. Einnig var rætt um önnur atriði sem lúta að viðskilnaði Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og hvernig gengið verður frá þeim málum."
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa heimildir fyrir því að Bandaríkjamenn hefðu boðið Íslendingum 36 milljónir dollara, eða 2,5 milljarð króna, fyrir að hafa umsjón með fasteignum tengdum Atlantshafsbandalaginu á Miðnesheiði. Geir segir þessar upplýsingar rangar. „Ég kannast ekki við þessar upplýsingar sem Össur kom fram með, eða þá fjárhæð sem hann nefndi. Þessi orð Össurar komu okkur sem vinnum að þessum viðræðum í opna skjöldu og hann einn getur svarað fyrir það hvaðan hann fær þessar upplýsingar."
Össur segist hafa traustar heimildir fyrir þessum upplýsingum og dregur í efa að boðleiðir innan ráðuneytis Geirs hafi náð til hans. „Ég dreg það ekki í efa, ef Geir segist ekki hafa heyrt af þessu tilboði, því ég þekki Geir ekki af öðru en að hann segi satt og rétt frá. Viðbrögð hans vekja hins vegar hjá mér spurningar um boðleiðir í utanríkisráðuneytinu, sem hann stýrði. Heimildir sem ég treysti, og ofbuðu þau vinnubrögð sem stjórnvöld hafa beitt í samningaviðræðunum, greindu mér frá því að Bandaríkjamenn hefðu óformlega fyrr á árinu, viðrað við Íslendinga að þeir væru tilbúnir til þess að greiða Íslendingum 36 milljónir dollara fyrir að sjá um ákveðin verkefni sem litu að umsjón og viðhaldi á fasteignum
Atlantshafsbandalagsins. Hvernig sem því var komið á framfæri við íslensk stjórnvöld er óhjákvæmilegt annað en að formaður viðræðunefndarinnar hafi vitað af því."
Össur segir útreikninga, sem að baki tilboðinu liggja, hafa verið afhenta utanríkisráðuneytinu fyrr á þessu ári.
„Ég veit hins vegar að upphæðin var niðurstaða útreikninga sem Bandaríkjamenn létu framkvæma, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þetta væri kostnaðurinn við þessi tilteknu verk. Frá sömu heimildum hef ég það, að blöð með þessum útreikningum hafi verið afhent utanríkisráðuneytinu, ekki síðar en í maí eða júní á þessu ári. Ég hef nefnt þessa tölu við háttsetta embættismenn sem hafa kannast við þessa tölu." |
S, I og B voru sakfelldir fyrir líkamsárás með því að hafa sameiginlega veist harkalega að A, slegið hann ítrekað í höfuð og andlit þannig að hann féll í jörðina þar sem ákærðu börðu og spörkuðu í A, meðal annars í höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði og hlaut ýmis meiðsli. I og B kröfðust fyrir Hæstarétti ómerkingar héraðsdóms, þar sem í forsendum dómsins hafði ákærðu verið gert að greiða A 814.831 krónu ásamt vöxtum en í dómsorði var á hinn bóginn ekkert ákvæði um þessa kröfu. Ekki þóttu efni til að ómerkja héraðsdóm enda hefði enginn vafi leikið á því að S, I og B hefði með dóminum verið gert að greiða A skaðabætur og gat vörn þeirra fyrir Hæstarétti ekki orðið áfátt af þessum sökum. Með játningu S og framburðum vitna og I og B þótti fram komin sönnun um að S hefði ráðist á A með höggum og spörkum á þann hátt sem í ákæru greindi. Þá þótti ennfremur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hefðu allir í meira eða minna mæli tekið þátt í árásinni á A í greint sinn. Yrði hlutur hvers þeirra ekki greindur sérstaklega heldur þótti verða við það að miða að þeir hefðu sameiginlega ráðist á A. Var brot S, I og B talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var S dæmdur í 8 mánaða fangelsi, I í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi og B í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Michael Styrsson, Kristinn Steinólfsson og Hjálmar Sigurharðarson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
A krefst þess að ákærðu verði gert að greiða sér 1.395.676 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2007 til 7. febrúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði Snorri Bergjónsson krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Ákærði Trausti Sölvi Guðmarsson krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður og skaðabótakröfu vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.
Ákærði Mikael Elías Rósinantsson krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður og skaðabótakröfu vísað frá héraðsdómi.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms var meðal annars tekin afstaða til einkaréttarkröfu, sem A hafði uppi óskipt á hendur ákærðu, og komist þar að þeirri niðurstöðu að ákærðu bæri að greiða honum 814.831 krónu „ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði.“ Í dómsorði var á hinn bóginn ekkert ákvæði um þessa kröfu, en í greinargerðum til Hæstaréttar krefjast ákærðu Jósef Jóasarson og Ívar Briansson ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þessum grunni. Eftir að þessar kröfur ákærðu voru fram komnar sendi héraðsdómari ríkissaksóknara bréf 29. september 2009, þar sem tilkynnt var að komið hafi í ljós „bersýnileg villa“ í dómsorði hins áfrýjaða dóms með því að þar hafi fallið niður að greina frá niðurstöðu um fyrrnefnda einkaréttarkröfu og hafi villan verið leiðrétt með heimild í 3. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með bréfinu fylgdi jafnframt nýtt endurrit úr dómabók, þar sem ákvæði um kröfuna hafði verið bætt í dómsorð. Samkvæmt 3. mgr. 183. gr. sömu laga skulu niðurstöður máls dregnar saman í dómsorði. Þótt það hafi ekki að þessu leyti verið gert í dóminum, sem héraðsdómari lét í upphafi frá sér fara, var í forsendum hans tekin afstaða til einstakra liða í einkaréttarkröfunni og komist að niðurstöðu um fjárhæð hvers liðar, sem síðan var dregin saman eins og áður greinir. Verjendur ákærðu Þorkels Sophaníassonar og Friðriks Valdemarssonar sendu ríkissaksóknara 28. og 29. apríl 2009 efnislega samhljóða tilkynningar um áfrýjun héraðsdóms, þar sem sagði meðal annars að þeim hafi verið gert ásamt öðrum ákærðu „að greiða skaðabætur samtals kr. 814.831, auk vaxta.“ Af hálfu ákærða Arnþórs sendi skipaður verjandi hans í héraði yfirlýsingu um áfrýjun héraðsdóms til ríkissaksóknara 4. maí 2009, þar sem vísað var til þess að með dóminum hafi Arnþór verið dæmdur ásamt öðrum ákærðu til að greiða A „skaðabætur að fjárhæð kr. 814.831.- ásamt ótilgreindum vöxtum.“ Lögmaður sá, sem síðar var skipaður verjandi ákærða Þorgeirs fyrir Hæstarétti, sendi ríkissaksóknara aðra tilkynningu um áfrýjun 6. maí 2009, þar sem tekið var fram að „áfrýjun málsins lýtur ekki að bótaþætti enda var ákærði í dómsorði ekki dæmdur til greiðslu skaðabóta. Fram kemur í niðurstöðukafla dómsins að ákærðu eru dæmdir til greiðslu skaðabóta en þess er hins vegar í engu getið í dómsorði.“ Þótt með þessu hafi verið vakin athygli á þeirri misfellu, sem var á dómsorði hins áfrýjaða dóms, verður að gæta að því að þessi yfirlýsing um áfrýjun var í raun óþörf vegna fyrri tilkynningar og því ekki efni til að ætlast til að frekar yrði litið til hennar. Í öðrum tilkynningum ákærðu um áfrýjun lék enginn vafi á því að þeim hafi með héraðsdómi verið gert að greiða 814.831 krónu í skaðabætur ásamt vöxtum og gat vörn þeirra fyrir Hæstarétti ekki orðið áfátt af þessum sökum. Þótt leiðrétting héraðsdóms hafi ekki borist fyrr en raun varð á og þá fyrst komið nánar fram hvernig færi um vexti af skaðabótunum áttu ákærðu kost á að hreyfa athugasemdum um það atriði málsins við munnlegan flutning þess fyrir Hæstarétti. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeirri leiðréttingu, sem héraðsdómari hefur gert á dómsorði og getið er um hér að framan.
Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærðu, Arnþór Sigurðarson, Ögn Sigurður Jónbjörnsson og Ari Matthías Jörgensson, greiði hver fyrir sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, hæstaréttarlögmannanna Snæbjörns Þórðar Víðissonar, Tómasar Indriða Ákasonar og Steins Geirssonar, 311.250 krónur í hlut hvers. Ákærðu greiði í sameiningu annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 152.528 krónur, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Loga Rúdólfssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur. |
Tökum lauk nú síðdegis á 35. og síðasta þættinum af Lazy Town eða Latabæ sem Magnús Scheving og hans fólk tóku að sér að gera fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina Nickelodeon. Í febrúar hefjast síðan viðræður við Paramont kvikmyndaverið um gerð bíómyndar.
Magnús Scheving, forstjóri Latabæjar: Við vorum að klára núna eftir 256 daga og síðasti þátturinn og erum að skila honum síðan í mars, þannig að við ætlum að klára eftirvinnsluna, það eru svona þrír, það eru svona tveir mánuðir eftir í eftirvinnslu.
Ari Sigvaldason: En hvað með framhaldið, verða fleiri þættir?
Magnús Scheving: Ja það er búið að biðja um fleiri þætti og það er, við erum svona að skoða stöðuna og aðeins að ná okkur eftir þessa törn, það er búnir að vera 18 tímar í vinnu, nánast, stanslaust hjá mér í eitt ár, alla daga vikunnar. Þannig að núna sem framundan er er svefn númer, eitt, tvö og þrjú og sinna fjölskyldunni og síðan förum við að tala við Paramont Pictures sem hafa sýnt mikinn áhuga á að gera kvikmynd 2007. Þannig að við ætlum að fara til þeirra núna í febrúar og tala við þá.
Lazy Town er nú annar vinsælast þátturinn á Nick Junior stöðinni. Framkvæmdastjóri stöðvarinnar segir miklar vinsældir þáttarins hafa komið nokkuð á óvart, en hvað varð til þess að hún ákvað að veðja á Magnús og félaga?
Brown Johnson, framkvæmdastjóri Nick Jr.: Ég hafði alltaf trú á Magnúsi því hann er merkilegur maður. Hvernig gat ég sagt nei við mann sem fór í splitt á skrifstofunni minni? Hann hefur búið til frábæran sjónvarpsþátt. |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, deildu um aðkomu ríkisins að sölu Arion banka, í viðræðum á Alþingi síðdegis. Sigmundur gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að nýta sér ekki forkaupsrétt að bankanum þegar vogunarsjóðir keyptu hann. Bjarni svaraði því til að forkaupsrétturinn ætti ekki við þar sem verðið var ofan þess viðmiðs fyrir forkaupsréttinum sem samþykkt var í stjórnartíð hans og Sigmundar.
Formenn flokkanna á Alþingi hafa í dag flutt ræður um stöðuna í stjórnmálum og verkefnin framundan. Þetta er gert í fyrsta sinn á fyrsta degi eftir að þing kemur saman að loknu jóla- og áramótahléi á þingfundum.
Geti gert betur fyrir þau verst stöddu
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lagði í ræðu sinni áherslu á að draga úr misskiptingu í samfélaginu. Hann sagði að stríð og misrétti væri birtingarmynd misskiptingarinnar á heimsvísu. Það er tilgangslaust að berjast sífellt gegn birtingarmyndinni en gera ekkert til að vinna á orsökunum, sagði Logi. Hann sagði að Ísland sé ríkt land og að á einstöku hagvaxtarskeiði ætti að vera hægt að gera miklu betur en áður í að bæta stöðu þeirra verst stöddu. Hann sagði stefnu ríkisstjórnarinnar geta aukið á misskiptingu og spurði hvort það væri virkilega vilji Vinstri-grænna.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort Logi vildi hámarka veiðigjöldin sem mest, og þar með afnema lög um hámarkshlutdeild sjávarútvegsfyrirtækja i kvótanum. Hann sagði að með auknum veiðigjöldum væri nauðsynlegt að fækka sjávarútvegsfyrirtækjum og stækka þau. Logi sagðist fyrst og fremst vilja að þjóðin fái hærri afgjöld af sameiginlegum auðlindum sínum. Hann spurði hvers vegna önnur lögmál ættu að gilda um sjávarútvegsfyrirtæki en annan atvinnurekstur, hvort það væri ekki í lagi þótt einhver útgerðarfyrirtæki færu á hausinn. Óli Björn sagði að stefna Samfylkingarinnar myndi fyrst og fremst koma niður á byggðarlögum, ekki síst í kjördæmi formanns Samfylkingarinnar. |
Sérlega fallegum og áhrifamiklum tunglmyrkva á fullu tungli, ásamt svokölluðum blóðmána, þar sem blóðrauðum lit slær á tunglið meðan á myrkvanum stendur, lauk um klukkan fimm í morgun. Reikna má með að þúsundir Íslendinga hafi fylgst með mánanum roðna og milljónir manna á vesturhveli jarðar.
Nú glottir máninn aftur til okkar, fullur og hátt uppi, og nær jörðu en á öðrum tíma árs. Hann er nú laus við bæði skugga jarðar og roðabjarmann sem á hann sló í hálfa aðra klukkustund milli klukkan tvö og hálffjögur, en í allt stóð þetta ferli yfir í um fimm klukkustundir, frá miðnætti og fram undir klukkan fimm. Sævar Helgi Bragason, formaður stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sagði þetta hafa verið einstaklega vel heppnaðan tunglmyrkva og blóðmána.
„Já þetta var bara alveg gullfallegt og með því fegurra sem ég hef séð hingað til. Mistrið og skýin settu svolítið skemmtilegan svip á þetta allt saman, þannig að ég er bara hæstánægður," sagði Sævar í samtali við fréttamann, um það leyti sem síðasti skugginn var að hverfa af ásjónu mánans um fimmleytið. Hann sagðist ekki hafa heyrt í mörgum félögum sínum enn, en þeir sem hann hefði heyrt í væru sammála um að þetta hafi verið alveg einstaklega glæsilegt.
„Það var einhver svona kyrrlát fegurð yfir þessu sem var mjög gaman að upplifa. Og eftir því sem ég hef heyrt eru allir rosalega ánægðir," sagði Sævar. Þetta samspil tungls, jarðar og sólar bauð upp á magnaða sýningu, en hefur það nokkur bein áhrif á nokkurn skapaðan hlut annan en sálarlífið í okkur mannfólkinu? Sævar telur svo ekki vera. „Nei, ætli það. Ætli það sé ekki bara fegurðin sem við verðum vör við. Það eru einu áhrifin sem þetta getur haft á okkur."
Myrkvinn í nótt sást frá allri næturhlið Jarðarinnar, það er þeim hluta hennar þar sem nótt ríkti þegar jörð gekk milli tungls og sólar. Íbúar í stórum hluta Norður- og Suður-Ameríku, allri Evrópu og meirihluta Afríku fengu því að njóta sjónarspilsins. Næsti almyrkvi á tungli verður helst sýnilegur frá Kyrrahafseyjum ýmsum og Asíulöndum árið 2018. Næsti almyrkvi sem sést frá Íslandi verður hins vegar þann 21. janúar 2019. Þar verður reyndar ekki um ofurmána að ræða, þ.e. ekki fullt tungl í mestu jarðnánd eins og í nótt, en Sævar á ekki von á að það verði neitt minna stórkostlegt fyrir það. |
Við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri þess er lögð áherzla á að varðveita stöður yfirmanna og búa til nýjar í staðinn fyrir þær, sem greinilega urðu óþarfar. Eftir breytingarnar eru þar 27 yfirmenn og hefur þeim fækkað um sex.
Á sama tíma eru á borðinu tillögur um að fækka starfsmönnum Sjúkrahúss Reykjavíkur um 96. Það nægir þó ekki til að mæta samdrætti í fjárveitingum til spítalans. Enn eru ekki til neinar tillögur um, hvernig gatinu verði lokað, þótt liðinn sé rúmlega mánuður af fjárhagsárinu.
Rekstrarfræðilega er ástæða til að draga í efa, að sameinað sjúkrahús þurfi nærri eins marga yfirmenn og tveir spítalar þurftu áður samanlagt. Enn frekar er ástæða til að draga það í efa, þegar starfsemi hins sameinaða sjúkrahúss er minnkuð og sumar deildir aflagðar.
Ætla má, að sjúkrahúsinu nægi um 15-20 yfirmenn í stað 27, þegar búið er að sameina reksturinn og skera hann niður í þær fjárhæðir, sem það hefur til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum ríkisins. Ráðamenn þess telja hins vegar nauðsynlegt að vernda silkihúfurnar.
Sjúkrahús Reykjavíkur er ekki einstætt tilvik. Þegar opinber fyrirtæki þurfa að draga saman seglin, dettur ráðamönnum yfirleitt fyrst í hug að fækka ræstingarfólki og síðast í hug að fækka yfirmönnum. Þetta er bara ein myndbirting vaxandi stéttaskiptingar í landinu.
Mismunun af þessu tagi er ekki aðeins ósiðleg, heldur einnig óhagkvæm. Hún leiðir til aukins klofnings milli yfirmanna og undirmanna og dregur úr áhuga undirmanna á að leggja hönd á plóginn, þegar taka þarf á til að halda fyrirtækinu á floti í lífsbaráttunni.
Í opinberum rekstri skortir oft skilning starfsmanna á hagkvæmni í rekstri. Þeir líta sumir á vinnustaðinn sem eins konar lífsstíl, en ekki sem fyrirtæki, er þurfi að samræma útgjöld og tekjur. Til að framkalla skilning starfsmanna þurfa yfirmenn einnig að bera byrðar.
Þessa hefur ekki verið gætt við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri hins nýja spítala. Yfirstjórn hans hefur af töluverðri hugkvæmni teiknað ný skipurit, sem gera ráð fyrir, að útvegaðar séu hillur handa nærri öllum stjórnendum.
Þetta vekur auðvitað athygli undirmanna, sem bíða nú eftir uppsagnarbréfum, og hefur áreiðanlega áhrif á vinnuframlag sumra þeirra. Ef yfirmannastéttin hefði gengið á undan með góðu fordæmi, væri auðveldara fyrir undirmennina að sætta sig við samdráttinn.
Aðstæður eru alltaf að breytast. Það er gangur lífsins. Þau tímabil koma stundum í rekstri fyrirtækja eða stofnana, að tekjurnar dragast saman. Þetta er það sama og kemur fram í rekstri heimila, þegar illa árar í þjóðfélaginu. Þá þarf fólk að laga útgjöld sín að tekjum.
Flestum heimilum tekst að ná jafnvægi á nýjan leik og sömuleiðis mörgum fyrirtækjum, enda færu þau ella á hausinn. Í opinberum rekstri gengur hins vegar ekki eins vel að ná þessum árangri, því að samhengið er þar ekki eins greinilegt milli tekna og afkomu.
Sjúkrahús Reykjavíkur á við að stríða mikla erfiðleika, sem eru hliðstæðir vandræðum fyrirtækja, er ramba á barmi gjaldþrots. Tillögurnar um samdrátt í rekstri eru sársaukafullar fyrir starfsfólk, en nægja þó ekki til að koma rekstri spítalans í þolanlegt horf.
Slíkar aðstæður leyfa ekki verndun á silkihúfum. Stjórn spítalans ber að skera hlutfallslega meira niður í stjórnunarstöðum hans en í starfsmannahaldinu.
Jónas Kristjánsson
DV |
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er vægast sagt fúll út í enska knattspyrnusambandið fyrir að láta liðið spila með tveggja sólarhringa millibili.
Liverpool mætir Chelsea í fjórðungsúrslitum enska deildabikarsins þann 29. nóvember, aðeins tveimur dögum eftir mikilvægan leik gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.
„Það er algjör hneysa að leikmenn skuli vera beðnir um að spila lykilleik í ensku úrvalsdeildinni og svo aftur í deildabikarnum 48 klukkustundum síðar," sagði Dalglish við enska fjölmiðla.
„Ef yfirvöld vilja gengisfella eigin keppnir þá er það þeirra mál. En það ætti ekki að koma þeim á óvart ef þessi keppni verði notuð til að leyfa ungum leikmönnum að öðlast reynslu."
„Ég ætla alla vega að segja stuðningsmönnum okkar að hugsa sig vandlega um áður en þeir kaupa sér miða á leikinn gegn Chelsea. Við viljum ekki að þeir eyði pening í miðakaup þegar við erum neyddir til að nota unga leikmenn."
„Svo er City í svipaðri stöðu vegna leiks liðsins við Arsenal. Það er semsagt verið að fara mjög illa með lið sem hafa tekið þessa keppni mjög alvarlega síðustu tvö árin."
„Liverpool og City eru bæði reiðubúin að færa leik okkar fram til laugardagsins. En okkur er sagt að það sé ekki hægt vegna sjónvarpsútsendingarinnar." |