Title
stringlengths
15
17
Keywords
stringlengths
3
181
Summary
stringlengths
74
3.53k
Text
stringlengths
125
8.04k
Mál nr. 79/2009
Kærumál Málskostnaðartrygging
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu A um að B yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli, sem B hafði höfðað á hendur A. Talið var að hvorki væri fullnægt skilyrðum a. liðar né b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til að verða við kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu, sem hún hefur höfðað á hendur honum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 1.500.000 krónur, en til vara að „úrskurðinum verði vísað aftur heim í hérað“. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt héraðsdómsstefnu er varnaraðili, sem kveðst vera kúbanskur ríkisborgari, með heimili á nánar tilteknum stað í Reykjavík og hefur hún íslenska kennitölu. Í málinu liggur meðal annars fyrir staðfest ljósrit af skattframtali varnaraðila á árinu 2008, þar sem sömu upplýsingar koma fram ásamt því að lögheimili hennar sé í Reykjavík. Þá er staðhæft í héraðsdómsstefnu að varnaraðili hafi atvinnu hjá nafngreindu fyrirtæki og liggur fyrir staðfesting frá tollstjóranum í Reykjavík á því að það hafi á átta mánaða tímabili fram að því að mál þetta var höfðað staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna varnaraðila. Ekki hafa verið lögð fram gögn í málinu, sem gefa til kynna að hún sé ógjaldfær. Samkvæmt þessu er hvorki fullnægt skilyrðum a. liðar né b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til að verða við kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu, en fyrir varakröfu hans hafa ekki verið færð fram rök, sem varðað geta skyldu varnaraðila til að setja slíka tryggingu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 80/2009
Kærumál Hald Skjal Trúnaðarskylda lögmanns
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem Ríkislögreglustjóra var heimilað að leggja hald á nánar tilgreind skjöl. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ekki hefði verið sýnt fram á að umrædd skjöl hefðu að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns um einkahagi hans. Væri því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja hald á nánar tilgreinda kaupsamninga, fylgigögn og yfirlit um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins fram kemur í hinum kærða úrskurði rannsakar lögregla sölu eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á flugvélum til tilgreindra félaga. Beinist rannsóknin meðal annars að meintum fjársvikum og fjárdrætti. Af gögnum málsins má ráða að lögregla telji varnaraðila hafa í vörslum sínum afrit af kaupsamningum vegna sölu á flugvélunum. Varnaraðili hefur andmælt framkominni kröfu á grundvelli sjónarmiða um trúnaðarskyldu lögmanns við skjólstæðing. Um þetta vísar hann einkum til 1. mgr. 68. gr. og b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá vísar hann einnig um trúnaðarskyldu þessa til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, siðareglna lögmanna og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess telur hann að líta beri til 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sem og 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Samkvæmt 2. málslið ákvæðisins er hins vegar óheimilt að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til. Í máli þessu er um að ræða skjöl sem ætla má að veiti lögreglu upplýsingar eða hafi sönnunargildi við rannsókn máls. Er lögreglu því skylt að afla slíkra skjala við rannsókn þess samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laganna. Í samræmi við 2. málslið ákvæðisins kemur til athugunar hvort ákvæði 2. mgr. 119. gr. laganna standi þessari kröfu í vegi. Þar segir meðal annars í b. lið að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir í starfi sem lögmaður. Við úrlausn málsins ber að líta til þess að krafa sóknaraðila beinist að samningum sem skjólstæðingur varnaraðila hefur með aðstoð hans gert við þriðja mann og gögnum sem varða efndir þess samnings. Ekki hefur verið sýnt fram á að umrædd skjöl hafi að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns um einkahagi sína. Er því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður heldur ekki talið að tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár standi þessari niðurstöðu í vegi. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 69. gr. sömu laga að dómurinn ákveði með úrskurði haldlagningu eftirtalinna kaupsamninga, fylgigagna og yfirlita yfir ráðstöfun greiðslna, sem eru í vörslum lögmannsstofunnar Logos lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík: Kaupsamningur varðandi vélina MSN3005, seljandi Hópsnes en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. Í greinargerð lögreglu kemur fram að hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglu­stjóra sé til rannsóknar mál er lúti að Eignarhaldsfélaginu City Star Airlines ehf. og kæru á hendur ofangreindum Ómari Benediktssyni, fyrrum stjórnarmanni félagsins, Rúnari Árnasyni fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og Atla Árnasyni fyrrum starfandi stjórnarformanni félagsins. Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Málið varði meint fjársvik og fjárdrátt í sambandi við sölu og kaup flugvélarinnar TF-CSD og ólöglega meðferð fjármuna félagsins. Málið lúti að rannsókn á sölu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á flugvél til Roxane Holdings Limited á Bresku Jómfrúreyjum. Einnig að sölu fjögurra sambærilegra flugvéla sem virðast hafa verið seldar saman til Aircraft Asset Management AAM GmbH & CoKG og ofangreindir kaupsamningar fjalli um. Tvær af flugvélunum hafi verið eigu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., sú þriðja í eigu Roxane Holdings Limited og hafi hún áður verið keypt af eignarhaldsfélaginu. Fjórða flugvéin hafi verið í eigu Hópsness ehf., sem sé félag í eigu eins af stjórnarmönnum eignarhaldsfélagsins og fjölskyldu hans. Grunur leiki á að við sölu flugvélanna til ofangreinds aðila hafi söluverð flugvélanna tveggja í eigu eignarhaldsfélagsins verið óeðlilega lágt miðað við verðmæti og verð hinna tveggja flugvélanna. Þannig hafi verðgildi flugvélanna í eigu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. verið rýrt við söluna til verðaukningar á flugvélunum í eigu hinna tveggja aðilanna til tjóns fyrir eignarhaldsfélagið og síðar þrotabú þess. Lögmaðurinn sem hafi haft umsjón með sölunni á ofangreindum flugvélum hafi neitað að afhenda efna­hags­brotadeild ofangreinda kaupsamninga. Í ljósi ofangreinds og fyrir framgang rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að fara fram á haldlagningu nefndra kaupsamninga. Með vísan til þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi rannsóknargagna, verður að ætla að kaupsamningar þeir sem hér um ræðir og krafist er haldlagningar á hafi sönnunargildi í máli því sem til rannsóknar er hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Verður því að telja að uppfyllt séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfu ríkislögreglustjóra um haldlagningu samkvæmt 1. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ekki verður talið, eins og atvikum máls er háttað, að ákvæði b liðar 2. mgr. 119. gr. laganna sé þeirri niðurstöðu til fyrirstöðu með tilliti til trúnaðarskyldu lögmanna, eins og byggt var á af hálfu varnaraðila í málflutningi. Krafan verður því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Ú R S K U R Ð A R O R Ð : Ríkislögreglustjóra er heimil haldlagning eftirtalinna kaupsamninga, fylgi­gagna og yfirlita yfir ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum lögmannsstofunnar Logos lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík: - Kaupsamningur varðandi vélina MSN3005, seljandi Hópsnes en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. - Kaupsamningur varðandi vélina MSN3006, seljandi Roxane en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. - Kaupsamningur varðandi vélarnar MSN3091 og TF-CSB/MSN3093, seljandi er ECSA en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.
Mál nr. 75/2009
Kærumál Þjóðlenda Frávísunarúrskurður felldur úr gildi Gjafsókn
Sóknaraðilar höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu og kröfðust ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 6/2004 að því leyti sem úrskurðurinn snerti eignarjörð þeirra LS. Þá kröfðust D og K jafnframt viðurkenningar á mörkum þjóðlendu við heimaland jarðarinnar LS, miðað við tiltekna línu sem var önnur en fólst í úrskurði óbyggðanefndar. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi með vísan til þess að óbyggðanefnd hefði með úrskurði sínum tekið afstöðu til deilu sóknaraðila og O, eigenda nærliggjandi jarða, og nefndina hefði skort vald til að taka þá afstöðu. Í dómi Hæstaréttar, sem felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi, kemur fram að fyrrgreind afstaða héraðsdóms gæti ekki leitt til frávísunar málsins enda væri þar gerð efnisleg krafa um ógildingu úrskurðarins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. janúar 2009, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsaðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Sóknaraðilar krefjast kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt, en varnaraðili krefst þess að kærumálskostnaður verði felldur niður. Sóknaraðilar stefndu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir héraðsdóm til réttargæslu. Réttargæslustefndi hefur ekki látið kærumál þetta til sín taka. Mál þetta var höfðað fyrir Héraðsdómi Suðurlands með stefnu birtri varnaraðila 14. desember 2006. Stefnendur kröfðust ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar 31. maí 2006 í máli nr. 6/2004 að því leyti sem úrskurðurinn snerti land Litla Saurbæjar í Ölfusi en sóknaraðilar eru eigendur jarðarinnar. Þá kröfðust þeir viðurkenningar á mörkum þjóðlendu við heimaland Litla Saurbæjar miðað við tiltekna línu sem er önnur en fólst í úrskurði óbyggðanefndar. Varnaraðili krafðist sýknu af þessum kröfum. Í hinum kærða úrskurði er talið að óbyggðanefnd hafi með úrskurði sínum tekið afstöðu til deilu milli sóknaraðila og réttargæslustefnda og að nefndina hafi skort vald til að taka þá afstöðu. Þar sem nefndin hafi „ekki kveðið upp lögmætan úrskurð á grundvelli þjóðlendulaga að því er þetta umdeilda svæði varðar“ verði ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi þó að ekki hafi verið gerð krafa um það. Málsaðilar eru sammála um að afstaða héraðsdóms til þessa atriðis geti ekki valdið frávísun málsins frá dómi, enda sé þar gerð efnisleg krafa um ógildingu úrskurðarins. Fallist verður á með málsaðilum að nefndur rökstuðningur héraðsdóms geti ekki leitt til frávísunar málsins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar. Miðað við þessa niðurstöðu eru ekki efni til að Hæstiréttur taki afstöðu til álits héraðsdóms á valdsviði óbyggðanefndar í máli nr. 6/2004. Kærumálskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður sóknaraðila í kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði og ákveðst eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar efnislegrar meðferðar og dómsálagningar. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, dánarbús Sverris Jónssonar og Kristjáns Jónssonar, 200.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 86/2009
Kærumál Kæra Frávísun frá Hæstarétti
Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess í greinargerð til Hæstaréttar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 20. febrúar 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hans, að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbókina í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið, sbr. sama lagaákvæði. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir dóminum, að X kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, en dvalarstað að [...], Reykjavík, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009, kl. 16.00. Í greinargerð lögreglustjóra segir að þann 19. febrúar sl. um kl. 15:16 hafi lögregla fengið tilkynningu um að maður hefði verið numinn á brott af heimili sínu með valdi frá Y í Keflavík og að árásarmennirnir hefðu verið á bifreiðinni Z. Þegar lögreglu hafi borið að í Y hafi augljóslega mikið gegnið þar á, munir hafi verið á víð og dreif og sumir þeirra skemmdir eða brotnir. Hafi í upphafi málsins komið upp rökstuddur grunur um að brotthvarf hins ætlaða brotaþola tengdist innheimtu á gamalli skuld hans vegna ætlaðra fíkniefnakaupa. Hefðu þessar upplýsingar verið kallaðar út til lögreglumanna og í kjölfarið hafi bifreiðin Z verið stöðvuð við Kleppsveg í Reykjavík. Við athugun hafi komið í ljós að kærði var farþegi í bifreiðinni og hefði hann verið annar þeirra sem numið höfðu ætlaðan brotaþola á brott umrætt sinn. Hefði hinn ætlaði brotaþoli verið með áverka á höfði og víðar um líkamann. Samkvæmt greinargerð lögreglu er einnig til rannsóknar annað mál, sambærilegt þessu, þar sem annar ætlaður brotaþoli mun hafa verið numinn á brott frá heimili sínu aðfaranótt 1. febrúar sl. og orðið fyrir hrottalegri líkamsárás. Mun hinn ætlaði brotaþoli hafa borið kennsl á meðkærða kærða frá 19. febrúar sl. en með meðkærða hefðu verið nokkrir hettuklæddir menn sem hinn ætlaði brotaþoli þekkti ekki. Gruni lögreglu að kærði kunni að tengjast því máli. Lögregla kveður rannsókn framangreindra mála vera á frumstigi en það er ætlun hennar að fleiri kunni að tengjast hinum ætluðu ólöglegu innheimtum og þeim frelsissviptingum sem brotaþolar munu hafa orðið fyrir. Meðal þess, sem rannsaka þurfi, séu því tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn og aðild meðkærða að málunum. Ætlaðar árásir og frelsissviptingar séu mjög alvarlegar og framdar í ávinningsskyni. Sé það því mat lögreglu að hin ætlaða háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða 106., 218., 231., 233. 244. og 257. gr. sömu laga auk ákvæða laga nr. 65/2974 um ávana- og fíkniefni. Ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málanna og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 auk þess sem honum verði gert að sæta takmörkunum samkvæmt e- og f-liðum 1. mgr. sömu greinar. Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 2. mgr. 226. gr., auk ákvæða 106., 218., 231., 233., 244. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16.00. Eins og rakið hefur verið var kærði handtekinn í gær, fimmtudaginn 19. febrúar. Að framanrituðu og rannsóknargögnum málsins virtum, er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varða fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, komið sönnunargögnum undan eða haft áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.
Mál nr. 85/2009
Kærumál Kæra Frávísun frá Hæstarétti
Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess í greinargerð til Hæstaréttar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 21. febrúar 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hennar, að hún kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbók í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið, sbr. sama lagaákvæði. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess, að X, kt. [...], [heimilisfang], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009, kl. 16:00. Kærða hefur mótmælt kröfunni. Mál þetta var tekið til úrskurðar í gær og tók dómari sér þá frest til að kveða upp úrskurðinn. Við fyrirtöku málsins í dag lagði lögreglustjóri fram breytta kröfugerð ásamt frekari rannsóknargögnum, sbr. ákvæði 3. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008. Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglu hafi borist upplýsingar þess efnis að kærða og unnusti hennar, A, kt. [...], hefðu farið af landi brott til Hollands en við endurkomu til Íslands hygðust þau flytja með sér mikið magn af fíkniefnum. Lögregla kveðst hafa fengið upplýsingar frá lögregluyfirvöldum í Hollandi um að unnusti kærðu hafi verið handtekinn á Schipholflugvelli í Amsterdam þann 13. febrúar sl. með mikið magn fíkniefna í sínum vörslum. Þá hafi lögreglu borist upplýsingar um að kærða hafi haft atvinnu af vændi ungra kvenna sem hún flytji sérstaklega hingað til lands gagngert til slíks athæfis og hún notfæri sér þær því kynferðislega til nauðungarvinnu. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Telji lögreglan rökstuddan grun um að kærða tengist hinum ætlaða innflutningi unnusta síns til Hollands en jafnframt að þau hafi í sameiningu ætlað að flytja fíkniefnin til Íslands. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærðu og unnusta hennar utan og til landsins og tengsl kærðu við aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða. Um verulegt magn fíkniefna sé að ræða, sem lögregluyfirvöld í Hollandi haldlögðu, og þyki það benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá þyki lögreglu vera til staðar rökstuddur grunur þess efnis að hinn ætlaði innflutningur fíkniefnanna tengist mun umfangsmeiri innflutningi fíkniefna hingað til lands á undanförnum mánuðum og árum. Þá telji lögregla rökstuddan grun um að kærða hafi lífsviðurværi sitt af vændi annarra og stundi mansal ungra kvenna hingað til lands í því skyni. Lögregla telji að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Þess sé því krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærðu verði gert að sæta takmörkunum, sbr. a- til e-liði 1. mgr. sömu greinar. Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16.00. Eins og rakið hefur verið var kærða handtekin 19. febrúar sl. við komu til Íslands frá Hollandi. Þangað hafði hún farið ásamt unnusta sínum en var ein á ferð þegar hún var handtekin. Ekki fundust á henni fíkniefni. Af rannsóknargögnum verður ráðið að unnusti kærðu var handtekinn í Hollandi 13. febrúar sl. með mikið magn fíkniefna í fórum sínum. Að þessu virtu og með vísan til gagna málsins er það mat dómsins að komnar séu fram vísbendingar um að kærða tengist með einhverjum hætti undirbúningi að fíkniefnabroti vegna tengsla hennar við unnusta sinn. Kærða er í kröfu lögreglustjóra sögð grunuð um brot gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærða tengist ætluðum fíkniefnainnflutningi unnusta síns til Hollands en jafnframt að þau hafi í sameiningu ætlað að flytja fíkniefnin til Íslands. Er það mat dómsins að þetta sakarefni sé ekki svo skýrt að á því verði byggður úrskurður um gæsluvarðhald. Hins vegar byggir krafa lögreglustjóra jafnframt á því að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 206. og 227. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til gagna málsins er fallist á það með lögreglu að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn áðurgreindum hegningarlagaákvæðum sem varða fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, komið sönnunargögnum undan eða haft áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða sæti einangrun á meðan hún sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16:00. Kærða skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.
Mál nr. 82/2009
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 18. mars 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að hann verði úrskurðaður í farbann í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Með dómi Hæstaréttar 8. desember 2008 í máli nr. 656/2008 var fallist á að sterkur grunur beindist að varnaraðila um brot það sem hann hefur nú verið ákærður fyrir með ákæru 18. febrúar 2009 og að skilyrði hefðu þá verið til gæsluvarðhalds yfir honum á grundvelli 2. mgr. 103. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og þau hefðu verið skýrð í réttarframkvæmd. Ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er samhljóða nefndu ákvæði eldri laganna. Ekkert er fram komið í málinu sem breytir því mati á skilyrðum gæsluvarðhalds yfir varnaraðila sem dómurinn 8. desember 2008 byggðist á. Með vísan til þess verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], með lögheimili að [...], nú gæsluvarðhaldsfangi í fangelsinu að Litla Hrauni, Eyrarbakka, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. mars 2009 klukkan 16.00. Um kröfuna vísar ríkissaksóknari til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru útgefinni 18. febrúar þ.m. hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál fyrir Héraðsdómi Suðurlands á hendur X fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 7. nóvember sl., að Y, [...]hreppi, slegið A, kennitala [...], hnefahögg í höfuðið, og með því að hafa skömmu síðar gripið um A og ýtt honum svo hann féll á gólfið af stól og ítrekað sparkað í og stigið á höfuð hans og efri hluta líkama hans á meðan hann lá á gólfinu, svo hann hlaut höggáverka á höfði, andliti, hálsi, hnakka, öxlum og herðablöðum, blæðingar í hálsvöðvum og miklar blæðingar í heilastofni, dreifðar blæðingar í heila með bjúg aðallega við hægra heilahvel og blæðingar milli heilahimna, með þeim afleiðingum að hann lést stuttu síðar. Þá segir ennfremur að kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa með framangreindri háttsemi brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, en slíkt brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum. Meint brot kærða þyki sérstaklega alvarlegt þar sem bani hlaust af atlögunni og þar sem ætluð verknaðaraðferð hafi verið háskaleg og ofsafengin. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og ákærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi, þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Þá segir ennfremur í greinargerðinni að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 8. nóvember sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 28. nóvember sl. á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 8. desember sl. í málinu nr. 656/2008. Krafan um gæsluvarðhald byggist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 8. nóvember sl. fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu R-76/2008 og síðan á grundvelli almannahagsmuna frá 28. nóvember sl., sbr dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 656/2008, frá 8. desember sl. Verjandi kærða mótmælir því að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt og vísar til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 508/2005 og 602/2006. Þá vísar hann til 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til rannsóknargagna málsins liggur kærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot en búið er að gefa út ákæru á hendur honum og er brotið þar heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn 2. mgr. 218. gr. getur varðað allt að sextán ára fangelsi ef sök sannast. Ákærði hefur á fyrri stigum málsins játað að hafa veist að hinum látna en neitar að hafa gert það með þeim hætti sem í ákæru greinir en ákæra var birt kærða fyrr í dag. Með hliðsjón af alvarleika brotsins er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til 18. mars nk. kl. 16.00. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um gæsluvarðhald kærða og því fallist á kröfu ríkissaksóknara um að kærði sæti gæsluvarðhaldi og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldi kærða skemmri tíma en krafist er. Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð : Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. mars 2009, kl. 16.00.
Mál nr. 66/2009
Kærumál Nauðungarvistun
Með beiðni, dagsettri 26. f.m. hefur A, kt. [...], [...], Reykjavík, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, 25. f. m., um það að hún skuli vistast nauðug á sjúkrahúsi. Mál þetta var þingfest 29. þ.m. og tekið til úrskurðar í dag.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 25. janúar 2009. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 74/2009
Kærumál Kæruheimild Kæra Frávísun frá Hæstarétti
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að lögð yrði fram þýðing yfir á móðurmál hans á lögregluskýrslum sem teknar voru af honum og meðákærðu við rannsókn máls sem ákæruvaldið höfðaði gegn honum. Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 2009, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila, X, um að lögð yrði fram þýðing yfir á móðurmál hans á lögregluskýrslum sem teknar voru við rannsókn máls sem ákæruvaldið hefur nú höfðað gegn varnaraðila, Y og Z. Telja verður að varnaraðili geri kröfu sína vegna þess réttar sem hann nýtur að lögum til að gefa skýrslu fyrir dómi. Kæruheimild er því í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Ekki var bókuð yfirlýsing um kæru í þingbók við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Í kæru varnaraðila er kröfum hans ekki lýst að öðru leyti en því að hann segist kæra ofangreindan úrskurð héraðsdóms. Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í skriflegri kæru hvaða úrskurður er kærður, hvaða kröfur eru gerðar um breytingu á honum og ástæður þær sem kæra er reist á. Kæra varnaraðila uppfyllir ekki þessi skilyrði. Er málinu af þessum sökum vísað frá Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Mál nr. 51/2009
Kærumál Gagnsök Frávísunarúrskurður staðfestur
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að gagnsök S í máli F gegn S hefði verið höfðuð of seint og henni því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2009, þar sem gagnsök sóknaraðila í máli varnaraðila gegn honum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða honum málskostnað vegna þessa þáttar málsins í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili skal greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Skaginn hf., greiði varnaraðila, Festi ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 60/2009
Kærumál Haldlagning Frávísun frá héraðsdómi
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem R var heimilað að leggja hald á nánar tilgreind gögn. Hæstiréttur vísaði málinu frá héraðsdómi þar sem krafa R í héraði uppfyllti ekki formkröfur 1. mgr. 103. gr. lagar nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja hald á nánar tilgreinda kaupsamninga, fylgigögn og yfirlit um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með bréfi 2. febrúar 2009 krafðist sóknaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um heimild til að leggja hald á þrjá kaupsamninga og fylgigögn, sem nánar eru greind í hinum kærða úrskurði. Í beiðninni var einungis vísað til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 henni til stuðnings. Má af því ráða að krafan hafi byggst á heimild 68. gr. laganna. Um kröfu sóknaraðila gilda málsmeðferðarreglur XV. kafla laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 102. gr. Í 1. mgr. 103. gr. er kveðið á um að leggja skuli skriflega og rökstudda kröfu um aðgerð fyrir héraðsdóm. Sérstaklega er tekið fram að þess skuli getið hvort sá sem kröfu gerir krefjist þess að hún sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 104. gr. Það lagaákvæði hefur að geyma reglur um meðferð síðastnefndrar kröfu fyrir dómi. Í 3. mgr. 104. gr. er kveðið svo á að fella skuli mál niður ef sá sem kröfu gerir mætir ekki til dómþings. Í skriflegri kröfu sóknaraðila til héraðsdóms var ekki farið fram á að hún sætti meðferð án þess að varnaraðili yrði kvaddur á dómþing. Héraðsdómur tók kröfuna til meðferðar allt að einu á dómþingi og féllst á hana með hinum kærða úrskurði. Þegar af þeirri ástæðu að krafa sóknaraðila í héraði uppfyllti ekki formkröfu 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 verður málinu vísað frá héraðsdómi. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Kröfu sóknaraðila, Ríkislögreglustjóra, í erindi til Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009, um hald á kaupsamningum, fylgigögnum og yfirliti um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila, X, er vísað frá héraðsdómi. Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísun til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að heimilt sé að leggja hald á eftirtalda kaupsamninga, fylgigögn og yfirliti yfir ráðstöfun greiðslna sem eru í vörslum X: - Kaupsamningur varðandi vélina V, seljandi A en kaupandi B. - Kaupsamningur varðandi vélina Y, seljandi C en kaupandi B. - Kaupsamningur varðandi vélarnar Z og Q, seljandi er D en kaupandi B. Í greinargerð lögreglu kemur fram að hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglu­stjóra sé til rannsóknar mál er lúti að Eignarhaldsfélaginu E og kæru á hendur ofangreindum Ó, fyrrum stjórnarmanni félagsins, R fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og Á fyrrum starfandi stjórnarformanni félagsins. Eignarhalds-félagið E hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Málið varði meint fjársvik og fjárdrátt í sambandi við sölu og kaup flugvélarinnar F og ólöglega meðferð fjármuna félagsins. Málið lúti að rannsókn á sölu Eignarhaldsfélagsins E á flugvél til C á Bresku Jómfrúreyjum. Einnig að sölu fjögurra sambærilegra flugvéla sem virðist hafa verið seldar saman til B og ofangreindir kaupsamningar fjalli um. Tvær af flugvélunum hafi verið eigu Eignarhaldsfélagsins E, sú þriðja í eigu C og hafi hún áður verið keypt af eignarhaldsfélaginu. Fjórða flugvéin hafi verið í eigu C, sem sé félag í eigu eins af stjórnarmönnum eignarhaldsfélagsins og fjölskyldu hans. Lögmaðurinn sem hafi haft umsjón með sölunni á ofangreindum flugvélum hjá X hafi neitað að afhenda efna­hags­brotadeild ofangreinda kaupsamninga. Í ljósi ofangreinds og fyrir framgang rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að fara fram á haldlagningu nefndra kaupsamninga og framangreindra fylgigagna. Með vísun til þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi rannsóknargagna, verður að telja að fyrir hendi séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfu ríkislögreglustjóra, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Krafan verður hún því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Ú R S K U R Ð A R O R Ð : Ríkislögreglustjóra er heimil haldlagning eftirtalinna kaupsamninga, fylgi­gagna og yfirliti yfir ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum X: Kaupsamningur varðandi vélina V, seljandi A en kaupandi B. Kaupsamningur varðandi vélina Y, seljandi C en kaupandi C. Kaupsamningur varðandi vélarnar Z og Q, seljandi er D en kaupandi B.
Mál nr. 15/2009
Kærumál Lögvarðir hagsmunir Aðild Frávísunarúrskurður staðfestur
Talið var að O ehf. hefði ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá ógiltan úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, þar sem leyst var úr ágreiningi milli S og P um rétt S til greiðslu úr jöfnunarsjóði, samkvæmt 22. gr. laga nr. 81/2003. Var staðfestur úrskurður héraðsdómara um að vísa máli O ehf. gegn S og P frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. janúar 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili Síminn hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðili Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki látið málið til sín taka. Sóknaraðili höfðaði mál þetta til ógildingar úrskurðar úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála 10. október 2007 í máli nr. 1/2007, en það var rekið til að fá leyst úr ágreiningi milli varnaraðila um rétt Símans hf. til greiðslu úr jöfnunarsjóði, sem mælt er fyrir um í 22. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Sóknaraðili kveðst hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurði þessum hnekkt, því hann hafi beinlínis leitt til hækkunar á lögákveðnu framlagi í jöfnunarsjóðinn úr hendi sóknaraðila eins og annarra fjarskiptafyrirtækja. Um þetta vísar sóknaraðili til þess að síðastnefndu lagaákvæði var breytt í kjölfar úrskurðarins með 1. gr. laga nr. 143/2007 á þann veg að jöfnunargjald var hækkað úr 0,12% í 0,65% af bókfærðri veltu fjarskiptafyrirtækja. Eftir sem áður komi fram í ákvæðinu að varnaraðilinn Póst- og fjarskiptastofnun skuli árlega endurskoða fjárþörf jöfnunarsjóðsins og leggja fyrir samgönguráðherra niðurstöðu þeirrar endurskoðunar ásamt tillögu um breytt gjaldhlutfall, ef þörf þyki. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er hlutfall jöfnunargjalds samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 81/2003 ákveðið með lögum og stæði það óhaggað þótt fyrrnefndur stjórnvaldsúrskurður í máli milli varnaraðila yrði ógiltur. Ekki væri á valdi Póst- og fjarskiptastofnunar eða samgönguráðherra að breyta hlutfalli jöfnunargjalds til lækkunar, sbr. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að ógilding úrskurðarins geti á annan hátt haft áhrif á hagsmuni hans. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsenda til hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Og fjarskipti ehf., greiði varnaraðila, Símanum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 36/2009
Kærumál Framsal Frávísun frá Hæstarétti
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra um að X yrði framseldur pólskum yfirvöldum. Í skriflegri kæru X var ekki að finna lýsingu á þeim ástæðum sem kæran var reist á, eins og áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 28. október 2008 um að varnaraðili yrði framseldur pólskum yfirvöldum. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg að fallist verði á kröfu hans um að fyrrgreind ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra verði felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 13/1984 sæta úrskurðir þeir sem kveðnir eru upp samkvæmt þeim lögum kæru til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í 1. mgr. 193. gr. þeirra laga segir að héraðsdómari leiðbeini þeim sem ekki nýtur aðstoðar lögmanns um rétt til að kæra úrskurð og um kærufrest. Í 2. mgr. greinarinnar segir að vilji maður kæra úrskurð skuli hann lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. Sé kæru lýst yfir á dómþingi megi kærandi láta við það sitja að bókað verði um hana í þingbók, þar á meðal í hvaða skyni kært sé. Að öðrum kosti skuli hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru þar sem greina skuli frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæðum sem kæra er reist á. Varnaraðili var ásamt verjanda sínum viðstaddur uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Kæru var ekki lýst á dómþinginu heldur bókað að varnaraðili tæki sér kærufrest. Skrifleg kæra barst héraðsdómi 16. janúar 2009. Í henni er ekki að finna lýsingu á þeim ástæðum sem kæran er reist á eins og nú er áskilið í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Eru því slíkir annmarkar á framkominni kæru að vísa verður málinu frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 59/2009
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli l. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 10. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 30/2009
Kærumál Eignardómsmál Frávísunarúrskurður staðfestur
R leitaði eignardóms til viðurkenningar á eignarrétti sínum að fasteigninni B. R sem ekki var þinglýstur eigandi eignarinnar byggði kröfu sína um eignardóm á því að erfingjar K, ekkju þinglýst eiganda eignarinnar J, hafi gefið hana sveitarfélaginu F sem síðar hafi sameinast R. Þá vísaði R til laga nr. 46/1905 um hefð. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að krafa R gæti ekki varðað hagsmuni annarra en erfingja J og K. R hefði ekki sýnt fram á að tormerki væru á því að komast að raun um hverjir þeir gætu verið eða þeir sem leitt gætu rétt sinn frá þeim vegna arfs. Brast því skilyrði til að höfða málið sem eignardómsmál og var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 24. desember 2008, þar sem synjað var beiðni sóknaraðila um útgáfa stefnu til höfðunar eignardómsmáls til viðurkenningar á eignarrétti sóknaraðila að fasteigninni Bjargi í Flatey á Breiðafirði, fastanúmer 212-2785. Kæruheimild er í m. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og breytt á þá leið að fallist verði á beiðni hans um útgáfu fyrrgreindrar stefnu. Sóknaraðili, sem ekki nýtur þinglýsts eignaréttar yfir fasteigninni Bjargi í Flatey, reisir kröfu sína um eignardóm á því að erfingjar Kristínar Jónsdóttur, ekkju þinglýst eiganda eignarinnar Jakobs Þorsteinssonar, hafi gefið hana Flateyjarhreppi, en það sveitarfélag hafi síðar sameinast sóknaraðila. Jakob Þorsteinsson mun hafa látist 1935 en Kristín Jónsdóttir 1946. Þá vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 46/1905 um hefð. Krafa sóknaraðila getur ekki varðað hagsmuni annarra en erfingja Jakobs Þorsteinssonar og Kristínar Jónsdóttur. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að tormerki séu á því að komast að raun um hverjir þeir gætu verið eða þeir sem leitt geta rétt sinn frá þeim vegna arfs. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar brestur skilyrði til að höfða mál þetta sem eignardómsmál. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 33/2009
Kærumál Dánarbú Skipti
Varnaraðilar kröfðust þess að við skipti á dánarbúi X ætti að taka tillit til arfs þeirra eftir föður sinn, fyrri eiginmann X. Sóknaraðilar héldu því hins vegar fram að skipti hefðu farið fram og varnaraðilar fengið greiddan sinn arfshluta fyrir stofnun hjúskapar X og föður sóknaraðila í samræmi við lagafyrirmæli þar um. Talið var að sóknaraðilum hefði ekki tekist að sýna fram á að varnaraðilar hefðu fengið greiddan lögmæltan erfðahluta eftir föður þeirra. Var krafan því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2009 þar sem kveðið var á um að við skipti á dánarbúi X bæri að leggja til grundvallar að út úr búinu hefði ekki verið skipt arfi eftir Z, fyrri maka hennar og föður varnaraðila. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu varnaraðila um að taka eigi tillit til arfs þeirra eftir Z við skipti á dánarbúi X verði hafnað. Til vara krefjast þeir þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Sóknaraðilar eru fjögur af níu börnum X og síðari eiginmanns hennar, Y. Fimm alsystkini þeirra hafa ekki látið málið til sín taka, hvorki í héraði né fyrir Hæstarétti. Meginreglur réttarfarslaga, sem meðal annars koma fram í 100. gr. og 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, standa til þess að leyst sé úr kröfum sem varða formsatriði máls áður en tekin er afstaða til krafna sem lúta að efnislegri úrlausn þess. Varakrafa sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar kemur því til athugunar á undan aðalkröfu þeirra. Kröfuna um ómerkingu úrskurðarins reisa sóknaraðilar, að því er virðist, á því að ekki hafi í hinum kærða úrskurði verið leyst úr því ágreiningsefni sem skiptastjóri í dánarbúi X vísaði til héraðsdóms með bréfi 29. ágúst 2008 með heimild í 122. gr. laga nr. 20/1991. Í bréfi þessu er tekið fram að ágreiningur sé í búinu um hvort taka eigi tillit til arfs eftir Z við skipti á dánarbúi X, „þ.e. hvort inni í dánarbúinu ... sé arfur eftir Z.“ Muni börn Z gera þá kröfu fyrir héraðsdómi að við skiptin á dánarbúinu eigi að miða við að arfur eftir Z standi inni í búinu. Þeirri kröfu muni að minnsta kosti hluti af sameiginlegum börnum X og Y mótmæla og halda því fram að skiptin nái aðeins til dánarbús X og Y en ekki Z. Í hinum kærða úrskurði er kröfum málsaðila fyrir héraðsdómi lýst og á þær lagður úrskurður. Varða þær að efni til að öllu leyti þann ágreining sem skiptastjóri vísaði til dómsins samkvæmt nefndri heimild. Engin efni eru því til að taka til greina kröfu sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar. Í íslenskri löggjöf hefur um aldir verið gert ráð fyrir að til þess kunni að koma að skipta þurfi úr dánarbúum ekkja og ekkla eignum eftir hinn látna maka þegar sá eftirlifandi hefur gengið í hjúskap á ný án þess að gætt hafi verið að því að skipta dánarbúi eftir fyrri makann. Þannig var til dæmis að finna líkindareglu um hvernig haga beri skiptingu bús við þessar aðstæður í Norsku lögum Kristjáns V. frá 15. apríl 1687, 5. bók, 2. kafla, 70. gr. Liggur ljóst fyrir að í tilvikum sem þessum verður talið að erfingjar hins fyrri maka geti átt tilkall til hlutar við skiptingu bús eftir hinn langlífari, þótt hann hafi gegnið í hjúskap á ný. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, A, B, C og D, greiði óskipt varnaraðilum, E, F, G, H og I, 40.000 krónum hverri í kærumálskostnað.
Mál nr. 31/2009
Kærumál Frávísunarúrskurður staðfestur Rannsókn
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra vegna meintra brota X gegn lögum um tekjuskatt og fleiri lögum yrði dæmd ólögmæt en til vara að mælt yrði fyrir um að H yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom m.a. fram að skilyrði þess að ágreinungur yrði borinn undir dómara væri að viðkomandi mál væri til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Mál X var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafan barst dóminum en þeirri rannsókn var lokið og ákæra hafði verið gefin út þegar málið var tekið til úrskurðar í héraðsdómi. Var héraðsdómur því staðfestur um að vísa kröfum X frá dómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009 þar sem vísað var frá dómi kröfum varnaraðila um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra í máli nr. 006-2004-76 teldist ólögmæt, en til vara að mælt yrði fyrir um að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 29/2009
Kærumál Frávísunarúrskurður staðfestur Rannsókn
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra vegna meintra brota X gegn lögum um tekjuskatt og fleiri lögum yrði dæmd ólögmæt en til vara að mælt yrði fyrir um að H yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að orðalag 75. gr. laga nr. 19/1991 yrði ekki skilið öðruvísi en svo að forsenda þess að ágreiningur yrði borinn undir dómstóla væri að viðkomandi mál væri til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Mál X var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafan barst dóminum en þeirri rannsókn var lokið og ákæra hafði verið gefin út þegar málið var tekið til úrskurðar í héraðsdómi. Var héraðsdómur því staðfestur um að vísa kröfum X frá dómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009 þar sem vísað var frá dómi kröfum varnaraðila um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra í máli nr. 006-2004-76 teldist ólögmæt, en til vara að mælt yrði fyrir um að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í því sakamáli sem höfðað hefur verið gegn varnaraðila á hún þess kost að láta reyna á þau atriði sem hér um ræðir. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009. I. Með bréfi til dómsins 19. nóvember 2008 hefur Kristín Edwald hrl., f.h., X kt. [...], [heimilisfang], krafist þess, aðallega, að dómurinn úrskurði að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 sé ólögmæt, en til vara að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Þá er þess krafist að ríkissjóður greiði allan málskostnað sóknaraðila vegna rannsóknar ofangreinds máls, svo og kostnað vegna þessarar kröfu, að mati dómsins. Af hálfu ríkislögreglustjóra er þess aðallega krafist að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað. II. Með bréfi til ríkissaksóknara 8. júlí 2008 krafðist sóknaraðili þess að rannsókn máls nr. 006-2004-00076 yrði hætt. Ríkissaksóknari svaraði bréfi lögmannsins um hæl, og er frekari grein gerð fyrir bréfaskiptum lögmannsins og ríkissaksóknara í bréfi lögmannsins til dómsins. Þann 22. október 2008 tilkynnti ríkissaksóknari sóknaraðila að hann hefði ákveðið að veita settum ríkislögreglustjóra frest til að taka ákvörðun um framhald málsins til 15. desember 2008. Af ofangreindu tilefni telur sóknaraðili sig knúna til að leita réttar síns fyrir dómstólnum, og gerir þær kröfu sem að framan greinir. III. Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að rannsókn á máli sóknaraðila, sem nefnt er einu nafni [...] í bréfi sóknaraðila, hafi staðið óhæfilega lengi yfir, eða allt frá því húsleit var gerð hjá A 28. ágúst 2002. Með því hafi verið brotið gegn rétti sóknaraðila til fljótvirkrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Tvisvar hafi þó verið ákært í málinu, án þess að sakarefni þessa þáttar málsins hafi verið ákæruefni. Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til forsendna í dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2007, en einnig til bréfs ríkissaksóknara, sem er meðal gagna málsins, þar sem tekið sé undir sjónarmið sóknaraðila um að rannsókn málsins hafi dregist mjög. Í öðru lagi er krafa sóknaraðila á því reist að settur ríkislögreglustjóri hafi ekki lagt sjálfstætt mat á rannsóknina. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 661/2006 hafi skipuðum ríkislögreglustjóra verið gert að víkja sæti við rannsókn þessa máls, og annar einstaklingur settur sem ríkislögreglustjóri við rannsókn málsins. Telur sóknaraðili að sá einstaklingur hafi hins vegar engin afskipti haft af rannsókn málsins. Þvert á móti megi sjá af gögnum málsins að saksóknari efnahagsbrota og næsti undirmaður skipaðs ríkislögreglustjóra, Helgi Magnús Gunnarsson, hafi einn verið í fyrirsvari málsins, bæði gagnvart verjendum og ríkissaksóknara. Með slíku fyrirkomulagi telur sóknaraðili að engin trygging sé fyrir rétti sakborninga til réttlátrar málsmeðferðar. Varakrafa sóknaraðila, um að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins, er á því byggð að hann hafi verið svo viðriðinn rannsókn svonefnds [...] allt frá upphafi þess, að hann sé vanhæfur til að stýra rannsókn þessa máls. Til stuðnings þeirri kröfu vísar sóknaraðili sérstaklega til þess að í því máli sem þegar hafi verið rekið á hendur sóknaraðila og fleirum, Hæstaréttarmál nr. 181/2006, hafi Helgi Magnús Gunnarsson verið vitni ákæruvaldsins, en einnig til þess að honum hafi nú, af settum ríkislögreglustjóra, verið falið að leggja mat á gildi þeirrar rannsóknar sem hann hafi sjálfur unnið að og stýrt að nokkru leyti. Að loknum munnlegum málflutningi 12. janúar sl. var krafa sóknaraðila tekin til úrskurðar. IV. Mál þetta var þingfest 24. nóvember 2008 og voru þá til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra ætluð brot sóknaraðila gegn skattalögum. Í þinghaldi þann dag fékk ríkislögreglustjóri frest til 8. desember til að skila greinargerð í málinu. Sá frestur var síðar framlengdur til 19. desember, að ósk ríkislögreglustjóra og með samþykki sóknaraðila. Daginn áður, 18. desember, gaf settur ríkislögreglustjóri út ákæru á hendur sóknaraðila og fleiri aðilum fyrir ætluð brot á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum. Verður ekki annað ráðið en að ákæran sé reist á þeirri rannsókn sem sóknaraðili í máli þessu gerir kröfu um að úrskurðuð verði ólögmæt. Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Kröfum sóknaraðila X, er vísað frá dómi.
Mál nr. 28/2009
Kærumál Framsal sakamanns Fordæmi
Mál þetta var tekið til úrskurðar fyrr í dag. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 3. desember 2008 til ríkissaksóknara tilkynnti ráðuneytið að fallist hafi verið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila, X, til Póllands. Var þeirri niðurstöðu ráðuneytisins komið á framfæri við varnaraðila 23. desember 2008, en með bréfi verjanda varnaraðila sama dag krafðist hann þess að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Ríkissaksóknari kom þeirri kröfu á framfæri við dóminn 8. janúar 2009.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ákvörðun dóm- og kirkjumálaráðherra sem staðfest var með hinum kærða úrskurði var tekin 3. desember 2008 en í úrskurðarorði hefur dagsetningin misritast. Vegna forsendna og niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar 10. desember 2007 í máli nr. 634/2007 er fallist á að skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé fullnægt fyrir kröfu sóknaraðila, þar sem refsirammi brotsins sem varnaraðila er gefið að sök er hærri en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 og þykja þau hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 3. desember 2008 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands er staðfest. Ákvörðun hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðs verjanda varnaraðila er staðfest. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 32/2009
Kærumál Gæsluvarðhald Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til 16. febrúar nk. til kl. 16.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðili hefur játað brot það sem honum er gefið að sök og hefur orðið tilefni gæsluvarðhalds hans. Krafa sóknaraðila er byggð á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar sem skilyrði gæsluvarðhalds er að ætla megi það nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Virðist mega ráða af málatilbúnaði sóknaraðila að krafan sé byggð á því að brot varnaraðila hafi verið til þess fallið að valda almannahættu. Ekki eru efni til að fallast á þetta nema talin sé hætta á að varnaraðili sé líklegur til að brjóta af sér á ný með sambærilegum hætti og hann er sakaður um að hafa gert 14. janúar 2008. Sóknaraðili hefur ekki leitast við að færa fram rök fyrir því að svo sé og gögn málsins þykja ekki benda til þess. Af þessum ástæðum verður fallist á kröfu varnaraðila um að fella hinn kærða úrskurð úr gildi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Mál nr. 34/2009
Kærumál Geðrannsókn Dómkvaðning matsmanns
Staðfestur var úrskurður héraðsdóm, þar sem hafnað var kröfu L um að X skyldi sæta geðrannsókn og að dómkvaddur yrði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta geðrannsókn og dómkvaddur yrði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hans tekin til greina. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 26/2009
Kærumál Gæsluvarðhald Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. janúar 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. janúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 22. janúar 2009 kl. 16, jafnframt því sem kveðið var á um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhald verði án þeirra takmarkana sem ákveðnar voru í hinum kærða úrskurði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Í kröfu sóknaraðila kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi handtekið sextán menn og framkvæmt sex húsleitir „vegna rannsóknar á fíkniefnamálum, þjófnuðum og innbrotum, m.a. þar sem brotist hafði verið inn í gróðurhús í Árnessýslu og gróðurhúsalömpum stolið.“ Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili, sem er 17 ára gamall, undir rökstuddum grun um að hafa framið eitt af þessum afbrotum með því að hafa í desember 2008 ásamt tveimur öðrum nafngreindum mönnum brotist inn í gróðurhús og stolið þaðan gróðurhúsalömpum. Annar þessara manna hefur viðurkennt hjá lögreglu að hafa framið brotið ásamt varnaraðila og öðrum þeim manni sem nafngreindur hefur verið. Hafi þeir selt lampana og hann fengið 175.000 krónur í sinn hlut en varnaraðili 75.000 krónur. Ekki kvaðst hann vilja gefa upp nafn kaupandans. Sá þriðji, sem grunaður er um aðild að innbrotinu, hefur neitað að tjá sig líkt og varnaraðili. Þá mun vitni hafa lýst fyrir lögreglu vitneskju sinni um að þessir þrír menn hafi framið brotið. Krafa sóknaraðila er reist á a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar sem heimilað er að setja mann í gæsluvarðhald ef ætla má að hann muni torvelda rannsókn máls, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þeir tveir sem eiga að hafa staðið að framangreindu broti með varnaraðila séu nú frjálsir ferða sinna. Að þessu virtu verður ekki talið að rannsóknarhagsmunir standi til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Mál nr. 692/2008
Kærumál Greiðslustöðvun
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 17. nóvember 2008, var Hansa ehf. veitt heimild til greiðslustöðvunar allt til mánudagsins 8. desember 2008 kl. 15:30. Málefnið var tekið fyrir á ný á dómþingi þann dag. Mætti þá Helgi Jóhannesson hrl., aðstoðarmaður skuldarans við greiðslustöðvun, og lagði fram beiðni um framlengingu greiðslustöðvunar ásamt gögnum í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2008, þar sem varnaraðila var veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar allt til föstudagsins 6. mars 2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að beiðni varnaraðila um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar verði hafnað. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu heimvísað til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum dæmdur kærumálskostnaður. Sóknaraðili hefur ekki fært rök fyrir kröfu sinni um að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, sbr. c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Ekki er ástæða til að gefa sóknaraðila kost á að bæta úr þessu. Kemur þessi krafa því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um áframhaldandi greiðslustöðvun verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, MP Banki hf., greiði varnaraðila, Hansa ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 677/2008
Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
Máli R gegn I var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að slíkir annmarkar væru á reifun þess að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á kröfur R.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Fallast verður á með héraðsdómara að reifun málsins af hendi sóknaraðila sé svo áfátt að vísa verði málinu frá dómi. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Rauðará ehf., greiði varnaraðila, Ingvari Helgasyni ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 4/2009
Kærumál Kæra Frávísun frá Hæstarétti
Ákæruvaldið skaut til Hæstaréttar úrskurði héraðsdóms þar sem meðal annars var vísað frá dómi máli ákæruvaldsins gegn A, B, og C. Í yfirlýsingu ákæruvaldsins til héraðsdóms var greint frá því að tekin hefði verið ákvörðun um að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Í yfirlýsingunni var hvorki greint frá dómkröfum ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti né í hvaða skyni kært væri, eins og áskilið er í 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2008 og bárust réttinum málsgögn 7. janúar 2009. Sóknaraðili leitar endurskoðunar á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2008, þar sem meðal annars var vísað frá dómi máli ákæruvaldsins að því er varnaraðila varðar. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurðurinn verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn A krefst þess að auki að málsvarnarlaun verjanda hans vegna meðferðar málsins í héraði verði hækkuð. I Samkvæmt bókun í þingbók var úrskurður héraðsdóms kveðinn upp á dómþingi 17. desember 2008 að viðstöddum sækjanda og verjendum varnaraðila. Hinn 19. sama mánaðar barst héraðsdómi svofelld orðsending í tölvupósti frá sækjandanum: „Hjálagt er afrit af bréfi til dómsins þar sem RLS lýsir yfir að hann kæri frávísunarúrskurðinn frá 17.12.2008. Vinsamlegast staðfestu móttöku bréfsins og hvort þessi háttur sé fullnægjandi á tilkynningunni. Frumritið er á leið til ykkar. Undirritaður mun, til viðbótar, skila greinargerð til Hæstaréttar vegna málsins.“ Mynd af undirrituðu bréfi, sem fylgdi þessari orðsendingu í tölvupósti, mun hafa verið prentuð út á skrifstofu héraðsdómsins og var það bréf áritað um móttöku 19. desember 2008. Framangreindri orðsendingu sækjandans var síðan svarað sama dag í tölvupósti frá skrifstofu dómsins á eftirfarandi hátt: „Tilkynningin hefur verið móttekin. Að höfðu samráði við dómara málsins telst hún vera fullnægjandi.“ Texti bréfsins, sem barst héraðsdómi á þennan hátt og dagsett er 19. desember 2008, er svohljóðandi: „Tilkynning um kæru til Hæstaréttar á frávísunarúrskurði í máli S-953/2008. Hér með tilkynnist yður með vísan til 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991, að Ríkislögreglustjórinn hefur tekið ákvörðun um að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember sl. um frávísun máls S-953/2008 að hluta. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.“ Greinargerð sóknaraðila, sem boðuð var í fyrrgreindri orðsendingu til héraðsdóms, barst Hæstarétti 8. janúar 2009. II Samkvæmt 232. gr. og 233. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála tóku þau gildi 1. janúar 2009 og féllu þá um leið niður lög nr. 19/1991. Frestur til að kæra úrskurð héraðsdóms leið undir lok meðan lög nr. 19/1991 voru enn í gildi og tóku því ákvæði þeirra meðal annars til heimildar til að kæra úrskurðinn og yfirlýsingar um kæru, sbr. einnig 2. mgr. V. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 88/2008. Heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms um frávísun opinbers máls, sem aðalmeðferð var ekki byrjuð í, var í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Það varðar ekki frávísun málsins frá Hæstarétti þótt sóknaraðili vísi ranglega til kæruheimildar í málatilbúnaði sínum. Eins og að framan er rakið sendi sækjandi mynd af bréfi með áðurgreindu erindi um kæru til héraðsdóms með tölvupósti. Skilja verður fyrirspurn sækjandans, sem kom fram í orðsendingunni til héraðsdóms 19. desember 2008, og svar dómsins sama dag á þann hátt að þau samskipti hafi lotið að því einu hvort aðferð sem þessi til að koma á framfæri yfirlýsingu um kæru væri fullnægjandi, en samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 skyldi slík yfirlýsing annaðhvort koma fram í bréfi til héraðsdóms eða munnlega á dómþingi, þar sem bókað yrði um hana í þingbók. Ekki verður séð að áðurgreint svar héraðsdóms við fyrirspurn sækjandans hafi snúið að efni erindis hans, enda var ekki á færi héraðsdómara að taka afstöðu til þess. Héraðsdómur prentaði bréf sækjandans í framhaldi af því að tölvupóstsending hans barst og var það skjal síðan áritað um móttöku. Líta verður svo á að þessi aðferð til að koma á framfæri kæru sé fullnægjandi, sbr. hins vegar til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. nóvember 2004 í máli nr. 427/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4225. Samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 fólst málskot í þeirri athöfn að lýst væri kæru, munnlega eða bréflega. Í bréfi sækjandans til héraðsdóms 19. desember 2008 var tekið svo til orða að héraðsdómara væri tilkynnt að ríkislögreglustjóri „hefur tekið ákvörðun um að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember sl.“ Bókstaflega skilin fólu þessi orð ekki í sér yfirlýsingu um kæru, heldur tilkynningu um ákvörðun, sem ætla mætti að enn hafi átt eftir að hrinda í framkvæmd. Meiru skiptir þó að samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 bar að tiltaka í yfirlýsingu um kæru í hvaða skyni kært væri og hvaða kröfur væru gerðar, svo og aðrar athugasemdir og skýringar sem kæranda þætti ástæða til. Ljóst er að efni framangreinds bréfs er engan veginn í samræmi við þær kröfur, sem ákvæði þetta fól í sér. Þess verður að gæta að í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti hefur réttilega verið vísað til dæma úr dómaframkvæmd, þar sem látið hefur verið átölulaust að varnaraðili hafi munnlega lýst yfir kæru við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms um þvingunarúrræði gagnvart honum og ekki hafi verið greint frá öðru en þeirri yfirlýsingu í bókun í þingbók, en í engu getið í hvaða skyni kært væri eða hvaða dómkröfur væru gerðar. Tilvik, sem sóknaraðili hefur vísað til í þessu sambandi, eiga það sammerkt að úrskurður eða ákvörðun hefur verið bundin við eitt efnisatriði og aðeins snúið að lögreglustjóra eða ákæranda sem eina gagnaðila sakbornings sem kærði, en þegar svo er ástatt getur enginn vafi verið um í hvaða skyni kært sé. Úrskurður héraðsdómara, sem hér er til meðferðar, gekk á hinn bóginn í máli ákæruvaldsins á hendur fjórum mönnum, þar á meðal varnaraðilunum þremur. Í úrskurðinum var efnislega kveðið á um tvö atriði varðandi hvern varnaraðila, annars vegar frávísun málsins að því er hann varðar og hins vegar ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, en kæra hefði þar með getað lotið að einhverju einu þessara sex atriða, fleiri þeirra eða þeim öllum. Fullt tilefni var því til að handhafi ákæruvalds í þessu máli fylgdi einföldum en nauðsynlegum formkröfum 3. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 með því að taka fram í hvaða skyni væri kært og hvaða kröfur gerðar. Að þessu öllu gættu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti. Eftir þessum úrslitum málsins verður að fella allan kærumálskostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda varnaraðila, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs verjanda varnaraðilans A getur ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, enda kærði hann ekki úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun hæstaréttarlögmannanna Ragnars Aðalsteinssonar, Ragnars Halldórs Hall og Kristins Bjarnasonar, skipaðra verjenda varnaraðilanna A, B og C, 311.250 krónur í hlut hvers.
Mál nr. 691/2008
Kærumál Fjárnám Málsvarnarlaun Mannréttindasáttmáli Evrópu
J krafðist að árangurslaust fjárnám, sem gert hafði verið hjá honum vegna vangreidds sakarkostnaðar í opinberu máli, yrði fellt úr gildi. Reisti hann kröfu sína meðal annars á c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að hafi sakborningur ekki nægt fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis sé það nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þetta ákvæði gæti aðeins leyst J undan greiðslu málsvarnarhluta sakarkostnaðarins. Fyrir lá að tekjur J fyrir árið 2007 voru samtals 1.563.002 krónur. Ekki var fallist á að tekjur J væru það lágar að hann hefði ekki nægar tekjur til að standa straum af greiðslu þess hluta sakarkostnaðar sem laut að greiðslu málsvarnarlauna. Var aðfarargerðin því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008, þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór hjá sóknaraðila 28. maí 2008, fyrir kröfu að fjárhæð 183.574 kr. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og fyrrgreind aðfarargerð felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Jóhannesar G. Bjarnasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Mál nr. 23/2009
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 12. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Fallist er á með héraðsdómi að ákvæði 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eigi ekki við um gæsluvarðhaldskröfu sóknaraðila þar sem sakamál hefur verið höfðað gegn varnaraðila vegna þeirra sakargifta sem liggja til grundvallar kröfunni. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 679/2008
Kærumál Dómkvaðning matsmanns
V hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem meðal annars var fallist á kröfu Ó um að R væri vanhæfur til að gegna matsstörfum í máli sem Ó höfðaði gegn V hf. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til tengsla R við V hf. og þess að ekki væri unnt að útiloka að þau gætu haft áhrif við mat dómara á sönnunargildi matsgerðar hans, samkvæmt 59. gr. laga nr. 91/1991. Var því dómkvaðning R felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að Ragnar Jónsson bæklunarskurðlæknir væri vanhæfur til að gegna matsstörfum í máli sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila og að dómkveðja beri nýjan matsmann í hans stað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrri ákvörðun héraðsdóms um að dómkveðja Ragnar Jónsson til þess að vera matsmaður í fyrrgreindu máli verði staðfest. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gerði varnaraðili á dómþingi 24. september 2008 kröfu um „að Ragnar Jónsson, læknir, verði úrskurðaður vanhæfur til að gegna matsstörfum í þessu máli og að nýr matsmaður verði kvaddur í hans stað.“ Fylgdi kröfunni skrifleg greinargerð þar sem færð voru fram rök fyrir henni. Telja verður að í fyrri hluta kröfunnar felist krafa um að dómkvaðning Ragnars Jónssonar læknis verði afturkölluð og að fallist hafi verið á þá kröfu í hinum kærða úrskurði. Ekki verður talið að varnaraðili geti krafist dómkvaðningar nýs matsmanns í stað þess sem dómkvaddur var og hann telur vanhæfan, þar sem það var sóknaraðili sem hafði óskað dómkvaðningar og hefur forræði á kröfu um skipun nýs matsmanns. Sóknaraðili lagði fram á sama dómþingi 24. september 2008 skjal sem bar heitið „Athugasemdir vegna rangfærslna ... hrl. um úrskurð í máli nr. E-2353/2008.“ Hefur skjal þetta að geyma athugasemdir við fyrrnefnda skriflega greinargerð varnaraðila, aðallega að því er varðar staðreyndir málsins. Þar er hins vegar ekki nefnt hvaða dómkröfur sóknaraðili geri í tilefni af kröfum varnaraðila. Við munnlegan flutning um ágreiningsefni málsaðila 24. nóvember 2008 var hins vegar fært til bókar að sóknaraðili gerði þá kröfu „að ekki verði fallist á kröfu stefnanda.“ Verður það talið fullnægjandi. Í 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið svo á að dómari skuli kveðja þann til matsstarfa sem aðilar eru sammála um að kveðja skuli nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Í 3. mgr. greinarinnar kemur meðal annars fram að þann einn megi kveðja til að framkvæma mat sem er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta. Þessar reglur eru settar til að tryggja svo sem unnt er sönnunargildi matsgerðar í dómsmáli í þágu beggja málsaðila, matsbeiðanda og matsþola. Af 59. gr. laga nr. 91/1991 verður ráðið að afstaða vitnis til aðila máls sé meðal þeirra atriða sem geti skipt máli, þegar dómari metur sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Í hinum kærða úrskurði er lýst tengslum matsmannsins við sóknaraðila. Er ekki unnt að útiloka að þau geti haft áhrif við mat dómara á sönnunargildi matsgerðar hans samkvæmt nefndu lagaákvæði. Þegar framangreint er haft í huga og jafnframt að varnaraðili bókaði athugasemd við dómkvaðningu matsmannsins, er hún fór fram á dómþingi 25. ágúst 2008, þykir rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð á þann hátt sem í dómsorði greinir. Í greinargerð til Hæstaréttar telur varnaraðili að tilefni sé til að gera sóknaraðila eða málflutningsumboðsmanni hans réttarfarssekt samkvæmt XXII. kafla laga nr. 91/1991 vegna óviðurkvæmilegra ummæla í skjalinu sem sóknaraðili lagði fram 24. september 2008 og fyrr var getið. Ekki þykja efni til að sinna þessari ábendingu. Sóknaraðili gerði ekki kröfu um málskostnað við meðferð málsins í héraði og kemur krafa hans þar að lútandi því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Felld er úr gildi dómkvaðning Ragnars Jónssonar læknis sem fram fór á dómþingi í málinu nr. E-2353/2008 í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. ágúst 2008. Sóknaraðili, Vörður tryggingar hf., greiði varnaraðila, Óskari Pétri Jensen, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 695/2008
Kærumál Farbann
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úr­skurði að X kt. [...], verði gert að sæta áfram farbanni meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. janúar nk. kl. 16:00. Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að þann 24. október sl. hafi lögreglu verið tilkynnt um slasaðan mann í íbúð að Y í Reykjavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá kæranda, A, þar sem hann hafi setið í stól í íbúðinni. Hafi hann verið með stungusár á hægra handarbaki og stungan náð í gegnum höndina. Kærandi hafi sagt frá því að ákærði, sem sé vinnufélagi hans, hafi stungið hann með hníf í gegnum höndina þannig að hnífurinn hafi staðið fastur í hurð sem kærandi hafði lagt höndina upp við. Í skýrslutöku af ákærða hafi hann kannast við að hafa verið í íbúðinni á umræddum tíma en neiti að hafa stungið kæranda. Vitnið B hafi borið hjá lögreglu að ákærði og kærandi hafi farið saman að reykja. Hann hafi svo heyrt mikið öskur og kannað hvað væri að gerast og þá komið að kæranda með höndina upp við hurð og hafi hnífur staðið í gegnum höndina og inn í hurðina. Ákærði hafi þá verið horfinn á braut. Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur ákærða 22. desember sl. fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 24. október 2008, að Y í Reykjavík stungið A með eldhúshnífi í hægri hönd þannig að hnífurinn hafi farið í gegnum hönd hans. Við þetta hafi A hlotið skurð í gegnum hægri höndina sem sauma hafi þurft saman. Teljist háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hafi sætt farbanni frá 29. október sl. Ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás, hann sé pólskur ríkisborgari og til að tryggja nærveru hans þyki nauðsynlegt að honum verði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans sé til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákærði er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur refsingu samkvæmt 2. mgr. 218. gr almennra hegningarlaga. Ákærði er pólskur ríkisborgari og hefur takmörkuð tengsl við landið. Verður honum með vísan til 110. gr. laga nr. 19/1991, sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 27. janúar nk. kl. 16.00. Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Ákærða, X, kt. [...], er áfram bönnuð för frá Íslandi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. janúar nk. kl. 16:00.
Mál nr. 688/2008
Kærumál Farbann Sératkvæði
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Mál nr. 687/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 15. janúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 681/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 23. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 680/2008
Kærumál Farbann
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en farbanninu markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Dómsorð: Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2008, föstudaginn 19. desember. Ár 2008, föstudaginn 19. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­víkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara kveðinn upp svo­felldur úrskurður. Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úr­skurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram farbanni meðan mál hans er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og fyrir Héraðsdómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar nk. kl. 16:00. Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að þann 24. október sl. hafi lögreglu verið tilkynnt um slasaðan mann í íbúð að Y í Reykjavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá kæranda, A, þar sem hann hafi setið í stól í íbúðinni. Hafi hann verið með stungusár á hægra handarbaki og náði stungan í gegnum höndina. Kærandi hafi sagt frá því að kærði, sem sé vinnufélagi hans, hafi stungið hann með hníf í gegnum höndina þannig að hnífurinn hafi staðið fastur í hurð sem kærandi hafði lagt höndina upp við. Í skýrslutöku af kærða hafi hann kannast við að hafa verið í íbúðinni á umræddum tíma en neiti að hafa stungið kæranda. Vitnið B hafi borið hjá lögreglu að kærði og kærandi hafi farið saman að reykja. Hann hafi svo heyrt mikið öskur og kannað hvað væri að gerast og þá komið að kæranda með höndina upp við hurð og hafi hnífur staðið í gegnum höndina og inn í hurðina. Kærði hafi þá verið horfinn á braut. Málið hafi verið sent ríkissaksóknara þar sem sú háttsemi sem kærða sé gefin að sök sé talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ríkissaksóknari hafi kallað eftir viðbótar læknisvottorði frá bæklunardeild LSH en þangað hafi kærandi leitað vegna áverka sinna. Hafi þess verið óskað að útgáfu vottorðins yrði flýtt eins og kostur sé. Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás og verði ákæra á hendur honum gefin út innan skamms. Kærði sé pólskur ríkisborgari. Til að tryggja nærveru varnaraðila þyki nauðsynlegt að honum verði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og Héraðsdómi. Kærði er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur refsingu samkvæmt 2. mgr. 218. gr almennra hegningarlaga. Kærði hefur takmörkuð tengsl við landið, þó að hann hafi ráðið sig til vinnu og eigi að hefja störf í janúar. Verður honum með vísan til b liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 1991 gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 23. janúar 2009 kl. 16:00 Úrskurðarorð: Kærða, X, kt. [...], er áfram bönnuð för frá Íslandi meðan mál hans er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og fyrir Héraðsdómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar nk. kl. 16:00.
Mál nr. 647/2008
Kærumál Málskostnaður
Kærður var úrskurður héraðsdóms um málskostnað í máli, sem M höfðaði gegn K, þar sem hann krafðist forsjár barns þeirra. Náðist sátt í málinu þess efnis að K skyldi áfram fara með forsjá barnsins en umgengnisréttur M var að einhverju leyti rýmkaður frá því sem var. Talið var að með dómsáttinni hefði krafa M ekki náð fram að ganga nema að litlu leyti. Samkvæmt meginreglu í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 yrði því til samræmis að dæma M til að greiða K hærri málskostnað en kveðið var á um í úrskurði héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert greiða sóknaraðila 120.000 krónur í málskostnað í máli hans gegn henni, sem lokið var að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér hærri málskostnað en henni var ákveðinn í héraði. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt gögnum málsins voru aðilar þess í sambúð í um sjö ára skeið en henni lauk í byrjun árs 2000. Þau eignuðust dreng á árinu 1995. Við sambúðarslit komust þau að samkomulagi um að sóknaraðili færi ein með forsjá drengsins jafnframt því sem kveðið var á um umgengni varnaraðila við drenginn. Tilhögun umgengni mun hafa breyst og rýmkað eftir það, síðast með formlegum hætti á árinu 2004 samkvæmt úrskurði sýslumanns á Ísafirði. Málsaðilar deila um efndir hvors annars á skyldum sínum varðandi umgengni varnaraðila við drenginn. Síðastliðinn vetur mun varnaraðili hafa óskað eftir því að forsjá yrði sameiginleg, en þeirri kröfu hafnaði sóknaraðili. Varnaraðili höfðaði mál þetta 14. apríl 2008. Krafðist hann forsjár drengsins og að dómur kvæði á um inntak umgengisréttar jafnframt því sem sóknaraðila yrði gert að greiða einfalt meðlag með barninu. Þá krafðist hann málskostnaðar. Sóknaraðili krafðist sýknu og málskostnaðar. Í þinghaldi 4. júlí 2008 féllst héraðsdómari á kröfu varnaraðila um að dómkveðja mann til að leggja mat á aðbúnað og aðstæður drengsins hjá sóknaraðila, kanna vilja drengsins um hjá hvorum málsaðila hann vildi búa og leggja mat á forsjárhæfni þeirra. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi 18. september 2008 og var málið fært til sáttameðferðar 24. þess mánaðar. Dómsátt var gerð milli aðila 4. nóvember þar sem kveðið var á um að sóknaraðili skyldi fara ein með forsjá drengsins en varnaraðili fengi nánar tiltekinn umgengnisrétt við hann. Um málskostnað varð ekki sátt og lögðu aðilarnir ágreining um hann í úrskurð héraðsdómara. Gekk hinn kærði úrskurður um það efni, auk þess sem þar var kveðið á um að kostnaður af öflun matsgerðar skyldi greiðast úr ríkissjóði. Af framansögðu er ljóst að með rekstri málsins fékk varnaraðili ekki framgengt helstu dómkröfu sinni um forsjá, heldur var gerð sátt um málalok í samræmi við dómkröfu sóknaraðila um það atriði. Samkvæmt gögnum málsins hafa aðilar deilt um hvernig umgengnisskyldur hefur verið ræktar við drenginn, en ekki verður með séð með vissu hversu mikil umgengnin var í raun. Sáttin kvað á um að „regluleg umgengni verði óbreytt“, en einnig að einhverju leyti rýmri umgengni varnaraðila við son sinn frá því sem áður var, án þess að með öruggum hætti verði ráðið af gögnum málsins hver sú breyting var. Í ljósi framanritaðs verður að líta svo á að með dómsáttinni hafi kröfur varnaraðila ekki náð fram að ganga nema að litlu leyti. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður því til samræmis að dæma hann til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Varnaraðili, M, greiði sóknaraðila, K, 300.000 krónur í málskostnað í héraði og 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 651/2008
Kærumál Úrskurður Res Judicata Málskostnaður Frávísun frá Hæstarétti
Með úrskurði héraðsdóms var leyst úr ágreiningsefni milli A og B sem upp kom við opinber skipti á dánarbúi C. Í úrskurðinum var jafnframt kveðið á um að málskostnaður milli aðilanna félli niður en greiða skyldi úr ríkissjóði gjafsóknarkostnað hvorrar þeirrar fyrir sig. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins kom lögmaður B því á framfæri við héraðsdómara að henni hefði ekki verið veitt gjafsókn. Héraðsdómari brást við þessu samdægurs og var lögmönnum aðilanna birtur „nýr úrskurður“ með tölvubréfi þar sem ekki aðeins var fellt brott ákvæði um greiðslu gjafsóknarkostnað B úr ríkissjóði, heldur var úrskurðinum breytt á þann veg að A var gert að greiða B tiltekna fjárhæð í málskostnað. A kærði úrskurðinn að þessu leyti og krafðist þess að málskostnaður yrði látinn falla niður. Í niðurstöðu Hæstaréttar er vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 sé dómur bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Heimild í 2. málslið sama ákvæðis til að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur gæti með engu móti tekið til þess að breyta efnislegri niðurstöðu í dómsúrlausn. Yrði því að líta svo á að í hinum kærða úrskurði hafi verið kveðið á um að málskostnaður milli þeirra félli niður og bæri því að virða að vettugi þær breytingar sem héraðsdómari hafði gert á því ákvæði, sbr. 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem kæra A laut ekki að neinu, sem að lögum yrði talið fólgið í hinum kærða úrskurði, var málinu vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2008 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem rekið var til að fá leyst úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti á dánarbúi C. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „hinum kærða úrskurði verði breytt á þá lund að málskostnaður milli aðila falli niður.“ Varnaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður. Samkvæmt gögnum málsins var dánarbú C tekið til opinberra skipta 20. febrúar 2008, en varnaraðili er ekkja eftir hann og sóknaraðili dóttir hans. Við skiptin reis deila milli sóknaraðila og varnaraðila um hvort eignarhluti í nánar tiltekinni fasteign skyldi teljast séreign þeirrar síðarnefndu og vísaði skiptastjóri þeim ágreiningi til úrlausnar héraðsdóms 25. apríl 2008. Mál þetta var þingfest af því tilefni 15. maí sama ár. Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um niðurstöðu þessa ágreiningsefnis. Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti er greint frá því að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp 13. nóvember 2008 kl. 13 að viðstaddri henni og lögmönnum beggja aðila og hafi endurrit úrskurðarins verið afhent þeim þá þegar. Í úrskurðinum hafi verið kveðið á um það að málskostnaður milli aðilanna félli niður, en greiða skyldi úr ríkissjóði gjafsóknarkostnað hvorrar þeirrar fyrir sig, þar með talda málflutningsþóknun að fjárhæð 584.527 krónur til lögmanns hvorrar. Eftir þinghaldið hafi lögmaður varnaraðila komið því á framfæri við héraðsdómara að henni hafi ekki verið veitt gjafsókn. Við þessu hafi dómarinn brugðist um kl. 16 sama dag með því að senda lögmönnum aðilanna „nýjan úrskurð í tölvupósti“, þar sem ekki aðeins hafi verið fellt brott ákvæði um greiðslu gjafsóknarkostnaðar varnaraðila úr ríkissjóði, heldur hafi úrskurðinum einnig verið breytt á þann veg að sóknaraðila væri gert að greiða varnaraðila 584.527 krónur í málskostnað. Kæra sóknaraðila í málinu beinist að þessu síðastnefnda ákvæði úrskurðarins, sem hún krefst að verði fellt niður. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er framangreindum staðhæfingum sóknaraðila í engu mótmælt, en meðal málsgagna, sem borist hafa frá héraðsdómi, eru endurrit úrskurðar í máli aðilanna, þar sem annars vegar er mælt fyrir um að málskostnaður falli niður og hins vegar um skyldu sóknaraðila til að greiða varnaraðila áðurgreinda fjárhæð í málskostnað. Samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómur bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Fyrirmæli þessi gilda einnig um úrskurð héraðsdómara í máli af þeim toga, sem hér um ræðir. Heimild í 2. málslið sama lagaákvæðis handa héraðsdómara til að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur getur með engu móti tekið til þess að breyta efnislegri niðurstöðu í dómsúrlausn um hvort öðrum aðilanum verði gert að greiða hinum málskostnað. Verður því að líta svo á að í úrskurði í máli aðilanna hafi verið kveðið á um að málskostnaður milli þeirra félli niður og ber samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að virða að vettugi breytingar, sem héraðsdómari hefur leitast við að gera á því ákvæði. Kæra sóknaraðila lýtur ekki að neinu, sem að lögum verður talið fólgið í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2008 í máli hennar við varnaraðila. Er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti. Varnaraðila verður ekki dæmdur kærumálskostnaður. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 658/2008
Kærumál Faðerni Mannerfðafræðileg rannsókn
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að mannerfðafræðileg rannsókn mætti fara fram á lífsýnum úr C, látnum föður A, til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem B rak á hendur A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2008, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að mannerfðafræðileg rannsókn mætti fara fram á lífssýnum úr C, látnum föður sóknaraðila, sem er að finna á Lífsýnasafni Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, og blóðsýni úr varnaraðila, til staðfestingar á faðerni hennar. Hafnað var að svo stöddu kröfu um að sóknaraðila yrði gert að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar mannerfðafræðilega rannsókn á lífsýnum úr látnum föður hans, en sættir sig við niðurstöðu hins kærða úrskurðar að öðru leyti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Af skýrslum fyrir héraðsdómi er ljóst að móðir varnaraðila hefur í vitna viðurvist staðhæft að C heitinn væri faðir varnaraðila. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um það atriði sem kæran varðar, en að öðru leyti er úrskurðurinn ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Samkvæmt 11. gr. barnalaga skal greiða þóknun lögmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Staðfest er ákvæði hins kærða úrskurðar að fram megi fara mannerfðafræðileg rannsókn, til staðfestingar á faðerni varnaraðila, B, á lífsýnum úr C, sem er að finna á Lífsýnasafni Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Kærumálskostnaður fellur niður. Þóknun lögmanns varnaraðila, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 663/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 7. maí 2009 kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. mars 2009 klukkan 17.
Mál nr. 640/2008
Kærumál Aðfarargerð Innsetning
S og J kröfðust þess, með beiðni til héraðsdóms, að þau yrðu með beinni aðfarargerð sett inn í óhindruð umráð að nánar tilgreindum vegi í Rangárþingi ytra. Til vara að þau yrðu með beinni aðfarargerð sett inn í óhindraðan umferðarrétt um sama veg. Héraðsdómur hafnaði kröfu S og J þar sem þeim hafði ekki tekist að sanna, með óyggjandi hætti, að þau ættu skýlausan rétt til óhindraðra umráða yfir hinum umdeilda vegi. Ekki var heldur sýnt fram á með skjallegum hætti að S og J ættu umferðarrétt að umræddum vegi, eins og áskilið er samkvæmt 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og var þeirri kröfu því einnig hafnað. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Í málinu er óumdeilt að varnaraðilinn Gottlieb, sem er faðir varnaraðilans Guðnýjar Óskar, hefur hindrað aðgang sóknaraðila að hinum umþrætta vegi. Verður því ekki fallist á að vísa beri frá héraðsdómi kröfum sóknaraðila á hendur honum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, Sólveig Ólafsdóttir og Grétar Jóhannes Sigvaldason, greiði óskipt hvorum varnaraðila um sig, Guðnýju Ósk Gottlebsdóttur og Gottlieb G. Konráðssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 656/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. nóvember 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa valdið A áverkum á höfði þegar þeim varð sundurorða í samkvæmi á heimili varnaraðila aðfararnótt 8. nóvember 2008. Fyrir liggur í málinu sterkur grunur um að áverkar þessir hafi dregið A til dauða og að háttsemi varnaraðila geti varðað við 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eins og þau hafa verið skýrð í réttarframkvæmd, fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 314/2008
Nytjastuldur Fíkniefnalagabrot Umferðarlagabrot Akstur sviptur ökurétti Játningarmál Hegningarauki Upptaka
Nytjastuldur. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Akstur sviptur ökurétti. Játningarmál. Hegningarauki. Upptaka fíkniefna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. maí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. Ákærði krefst þess að refsing verði milduð. Skýra ber ákæru 20. febrúar 2008 svo að ákærða sé gefið að sök að hafa heimildarlaust ekið bifreiðinni RM 022 frá Reykjavík til Dalvíkur 10. janúar 2008 sem hann hafði fengið að reynsluaka hjá bílasölu Bílabúðar Benna og er þetta brot hans talið varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði játaði í þinghaldi 26. mars 2008 að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn í heimildarleysi eins og að framan greinir. Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Fíkniefnalagabrot það, sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru 8. febrúar 2008, var framið 19. mars 2007. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. nóvember 2007 var ákærði dæmdur til greiðslu 60.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærða verður því gerð refsing í máli þessu að teknu tilliti til 78. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms sem og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir mega staðfesta hann um refsingu ákærða. Ákvæði hins áfrýjaða dóms verða með vísan til forsendna staðfest um upptöku fíkniefna og að því er ákærða snertir um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Kristinn Kristinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 164.892 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. apríl 2008. Mál þetta, sem var dómtekið þann 26. mars sl., höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi með tveimur ákærum á hendur Kristni Kristinssyni, kt. 060474-3039, Vesturgötu 4, Ólafsfirði, og Bylgju Bjarnadóttur, kt. 200581-3699, Miðtúni 52, Reykjavík. 1. Ákæruskjal útgefið 20. febrúar 2008, á hendur báðum ákærðu; „fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa staðið saman að því fimmtudaginn 10. janúar 2008, að taka bifreiðina RM-022, í heimildarleysi frá Reykjavík og aka henni áleiðis til Ólafsfjarðar, uns lögreglan stöðvaði för þeirra skammt frá Dalvík, en bifreið þessa höfðu þau fengið á Bílasölu Bílabúðar Benna á Bíldshöfða í Reykjavík til að fara á henni í stuttan reynsluakstur og gegn ákærða Kristni fyrir að hafa ekið greinda leið sviptur ökurétti. Brot ákærðu beggja telst varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 20, 1956 og umferðarlagabrot ákærða Kristins við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 44,1993. Þess er krafist að ákærðu verið dæmd til refsingar.“ 2. Ákæruskjal útgefið 8. febrúar 2008, á hendur ákærða Kristni: „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 19. mars 2007, verið með í vörslum sínum 0,19 grömm af hassi og 0,32 grömm af tóbaksblönduðu hassi í fangaklefa sínum í fangelsinu á Akureyri. Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65,1974, sbr. lög nr. 60,1980, sbr. lög nr. 13,1985 og sbr. lög nr. 82,1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana og fíkniefna nr. 233,2001. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 0,19 grömmum af hassi og 0,32 grömmum af tóbaksblönduðu hassi, sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrá nr. 11.661, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001.“ Skipaður verjandi ákærðu krafðist fyrir þeirra hönd vægustu refsingar sem lög heimila, en að auki hæfilegra málsvarnarlauna. Hann tjáði sig, líkt og sækjandi, um lagaatriði og viðurlög. I. Ákærðu hafa fyrir dómi bæði viðurkennt brot sín eins og þeim er lýst í ákærum. Eru játningar þeirra í samræmi við gögn málsins og teljast brot þeirra því nægjanlega sönnuð og varða við tilgreind lagaákvæði. Að framangreindu virtu þykja efni til að leggja dóm á málið á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. II. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði Kristinn hlotið 24 refsidóma frá því á árinu 1996, m.a. fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum og fíkniefnalöggjöfinni. Hann fékk reynslulausn 10. mars 2007 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 150 dögum. Við ákvörðun refsingar ber m.a. að líta til þess að ákærði Kristinn er nú í níunda sinn fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti og hafa ítrekunaráhrif aldrei rofnað á milli brotanna. Ákærði hefur með brotum sínum einnig rofið skilorð framangreindrar reynslulausnar og þar sem ekki þykir fært miðað við sakaferil að láta hana halda sér ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að gera honum refsingu fyrir þau brot sem nú eru dæmd með hliðsjón af hinni óafplánuðu fangelsisrefsingu, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Að þessu virtu þykir refsing ákærða Kristins hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærða Bylgja undir sátt vegna brota á fíkniefnalöggjöfinni þann 28. ágúst 2007. Eftir atvikum þykir refsing hennar hæfilega ákveðin eins mánaðar fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi hún almennt skilorð 57. gr. hegningarlaganna. Gera ber upptæk fíkniefni eins og krafist er í ákæru og nánar er rakið í dómsorði. Loks ber að dæma ákærðu til að greiða óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 62.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 31.960 krónur, samtals 94.460 krónur. Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri. D Ó M S O R Ð : Ákærði, Kristinn Kristinsson, sæti fangelsi í níu mánuði. Ákærða Bylgja Bjarnadóttir, sæti fangelsi í einn mánuð en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi hún almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Upptæk eru gerð til ríkissjóðs fíkniefni, 0,19 grömm af hassi og 0,32 grömm af tóbaksblönduðu hassi, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 11.661. Ákærðu greiði óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 94.460 krónur.
Mál nr. 245/2008
Líkamsárás Skilorð Skaðabætur
A var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa ráðist á B og slegið hann hnefahöggi í andlitið svo að hann féll í jörðina og hlaut tilgreinda áverka. A var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu skaðabóta til handa B.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð. Við meðferð málsins í héraði játaði ákærði sakargiftir og var málið rekið þar og dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af því sem fram er komið verður ráðið að áverkar þeir sem B hlaut séu töluverðir og að hluta til varanlegir. Ekkert er fram komið sem réttlætir hina fyrirvaralausu og harkalegu líkamsárás ákærða. Hann hefur hins vegar ekki áður gerst sekur um refsvert brot samkvæmt sakavottorði því sem er meðal gagna málsins. Refsing ákærða verður ákveðin fangelsi í fimm mánuði og verður hún bundin skilorði eins og í dómsorði greinir. Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Andrius Paulauskas, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru óröskuð. Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem nemur samtals 236.099 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur. Málið þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 6. febrúar sl. á hendur ákærða, Andrius Paulauskas, kt. 160979-2249, Bollagötu 5, Reykjavík, "fyrir líkamsárás, með því að hafa síðla kvölds föstudagsins 18. ágúst 2006 við Reykjavíkurveg 27 í Hafnarfirði ráðist á B, [kt.], og slegið hann hnefahöggi í andlit svo að hann féll í jörðina, með þeim afleiðingum að hann hlaut rof í tengslum ennis- og kinnbeins hægra megin, brot á kinnbeinsboga og brot á gólfi augntóftar hægra megin, auk þess sem hann hlaut áverka á heila. Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981 og 111. gr. laga nr. 82,1998. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu B er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða sér í skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð kr. 1.828.184.- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. ágúst 2006, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 21. október 2007 til greiðsludags." Mál þetta er dæmt samkvæmt heimildarákvæði 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða. Ákærði á ekki að baki neinn sakaferil og hefur játað brot sitt. Við ákvörðun refsingar verður ákærða, sem er þjálfaður hnefaleikari, metið til refsiþyngingar að líkamsárásin var algerlega að tilefnislausu og gerð þeim sem fyrir henni varð að óvörum auk þess sem hún hafði í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar, bæði beinbrot og áverka á heila brotaþola. Er áverka lýst í læknisvottorði sem háorkuáverka og að líkamslýti í formi öra séu viðvarandi, áverkinn sé alvarlegur vegna þess að hann er nálægt lífsmikilvægum líffærum þ.e. auga og heila. Þá þurfti brotaþoli að gangast undir læknisaðgerðir vegna brotinna andlitsbeina í kring um augun eins og nánar er lýst í læknisvottorði sem ekki hefur verið vefengt. Enginn vafi leikur á því að um alvarlega, hrottafegna og hættulega líkamsárás að tilefnislausu var að ræða af hálfu ákærða. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi. Þrátt fyrir að ákærði eigi ekki sakaferil að baki hér á landi þykir ekki rétt að skilorðsbinda nema þrjá mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar skuli niður falla að liðnum 4 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl. Ástæðulaust er að vísa skaðabótakröfu brotaþola í heild frá dómi eins og ákærði krafðist og verður hann dæmdur til þess að greiða brotaþola eftirfarandi bætur. Þjáningarbætur í 34 daga 74.800 krónur, miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga 1.000.000 króna, útlagðan lækniskostnað samkvæmt kvittun 4.384 krónur og vegna gagnaöflunar og lögmannsaðstoðar 124.500 þ.m.t vsk. eða samtals 1.203.684 krónur. Þá skal ákærði greiða útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 18.700 krónur auk málsvarnarlauna verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hdl. 74.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.. Sókn málsins annaðist Hrannar Már Sigurðsson Hafberg fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ Ákærði, Andrius Paulauskas, skal sæta fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal 3 mánuðum af refsivistinni og sá hluti hennar niður falla að liðnum 4 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði skal greiða B 1.203.684 krónur í skaðabætur. Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 18.700 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hdl. 74.700 krónur.
Mál nr. 622/2008
Kærumál Erfðaskrá Séreign
Dánarbú hjónanna M og K var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í október 2007. Ágreiningur kom upp milli erfingja M um hvort nánar tilgreint land sem faðir þeirra, M, hafði tekið í arf eftir föður sinn G, og þær eignir sem í stað þess höfðu komið, skyldi vegna ákvæðis í erfðaskrá teljast séreign M við skiptin. Í umræddu ákvæði segir svo: „Allt land sem ég ánafna sonum mínum með erfðaskrá þessari, ber þeim að gera að séreign sinni“. Ágreiningi erfingja M var skotið til héraðsdóms þar sem þau A, B og C kröfðust þess að fyrrgreint land yrði talið séreign M við skiptin. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu og vísaði til þess að ekkert hefði fram komið í málinu sem leitt gæti til þess að umrætt ákvæði í erfðaskrá G, föður M, yrði túlkað með öðrum hætti en samkvæmt orðanna hljóðan. Í niðurstöðu Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, segir meðal annars að í orðalaginu, að landið beri sonum „að gera að séreign sinni“ hlyti að felast að kaupmála þyrfti til með samþykki eiginkonu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila „um að land sem hinn látni, M, tók í arf eftir föður sinn, G, og afmarkast þannig, að það takmarkast af X að vestan, Y að norðan, Z að sunnan og að austan af túngirðingu frá Z í punkt A til B. Til C, eins og þeir eru markaðir í uppdrætti Ásgeirs H. Karls­sonar. Innan túngirðingar sem markast að norðan af heimreið, að austan ræður línan G-Q að sunnan markaskurður í punkt T úr honum í punkt V þaðan með Z að vestur­horni túngirðingar, að vestan er túngirðing og þær eignir sem í stað þess hafa komið, skuli vegna fyrirmæla í erfðaskrá, dags. 7. nóvember 1960 teljast séreign M við skiptin.“ Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að tilgreint land eins og því er lýst í hinum kærða úrskurði skuli vegna ákvæðis í erfðaskrá teljast séreign M við skiptin. Varnaraðilar kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 18. nóvember 2008 með heimild í 3. mgr. 153. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. og 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Krefjast þær málskostnaðar úr hendi sóknaraðila í héraði og kærumálskostnaðar. Dánarbú hjónanna M, sem lést [...] apríl 2007 og K, sem lést [...]. júlí sama ár, var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2007. Ágreiningsefni máls þessa var skotið til úrlausnar héraðsdóms með bréfi skiptastjóra 27. nóvember 2007. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði kom G á skrifstofu hæstaréttarlögmanns til þess að fá aðstoð hans við að gera erfðaskrá, og var hún gerð 7. nóvember 1960. Fyrir héraðsdómi bar lögmaðurinn að arfleifandi hefði sagt nákvæmlega fyrir um það hvernig erfðaskráin skyldi orðuð og í engu hafi þar verið frá vikið. G heitnum hefði verið unnt að mæla svo fyrir í erfðaskránni að land sem hann ánafnaði sonum sínum yrði þeirra séreign, eins og hann gerði beinum orðum um land sonardóttur sinnar, en efnismunur liggur að þessu leyti í orðum erfðaskrárinnar. Í orðalaginu, að landið beri sonunum „að gera að séreign sinni“, hlýtur að felast að kaupmála þurfi til með samþykki eiginkonu. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, A, B og C, greiði óskipt varnaraðilum, D, E og F, hverri um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 642/2008
Kærumál Farbann
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Hinn 11. ágúst sl. barst dómsmálaráðuneyti beiðni pólskra yfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari. Framsals er krafist til að fullnusta megi refsingu samkvæmt dómi frá 24. janúar 2005. Var varnaraðila þar gert að sæta fangelsi í eitt ár, er refsingin skilorðsbundin. Með ákvörðun dóms 19. júlí 2007 var ákveðið að varnaraðili skyldi afplána refsinguna. Dómsmálaráðherra ákvað 13. október sl. að framselja skyldi varnaraðila. Sú ákvörðun var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar 7. nóvember sl., vegna formgalla. Var erindi pólskra yfirvalda þá tekið á ný til meðferðar í ráðuneytinu og hefur ný ákvörðun ekki verið tekin. Fallast ber á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila á meðan leyst verður úr framangreindu erindi. Ekki er unnt að skilja dóm Hæstaréttar svo að framsalsbeiðni hafi verið hafnað endanlega. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 15. gr. laga nr. 13/1984, verður varnaraðila bönnuð för af landi brott svo sem saksóknari krefst. Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Varnaraðila, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 23. desember 2008 kl. 16.00.
Mál nr. 612/2008
Kærumál Málskostnaðartrygging
G krafðist þess að þrotabúi J yrði gert að setja fram málskostnaðartryggingu vegna máls sem J höfðaði gegn G með stefnu birtri 18. október 2007. Það var fyrst í þinghaldi 16. september 2008 sem G varð ljóst að þrotabú J ætlaði framvegis að reka málið og gerði G þá þegar kröfu um málskostnaðartryggingu. Í úrskurði héraðsdóms, sagði að orðalag 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að krafa um málskostnaðartryggingu skuli koma fram við þingfestingu máls yrði ekki talið girða fyrir að slík krafa yrði tekin til greina, ef tilefni til kröfu um málskostnaðartryggingu kæmi fyrst fram eftir þingfestingu málsins. Skilyrðum b-liðar fyrrgreinds ákvæðis fyrir málskostnaðartryggingu var talið fullnægt enda hafði ekki verið sýnt fram á að þrotabúið hefði getu til að standa undir þeim kostnaði sem kynni að hljótast af málinu. Í dómi Hæstaréttar var jafnframt tekið fram að árangurslaust fjárnám hjá J 18. janúar 2007 auk kröfu tollstjóra um gjaldþrotaskipti, sem var afturkallað 30. maí 2007, hefðu ekki gefið G þá þegar í október 2007 tilefni til að krefjast málskostnaðartryggingar, að því viðlögðu að slík krafa yrði ekki síðar höfð uppi eftir að bú J hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þrotabúi J yrði gert að setja málskostnaðartryggingu, sem þótti hæfilega ákveðin 800.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2008, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 800.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fram í Hæstarétti, gerði sýslumaðurinn í Reykjavík 18. janúar 2007 árangurslaust fjárnám hjá Jac-Pol ehf. Í framhaldi af því krafðist tollstjórinn í Reykjavík að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en sú krafa var afturkölluð 30. maí 2007. Félagið höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 18. október 2007. Ekki verður litið svo á að þessi atvik hafi gefið varnaraðila tilefni til að krefjast þá þegar að félagið setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að því viðlögðu að slík krafa yrði ekki síðar höfð uppi eftir að bú þess hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði segir. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur sóknaraðila, þrotabús Jac-Pol ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar byrjar að líða við uppsögu þessa dóms. Sóknaraðili greiði varnaraðila, Glaumi verktakafélagi ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2008. Í málinu er af hálfu stefnda, Glaums verktakafélags ehf., gerð sú krafa að stefnanda, Jack-Pol ehf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 2.000.000 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins. Stefnandi krefst þess aðallega að þessari kröfu stefnda verði hafnað, en til vara er þess krafist að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði ákvörðuð lægri en stefndi geri kröfu um. Stefnandi höfðaði málið á hendur stefndu með stefnu birtri 18. október 2007. Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.119.927 krónur auk vaxta. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi lagði fram greinargerð í málinu 19. desember 2007 ásamt fjölda skjala. Krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Við fyrirtöku málsins 27. mars sl. upplýsti lögmaður stefnanda að stefnandi hefði verið tekinn til gjaldþrotaskipta og að Magnús Guðlaugsson hrl. hefði verið skipaður skiptastjóri búsins. Var málinu þá frestað til 9. maí sl. að ósk lögmanna í því skyni að skiptastjóri gæti kynnt sér málið og tekið afstöðu til þess. Í þinghaldi 9. maí sl. upplýsti lögmaður stefnanda að skiptastjóranum hefði verið send gögn málsins og upplýsingar um málavexti, en afstaða skiptastjórans lægi ekki fyrir. Var málinu þá frestað af sömu ástæðum til 10. júní sl., en þann dag var málinu frestað utan réttar til 16. september sl. Í þinghaldi þann dag upplýsti lögmaður stefnanda að skiptastjórinn hefði lýst því yfir að þrotabúið tæki við rekstri málsins. Kvaðst lögmaðurinn munu ganga eftir því að fá staðfestingu þessa efnis frá skiptastjóranum. Í ljósi þessara upplýsinga gerði lögmaður stefnda kröfu um málskostnaðartryggingu, sem þegar var mótmælt af hálfu stefnanda. Var málinu þá frestað til framlagningar yfirlýsingar skiptastjóra og til umfjöllunar um köfuna um málskostnaðartryggingu til 13. þessa mánaðar og aftur frestað utan réttar til 22. þessa mánaðar. Var þá lögð fram yfirlýsing skiptastjóra um að þrotabúið hefði tekið við rekstri málsins fyrir dómi. Krafa stefnda um málskostnaðartryggingu er reist á b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Andmæli stefnanda gegn þessari kröfu stefnda lúta að því að stefndi hafi ekki gert málskostnaðarkröfu þegar við þingfestingu málsins eins og lög mæli fyrir um. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Það var fyrst í þinghaldinu 16. september sl. sem stefnda varð ljóst að þrotabú stefnanda ætlaði framvegis að reka málið. Gerði stefndi þá þegar kröfu um málskostnaðartryggingu. Orðalag 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um að krafa skuli koma fram við þingfestingu máls verður ekki, með vísan til þess sem í greinargerð með lagaákvæðinu segir, talið girða fyrir að slík krafa verði tekin til greina, ef tilefni til kröfu um málskostnaðartryggingu kemur fyrst fram eftir þingfestingu málsins. Með hliðsjón af því að þrotabú stefnanda hefur nú tekið við rekstri málsins af upphaflegum stefnanda, þykir skilyrðum b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir málskostnaðartryggingu fullnægt, enda hefur ekki verið sýnt fram á að þrotabúið hafi getu til að standa undir þeim kostnaði sem af máli þessu kann að hljótast. Með hliðsjón af kröfum málsins og umfangi þess svo og áskilnaði stefnda í greinargerð um hugsanlega öflun mats dómkvaddra matsmanna í málinu þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin 800.000 krónur. Ber stefnanda að setja tryggingu á þann hátt og innan þess frests, sem nánar greinir í úrskurðarorði. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms. Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð : Stefnanda, Þrotabúi Jac-Pol ehf., er skylt innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að setja tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 800.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda, Glaumi verktakafélagi ehf. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.
Mál nr. 635/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi „meðan áfrýjunarfrestur varir, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. desember nk. kl. 24.00.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar kemur fram að krafa sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald hafi verið borin munnlega upp á dómþingi í héraði. Ekki hafi komið fram af hálfu sóknaraðila önnur rök fyrir henni en þau, að vísað hafi verið til 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Þá hafi ekki legið fyrir endurrit héraðsdóms heldur einungis endurrit úr þingbók með dómsorði. Af þeim sökum hafi varnaraðili þurft að taka sér frest til ákvörðunar um áfrýjun. Samkvæmt þessu hafi sóknaraðili ekki rökstutt kröfu sína nægilega með vísan til viðeigandi ákvæða laga og verði þess vegna að fella hinn kærða úrskurð úr gildi. Heimilt er að setja fram kröfu um gæsluvarðhald munnlega á dómþingi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Í bókun um kröfuna í þinghaldinu kemur ekki fram á hvaða grundvelli hún er reist að öðru leyti en því að vísað er til 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Munnlegur málflutningur um kröfuna fór fram í héraði og verður að ætla að vörn hafi ekki verið áfátt. Þá er þess getið í upphafi hins kærða úrskurðar á hvaða grunni krafan er reist. Verður ekki fallist á með varnaraðila að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi af þessum sökum. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur er að líða vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1342/2008, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 18. desember 2008 klukkan 24. Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 20. nóvember 2008. Dómfellda var í dag með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1342/2008 uppkveðnum í dag dæmd 18 mánaða fangelsi fyrir fjölda auðgunarbrota og brota á umferðarlögum sem framin voru á tímabilinu frá janúar sl. til ágústmánaðar þessa árs. Frá refsingunni dregst 84 daga gæsluvarðhald. Með vísan til c liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 og 106. gr. sömu laga verður krafan tekin til greina eins og hún er sett fram í þinghaldinu og nánar greinir í úrskurðarorði. Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Dómfellda, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunar­frestur varir, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. desember nk. kl. 24.00.
Mál nr. 611/2008
Kærumál Farbann Sératkvæði
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en farbanninu markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Í máli þessu vegast þannig einkum á þau sjónarmið annars vegar að varnaraðili hefur nú sætt farbanni í nær 19 mánuði sem mun vera lengri tími en önnur dæmi eru um í íslenskri réttarframkvæmd. Hins vegar eru hér umfangsmikil efnahagsbrot til rannsóknar og teygja þau anga sína til fleiri en eins ríkis. Réttlætir þetta meira svigrúm til sóknaraðila en annars hefði verið. Eins og rakið var í framangreindum dómi Hæstaréttar mátti gangur rannsóknar málsins við lok árs 2007 og fyrstu mánuði ársins 2008 vera markvissari. Var þó talið að þessar tafir hefðu að nokkru leyti verið réttlættar við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Í því sambandi var einnig tekið fram að sóknaraðili hefði gefið upplýsingar um hver skyldu verða næstu skref við rannsókn málsins. Eins og áður segir er það almennt forsenda þess að til greina komi að framlengja farbann að rannsókn máls hafi verið fram haldið án óréttlættra tafa. Við meðferð málsins nú hefur sóknaraðili lýst því hvað gert hafi verið frá síðasta dómi Hæstaréttar í málinu og leitast við að gefa nauðsynlegar upplýsingar um hver verði hin næstu skref við rannsóknina. Af þeim upplýsingum og öðrum gögnum málsins verður ekki annað séð en að rannsókn þess frá því að farbann var síðast veitt hafi verið ómarkviss og tafir á henni meðal annars komnar til vegna atriða er varða sóknaraðila. Verður í raun varla séð að nokkuð markvert hafi gerst við rannsóknina þá tvo mánuði sem liðið hafa frá dómi Hæstaréttar 22. september 2008. Verður að líta til þessa þegar leyst er úr kröfu sóknaraðila. Hins vegar ber eins og áður segir að hafa í huga að miklir hagsmunir eru tengdir rannsókninni og samkvæmt yfirliti sóknaraðila má búast við að eitthvað dragi til tíðinda við hana á næstu vikum. Verður að fallast á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila enn um sinn til að ljúka megi nægilega rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn á grundvelli framkominna gagna. Þykja því enn skilyrði 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera uppfyllt til að fallast megi á kröfu sóknaraðila um farbann. Af öllu framanrituðu verður tímalengd farbanns stytt á þann hátt sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðila, X, er bönnuð brottför frá landinu þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 klukkan 16. Jóns Steinars Gunnlaugssonar Enn leitar sóknaraðili til dómstóla með kröfu um framlengingu á farbanni varnaraðila í þágu opinberrar rannsóknar á hendur honum, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar 22. september 2008 í máli nr. 493/2008. Ég vísa til sjónarmiða minna í sératkvæði þá og álít, eðli málsins samkvæmt, enn síður tilefni til þess að verða nú við kröfu sóknaraðila um framlengingu á farbanni varnaraðila en þá var. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.
Mál nr. 637/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til skýrslu sem tekin var af dóttur varnaraðila fyrir dómi 18. nóvember 2008 verður fallist á með héraðsdómi að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot gegn barninu sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi og að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eins og þau hafa verið skýrð af Hæstarétti, sé að öðru leyti fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjanes úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember nk. kl. 16:00. Í greinargerð lögreglustjóra segir að málsatvik séu með þeim hætti að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi hinn 4. nóvember sl. borist beiðni um lögreglurannsókn á ætluðu kynferðisbroti gegn A, þriggja ára dóttur kærða. Lýtur barnið forsjá kærða. Hafi strax þótt rökstuddur grunur um að kærði, faðir barnsins, hefði brotið gegn barninu kynferðislega. Hafi kærði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 6. nóvember sl. til dagsins í dag, kl. 16:00. Er vísað til meðfylgjandi gagna málsins svo og til úrskurða dómsins í málum nr. R-546/2008, R-549/2008 og R-556/2008, svo og til dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 608/2008 og nr. 624/2008. Aflað hafi verið mikilla gagna í málinu og þar á meðal hafi verið teknar skýrslur af fjölda vitna, en eðli málsins samkvæmt hafi verið örðugt að nálgast innsta hring barnsins þar sem eini forsjáraðili barnsins sé grunaður í málinu. Þá hafi verið framkvæmdar nokkrar húsleitir og rannsökuð haldlögð gögn. Þá hafi bæði kærði og barnið sætt læknisrannsókn og sé sérstaklega vísað til niðurstöðu og læknisvottorðs Jóns R. Kristinssonar barnalæknis. Enn sé beðið niðurstöðu rannsókna, þar á meðal niðurstöðu lífssýna og DNA greiningar. Þá hafi kærði sætt geðrannsókn og sé niðurstöðu hennar beðið. Með hliðsjón af þeirri rannsókn sem fram hafi farið hjá lögreglu og enn sé í fullum gangi þyki lögreglu sterkur rökstuddur grunur fyrir því að barnið hafi sætt kynferðislegu ofbeldi. Með vísan til gagna málsins og atvika allra þyki lögreglu jafnframt sterkur rökstuddur grunur fyrir því að kærði, faðir barnsins, hafi beitt barnið kynferðislegu ofbeldi. Lögreglustjóri telur meinta háttsemi kærða mjög alvarlega og að öðrum börnum kunni að vera hætta búin gangi kærði laus. Lögreglustjóri telur að sterkur rökstuddur grunur sé til að ætla að kærði hafi brotið gegn barni sínu á sérstaklega ófyrirleitinn hátt, sem eini forsjáraðili barnsins, og því séu sérstaklega ríkir almannahagmunir fyrir hendi sem krefjist þess að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Þá vísar lögreglustjóri sérstaklega til greinargerða til Hæstaréttar í kærumálum kærða vegna mála nr. R-549/2008 og nr. R-556/2008 og til þeirra læknisfræðilegu rannsókna sem framkvæmdar hafi verið. Fram hafi komið í skýrslum, bæði af kærða og af núverandi sambýliskonu kærða að vilji þeirra standi til þess að þau haldi áfram sambúð, en sambýliskona hans eigi tvær ungar dætur. Telur lögregla þeim sérstök hætta búin gangi kærði laus. Lögreglustjóri telur að meint brot kærða kunni að varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum, 200. gr. laganna, með áorðnum breytingum, en slíkt brot geti varðað fangelsi allt að 12 árum. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, almannahagsmuna, 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Rannsókn málsins er ekki lokið. Samkvæmt rannsóknargögnum er kærði undir sterkum grun um sérlega alvarleg kynferðisbrot gegn ungu barni sínu. Brot hans gætu varðað allt að 12 ára fangelsi. Með hliðsjón af eðli ætlaðra brota eru uppfyllt skilyrði þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, vegna almannahagsmuna á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember nk. kl. 16:00
Mál nr. 606/2008
Kærumál Málsgrundvöllur Kröfugerð Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
J krafðist viðurkenningar á bótaskyldu vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir er dómstólar með ólögmætum og saknæmum hætti í nánar tilgreindum dómsmálum synjuðu kröfu hans um málskostnað. Einnig krafðist hann viðurkenningar á rétti til miskabóta af sama tilefni, auk viðurkenningar á rétti til vaxta af umræddum kröfum. Um heimild fyrir kröfum sínum vísaði J til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að þegar haft væri í huga að kröfur hans lytu einungis að viðurkenningu þess réttar sem um ræddi yrði talið að þessi grundvöllur fyrir honum væri fullnægjandi til þess að taka bæri hann til efnislegrar úrlausnar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóms að taka kröfur J til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Til vara krefst hann þess „að málinu verði aftur vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar um frávísunarkröfu“ varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður falli niður. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Í fyrri lið kröfu sinnar krefst sóknaraðili viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir við að hafa ekki fengið tildæmdan málskostnað í þeim dómsmálum sem í kröfuliðnum greinir. Einnig verði viðurkennt að hann eigi rétt til miskabóta af sama tilefni. Hann vísar um bótaábyrgð varnaraðila til þess að dómstólar hafi með saknæmum og ólögmætum hætti í nefndum dómsmálum synjað kröfum hans um málskostnað og beri varnaraðili bótaábyrgð á þessu samkvæmt almennu skaðabótareglunni og meginreglu íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum, eins og komist er að orði. Um heimild til að gera viðurkenningarkröfu vísar sóknaraðili til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Hann flutti þessi dómsmál sjálfur og telur sig ekki þurfa að tiltaka tjónsfjárhæð og vísar þá til þess að ákvörðun á fjárhæð málskostnaðar í dómsmálum sé í höndum dómstóla og krafa um málskostnað yfirleitt ekki gerð með ákveðinni fjárhæð. Um lagagrundvöll fyrir kröfu um viðurkenningu á rétti til miskabóta vísar hann að auki til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar haft er í huga að fyrri kröfuliður lýtur aðeins að viðurkenningu þess réttar sem um ræðir verður talið að þessi grundvöllur fyrir honum sé nægilega skýrt fram settur til þess að leggja megi dóm á kröfuliðinn. Síðari liður kröfugerðar sóknaraðila lýtur að viðurkenningu á rétti til vaxta af kröfu samkvæmt fyrri kröfuliðnum. Ekki verður talið að neinir réttarfarslegir annmarkar séu á því að dæma um þessa kröfu samhliða hinni fyrri. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað fellt úr gildi. Sérstakur kostnaður málsaðila vegna ágreinings um frávísun málsins er hluti málskostnaðarkrafna þeirra sem koma til úrlausnar þegar málið verður dæmt að efni til. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur sóknaraðila, Jakobs Adolfs Traustasonar, til efnismeðferðar. Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 633/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Litið verður svo á að varnaraðili hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ríkissaksóknari hefur krafist þess að dómfellda, X, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. febrúar 2009 kl. 16:00. Kröfunni til stuðnings er vísað til c. liðar 103. gr. sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og fyrirliggjandi dóms. Í greinargerð kemur fram að dómfelldi hafi 31. október 2008 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1230/2008 verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir ýmis brot s.s. valdstjórnarbrot, auðgunarbrot og ítrekuð umferðarlagabrot. Dómfelldi hafi áfrýjað dómnum, áfrýjunarstefna var gefin út 14. þ.m. og hafi hún verið birt dómfellda. Dómfelldi hafi setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 frá 11. ágúst sl. í ljósi brotaferils hans. Síðast hafi gæsluvarðhald verið framlengt 31. október til dagsins í dag, sbr. úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. R-590/2008, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 595/2008 frá 5. nóvember sl. Nauðsynlegt þyki að dómfelldi sitji áfram í gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar hjá Hæstarétti. Með vísan til fyrirliggjandi dóms og c-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist, að krafan nái fram að ganga. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuldi haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því er að skipta. Með vísan til ofangreinds rökstuðnings ríkissaksóknara og fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1230/2008 þykja uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og 106. gr. sömu laga til þess að verða við umbeðinni kröfu, og verður hún tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Dómfelldi, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. febrúar 2009 kl. 16:00.
Mál nr. 619/2008
Kærumál Barnavernd Vistun barns Ómerking Gjafsókn
Með úrskurði héraðsdóms var mælt fyrir um að barnið B yrði vistað utan heimilis forsjárforeldris í 12 mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Talið var að þar sem ekki hafði verið gætt ákvæðis 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga um að ávallt skyldi gefa barni kost á að tjá sig áður en leyst er úr máli fyrir dómi væri óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að bæta úr þessum annmarka. Tekið var fram að umrætt ákvæði yrði að skýra eðli málsins samkvæmt og með hliðsjón af 2. mgr. 46. sömu laga, með þeim hætti að þessi skylda væri bundin við að barnið yrði talið hafa þroska og aldur til að tjá sig um málið, en því skilyrði þótti fullnægt í málinu enda barnið á 14. aldursári.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2008, þar sem varnaraðila var heimilað að vista barn sóknaraðila, B, utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 6. október 2008 að telja. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu varnaraðila um vistun barnsins utan heimilis í 12 mánuði, frá og með 6. október 2008 að telja, verði hafnað. Til vara krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur um annað en gjafsóknarkostnað og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið fyrir á ný. Að því frágengnu er þess krafist að sá tími, sem markaður er í hinum kærða úrskurði, verði styttur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Sóknaraðili vísaði málinu til Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2008 og gerði þá kröfu að úrskurður varnaraðila 6. október 2008 um að dóttir sóknaraðila, B, skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði, yrði felldur úr gildi. Þegar málið var tekið fyrir 22. október 2008 lagði varnaraðili fram greinargerð og krafðist þess að staðfestur yrði úrskurður hans frá 6. sama mánaðar, sem byggst hefði á b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, en einnig að dómurinn úrskurðaði að stúlkan yrði vistuð utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 6. október 2008 að telja, með heimild í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í greinargerð sem lögð var fram 24. október síðastliðinn mótmælti sóknaraðili þeirri kröfu. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að B hafi, með heimild í 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, verið skipaður talsmaður. Í skýrslu talsmannsins 12. júní 2008 kemur fram að hún hafi hitt stúlkuna utan heimilis og rætt við hana um „lífið og tilveruna“. Segir í niðurstöðu skýrslunnar að talsmaðurinn hafi átt „gott spjall“ við stúlkuna og hún hafi verið „dugleg að segja frá sér.“ Talsmaður stúlkunnar leitaði ekki eftir afstöðu hennar til þess að hún skyldi vistuð utan heimilis. Þá er ekki að finna gögn í málinu um að leitað hafi verið eftir afstöðu stúlkunnar til dómkrafna í máli þessu eftir að það kom fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Um meðferð þessa máls fyrir dómi gilda ákvæði XI. kafla barnaverndarlaga, þar sem fjallað er um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt 27. gr. og 28. gr. laganna. Þar er í 61. gr. tekið fram að ákvæði X. kafla laganna skuli einnig gilda um meðferð máls eftir því sem við geti átt og að því marki sem ekki sé mælt fyrir um frávik í ákvæðum XI. kafla. Í X. kafla er að finna ákvæði 55. gr., þar sem segir í 3. mgr. að ávallt skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varði þótt það gerist ekki aðili þess. Þegar ákvörðun barnaverndarnefndar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. er borin undir dóm með heimild í 2. mgr. 27. gr. getur reynt á hvort gætt hafi verið ákvæðis 2. mgr. 46. gr. laganna þar sem kveðið er svo á að við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varði í samræmi við aldur þess og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls og að ávallt skuli gefa barni sem náð hafi 12 ára aldri kost á að tjá sig um mál. Ef á hinn bóginn er leitað úrskurðar héraðsdóms um ráðstöfun samkvæmt 28. gr. laganna, þar sem ákvörðun verður ekki tekin nema með atbeina dómstóls, ber samkvæmt 3. mgr. 55. gr. að gefa barni kost á að tjá sig áður en leyst er úr máli fyrir dómi, en telja verður eðli málsins samkvæmt og með hliðsjón af 2. mgr. 46. gr. laganna að þessi skylda sé bundin við að barn verði talið hafa aldur og þroska til að tjá sig um málið. Í máli þessu er uppi krafa um vistun B utan heimilis foreldra í tólf mánuði frá 6. október 2008 að telja. Ákvæði 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga eiga hér við samkvæmt framansögðu. Héraðsdómi var skylt að gefa B, sem er á 14. aldursári, kost á að tjá sig um málið áður en úr því var leyst. Það var ekki gert og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdóm að bæta úr greindum annmarka á meðferð málsins. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 200.000 krónur.
Mál nr. 624/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 16. Varakrafa sóknaraðila gengur lengra en aðalkrafa hans og er því ekki til álita í málinu. Samkvæmt gögnum málsins virðist grunur um kynferðisbrot gegn þriggja ára dóttur varnaraðila, ekki aðeins beinast að honum, heldur sé hugsanlegt að fleiri gætu átt þar hlut að máli. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember nk. kl. 16:00 en til vara að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember nk. kl. 16:00. Kærði hefur mótmælt framkomnum kröfum um gæsluvarðhald og krefst þess að þeim verði hafnað. Til vara krefst hann þess í báðum tilvikum að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Í greinargerð lögreglustjóra segi að honum hafi borist beiðni þann 4. nóvember sl. um lögreglurannsókn á ætluðu kynferðisbroti gegn barninu A, þriggja ára dóttur kærða, sem lúti forsjá hans. Hafi strax þótt rökstuddur grunur um að kærði, faðir barnsins, hefði brotið gegn barninu kynferðislega. Hafi kærði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 6. nóvember sl. til dagsins í dag kl. 16.00. Er vísað nánar til rannsóknargagna málsins og úrskurða í málum nr. R-546/2008 og 549/2008 sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti Íslands. Í greinargerðinni segir að aðalkrafa lögreglustjóra byggi á því að enn séu fyrir hendi slíkir rannsóknarhagsmunir að nauðsynlegt þyki að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Frá því að rannsókn málsins hófst hjá lögreglu hafi verið unnið hörðum höndum að því að afla gagna í málinu og þar á meðal að taka skýrslur af vitnum og aðstandendum barnsins en eðli málsins samkvæmt hafi verið örðugt að nálgast innsta hring barnsins þar sem eini forsjáraðili barnsins sé grunaður í málinu. Þá hafi verið framkvæmdar húsleitir og haldlögð gögn rannsökuð. Einnig hafi bæði kærði og þolandi sætt læknisrannsókn og sé sérstaklega vísað til niðurstöðu og læknisvottorðs Jóns R. Kristinssonar barnalæknis. Enn sé beðið niðurstöðu þeirra rannsókna. Með hliðsjón af þeirri rannsókn sem fram hafi farið hjá lögreglu og enn sé í fullum gangi þykir lögreglu sterkur rökstuddur grunur fyrir því að þolandi hafi sætt kynferðislegu ofbeldi. Með vísan til gagna málsins og atvika allra þykir lögreglu jafnframt sterkur rökstuddur grunur fyrir því að kærði, faðir þolanda, hafi beitt þolanda ofbeldinu. Sé það mat lögreglu að gangi kærði laus megi ætla að hann torveldi til muna rannsókn lögreglu með því að samræma framburð sinn við framburð vitna og hugsanlegra samverkamanna sinna. Þá telji lögregla nauðsynlegt að niðurstöður læknisrannsókna, þ.e. meðal annars kynsjúkdómaprófa, áður en kærði sé látinn laus svo hann geti ekki samræmt framburð sinn við framburð annarra. Þá hafi í skýrslutökum hjá lögreglu komið fram að hugsanlega kunni fleiri kynferðisbrot að hafa verið framin. Lögreglustjóri byggi varakröfu sína á því að hann telji ætlaða háttsemi kærða mjög alvarlega og að öðrum börnum kunni að vera hætta búin gangi kærði laus. Lögreglustjóri telur að sterkur rökstuddur grunur sé til að ætla að kærði hafi brotið gegn barni sínu á sérstaklega ófyrirleitinn hátt sem eini forsjáraðili barnsins og því séu fyrir hendi sérstaklega ríkir almannahagmunir sem krefjist þess að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Þá vísi lögreglustjóri sérstaklega til greinargerðar til Hæstaréttar í kærumáli kærða gegn lögreglustjóranum á Suðurnesjum vegna máls R-549/2008 og þeirra læknisfræðilegu rannsókna sem framkvæmdar hafa verið á kærða. Fram hafi komið í skýrslum, bæði af kærða og af núverandi sambýliskonu kærða að vilji þeirra standi til þess að þau haldi áfram sambúð en sambýliskona hans á tvær ungar dætur. Telji lögregla þeim sérstök hætta búin gangi kærði laus. Lögreglustjóri telji að ætluð brot kærða kunni að varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 200. gr. laganna með áorðnum breytingum en slíkt brot geti varðað fangelsi allt að 12 árum. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 6. nóvember sl. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið og þá sérstaklega með hliðsjón af skýrslu barnsins hér fyrir dómi og áðurgreindu læknisvottorði, er kærði undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 200. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókn málsins er enn ekki lokið og hefur fulltrúi lögreglustjóra upplýst að enn eigi eftir að taka skýrslur af hugsanlega samsekum. Þá á eftir að rannsaka haldlögð gögn. Er það mat dómsins að hætta kunni að vera á því að varnaraðili torveldi rannsóknina fari hann frjáls ferða sinn. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eru því lagaskilyrði fyrir hendi til að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Að því virtu er fallist á aðalkröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Kærði, X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember 2008 kl. 16:00.
Mál nr. 617/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 621/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Aðfinnslur
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hin kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Það athugast að úrskurðurinn var kveðinn upp 9. nóvember 2008. Hann var kærður 11. sama mánaðar og var kæran móttekin af héraðsdómi sama dag. Málið var hins vegar ekki sent Hæstarétti fyrr en 14. sama mánaðar og er það aðfinnsluvert. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], til heimilis að [...], Kópavogi, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 28. nóvember nk. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af hálfu kærðu er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími. Í greinargerð lögreglustjóra segir að klukkan 08:22 í gærmorgun hafi Neyðarlínunni borist tilkynning um að maður hefði látist í sumarhúsi að Y, í Grímsnesi. Er lögregla hafi komið á vettvang kl. 08:42 hafi A, kt. [...], legið í stofusófa, þá látinn og voru áberandi líkblettir byrjaðir að myndast á vinstri hönd hans. Samkvæmt frumskoðun vakthafandi læknis, er kom á vettvang nokkrum mínútum eftir lögreglu, hafði hinn látni orðið fyrir hrottalegri líkamsárás. Er lögregla kom á vettvang hafi þrír aðilar verið í bústaðnum. Athygli lögreglu hafi strax beinst að því hve viðstaddir voru rólegir miðað við aðstæður og að allt hafi verið í röð og reglu í bústaðnum og ekkert sem hafi bent til þess að átök eða mikill drykkja hefði átt sér þar stað. Klukkan 08:55 hafi allir aðilar þessir verið handteknir. Frá upphafi hafi umgangur í húsinu verið takmarkaður og vettvangur verndaður. Rannsóknarvinna hafi staðið sleitulaust yfir í allan daginn og njóti lögregla aðstoðar réttarmeinafræðings og tæknideildar LRH. Samkvæmt frumáliti réttarlæknis séu áverkar á líki A af mannavöldum. Misræmis hafi gætt í framburði hinna handteknu hjá lögreglu um veigamikil atriði og sé framburður hinna handteknu á köflum afar ótrúverðugur. Þá segir í greinargerðinni að verið sé að rannsaka ætluð brot eins eða fleiri aðila á 211. gr., 2. mgr. 218. gr., 220. gr. og/eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Sterkur rökstuddur grunur liggi fyrir um brot hinna handteknu aðila á einni eða fleirri nefndra lagagreina. Ljóst sé að áverkar á líki A séu af mannavöldum og lögreglu þyki fullljóst að andlát hans hafi ekki borið að með eðlilegum hætti. Þá sé ennfremur ljóst að framburður hinna grunuðu aðila stangist á í veigamiklum atriðum. Rannsókn málsins sé mjög viðamikil og sé á algjöru frumstigi. Þá telji lögregla mikla hættu eins og mál þetta sé vaxið að grunaðir muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum, og eða hafa áhrif á vitni og samseka. Þau sakarefni sem hér um ræði muni varða fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð. Með vísan til alls framanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Kærða er grunuð um brot eða aðild að broti sem geti varðað hana fangelsisrefsingu ef sök sannast. Kærða neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja sterkan grun um aðild hennar að framangreindu broti. Eftir er að rannsaka hugsanlega samseka í málinu ásamt öðru sem tekið er fram í greinargerð lögreglu. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærða geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina, og skal kærða sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 28. nóvember n.k. Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember nk. kl. 16:00.
Mál nr. 613/2008
Kærumál Upplýsingaskylda Fjarskipti Friðhelgi einkalífs Stjórnarskrá Lögskýring
L krafðist þess að S hf. yrði gert skylt að afhenda upplýsingar um öll þau gsm-símtæki sem í notkun höfðu verið á Eyrarbakkavegi, vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi, á nánar tilgreindu tímabili. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ákvæði b. liðar 86. gr. og 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála feli í sér undantekningu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt heimild 2. og 3. mgr. sama ákvæðis, og hafa að geyma ákvæði um íþyngjandi rannsóknarúrræði. Af þeim sökum yrðu þau ekki skýrð rýmra en leiðir af texta þeirra. Talið var að krafa L gengi lengra en rúmaðist innan ákvæða 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 og var henni því hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar „um þau gsm-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi, á tímabilinu frá kl. 16:00 miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16:30 þann sama dag.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar ásamt því að kröfu varnaraðila um kærumálskostnað verði hafnað. I Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar lögreglan á Selfossi umferðarlagabrot tveggja ökumanna 5. nóvember 2008 en báðir voru þeir mældir á ofsahraða á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrúar. Annar þeirra stöðvaði fyrir lögreglu, en hinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og komst undan. Sóknaraðili kveður að báðir lögreglumennirnir, sem að mælingu stóðu, staðhæfi að í umrætt sinn hafi sá ökumaður, sem undan komst, að auki verið í símanum þegar lögreglubifreiðin mætti honum. Krafa sóknaraðila er byggð á b. lið 1. mgr. 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili telur að skilyrði þess að ákvæði b. liðar 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 verði beitt sé að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot. Sú aðstaða sé hins vegar ekki fyrir hendi í því tilviki sem hér um ræðir. II Samkvæmt b. lið 86. gr., sbr. 87. gr. laga nr. 19/1991 getur lögregla krafist upplýsinga hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki að fengnum dómsúrskurði um skyldu þeirra til að veita slíkar upplýsingar, enda sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 87. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ákvæði b. liðar 86. gr. og 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 fela í sér undantekningu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt heimild 2. og 3. mgr. sama ákvæðis og hafa að geyma ákvæði um íþyngjandi rannsóknarúrræði. Af þeim sökum verða þau ekki skýrð rýmra en leiðir af texta þeirra. Skilyrði þess að greindum lagaákvæðum verði beitt samkvæmt texta þeirra er að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot, sbr. dóma í dómasafni réttarins árin 2001, bls. 1339 og 2006, bls. 5758. Í málinu er sú aðstaða ekki fyrir hendi að krafan beinist að tilteknum síma eða fjarskiptatæki heldur beinist hún að því að veittar verði upplýsingar um öll þau „gsm-símtæki“ sem notuðu voru á Eyrabakkavegi vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi á tilgreindum tíma. Þar sem krafa sóknaraðila gengur lengra en rúmast innan ótvíræðs orðalags b. liðar 86. gr. og 1. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 verður henni hafnað. Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hafnað er kröfu sóknaraðila, sýslumannsins á Selfossi, um að varnaraðili, Síminn hf., skuli afhenda lögreglunni á Selfossi, upplýsingar um þau gsm-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrúar í Ölfusi, á tímabilinu frá kl. 16 miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16.30 þann sama dag. Kærumálskostnaður varnaraðila, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði að fjarskiptafyrirtækjum verði með úrskurði gert skylt að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar yfir öll þau gsm símtæki sem voru notuð á tímabilinu frá kl. 16:00, miðvikudaginn 5. nóvember sl., til kl. 22:00 þann sama dag á Eyrarbakkavegi, vestan Óseyrarbrúar, Ölfusi. Í greinargerð með kröfunni segir að um kl. 16:20, miðvikudaginn 5. nóvember sl., hafi lögreglumenn á eftirlitsferð á Eyrarbakkavegi, mætt tveimur ökutækjum á ofsahraða. Mældist hraði fyrra ökutækisins 212 km á klst og þess seinna 192 km á klst. Lögreglubifreiðinni hafi þegar þegar verið snúið við og hún þegar hafið eftirför. Skömmu síðar hafi ökumaður seinna ökutækisins stöðvað og hafi lögreglumenn náð skráningarmerki bifreiðarinnar, en ökumaður fyrri bifreiðarinnar hafi sloppið frá lögreglu á ofsahraða. Vitni hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að það telji að umræddri bifreið hafi verið ekið inn í Þorlákshöfn. Ennfremur segir að lögreglumenn beri að umrætt sinn hafi ökumaður fyrri bifreiðarinnar verið í símanum. Lögregla telji að hinn óþekkti ökumaður hafi umrætt sinn valdið stórhættu í umferðinni, en þó nokkur umferð hafi verið á Eyrarbakkavegi er atburðirnir gerðust. Lögreglu sé því nauðsyn að afla ofangreindra upplýsinga til að upplýsa málið, en hér sé um að ræða einhvern mesta hraða sem mældur hefur verið hjá lögreglunni í Árnessýslu. Lögregla rannsaki nú brot hins óþekkta aðila á 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga, nr. 50, 1987. Ljóst sé að um sérlega alvarlegt brot sé að ræða, sem að lögum getur varðað allt að 2 ára fangelsi og séu mjög mikilvægir almannahagsmunir fyrir því að upplýsa málið. Lögreglustjóranum á Selfossi sé því nauðsyn á að fá nefndan úrskurð sbr. tilvitnuð lagaákvæði, enda sé full ástæða til þess að ætla að upplýsingar, sem geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins, fáist með þessum hætti. Með vísan til þess og með því að fullnægt er skilyrðum 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir rétt að heimila þær rannsóknaraðgerðir, sem krafist er skv. heimild í b lið 86. gr. sömu laga svo sem greinir í úrskurðarorði. Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Fjarskiptafyrirtæki skulu afhenda lögreglunni á Selfossi, upplýsingar um þau gsm-símtæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrú í Ölfusi, á tímabilinu frá kl. 16:00 miðvikudaginn 5. nóvember til kl. 16:30 þann sama dag.
Mál nr. 618/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 602/2008
Kærumál Hæfi dómara
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu varnaraðila um að dómari málsins viki sæti var hafnað. Fallist var á með varnaraðilum að greinargerð sóknaraðila 31. október 2008 hefði falið í sér skriflegan málflutning og að ekki væri heimild til slíks samkvæmt núgildandi lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Á sama hátt hefðu bréf og bókanir varnaraðila falið í sér heimildarlausan skriflegan málflutning. Engin lagarök stæðu til þess að fyrrgreindir hnökrar á meðferð málsins fyrir dómi leiddu til vanhæfis þess dómara sem með málið fór. Þá var ekki fallist á að tilgreind tölvupóstssamskipti dómarans við sóknaraðila gerðu það að verkum að draga mætti óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum næsta dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2008, þar sem meðal annars var hafnað kröfu varnaraðila um að dómari málsins viki sæti. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurði héraðsdómara verði breytt á þá leið að Símon Sigvaldason héraðsdómari víki sæti og nýr dómari taki við málinu eins og það stóð áður en skrifleg greinargerð ákæruvaldsins var send dómaranum 31. október 2008. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Fallist er á með varnaraðilum að í núgildandi lögum nr. 19/1991 sé ekki að finna heimild fyrir ákæruvaldið til að leggja fram greinargerð fyrir héraðsdómi, sem felur í sér skriflegan málflutning. Greinargerð sóknaraðila 31. október 2008 fól í sér slíkan málflutning og máttu varnaraðilar því með réttu krefjast þess að ekki yrði litið til hennar við meðferð málsins. Á sama hátt fólu bréf og bókanir verjenda varnaraðila í sér heimildarlausan skriflegan málflutning. Engin lagarök standa til þess að fyrrgreindir hnökrar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi leiði til vanhæfis þess dómara sem með málið fór. Þá verður ekki fallist á að tölvupóstssamskipti dómarans við ákæruvaldið, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, geri það að verkum að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur að þessu leyti. Dómsorð: Ákvæði hins kærða úrskurðar um að hafna því að dómari málsins víki sæti er staðfest.
Mál nr. 600/2008
Kærumál Varnarþing Lúganósamningurinn Frávísunarúrskurður staðfestur
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness var máli J gegn danska hlutafélaginu E vísað frá dómi á þeirri forsendu að ekki væri heimilt að reka mál á hendur E þar fyrir dómi. J kærði úrskurðinn og byggði á því að heimilt væri að reka mál þetta, sem snérist um innlausn hlutabréfa samkvæmt 26. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, fyrir dóminum á grundvelli 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu má sækja mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á honum í þeirri þinghá, þar sem átti að efna hann samkvæmt hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Í ljósi atvika málsins taldi Hæstiréttur ekki unnt að fallast á með J að mál þetta væri sótt til efnda á löggerningi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 og 1. töluliðar 5. gr. samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili um árabil starfsmaður hjá Ístaki hf. og átti 2% hlut í félaginu þegar hann lét þar af störfum í árslok 2004. Varnaraðili mun þá hafa átt 96% hlut í félaginu. Í framhaldi af starfslokum sóknaraðila leituðu aðilarnir samninga um innlausn varnaraðila á hlut hans í félaginu. Varnaraðili gerði sóknaraðila í þessu skyni tilboð í hlutinn 17. ágúst 2005, sem hann hafnaði 12. september sama ár. Í framhaldi af því fékk sóknaraðili dómkvadda matsmenn 25. nóvember 2005 til að ákveða innlausnarverð samkvæmt 26. gr., sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Matsgerð var lokið í ágúst 2006 og undu báðir aðilarnir við niðurstöðu hennar. Varnaraðili greiddi sóknaraðila 27. október 2006 innlausnarverðið samkvæmt matsgerðinni, en sá síðarnefndi tók við greiðslunni með fyrirvara um rétt sinn til vaxta af fjárhæðinni frá þeim degi, sem hann leitaði innlausnar, svo og til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar í tengslum við hana. Sóknaraðili krafði síðan varnaraðila 2. apríl 2007 um greiðslu nánar tiltekinnar fjárhæðar af þessum sökum, sem varnaraðili hafnaði 23. maí sama ár. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 26. febrúar 2008 til greiðslu þeirrar kröfu. Samkvæmt kröfu varnaraðila, sem hefur stjórnarstöð á nánar tilteknum stað í Lyngby í Danmörku, var málinu vísað frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði, þar sem heimild þótti bresta til að reka það fyrir dómi hér á landi. Í héraðsdómsstefnu vísaði sóknaraðili til 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til að reka mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu má sækja mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á honum í þeirri þinghá, þar sem átti að efna hann samkvæmt hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Með 26. gr. laga nr. 2/1995 er hluthafa, sem á meira en 9/10 hlutafjár í hlutafélagi, gert að verða við kröfu þess, sem á minni hluta í því, um innlausn á hans hlut. Svo sem áður kom fram réðust lögskipti aðilanna af þessu ákvæði, sem skyldar ekki hluthafa í meiri hluta til að gera samning um kaup á eignarhlut þess, sem er í minni hluta, heldur veitir þeim síðarnefnda einhliða kröfu til greiðslu andvirðis hlutarins gegn framsali hans til þess fyrrnefnda. Að þessu virtu er ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að mál þetta sé sótt til efnda á löggerningi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 og 1. töluliðar 5. gr. samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum frá 16. september 1988, sbr. lög nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Jónas Frímannsson, greiði varnaraðila, E. Pihl & Søn A.S., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 212/2008
Kynferðisbrot Börn
P var sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa haft í vörslum sínum 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Með brotinu rauf hann skilorð dóms frá 3. desember 2004 þar sem hann hlaut sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga var sá dómur tekinn upp og bæði málin dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að þessu virtu var refsing P ákveðin fangelsi í 15 mánuði en ekki þóttu efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð. Ákærði hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Krafa hans um breytingu á niðurstöðu dómsins getur því ekki komið til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti, sem leiðir af 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 4. desember 2007 er ákærði borinn sökum um að hafa brotið gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft 12. október 2006 í vörslum sínum á fimm hörðum diskum í tölvu af nánar tiltekinni gerð samtals 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir, sem sýni börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði við þessu broti og var farið með málið eftir 125. gr. laga nr. 19/1991. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir brotið og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann tvívegis undir lögreglustjórasátt á árinu 2002 vegna umferðarlagabrota, sem engu skipta við ákvörðun refsingar nú. Á hinn bóginn var ákærða með dómi Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2004 gert að sæta fangelsi í sjö mánuði, skilorðsbundið í fimm ár, fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 5. júlí sama ár haft önnur kynferðismök en samræði við fimm ára stúlku. Með brotinu, sem mál þetta varðar, rauf ákærði skilorð samkvæmt þeim dómi og ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að ákveða refsingu fyrir bæði brotin í einu lagi eftir fyrirmælum 77. gr. sömu laga. Að þessu virtu er sú refsing hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði, en ekki eru efni til að skilorðsbinda hana að hluta eða öllu leyti. Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða látin standa óröskuð. Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Páll Rúnar Geirdal, sæti fangelsi í 15 mánuði. Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 340.911 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2008. Mál þetta er dómtekið var 18. febrúar s.l. er höfðað með ákæru dagsettri 4. desember 2007 á hendur Páli Rúnari Geirdal, kennitala 100483-4329, Lyngbergi 23, Hafnarfirði, "fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, þann 12. október 2006 haft í vörslu sinni á þáverandi dvalarstað sínum að Grófarsmára 18, Kópavogi, á fimm hörðum diskum í Fujitsu Siemens turntölvu, 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 74/2006. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Jafnframt er þess krafist með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindri turntölvu og fimm hörðum diskum." Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Sakaferill ákærða er þannig að á árinu 2002 var tvívegis gerð við hann lögreglustjórasátt og honum gert að greiða sektir fyrir brot á umferðarlögum og sviptur ökurétti í 1 mánuð í annað skiptið, en ennfremur var hann 3. september 2004 dæmdur til að sæta fangelsi í 7 mánuði skilorðsbundið í 5 ár fyrir brot gegn 202. gr. almennra hegningarlaga. Með því broti sem ákærður er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð þessa dóms og verður með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma upp refsinguna samkvæmt framangreindum dómi og dæma bæði málin í einu lagi og ákvarða refsinguna með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Við refsiákvörðun í málinu verður að líta til þess, að um er að ræða mikinn fjölda ljósmynda og hreyfimynda, sem ákærður geymdi í tölvu sinni og meginhluti þeirra sýna grófa misnotkun á börnum og teljast brotin því stórfelld, en á hinn bóginn verður litið til tiltölulega ungs aldurs ákærða og að hann hefur játað brot sitt greiðlega. Þá er töluverður tími liðinn frá því að hann framdi brotin og samkvæmt því, sem fram kemur hjá verjanda er hann er nú í góðri vinnu og á unnustu. Þá er fram komið að ákærður leitaði sér sálfræðilegrar aðstoðar vegna fyrra málsins og leitaði sér aftur af sjálfsdáðum aðstoðar vegna síðara málsins og hefur verið í sálfræðilegri meðferð vegna þess með viðtölum hjá Birni Harðarsyni sálfræðingi frá því í janúar 2007 og kemur fram í vottorði Björns að hann hafi komið reglulega í viðtöl í samtals 29 tíma vegna barnahneigðar sinnar og er það álit sálfræðingsins að ákærði hafi nýtt sér tímann mjög vel og með því dregið úr hættu á að hann viðhaldi barnahneigð sinni áfram og sé þar af leiðandi ólíklegri til að brjóta af sér aftur. Sálfræðingur telur samkvæmt því mikilvægt að hann haldi áfram reglubundnum viðtölum, svo sem hann hafi í hyggju. Af öllu þessu virtu þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 13 mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu á 10 mánuðum af fangelsisrefsingunni og falli hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955 og hlíti hann jafnframt sérstöku skilorði samkvæmt 2. og 3. tölulið greinarinnar, þar sem umsjónarmaður gæti þess m.a. að hann haldi áfram viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, svo lengi sem það er til nausynlegt að mati sálfræðings til að vinna bug á hneygð sinni til barna. Rétt er að Fangelsismálastofnun ríkisins hafi eftirlit með framkvæmd umsjónarinnar. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga ber ákærða að hlíta upptöku á haldlagðri turntölvu í málinu og 5 hörðum diskum. Dæma ber ákærða til greiðslu þóknunar til skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hdl. vegna starfa hans á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi sem ákveðst 323.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en annan kostnað leiddi ekki sökinni. Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari. Af hálfu ákæruvaldisns fór með málið Ragna Bjarnadóttir fulltrúi ríkissaksóknara. Ákærður sæti upptöku á turntölvu og 5 hörðum diskum, sem haldlagðir voru í málinu. Ákærður greiði skipuðum verjanda sínum Guðbjarna Eggertssyni héraðsdómslögmanni í þóknun vegna verjandastarfs hans á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi 323.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 608/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið þann verknað sem rannsókn sóknaraðila beinist að. Af gögnum málsins verður dregin sú ályktun að hætta kunni að vera á að varnaraðili geti torveldað rannsókn málsins verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], [heimilisf.], Hafnarfirði, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 14. nóvember 2008, kl. 16.00. Í greinargerð lögreglustjóra segi að honum hafi borist beiðni þann 4. nóvember sl. um lögreglurannsókn á ætluðu kynferðisbroti gegn barninu A, þriggja ára dóttur kærða, sem lúti forsjá hans. Hafi strax þótt rökstuddur grunur um að kærði, faðir barnsins, hefði brotið gegn barninu kynferðislega. Hafi kærði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 6. nóvember sl. til dagsins í dag kl. 16.00. Er vísað nánar til rannsóknargagna málsins og úrskurðar í máli nr. R-546/2008. Í greinargerðinni segir að frá því að rannsókn málsins hófst hjá lögreglu hafi verið unnið hörðum höndum að því að afla gagna í málinu og þar á meðal að taka skýrslur af mögulegum vitnum auk þess að framkvæma húsleitir og rannsaka haldlögð gögn. Þá hafi bæði kærði og þolandi sætt læknisrannsókn og er sérstaklega vísað til niðurstöðu og læknisvottorðs Jóns R. Kristinssonar barnalæknis. Með hliðsjón af þeirri rannsókn, sem fram hafi farið hjá lögreglu og sé enn í gangi, telji lögregla að sterkur grunur sé um að þolandi hafi sætt kynferðislegu ofbeldi. Með vísan til gagna málsins og atvika allra telji lögregla jafnframt að rökstuddur grunur sé um að kærði, faðir þolanda, hafi beitt þolanda kynferðislegu ofbeldi. Í greinargerð lögreglu segir ennfremur að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Lögreglustjóri telji brýna nauðsyn á að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram, svo lögreglu gefist tími til að rannsaka meinta háttsemi kærða, sem lögregla telji mjög alvarlega og enn sé ekki ljóst hversu umfangsmikil og tíð ætluð brot kærða séu, en þau kunni að varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 200. gr. laganna með áorðnum breytingum. Lögregla telji að gangi kærði laus megi ætla að hann geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan gögnum, sem haft geti þýðingu við framhald rannsóknarinnar, auk þess að geta haft áhrif á vitni og hugsanlega samverkamenn sína. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið og þá sérstaklega með hliðsjón af skýrslu barnsins hér fyrir dómi og áðurgreinds læknisvottorðs, er kærði undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 200. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókn málsins er ekki lokið og á eftir að afla frekari gagna og rannsaka haldlögð gögn. Hætta þykir á því að kærði kunni að torvelda rannsóknina fari hann frjáls ferða sinn. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eru því lagaskilyrði fyrir hendi til að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Að því virtu er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. nóvember 2008 kl. 16:00.
Mál nr. 603/2008
Kærumál Nauðungarvistun
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðherra 2. nóvember 2008.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. nóvember 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 2. nóvember 2008. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi en til vara að nauðungarvistuninni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að þóknun til handa skipuðum talsmanni sínum verði greidd úr ríkissjóði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, héraðsdómslögmannanna Ólafs Rúnars Ólafssonar og Arnbjargar Sigurðardóttur, 120.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 589/2008
Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur Aðfinnslur
Á höfðaði mál á hendur G til greiðslu bóta vegna meintra mistaka við tannlæknisverk. Með málshöfðuninni freistaði Á þess í þriðja sinn að fá efnisdóm fyrir kröfum sínum á hendur G, en í málinu lágu fyrir m.a. tvær matsgerðir, auk álitsgerðar landlæknis. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms, sem vísaði kröfu Á frá dómi, þar sem málatilbúnaði hans og kröfum var þannig háttað að þau uppfylltu ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um skýrleika, og málið þannig úr garði gert að það væri ótækt til efnisdóms.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað, en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Það athugast að sóknaraðili höfðaði mál þetta með birtingu héraðsdómsstefnu 23. nóvember 2006 og var það þingfest 25. janúar 2007. Í framhaldi af því var málinu frestað á reglulegu dómþingi í sextán skipti þar til varnaraðili tók loks til varna með greinargerð, sem lögð var fram 28. febrúar 2008. Þessi ítrekaða frestun málsins, sem var í brýnni andstöðu við ákvæði 1. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, hefur í engu verið réttlætt í gögnum þess. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Ásgeir Elíasson, greiði varnaraðila, Gunnillu H. Skaptason, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 588/2008
Kærumál Málskostnaðartrygging
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að P, fyrirtæki í Arkansasfylki í Bandaríkjunum, yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli gegn S, en frestur til að leggja fram trygginguna lengdur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. október 2008, þar sem sóknaraðila var gert að setja eigi síðar en 18. nóvember 2008 kl. 14, tryggingu í formi peningagreiðslu, bankareiknings eða bankaábyrgðar að fjárhæð 1.500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi, en til vara að fjárhæð tryggingar verði lækkuð og að sóknaraðila verði veittur fjögurra vikna frestur frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar til að leggja hana fram. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt er í dómsorði greinir. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur, þó þannig að frestur til að leggja fram tryggingu skal vera til 4. desember 2008. Sóknaraðili, Peterson Farms Inc., greiði varnaraðila, Skaganum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað. Mál þetta var höfðað 11. júlí 2008 og tekið til úrskurðar 22. september sama ár. Stefnandi er Peterson Farms Inc., 186 West Roller Avenue, Decatur í fylkinu Arkansas í Bandaríkjunum. Stefndi er Skaginn hf., Bakkatúni 26 á Akranesi. Stefnandi hefur höfðað málið til að stefnda verði gert að viðlögðum 500.000 króna dagsektum að bæta úr tækjabúnaði sem hann seldi stefnda, auk þess að greiða skaðabætur allt að fjárhæð 983.091 bandaríkjadal. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnda. Í úrskurði þessum er til úrlausnar krafa, sem stefndi setti fram við þingfestingu málsins, um að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Af hálfu stefnanda er kröfunni mótmælt og þess krafist að stefnda verði gert að greiða málskostnað í þessum þætti málsins. I. II. Til stuðnings kröfu sinni um að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu vísar stefndi til þess að stefnandi sé erlent fyrirtæki sem starfi í Bandaríkjunum. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, beri því að taka kröfuna til greina, enda séu menn búsettir hér á landi ekki undanþegnir því að setja slíka tryggingu í Arkansas í Bandaríkjunum. Varðandi fjárhæð málskostnaðartryggingar vísar stefndi til þess að málið sé bæði flókið og umfangsmikið. Því sé öldungis ljóst að stefndi þurfi að leggja út í umtalsverðan kostnað við að taka til varna í málinu. Í þeim efnum telur stefndi að hann þurfi að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna, en matsmenn verði að fara í verksmiðju stefnanda ásamt lögmanni og sérfræðingum stefnda. Áætlar stefndi heildarkostnað sinn af málaferlunum allt að 10.000.000 króna og telur að tryggingin eigi að nema þeirri fjárhæð. III. Andmæli við kröfu stefnda reisir stefnandi á því að mönnum hér á landi yrði ekki gert að setja málskostnaðartryggingu í Arkansas í Bandaríkjunum af því tagi sem gert er ráð fyrir í 133. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings þeirri fullyrðingu hefur stefnandi aflað lögfræðiálits með bréfi 17. september 2008 frá Mason Law Firm í Fayetteville í umræddu fylki. Þar segir efnislega að lög í Arkansas heimili aðeins að útlendingum verði gert að leggja tryggingu fyrir nánar tilgreindum kostnaði. Taki það til kostnaðar við þingfestingu, stefnubirtingu og tiltekinn vitnakostnað. Hins vegar taki þetta ekki til kostnaðar vegna þóknunar eða ferðakostnaðar lögmanns stefnda eða sérfræðinga á hans vegum. Um sé að ræða lítilræði sem ekki geti numið hærri fjárhæð en nokkur hundruð dölum. Loks er fullyrt í bréfinu að þetta hafi valdið því að venjulega sé ekki gerð krafa um málskostnaðartryggingu fyrir dómstólum í Arkansas. Verði fallist á kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu mótmælir stefnandi því harðlega að höfð verði hliðsjón af áætlun stefnda um kostnað hans af málferlunum, enda sé sá kostnaður sem stefndi miði við langt úr öllu hófi. Í því sambandi bendir stefnandi á að erlendum mönnum verði ekki gert að leggja fram fyrir dómstólum í Arkansas tryggingu fyrir þeim kostnaðarliðum sem stefnandi reikni með í áætlun sinni. IV. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum, getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef stefnandi er búsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða aðildarríkis Haagsamnings um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954 og menn, sem eru búsettir hér á landi, eru ekki undanþegnir því að setja slíka tryggingu í heimalandi hans. Stefnandi er fyrirtæki í Arkansasfylki í Bandaríkjunum. Bandaríkin eiga ekki aðild að fyrrgreindum Haagsamningi og ekki er í gildi þjóðréttarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna um málskostnaðartryggingu vegna dómsmála sem rekin eru í ríkjunum. Þá má ráða af gögnum, sem stefnandi hefur lagt fram, að menn búsettir hér á landi eru ekki undanþegnir því að leggja fram málskostnaðartryggingu í umræddu fylki Bandaríkjanna. Í því tilliti gildir einu þótt málskostnaðartryggingar fyrir dómstólum í Arkansas séu takmarkaðri en gildir hér á landi. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til að taka til greina kröfu stefnda um að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Þegar fjárhæð tryggingar er ákveðin ber að líta til þess að gögn málsins benda til að sakarefnið sé nokkuð að umfangi og reikna má með auknum kostnaði þar sem tækjabúnaður sá sem ágreiningur málsins lýtur að er erlendis. Aftur á móti eru ekki efni til að reikna með að stefndi þurfi að afla matsgerðar, enda hlýtur gagnaöflun til að leiða í ljós galla á tækjabúnaðinum og tjón stefnanda fyrst og fremst að hvíla á honum í samræmi við almennar sönnunarreglur. Að þessu gættu þykir fjárhæð tryggingar hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur. Ber stefnanda að leggja hana fram með því móti og innan þess frests sem segir í dómsorði. Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Stefnandi, Peterson Farms Inc., ber að setja eigi síðar en 18. nóvember n.k., kl. 14.00, tryggingu í formi peningagreiðslu, bankareiknings eða bankaábyrgðar að fjárhæð 1.500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda, Skaganum hf.
Mál nr. 580/2008
Kærumál Dómkvaðning matsmanns
S krafði D um greiðslu skuldar vegna þjónustu sem hann innti af hendi fyrir D við endurbætur á íbúðum hennar og sonar hennar. D krafðist fyrir héraðsdómi dómkvaðningar matsmanns til að meta: „Hvaða heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, telst sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn stefnanda og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðum stefndu og sonar hennar [...], með hliðsjón af umfangi vinnunnar og hvers eðlis hún var. [...]“. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að telja yrði að nægilega skýrt kæmi fram í beiðninni hver tilgangurinn með hinu umbeðna mati væri og að afmörkun þess sem meta skyldi væri nægilega ljós, með tilliti til tilvitnaðs ákvæðis 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Var því ekki fallist á með S að matsbeiðni D væri slíkum annmörkum háð að hafna bæri að taka hana til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og henni gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Ekki verður séð að sóknaraðili hafi gert kröfu um málskostnað í héraði og kemur krafa hans þar að lútandi því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Saga verktakar ehf., greiði varnaraðila, Dögg Pálsdóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 29/2008
Skjalafals Skilorð
S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa selt L tryggingarbréf að fjárhæð 2.000.000 króna en á bréfið hafði S falsað áritun útgefanda og samþykkjenda fyrir veðsetningu fasteignar og vitundarvotts. Einnig með því að hafa selt L víxil að fjárhæð 2.000.000 króna en á víxilinn hefði S falsað áritun samþykkjanda víxilsins. Fyrir dómi játaði S sök og samþykkti bótakröfu vegna víxilsins. Með játningu S, sem samrýmdist framburði S hjá lögreglu og öðrum gögnum málsins taldist brot S sannað og var refsing hans ákveðin fangelsi í átta mánuði en fullnustu fimm mánaða af refsingunni var frestað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson prófessor. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms. Ákærði krefst að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð og þá að öllu leyti skilorðsbundin. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Sigurður Kristinn Erlingsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 200.764 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. Ár 2007, föstudaginn 16. nóvember, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dóm­húsinu við Lækjartorg af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og dómur kveðinn upp í málinu nr. S-1281/2007: Ákæruvaldið gegn Sigurði Kristni Erlingssyni, sem dóm­tekið var í gær sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um með­ferð opinberra mála. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði málið með ákæru útgefinni 11. september 2007 á hendur ákærða, Sigurði Kristni Erlingssyni, kt. 230861-7069, Loga­fold 68, Reykjavík, til refsingar fyrir skjalafals samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, með því að hafa: 1. Í apríl 2004, selt Landsbanka Íslands tryggingarbréf nr. 0153-63-3503, að fjárhæð 2.000.000 króna, útgefið 14. apríl 2004 fyrir hönd PC Secure ehf., en á bréfið hafði ákærði falsað áritun eiginkonu sinnar Ingibjargar Sigurþórsdóttur, sem útgefanda, nöfn Sigurðar Ingvarssonar og Vélaugar Steinsdóttur, sem samþykkjendur fyrir veðsetningu fast­eignarinnar Grænahlíð 4, Reykjavík og nafn sonar síns, Erlings Jóns Sigurðssonar, sem vitundarvotts að áritun hinna, allt svo sem nánar er lýst í ákæru. 2. Í júlí 2006, selt Landsbankanum víxil að fjárhæð 2.000.000 króna, útgefinn 21. þess mánaðar af ákærða, fyrir hönd PC Secure ehf., með gjalddaga 30. ágúst 2006, en á víxilinn hafði ákærði falsað áritun Magnúsar Jónatanssonar, fyrir hönd PC Mapper International, sem samþykkjanda víxilsins. Landsbankinn krefst þess að ákærði verði jafnframt dæmdur til greiðslu 1.943.308 króna með vöxtum sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2006 til 9. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags. Ákærði játar sök fyrir dómi, samþykkir bótakröfu vegna 2. töluliðs ákæru og krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Með greindri játningu, sem samrýmist fram­burði ákærða hjá lögreglu og öðrum gögnum málsins er ofangreind háttsemi sönnuð og þykir hún rétt færð til refsi­ákvæða í ákæru. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða hátt­semi. Ber honum að njóta þessa við ákvörðun refsingar, sem og þess að hafa játað brot sín greiðlega og gengist við bótaskyldu gagnvart Landsbankanum vegna 2. ákæru­­liðs. Á hinn bóginn horfir til refsiþyngingar að í báðum tilvikum er um háar fjár­hæðir að ræða og að fjártjón er óbætt. Að þessu öllu gættu, með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningar­laga og loks að teknu tilliti til aldurs ákærða, sem er 46 ára, þykir refsing hæfi­lega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Eftir atvikum þykir mega ákveða að fresta fullnustu fimm mánaða refsingarinnar þannig að sá hluti hennar falli niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð, svo sem greinir í dóms­orði. Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 172. gr. laga um með­ferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða Landsbankanum umkrafðar bætur, með vöxtum sam­kvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2006 til 6. júlí 2007, þá er mánuður var liðinn frá því að krafan var honum birt, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags. Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæsta­­réttar­lögmanns og þykir hún hæfilega ákveðin 92.628 krónur að meðtöldum virðis­­­auka­skatti. Guðjón Magnússon fulltrúi lögreglu­stjóra sótti málið af hálfu ákæruvaldsins. Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn. DÓMSORÐ: Ákærði, Sigurður Kristinn Erlingsson, sæti fangelsi átta mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði Landsbankanum 1.943.308 krónur með vöxtum sam­kvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2006 til 6. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðslu­dags. Ákærði greiði 92.628 króna þóknun Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlög­manns.
Mál nr. 599/2008
Kærumál Vistun á stofnun
Fallist var á úrskurð héraðsdóms um að X yrði gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan áfrýjunarfrestur í máli hans væri að líða.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan áfrýjunarfrestur í máli hans er að líða, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 2. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili lýsti yfir kæru við uppkvaðningu úrskurðarins. Litið verður svo á að hann hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 595/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er að líða í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Upplýst er fyrir Hæstarétti að varnaraðili hafi nú sent sóknaraðila yfirlýsingu um áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008, sem um getur í hinum kærða úrskurði. Skýra verður úrskurðarorðin svo að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem hann hafði við birtingu nefnds héraðsdóms til að lýsa yfir áfrýjun hans, þannig að yfirlýsing um áfrýjun áður en sá frestur rann út bindi ekki sjálfkrafa enda á gæsluvarðhald yfir honum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 593/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Með beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í dag, er þess krafist að X, kt. [...], [...], Hafnarfirði, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. nóvember 2008 kl. 16:00.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 570/2008
Kærumál Sjálfræðissvipting Fjárræði
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði og fjárræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. og 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2008, þar sem sóknaraðila var gert að sæta sviptingu fjárræðis og sjálfræðis í 6 mánuði frá 22. september 2008 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að henni verði einungis gert að sæta sjálfræðissviptingu í 6 mánuði. Þá er þess krafist að skipuðum verjanda sóknaraðila verði dæmd þóknun í héraði og fyrir Hæstarétti. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þær krefjast einnig hækkunar á þóknun skipaðs talsmanns þeirra í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um endurskoðun á þóknun talsmanns þeirra í héraði því ekki til álita. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, sem er hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Björgvins Þórðarsonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 120.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 579/2008
Kærumál Farbann
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr., 106. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni, nú þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili 12. mars 2008 fundinn sekur í Héraðsdómi Reykjavíkur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar í 60 daga. Sóknaraðili hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar til sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiþyngingar. Í greinargerð sóknaraðila í héraði nú er ekki að finna annan rökstuðning fyrir kröfu um farbann en að hann hafi áfrýjað til Hæstaréttar og verði málið flutt þar 9. desember næstkomandi. Miðist tímalengd farbannskröfu við að dómur verði fallinn í Hæstarétti áður en farbannið renni út. Í hinum kærða úrskurði er aðeins tekið fram til efnislegs rökstuðnings fyrir farbanni að varnaraðili sé „af erlendu bergi brotinn“ og þyki „því rétt að heimila að för hans frá landinu sé heft þar til fullnaðardómur er genginn í máli hans.“ Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er látið við það sitja að krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans. Farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 verður ekki beitt með vísan til þess eins að sakborningur sé af erlendu bergi brotinn. Með þarf að fylgja rökstuðningur sem varðar sérstaklega hagi þess sakbornings sem krafa beinist að. Í kröfu sóknaraðila í héraði er ekki að finna slíkan rökstuðning en látið við það sitja að skírskota til b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hæstiréttur hefur í dómi sínum 5. febrúar 2008, í málinu nr. 63/2008, fallist á að ekki verði séð að varnaraðili hafi mikil tengsl við landið. Af þeim sökum mætti ætla að hann myndi reyna að komast úr landi. Þrátt fyrir annmarka á rökstuðningi í hinum kærða úrskurði þykir með framangreindum hætti nægilega fram komið að skilyrði farbanns séu fyrir hendi og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ríkissaksóknari hefur krafist þess, með vísan til 110. gr., sbr. 106. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X verði bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 17.00. Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram, að með dómi Héraðsdóms Reykja­víkur í máli nr. S-128/2008 hafi X verið dæmdur í 60 daga skil­orðs­bundið fangelsi fyrir líkamsárás, sbr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sýknaður af brotum gegn valdsstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. s.l. Ríkissaksóknari hafi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar Íslands og verði málið flutt fyrir dóminum 9. desember nk. Dómfelldi hafi sætt farbanni frá 18. janúar s.l., nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-323/2008 sem upp hafi verið kveðinn 20. júní s.l. Í úrskurðarorði segi að X sé bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur falli í máli hans í Hæstarétti Íslands en þó eigi lengur en til föstudagsins 24. október kl. 17.00. Tímalengd farbannskröfunnar nú miðist við að dómur verði fallinn í Hæstarétti áður en farbannið renni út. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í framangreindu máli var dómfelldi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga en sýknaður af broti gegn vald­stjórn­inni og dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar Íslands og verður málið flutt þar 9. desember nk. Dómfelldi er af erlendu bergi brotinn og þykir því rétt að heimila að för hans frá landinu sé heft þar til fullnaðardómur er genginn í máli hans. Með vísan til þessa og samkvæmt heimild í 110. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 verður fallist á kröfu ríkissaksóknara um að dómfelldi sæti áfram farbanni. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. úrskurðarorð Dómfellda, X er bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 17.00.
Mál nr. 216/2008
Akstur sviptur ökurétti Reynslulausn Skilorðsrof
Æ var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Með broti sínu rauf hann skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt á 105 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar og var honum því gerð refsing í einu lagi. Refsing Æ var ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms. Ákærði krefst aðallega að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð en til vara að refsiákvörðun héraðsdóms verði staðfest. Ákærða er gefið að sök að hafa ekið bifreið 1. september 2007, sviptur ökurétti. Farið var með málið í héraði samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sakarferill ákærða er nokkur. Hann hefur meðal annars oft hlotið refsingu vegna aksturs sviptur ökurétti. Fyrst hlaut hann refsingu fyrir slíkt brot með dómi í nóvember 2004, þá með dómi í janúar 2005 og var sú refsing hegningarauki við fyrrnefnda dóminn. Í október 2005 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun vegna sams konar brots og var enn á ný dæmdur fyrir sömu sakir í lok desember það ár. Í september 2006 gekkst hann svo undir lögreglustjórasátt og í sama mánuði hlaut hann að auki tvisvar sinnum dóm fyrir slík brot en þessi þrjú brot voru framin í febrúar og júní það ár og hefði því mátt dæma um þau í einu lagi. Fallist er á með héraðsdómi að ákærði hafi með broti sínu nú rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 17. apríl 2007 á 105 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hafði hlotið meðal annars vegna aksturs sviptur ökurétti. Ber því að ákveða refsingu í einu lagi með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi sex mánuði. Eftir þessum úrslitum skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Ægir Björn Ólafsson, sæti fangelsi í sex mánuði. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 3. desember 2007 á hendur Ægi Birni Ólafssyni, kt. 170785-2159, Laugateig 30, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni SU-894, að kvöldi laugardagsins 1. september 2007, sviptur ökuréttindum, vestur Miklubraut í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Fellsmúla í Reykjavík. Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur ítrekað verið fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti eftir 18 ára aldur. Þá hefur hann með broti sínu rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 17. apríl 2007, skilorðsbundið í 1 ár, á 105 daga eftirstöðvum refsingar. Ber að dæma upp reynslulausnina og gera honum refsingu í einu lagi. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði. Engan kostnað leiddi af málinu. Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð : Ákærði, Ægir Björn Ólafsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Mál nr. 576/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október 2008 klukkan 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili lýsti yfir kæru við uppkvaðningu úrskurðarins. Litið verður svo á að hann hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann yrði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Gæsluvarðhaldskrafa sóknaraðila er studd við a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt þessari lagaheimild verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Grunur á hendur varnaraðila styðst samkvæmt gögnum málsins eingöngu við óformlegar skýrslur um samtöl við stjúpdóttur hans, sem er sögð bera á hann þær alvarlegu sakir sem í úrskurði héraðsdóms greinir. Engar skýrslur hafa verið teknar fyrir dómi eða hjá lögreglu af öðrum en varnaraðila um þær. Er við svo búið ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að fram sé kominn grunur sem talist getur rökstuddur með þeim hætti sem felst í nefndri lagaheimild. Er því óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Mál nr. 571/2008
Kærumál Farbann
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Björk Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni, þó ekki lengur en til mánudagsins10. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Tilgangur farbannsins er að tryggja nærveru varnaraðila meðan tekin er afstaða til beiðni pólskra dómsmálayfirvalda 11. september 2008 um að hann verði framseldur. Með vísan til þessa og forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 10. nóvem­ber nk. kl. 16.00. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með bréfi ríkissaksóknara, dags. 8. október 2008, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist beiðni pólskra dóms­mála­yfirvalda um handtöku og framsal varnaraðila vegna gruns um refsiverð brot í Póllandi. Samkvæmt beiðninni sé varnaraðili grunaður um eftirfarandi brot: 1. Á tímabilinu maí til nóvember 2006 að hafa tekið þátt í skipulagðri glæpa­starfsemi ásamt öðrum mönnum sem hafði þann megintilgang að dreifa verulegu magni fíkniefna. Teljist sú háttsemi varða við 1. mgr. 258. gr. pólskra hegningarlaga. 2. Á tímabilinu október til nóvember 2006, er hann hafi starfað í framangreindri skipulagðri glæpastarfsemi m.a. selt A a.m.k. 200 g af amfetamíni. Teljist sú háttsemi varða við 56. gr. 3. hluta, pólsku fíkniefnalöggjafarinnar, sbr. 1. mgr. 65. gr. pólskra hegningarlaga. Í dag hafi varnaraðili verið færður til skýrslutöku hjá lögreglu þar sem honum hafi verið kynnt framsalsbeiðnin. Hann kvaðst ekki geta fallist á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal. Málið verði nú sent ríkissaksóknara sem muni veita dómsmálaráðuneytinu umsögn um hvort uppfyllt séu skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Til að tryggja nærveru varnaraðila meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum sé nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni með skírskotun til 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, b. liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála. Varnaraðili hefur mótmælt farbannskröfunni og telur ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til greina. Krafa þessi um farbann er sett fram svo unnt verði að taka afstöðu til beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila til Póllands vegna ætlaðra brota þar í landi. Með vísan til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu er fallist á með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, að uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110 gr. laga nr. 19/1991. Verður því fallist á beiðni lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðar­orði. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Varnaraðila, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 10. nóvem­ber nk. kl. 16.00.
Mál nr. 573/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 568/2008
Kærumál Gæsluvarðhald Útlendingur
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Telja verður að gögn máls bendi nægilega til þess að varnaraðili hafi gefið misvísandi upplýsingar um vegabréf í sinni eigu og er með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna staðfestur hinn kærði úrskurður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 15. október sl., er þess krafist að X fd. 9. febrúar 1989, frá Kosovo-Albaníu, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16:00. Í greinargerð lögreglustjórans segir að kærði kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu, Reykjavík þann 9. október sl. og óskaði eftir hælisvist á Íslandi. Hafi hann sagst vera Albani og framvísað skilríki útgefnu af Sameinuðu þjóðunum. Hann hefði sagst hafa komið til Íslands laugardaginn 4. október 2008 og hefði frá þeim tíma er hann kom til landsins verið á skemmtistöðum að skemmta sér og orðið drukkinn. Hann hefði farið heim með stúlku og glatað ferðapappírum sínum, þ.á m. vegabréfinu. Hann hefði verið að vafra um á internetinu og þá tekið eftir Íslandi og viljað leita sér að vinnu hér þar sem hann var atvinnulaus. Hefði hann vonast til að geta spilað fótbolta hér á landi. Kemur fram hjá lögreglu að mál hans hafi hlotið hefðbundna meðferð og kærði verið sendur á Fit-hostel í Reykjanesbæ, dvalarstað hælisleitenda. Hafi lögreglan grun um að það skilríki sem kærði framvísaði við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu kunni að vera af öðrum manni en kærða. Þá kemur fram að útlendingur, sem kveðst heita A, fd. 15.01.1981, hafi komið til landsins þann 10. október sl. og hafi hann haft meðferðis miða á farangri sínum sem bar með sér að hann hefði komið frá Frankfurt með flugi nr. FI-521, kl. 15:40 þann dag. Hafi hann farið óáreittur inn í landið og svo komið á lögreglustöðina í Keflavík sama dag kl. 17:45 og óskað eftir hælisvist á Íslandi. Hefði mál hans fengið venjubundna afgreiðslu hjá lögreglu í hælismálum og hann fluttur á gistiheimilið Fit-hostel í Reykjanesbæ. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að hann hafi ferðast frá Kósóvó til Þessalóniku í Grikklandi og frá Grikklandi til Frankfurt í Þýskalandi og þaðan til Íslands. Hefði hann framvísað skilríkjum, ökuskírteini og nafnskírteini, útgefnum af Sameinuðu þjóðunum en hefði sagst hafa losað sig við vegabréf sitt á leið sinni til landsins. Jafnframt hefði annar útlendingur, sem kveðst heita B, komið frá Kaupmannahöfn með flugi nr. FI-205, 11. október sl. kl. 15:35. Við vegabréfaeftirlit við landganginn hefði B framvísað vegabréfi, útgefnu af Sameinuðu þjóðunum sem stílað var á annan mann. Í fyrstu hefði B haflið því fram að hann væri eigandi vegabréfsins en síðar viðurkennt að hann hefði tekið vegabréfið ófrjálsri hendi frá bróður sínum. Hefði hann í kjölfarið beðið um hæli hér á landi. Við rannsókn lögreglu á ferðaleiðum B hefði komið í ljós að hann hafði einnig, eins og A, ferðast frá Þessalóniku til Brussel, þaðan til Kaupmannahafnar og til Íslands. Hafi ferð B frá Þessalóniku borið upp á sama dag og A ferðaðist þaðan og hafi brottför þeirra verið með aðeins 15 mínútna millibili. Í ljósi þess hefðu vaknað grunsemdir um að þeir B og A tengdust en áður hefði B greint frá því að hann þekkti engan á Íslandi. Þá hefði B neitað að hafa ferðast til Grikklands og með flugi til Brussel og sagt afrifu af þeirri flugleið hafa verið í jakkavasa bróður síns sem hann hefði tekið ófrjálsri hendi. Í ljósi þessara nýju upplýsinga hefðu lögreglumenn farið að Fit-hosteli og hitt fyrir A og óskað eftir því að fá að leita í farangri hans en grunur hefði vaknað um að hann hefði komið undan gögnum áður en hann óskaði eftir hæli á lögreglustöðinni. Hefði A heimilað leitina og hefði verið lagt hald á Sony Ericsson farsíma sem hafði að geyma mikið safn mynda. Við skoðun myndanna megi sjá margar myndir af A og einnig B ásamt fjölda annars fólks. Þá hefði það vakið sérstaka athygli lögreglu að á sumum myndanna var A þungvopnaður. Í síma hans hefðu jafnframt fundist myndbrot sem sýni tvo menn í íslenskri fjöru en annar þeirra sé kærði og hinn hælisleitandi hér á landi frá Kósóvó líkt og þaðan sem A og B segjast vera. Þá hafi lögreglan grun um að ein mynd í síma A sé af X í herdeild Frelsishers Kósóvó. Af þeim myndum sem fundust í síma A telji lögregla rökstuddan grun leika á því að kærði og þeir B og A tengist og kunni allir að tengjast Frelsisher Kosovo, UCK, og gefi lögreglu og Útlendingastofnun vísvitandi rangar upplýsingar um hvaðan þeir koma, hverjir þeir séu, tengsl þeirra á milli og hvaða erindi þeir eiga hingað til lands. Með vísan til greinargerðar greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um Frelsisher Kosovo, UCK, telji lögreglan að kærði ásamt þeim B og A kunni að vera hættulegir og því sé nauðsynlegt að þeir sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál þeirra eru á frumstigi rannsóknar. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferða kærðu til landsins, tilgang dvalar þeirra hér á landi og tengsl kærðu innbyrðis og við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis, þar með talið aðra hælisleitendur frá sama svæði. Telji lögreglan að ætluð háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 146. gr. og 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, einkum 29., 53. og 57. gr. þeirra laga. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, rannsóknarhagsmuna, a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16:00. Kærði hefur mótmælt framkominni gæsluvarðhaldskröfu og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að henni verði markaður skemmri tími. Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins er ljóst að kærði hefur gefið lögreglu misvísandi svör um vegabréf í sinni eigu og ekki viljað upplýsa lögreglu að öllu leyti um það hver hann er. Í frumskýrlsu lögreglu er því lýst að kærði hafi sagst hafa glatað vegabréfi sínu eftir komu til landsins en í skýrslu, sem tekin var af honum hjá lögreglu í gær, kvaðst hann aldrei hafa fengið útgefið vegabréf. Þá benda gögn málsins til þess að samskipti hans við ætlaða samlanda hans hafi verið að einhverju leyti önnur en kærði hefur gefið upp. Þegar litið er til framangreinds og rannsóknargagna málsins er ljóst að rannsókn lögreglu á máli kærða er ekki lokið en hann er undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar um það hver hann er. Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. lög nr. 86/2008, eru því fyrir hendi skilyrði til gæsluvarðhalds yfir kærða. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16:00.
Mál nr. 567/2008
Kærumál Gæsluvarðhald Útlendingur
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. október 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 546/2008
Kærumál Innsetningargerð
B og M seldu Ís ferðaþjónustu ehf. alla hluti í D ehf. með kaupsamningi 2. júní 2006. Í ágúst 2007 höfðuðu B og M mál á hendur D ehf. til greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt fyrrnefndum kaupsamningi. Í máli þessu krefst D ehf. að nánar tilgreind gögn verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum B og M. Telur D ehf. umbeðin gögn tvímælalaust vera sína eign. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að D ehf. styðji kröfu sína um beina aðfararheimild við 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Eins og málatilbúnaði D ehf. var háttað lá ekki fyrir nein óyggjandi sönnun þess að D ehf. ætti skýlausan rétt til umkrafinna gagna og eigna en verulega skorti á að hið umkrafða væri nægjanlega tilgreint. Töldust skilyrði 78. gr. aðfararlaga því ekki uppfyllt og var kröfu D ehf. hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2008, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 17. sama mánaðar, en með úrskurðinum var hafnað kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð nánar tiltekin gögn tekin úr vörslum varnaraðila og þau fengin honum. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að sér verði veitt heimild til framangreindrar aðfarargerðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Dagverðarnes ehf., greiði varnaraðilum, Bjarna Ásgeiri Jónssyni og Margréti Atladóttur, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 572/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 555/2008
Kærumál Niðurfelling máls Gjafsókn
Mál M gegn K var fellt niður fyrir Hæstarétti að ósk M. Var málskostnaður felldur niður en ákveðið að gjafsóknarskostnaður K skyldi greiðast úr ríkissjóði.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 2008, þar sem varnaraðila var heimilað að fá son aðila, A, tekinn úr umsjá sóknaraðila og afhentan sér með aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Upphaflega krafðist sóknaraðili þess að hinum kærða úrskurði yrði hrundið og honum falin forsjá drengsins. Með bréfi til Hæstaréttar 21. október 2008 afturkallaði hann kæru sína. Af hálfu varnaraðila er gerð krafa um kærumálskostnað úr hendi sóknaraðila án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. Samkvæmt framansögðu verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti. Þegar litið er til atvika málsins þykir rétt að aðilarnir beri hvor sinn kærumálskostnað. Um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Mál þetta er fellt niður. Kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Mál nr. 560/2008
Kærumál Fjárnám Meðlag Fyrning
Staðfest var fjárnámsgerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá A til tryggingar skuld vegna meðlagsgreiðslna. Var í málinu deilt um hvort tilteknar meðlagsskuldir A fyrndust á fjórum eða tíu árum. Fallist var á með héraðsdómi að með lögum nr. 62/2000, um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, hafi fyrningarfrestur slíkra krafna verið lengdur, úr fjórum árum í tíu, á þeim kröfum sem ófyrndar voru við gildistöku laganna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2008, þar sem staðfest var fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór hjá sóknaraðila 4. febrúar 2008, með þeirri breytingu að hún náði til skuldar að fjárhæð 1.038.692 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður. Krafa varnaraðila er fyrir tímabilið 31. desember 1985 til 14. nóvember 2007. Ekki er reikningslegur ágreiningur á milli aðila um fjárhæð kröfu. Lög nr. 62/2000 um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, tóku gildi 26. maí 2000. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, Innheimtustofnun sveitarfélaga, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 557/2008
Kærumál Nauðungarvistun Aðild Ómerking úrskurðar héraðsdóms
Með úrskurði héraðsdóms var hafnað beiðni A um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi. Hæstiréttur ómerkti þann úrskurð þar sem réttum varnaraðila, dóttir A, sem beiðst hafði nauðungarvistunarinnar, hafði ekki verið gefinn kostur á að láta málið til sín taka.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. október 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 3. október 2008 um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem varnaraðili, dóttir hennar, leitaði eftir 2. sama mánaðar. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði. Sá, sem leitar eftir því að maður verði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi með stoð í ákvæðum III. kafla lögræðislaga, telst málsaðili þegar hlutaðeigandi maður neytir réttar síns samkvæmt 30. gr. laganna til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar 5. maí 1998 í máli nr. 175/1998, 18. janúar 1999 í máli nr. 21/1999 og 5. mars 2001 í máli nr. 76/2001. Héraðsdómari gaf aldrei varnaraðila, sem leitaði eftir nauðungarvistun sóknaraðila, kost á að láta málið til sín taka. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar á ný. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Kærumálskostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar meðal talin þóknun skipaðs talsmanns hennar, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Mál nr. 541/2008
Kærumál Frávísunarúrskurður staðfestur
Hæstiréttur staðfesti frávísun héraðsdóms í máli T ehf. gegn J ehf. þar sem krafist var slita á hinu síðarnefnda félagi. Í dómi héraðsdóms kemur fram að við upphaf aðalmeðferðar hefði verið lögð fram bókun af hálfu T ehf. um breyttar málsástæður og því lýst yfir að fallið hefði verið alfarið frá þeim málsástæðum sem fram kæmu í stefnu málsins. Var sérstaklega tekið fram að T ehf. hefði tekið áhættuna af því að þessar breyttu málsástæður kæmust að í málinu. Héraðsdómur taldi að hinar nýju málsástæður T ehf. hefðu verið of seint fram komnar og gegn mótmælum J ehf. kæmust þær ekki að í málinu. Þar sem T ehf. hefði fallið frá öllum málsástæðum, sem settar voru fram í stefnu, þótti ekki unnt að greina þær málsástæður sem T ehf. byggði málsókn sína á. Þótti málatilbúnaður T ehf. ekki í samræmi við ákvæði réttarfarslaga um skýran og glöggan málatilbúnað og í beinni andstöðu við d. lið 1. mgr. 80. gr. l. nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar kröfu hans um að varnaraðila verði slitið. Verði niðurstaða héraðsdóms staðfest krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og að kæru­máls­kostnaður verði felldur niður. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 561/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að honum verði gert að sæta farbanni en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðilli hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 7. október 2008. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 21. október 2008, kl. 16.00. Í greinargerð lögreglustjóra segir að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki ætlaðan innflutning á miklu magni fíkniefna til Íslands. Við reglubundið eftirlit hjá tollgæslunni í Póstmiðstöðinni Stórhöfða í Reykjavík hafi fundist um hálft kg af amfetamíni og 1 kg af marihuana falið í niðursuðudósum sem hafi verið í póstsendingu frá Póllandi. Skráður móttakandi sendingarinnar hafi verið Y, [...],[...] Kópavogi, en foreldrar Y séu eigendur ofangreindrar íbúðar. Lögreglan hafi afhent pakkann 6. október sl. undir eftirliti þegar búið var að koma fyrir í honum gerviefnum. Þegar lögregla hafi afhent pakkann hafi kærði verið á vettvangi fyrir utan [...]. Strax eftir að Arnþór hafi veitt pakkanum viðtöku með undirskrift sinni hafi ætlaður vitorðsmaður kærða tekið við pakkanum og farið í bifreiðina [...], ásamt kærða, sem ekið hafi verið á brott með pakkann. Lögregla hafi veitt bifreiðinni eftirför um Álfatún í Kópavogi uns þeir, sem verið hafi í bifreiðinni, hafi orðið varir við lögreglu og þeir þá stöðvað bifreiðina. Hafi tveir af þeim fjórum mönnum, sem voru í bifreiðinni, reynt að komast undan á hlaupum. Einum þeirra hafi tekist það en hinir þrír hafi verið handteknir. Kærði hafi verið handtekinn í bifreiðinni [...] 6. október sl. Lögregla kveður gögn staðfesta að kærði hafi áður fengið pakka sendan til landsins á heimilisfangið [...], sem sé dvalarstaður kærða, og þá stílað pakkann á sitt eigið nafn og veitt honum viðtöku. Hafi kærði greint svo frá að hann hafi fengið 50.000 krónur greiddar fyrir að móttaka sendinguna og að hann hafi í kjölfarið skilað henni til eiganda hennar. Þá hafi hann skýrt svo frá hjá lögreglu að hann hafi verið beðinn um að nálgast pakka þann, sem lögregla haldlagði í þágu rannsóknar þessa máls, og hafi hann átt að fá greiddar 20.000 krónur fyrir verkið. Kærði hefur sagt mann að nafni Z, sem hafi ekið bifreiðinni [...], hafa beðið sig um að vinna verkið. Meðkærði í málinu hefur nefnt ökumanninn öðru nafni. Lögregla kveður rannsókn sína miða að því að upplýsa hver eða hverjir eigi þau fíkniefni sem haldlögð hafa verið, hverjir hafi staðið að innflutningnum, fjármögnun hans og skipulagningu. Hafi við rannsóknina meðal annars verið farið yfir fyrri sendingar sem þessir aðilar hafa fengið sendar til landsins og beinist rannsókn lögreglu m.a. að því að athuga hvort hugsanlega séu fleiri sendingar á leiðinni til landsins. Talið sé að kærði tengist innflutningi á greindum fíkniefnum með einhverjum hætti, en kanna þurfi nánar ætlaða aðild hans. Í greinargerð lögreglu segir að rökstuddur grunur sé um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnabroti. Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn sem gangi lausir og/eða geti sett sig í samband við hann og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafa ekki verið haldlögð. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Sterkur grunur leiki á því að fleiri en þeir, sem handteknir hafi verið, tengist innflutningi á þessum efnum sem haldlögð hafi verið og þyki það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Sé þá verið að vísa til þess aðila, sem hafi verið með þeim handteknu í bifreiðinni [...] skömmu áður en þeir voru handteknir en komist undan á hlaupum og ekki fundist enn. Þá þyki gæsluvarðhald einnig nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að kærði eða hinir handteknu nálgist aðrar sendingar sem gætu verið á leiðinni til landsins, en rannsókn á því standi yfir. Lögregla bendir á að kærði sé erlendur ríkisborgari og hann hafi sagst ekki vera í fastri vinnu hér á landi sem stendur. Sé mikil hætta á því að kærði fari úr landi gangi hann laus. Lögregla kveður rannsókn málsins umfangsmikila og á frumstigi. Frekari gagnaöflun þurfi að fara fram varðandi aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Mikilvægt sé að lögregla geti nálgast þær upplýsingar á meðan kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna auk þess sem tryggt verði að kærði yfirgefi ekki landið á meðan málið er til rannsóknar. Til rannsóknar sé ætlað brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögregla til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með vísan til alls framangreinds og rannsóknargagna málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á talsverðu magni af fíkniefnum til landsins. Brot þetta getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er umfangsmikil og er úrvinnsla gagna enn á frumstigi. Af gögnum málsins má auk þess ráða að enn eigi eftir að hafa hendur í hári ætlaðra vitorðsmanna kærða. Verður að telja hættu á því að kærði kunni að torvelda rannsóknina fari hann frjáls ferða sinna. Þykja skilyrði a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 því enn vera fyrir hendi til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Að því virtu er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Ú r s k u r ð a r o r ð: Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. október 2008, kl. 16:00.
Mál nr. 554/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. október 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæslu­varðhaldi allt til fimmtudagsins 16. október 2008 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðilli hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 30. september 2008. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 534/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. október 2008 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hinn kærði úrskurður er byggður á því að varnaraðili sé grunaður um að eiga aðild að innflutningi fíkniefna sem komu til Seyðisfjarðar með farþegaskipinu Norrænu 2. september 2008. Munu fíkniefnin hafa fundist í bifreið manns sem lögregla handtók og sætir hann nú rannsókn vegna málsins. Það athugist að í hinum kærða úrskurði er sagt að efnin hafi fundist í bifreið „sem kærði hafi verið með“ og er þar sýnilega átt við manninn sem handtekinn var en ekki varnaraðila. Grunsemdir sóknaraðila um aðild varnaraðila að þessum innflutningi byggist á því að í fórum mannsins sem handtekinn var hafi fundist símanúmer varnaraðila, símanúmer móður hans í Þýskalandi sem og manns sem talinn er búa með henni. Þá hafi fundist á heimili varnaraðila pappírar þar sem nöfn móður hans og sambýlismanns hennar hafi verið að finna. Loks byggist grunur lögreglu á því að maðurinn sem handtekinn var 2. september 2008 hafi borið um að hafa komið til Íslands í apríl 2008 og hafi varnaraðili þá sótt hann til Seyðisfjarðar. Varnaraðili segist aldrei hafa ferðast innanlands á Íslandi út fyrir höfuðborgarsvæðið og segist ekki þekkja handtekna manninn. Segir hann hugsanlegt að þeir hafi hist á skemmtistað fyrr á árinu og skipst á símanúmerum eins og hann telur algengt að samlandar geri við slík tækifæri. Þá kveðst varnaraðili ekki þekkja manninn sem talinn er búa með móður hans og ekki heldur kannast við miðann sem fannst á heimili hans en taldi hugsanlegt að móðir hans hefði skilið hann þar eftir, þegar hún hafi verið í heimsókn hjá honum fyrr á árinu. Sóknaraðili hefur ekki með sakbendingu eða á annan hátt freistað þess að sanna að varnaraðili segi ósatt um kynni sín af manni þeim sem handtekinn var 2. september 2008 og segir að varnaraðili hafi sótt sig til Seyðisfjarðar í apríl 2008. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn lagt fyrir Hæstarétt nýjar vitnaskýrslur um að varnaraðili þekki bæði handtekna manninn og þann mann sem sagður er búa með móður varnaraðila. Með þessum gögnum þykir sóknaraðili hafa leitt líkur að því að varnaraðili segi ósatt um þetta. Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er það skilyrði gæsluvarðhalds að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Af gögnum málsins, og þá einkum nefndum framburðarskýrslum sem lagðar hafa verið fyrir Hæstarétt, verður fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur í skilningi lagaákvæðisins um aðild varnaraðila að innflutningi fíkniefnanna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2008, þriðjudaginn 30. september, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað verði að X, kt. [ ], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 7. október 2008, kl. 16.00. Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 2. september sl. hafi þýski ríkisborgarinn Y verið handtekinn við komu til Íslands, Seyðisfjarðar, með farþegaskipinu Norrænu. Í bifreið sem kærði hafi verið með í Norrænu hafi fundist mikið magn fíkniefna, bæði amfetamín og hass, sbr. nánar í hjálögðum gögnum. Hafi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verið falin rannsókn málsins. Við handtöku hafi fundist í fórum Y, símanúmer sem reynist vera heimasímanúmer X. Einnig hafi fundist í fórum Y símanúmer móður X, sem býr í Þýskalandi og símanúmer Z, sem einnig býr í Þýskalandi og talið sé að búi með móður X. Þá hafi Y borið um að hafa áður komið til Íslands í apríl á þessu ári og hafi X þá sótt hann við komuna til landsins, til Seyðisfjarðar. Við leit á heimili X í gær hafi fundist pappírar þar sem hvoru tveggja sé að finna nöfn Z og móður X. X bar svo um í skýrslutöku hjá lögreglu að hann kannaðist ekkert við Y og kannaðist ekkert við ferð austur á land til að sækja hann í apríl á þessu ári. Þá kvaðst hann ekki kannast við áðurgreindan Z. Samkvæmt upplýsingum lögreglu þá voru Y og áðurgreindur Z saman í fangelsi í Ultsen í Þýskalandi og kynntust þar. Rannsókn lögreglu miðar að, að upplýsa um hver/hverjir eigi þau fíkniefni sem haldlögð hafi verið, hverjir stóðu að innflutningnum, fjármögnun og skipulagningu. Hafi við rannsóknina meðal annars verið leitað atbeina erlendra lögregluyfirvalda. Talið sé að X tengist innflutningi á greindum fíkniefnum með einhverjum hætti, en kanna þarf nánar ætlaða aðild hans. Rökstuddur grunur sé um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnabroti. Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn sem ganga lausir og/eða þeir sett sig í samband við hann og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafi ekki verið haldlagðir. Þykir þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins sé umfangsmikil. Frekari gagnaöflun þarf að fara fram varðandi aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Mikilvægt sé að lögregla geti nálgast þær upplýsingar á meðan kærði sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Til rannsóknar sé ætlað brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu broti gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar, enda skilyrðum a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og áðurnefds a- liðar 1. mgr. 103. gr. um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina. Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 7. október 2008, kl. 16.00.
Mál nr. 490/2008
Kærumál Framhaldssök
Héraðsdómur vísaði frá framhaldssök í máli þar sem þrotabú T hf. hafði áður höfðað mál gegn E ehf. og krafðist riftunar á afsali T hf. á nánar tilgreindum byggingarlóðum og til greiðslu 10.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Fjárhæðina studdi þrotabúið við álit löggilts fasteignasala á verðmæti lóðanna með fyrirvara í stefnu um dómkvaðningu matsmanns ef til andmæla kæmi af hálfu E ehf. Eftir að slík andmæli komu fram fékk þrotabúið dómkvaddan matsmann til að meta verðmæti lóðarinnar og var stefnufjárhæð í framhaldssök studd við matsgerðina. Eins og atvikum málsins var háttað var talið að skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991, til að auka við fyrri kröfu í málinu, hefðu verið fyrir hendi og að ekki bæri að meta þrotabúinu til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur á hendur E ehf., í einu lagi, í upphafi. Þá hefði aukning á fyrri kröfu hvorki verið til þess fallin að raska grundvelli málsins né að auka E ehf. vinnu við vörn sína. Var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. ágúst 2008, þar sem vísað var frá dómi framhaldssök í máli, sem sóknaraðili hafði áður höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Sóknaraðili höfðaði málið upphaflega 13. september 2007 og krafðist þess að rift yrði tveimur gerningum Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. 17. apríl 2006, þar sem félagið afsalaði til varnaraðila byggingarlóðum nr. 8 og 10 við Brekkusíðu á Akureyri með sökkulframkvæmdum þar og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða 10.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Fjárhæðina studdi hann við álit löggilts fasteignasala á verðmæti lóðanna, en í stefnu áskildi hann sér rétt til að leita eftir mati dómkvadds manns um það. Eftir að andmæli komu fram frá varnaraðila um ætlað verðmæti lóðanna fékk sóknaraðili dómkvaddan mann til að meta það og styðst stefnufjárhæð í framhaldssök við mat hans. Þeirri staðhæfingu sóknaraðila hefur ekki verið mótmælt að hann hafi ekki fengið bókhaldsgögn Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. í hendur fyrr en verulega var liðið á málshöfðunarfrest samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einungis hluti bókhaldsgagnanna hafi fengist afhentur. Eins og atvik málsins eru vaxin verður ekki talið að meta beri sóknaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar á hendur varnaraðila í einu lagi í öndverðu eða óskað eftir dómkvaðningu matsmanns þegar við þingfestingu málsins, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991. Þá er aukning á fyrri kröfu hvorki til þess fallin að raska grundvelli málsins né að auka varnaraðila vinnu við vörn sína. Verður krafa sóknaraðila samkvæmt því tekin til greina. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur sóknaraðila, Þrotabús Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., á hendur varnaraðila, Eignarhaldsfélaginu Hara ehf., til efnismeðferðar. Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Mál nr. 489/2008
Kærumál Framhaldssök Sakarauki
Héraðsdómur vísaði sakaraukningu og framhaldssök frá í máli þar sem þrotabú T hf. hafði áður höfðað mál gegn E ehf. og krafðist riftunar á afsali T hf. á nánar tilgreindri byggingarlóð og til greiðslu 7.500.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Fjárhæðina studdi þrotabúið við álit löggilts fasteignasala á verðmæti lóðarinnar með fyrirvara í stefnu um dómkvaðningu matsmanns ef til andmæla kæmi af hálfu E ehf. Eftir að slík andmæli komu fram fékk þrotabúið dómkvaddan matsmann til að meta verðmæti lóðarinnar og var stefnufjárhæð í framhaldssök studd við matsgerðina. Þrotabúið höfðaði einnig sakaraukningu gegn A þar sem í ljós kom við rekstur málsins að umræddri byggingarlóð hafði verið afsalað til A án endurgjalds. Eins og atvikum málsins var háttað var talið að skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 til að auka við fyrri kröfu í málinu, hefðu verið fyrir hendi og að ekki bæri að meta þrotabúinu til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur á hendur E ehf., í einu lagi, í upphafi. Þá hefði aukning á fyrri kröfu hvorki verið til þess fallin að raska grundvelli málsins né að auka E ehf. vinnu við vörn sína. Þá var talið að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um sakaraukningu hefðu jafnframt verið fyrir hendi og að dómkröfur á hendur E ehf. og A ættu rætur að rekja til sömu aðstöðu, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. ágúst 2008, þar sem vísað var frá dómi framhaldssök og sakaraukningu í máli, sem sóknaraðili hafði áður höfðað á hendur varnaraðilanum Eignarhaldsfélaginu Hara ehf. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður úr hendi sóknaraðila. I Sóknaraðili höfðaði málið upphaflega 13. september 2007 gegn varnaraðilanum Eignarhaldsfélaginu Hara ehf. og krafðist þess annars vegar að rift yrði afsali Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. á byggingarlóð nr. 6 við Bakkasíðu á Akureyri með framkvæmdum við sökkul þar og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða 7.500.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Fjárhæðina studdi hann við álit löggilts fasteignasala á verðmæti lóðarinnar, en í stefnu áskildi hann sér rétt til að leita eftir mati dómkvadds manns um það. Eftir að andmæli komu fram frá varnaraðilanum um ætlað verðmæti lóðarinnar fékk sóknaraðili dómkvaddan mann til að meta það og styðst stefnufjárhæð í framhaldssök við mat hans. Þeirri staðhæfingu sóknaraðila hefur ekki verið mótmælt að hann hafi ekki fengið bókhaldsgögn Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. í hendur fyrr en verulega var liðið á málshöfðunarfrest samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einungis hluti bókhaldsgagnanna hafi fengist afhentur. Eins og atvik málsins eru vaxin verður ekki talið að meta beri sóknaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar á hendur nefndum varnaraðila í einu lagi í öndverðu eða óskað eftir dómkvaðningu matsmanns þegar við þingfestingu málsins, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991. Þá er aukning á fyrri kröfu hvorki til þess fallin að raska grundvelli málsins né að auka varnaraðilanum vinnu við vörn sína. Verður krafa sóknaraðila að þessu leyti tekin til greina. II Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. afsalaði áðurnefndri lóð á Akureyri til varnaraðilans Eignarhaldsfélagsins Hara ehf. 12. desember 2005, sem afsalaði henni aftur til varnaraðilans Önnu Maríu Oddsdóttur 28. sama mánaðar. Síðara afsalið var innfært í þinglýsingabók sýslumannsins á Akureyri tveimur dögum síðar. Sóknaraðili styður kröfu sína í málinu við það að í fyrrnefnda afsalinu sé tekið fram að kaupverð fyrir lóðina sé að fullu greitt. Engin staðfesting hafi hins vegar fundist í bókhaldsgögnum sóknaraðila á því að varnaraðilinn Eignarhaldsfélagið Hara ehf. hafi greitt fyrir lóðina og því verið talið að henni ásamt sökkulframkvæmdum hafi í raun verið afsalað án þess að endurgjald kæmi fyrir. Þessi varnaraðili hafi því auðgast við sölu rúmlega hálfum mánuði síðar og að afhending Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. væri riftanleg. Þessi mynd af málavöxtum hafi einnig stuðst við það að í síðara afsalinu sé tekið fram að kaupverð varnaraðilans Önnu sé að fullu greitt. Það hafi ekki verið fyrr en með greinargerð frumstefnda í málinu að í ljós kom að varnaraðilinn Anna hafi ekkert endurgjald innt af hendi fyrir lóðina og yfirlýsing um greiðslu í afsali til hennar því ekki verið rétt. Ekkert tilefni hafi gefist til að höfða málið gegn varnaraðilanum Önnu fyrr en að fengnum þessum upplýsingum. Í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 greinir frá því með hvaða skilyrðum er unnt að stefna nýjum aðila eftir þingfestingu máls til að svara til sakar með þeim, sem þegar hefur verið stefnt. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður sóknaraðila ekki metið til vanrækslu að hafa ekki stefnt varnaraðilanum Önnu þegar í upphafi. Þá eiga dómkröfur á hendur báðum varnaraðilum rætur að rekja til sömu aðstöðu, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Verður fallist á kröfu sóknaraðila sem beint er að varnaraðilanum Önnu. Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Hvor varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Mál nr. 512/2008
Kærumál Verjandi
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að B yrði skipaður verjandi hans. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að í máli þessu reyndi meðal annars á gildi ákvæða 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en samkvæmt gögnum málsins var tekin skýrsla af B í þágu rannsóknar málsins 6. nóvember 2006 og hafði B þá réttarstöðu grunaðs manns. Vísað var í dóm Hæstaréttar í máli nr. 2/2008 þar sem sagði að óheimilt hefði verið að skipa tilgreindan mann sem verjanda ákærða samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 þar sem komið gat til greina að kveðja hann sem vitni í málinu. Með ofangreindum dómi hefði verið slegið föstu þeirri skýringu á 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 að nægjanlegt væri að það kæmi til greina að kveðja verjanda sem vitni. Í ljósi rannsóknar þessa máls hjá lögreglu væri á þessu stigi með engu móti unnt að útiloka að B hæstaréttarlögmaður yrði á síðari stigum kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu. Féllst Hæstiréttur því á að ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 stæði því í vegi að B yrði skipaður verjandi X í málinu. Að því gættu þyrfti ekki að taka afstöðu til þeirrar röksemdar Á að heimild brysti að lögum til að skipa ákærðum manni fleiri en einn verjanda í máli á hendur honum.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2008, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að B hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að skipa B hæstaréttarlögmann verjanda sinn í máli þessu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á með héraðsdómara að ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 standi því í vegi að áðurnefndur hæstaréttarlögmaður verði skipaður verjandi hans í málinu. Að því gættu þarf ekki að taka afstöðu til þeirrar röksemdar sóknaraðila að heimild bresti að lögum til að skipa ákærðum manni fleiri en einn verjanda í máli á hendur honum. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 523/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Sýslumaðurinn á Akureyri krefst þess að kærða, X, kt. [...] með skráð lögheimili að [...], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til 30. september n. k., klukkan 14:30.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september 2008 kl. 13.30. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Fallist verður á með héraðsdómi að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 524/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Sýslumaðurinn á Akureyri krefst þess að kærði, X, kt. [...], með skráð lögheimili að [...], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til 30. september n. k., klukkan 14:30.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september 2008 kl. 13.30. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Fallist verður á með héraðsdómi að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 513/2008
Kærumál Vanhæfi
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að héraðsdómarinn A viki sæti í máli sem Á hafði höfðað á hendur X.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008, þar sem Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari hafnaði kröfu varnaraðila um að hún viki sæti í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að fyrrnefndur héraðsdómari víki sæti í málinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Varnaraðili hefur ekki bent á þau atvik eða aðstæður sem til þess eru fallnar að draga megi óhlutdrægni héraðsdómara í efa með réttu samkvæmt 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur Hvorki eru skilyrði til að dæma varnaraðila kærumálskostnað, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, né málskostnað í héraði, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Mál þetta er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru útgefinni 20. maí 2008, á hendur X, kt. [...], [heimilisf.], Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 5. desember 2007 ekið bifreiðinni Þ með 61 km hraða á klst. austur Grænatún í Kópavogi, á vegarkafla við hús númer 20, þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km á klst. Telst þetta varða við 1., sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993“. I. Forsaga kröfugerðar ákærða er sú að dómari málsins kvað upp úrskurð þann 6. júlí 2007 þar sem ákærða var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt var bann við því að hann kæmi á eða í námunda við heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar og vinnustað hennar með nánar tilgreindum hætti. Ákærði kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands en með dómi réttarins 11. júlí sama ár í máli nr. 368/2007 var hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að nálgunarbann á hendur ákærða tæki ekki til vinnustaðar fyrrverandi eiginkonu hans. Í þinghaldi 13. júní sl. lýsti ákærði kröfu sinni um að dómari viki sæti vegna aðkomu dómarans að fyrrgreindu nálgunarbannsmáli á hendur honum. Var málinu frestað til að gefa ákærða kost á að hafa samráð við verjanda sinn en síðan var það tekið fyrir til umfjöllunar um kröfuna þann 9. september sl. Sækjandi mótmælti kröfunni. Þegar verjandi ákærða og sækjandi höfðu fært rök fyrir kröfum sínum að þessu leyti var málið tekið til úrskurðar. II. Við munnlegan málflutning um kröfu ákærða um að dómari víki sæti í málinu vísaði verjandi til þess að vegna eðlis tilvitnaðs nálgunarbannsmáls og þess að svo stutt væri síðan dómarinn kvað upp úrskurð í því máli, væri það til þess fallið að draga mætti hlutleysi dómarans í efa og ylli það því vanhæfi dómarans til að fara með þetta sakamál. Þá hefur ákærði bent á að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í nálgunarbannsmálinu hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við niðurstöðu dómara í þessu máli. Vísaði ákærði til ákvæða 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu sinni. Af hálfu ákæruvaldsins var kröfu ákærða mótmælt með vísan til þess að tilvitnuð lagaákvæði ættu ekki við í máli þessu enda hefði dómarinn ekki tekið afstöðu til efnis málsins í úrskurði sínum í nálgunarbannsmálinu. III. Um vanhæfi dómara í opinberu máli fer samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en eins og áður er rakið hefur ákærði vísað til g-liðar framangreindrar 5. gr. Þegar litið er til þess að úrskurður dómara máls þessa í áðurgreindu nálgunarbannsmáli er dómsúrlausn sem heyrir til almennum embættisverkum hans og þess að ákærði hefur ekki nefnt nein sérstök atvik við meðferð þess sem gefa ástæðu til að efast um hlutleysi dómarans gagnvart málsaðilum, verður ekki fallist á það með ákærða að uppfyllt séu skilyrði g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfu ákærða um að dómari víki sæti vegna vanhæfis því hafnað. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu um að Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari víki sæti í máli þessu.
Mál nr. 127/2008
Kynferðisbrot Börn
X var sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa haft í vörslum sínum rúmlega 24.000 ljósmyndir og 750 hreyfimyndir, sem sýndu börn á ýmsum aldri á kynferðislegan og klámfenginn hátt og voru margar myndanna mjög grófar. Taldist brot hans því stórfellt. Var X gert að sæta fangelsi í tólf mánuði, en fullnustu níu mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. febrúar 2008 af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu. Ákærði krefst aðallega að refsing verði milduð en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Ákærði hefur skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum voru gefin að sök í ákæru. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Þá hefur hann leitað aðstoðar sálfræðings vegna klámfíknar sinnar og kemur fram í vottorði sáfræðingsins að ákærði hafi vilja til að takast á við vanda sinn. Við ákvörðun refsingar verður ákærða á hinn bóginn virt til refsiþyngingar að hann hafði mjög mikið magn af barnaklámi í vörslum sínum og að hluti þess er af allra grófasta tagi og varðar mjög ung börn. Telst brot hans stórfellt í skilningi 4. mgr. 210 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 74/2006. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Þegar virt er eðli brotsins og alvarleiki þess verða ekki talin efni til að skilorðbinda refsinguna nema að hluta. Verður fullnustu níu mánaða af refsingunni frestað og falli sá hluti refsingarinnar niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Helgi Sigurgeir Pétursson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 244.639 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2008. Ár 2007, þriðjudaginn 15. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2038/2007: Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir) gegn Helga Sigurgeiri Péturssyni (Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.), sem tekið var til dóms í sama þinghaldi. Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 17. desember sl. á hendur ákærða, Helga Sigurgeir Péturssyni, kennitala 161262-2509, Eyjabakka 22 Reykjavík, „ fyrir kynferðisbrot: 1. Með því að hafa haft í vörslu sinni, í neðangreindum búnaði sem haldlagður var á heimili á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Myndanna aflaði ákærði sér af netinu og vistaði á neðangreindan búnað. a) Í silfurlitaðri turntölvu af óþekktri gerð 23.937 ljósmyndir og 750 hreyfimyndir. b) Í turntölvu af óþekktri gerð 13 ljósmyndir. c) Í turntölvu af óþekktri gerð 480 ljósmyndir. 2. með því að hafa 6. janúar 2006 aflað sér hreyfimynda og ljósmynda, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfengin hátt, af bandarísku heimasíðunni http://xevucagawoxuy.com. Eftir að hafa greitt fyrir aðgang að síðunni gat ákærði horft á framangreint efni í gegnum netið og hlaðið niður myndefni að vild. 3. Með því að hafa 13. júní 2006 aflað sér hreyfimyndar, sem sýnir stúlkubarn á kynferðislegan eða klámfengin hátt, af heimasíðunni www.youngvideomodels.net. Ákærði pantaði myndina með rafrænum hætti á netinu og greiddi fyrir hana með greiðslukorti en myndin komst ekki í vörslur hans. 4. Með því að hafa 1. og 5. ágúst 2006 reynt að afla sér hreyfimyndar, sem sýnir stúlkubarn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, af heimasíðunni www.youngvideomodels.net. Ákærði pantaði myndina með rafrænum hætti á netinu og greiddi fyrir hana með greiðslukorti en myndin komst ekki í hans vörslu. Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1. – 3. tölulið varða 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt 4. tölulið við 4. mgr. 210. gr hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000, 2. gr. laga nr. 14/2002 og 2. gr. laga nr. 74/2006. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á þremur turntölvum af óþekktri gerð.“ Ákæruvaldið hefur með yfirlýsingu í dómi fallið frá ákæruliðum 2 og 3. Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot og hefur leitað sér sálfræðiaðstoðar til þess að vinna bug á hneigðum sínum. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Dæma ber ákærða til þess að þola upptöku á þremur tölvum, eins og krafist er í ákæru og með heimild í því lagaákvæði sem þar er tilfært.. Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum 180.000 krónur í málsvarnarlaun, að meðtöldum virðisaukaskatti. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn. DÓMSORÐ: Ákærði, Helgi Sigurgeir Pétursson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Framkvæmd refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð. Ákærði sæti upptöku á þremur turntölvum. Ákærði greiði verjanda sínum, Guðrúnu Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanni, 180.000 krónur í málsvarnarlaun.
Mál nr. 502/2008
Kærumál Gæsluvarðhald Útlendingur Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, þar sem ekki þóttu leiddar að því nægjanlegar líkur að X hefði gefið rangar upplýsingar um hver hann væri. Þá þóttu gögn málsins ekki fullnægjandi til að álykta með nægjanlegri vissu að af X stafaði slík hætta að nauðsynlegt væri að grípa til gæsluvarðhalds.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. september 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og til vara að beitt verði vægari úrræðum. Til þrautavara er þess krafist að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að rökstuddur grunur leiki á að varnaraðili hafi gefið rangar upplýsingar um hver hann sé og að hann eigi að hafa sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum geti stafað hætta. Í gögnum málsins er að finna upplýsingar um að varnaraðili hafi gengið undir nafninu X, bæði í Þýskalandi, Svíþjóð og Noregi, en hann kveðst vera frá Vestur-Sahara. Ekki hafa verið leiddar líkur að því að þær upplýsingar séu rangar. Þá eru gögn málsins ekki fullnægjandi til álykta megi með nægilegri vissu að af varnaraðila geti stafað slík hætta að nauðsynlegt sé að grípa til gæsluvarðhalds. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Mál nr. 396/2008
Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
Í hönnunarsamningnum P og H vegna Hótel Borgar 15. maí 2006 var tekið fram að P tæki að sér að endurteikna aðaluppdrætti af gistihæðum hótelsins þegar hæðunum yrði fulllokið gegn ákveðinni þóknun. Þá sagði að annað sem þyrfti að sérhanna í hótelinu greiddi verkkaupi arkitektum í tímavinnu samkvæmt tímaskýrslum. Krafa P byggði á reikningum fyrir verkefni sem voru unnin í tímavinnu samkvæmt síðast nefnda ákvæði samningsins. Í dómi Hæstaréttar sagði að P hefði hvorki lagt fram né gert grein fyrir tímaskýrslum í stefnu þar sem fram kæmi hvaða verk voru unnin, sem krafist væri greiðslu á, og hvernig sá fjöldi tíma sem unnin var skiptist á verkþættina. Skorti þannig verulega á að P hefði gert grein fyrir þeim atvikum sem málsástæður hans byggðust á. Af þeim sökum yrði ekki hjá því komist að fallast á með H að vísa málinu frá héraðsdómi með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Í endurskoðuðum hönnunar­samningi aðila vegna Hótel Borgar 15. maí 2006 er tekið fram að sóknaraðili taki að sér að endurteikna aðaluppdrætti af gistihæðum hótelsins þegar hæðunum verði fulllokið gegn ákveðinni þóknun. Þá segir þar svo: „Annað sem þarf að sérhanna í hótelinu greiðir verkkaupi arkitektum í tímavinnu samkvæmt tímaskýrslum ...“. Af samningnum verður ráðið að þeir verkþættir, sem sóknaraðili tók þannig að sér að vinna, voru þar ekki tæmandi taldir. Krafa sóknaraðila er byggð á reikningum fyrir verkefni sem unnin voru í tímavinnu samkvæmt síðast nefndu ákvæði samningsins. Sóknaraðili hefur hvorki lagt fram né gert grein fyrir tímaskýrslum í stefnu þar sem fram kemur hvaða verk voru unnin, sem krafist er greiðslu á, og hvernig sá fjöldi tíma sem unnin var skiptist á verkþættina. Skortir þannig verulega á að sóknaraðili hafi gert grein fyrir þeim atvikum sem málsástæður hans eru byggðar á. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að fallast á með varnaraðila að vísa málinu frá héraðsdómi með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurðar staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Plúsarkitektar ehf., greiði varnaraðila, Hótel Borg ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 500/2008
Kærumál Fyrirsvar Vitni
S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um hvort sex nafngreindir einstaklingar skyldu gefa munnlega skýrslu fyrir dómi sem vitni eða með stöðu sem aðilar máls. Talið var að þótt skýrslugjafar sætu ýmist í borgarstjórn eða borgarráði og hefðu atkvæðisrétt á þeim vettvangi, við töku ákvörðunar um hagsmuni R, gætu þeir ekki skoðast sem fyrirsvarsmenn R samhliða borgarstjóra. Samkvæmt venju í dómaframkvæmd gegndi borgarstjóri því hlutverki einn vegna stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2008, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um hvort sex nafngreindir menn skyldu gefa munnlega skýrslu fyrir dómi sem vitni eða með stöðu sem aðilar máls. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umræddir sex skýrslugjafar teljist vitni í málinu. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili höfðaði mál þetta, sem sætir flýtimeðferð, gegn varnaraðila með stefnu 30. júní 2008. Í henni kom meðal annars fram að sóknaraðili hefði í hyggju að kveðja fyrir dóm til skýrslugjafar Ólaf F. Magnússon, þáverandi borgarstjóra varnaraðila, og borgarfulltrúana Björk Vilhelmsdóttur, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Júlíus Vífil Ingvarsson, Óskar Bergsson, Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, sem sæti ættu í borgarráði, ásamt tveimur nafngreindum starfsmönnum varnaraðila. Á dómþingi 2. september 2008 kom fram að aðilana greindi á um hvort þessir nafngreindu skýrslugjafar ættu að skoðast sem vitni í málinu eða hefðu stöðu sem aðilar, en þó að frátalinni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem þá hafði tekið við starfi borgarstjóra og óumdeilt var að kæmi fram sem fyrirsvarsmaður varnaraðila. Ágreiningsatriði þetta var tekið til úrskurðar í sama þinghaldi og úr því leyst með hinum kærða úrskurði. Líta verður svo á að héraðsdómara hafi verið rétt að taka þegar í stað afstöðu til þessa ágreinings þótt skýrslugjafarnir hefðu ekki enn komið fyrir dóm, sbr. dóm Hæstaréttar 21. nóvember 1984 í máli nr. 222/1984, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1301. Eins og að framan er getið greinir aðilana ekki á um að núverandi borgarstjóri varnaraðila komi fram í málinu sem fyrirsvarsmaður hans, sbr. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, og gefi ef þörf krefur munnlega skýrslu fyrir dómi eins og aðili væri, sbr. 4. mgr. 48. gr. laganna. Þótt þeir menn, sem sæti eiga í borgarstjórn eða borgarráði, eigi á þeim vettvangi atkvæði við töku ákvörðunar um hagsmuni varnaraðila, geta þeir ekki skoðast sem fyrirsvarsmenn hans samhliða borgarstjóra, sem samkvæmt venju í dómaframkvæmd gegnir því hlutverki einn vegna stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður því að líta svo á að borgarfulltrúar, sem sóknaraðili hyggst leiða fyrir dóm, gefi þar að borgarstjóra frátöldum skýrslu sem vitni. Með því að sóknaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar verður hann ekki dæmdur. Dómsorð: Munnlegar skýrslur, sem Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Ólafur F. Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson gefa í máli sóknaraðila, S10 ehf., á hendur varnaraðila, Reykjavíkurborg, skulu teknar af þeim sem vitni. Kærumálskostnaður fellur niður. Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um réttarstöðu tiltekinna aðila við skýrslugjöf fyrir dómi föstudaginn 5. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af S10 ehf., kt. 510407-0750, Lágmúla 7, Reykjavík, með stefnu, þingfestri 2. júlí 2008, á hendur Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu við Vonarstræti, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði, að samningur stefnanda og stefnda frá 2. apríl 2008 um kaup á byggingarrétti á lóð við Njarðargötu í Reykjavík hafi fullt skuldbindingargildi. Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði, að stefnda Reykjavíkurborg sé bótaskyld gagnvart stefnanda vegna synjunar borgarráðs Reykjavíkur 19. júní 2008 um staðfestingu á samningi aðila um kaup á byggingarrétti á lóð við Njarðargötu í Reykjavík frá 2. apríl 2008. Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar. Dómkröfur stefnda eru þær, að stefndi, Reykjavíkurborg, verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Mál þetta snýst um kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna synjunar í borgarráði á að staðfesta samning stefnanda, S10 ehf. f.h. S8, og Reykjavíkurborgar, dags. 2. apríl 2008, um lóðaúthlutun til handa félaginu við Sturlugötu í Reykjavík, en samkomulagið var gert með fyrirvara um samþykki Framkvæmda- og eignaráðs og borgarráðs. Samkomulagið var samþykkt samhljóða af Framkvæmda- og eignaráði þann 7. apríl og þaðan vísað til borgarráðs. Á fundi borgarráðs þann 30. apríl 2008 var erindið samþykkt með sex atkvæðum gegn einu. Greiddi fulltrúi Samfylkingar atkvæði gegn erindinu. Við þessar aðstæður bar að vísa málinu til borgarstjórnar, vegna ákvæða 39. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, um að byggðarráði sé heimil fullnaðarákvörðun mála, sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins. Á fundi borgarstjórnar hinn 6. maí 2008 var samþykkt, með 15 samhljóða atkvæðum, að fresta málinu. Á fundi borgarstjórnar hinn 20. maí 2008 var málið afgreitt með því, að samþykkt var, með 15 samhljóða atkvæðum, að vísa því til borgarráðs. Á fundi borgarráðs hinn 19. júní 2008, eftir að málið kom á ný til afgreiðslu ráðsins, var lagt til, að borgarráð staðfesti ekki fyrirliggjandi samkomulag. Gerir stefnandi í máli þessu kröfu um, að samningur aðila frá 2. apríl 2008 teljist skuldbindandi, auk þess sem stefnandi krefst til vara viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna synjunar á staðfestingu samningsins. Í þessum þætti málsins deila aðilar um það, hvort borgarráðsmennirnir og borgarfulltrúarnir, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem og borgarfulltrúinn og fyrrverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, hafi stöðu aðila eða vitna við væntanlegar skýrslutökur fyrir dómi. Var málið munnlega flutt um þetta ágreiningsatriði og tekið til úrskurðar. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 fer borgarstjórn með yfirstjórn Reykjavíkurborgar, en borgarstjóri er framkvæmdastjóri borgarinnar. Samkvæmt 39. gr. sömu laga fer borgarráð, ásamt borgarstjóra með framkvæmdastjórn borgarinnar og fjármálastjórn. Ákvörðunarvald er þannig ekki alfarið í höndum borgarstjóra, heldur þarf borgarráð að staðfesta ákvarðanir hans. Verður því að líta svo á, að borgarráðsmenn hafi allir aðilastöðu í máli þessu, og girðir 5. mgr. 17. gr. l. nr. 91/1991, um fyrirsvar sveitarfélaga í dómsmáli, ekki fyrir þá niðurstöðu. Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eiga öll sæti í borgarráði og teljast þannig hafa aðilastöðu í máli þessu. Þá eiga þessir aðilar allir sæti í borgarstjórn, auk Ólafs F. Magnússonar. Borgarstjórn er fjölskipað stjórnavald Reykjavíkurborgar. Af 4. mgr. 17. gr. l. nr. 91/1991 leiðir, að þessir aðilar hafi aðilastöðu, enda þótt sérstaklega sé kveðið á um fyrirsvar sveitarstjórnar í dómsmálum í 5. mgr. sömu grein. Verður samkvæmt framansögðu að fallast á það með stefndu, Reykjavíkurborg, að framangreindir aðilar hafi allir aðilastöðu í máli þessu. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Mál nr. 394/2008
Kærumál Kröfugerð Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness 25. apríl sl. frá skiptastjóra samkvæmt 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Málið var þingfest þann 15. maí sl. og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila að loknum munnlegum málflutningi þann 30. júní sl.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. júlí 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu á hendur varnaraðila um viðurkenningu á endurgjaldskröfu úr hennar hendi á þeim grundvelli að hann hafi greitt afborganir af lánum sem henni hafi borið að greiða samkvæmt kaupmála þeirra. Vísar hann til 1. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til stuðnings þessari kröfu. Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé samræmi í reifun kröfunnar og tilgreiningu á lagagrundvelli hennar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um þessa kröfu sóknaraðila. Þá gerir sóknaraðili einnig kröfu um að 28,9% fasteignarinnar að X í Kópavogi verði talin hjúskapareign við fjárskipti vegna skilnaðar aðilanna. Í greinargerð til Hæstaréttar tekur hann fram að augljóst sé að átt sé við hjúskapareign varnaraðila. Hundraðshlutann í þessari kröfu hefur sóknaraðili reiknað út frá því hve hann telur stærð fasteignarinnar hafa aukist í fermetrum talið þegar byggt hafi verið við hana í kjölfar samþykktar bygginganefndar Kópavogs á árinu 1996. Jafnvel þótt dómstólar féllust á réttmæti tilkalls sóknaraðila til eignarinnar á þessum grundvelli yrði við ákvörðun hundraðshlutans í kröfunni að leggja mat á hver verðmætisaukning hafi orðið á eigninni við þessa viðbyggingu. Sóknaraðili hefur ekki reifað kröfu sína á þann veg að unnt sé að leggja dóm á þetta. Krafan er því vanreifuð og verður hinn kærði úrskurður einnig staðfestur að því er hana varðar. Að þessari niðurstöðu fenginni kemur varakrafa sóknaraðila um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar, sem gerð er á sama grundvelli og aðalkrafan, heldur ekki til álita. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 492/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 491/2008
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september, 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt., [...], [heimilisfang], Akranesi sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. september, kl. 16:00. Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær, 4. september, hafi X verið handtekinn grunaður um aðild að þjófnaði á skartgripum í verslun Franch Michelsen að Laugavegi 15 í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum starfsmanns í afgreiðslu hafi aðili koið inní verslunina og kíkti í einn glerskáp sem í hafi verið ýmsir skartgripir, en hann hafi gengið rakleiðis út, en komið fljótlega aftur og beðið um að sjá armbönd en starfsmaðurinn hafi ekki getað sinnt honum, þar sem hún hafi verið sinna öðrum aðila, kærða, sem sem hafi dregið að sér athygli starfsmannsins. Í myndbandsupptökum, sem liggi fyrir, þekktist kærði X sem aðili í verslunni sem dragi að sér athygli afgreiðslukonunnar. Þegar sá fyrrnefndi, meðkærði, hafi farið út þá hafi verið búið að hreinsa úr einni skúffunni armbönd og fleira. Kærði X hafi upplýst að hafa farið með kærða Y í umrædda verslun á þeim tíma sem þjófnaðurinn var framinn. Samkvæmt myndavélaupptökum sem liggi fyrir í málinu megi sjá hvar Y teygi sig yfir afgreiðsluborð verslunarinnar og taki þaðan skartgripi. Áætlað verðmæti þeirra hluta sem stolið var sé kr. 1.500.000 og séu þeir ófundnir. X hafi í skýrslutöku hjá lögreglu neitað allri aðild að þjófnaðinum og sagst ekki hafa haft vitneskju um brot kærða Y. Gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að unnt verði að vinna að rannsókn málsins án þess að kærði fái tækifæri til að torvelda henni, s.s. með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og eða aðra samseka eða spilla sönnunargögnum. Rannsókn lögreglu sé á frumstigi og þurfi lögreglan ráðrúm til að vinna að rannsókn málsins og að mati lögreglu séu mjög miklir hagsmundir af því að orðið verði við kröfum hennar. X sé grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Með vísan til framnaritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram. Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 244 gr. laga nr. 19/1940 og sem varðar fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi og er, með vísan til framanritaðs og gagna málsins sbr. a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eins og nánar kemur fram í úrskurðarorði. Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. X, kt., [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. september nk., kl. 16:00.
Mál nr. 384/2008
Kærumál Gjaldþrotaskipti
HK ehf. krafðist þess að bú M ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var krafa HK ehf. reist á árangurslausu fjárnámi sem gert var að kröfu HK ehf. hjá M ehf. samkvæmt skuldabréfi sem hafði verið gjaldfellt. Ekki var talið að M ehf. hefði tekist að sýna fram á að gerðin hefði gefið ranga mynd af fjárhag hans, né að hann væri fær um að standa skil á skuldbindingum sínum, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Var úrskurður héraðsdóms um að bú M ehf. væri tekið til gjaldþrotaskipta staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2008, þar sem kveðið var á um að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst hann „málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati Hæstaréttar.“ Litið verður svo á að í kröfunni felist krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili krefst staðfestingar héraðsdóms og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila og umboðsmanns hans. Kemur fram í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti að þar sé átt við Sigurð Magnússon, framkvæmdarstjóra sóknaraðila, sem hefur flutt mál hans sjálfur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Ekki verður fallist á með varnaraðila að efni séu til að dæma fyrirsvarsmann sóknaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Margfeldi ehf., greiði varnaraðila, HK sandblæstri ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 356/2008
Kærumál Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
F kærði úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu hans um að honum yrði heimilað að leiða tilgreint vitni í máli G gegn F. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að aðalmeðferð var hafin í máli aðila. Samkvæmt 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, nýtur synjun á kröfu um að leiða vitni fyrir dóm eftir að aðalmeðferð er hafin ekki kæruheimildar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að leiða Valgeir Kristinsson sem vitni í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum heimilað að leiða vitnið fyrir dóm. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að aðalmeðferð var hafin í máli aðila. Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför fer um meðferð kæru í máli um aðfararbeiðni eftir sömu reglum og gilda um kæru í almennu einkamáli. Í 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldir þeir úrskurðir héraðsdóms sem kæra má til Hæstaréttar eftir að aðalmeðferð máls er hafin. Úrskurður um synjun á kröfu um að leiða vitni fyrir dóm er ekki meðal þeirra. Samkvæmt þessu nýtur ekki kæruheimildar í málinu og verður því vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili, Fasteigna- og fyrirtækjasalan ehf., greiði varnaraðila, Geislum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað. Í máli þessu krefst sóknaraðili, Geislar ehf., kt. 670286-1859, Smyrlahrauni 20, Hafnarfirði, þess að varnaraðili, Fasteigna- og fyrirtækjasalan ehf., kt. 421106-0370, Síðumúla 35, Reykjavík, verði ásamt öllu sem honum tilheyrir borinn út úr skrifstofuhúsnæði að Síðumúla 35, Reykjavík, eignarhluta merktur 01-0201 með fastanr. 201-5604 og sóknaraðila úrskurðuð umráð húsnæðisins. Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila um útburð verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að Valgeir Kristinsson gefi skýrslu fyrir dóminum sem vitni. Lögmaður sóknaraðila mótmælir kröfunni. Krafan var tekin til úr­skurðar 5. júní 2008. Í málavaxtalýsingu sóknaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili hafi með munn­legum leigusamningi gerðum í september 2006 tekið á leigu umrætt skrifstofuhúsnæði sem sé í eigu sóknaraðila. Upphaf leigutímans hafi verið 1. september 2006. Leigu­samn­ingnum hafi verið sagt upp þann 30. september 2007 og hafi uppsögnin verið mót­tekin af hálfu varnaraðila sama dag. Þetta teljist fullnægjandi uppsögn samkvæmt 3. mgr. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Varnaraðili hafi átt að vera búinn að rýma húsnæðið 1. apríl 2008. Það hafi hann ekki enn gert. Því beri sóknaraðila nauðsyn að fá úrskurð um að varnaraðili skuli borinn út úr húsnæðinu. Í greinargerð varnaraðila kemur fram að krafa sóknaraðila sé byggð á skriflegri upp­sögn sem varamanni í stjórn varnaraðila, Valgeiri Kristinssyni, hafi verið afhent á heimili hans um kl. 23:00 þann 30. september 2007. Valgeir hafi upplýst for­svars­mann sóknaraðila, Leif Sörensen, sem kom með uppsögnina, um að hann hefði ekki um­boð til að taka við henni fyrir hönd varnaraðila þó að hann tæki engu að síður við henni að ósk Leifs. Strax og stjórnarmönnum varnaraðila hafi verið kunnugt um upp­sögn­ina hafi forsvarsmanni sóknaraðila verið gert ljóst að ekki væri litið á uppsögnina sem lögformlega rétta. Engu að síður hafi sóknaraðili ekkert gert til að endurnýja upp­sögnina og töldu forsvarsmenn varnaraðila því að málið væri niður fallið. Sérstaklega þar sem deilur séu með aðilum um eignarhald að umræddu húsnæði. Byggir varnaraðili á því að móttakandi uppsagnar sé varamaður í stjórn varn­ar­aðila og geti ekki skuldbundið félagið nema sem þátttakandi í stjórn í stað aðalmanns. Varnaraðili byggir kröfu sína um að vitnið, Valgeir Kristinsson, gefi skýrslu á því að hann geti borið um hina umdeildu birtingu, m.a. þá fyrirvara sem hann hafi haft uppi um að hann hefði ekki umboð til að taka við henni. Sóknaraðili byggir kröfu sína á að vitnaskýrslur sé ekki heimilar í málum um aðför sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 78. gr. sömu laga, koma fram veiga­miklar takmarkanir á heimild til öflunar sönnunargagna við meðferð máls um að­farar­beiðni, en þar er kveðið á um að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skuli að jafnaði ekki fara fram. Í greinargerð segir að regla þessi eigi stoð í því viðhorfi að ætlast sé til að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar að þær þarfnist ekki stuðnings slíkra gagna. Ef brestur sé á því, beri að jafnaði að hafna um aðför, sbr. 3. mgr. 83. gr. Ástæður þær er varnaraðili færir fram fyrir kröfu sinni þykja ekki geta réttlætt að vikið verði frá þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, um bann við vitnaleiðslum. Verður kröfu hans þar að lútandi því hafnað. Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu varnaraðila, Fasteigna- og fyrirtækjasölunnar ehf., um að honum verði heimilað að leiða Valgeir Kristinsson sem vitni í máli þessu.
Mál nr. 370/2008
Kærumál Málskostnaður
V, E, S og H höfðuðu mál fyrir héraðsdómi og kröfðust þess að K ehf., F ehf. og K yrðu dæmd til að greiða þeim 25.000.000 krónur vegna vangoldinnar kaupsamningsgreiðslu. Við meðferð málsins í héraði óskuðu V, E, S og H eftir því að málið yrði fellt niður og í kjölfarið af því úrskurðaði héraðsdómari að málskostnaður skyldi falla niður milli V, E, S, H og K ehf. en að hinir fyrrnefndu skyldu greiða F ehf. og K 200.000 krónur í málskostnað. Kröfðust F ehf. og K nú hærri málskostnaðar í héraði. Með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, svo og þess að málið var fellt niður áður en það kom til munnlegs málflutnings og dóms, var talið að málskostnaður til F ehf. og K væri hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar með kæru sem stimpluð er um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. júlí 2008 og barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2008, þar sem þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum, sem fellt var að öðru leyti niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilarnir Fjárfestingarfélagið Orka ehf. og Kristján Sigurður Sveinsson krefjast þess aðallega að varnaraðilum verði gert að greiða þeim hvorum um sig 1.156.436 krónur í málskostnað, til vara lægri fjárhæð og að því fjárgengnu 682.555 krónur hvorum. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Sóknaraðilinn Klausturhólar ehf. krefst aðeins staðfestingar á ákvæði hins kærða úrskurðar um að fella niður málskostnað milli hans og varnaraðila. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til 3. mgr. 151. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 er sóknaraðila Klausturhólum ehf. heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til staðfestingar að því er málskostnað hans varðar. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði óskuðu varnaraðilar eftir því við fyrirtöku málsins 25. júní 2008 að það yrði fellt niður. Sóknaraðilarnir Fjárfestingafélagið Orka ehf. og Kristján Sigurður Sveinsson kröfðust þá málskostnaðar sér til handa og var um fjárhæð kostnaðarins vísað til málskostnaðarreiknings sem lagður var fram. Þar er málskostnaðurinn reiknaður af stefnufjárhæð, og hefur hann að geyma þær fjárhæðir sem aðalkrafa þessara sóknaraðila greinir. Með vísan til 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 bar héraðsdómara að verða við kröfu þessara aðila svo sem hann gerði. Um fjárhæð kröfunnar verður með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sem og þess að málið var fellt niður áður en það kom til munnlegs málflutnings og dóms um meginefni þess talið að hæfilegur málskostnaður til hvors framangreindra sóknaraðila nemi 300.000 krónum og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað milli varnaraðila og sóknaraðilans Klausturhóla ehf. verður staðfest. Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðilunum Fjárfestingafélaginu Orku ehf. og Kristjáni Sigurði Sverrissyni kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Varnaraðilar, Viðar Marinósson, Elías Hákonarson, Stefán Antonsson og Hjálmar Kristinsson, greiði óskipt sóknaraðilunum Fjárfestingafélaginu Orku ehf. og Kristjáni Sigurði Sverrissyni 300.000 krónur hvorum í málskostnað. Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti staðfestur. Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðilunum Fjárfestingafélaginu Orku ehf. og Kristjáni Sigurði Sverrissyni 75.000 krónur hvorum í kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2008. Í þinghaldi í dag er af hálfu stefnenda krafist niðurfellingar málsins. Af hálfu stefndu er krafist málskostnaðar en þó þannig að hann falli niður milli stefnenda og stefnda Klausturhóla ehf. Málið var höfðað 6. mars 2008 og krafist greiðslu 25.000.000 króna óskipt úr hendi stefndu auk vaxta og málskostnaðar. Af hálfu stefndu var krafist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnenda. Stefnt er vegna vangoldinnar kaupsamningsgreiðslu vegna kaupsamnings milli stefnda Klausturhóla ehf. og stefnenda. Til tryggingar greiðslu var gefinn út tryggingarvíxill, samþykktur af stefnda Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. og útgefinn af stefnda Kristjáni Sigurði Sverrissyni. Til lausnar málsins var gert samkomulag 28. apríl 2008 milli stefnda Klausturhóla ehf. og stefnenda málsins. Eftir úthlutun málsins til dómara hefur það nú verið þrívegis tekið fyrir á dómþingi. Samkvæmt c-lið 1.mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 ber að fallast á kröfu stefnenda um niðurfellingu málsins. Á grundvelli 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar verður fallist á málskostnaðarkröfu stefndu. Ákveðið er að málskostnaður falli niður milli stefnda Klausturhóla ehf. og stefnenda en að stefnendur greiði óskipt stefndu, Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. og Kristjáni S. Sverrissyni, málskostnað sem eftir umfangi málsins er ákveðinn 200.000 krónur. Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari. Mál þetta er fellt niður. Málskostnaður fellur niður milli stefnenda og stefnda, Klausturhóla ehf. Stefnendur, Viðar Marínósson, Elías Hákonarson, Stefán Antonsson og Hjálmar Kristinsson, greiði óskipt stefndu, Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. og Kristjáni S. Sverrissyni, 200.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 357/2008
Rökstuðningur Kærumál
Í kærði úrskurð héraðsdómara þar sem tekin var til greina krafa B og M um frestun aðalmeðferðar um óákveðinn tíma eða þar til fyrir lægi úrlausn kröfu þeirra um að bú Í yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki var talið að rökstuðningur í forsendum héraðsdómsins fullnægði þeirri kröfu sem felst í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2008, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um frestun aðalmeðferðar í óákveðinn tíma eða þar til fyrir lægi úrlausn um kröfu þeirra um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að fresta málinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar. Krafa sóknaraðila um málskostnað í héraði var ekki gerð í héraði við meðferð á þeim ágreiningi sem leyst er úr í hinum kærða úrskurði. Kemur hún því ekki til efnislegrar meðferðar fyrir Hæstarétti. Í forsendum hins kærða úrskurðar er niðurstaða hans einungis rökstudd með eftirfarandi orðum: „Telja verður að niðurstaða dómsmáls um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda skipti máli um framhald máls þess sem hér er beiðst frestunar á.“ Hvorki er gerð fyrir því hvers vegna slík niðurstaða skipti máli né lagagrundvelli þess að fresta málinu á þessari forsendu. Þessi rökstuðningur fullnægir ekki þeirri kröfu sem telja verður að felist í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fella niður kærumálskostnað. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný. Kærumálskostnaður fellur niður.